Ávarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra á morgunverðarfundi um landbúnað, loftslag og náttúruvernd
Mig langar að byrja á því að bjóða ykkur öll velkomin til þessa morgunverðarfundar sem ber yfirskriftina landbúnaður, loftslag og náttúruvernd.
Þegar ég settist í stól umhverfis- og auðlindaráðherra biðu mín margvísleg spennandi verkefni. Af þeim verkefnum í stjórnarsáttmála sem heyra undir ráðuneyti umhverfis- og auðlindamála bera loftslagsmálin hæst en náttúruverndin er einnig fyrirferðarmikil. Ég einsetti mér að leggja áherslu á fjögur svið í vinnu minni sem ráðherra; loftslagsmálin, náttúruverndina, hringrásarhagkerfið og þátttöku almennings til ákvarðanatöku í umhverfismálum. Samhliða þessu voru tryggðir verulegir fjármunir til umhverfismála, eitthvað sem við sem höfðum fylgst með umhverfisumræðunni lengi fögnum mjög.
Eitt þeirra atriða sem kveðið er á um í stjórnarsáttmálanum lýtur að samstarfi við sauðfjárbændur um kolefnisjöfnun greinarinnar. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur leitt undirbúning við vinnu verkefnisins Loftslagsvænn landbúnaður í samstarfi við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Rannsóknarmiðstöð landbúnaðarins, Skógræktina og Landgræðsluna. Allar þessar stofnanir eiga það sammerkt að hafa mikil tengsl við bændur, hver á sínu sviði.
Losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði, þ.e. búfé og áburði, telur um 20% af þeirri losun sem fellur undir beina ábyrgð íslenskra stjórnvalda. Ljóst er að frumkvæði bænda sjálfra og áhugi þeirra á loftslagsmálum hefur stuðlað að því að ákvæði þessu tengt ratar í stjórnarsáttmála. Þannig hafa búgreinar sett sér markmið um kolefnishlutleysi, en til þess þarf að vinna að samdrætti í losun og auka kolefnisbindingu. Þar leynast mörg tækifæri og hér á eftir fáum við kynningu á því verkefni sem unnið hefur verið að í samstarfi ofangreindra aðila.
Verkefnið byggir á heildstæðri ráðgjöf og fræðslu fyrir bændur. Jafnframt geta þeir sótt um að vinna með sitt eigið bú, greina losun, móta aðgerðaáætlun um hvernig megi draga úr losun og vinna að henni með aðstoð. Þessir bændur munu vonandi ryðja brautina fyrir aðra, þar sem lagt verður mat á árangur mismunandi aðgerða og hvernig gengur að framkvæma þær. Þetta verkefni er mikilvægt bæði landbúnaðinum til að fá reynslu og mat á mismunandi aðgerðum og einnig stjórnvöldum til að ná heildarárangri í samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Enn sem komið er stendur þetta eingöngu sauðfjárbændum til boða, en ég hygg að hér sé komið ágætis fyrirmynd til að vinna með öllum búgreinum.
Ríkið hefur lengi stutt við landgræðslu- og skógræktarstarf innan landbúnaðarins og er nú að bæta í þann stuðning í þágu loftslagsmála. Á sama tíma fer nú fram heildarstefnumörkun fyrir landgræðslu og skógrækt en í vinnslu eru stefnumarkandi áætlanir fyrir hvorttveggja á grundvelli nýrra laga. Þær ættu að skerpa á forgangsröðun í verkefnum ríkisins og draga fram samlegð í þeim verkefnum sem verið er að sinna. Ég bind miklar vonir við alla þessa vinnu.
Í stjórnarsáttmálanum er einnig kveðið á um það að samhliða nýrri kynslóð landbúnaðarsamninga verði innleiddir sérstakir aðlögunarsamningar um nýja starfsemi til sveita. Þar er hugmyndin að bændur geti byggt upp nýjar búgreinar eða haslað sér völl á öðrum sviðum en jafnframt að samningarnir séu tímabundnir, háðir skilyrðum um byggðafestu og verðmætasköpun og geti stuðlað að nýsköpun, náttúruvernd og nýjum áherslum í rannsóknum og menntun.
Mikil samlegð er á milli landbúnaðar og náttúruverndar þegar kemur að sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda, sem felur í sér mikil tækifæri til sóknar í sveitum landsins. Landbúnaður er háður náttúrulegum aðstæðum. Því felast töluverð umhverfisleg og efnahagsleg tækifæri í að bændur nýti sér möguleg samlegðaráhrif landbúnaðar og náttúruverndar til að stunda umhverfisvænan en jafnframt ábatasaman landbúnað á jörðum sínum.
Í desember 2018 undirrituðu ég og formaður Bændasamtaka Íslands samstarfsyfirlýsingu um að vinna saman að málefnum landbúnaðar og náttúruverndar. Samstarfinu er ætlað að ná til verkefna í náttúruvernd á jörðum bænda. Markmiðið var m.a. að kanna viðhorf bænda og annarra hagaðila í landbúnaði til náttúruverndar og hvort greina mætti væntanlegan ávinning og samlegðaráhrif. Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins var falið að vinna verkefnið sem fékk vinnuheitið LOGN sem stendur fyrir Landbúnaður og náttúruvernd. Við fáum betri kynningu á því hér á eftir.
Skemmst er frá því að segja að niðurstöðurnar sýna að íslenskir bændur eru almennt jákvæðir í garð náttúruverndar og sjá fyrir sér að hægt sé að vinna að náttúruvernd samhliða landbúnaði og eru áhugasamir um að taka þátt í slíkum verkefnum. Komandi úr sveit kemur þetta mér alls ekkert á óvart.
Ásamt því að kanna viðhorf og greina samlegðaráhrif var einnig skoðað hvernig unnið er að samþættingu þessara mála erlendis. Í Evrópu snúa markmið í umhverfisvænum landbúnaði t.d. helst að framleiðslu á hágæða hráefni fyrir matvælaframleiðslu, samfélagsþjónustu í formi náttúruverndar, verndunar og viðhaldi líffræðilegrar fjölbreytni, búsvæða og vistkerfa, kolefnisbindingar, vatns- og jarðvegsverndunar auk þess sem þau tengjast því að viðhalda aldagömlum búskaparháttum, menningu og hefðum.
Næstu skref í LOGN-verkefninu verða að greina í samstarfi við bændur, fagstofnanir, samtök og aðra hagaðila, hvaða verkefni í náttúruvernd geti hentað á völdum landbúnaðarjörðum. Þegar sú greining liggur fyrir gerum við ráð fyrir að vinna tillögur um hvernig náttúruverndarverkefni í landbúnaði í samstarfi stjórnvalda og bænda gætu litið út.
Aukin þátttaka bænda í náttúruverndarverkefnum getur stutt við ímynd hreinleika og heilnæmi íslenskra landbúnaðarafurða. Ég er virkilega spenntur að sjá hver útkoman verður því ég er ekki í nokkrum vafa um að það geti styrkt bændur enn frekar sem vörslumenn lands.
Hér í dag fáum við kynningu á því hvernig þetta spilar allt saman, landbúnaður, loftslags og náttúruvernd og að lokinni kynningu og umræðum munum við undirrita samning um verkefnið Loftslagsvænni landbúnaður til næstu fimm ára.
Njótið morgunmatsins og ég bið Guðrúnu Tryggvadóttur, formann Bænadasamtaka íslands að stýra hér fundi.