Grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra - Uppbygging til framtíðar
Eftirfarandi grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra birtist í Fréttablaðinu 10. mars 2020.
Uppbygging til framtíðar
Í gær úthlutuðum við ferðamálaráðherra rúmum 1,5 milljarði til uppbyggingar innviða á náttúruverndarsvæðum og ferðmannastöðum á árinu 2020. Að auki rennur hér um bil hálfur milljarður sérstaklega til aukinnar landvörslu á árinu.
Framkvæmdasjóður ferðmannastaða og Landsáætlun um uppbyggingu innviða var hrundið af stað til þess að bregðast við auknum straumi ferðamanna á svæði sem oft voru illa undir hann búin. Ef við horfum nokkur ár aftur í tímann þá bárust okkur tíðar fréttir af því að náttúran á vinsælum ferðamannastöðum væri undir miklu álagi. Ég tel að við höfum nú náð að spyrna í botninn og snúa þróuninni við. Það skilar sér í vernd viðkvæmrar náttúru og jákvæðari upplifun ferðamanna, en meira en þúsund verkefni hafa hlotið fjármagn frá árinu 2012.
Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum er á minni könnu sem umhverfis- og auðlindaráðherra. Í gegnum hana mun á næstu þremur árum renna stóraukið fjármagn til ýmissa verkefna á landi sem stofnanir ríkisins bera ábyrgð á. Til dæmis á friðlýstum svæðum, þar með talið innan þjóðgarðanna þriggja; þjóðgarðsins Snæfellsjökuls, þjóðgarðsins á Þingvöllum og Vatnajökulsþjóðgarðs.
Innan þess síðastnefnda verður til að mynda ráðist í uppbyggingu útsýnispalls í Ásbyrgi, stígs á fjallið Laka í Lakagígum, lagningu hjóla- og reiðleiðar í Jökulsárgljúfrum ásamt því að gera gangskör í fráveitumálum í Skaftafelli. Þetta eru bara nokkur dæmi af um 200 verkefnum á um 100 stöðum vítt og breitt um landið sem unnið verður að næstu þrjú árin í gegnum Landsáætlunina.
Enn er þörf á frekari uppbyggingu á ferðamannastöðum en þó er ljóst að mörg svæði hafa tekið stakkaskiptum með styrkingu innviða og aukinni landvörslu. Við verðum að horfa til framtíðar í þessum efnum og tryggja sjálfbæra þróun í samspili ferðaþjónustu og náttúru. Það gerum við með því að vernda auðlindina sem er undirstaða atvinnugreinarinnar; náttúruna sjálfa.