Hoppa yfir valmynd
26.07.2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Nýr kafli í lýðveldissögunni

Ákveðin tímamót urðu í sögu íslenska lýðveldisins fyrr á árinu þegar haldið var upp á 80 ára lýðveldisafmæli um allt land, en með stofnun lýðveldisins hinn 17. júní 1944 náðist lokamarkmiðið í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar eftir áfangasigra áratuganna á undan. Lýðveldið er hraust og sprelllifandi eins og afstaðnar forsetakosningar í sumar voru til vitnis um. Öflugur og fjölbreyttur hópur frambjóðenda gaf þar kost á sér til að gegna embætti forseta Íslands, fjölmargir sjálfboðaliðar lögðu forsetaframbjóðendum lið með ýmsum hætti og kjörsókn var sú besta í 28 ár.

Allt upptalið er mikið styrkleikamerki fyrir lýðræðissamfélag eins og okkar. Því miður er sótt að lýðræði og gildum þess víða um heim í dag. Það er óheillaþróun sem sporna þarf við. Lýðræðið þarf nefnilega að rækta og standa vörð um. Þar gegnir virk þátttaka borgaranna lykilhlutverki, hvort sem það felst í að bjóða sig fram til embætta, skrifa skoðanapistla, baka vöfflur í kosningabaráttu, bera út kosningabæklinga eða mæta á kjörstað. Allt þetta er hluti af virku lýðræðisþjóðfélagi. Hagsagan sýnir okkur að frjálslyndum lýðræðisþjóðfélögum vegnar betur efnahagslega.

Embætti forseta Íslands skiptir máli í stjórnskipan landsins og ekki verður af forseta tekið að hann er þjóðkjörinn. Halla Tómasdóttir hlaut góða kosningu í embættið og á mánudaginn næsta verður hún sett inn í embættið með viðhöfn í Alþingishúsinu. Það eru ávallt ákveðin kaflaskil í sögu hvers lýðveldis þegar nýr einstaklingur tekur við embætti forseta og annar kveður. Þannig er komið að lokum forsetatíðar Guðna Th. Jóhannessonar sem gegnt hefur embætti forseta af stakri prýði undanfarin átta ár og notið mikillar lýðhylli fyrir störf sín. Það hefur verið ánægjulegt að kynnast honum sem og Elizu Reid forsetafrú og vinna með þeim að íslenskum hagsmunum hér heima og erlendis við ýmis tilefni.

Ég er sannfærð um að Höllu Tómasdóttur muni farnast vel í embætti forseta Íslands og hún muni leggja sín lóð og vogaskálarnar við að vinna íslenskum hagsmunum brautargengi með ýmsum hætti. Á sama tíma og ég vil þakka Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands fyrir virkilega gott og uppbyggilegt samstarf á undanförnum árum vil ég senda Höllu Tómasdóttur heillaóskir fyrir starfið fram á veginn og ég hlakka til að starfa með henni í þágu Íslands.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta