Hoppa yfir valmynd
10.06.2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Fögnum lýðveldinu

Handan við hornið er merkisáfangi í sögu íslensku þjóðarinnar en þann 17. júní næstkomandi verða liðin 80 ár frá því að stofnun lýðveldisins átti sér stað hér á landi. Með því lauk sambandi milli Íslands og Danmerkur sem staðið hafði yfir í aldir og stjórnarfarinu sem við þekkjum í dag var komið á. Á ferðum og fundum mínum undanfarið bera þessi tímamót nokkuð reglulega á góma í samtölum mínum við fólk. Þökk sé góðu langlífi hér á landi er drjúgur hópur núlifandi Íslendinga sem fæddist undir dönskum kóngi. Áttatíu ár eru í raun ekki það langur tími þegar maður hugsar út í það, en breytingarnar sem orðið hafa á íslensku samfélagi eru ótrúlegar. Frá því að vera eitt fátækasta ríki Evrópu, yfir í það að vera í fremstu röð lífskjara í heiminum samkvæmt helstu mælingum. Þannig hefur sjálfstæðið reynst blessun í sókn okkar fram á við, blásið í okkur enn frekari kjarki til þess að gera betur. Það er óbilandi trú mín að það stjórnarfar sem er farsælast byggist á því að ákvarðanir um velferð fólks eru teknar sem næst fólkinu sjálfu.

Lýðveldið er hraust og sprelllifnandi eins og nýafstaðnar forsetakosningar eru til vitnis um. Öflugur hópur frambjóðenda gaf þar kost á sér til að gegna embætti forseta Íslands, fjölmargir sjálfboðaliðar lögðu forsetaframbjóðendum lið með ýmsum hætti og kjörsókn var sú besta í 28 ár. Allt upptalið er mikið styrkleikamerki fyrir lýðræðissamfélag eins og okkar. Því miður er sótt að lýðræði og gildum þess víða um heim í dag. Það er óheillaþróun sem sporna þarf við. Lýðræðið þarf nefnilega að rækta og standa vörð um. Þar gegnir virkt þátttaka borgaranna lykilhlutverki, hvort sem það felst í að bjóða sig fram til embætta, skrifa skoðanapistla, baka vöfflur í kosningabaráttu, bera út kosningabæklinga eða mæta á kjörstað. Allt þetta er hluti af virku lýðræðisþjóðfélagi.

Mikilvægur hluti af því að rækta lýðveldið og lýðræðið er að fagna því og halda upp á mikilvæga áfanga í sögu þess. Komandi lýðveldisafmæli er einmitt slíkur áfangi en fjölbreytt hátíðardagskrá verður út um allt land í tilefni af 17. júní. Einnig hefur nefnd skipuð fulltrúum forsætisráðuneytisins, menningar- og viðskiptaráðuneytisins, skrifstofu Alþingis, skrifstofu forseta Íslands og Þingvallaþjóðgarðs. Nefndin hefur unnið að undirbúningi viðburða til að halda upp á tímamótin um allt land á næstu mánuðum.

Sjálf mun ég fagna þjóðhátíðardeginum vestur á Hrafnseyri, fæðingastað Jóns Sigurðssonar, þar sem verður skemmtileg dagskrá í tilefni lýðveldisafmælisins og einnig 1150 ára afmælis Íslandsbyggðar. Ég vil hvetja sem flesta til þess að taka þátt í að fagna 80 ára afmæli lýðveldisins, enda er það fjöregg okkar sem við verðum að hlúa að til framtíðar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta