Ávarp á málþingi um börn og samgöngur
Ávarp Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra,
á málþingi um börn og samgöngur
18. nóvember 2019
Kæru fundargestir.
Það er mér mikið fagnaðarefni að ávarpa málþing um börn og samgöngur hér í dag.
Á undanförnum árum hefur sú krafa að börn og ungmenni fái aðkomu að ákvörðunum sem snerta þau aukist og er það m.a. í samræmi við ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Núna á miðvikudaginn eru 30 ár síðan samningurinn var samþykktur og er 20. nóvember árlega tileinkaður réttindum barna. Það er margt sem snýr að réttindum yngstu kynslóðarinnar sem gera mætti betur og taka tillit til.
Það er mikilvægt að hlusta og heyra hvað börn segja. Börn eru fær til þess að hafa áhrif á líf sitt, og ef þeim er gefin tækifæri til að láta rödd sína heyrast og hlustað er á þau hafa börnin margt fram að færa um eigin aðstæður sem vert er að taka tillit til.
Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna rammar inn réttindi barna og gefur þeim rétt til að koma sínum sjónarmiðum að við ákvarðanatöku. Í grófum dráttum má skipta réttindum barna í þrjá flokka; vernd, umönnun og þátttöku.
Sáttmálinn tryggir því börnum rétt til þess að láta í ljós skoðanir sínar á öllum málum sem varða þau.
Börn eru virkir þátttakendur í samfélaginu og því skiptir þeirra innlegg máli þegar ákvarðanir eru teknar. Til marks um þetta þá samþykkti ríkisstjórnin um síðustu áramót að bæta barnamálaráðherra við ríkisstjórnarborðið svo rödd barna fengi meira vægi.
Barnamálaráðherra hefur lagt áherslu á að tillögur barna og sjónarmið þurfi að taka alvarlega og gera að veruleika. Ekki ætti að tala um þátttöku barna heldur samstarf við ákvarðanatöku og að ætlunin sé að skapa raunverulega barnvænt samfélag þannig að árið 2030 verði hvergi betra að vera barn en á Íslandi.
Það er einnig ánægjulegt að segja frá því að ríkisstjórnin samþykkti fyrr á þessu ári að stefnt verði að aukinni þátttöku barna og ungmenna í stefnumótun stjórnvalda sem og að allar stærri ákvarðanatökur sem og lagafrumvörp skuli rýnd út frá áhrifum á stöðu og réttindi barna.
Samgönguáætlun er svo sannarlega umfangsmikil stefnu- og aðgerðaráætlun og þarf því að vera sett fram með þessi atriði í huga.
Samgöngur þurfa bæði að vera öruggar og greiðar fyrir unga og gamla. Flestir þeir sem koma með einum eða öðrum hætti að uppbyggingu og skipulagningu samgönguinnviða landsmanna hafa hingað til verið einhversstaðar á bilinu tvítugt upp í sjötugt. Það er því kannski ekki skrítið að sú vinna hafi verið unnin að mestu út frá sjónarhóli sama hóps. Það er þó alltaf að koma betur og betur í ljós að börn og ungmenni eru um margt ekki að fullu samanburðarhæfur hópur á við þá sem eldri eru, þegar kemur að samgöngum.
Börn og ungmenni er virkir þátttakendur í samgöngum ekki síður en þeir sem eldri eru. Þannig skiptir máli að horft sé til þarfa þeirra og hlustað á skoðanir þeirra í stefnumótun í samgöngumálum.
Samgöngur og hvernig þær nýtast og hafa áhrif á líf barnanna okkar er stórt mál sem þangað til nú hefur ekki verið ávarpað eða greint með nægilega skýrum hætti.
Unnið er að undirbúningi þess að greina stöðuna betur og mun þess sjást stað í næstu heildarendurskoðun samgönguáætlunar. Eitt af því sem þarf að skoða eru skipulagsmálin og þá þarf aðkomu sveitarfélagana. Skipulag sveitarfélaga verður að taka mið af því hvar börn eru í leik og starfi.
Ég fagna því að Samband íslenskra sveitarfélaga komi nú að þessari vinnu í samvinnu við ráðuneytið, Vegagerðina og Samgöngustofu. Í mínum augum er það alveg ljóst að ef við eigum að ná einhverjum árangri í þessum málum verða sveitarfélögin að taka þátt í vinnunni.
Það ætti að vera markmið skipulagsins að tryggja öruggt umhverfi barna. Ýmis dæmi er hægt að nefna til marks um að hér séu brotalamir á að svo sé.
Dæmi er Hringbraut með tvo skóla sitt hvoru megin þar sem börnin þurfa að fara yfir götuna til að sækja tíma. Skipulagið tók ekki mið af þessum aðstæðum en megin umferð vestur í bæ liggur einmitt um þessa götu.
Annað dæmi er sameining Álftamýrar- og Hvassaleitisskóla þvert yfir Miklubraut. Það er ljóst að þetta er ekki góð lausn fyrir nemendur með hliðsjón af samgöngum á milli skólanna.
Ferðamynstur og val á ferðamáta barna og ungmenna er talsvert frábrugðið þeirra sem eldri eru. Þegar rýnt er í niðurstöður ferðavenjukannanna kemur t.a.m. í ljós að börn og ungmenni ganga, hjóla og nota almenningssamgöngur mest af öllum öðrum aldurshópum. Samkvæmt sömu könnunum kemur sömuleiðis í ljós að ferðaþörf þeirra en engu síðri en þeirra sem eldri eru.
Þessar vísbendingar benda til þess að mikilvægt er fyrir vandaða áætlanagerð í samgöngum að taka sérstakt tillit til barna og ungmenna. Það er því fagnaðarefni að samgönguráð hafi samþykkt að í næstu heildarendurskoðun samgönguáætlunar verði þessum málum gert hærra undir höfði og þeim gerð sérstök skil. Þetta málþing er fyrsta skrefið í þá átt.