Grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra - Landið er lykillinn
Eftirfarandi grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra birtist í Morgunblaðinu 7. október 2019.
Landið er lykillinn
Heimsbyggðin stendur frammi fyrir margvíslegum áskorunum. Á grundvelli þeirra hafa ríki heims sett sér sameiginleg markmið: Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Til að ná þessum mikilvægu markmiðum er brýnt að horfa til þeirra tækifæra sem felast í landi, þ.e.a.s. jarðvegi, gróðri, vistkerfum og náttúru.
Land, sjálfbær nýting og endurheimt landgæða og vistkerfa eru lykilatriði við að takast á við margar af þeim stærstu áskorunum sem við Jarðarbúar stöndum frammi fyrir.
Loftslagsmál og landhnignun
Hvernig getur land verið lykill að því að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda? Hvernig getur land eflt náttúruna, fjölbreytileika hennar og vistkerfi? Hvernig getur land verið lykill að því að draga úr hungri og fátækt, auka efnahagslegt sjálfstæði og stuðla að kynjajafnrétti, félagslegum stöðugleika og friði í heiminum?
Staðreyndin er sú að hnignun lands og eyðimerkurmyndun á heimsvísu á sér stað á landsvæði sem er tvisvar sinnum stærra en Kína. Það er 186 sinnum stærð Íslands. Landhnignun hefur neikvæð áhrif á velferð meira en þriggja milljarða manna eða rúmlega 40% mannkyns.
Sjálfbær landnýting og endurheimt lífríkis mikilvæg
Landi sem hefur hnignað losar gróðurhúsalofttegundir sem valda loftslagsbreytingum. Lífrænt efni losnar úr jarðvegi og smám saman dregur úr frjósemi þess. Eftir því sem framleiðni og líffræðileg starfsemi skerðist dregur úr getu landsins til að standa undir vatnsbúskap og fæðuframleiðslu og efnahagslegt mikilvægi minnkar eða hverfur. Það getur aftur valdið félagslegum óróa og óstöðugleika, sem endað getur með fólksflótta og verið ógn við frið. Stríðið í Sýrlandi er ágætt dæmi um þetta. Landhnignun bitnar mest á þeim sem eru fátækari og meira á konum og börnum sem oft bera ábyrgð á að yrkja landið og sækja vatn.
Að yrkja og nýta landið með sjálfbærum hætti og endurheimta vistkerfi og lífríki bindur hins vegar gróðurhúsalofttegundir. Það eflir líffræðilega fjölbreytni, gerir landið frjósamara, myndar grundvöll lífsviðurværis, tryggir fæðuframleiðslu og dregur úr líkum á vatnsskorti. Sjálfbær landnýting og endurheimt gæða lands eykur félagslegan stöðugleika, stuðlar að jafnrétti kynjanna og friði.
Af þessum sökum er landið hlekkur sem tengir saman mismunandi þætti í Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Enn fremur er áætlað að endurheimt lands og sjálfbær nýting þess gæti verið allt að 1/3 af lausninni við loftslagsvánni á heimsvísu.
Árangur um allan heim
Rannsóknir sýna að það að ráðast í endurheimt lands er efnahagslega skynsamlegt, en fyrir hvern dollara sem lagður er í slík verkefni á heimsvísu skila sér 10 dollarar til baka. Aðferðir sem stuðla að sjálfbærri nýtingu lands eru vel þekktar og einnig hefur þekking á endurheimt lands og landgæða stóraukist á undanförnum áratugum. Árangursrík verkefni er að finna um allan heim, en bæði hér heima og á heimsvísu þurfum við að ráðast í slík verkefni á mun stærri skala en áður hefur verið gert.
Til að svo megi verða er nauðsynlegt að fyrirtæki komi í stórauknum mæli að aðgerðum varðandi endurheimt og fjárfesti í þeim. Tækifærin eru óendanleg.
Markvissar aðgerðir á Íslandi
En hvað er að gerast í þessum málum hér heima?
Landgræðsla og skógrækt hafa lengi verið ofarlega á dagskrá íslenskra stjórnvalda, margra fyrirtækja, félagasamtaka og almennings. Í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum eru skógrækt og landgræðsla – með áherslu á endurheimt birkiskóga, votlendis og annarra vistkerfa – annar tveggja meginþátta áætlunarinnar. Á næstu fjórum árum munum við tvöfalda landgræðslu og skógrækt og tífalda endurheimt votlendis á vegum ríkisins.
Mikilvægt er að virkja betur þann áhuga sem fyrirtæki hafa á að koma inn í verkefni á þessu sviði og taka þar með þátt í að ná markmiðinu um að Ísland verði kolefnishlutlaust árið 2040. Samhliða áherslu á kolefnisbindingu þurfum við síðan að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda og er nú markvisst unnið að því.
Mikil reynsla af landgræðslu
Íslendingar byggja á yfir hundrað ára reynslu af landgræðslu. Landgræðsluskóli Sameinuðu þjóðanna sem staðsettur er hér á landi tekur árlega á móti fólki frá þróunarlöndum þar sem landeyðing og ósjálfbær landnýting eru vandamál, og býður upp á hálfsárs þjálfun í fræðilegum og praktískum lausnum við landhnignun.
Á aðildarríkjafundi Eyðimerkursamnings Sameinuðu þjóðanna sem haldinn var nýlega skrifaði ég fyrir hönd Íslands undir viljayfirlýsingu með Umhverfisstofnun SÞ um að í sameiningu verði ráðist í landgræðsluverkefni víða í Afríku með umhverfis- og félagsleg markmið í huga. Þar með yrði langþráður draumur okkar margra að veruleika um að Ísland beini enn frekari kröftum í þróunarsamvinnu sinni að málefnum sem tengjast landi og umhverfismálum.
Ísland getur orðið í fremstu röð ríkja við að samþætta skipulag landnýtingar og endurheimt lífríkis og vinna þannig samtímis að öllum þremur umhverfissamningum SÞ. Þetta gerum við með skýrri framtíðarsýn og markmiðum, samþættingu áætlana um landnotkun, uppbyggingu þekkingar og víðtæku samstarfi innanlands sem utan.