Hoppa yfir valmynd
24.05.2024 Innviðaráðuneytið

Leyniþjónusta við Leifsstöð

Almenningssamgöngur til Keflavíkurflugvallar hafa ekki þróast í takt við breyttar þarfir nútímans. Mörg þurfa að ferðast um langan veg til Keflavíkur og hafa ekki kost á því að fara á einkabíl og geyma hann við flugvöllinn á meðan á ferðalaginu stendur. Sístækkandi hópur velur svo að eiga ekki einkabíl og eitt af því sem gerir það mögulegt eru aðgengilegar almenningssamgöngur. Þær þurfa að vera öflugar innan þéttbýlis en þær þurfa ekki síður að vera aðgengilegar svo við komumst auðveldlega út í heim og heim aftur.

Það er ekki staðan í dag. Undanfarin ár hefur ítrekað verið bent á að tímatöflur almenningssamgangna bjóði ekki upp á að farþegar geti náð morgunflugum frá Keflavíkurflugvelli. Þá er stoppistöð staðsett nokkuð langt frá flugstöðinni með tilheyrandi óhagræði og neikvæðum áhrifum á þau sem hafa skerta hreyfigetu. Auk þess er sýnileiki almenningssamganga á flugvallarsvæðinu með þeim hætti að þjónustunni mætti líkja við leyniþjónustu.

Úrbætur þola enga bið

Til lengri tíma þarf raunin að vera sú að við tengipunkt Íslands við umheiminn sé almennileg og vel staðsett aðstaða fyrir almenningssamgöngur. Víðast hvar í þeim löndum sem við berum okkur saman við eru hágæðasamgöngutengingar á flugvöllum, en ekki stoppistöðvar langt frá flugstöðvum sem bjóða ferðalöngum upp á að norpa úti í næðingi meðan beðið er. Metnaður okkar þarf að vera meiri en svo. Það þjónar bæði hagsmunum Íslendinga á leið heim og að heiman en ekki síður hagsmunum þeirra fjölmörgu ferðalanga sem hingað koma til þess að njóta íslenskrar náttúru og menningar.

Upphafsstöðvar almenningssamgangna í þéttbýli þurfa einnig að vera þannig að sómi sé að og aðgengismál þurfa að uppfylla kröfur. Slíkar umbætur taka tíma og þær þarf að skoða í samhengi við uppbyggingu hágæðaalmenningssamgangna innan höfuðborgarsvæðisins. Fjárfesting í almenningssamgöngum er fjárfesting fyrir okkur öll og ekki síst þau sem kjósa að nýta þær ekki, því tímasparnaður þeirra sem kjósa að ferðast með einkabílnum eykst þegar fleiri kjósa að ferðast með almenningssamgöngum.

Almenningssamgöngur eru áherslumál

Ég legg mikla áherslu á að uppbygging almenningssamgangna verði í forgrunni í innviðaráðuneytinu. Við högnumst öll á því að efla þennan samgöngumáta þannig að við drögum úr þeim mikla tíma sem fer til spillis í umferðinni á viku hverri. Það er langtímaverkefni fyrir samfélagið allt. Vinna stendur yfir við að greina leiðir til að bæta almenningssamgöngur til Keflavíkurflugvallar í sérstökum starfshópi á vegum innviðaráðuneytisins. Ég á von á því að fá þaðan tillögur til úrbóta bráðlega, sem hægt er að hrinda í framkvæmd þannig að þessi þjónusta verði betri, og okkur öllum til sóma.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum