Hoppa yfir valmynd
29.11.2019 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra - Umhverfismálin – tveimur árum síðar

Eftirfarandi grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra birtist í Kjarnanum 29. nóvember 2019.

Símtalið sem ég fékk að morgni 29. nóvember 2017 var ekki eins og hvert annað símtal. Mér var boðið að færa mig um set innan málaflokks sem ég hafði í mörg ár lifað og hrærst í.
- Ég: „Ha, verða umhverfisráðherra“?
- Kata: „Já.“
Ég fékk ekki langan tíma til að hugsa mig um og þurfti þess heldur ekki eftir að hafa séð stjórnarsáttmálann. Daginn eftir var ný ríkisstjórn kynnt á Bessastöðum.

Stuttu síðar mætti ég í umhverfis- og auðlindaráðuneytið með þau mál sem ég vildi leggja áherslu á sem ráðherra – mál sem ég hafði brunnið fyrir og vildi sjá komast í verk.
Í ráðuneytinu mætti mér samhentur hópur kraftmikils fólks. Síðan eru liðin tvö ár. Mig langar að fara yfir hluta af þeim málum sem við höfum unnið að. Tek fram að þessum lista er ekki ætlað að vera tæmandi.

Þjóðgarður á miðhálendi Íslands

Þjóðgarður á miðhálendi Íslands hefur verið draumur okkar margra og í störfum mínum hjá Landvernd hafði ég barist fyrir slíkum þjóðgarði. Við myndun ríkisstjórnarinnar urðu þau tímamót að í stjórnarsáttmálanum var kveðið á um stofnun miðhálendisþjóðgarðs. Ég setti því strax af stað vinnu við að koma honum á fót.

Þverpólitísk nefnd um undirbúning að stofnun þjóðgarðsins er þessa dagana að ljúka umfangsmikilli vinnu sinni og áform eru komin í Samráðsgátt stjórnvalda um lagafrumvarp um þjóðgarðinn sem byggt verður á vinnu nefndarinnar. Það er magnað að taka þátt í þessu stóra verkefni.

Miklar andstæður er að finna á miðhálendinu – svarta sanda, jökulbreiður, einstakar gróðurvinjar og fjölda sérstæðra jarðmyndana sem finnast hvergi í heiminum á einu og sama svæðinu. Svo er það kyrrðin, öræfakyrrðin. Hálendisþjóðgarður mun marka straum-hvörf í náttúruvernd á Íslandi, vekja verðskuldaða athygli út fyrir landsteinana og skapa fjölmörg tækifæri til atvinnuuppbyggingar fyrir byggðirnar í jaðri hans.

Átak í friðlýsingum – Jökulsá á Fjöllum friðlýst

Auk þess að undirbúa stofnun þessa einstaka þjóðgarðs setti ég í upphafi yfirstandandi kjörtímabils af stað sérstakt átak í friðlýsingum. Alltof hægt hafði gengið að friðlýsa árin á undan en nú var ráðist í friðlýsingaátak í samræmi við áherslur í stjórnarsáttmálanum.
Hópnum sem vinnur að friðlýsingunum er meðal annars ætlað að vinna að verndun svæða sem Alþingi hefur þegar samþykkt að friðlýsa. Friðlýsingu fjögurra svæða er nú lokið og friðlýsing 17 annarra svæða hefur verið kynnt opinberlega. Fleiri verkefni eru í undirbúningi.

Í sumar urðu þau tímamót að fyrsta friðlýsing svæðis í verndarflokki rammaáætlunar var undirrituð. Í núgildandi rammaáætlun eru 20 virkjanakostir í verndarflokki á 12 svæðum sem ber að friðlýsa. Þar af er friðlýsingu tveggja kosta á einu svæði lokið – Jökulsá á Fjöllum – og undirbúningi annarra kosta ýmist nær lokið eða þeir í vinnslu. Í samstarfi við sveitarfélög höfum við líka stækkað Vatnajökulsþjóðgarð verulega.
Þetta markar vatnaskil.

Loftslagsmálin – orkuskiptin í fullum gangi

Loftslagsmálin eru eitt af því sem ég setti í algjöran forgang þegar ég kom inn í ráðuneytið. Ekki var þá til formleg aðgerðaáætlun í loftslagsmálum á Íslandi. Þetta breyttist og fyrsta fjármagnaða loftslagsáætlun landsins leit í kjölfarið dagsins ljós. Báðum meginþáttum hennar hefur nú verið hrint í framkvæmd: Aðgerðum varðandi orkuskipti í samgöngum og aðgerðum vegna kolefnisbindingar og endurheimtar votlendis.

Fyrr í þessum mánuði kynntum við stórfellda uppbyggingu hraðhleðslustöðva um land allt. Hraðhleðslustöðvum sem settar eru upp með fjárfestingarstyrk frá ríkinu fjölgar við þetta um 40% og nýju stöðvarnar eru auk þess þrisvar sinnum aflmeiri en þær öflugustu sem fyrir eru. Að auki er verið að koma upp neti hleðslustöðva við gististaði vítt og breitt um landið. Framsækið frumvarp verður fljótlega lagt fyrir Alþingi en í því er meðal annars gert ráð fyrir nýjum afsláttum (niðurfellingu á virðisaukaskatti) af rafhjólum, reiðhjólum, vistvænni strætisvögnum og hleðslustöðvum fyrir heimahús. Þetta bætist við margvíslegar ívilnanir til kaupa á vistvænni bifreiðum og er hluti af því að hraða orkuskiptum og breyta ferðavenjum.

Stjórnvöld hafa einmitt lagt stóraukna áherslu á breyttar ferðavenjur og má þar til dæmis nefna gríðarlega umfangsmikla áætlun um uppbyggingu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu með sveitarfélögum á svæðinu.

Kolefnisbinding og endurheimt votlendis

Í sumar kynntum við forsætisráðherra aðgerðir varðandi kolefnisbindingu. Við munum tvöfalda umfang landgræðslu og skógræktar og tífalda endurheimt votlendis. Áætlað er að þær aðgerðir sem við munum ráðast í einungis næstu fjögur ár muni skila um 50% meiri árlegum loftslagsávinningi árið 2030 en núverandi binding og 110% meiri ávinningi árið 2050.

Einungis vegna þeirra aðgerða sem við réðumst í nú í ár og sem farið verður í næstu þrjú ár munum við þannig binda árlega 2,1 milljón tonn af CO2 árið 2050. Til samanburðar var losun á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda 2,9 milljón tonn árið 2017. Við erum þannig að tala um gríðarlega viðamiklar aðgerðir í kolefnisbindingu sem hafa áhrif langt inn í framtíðina og skipta miklu til að ná kolefnishlutleysi árið 2040. Af þessu er ég stoltur.

Fleiri loftslagsaðgerðir

Við höfum líka gripið til fjölmargra annarra aðgerða í loftslagsmálum. Í gær var til að mynda opnað fyrir umsóknir í Loftslagssjóð en í gegnum hann verður hálfum milljarði króna varið á fimm árum til nýsköpunar í loftslagsmálum og fræðslu.

Grænir skattar hafa verið kynntir til sögunnar til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Gripið hefur verið til aðgerða til að draga úr matarsóun. Gert hefur verið að skyldu að gera ráð fyrir hleðslu rafbíla við allt nýbyggt húsnæði á landinu. Kolefnisgjald hefur verið hækkað í áföngum. Stóraukið hefur verið við vöktun á súrnun sjávar, jöklum, skriðuföllum og fleiri þáttum hér á landi. Og frá og með 1. janúar verður svartolía í raun bönnuð í íslenskri landhelgi.

Listinn er langt í frá tæmandi.

Allt í plasti

Þegar mér var trúað fyrir því að verða ráðherra umhverfismála ákvað ég strax að plastmálin yrðu eitt af því sem ég myndi leggja áherslu á. Plast er efni sem endist afar lengi og er því hentugt til ýmissa nota. Einmitt þessi eiginleiki þess gerir það hins vegar einstaklega óhentugt sem einnota efni.

Frá því að ríkisstjórnin hóf störf hafa lög um bann við afhendingu burðarplastpoka í verslunum verið samþykkt. Norrænu umhverfisráðherrarnir hafa samþykkt yfirlýsingu þar sem kallað er eftir nýjum alþjóðlegum samningi til að draga úr og fyrirbyggja losun plasts og örplasts í hafið. Í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu er verið að vinna frumvarp sem ég mæli fyrir á vorþingi þar sem meðal annars verður kveðið á um bann við plasthnífapörum, plastdiskum, plaströrum, drykkjarmálum og ílátum undir matvæli úr frauðplasti. Þar verða einnig spennandi hlutir eins og kröfur vegna hönnunar og samsetningar tiltekinna plastvara.

Tengt plastinu, loftslagsmálum og því að nýta auðlindir betur hefur ríkisstjórnin með VG í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu lagt áherslu á hringrásarhagkerfið og sett sérstakt fjármagn til eflingu þess – raunar hálfan milljarð króna á fimm árum. Hringrásarhagkerfið gengur út á að hugsa hlutina sem hringrás og fara til dæmis betur með hráefni, endurnýta, endurvinna og nota úrgang sem hráefni í frekari framleiðslu. Hætta að sóa auðlindum og loka heldur hringnum og nýta þær aftur. Fjármunirnir munu meðal annars verða nýttir í græna nýsköpun, til að ýta undir grænan lífsstíl og verkefni sem miða að því að minnka sóun. Hringrásarhagkerfið er það sem koma skal.

Alls konar annað …

Aukin aðkoma almennings að ákvarðanatöku um umhverfismál hefur lengi verið mér hugleikin – og að hún gerist fyrr í ferlinu en raunin hefur verið. Á þetta hef ég lagt áherslu í ráðuneytinu og á meðal stofnana þess. Ég hef því meðal annars sett af stað heildarendurskoðun á lögum um mat á umhverfisáhrifum og látið vinna áætlun um eftirfylgni Árósasamningsins en hann felur til dæmis í sér að tryggja aðgang almennings að ákvarðanatöku sem snertir umhverfið. Ég hef líka aukið fjárveitingar til reksturs umhverfisverndarsamtaa hér á landi – fyrst um 50% í ár og svo aftur um 50% á næsta ári.

Almennt hafa framlög til umhverfismála stóraukist undir stjórn VG og hafa raunar aldrei verið í líkingu við það sem nú er. Það munar um þegar fjármagn til málaflokksins eykst um 25% eins og þegar hefur orðið. Pólitískt hafa umhverfismálin aldrei haft jafnmikið vægi.

Ég er stoltur yfir öllu sem hefur áunnist á tveimur árum og þakklátur samstarfsfólki mínu í ráðuneytinu, hjá stofnunum, í pólitíkinni og vítt og breitt í samfélaginu. Það er magnað að verða vitni að þeim ótrúlega meðbyr sem er með umhverfismálunum. Loksins, loksins eru umhverfismálin komin á dagskrá.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta