Hoppa yfir valmynd
15.08.2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Stórmál sem þarf að klára

Auðlindir og nýting þeirra er eitt af stærstu hagsmunamálum hvers þjóðríkis og gæta ber þeirra í hvívetna. Það styttist í að Alþingi komi saman að nýju eftir sumarleyfi til þess að fjalla um hin ýmsu málefni. Fyrir þinginu að þessu sinni mun meðal annars liggja fyrir frumvarp um rýni á fjárfestingum erlendra aðila vegna þjóðaröryggis og allsherjarreglu. Með orðinu rýni í þessu samhengi er átt við greiningar og mat á því hvort að viðskiptaráðstafanir sem tryggja erlendum aðilum eignaraðild, veruleg áhrif eða yfirráð yfir atvinnufyrirtækjum eða fasteignaréttindum hér á landi, ógni þjóðaröryggi eða allsherjarreglu.

Gildandi löggjöf um þessi mál er komin til ára sinna og er forgangsmál að úr því verði bætt enda er Ísland orðið eftirbátur helstu samanburðaríkja í þessum efnum. Þannig hafa til að mynda flest ríki á Evrópska efnahagssvæðinu og aðildarríki Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) sett löggjöf sambærilega þeirri sem lögð er til með frumvarpinu. Endurspeglar þessi þróun í samanburðarlöndum okkar meðal annars fjölbreyttar og síbreytilegar áskoranir í öryggismálum sem opið og alþjóðlegt viðskiptaumhverfi getur leitt af sér, meðal annars ógnum sem geta steðjað að grundvallar öryggishagsmunum ríkja og spretta af fjármagnshreyfingum milli landa. Í tíð minni sem utanríkisráðherra árið 2016 fékkst samþykkt fyrsta þjóðaröryggisstefnan fyrir Ísland sem stjórnvöldum var falið að fylgja eftir, en í henni er meðal annars lögð áhersla á að vernda virkni mikilvægra innviða og styrkja áfallaþol samfélagsins gagnvart hvers kyns ógn við líf og heilsu fólks, umhverfi, eignir og innviði.

Leiðarstefið í frumvarpinu um rýni á fjárfestingum erlendra aðila er samþætting sjónarmiða um mikilvægi erlendra fjárfestinga fyrir efnahagslífið annarsvegar og hins vegar að erlendar fjárfestingar í mikilvægum innviðum og annarri samfélagslega mikilvægri starfsemi, sem skilgreind eru sem viðkvæm svið, séu í samræmi við þjóðaröryggi og allsherjarreglu. Þar undir falla meðal annars innviðir sem tengjast orku, hitaveitu, vatns- og fráveitu, samgöngum, flutningum, fjarskiptum, stafrænum grunnvirkjum, fjármálakerfi, vörnum landsins, stjórnkerfi, landhelgisgæslu, almannavörnum, löggæslu, neyðar- og viðbragðsþjónustu, réttarvörslu og heilbrigðiskerfi. Einnig útvegun eða framleiðsla á mikilvægum aðföngum, þ.m.t. í tengslum við orku eða hráefni eða vegna fæðuöryggis. Að sama skapi nær frumvarpið yfir nýtingu vatnsorku, jarðvarma, vindorku, náma og annarra jarðefna í þjóðlendum, en ýmsar hindranir eru í núgildandi löggjöf um nýtingu náttúruauðlinda, meðal annars í gegnum leyfisveitingaferli og takmörkunum á erlendu eignarhaldi, líkt og í sjávarútvegi. Undir viðkvæm svið samkvæmt frumvarpinu fellur einnig meðhöndlun mikilvægra trúnaðarupplýsinga og verulegs magns viðkvæmra persónuupplýsinga sem og þjónusta á sviði netöryggis í þágu mikilvægra innviða svo dæmi séu tekin.

Mikilvægt er að framkvæmd rýninnar sé skilvirk og slái í takt við það sjónarmið að erlend fjárfesting er mikilvæg íslensku hagkerfi. Það er brýnt að Alþingi klári þetta stórmál á komandi þingi, þar sem íslenskir hagsmunir verða hafðir að leiðarljósi.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta