Hoppa yfir valmynd
21.09.2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Neytendamál í öndvegi

Í vikunni mælti ég á Alþingi fyrir þingsályktun um stefnu í neytendamálum til ársins 2030. Mikil vinna hefur átt sér stað innan menningar- og viðskiptaráðuneytisins á undanförnum árum til þess að undirbyggja raunverulegar aðgerðir í þágu neytenda. Aðdraganda þingsályktunartillögunnar má meðal annars rekja til þess að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð almenn áhersla á eflingu neytendaverndar og að tryggja stöðu neytenda betur, meðal annars í nýju umhverfi netviðskipta.

Það skiptir raunverulegu máli að huga vel að neytendamálum, enda hafa þau víðtæka skírskotun til samfélagsins og atvinnulífsins og mikilvægt er að til staðar sé skýr stefnumótun á því málefnasviði, ásamt aðgerðaáætlun til næstu ára. Þegar hefur verið unnið að ýmsum breytingum á sviði neytendamála með það að markmiði að bæta löggjöf á því sviði, auka neytendavitund og styrkja þannig stöðu neytenda.

Löggjöf á sviði neytendamála hefur að stærstum hluta það markmið að leiðrétta aðstöðumun sem er milli fyrirtækja og almennings, þ.e. neytenda, bæði almennt og vegna einstakra viðskipta. Í því felst m.a. að vernda neytendur gegn óréttmætum viðskiptaháttum fyrirtækja, upplýsa neytendur og veita þeim skilvirk úrræði til að leita réttar síns.

Í þingsályktunartillögunni er einnig að finna aðgerðaáætlun þar sem koma fram níu skilgreindar aðgerðir, með ábyrgðaraðilum og samstarfsaðilum. Aðgerðirnar snúa meðal annars að aukinni neytendavernd á sviði fjármálaþjónustu og áherslu á fjármálalæsi, neytendavernd viðkvæmra hópa, áherslu á íslensku við markaðssetningu vöru og þjónustu, aukna neytendavernd við fasteignakaup, áherslu á netviðskipti og stafvæðingu á sviði neytendamála sem og rannsóknir, upplýsingagjöf og fræðslu til að auka neytendavitund.

Til viðbótar ofangreindum aðgerðum hefur menningar- og viðskiptaráðuneytið lagt sérstaka áherslu á að fylgjast náið með arðsemi og gjaldtöku viðskiptabankanna til að veita þeim aðhald í þágu neytenda. Haustið 2023 var umfangsmikil skýrsla þess efnis birt og er von á þeirri næstu síðar í haust. Stærsta verkefni hagstjórnarinnar þessi misserin er að ná niður verðbólgu og þar með vöxtum í landinu, enda er það stærsta hagsmunamál heimila og fyrirtækja. Í því verkefni verða allir að taka þátt og vera á vaktinni. Menningar- og viðskiptaráðuneytið tekur hlutverk sitt í því verkefni alvarlega og hefur þess vegna sett neytendamál í öndvegi í þágu samfélagsins alls.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta