Hoppa yfir valmynd
17.06.2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Farsælt íslenskt lýðveldi í 80 ár

Ákvarðanir sem teknar eru í dag skipta komandi kynslóðir máli. Kynslóðirnar í dag njóta góðs af þeim verkum sem brautryðjendur fyrri tíma börðust fyrir. Því er fagnað í dag að lýðveldið Ísland fyllir 80 árin. Með stofnun lýðveldisins hinn 17. júní 1944 náðist lokamarkmiðið í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar eftir áfangasigra áratuganna á undan. Þeir sigrar voru bornir uppi af eldhugum þeirra tíma, sem höfðu þá bjargföstu trú að íslenskri þjóð myndi farnast best á grundvelli sjálfstæðis.

Í amstri hversdagsleikans og dægurþrasi stjórnmálanna vill það kannski stundum gleymast hversu umfangsmiklar samfélagsbreytingar hafa orðið á Íslandi og hvernig Ísland hefur í fyllingu tímans farið úr því að vera eitt fátækasta ríki í Evrópu yfir í að verða að einu mesta velmegunarþjóðfélagi veraldar. Fullveldið árið 1918 og að lokum sjálfstæðið árið 1944 voru hornsteinar þeirrar framtíðar sem átti eftir að fylgja í kjölfarið, sem byggð var á forsendum og ákvörðunum Íslendinga sjálfra um eigin framtíð.

Viðskiptafrelsi grundvöllur pólitísks frelsis

Stundum er sagt að dropinn holi steininn. Það er hægt að heimfæra upp á baráttu Íslendinga fyrir sjálfstæði landsins. Endurreisn Alþingis árið 1845 skapaði vettvang fyrir þá sem stóðu í stafni sjálfstæðisbaráttunnar til þess að setja á oddinn gagnvart Danakonungi ýmis þau framfaramál sem skiptu framgang þjóðarinnar máli. Í hugum margra var verslunarfrelsi samofið þjóðfrelsinu, enda var það málefni fyrirferðarmikið á hinu endurreista Alþingi – og skyldi engan undra í ljósi tæplega 200 ára af danskri einokunarverslun frá árinu 1602, sem var afnumin með fríhöndlunarlögum sem giltu í tæp 70 ár, og fólu í sér ákveðnar tilslakanir sem mörkuðu upphafið að því að íslenskir kaupmenn komu fram á sjónarsviðið, þó svo að þeir hafi verið í minnihluta á tímabilinu. Ríkt ákall var eftir fullu verslunarfrelsi enda var það álitið grundvöllur pólitísks frelsis þjóðarinnar fram á veginn. Birtist þetta meðal annars í orðum afmælisbarns dagsins, Jóns Sigurðssonar, sem hann ritaði í bréfi nokkru sem stílað var á bróður hans þann 29. júní 1852, þar sem Jón ritar: „Ef verzlunarfrelsi kæmist á, þá vildi eg helzt komast heim að verða þar, því þá veit eg pólitiskt frelsi kemur á eptir.“ Það urðu því ákveðin vatnaskil hinn 1. apríl 1855 þegar ríkisþing Danmerkur samþykkti lög um verslunarfrelsi sem heimilaði kaupmönnum annarra ríkja að versla við Íslendinga og innlendum verslunarmönnum gafst nú kostur á að leigja erlend skip fyrir starfsemi sína. Hin nýju lög áttu eftir að leggja grundvöll að innlendum pöntunar- og verslunarfélögum í landinu, sem var vitaskuld mikil breyting.

Þjóð meðal þjóða

Umturnun hefur orðið á íslensku samfélagi frá þeim tímum sem raktir eru hér að ofan en þessi dæmisaga geymir mikilvægan lærdóm. Stofnun lýðveldisins veitti Íslandi rödd í alþjóðasamfélaginu, bæði meðal þjóða og alþjóðastofnana. Sem sjálfstætt ríki hefur Ísland látið rödd sína heyrast á alþjóðavettvangi og yfir lýðveldistímann hefur frjálsræði og möguleikar íslensks viðskipalífs aukist verulega, meðal annars á grundvelli aðildar okkar að EES-samningnum sem tryggir frelsi í flutningi vara, þjónustu, fjármagns og vinnuafls milli aðildarlanda samningsins, sem og fríverslunarsamninga sem Ísland hefur gert á grundvelli EFTA en einnig tvíhliða við stórþjóðir í heiminum svo dæmi séu tekin. Samhliða þessu hefur stoðum atvinnulífsins fjölgað úr einni í fjórar og útflutningstekjur þjóðarbúsins margfaldast sem skiptir miklu máli fyrir lítið og opið hagkerfi eins og okkar. Þá er nánast sama hvar borið er niður í samanburði á lífskjörum og lífsgæðum ýmiskonar milli ríkja, Ísland mælist þar nánast undantekningalaust meðal efstu ríkja í heiminum, sem er eftirtektarverður árangur fyrir fámenna þjóð í Atlantshafi. Þeim kynslóðum sem komu á eftir forvígsmönnum sjálfstæðisbaráttunnar og tóku við sjálfstæðiskeflinu hefur þannig vegnað vel í að sækja fram í þágu íslenskra hagsmuna á grundvelli sjálfsákvörðunarréttar þjóðarinnar. Ekkert verður hins vegar til úr engu, en landsmenn hafa borið gæfu til að nýta auðlindir landsins á sjálfbæran hátt og styðja þannig við öflugt velferðarsamfélag, þar sem allir eiga að fá tækifæri til að lifa gæfuríku lífi óháð efnahag. Ávallt þarf að huga að efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar, líkt og Jón gerði forðum daga, enda leggur það grunninn að framsókn lands og þjóðar.

Fögnum lýðveldinu

Það eru forréttindi að búa í lýðræðissamfélagi eins og okkar og geta fagnað lýðveldisafmæli sem þessu. Við sjáum það víða erlendis að sótt er að þeim gildum sem við grundvöllum samfélag og stjórnarfar okkar á. Það er óheillaþróun sem þarf sporna við. Við Íslendingar þurfum að halda áfram að rækta lýðveldið, fjöreggið okkar, og allt það sem því fylgir. Það gerum við meðal annars með virkri þátttöku þjóðfélagsþeganna, heilbrigðum skoðanaskiptum, þátttöku í kosningum og að fagna áföngum eins og deginum í dag um allt land. Ég óska landsmönnum öllum til hamingju með 80 ára afmæli lýðveldisins og megi Ísland vera frjálst og sjálfstætt um ókomna tíð.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta