Hoppa yfir valmynd
03.10.2019 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra á umhverfismálþingi ASÍ

Sæl öll og til hamingju ASÍ með metnaðarfullt og mikilvægt málþing.
Við stöndum frammi fyrir staðreynd. Hamfarahlýnun af mannavöldum hefur nú þegar áhrif á atvinnulíf, efnahag og lífskjör almennings víða um heim. Takist okkur ekki að snúa blaðinu við og tryggja að aðgerðir okkar skili árangri munum við sjá jökla hverfa og lífverur deyja út, við munum þurfa að kveðja kóralrif heimsins og eyjur sem áður voru byggilegar.

Umræða á þessum nótum getur þó auðveldlega valdið ótta og ótti leiðir ekki alltaf til góðra ákvarðana. Við megum því aldrei gleyma voninni. Þótt ógnin sé raunveruleg og rækilega staðfest af vísindafólki þá eru lausnirnar það líka.

Verkefnið sem við stöndum frammi fyrir er margslungið og við þá vinnu verður réttlæti að vera leiðarljósið okkar. Mannréttindi, félagslegt réttlæti og jafnrétti kynjanna eru samtengd loftslagsmálum og allar aðgerðir gegn loftslagsvánni verða um leið að tryggja loftslagsréttlæti. Þessari afstöðu hefur Ísland ítrekað haldið á lofti á alþjóðavettvangi, nú síðast á Loftslagsfundi Sameinuðu þjóðanna í síðustu viku.

Hér heima höfum við gripið til margvíslegra aðgerða og margt er fram undan. Báðum meginþáttum aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum hefur verið hrint í framkvæmd og endurskoðun hennar er nú í fullum gangi. Samkvæmt fjögurra ára kolefnisbindingaráætlun sem kynnt var í sumar munum við ráðast í fjölbreytt verkefni um allt land til að binda kolefni úr andrúmslofti og endurheimta votlendi. Auk ávinnings fyrir loftslagið stuðla aðgerðirnar að því að efla lífríki og endurheimta jarðvegs- og gróðurauðlindir á Íslandi. Aðgerðir eru þegar hafnar og gert ráð fyrir að árlegt umfang landgræðslu og skógræktar tvöfaldist og endurheimt votlendis tífaldist.

Umfangsmikil skref varðandi orkuskipti í samgöngum á Íslandi hafa verið kynnt en hraðhleðslustöðvum verður meðal annars fjölgað verulega og blásið til átaks með ferðaþjónustunni til að stuðla að orkuskiptum hjá bílaleigum og hafa áhrif á eftirmarkað með rafbíla hér á landi. Fjárfestingarnar sem fást með fyrstu styrkauglýsingunum frá í sumar gætu numið allt að einum milljarði króna. Þá eru ýmsar ívilnanir vegna visthæfra bifreiða fyrir hendi og frumvarp sem fjármálaráðherra hefur mælt fyrir á Alþingi gerir ráð fyrir frekari ívilnunum, m.a. þegar kemur að hleðslustöðvum við heimahús og bílaleigubílum. Hvoru tveggja ætti að geta hraðað orkuskiptum.

Margvíslegum öðrum aðgerðum hefur verið hrint í framkvæmd og má þar til að mynda nefna að lögð hefur verið sú skylda á Stjórnarráð Íslands, stofnanir ríkisins, fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins og sveitarfé-lög, að setja sér loftslagsstefnu og markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Með því að hækka kostnað við urðun með sérstökum urðunarskatti sem mælt hefur verið fyrir á Alþingi er endurvinnsla gerð samkeppnishæfari með það að markmiði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá urðuðum úrgangi. Með öðrum grænum skatti, á svokölluð F-gös eða kælimiðla, sem einnig hefur verið mælt fyrir, er útfösun þeirra hraðað hér á landi en það er einnig mikilvægt loftslagsmál.

Ég vil sömuleiðis nefna að Loftslagsstefna Stjórnarráðsins hefur tekið gildi og er ætlað að hafa margfeldisáhrif út í samfélagið, m.a. með kröfum til bílaleiga og leigubíla um visthæfar bifreiðar. Einnig má sem dæmi nefna að með reglugerðum sem settar hafa verið er skylt að gera ráð fyrir hleðslu rafbíla við allt nýbyggt húsnæði á landinu, kolefnisgjald hefur verið hækkað í áföngum síðan ríkisstjórnin tók við, fyrsta heildar-stefna ríkisins um almenningssamgöngur fyrir allt landið hefur verið kynnt, undirbúningur fyrir Borgarlínu er í fullum gangi, unnið er að verkefnum sem ætlað er að draga úr matarsóun, stofnun Loftslagssjóðs til að styrkja nýsköpun og fræðslu í loftslagsmálum er á lokametrunum í samvinnu við Rannís, gerður hefur verið samningur um viðamikla umhverfisfræðslu í skólum með áherslu á loftslagsbreytingar og með reglugerðarbreytingu sem er fram undan verður notkun svartolíu í raun bönnuð í íslenskri landhelgi.

Nokkur orð varðandi vísindi og rannsóknir. Í skýrslu Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, IPCC, sem birt var í liðinni viku kom fram að jöklar á jörðinni eru að minnka og súrnun sjávar hefur aukist. Ljóst er að fylgjast þarf vel með þessum breytingum og því gekk ég fyrir hönd stjórnvalda frá viðamiklu samstarfi við Veðurstofu Íslands og Hafrannsóknastofnun um vöktun á jöklum og súrnun sjávar í síðustu viku. Við höfum auk þess fest í lög að unnar skuli vísindaskýrslur um áhrif loftslagsbreytinga á náttúrufar og samfélag á Íslandi sem m.a. skulu taka mið af skýrslum IPCC. Vísinda- og tækniráð hefur einnig samþykkt að 150 milljónir króna fari í rannsóknir á loftslagsbreytingum næst þegar auglýst verður eftir umsóknum um styrki í svokallaða markáætlun. Auk þess vinnur Loftslagsráð núna tillögur um gerð aðlögunaráætlunar vegna loftslagsbreytinga hér á landi en í nýskipuðu Loftslagsráði á ASÍ nú fulltrúa og er það gleðilegt.

Ég vil einnig nefna að stjórnvöld hafa fengið öll stóriðjufyrirtæki á Íslandi og Orkuveitu Reykjavíkur til að þróa og rannsaka hvort og hvernig megi draga úr losun frá verksmiðjum stóriðjufyrirtækja með niðurdælingu CO2 í berglög. Slík niðurdæling hefur þegar skilað árangri á Hellisheiði og vakið heimsathygli. Tilraunirnar sem eru fram undan eru afar spennandi og ef hægt verður að ráðast í niðurdælingu frá þessum fyrirtækjum myndi það marka vatnaskil þegar kemur að útblæstri gróðurhúsalofttegunda á Íslandi.

En þótt fjölmargt hafi þegar verið sett af stað tengt loftslagsmálum hér á landi þurfum við augljóslega að gera meira. Ég fagna sérstaklega þeirri vakningu sem loksins hefur orðið, ekki síst fyrir tilstilli ungs fólks. Þeirra ákall og sá kraftur sem fylgir baráttu þeirra hjálpar mikið við að færa loftslagsmálin ofar í forgangsröðinni – ofar hjá stjórnvöldum, ofar hjá fyrirtækjum, félagasamtökum og almenningi. Verkefnið fram undan er skýrt: Við þurfum að ráðast í umbyltingu á kerfum í samfélaginu okkar en við þurfum að gera það þannig að það taki tillit til allra þjóðfélagshópa og tryggi að við getum öll tekið þátt.

Ég vil að lokum færa ASÍ kærar þakkir fyrir að taka loftslagsmálin upp hjá verkalýðshreyfingunni. Það er afar mikilvægt.

Takk fyrir.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta