Hoppa yfir valmynd
17.08.2024 Innviðaráðuneytið

Brúum umönnunarbilið

Grein birt í Morgunblaðinu 17. ágúst 2024

Nýverið skilaði ráðuneyti mitt skýrslu til Alþingis um kostnað foreldra við að brúa bilið frá fæðingarorlofi fram að dagvistun barna. Niðurstöðurnar eru merkilegar en koma því miður ekki mikið á óvart. Fram kemur í skýrslunni að konur lengi frekar fæðingarorlof sitt og dragi þar með úr vinnu til þess að brúa bilið milli fæðingarorlofs og dagvistunar og að þær séu jafnframt líklegri en karlar til að vera í hlutastarfi. Þessi staða viðheldur launamuni á vinnumarkaði, þar sem ráðstöfunartekjur kvenna lækka mun meira og lengur en karla, og hefur þar með neikvæð áhrif á jafnrétti kynjanna.

Í dag grípa fjölskyldur boltann

Það er afar aðkallandi fyrir okkur sem samfélag að styðja betur við barnafjölskyldur. Nú er staðan sú að fjölskyldur þurfa að brúa umönnunarbilið og mæðurnar grípa þann bolta í meira mæli en feður. Staðan er einnig tilviljanakennd því fæðingardagur barns hefur áhrif á það hvenær barnið fær pláss á leikskóla. Það er tilviljanakennd ósanngirni sem við eigum ekki að sætta okkur við.

Í hinni stóru mynd erum við að glíma við arfleifð þeirra tíma þar sem konur sáu um barnauppeldi og karlar voru á vinnumarkaði, voru fyrirvinnurnar. Það er samfélagsgerð sem ætti að heyra sögunni til og við þurfum að gera betur. Aðeins með því að ljúka þessu verkefni á næstu árum náum við fram jafnrétti í raun, baráttumáli sem formæður okkar settu á oddinn á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Það er réttlætismál fyrir foreldra og börn. Samfélag án barna er samfélag án framtíðar og því þarf samfélagið að létta frekar undir með barnafjölskyldum. Stærsti einstaki liðurinn í því verkefni er að brúa bilið og þar gegna stjórnvöld lykilhlutverki.

Samfélagið á að grípa boltann

Ríkisstjórnin hefur tekið stór skref í þá átt að bæta kjör barnafjölskyldna, með því m.a. að lengja fæðingarorlofið og hækka greiðslur í fæðingarorlofi. Nú er tími til kominn að taka pólitíska umræðu um næstu skref. Því mun ég biðja forseta Alþingis að setja skýrslu ráðuneytis míns um kostnað foreldra við að brúa bilið á dagskrá haustþings Alþingis svo almenningur fái að heyra hvaða sýn mismunandi stjórnmálaflokkar hafa í þessum efnum.

Mín sýn og sýn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs er skýr. Við teljum að samfélagið eigi að grípa boltann með barnafjölskyldum. Það er góð og réttlát pólitík og skynsamleg efnahagslega – og stjórnvöld verða að tryggja það með markvissum aðgerðum, þ. á m með því að brúa umönnunarbilið. Samfélög þar sem jafnrétti kynjanna ríkir á vinnumarkaði, og öðrum sviðum samfélagsins, eru betri og réttlátari samfélög. Þar eigum við ennþá mikið verk eftir óunnið.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta