Hoppa yfir valmynd
24.09.2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ávarp félags- og vinnumarkaðsráðherra á málþingi félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytisins um fóstur- og nýburaskimanir

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra:

Góðir gestir,

Það er mikill heiður að fá að loka þessu mikilvæga og áhugaverða málþingi um fóstur- og nýburaskimanir.

Við lifum á tímum mikilla tækniframfara. Hraðinn er mikill og ekki gefst alltaf tími til þess að staldra við og hugsa. Við megum ekki láta hraða þróun tækninnar eina ráða för – hagsmunaaðilar, fræðasamfélag og almenningur verður að fá aðkomu og segja sitt um siðferðisleg álitaefni. Hugsum okkur barn sem fæðist í heim þar sem allt er fyrir fram ákveðið, þar sem fjölbreytileikinn hefur verið settur til hliðar í nafni tækninnar. Er það heimur sem við viljum skapa fyrir framtíðarkynslóðir?

Tíðarandinn og gildismat geta breyst hratt. Það sem telst eftirsóknarvert í dag var það ekki endilega fyrir nokkrum árum, áratugum eða öldum síðan. Er þá eftirsóknarvert að skima fyrir fjölbreytileika? Og hvað ætlum við að gera með þessa möguleika aukinnar tækni? Ætlum við að nota hana til að koma í veg fyrir þennan fjölbreytileika? Ef við gætum t.d. skimað fyrir hinseginleika, myndum við gera það? Og til hvers?

Ljóst er að siðferðileg álitaefni í tengslum við skimanir eru margvísleg, ekki síst í ljósi þess að tækniframfarir hafa leitt til þess að mögulegt er að skima fyrir mun fleiri eiginleikum en áður.

Ég get ekki annað en vísað til þess sem stendur í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þar sem segir meðal annars að hin almenna meginregla sé að bera virðingu fyrir fjölbreytileika og viðurkenna fatlað fólk sem hluta af mannlegum margbreytileika og mannkyni. Í samningnum segir líka í almennum skuldbindingum aðildarríkja að aðhafast ekkert það sem fer í bága við samninginn og sjá beri til þess að opinber yfirvöld og stofnanir vinni í samræmi við ákvæði hans.

Hvernig fara skuldbindingar okkar út frá samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks saman með fóstur- og nýburaskimunum? Við verðum að velta þessum spurningum fyrir okkur.

Nú þegar stofnun Mannréttindastofnunar Íslands hefur verið fest í lög verður hægt að lögfesta samninginn. Og, í morgun kynnti ég einmitt í ríkisstjórn áform um lögfestingu hans. Ég stefni á að leggja fram frumvarp á Alþingi í nóvember þar að lútandi. Það verður risastórt skref í réttindabaráttu fatlaðs fólks.

Í fyrra leitaði heilbrigðisráðuneytið til ráðuneytis mannréttindamála vegna fósturskimana og þeirra mannréttindasjónarmiða sem huga þarf að vegna þeirra. Kom það m.a. til vegna undirbúnings að nýrri aðferð við fósturskimanir, sem gerir heilbrigðisstarfsfólki kleift að framkvæma fósturskimanir með nákvæmari hætti. Eins og við höfum heyrt hér í dag hafa hagsmunaaðilar og fulltrúar fræðasamfélagsins  lýst yfir áhyggjum af þessari nýju aðferð. Þær áhyggjur, eins og mínar eiga jafnframt við í víðara samhengi og þess vegna full ástæða til að taka fósturskimanir almennt til skoðunar. Skrifstofa jafnréttis- og mannréttindamála leitaði til Siðfræðistofnunar og óskaði eftir því að hún tæki saman sjónarmið sem huga þarf að í þessu samhengi. Í áliti siðfræðistofnunar var farið yfir ýmis álitaefni, eins og rætt hefur verið hér í dag. Sérstaklega var bent á mikilvægi þess að skapa umgjörð fyrir gagnrýna umræðu um þessi mál.

Við þurfum að skapa samfélag sem tekur mið af bæði tækniþróun og mannréttindum. Þetta málþing í dag er liður í því að opna umræðuna um þetta flókna en jafnframt mikilvæga álitaefni. Það er sérstaklega mikilvægt að öll sjónarmið fái að koma fram í umræðu sem þessari og þá ekki síst sjónarmið þeirra hópa sem málið varðar hvað mest. Og, það er mikilvægt að í kjölfar slíkrar umræðu mótum við umgjörð með lögum sem taka mið af þessum álitaefnum.

Ég treysti því að við munum halda umræðunni áfram, vanda okkur í hverju skrefi og standa vörð um sjálfsagðan og mikilvægan sjálfsákvörðunarrétt kvenna og annarra sem fæða börn, en á sama tíma geta fagnað fjölbreytileika fólks. 

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum