Hoppa yfir valmynd
14.06.2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Ferðaþjónustan: Burðarás í efnahagslífinu

Ferðaþjónustan:

Burðarás í efnahagslífinu

 

Ísland er einstakur áfangastaður á heimsvísu sem eftirsótt er að heimsækja. Eitt af forgangsmálum í menningar- og viðskiptaráðuneytinu á undanförnum misserum er að búa ferðaþjónustunni sterkari umgjörð til þess að vaxa, dafna og skapa aukin verðmæti fyrir íslenskt samfélag. Ný ferðamálastefna til ársins 2030 og aðgerðaáætlun henni tengd liggur nú fyrir þinginu en stefnan mun vísa veginn fram á við. Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá marsmánuði 2010 þegar að eldgos hófst í Eyjafjallajökli. Þessi jarðfræðilegi atburður átti eftir að marka straumhvörf fyrir íslenska ferðaþjónustu sem hefur tekið miklum breytingum á þeim rúmu 14 árum sem liðin eru frá gosinu. 14 ár eru ekki sérlega langur tími en það er ánægjulegt að sjá þann árangur sem náðst hefur í uppbyggingu ferðaþjónustunnar á Íslandi. Það gefur augaleið að það að taka á móti um hálfri milljón ferðamanna árið 2010 og svo 2,2 milljónum ferðamanna árið 2023 er talsverð breyting sem verður ekki án áskorana. Þegar horft er yfir farinn veg er hægt að fullyrða að á ýmsan hátt hafi tekist vel til við að vinna úr þeim vaxtaverkjum sem fylgt hafa auknum umsvifum í ferðaþjónustunni á ekki lengri tíma. Fjárfest hefur verið myndarlega í innviðum og  uppbyggingu áfangastaða, má þar nefna að Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hefur veitt styrki til um 900 verkefna fyrir rúma 8,2 milljarða kr á umliðnum árum. Ferðaþjónustan hefur að sama skapi bætt búsetuskilyrði í landinu öllu, en um er að ræða stærstu sjálfsprottnu byggðaaðgerð Íslandssögunnar. Hærra atvinnustig  og stóraukið framboð af þjónustu í afþreyingu, gistingu, mat og drykk auk greiðara aðgengis að náttúruperlum eru gæði sem íbúar landsins jafnt sem erlendir gestir njóta góðs af.

 

Styrkari staða þjóðarbúsins

Samhliða þessum aukna vexti ferðaþjónustunnar hefur átt sér stað mikil breyting til hins betra á stöðu þjóðarbúsins. Þannig hefur ferðaþjónustan orðið að nýrri stoð í efnahagslífinu en hlutur greinarinnar sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hefur farið úr því að vera 3,4% árið 2010 í að vera 7,8% árið 2022. Algjör umskipti hafa orðið á viðskiptajöfnuði þjóðarbúsins með tilkomu og vexti ferðaþjónustunnar, sem skapar stöðugan straum gjaldeyristekna. Það má meðal annars greina í stöðu gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans og vaxandi eignum lífeyrissjóða á erlendri grundu. Þannig skapaði greinin 448 milljarða kr. í gjaldeyristekjur árið 2022 samanborið við 163 milljarða árið 2010. Heildarneysla innlendra og erlendra ferðamanna hér á landi 2022 nam 635 milljörðum kr., sem gerir um 1,7 milljarða kr. í tekjur á dag. Þessi mikli gjaldeyrisstraumur sem ferðaþjónustan skapar skiptir lítið og opið hagkerfi eins og okkar gríðarlegu máli. Hann styður við gengi krónunnar og stuðlar þannig að lægri verðbólgu en ella ásamt því að þjóna sem öryggissjóður ef stór og óvænt áföll eiga sér stað sem  geta haft neikvæð áhrif á gjaldeyrisöflun. Á meðfylgjandi myndum má sjá hvernig hlutur þjónustujafnaðarins hefur vaxið mjög á meðal undirliða viðskiptajafnaðarins sem rekja má til ferðaþjónustunnar ásamt þeim jákvæðu umskiptum sem orðið hafa á viðskiptajöfnuði þjóðarbúsins.

 

Mynd 1:Undirliðir viðskiptajafnaðar. Heimild: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands

 

 

Mynd 2: Þróun viðskiptajafnaðarins. Heimild: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands

 

Nýtt þjóðhagslíkan fyrir ferðaþjónstuna

 

Ferðaþjónustan hefur sýnt að hún getur skapað umtalsverðar gjaldeyristekjur á nokkuð skömmum tíma og þannig hreyft við mikilvægum hagstærðum. Til þess að mæla betur áhrif breytinga í starfsumhverfi ferðaþjónustunnar var ráðist í smíði á sérstöku þjóðhagslíkani fyrir íslenska ferðaþjónustu sem er nú lokið. Um er að ræða fyrsta þjóðhagslíkan fyrir atvinnugrein hérlendis. Ferðamálastofa hefur haldið á framkvæmd verkefnisins fyrir hönd menningar- og viðskiptaráðuneytisins en annars vegar er um að ræða sérstakt þjóðhagslíkan fyrir íslenska ferðaþjónustu eða svokallað geiralíkan og hins vegar útvíkkun á spálíkani Seðlabanka Íslands/Hagstofu Íslands. Líkanið mun gera stjórnvöldum og öðrum hagaðilum kleift að skoða með raunhæfum hætti áhrif breytinga á helstu forsendum ferðaþjónustu á hag greinarinnar sem og þjóðarbúsins alls — og öfugt. Þar má nefna sem dæmi áhrif ferðaþjónustunnar á þjóðhagsstærðir eins og VLF og atvinnustig, s.s. við farsóttir, miklar breytingar á flugsamgöngum eða ferðavilja, og áhrif gengis, verðlags, atvinnustigs og skattabreytinga á ferðaþjónustuna. Líkanið mun styðja enn frekar við stefnumótun stjórnvalda og ákvarðanatöku þegar kemur að málefnum ferðaþjónustunnar og samkeppnishæfni Íslands sem áfangastaðar. Þar verðum við að vera stöðugt á tánum enda hefur alþjóðleg samkeppni um ferðamenn aukist á okkar lykilmörkuðum.

 

Ný ferðamálastefna til 2030 markar tímamót

Umfangsmikil vinna liggur að baki nýrri ferðamálastefnu til ársins 2030 og aðgerðaáætlun henni tengdri en sjö starfshópar unnu að stefnunni, sem skipaðir eru 6-8 sérfróðum aðilum. Ferðaþjónustan er fjölbreytt og skemmtileg atvinnugrein, sem endurspeglast einmitt í hópunum en þeir náðu utan um sjálfbærni og orkuskipti, samkeppnishæfni og verðmætasköpun, rannsóknir og nýsköpun, uppbyggingu áfangastaða, hæfni og gæði, heilsu-, veitinga- og hvataferðaþjónustu og svo menningartengda ferðaþjónustu. Til frekari upplýsingaöflunar voru einnig haldnir opnir fundir hringinn í kringum landið sem voru vel sóttir af haghöfum í greininni.


Framtíðarsýn íslenskrar ferðaþjónustu er að vera leiðandi í sjálfbærri þróun á grunni efnahagslegs og samfélagslegs jafnvægis. Í því felst að ferðaþjónustan sé arðsöm og samkeppnishæf, í sátt við náttúru, íslenska menningu og tungu. Það skiptir miklu máli að hlúa að ferðaþjónustunni um allt land og skapa þannig skilyrði að hægt sé að lengja ferðamannatímabilið hringinn í kringum landið. Það skiptir sköpum til þess að gera ferðaþjónustuna að heilsársatvinnugrein sem víðast og undirbyggja þannig betri skilyrði fyrir auknar fjárfestingar á fleiri stöðum. Á undanförnum mánuðum höfum við til að mynda séð það raungerast að stuðningur við opnun fleiri gátta inn í landið, til að mynda með beinu millilandaflugi á landsbyggðinni yfir vetrarmánuðina, hefur stutt við vegleg uppbyggingaráform í hótelrekstri á Akureyri og nágrenni sem mun styrkja áfangastaðinn Norðurland enn frekar.

 

Ferðaþjónusta fram á veginn 

Íslandi hefur heilt yfir vegnað mjög vel í ferðaþjónustu frá árinu 2010. Þannig var til dæmis viðnámsþróttur áfangastaðarins Íslands mikill í kjölfar heimsfaraldursins og leið ekki á löngu þar til við höfðum náð fyrri styrk nokkuð hratt og örugglega miðað við samkeppnislönd okkar og ánægjuvog ferðamanna sem heimsótt hafa Ísland er með því hærra sem gengur og gerist í heiminum. Þetta er samt sem áður ekki sjálfgefin þróun en markviss og myndarlegur stuðningur við markaðssetningu á Íslandi sem áfangastað í gegnum heimsfaraldurinn er lykilatriði. Í þeirri hörðu alþjóðlegu samkeppni sem ríkir um ferðamenn má ekki sofna á verðinum. Að undanförnu höfum við séð merki um samdrátt í bókunum hingað til lands sem verður að taka alvarlega. Þar spila meðal annars inn í jarðhræringar, hátt verðlag og staðan í heimsmálunum svo dæmi séu tekin. Að sama skapi þurfa stjórnvöld að stíga inn og tryggja nægan slagkraft í markaðssetningu á okkar lykilmörkuðum í samstarfi við atvinnulífið. Samdráttur í ferðaþjónustu getur leitt af sér minnkun í tekjum ríkissjóðs en heildarskattspor ferðaþjónustu árið 2022 nam 155 milljörðum kr. Samdráttur í ferðaþjónustu getur einnig hoggið skarð í gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins sem leiðir af sér veikara gengi og þar með hærra verð á innfluttum vörum sem ýtir undir verðbólgu. Framtíð íslenskrar ferðaþjónustu er engu að síður björt, enda er Ísland einstakur áfangastaður og í ferðaþjónustu starfar fjöldinn allur af fagfólki og eldhugum sem gera landið okkar skemmtilegra og lífskjör betri. Það er til mikils að vinna að halda áfram að byggja ferðaþjónustuna upp í sátt við náttúru og menn, hringinn í kringum landið, enda er ferðaþjónustan einn af burðarásum efnahagslífsins.  

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta