Hoppa yfir valmynd
22.05.2019 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra - Aðgerðir í þágu lífríkis

Eftirfarandi grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra birtist í Fréttablaðinu 22. maí 2019

Aðgerðir í þágu lífríkis

Í dag er alþjóðlegur dagur lífríkisins eða líffræðilegrar fjölbreytni. Samkvæmt nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna hefur lífríki og vistkerfum hnignað mikið á undanförnum áratugum. Það er skrítið til þess að hugsa að tegundir sem við öll þekkjum hérlendis skuli eiga á hættu að deyja út. Þetta á m.a. við um landselinn, skúminn, lundann og fleiri sjávarfugla. Hvað er til ráða?

Við þurfum að grípa til róttækra aðgerða. Þær þurfa að snúast um að auka vernd búsvæða lífvera, tryggja betur sjálfbæra nýtingu auðlinda og endurheimta lífríki og vistkerfi. Samhliða þarf að berjast af krafti gegn loftslagsbreytingum. Vinna við alla þessa þætti stendur nú sem hæst hér á landi, auk þess sem norrænu umhverfisráðherrarnir hafa að mínu frumkvæði beitt sér fyrir því að þrýsta á ríki heims um metnaðarfyllri aðgerðir á alþjóðavettvangi vegna lífríkisins og verndar þess.

Stjórnvöld vinna nú að átaki í friðlýsingum sem margar hverjar snúast um frekari vernd búsvæða. Nýleg friðlýsing Akureyjar er dæmi um vernd búsvæðis lundans. Verið er að vinna úr tillögum Náttúrufræðistofnunar Íslands um frekari búsvæðavernd fyrir fugla og vernd vistgerða, auk þess sem unnið er að endurskoðun löggjafar um villt dýr sem gefur tækifæri til að styrkja vernd stofna sem eru í hættu.

Hringrásarhagkerfið er mikilvægur þáttur í að stuðla að sjálfbærari nýtingu auðlinda og í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu er nú unnið að innleiðingu þess. Þar er m.a. reynt að auðvelda neytendum að velja umhverfisvænni vöru og unnið að skilvirkri úrgangsstjórnun sem miðar að því að nýta úrgang sem efnivið í frekari framleiðslu á vörum og efni. Loks er endurheimt lífríkis með landgræðslu, skógvernd og endurheimt votlendis mikilvægur hluti af aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum. Fyrir dyrum stendur að vinna landsáætlanir bæði í landgræðslu og skógrækt á grunni nýsamþykktra laga sem munu enn frekar styðja við þessi áform.

Stjórnvöld hafa því tekið vernd lífríkisins föstum tökum.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta