Ávarp Guðmundar Ing Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra á Xll. Umhverfisþingi
Kæru þinggestir!
Umhverfisþing er liður í að tala saman, miðla þekkingu, gagnrýna, veita hvert öðru innblástur, hvetja áfram, heimta framfarir og árangur og næra okkur og nesta. Leyfum þessu umhverfisþingi að vera svoleiðis þing.
Þegar ég tók við sem umhverfis- og auðlindaráðherra þá var þrennt sem ég vildi styrkja sérstaklega sem ákveðnar grundvallarundirstöður fyrir málaflokkinn.
Í fyrsta lagi að styrkja undirstöður vísinda- og rannsóknanálgunar við ákvarðanatöku.
Í öðru lagi að auka fjármagn til málaflokksins.
Og, í þriðja lagi að beita mér fyrir aukinni opinberri umfjöllun um umhverfis- og náttúruverndarmál.
Með þessu móti myndum við sem samfélag betur geta tekist á við þær risavöxnu áskoranir sem við stöndum frammi fyrir.
Ef ég fer yfir þessi atriði í öfugri röð, þá hefur umfjöllun um umhverfismál aukist gríðarlega á undanförnum árum, þó hún hafi dregist saman eftir að covid skall á. Loftslagsmálin eru sennilega fyrirferðamest núna enda síaukinn alþjóðlegur þungi settur á þau – og það með réttu.
Fjármagn til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins hefur aukist um u.þ.b. 50% frá því ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við stjórnartaumunum.
- Þannig hafa til dæmis framlög til loftslagsmála bara í ráðuneyti mínu aukist um 800% á kjörtímabilinu. Þá eru ekki taldar aðgerðir í samgöngumálum eða skattaívilnanir í gegnum fjármálaráðuneytið.
- Landvörðum og heilsársstöðugildum í náttúruvernd hefur fjölgað og nú er tæpum milljarði varið árlega í uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarminjum.
- Fjármagni er nú sérstaklega beint í innleiðingu hringrásarhagkerfis, til framkvæmda í frárennslismálum og aukning hefur orðið vegna náttúruvár, ekki síst til ofanflóðavarna.
Nú eru ekki bara settar fram vel unnar og ígrundaðar áætlanir, heldur fylgir þeim fjármagn.
- Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum er fjármögnuð,
- Úrgangsstefna er fjármögnuð, aðgerðaáætlun vegna plastmengunar og aðgerðaáætlun gegn matarsóun sömuleiðis,
- Hálendisþjóðgarður er fjármagnaður, og ný friðlýst svæði fá strax fjármagn og landvörslu þar sem það á við.
Þetta skiptir sköpum.
Og þá að fyrsta atriðinu – um vísindalega nálgun. Við höfum byggt ákvarðanir á vísindalegu mati hér eftir sem hingað til. Á því byggja þær áætlanir sem ég nefndi hér að ofan. En ég hef líka lagt ríka áherslu á að efla rannsóknir, nýsköpun og vöktun sem mun skila sér við ákvarðanatöku í framtíðinni.
- Ný markáætlun Vísinda- og tækniráðs ber þessa glöggt vitni, en þar fara um 150 m.kr. árlega í þrjú ár í umhverfis- og sjálfbærnirannsóknir,
- nýr Loftslagssjóður styrkir nú nýsköpun og fræðslu um a.m.k. 100 m.kr. árlega.
- Við höfum aukið fjármagn til rannsókna á súrnun sjávar, vöktun jökla, sjávaryfirborðshækkun, skriðuföllum og kortlagningu jarðminja.
- Og, ekki má gleyma verkefni um vöktun náttúru á ferðamannastöðum sem við munum hleypa formlega af stokkunum með Náttúrufræðistofnun og náttúrustofunum núna í vor.
- Á næstunni munum við svo tilkynna um aukið fjármagn til rannsókna og vöktunar er tengjast aðlögun að loftslagsbreytingum annars vegar og kolefnisbindingu hins vegar.
Kæru þinggestir!
Á þessu 12. Umhverfisþingi beinum við sjónum að loftslagsmálum, hringrásarhagkerfi og náttúruvernd.
Aðgerðir í loftslagsmálum eru stærsta velferðar- og efnahagsmál þessarar aldar. Grundvöllur fyrir því að geta rétt af misskiptingu og félagslegt óréttlæti í heiminum, grundvöllur fyrir því að stöðva útrýmingaröldu tegunda og ósjálfbæra nýtingu auðlinda okkar.
Á þessu kjörtímabili höfum við farið úr pólitískri kyrrstöðu yfir í raunverulegan árangur í loftslagsmálum. 2% samdráttur varð í losun gróðurhúsalofttegunda milli áranna 2018 og 2019 en þetta er mesti samdráttur sem við höfum séð síðan árið 2012. Þarna skiptir miklu máli samdráttur í losun frá vegasamgöngum og úrgangi. Og höfum í huga að þetta er áður en kórónuveiran skall á.
Ég geri mér samt algerlega grein fyrir því að á næstu árum þarf samdráttur að aukast enn meira, en kyrrstaðan hefur verið rofin.
Og það er fleira að gerast í loftslagsmálum. Við vinnum nú að fyrstu stefnu Íslands um aðlögun að loftslagsbreytingum, lögfestingu markmiðs um kolefnishlutleysi og að sviðsmyndum um hvernig við getum náð því árið 2040. Þá hefur Ísland hert markmið sitt um samdrátt nýlega og styrkt stjórnsýslu loftslagsmála til muna á síðustu árum.
Hringrásarhagkerfið hefur fengið verðskuldaða athygli stjórnvalda og fyrirtækja á síðustu árum. Í ráðuneytinu hefur það birst í metnaðarfullri stefnu um úrgangsmál, aðgerðaáætlun um plastmengun og annarri áætlun um matarsóun – allt með tilheyrandi tillögum að lagabreytingum sem nú liggja fyrir Alþingi eða hafa þegar orðið að lögum.
Hringrásarhagkerfið með fjölgun grænna starfa og grænum hagvexti er framtíðin.
Í náttúruverndinni, höfum við aukið fjármagn til landgræðslu þannig að aðgerðir okkar munu meira en tvöfaldast og umfang aðgerða í endurheimt votlendis meira en tífaldast. Ég stefni á að ljúka og samþykkja nýjar landsáætlanir í landgræðslu og skógrækt áður en kjörtímabilinu lýkur, þeim fyrstu á grundvelli nýrra laga um málaflokkinn.
Sumarið 2018 setti ráðuneytið og Umhverfisstofnun í gang átak í friðlýsingum. Nú hafa 16 svæði verið friðlýst, þar af margar af okkar helstu perlum, eins og Jökulsá á Fjöllum, Geysir og Látrabjarg. Ég vonast til að klára friðlýsingu um 15 svæða til viðbótar áður en kjörtímabilinu lýkur.
Þá vonast ég til að okkur takist að stofna tvo þjóðgarða fyrir lok kjörtímabilsins: Hálendisþjóðgarð og þjóðgarð á sunnanverðum Vestfjörðum.
Kæru vinir! Friðlýsingarhjólin snúast nú sem aldrei fyrr.
Kæru þinggestir.
Þrjú ár eru bæði langur tími og stuttur. Þegar ég lít til baka þá finnst mér margt hafa áunnist. En það er líka margt eftir.
Hlutdeild umhverfismálanna í daglegri umræðu og mikilvægi þeirra í hugum fólks hefur tekið risastórt stökk frá því sem var og það er mörgu fólki að þakka. Fjármagn hefur aldrei verið meira í málaflokknum. Við sjáum nú árangur af stefnubreytingu á kjörtímabilinu birtast í samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda, í auknum orkuskiptum og endurheimt vistkerfa, í nýjum friðlýsingum, í aðgerðum gegn plastmengun og í aukinni nýsköpun og rannsóknum. Þetta er afrakstur vinnu fjölda fólks hjá ríki og sveitarfélögum, fyrirtækjum, félagasamtökum og einstaklingum – sem ég er óendanlega þakklátur fyrir. Sérstaklega vil ég þó þakka samstarfsfólki mínu í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.
Þessi breytta staða umhverfismálanna gefur mér von. Og, á þessum undirstöðum þurfum við að byggja áframhaldandi sókn Íslands í umhverfismálum.
Þetta leiðir hugann að spurningunni um hvað sé næst?
Í loftslagsmálum þurfum við að setja okkur enn metnaðarfyllri markmið fyrir árið 2030, þar sem auknar aðgerðir til samdráttar í losun frá sjávarútvegi, landbúnaði og frá byggingariðnaði eru lykilatriði.
Við þurfum að skoða sérstaklega að beita skattkerfinu enn frekar í þágu umhverfis- og loftslagsmála, t.d. hvað varðar flug, og ýta enn frekar undir grænar fjárfestingar.
Við þurfum að aðlaga styrkjakerfi landbúnaðarins að loftslagsvænni búskaparháttum, og setja í lög að ekki verði leyfð olíuleit eða olíuvinnsla í íslenskri efnahagslögsögu.
Við eigum að halda áfram að efla hringrásarhagkerfið. Gera kröfur um umhverfisvænni hönnun og framleiðslu svo hægt sé að nýta hluti lengur, laga og gera við þá, og endurvinna. Og, úrgang þarf að meðhöndla sem verðmætt hráefni í nýjar vörur.
Plastskrímslið verðum við að sigra, með nýjum alþjóðlegum samningi og markvissum aðgerðum heima fyrir.
Við þurfum líka að huga mun betur að efnamálum, þeim efnum sem við notum en mörg þeirra ógna heilsu manna og dýra.
Við þurfum að efla náttúruverndina enn frekar og búa til eina stofnun sem fer með náttúruverndarmál, þar með talið landgræðslu og skógrækt og menningarminjar.
Við þurfum stefnu og áætlun til að tryggja net verndarsvæða í hafi.
Við þurfum sérstaka áætlun um vernd víðerna og votlendis og við þurfum að fjölga þjóðgörðum á Íslandi. Verða þjóðgarðalandið Ísland.
Og, að lokum þá þurfum við að taka miklu alvarlegar hættuna af ágengum framandi tegundum, sem geta með tíð og tíma gerbreytt vistkerfum og ásýnd landsins okkar.
Ég hef hér nefnt nokkur dæmi um verkefnin fram undan sem draga má í eina setningu: Við þurfum að setja náttúruna og loftslagið í fyrsta sæti. Það er mikilvægt náttúrunnar sjálfrar vegna en það mun líka skila sér í aukinni hagsæld og betri lýðheilsu.
Kæru þinggestir.
Við þurfum að taka mun stærri skref á næstu 10 árum en tekin hafa verið á síðustu tíu árum. Næstu tíu ár munu ráða úrslitum um afdrif Jarðarinnar okkar.
Við höfum verk að vinna. Nýtum meðbyrinn og nýtum kraftinn sem við búum öll yfir. Ég segi XII. Umhverfisþing sett.