Hoppa yfir valmynd
10.05.2024 Matvælaráðuneytið

Riðulaust Ís­land! - Grein birt á Vísi 9. maí 2024

Nú liggur fyrir landsáætlun um riðuveikilaust Ísland sem ég hef birt í samráðgátt. Markar sú mikla vinna sem hefur átt sér stað innan matvælaráðuneytisins vatnaskil í baráttunni við riðuveiki á Íslandi og bind ég miklar vonir við breytta nálgun sem boðuð er í henni.

Það er mikið kappsmál fyrir okkur öll, en ekki síst fyrir innlendan landbúnað að við náum tökum á riðuveiki sem hefur um langt skeið valdið harmkvælum í búskap, bæði fyrir menn og dýr. Með þeim áformum sem kynnt eru verða stigin markviss skref í áttina að því að útrýma þessum vágesti og skapa aðstæður til að létta jafnt og þétt íþyngjandi höftum af sauðfjárbændum sem á þeim hafa hvílt í um 80 ár. Samhliða minnka fjárútlát hins opinbera vegna aðgerða, niðurskurðar á fé, greiningu riðusýna og viðhaldi varnargirðinga.

Breytt nálgun, bætt heilsa og velferð dýra

Til þess að útrýma riðuveiki verður megináhersla lögð á að útrýma veikinni með ræktun fjárstofns sem ber verndandi arfgerðir gegn smitefninu en slíkar aðgerðir eru þegar hafnar. 86% sæðingastyrkja vegna sæðinga á vegum sauðfjársæðingastöðva á síðasta ári runnu til sæðinga með hrútum sem bera verndandi arfgerð gegn riðuveiki svo dæmi séu tekin. Afar mikilvægt er að fjármunir til verkefnisins eru tryggðir.

Aðgerðir stjórnvalda gegn riðu verða áhættumiðaðar, stigvaxandi og gerir áætlunin ráð fyrir flokkun á riðubæjum, áhættubæjum og öðrum bæjum í áhættuhólfi. Öllum sauðfjáreigendum verður skylt að rækta gegn riðuveiki í samræmi við markmið landsáætlunar. Gert er ráð fyrir að bætur taki mið af framgangi ræktunar miðað við ræktunarmarkmiðin. Samhliða almennri kröfu um ræktun verndandi arfgerða er krafa um að á riðubæjum verði eingöngu fé sem ber verndandi eða mögulega verndandi arfgerðir.

Með þessum aðgerðum má treysta heilbrigði sauðfjár en heilbrigði dýra er lykilþáttur í velferð þeirra. Við höfum af því allan hag að bæta umgengi okkar við dýrin sem við höldum til manneldis, þessi áætlun er varða á þeirri leið og mikið framfaraskref fyrir íslenskan landbúnað!

Að endingu

Nú er áætlunin komin í samráð. Vandað hefur verið til verka og hefur viðleitni íslenskra bænda til verkefnisins verið jákvæð. Starfshópurinn hefur unnið góða vinnu, en hana leiddi Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir, ásamt þeim Trausta Hjálmarssyni, Eyþóri Einarssyni, Sigurbjörgu Ólöfu Bergsdóttur og Auði Lilji Arnþórsdóttur. Kann ég þeim miklar þakkir fyrir sín störf og vona að áætlunin komist til framkvæmdar hið fyrsta.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta