Ávarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðindaráðherra á ráðstefnu um náttúruvá á Suðurlandi
Það er ánægjulegt að fá að koma til ykkar hingað og segja nokkur orð í lokin á þessari metnaðarfullu og mikilvægu ráðstefnu. Ég vil þakka skipuleggjendum hjartanlega fyrir frumkvæðið.
Ísland býr eins og við öllum vitum við margs konar náttúruvá. Ein markvissasta mótvægisaðgerðin sem við höfum til að lágmarka og jafnvel koma í veg fyrir tjón af völdum náttúruvár er skynsamlegt skipulag. Því spila sveitarfélög hér lykilhlutverk. Það sama á við um loftslagsbreytingar, þar skiptir skipulag mjög miklu máli hvort heldur sem er sem mótvægisaðgerð eða aðlögun samfélagsins að loftslagsmálum. Með góðu skipulagi má draga verulega úr tjónnæmi samfélagsins og þar með auka viðnámsþrótt þess.
Stuttu eftir að ég kom í umhverfis- og auðlindaráðuneytið fól ég Skipulagsstofnun að hefja vinnu við gerð landsskipulagsstefnu sem fæli í sér viðbætur við Landsskipulagsstefnu 2015-2026. Þetta er raunar ein af 34 aðgerðum í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum. Vinnan er í fullum gangi og markmiðið að móta nánari stefnu m.a. um loftslagsmál í tengslum við framkvæmd skipulagsmála.
Til að átta sig á hugsanlegum afleiðingum af náttúruvá og loftslagsbreytingum er mikilvægt að framkvæmt sé hættumat og þar sem við á áhættumat og að skipulag og aðrar mótvægisaðgerðir taki mið af þeim niðurstöðum. Setja þarf áhættuviðmið, þ.e. hversu mikið tjón sættum við okkur við sem samfélag og að mótvægisaðgerðirnar sem gripið er til séu metnar út frá kostnaði og ávinningi.
Veðurstofa Íslands hefur undanfarna áratugi unnið að áhættumati vegna ofanflóða. Með breytingum á lögum um Ofanflóðasjóð var gert mögulegt að fjármagna vinnu við gerð hættumats vegna eldgosa frá 2012 og vatns- og sjávarflóða frá 2015. Veðurstofan leiðir nú fjölmörg verkefni sem snúa að hættu- og áhættumati vegna þessa ásamt sérfræðingum annarra stofnana s.s. Jarðvísindastofnun Háskólans, Landgræðslunni, Vegagerðinni og Almannavörnum Ríkislögreglustjóra.
Sem hluti af þessari vinnu skipaði umhverfis- og auðlindaráðuneytið tvær nefndir, sem falið er að gera tillögur að áhættuviðmiðum vegna eldgosa annars vegar og vatns- og sjávarflóðum hins vegar. Í nefndunum eiga m.a. sæti fulltrúar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Þegar horft er til eldgosa, vatns- og sjávarflóða þarf sérstaklega að huga að eignatjóni. En eignatjón hefur verið mun meira varðandi þessa vá, en beint manntjón. Hins vegar má ekki gleyma því að afleiddar afleiðingar hafa haft mikil áhrif á manntjón í gegnum aldirnar. Áhættuviðmið vegna ofanflóða voru sett 1997, en þau miða alfarið við manntjón, enda hefur manntjón vegna ofanflóða verið mikið hér á landi og mun meira en eignatjón. Hér þarf að vanda til verka og er mikilvægt að horfa til annarra landa hvað þetta varðar, og sjá hvort að við getum nýtt okkur eitthvað af þeirri aðferðafræði. Enn fremur er mikilvægt að átta sig á umfangi tjónmættis, af þeirri náttúruvá sem um er fjallað og skipta þá máli frumniðurstöður þeirra verkefna sem unnið hefur verið að undir eldgosa- og vatns- og sjávarflóðahættumatinu.
Undirbúningur varðandi tillögur að áhættuviðmiðum er kominn hvað lengst fyrir vatnsflóðin. Nefndin bindur vonir við að kynning fyrir sveitarfélögum á aðferðafræði og hvað er gert í nágrannalöndum okkar geti farið fram í haust. Í kjölfarið getur virkt samtal átt sér stað. Ef allt gengur að óskum gætu tillögur að áhættuviðmiðum vegna vatnsflóða legið fyrir á fyrri hluta næsta árs og svo líður vonandi ekki allt of langur tími þar til tillögur að áhættuviðmiðum fyrir eldgos og sjávarflóð liggja fyrir. En þetta verða tillögur og á endanum er það pólitísk ákvörðun hver viðmiðin verða. Þegar viðmiðin liggja fyrir er hægt að setja lög og reglugerðir í svipuðum anda og gert hefur verið fyrir ofanflóðin. Slíkur laga- og reglugerðarrammi mun styrkja mjög sveitarfélögin í ákvörðunartöku um skynsamlegt skipulag. En í millitíðinni er mikilvægt að nýta sér niðurstöður hættumats sem liggja fyrir á hverjum tíma og taka mark á umsögnum sérfræðinga. Þannig er hægt að stuðla að skynsömu skipulagi þrátt fyrir að áhættuviðmið hafi ekki verið sett og lög og reglugerðir liggi ekki fyrir.
Ísland er hluti af alþjóðasamfélaginu og við eigum aðild að sáttmálum Sameinuðu þjóðanna eða höfum samþykkt ákveðin markmið alþjóðasamfélagsins. Rétt er að telja hér þrennt upp. Í fyrsta lagi Sendai-sáttmálann sem fjallar um aðgerðir til að draga úr áhrifum hamfara 2015-2030. Í raun má tengja allar sjö meginaðgerðir hans við skipulagsmál en eins og fyrr greinir þá er skynsamlegt skipulag lykilþáttur í að draga úr tjóni vegna hamfara.
Í öðru lagi er það Parísarsamkomulagið sem við öll þekkjum. Ljóst er að loftslagsbreytingar hafa og munu hafa áhrif á náttúruvá og endurkomutíma þeirra. Í skýrslu vísindanefndar um loftslagsbreytingar sem kom út fyrir ári síðan kemur m.a. eftirfarandi fram: Gera má ráð fyrir að áhrif loftslagsbreytinga hér á landi verði margvísleg. Í flestum tilfellum er um að ræða neikvæð áhrif, sér í lagi ef ekki verður gripið til mótvægis- og aðlögunaraðgerða (…) Loftslagsbreytingar hafa áhrif á náttúruvá, m.a. vegna hættu á vatnsflóðum (s.s. að völdum aftakaúrkomu, aftakaleysingar á snjó og jöklum og strand- og árflóða), ofanflóðum, gróðureldum og auk vaxandi eldgosahættu. Í öllum tilvikum þarf að bæta mat á hættunni, setja viðmið um ásættanlega áhættu og stýra henni þar sem því verður við komið. Það er því mikilvægt þegar unnið er hættu- og áhættumat vegna náttúruvá að tekið sé tillit til áhrifa loftslagsbreytinga.
Í þriðja lagi langar mig að nefna heimsmarkmiðin – markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Sendai-sáttmálinn og Parísarsamkomulagið styðja bæði við þessi markmið. Í skýrslu vísindanefndarinnar um loftslagsbreytingar kemur fram að áhersla heimsmarkmiðanna sé lögð á efnahags-, umhverfis- og félagslegar stoðir sjálfbærrar þróunar og útgangspunkturinn sé að markmiðin nái til allra og skilji engan eftir. Loftslagsbreytingar vinna gegn sjálfbærni og leggja miklar byrðar á komandi kynslóðir. Því eru aðgerðir sem draga úr loftslagsbreytingum og vinna gegn neikvæðum áhrifum þeirra stuðningur við sjónarmið um sjálfbærni.
Sú vinna sem framkvæmd er og fjármögnuð að stærstum hluta af Ofanflóðasjóði gerir það að verkum að við stöndum framarlega í að uppfylla Sendai sáttmálann. Hér á landi höfum við einnig komið okkur upp góðu skipulagi á fjármögnun hættu- og áhættumatsverkefna vegna ofanflóða, eldgosa, vatns- og sjávarflóða. Um er að ræða eins konar samfélagslega fjármögnun, þar sem skattkerfið er nýtt til að tryggja fjármuni til Ofanflóðasjóðs, sem dreifir því aftur til forvarnaverkefna sem falla undir lögbundið hlutverk sjóðsins. Með þessu er tryggt að fjármunir eru til staðar í þessi afar mikilvægu verkefni sem stuðla að því að styrkja viðnámsþrótt okkar samfélags.
En betur má ef duga skal, því enn vantar að taka á allri náttúruvá sem við búum við hér á landi. Sem dæmi má nefna jarðskjálfta og gróðurelda, en gera má ráð fyrir að tíðni gróðurelda aukist í framtíðinni vegna loftslagsbreytinga eins og fram kemur í skýrslu vísindanefndar um loftslagsbreytingar. Til að takast á við þetta hefur undanfarin ár verið rætt um stofnun svokallaðs hamfarasjóðs. Starfshópur var skipaður í lok árs 2015 til að leggja fram tillögur um stofnun sérstaks sjóðs vegna náttúruhamfara og skilaði hann skýrslu í byrjun árs 2016. Í kjölfarið var skipuð nefnd til að koma með tillögur að lagaumgjörð slíks sjóðs. Unnið er nú að því á vettvangi ráðuneytanna að finna lausn á því hvernig slíkur sjóður getur fallið að lögum um opinber fjármál.
Í frumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi er gert ráð fyrir margvíslegum breytingum á lögum um loftslagsmál. Þar er meðal annars mælt fyrir um loftslagsstefnu ríkisins og lögð sú skylda á Stjórnarráð Íslands, stofnanir ríkisins og fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins að setja sér loftslagsstefnu. Í frumvarpinu er í fyrsta skipti kveðið á um loftslagsráð í lögum, auk þess sem þar er nýtt ákvæði sem fjallar um aðlögun íslensks samfélags að loftslagsbreytingum. Verði frumvarpið að lögum verður fest í lög sú skylda ráðherra að láta vinna áætlun um aðlögun íslensks samfélags að loftslagsbreytingum, á grundvelli bestu vísindalegrar þekkingar.
Í þessu samhengi vil ég nefna að í gær hélt Loftslagsráð metnaðarfulla ráðstefnu um aðlögun Íslands að loftslagsbreytingum. Markmiðið var að kalla fram viðbrögð við fyrirsjáanlegum afleiðingum loftslagsbreytinga í þeim tilgangi að auka hæfni samfélagsins til að takast á við þær og byggja upp viðnámsþrótt gagnvart þeim. Ljóst er að viðbrögð eru og munu þurfa að vera margþætt og því er nauðsynlegt að leiða saman krafta til að takast á við þau verkefni sem fyrir liggja.
En þetta er einmitt það sem þið hafið gert hér í dag – leitt saman krafta fólks til að fjalla um brýnt mál. Bestu þakkir kæru Sunnlendingar fyrir ykkar mikilvæga framtak og sömuleiðis kærar þakkir Skipulagsstofnun.