Hoppa yfir valmynd
12.09.2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Öryggismál verða áfram á oddinum

Á undanförnum 15 árum hefur ferðaþjónusta átt stóran þátt í því að renna styrkari stoðum undir íslenskt efnahagslíf. Vöxtur hennar hefur aukið fjölbreytni atvinnulífsins um allt land og skapað ný tækifæri fyrir fólk og fyrirtæki. Vexti nýrrar atvinnugreinar fylgja áskoranir sem mikilvægt er að fást við. Þannig leiðir til að mynda fjölgun ferðamanna af sér verkefni sem snúa að öryggismálum og slysavörnum. Eitt af forgangsmálunum í menningar- og viðskiptaráðuneytinu á þessu kjörtímabili hefur verið að styrkja umgjörð ferðaþjónustunnar í víðum skilningi og búa henni hagfelld skilyrði til þess að vaxa og dafna með sjálfbærum hætti til framtíðar í sátt við náttúru, menn og efnahag.

Í þingsályktun um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030, sem samþykkt var í júní 2024 og unnin var í breiðri samvinnu fjölda hagaðila, er á nokkrum stöðum að finna áherslur sem lúta að öryggismálum í ferðaþjónustu. Öryggi ferðamanna snertir málaflokka sem heyra undir ýmis ráðuneyti, stofnanir og samtök, og úrbætur á því sviði krefjast samstarfs og samhæfingar þvert á stjórnvöld og atvinnulíf.

Í aðgerðaáætlun ferðamálastefnu er að finna sérstaka aðgerð sem snýr að bættu öryggi ferðamanna.

Markmiðið er skýrt: að tryggja öryggi ferðamanna um land allt, eins og kostur er, hvort sem um er að ræða á fjölsóttum áfangastöðum eða á ferð um landið almennt. Sérstakur starfshópur mun á næstu vikum taka til starfa til þess að fylgja þessari aðgerð eftir, en verkefni hans er að greina öryggismál í ferðaþjónustu, vinna að framgangi þeirra og tryggja samtal á milli aðila. Í því samhengi mun hópurinn meðal annars skoða upplýsingagjöf, hvernig skráningu slysa og óhappa er háttað, áhættumat á áfangastöðum, uppfærslu viðbragðsáætlunar, fjarskiptasamband, viðbragðstíma viðbragðsaðila og samræmda og skýra upplýsingagjöf til ferðamanna. Starfshópurinn starfar á víðum grunni en hann skipa fulltrúar Ferðamálastofu, menningar- og viðskiptaráðuneytis, dómsmálaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis, innviðaráðuneytis, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis og Samtaka ferðaþjónustunnar. Miðað er við að starfshópurinn hafi víðtækt samráð í starfi sínu, meðal annars við aðrar stofnanir, sveitarfélög, fagfélög, menntastofnanir og ferðaþjónustufyrirtæki. Miðað er við að hópurinn skili tillögum sínum í áföngum og að fyrstu skil verði 1. desember 2024. Við erum staðráðin í því að efla Ísland sem áfangastað í víðum skilningi þess orð, og byggja á þeim góða grunni sem hingað til hefur verið lagður. Alltaf má hins vegar gera betur og það er markmiðið með því að hrinda nýrri ferðamálastefnu í framkvæmd, meðal annars með öryggismálin áfram á oddinum.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta