Ávarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðindaráðherra á ársfundi norræna umhverfismerkisins Svansins 2019
Kæru gestir,
Svanurinn er ekki einungis tignarleg fuglategund; einn fyrsti farfuglinn til að koma hingað til lands á hverju ári, þó nokkur hluti stofnsins dvelji hér allt árið. Svanurinn er einnig merkilegt umhverfismerki – norrænt umhverfismerki sem byggist á óháðri vottun og viðmiðum sem taka tillit til alls lífsferilsins.
Svanurinn er 30 ára í ár, sem sé umhverfismerkið, enda verða álftir sjaldnast þetta gamlar.
Umhverfisstofnun sér um Norræna umhverfismerkið Svaninn hér á landi. Tilgangur Svansins er að ýta undir sjálfbæra þróun samfélagsins svo komandi kynslóðir hafi jafna möguleika og við sem nú lifum til að mæta þörfum sínum.
Áhrif Svansins eru hvað mest í gegnum fjöldann, það er að segja eftir því sem Svansfjölskyldan stækkar verða áhrifin meiri af þeim kröfum sem merkið gerir til fyrirtækjanna. Um leið bjóðast fólki fleiri tækifæri til að velja vörur og þjónustu sem hafa minni áhrif á umhverfi, heilsu og loftslag.
Norræna umhverfismerkið Svanurinn var stofnað af Norrænu ráðherranefndinni árið 1989. Ísland var með frá upphafi, ásamt Noregi, Svíþjóð og Finnlandi og Danir bættust í samstarfið nokkrum árum síðar. Áhugi íslenskra fyrirtækja á Svaninum hefur aukist mikið upp á síðkastið og sömuleiðis vitund almennings um Svansmerkið.
Umhverfismerkið Svanurinn er lífsferilsmerki og miðar þannig að því að lágmarka alla sóun og auðlindanotkun bæði í framleiðslu og hjá neytandanum. Þetta hefur í för með sér minni losun gróðurhúsalofttegunda. Svanurinn er auk þess eitt af þeim tólum sem fyrirtæki geta nýtt sér til að stýra vegferð sinni í átt að hringrænu hagkerfi eins og við munum fá að heyra meira um á fundinum á eftir.
Í janúar á þessu ári undirrituðu forsætisráðherrar Norðurlandanna sameiginlega yfirlýsingu um kolefnishlutleysi Norðurlandanna og undirstrikuðu þar með vilja sinn til að vera leiðandi í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Í yfirlýsingunni er umhverfismerkinu Svaninum lyft sérstaklega upp. Það er eitt af þeim tólum sem er til staðar til að hvetja neytendur til að haga neyslu sinni með þeim hætti að hún lágmarki álag á umhverfi og loftslag. Svanurinn er eitt skýrasta dæmið um áhrifaríka samvinnu Norðurlandanna á sviði umhverfismála og má sjá á yfirlýsingunni að Svanurinn hefur mikinn stuðning frá ráðamönnum.
Ég hef hér í dag verið beðinn um að afhenda Krónunni Svansleyfi en fyrirtækið er fyrsti svansleyfishafinn í flokki dagvöruverslana. Viðmið Svansins fyrir dagvöruverslanir voru upprunalega þróuð árið 2003 og hafa tekið nokkrum breytingum síðan þá. Vottunin er heildræn nálgun á þeim umhverfisávinningi sem ná má af rekstri dagvöruverslana. Þar ber helst að nefna vöruúrval, orkunotkun, úrgangsstjórnun og matarsóun. Einnig er hugað að innkaupum verslananna sjálfra þar sem lögð er áhersla á umhverfisvottaðar vörur og þjónustu.
Í upplýsingum frá Umhverfisstofnun kemur fram að Krónan hefur undanfarin ár unnið markvisst að samfélagslegri ábyrgð og umhverfismálum.
Aukin áhersla er t.a.m. á úrval vegan matvara og þær auðkenndar í verslun. Matvörur sem nálgast síðasta söludag eru lækkaðar í verði, fjölnota kassar eru notaðir við innflutning á ferskvöru sem sparar um 162 tonn af pappakössum á ársgrundvelli og nýjar verslanir eru hannaðar með orkusparnað að leiðarljósi og umhverfisvænni kælikerfi. Eru þá nokkur dæmi nefnd.
Fyrr á árinu veitti umhverfis- og auðlindaráðuneytið umhverfisviðurkenninguna Kuðunginn til Krónunnar og í sumar hlaut fyrirtækið umhverfisverðlaun Samtaka atvinnulífsins árið 2019 fyrir framtak á sviði umhverfismála. Afhending Svansleyfis Krónunnar eru tímamót hérlendis þar sem aldrei áður hefur dagvöruverslun verið afhent Svansvottun. Leyfið sem veitt er í dag er fyrir tvær verslanir Krónunnar; verslun að Akrabraut í Garðabæ og verslun fyrirtækisins í Rofabæ í Árbæ.
Ég óska Krónunni til hamingju og bið fulltrúa fyrirtækisins um að koma hingað upp og taka við Svansleyfinu.