Hoppa yfir valmynd
10.06.2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Lögréttutjöld Alþingis komin heim eftir 166 ár

Lilja Dögg Alfreðsdóttir og Sigrún Magnúsdóttir

Íslensk menning og menningararfur hefur breitt úr sér víða, þar á meðal má nefna hin svokölluðu Lögréttutjöld sem eru hluti af þingsögu okkar Íslendinga, sem er einstök á heimsvísu. Lögréttutjöldin eru í raun tvö mislöng rúmtjöld úr ull og líni sem hafa verið saumuð saman eftir langhliðinni. Þau eru fagurskreytt með útsaumi og áletrunum. Á öðru tjaldinu má finna spakmæli en á hinu brot úr passíusálmi eftir Hallgrím Pétursson. Tjöldin eru kennd við Lögréttuhúsið sem stóð á Þingvöllum þar sem Alþingi Íslendinga hafði þingað frá árinu 930. Fyrir byggingu hússins var ávallt þingað og réttað undir berum himni, en með tímanum dró úr vinsældum þess sökum síbreytilegs veðurs og vinda hér á landi eins og núlifandi kynslóðir þekkja mætavel.

Lögréttutjöldin eru talin hafa hangið í Lögréttuhúsinu á árabilinu 1700 og allt þar til Lögrétta var lögð af á Þingvöllum árið 1798 er Magnús Stephensen, fyrrverandi landfógeti og dómstjóri í Landsyfirrétti, ákvað að færa þinghaldið frá Þingvöllum og til Leirár þar sem hann bjó. Á þeim tímamótum hafa tjöldin verið tekin niður og farið á flakk sem erfitt er að ráða í með vissu þar til þau enda í höndum dr. Hallgríms Schevings fræðimanns og kennara í Bessastaðaskóla. En árið 1858 selur hann þau eða gefur til Skotans og sérlegs áhugamanns um Ísland, Roberts Mackeys Smiths, sem fer með þau til Skotlands þar sem hið nýstofnaða Þjóðminjasafn Skota keypti tjöldin.

Það er í raun lítið vitað um tilkomu tjaldanna, til að mynda hverjir saumuðu hin fagurskreyttu tjöld, hverjir kostuðu gerð þeirra og svo framvegis, þótt gera megi ráð fyrir því að nokkrar þaulvanar saumakonur hafi þurft til verksins enda eru tjöldin nokkuð stór. Þótt lítið sé vitað um uppruna Lögréttutjaldanna með vissu leikur enginn vafi á að þau eru glæsileg og hafa verið Lögréttu til mikillar prýði.

Tjöldin hafa verið geymd í fórum skoska Þjóðminjasafnsins allar götur síðan árið 1858 þar til fyrir skemmstu þegar lán milli Þjóðminjasafns Íslands og Þjóðminjasafns Skota raungerðist. Lánið er afrakstur vinnu sem var hrundið af stað á vegum menningar- og viðskiptaráðuneytisins eftir að önnur undirrituð, Sigrún Magnúsdóttir, vakti athygli menningarmálaráðherra á tjöldunum í tilefni af 80 ára afmæli lýðveldisins Íslands.

Þeir eru teljandi á fingrum annarrar handa munirnir sem eru taldir tengjast þinghaldi á Þingvöllum. Það er því sérlega ánægjulegt að sjá það raungerast að fá íslenskan menningararf sem þennan heim til Íslands eftir 166 ára fjarveru. Í gær, 14. júní, var á Þjóðminjasafninu opnuð sýning um Lögréttutjöldin þar sem gestir og gangandi geta barið þau augum. Það skiptir hverja þjóð máli að þekkja menningararf sinn, vita hvar hann er niðurkominn, og gera það sem þarf að gera til að miðla honum til komandi kynslóða. Þannig mun fágæt en áþreifanleg saga frá Lögréttu birtast okkur á Þjóðminjasafni Íslands, sem vert er að gera sér ferð til að skoða.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta