Ávarp ráðherra á setningu Búnaðarþings, 20. mars 2025
Forseti Íslands, búnaðarþingsfulltrúar og aðrir gestir.
Það er mér sönn ánægja að vera með ykkur hér í dag og fá að ávarpa Búnaðarþing.
Stefna ríkisstjórnar í landbúnaði er skýr. Áhersla er lögð á að ýta undir vöxt og verðmætasköpun í matvælaframleiðslu. Á kjörtímabilinu verður gripið til aðgerða til að efla nýsköpun í landbúnaði, draga úr orkukostnaði garðyrkjubænda og auðvelda nýliðun og kynslóðaskipti. Við ætlum okkur að breyta jarðalögum til að vinna gegn samþjöppun og stuðla að nýtingu á ræktarlandi til búrekstrar. Við munum áfram vinna að þeim grundvallarsjónarmiðum sem birtast í landbúnaðarstefnu fyrir Ísland til ársins 2040. Meginmarkmið hennar er að efla og styðja íslenskan landbúnað og styrkja stoðir hans til framtíðar með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Aðgerðaáætlun sem gildir til fimm ára var kynnt á síðasta ári og er unnið að aðgerðum samkvæmt henni. Meðal aðgerða sem þar eru tilgreindar er bætt hagtölusöfnun, afkomuvöktun og bætt rekstrarráðgjöf, aukning rannsókna á sviði loftslagsmála og efling loftslagsráðgjafar og mótun og útfærsla stuðningskerfis landbúnaðarins til framtíðar. Allt eru þetta þættir sem eru mikilvægir fyrir starfsumhverfi landbúnaðarins.
Nýtt stuðningskerfi
Eitt af stærstu verkefnunum framundan lítur að stuðningskerfi landbúnaðarins. Núgildandi búvörusamningar renna út í árslok 2026 og er vinna hafin við mótun nýs stuðningskerfis fyrir landbúnað. Nýtt kerfi mun taka mið af þeirri landbúnaðarstefnu sem er í gildi með það fyrir augum að fjölga stoðum landbúnaðar á grunni sjálfbærrar nýtingar í þágu loftslagsmála, umhverfis- og náttúruverndar og fjölbreytni í ræktun. Áhersla verður lögð á að styðja við fjölbreyttari framleiðslu og auka áherslu á jarðrækt og aðra landnýtingu, skógrækt, endurheimt vistkerfa, náttúruvernd og landvörslu. Þá þarf að huga sérstaklega að því að auðvelda kynslóðaskipti og nýliðun. Stuðningur við landbúnað á að skapa stöðugan og traustan grundvöll fyrir innlenda matvælaframleiðslu og fæðuöryggi þjóðarinnar.
Margvísleg gagnleg gögn, skýrslur og samantektir, liggja fyrir en ég vil sérstaklega nefna skýrslu Landbúnaðarháskóla Íslands sem kom út fyrir um ári síðan þar sem fjallað er um stuðningskerfi íslensk landbúnaðar. Í skýrslunni er horft til þeirra markmiða sem sett hafa verið, bæði í lögum og í nýlega samþykktri landbúnaðarstefnu, og gerð heildargreining á landbúnaðarframleiðslu á Íslandi og íslenska stuðningskerfinu. Einnig er þar að finna greinargóða lýsingu á stuðningskerfum landbúnaðar í löndum sem eru samanburðarhæf við Ísland hvað varðar landfræði, loftslag og samsetningu landbúnaðarframleiðslu. Í skýrslunni eru dregnar fram ábendingar sem gott er að hafa til hliðsjónar í vinnunni við mótun nýs stuðningskerfis svo við lærum af reynslunni og fyrirkomulagi annarra þjóða.
Uppbygging beins stuðnings í núgildandi stuðningskerfi byggir á fyrirkomulagi sem var tekið upp með búvörusamningum árið 1985, þ.e. og byggja á beinum greiðslum til bænda. Það kerfi er því 40 ára gamalt í ár. Reynslan af framkvæmd samninganna hefur verið misjöfn. Markmiðin eru fjölþætt og velta má því upp hversu vel hefur gengið að ná þeim fram m.a. í ljósi þess að stjórnvöld hafa ítrekað gripið til sértækra aðgerða til að styðja við atvinnugreinina. Í ráðuneytisstjóra hópi sem var skipaður síðla árs 2023 vegna fjárhagsvanda bænda kom fram að núverandi stuðningskerfi er óskilvirkt, með óskýr markmið og hvata sem eru ekki í samræmi við áherslur stjórnvalda eða hagsmuni atvinnugreinarinnar í heild. Þá framkvæmdi Maskína nýlega spurningakönnun til að afla upplýsinga um stöðu bænda og viðhorf þeirra til stuðningskerfis landbúnaðarins. Í könnuninni kom fram að meirihluti bænda telur stuðningskerfi landbúnaðarins flókið. Aðeins tæpum 14% aðspurðra finnst kerfið einfalt. Um 30% segja að kerfið þjóni hagsmunum þeirra vel en mat tæpra 23% er að kerfið þjóni þeim illa, 43% telja að kerfið þjóni þeim í meðallagi vel.
Meginniðurstöður könnunarinnar leiða í ljós að:
• Mikilvægt er að bæta stuðningskerfið og einfalda þar sem meirihluti bænda telur kerfið of flókið.
• Vaxandi þörf er á rekstrarráðgjöf, sérstaklega fyrir þá bændur sem eiga í fjárhagslegum erfiðleikum.
• Margir bændur hafa þegar gripið til aðgerða í umhverfismálum sem eru orðin stór þáttur í búrekstri.
• Þótt bjartsýni sé nokkur meðal bænda er jafnframt stór hópur sem hefur áhyggjur af framtíð búrekstursins.
• Það er ljóst að skapa verður betri skilyrði fyrir sjálfbæran og hagkvæman landbúnað á Íslandi.
Þessar niðurstöður eru mikilvægt innlegg í vinnuna fram undan. Það er mikið undir að gera þetta vel.
Ágætu fundarmenn.
Það eru sannarlega áskoranir í starfsumhverfi landbúnaðar og ýmis áföll hafa dunið á landbúnaðinum á undanförnum árum. En tími áskorana er líka tími tækifæra. Við þurfum að skapa betri ramma til að takast á við áföllin, því þróun í loftslagsmálum gefur til kynna að breytingar í veðurfari geti aukist og það er líka umræðan á alþjóðavettvangi. Við þurfum því að huga að því hvernig við bætum viðnámsþolið og hvernig við aðlögum okkur í breyttum heimi.
Til að skapa atvinnugreininni stöðugleika er mikilvægt að forsendur nýs stuðningskerfis liggi tímanlega fyrir, til að unnt sé að hefja undirbúning á innleiðingu nýs kerfis. Við þurfum að þora að tala um nýjar lausnir vegna breytinga í atvinnugreininni, samfélaginu og hjá neytendum, þannig að kerfið þjóni bændum og samfélaginu öllu. Það þarf að vanda til verka og jafnframt vera óhrædd við að ræða breytingar og nýjar lausnir.
Eins og Trausti kom inn á þá legg ég í næsta mánuði upp í ferð með Bændasamtökunum. Ég hlakka mikið til að ferðast um landið og hitta ykkur bændur, hlusta á ykkar hugmyndir og eiga gott samtal um lausnir við þeim áskorunum sem landbúnaðurinn stendur frammi fyrir.
Ég óska ykkur ánægjulegs og árangursríks búnaðarþings.