Skýrsla starfshóps um dreifða eignaraðild í sjávarútvegi - október 1997
Skýrsla starfshóps
um dreifða eignaraðild í sjávarútvegi
Inngangur
Samkvæmt gildandi lögum um stjórn fiskveiða (l. nr. 38/1990 og l. nr. 151/1996) er meginreglan sú að aflahlutdeild í þeim tegundum sem sæta ákvörðun um leyfilegan heildarafla er úthlutað til fiskiskipa á grundvelli sögulegrar veiðireynslu. Um flutning aflahlutdeildar á milli fiskiskipa gilda ákvæði 11. gr. l. nr. 38/1990. Meginreglan er sú að flutningur aflahlutdeildar á milli fiskiskipa er frjáls, þó með þeirri takmörkun sem kveðið er á um í 6. mgr. greinarinnar. Á sama hátt eru kaup og sala á fiskskipum með aflahlutdeild frjáls sbr. þó ákvæði 3. og 4. mgr. en þar er kveðið á um forkaupsrétt sveitarfélaga ef selja á fiskiskip til útgerðar sem hefur heimilisfesti í öðru sveitarfélagi en seljandi. Slíkur forkaupsréttur nær þó ekki til aflahlutdeildarinnar sérstaklega. Samkvæmt gildandi lögum eru því engar skorður settar við því hversu há aflahlutdeild fiskiskips í eigu einstakra aðila eða aðila þeim tengdum má vera.
Þann 20. janúar sl. skipaði sjávarútvegsráðherra starfshóp til að fjalla um dreifða eignaraðild í sjávarútvegsfyrirtækjum. Í erindisbréfi starfshópsins segir orðrétt:
- Starfshópnum verður falið að gera tillögur um reglur varðandi dreifða eingaraðild að útgerðarfyrirtækjum. Hópurinn skal m.a. fjalla um hvort ástæða sé til að setja hámark á hve mikla aflahlutdeild skip í eigu einstakra aðila geta haft og hvort gera eigi kröfu til að eignaraðild að félögum sem hafa forræði yfir aflahlutdeild umfram tiltekin mörk skuli dreifð og félögin opin, t.d. skráð á verðbréfaþingi.
Tillögur starfshópsins
Tillögur starfshópsins eru settar fram í drögum að frumvarpi sem samið var á hans vegum. Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að sett verði hámark á leyfilega aflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila og tengdra aðila. Er gerð tillaga um að tiltekið hámark verði sett á 8 fisktegundir sem sæta ákvörðun um leyfilegan heildarafla. Lagt er til að hámarkið verði 10% fyrir þorsk og ýsu en 20% fyrir ufsa, karfa, grálúðu, síld, loðnu og úthafsrækju.
Starfshópurinn telur að með því að setja reglur um framangreint hámark á einstakar tegundir sé hægt að koma í veg fyrir að einstök fyrirtæki verði of ráðandi varðandi veiðar á þeim tegundum, án þess þó að möguleikar þeirra til hagræðingar og sérhæfingar séu um of þrengdir. Miðað við gildandi reglur er ekkert sem kemur í veg fyrir að eitt fyrirtæki ráði yfir öllum aflaheimildum af loðnu svo dæmi sé tekið en tillögur starfshópsins hafa það hins vegar í för með sér að fjöldi slíkra fyrirtækja geti aldrei orðið minni en fimm. Þá þykir eðlilegt að miða við nokkuð lægri mörk fyrir þorsk og ýsu eða 10%, enda eru þessar tegundir veiddar af flestum þeim skipum og bátum sem leyfi hafa til veiða í atvinnuskyni.
Ekki er gerð tillaga um að sérstakt hámark verði sett á innfjarðarækju, hörpuskel, humar, sandkola, skarkola, skrápflúru, steinbít og langlúru. Starfshópurinn ákvað að miða tillögugerð sína við að hið sérstaka tegundarhámark næði einungis til þeirra tegunda þar sem verðmæti heildaraflamarks næmi meira en 2% af heildarverðmæti allra þeirra tegunda sem sæta ákvörðun um leyfilegan heildarafla. Upplýsingar um verðmæti einstakra tegunda eru settar fram í fylgiskjali I. Við mat á þessu hafði starfshópurinn jafnframt hliðsjón af því að flestar þær tegundir sem eru innan við 2% markið veiðast á takmörkuðum svæðum og eru veiðar þá oft bundnar við báta á viðkomandi svæði. Takmarkaður fjöldi útgerða stundar því þessar veiðar sem veldur því að aflahlutdeild einstakra fyrirtækja getur verið allhá í sumum tilvikum, án þess þó að verðmæti aflahlutdeildarinnar vegi þungt í heildina. Þá er ekki gerð tillaga um að sett verði sérstakt hámark á aflahlutdeild af úthafskarfa, enda takmarkast veiðar við tiltölulega fá fyrirtæki þar sem einungis stærstu skip flotans geta stundað veiðarnar. Þá má benda á að hér er um að ræða stofn sem fellur undir Norðaustur-Atlantshafs fiskveiðinefndina (NEAFC) og því ræðst nýting og skipting stofnsins af samningum sem gerðir eru á vettvangi NEAFC. Eins og vikið verður að hér að neðan er hins vegar gert ráð fyrir að tekið verði tillit til aflahlutdeildar af úthafskarfa við mat á heildarverðmæti aflahlutdeildar.
Starfshópurinn leggur til að ef verðmæti aflamarks annarra tegunda en þeirra 8 sem að framan greinir fer umfram 2% af heildarverðmæti aflamarks þá skuli ráðherra ákvarða 20% hámark á aflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila. Á sama hátt falli hámarkið niður ef verðmæti þeirra tegunda sem um ræðir fer niður fyrir mörkin. Við upphaf hvers fiskveiðiárs þarf ráðherra því að endurskoða fyrir hvaða tegundir sérstakt hámark eigi að gilda. Þessi endurskoðun á þó ekki við um tegundirnar 8 enda er gert ráð fyrir að hámark vegna þeirra verði óbreytt án tillits til breytinga sem kunna að verða á aflamarki og verðmætastuðlum.
Til viðbótar við sérstakt hámark á einstakar tegundir sem fjallað var um hér að framan er lagt til að aflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila og tengdra aðila, reiknuð til verðmæta miðað við þorskígildi, geti ekki numið meira en 8% af heildarverðmæti úthlutaðra aflaheimilda. Við þá útreikninga er miðað við verðmæti allra tegunda sem sæta ákvörðun um leyfilegan heildarafla en ekki einungis þær 8 sem myndu sæta sérstöku hámarki. Þó er gert ráð fyrir að hámarkið verði nokkuð hærra, eða 10%, fyrir félög sem uppfylla tiltekin skilyrði um dreifða eignaraðild. Er þá miðað við að enginn einn aðili eigi meira en 20% í viðkomandi félagi og að engar hömlur séu á viðskiptum með eignarhluti.
Heildarverðmæti aflaheimilda fiskiskipa í eigu einstakra aðila og tengdra aðila er fundið út með því að reikna aflamark einstakra tegunda til þorskígilda miðað við þá verðmætastuðla sem sjávarútvegsráðherra ákvarðar fyrir upphaf hvers fiskveiðiárs. Við þá útreikninga er eins og áður segir miðað við allar þær tegundir sem sæta ákvörðun um leyfilegan heildarafla. Starfshópurinn kannaði kosti þess að nota aðra verðmætastuðla í þessu skyni. Var m.a. kannað hvort hægt væri að styðjast við upplýsingar um verð sem myndast í viðskiptum aðila með aflamark og aflahlutdeild. Að athuguðu máli taldi starfshópurinn ekki fært að byggja á slíkum upplýsingum enda er markaðsverð aflamarks og aflahlutdeildar hvergi skráð með reglubundnum hætti. Auk þess benti lausleg athugun starfhópsins á verðmæti aflaheimilda miðað við markaðsverð annars vegar og verðmætastuðla hins vegar ekki til mikilla breytinga á dreifingu aflahlutdeildar milli fiskiskipa í eigu einstakra aðila. Með hliðsjón af framansögðu og til að tryggja örugga framkvæmd ákvað starfshópurinn því að leggja til að byggt yrði á þeim verðmætastuðlum sem birtir eru í reglugerð við upphaf hvers fiskveiðiárs.
Þróun í íslenskum sjávarútvegi
Á allra síðustu árum hafa átt sér stað miklar breytingar í íslenskum sjávarútvegi. Uppspretta breytinganna er af ýmsum toga:
Í fyrsta lagi reyndist nauðsynlegt að draga verulega saman aflaheimildir af þorski fyrir nokkrum árum og karfa og grálúðu á síðustu árum. Síðar varð unnt að auka aflaheimildir af öðrum tegundum eins og úthafsrækju, loðnu og síld. Til að mæta aflasamdrætti í botnfiskveiðum hafa útgerðarfyrirtæki lagt aukna áherslu á veiðar utan lögsögu.
Í öðru lagi hefur sá stöðugleiki sem ríkt hefur í efnahagsmálum á undanförnum árum stuðlað að aukinni hagræðingu í sjávarútvegi, jafnt og í öðrum greinum atvinnulífsins, og gert fyrirtækjunum kleift að gera raunhæfar áætlanir fram í tímann.
Í þriðja lagi hefur þróun íslensks fjármagnsmarkaðar og hækkun á verði aflahlutdeildar leitt til breytinga á eignarhaldi fyrirtækja í sjávarútvegi. Sjávarútvegs-fyrirtæki eru nú í vaxandi mæli fjármögnuð með hlutafé í stað lánsfjár. Þessi breyting hefur stuðlað að dreifðari eignaraðild að sjávarútvegsfyrirtækjum og skapað aðhald í rekstri þeirra.
Í fjórða lagi hafa breytingar á lagaumgjörð sjávarútvegsins stuðlað að auknu frjálsræði þeirra sem starfa við sjávarútveg. Í því sambandi skiptir mestu máli tilkoma gildandi laga um stjórn fiskveiða sem byggir á framseljanlegum aflaheimildum.
Í fimmta lagi hefur tilkoma fiskmarkaða, bættar samgöngur og aukið framboð flutningsþjónustu greitt mjög fyrir viðskiptum með fisk á milli landshluta.
Þær breytingar sem raktar voru hér að framan hafa m.a. leitt til aukins samstarfs og samruna fyrirtækja í útgerð. Með því hafa forsvarsmenn fyrirtækjanna verið að leita leiða til að skapa skilyrði fyrir bætt rekstraröryggi og svara kröfu þjóðfélagsins um aukna hagkvæmni í sjávarútvegi. Útgerðarfyrirtæki sem mjög hafa byggt á þorsk-veiðiheimildum hafa sameinast fyrirtækjum sem byggja t.d. á veiðum og vinnslu uppsjávarfiska eins og loðnu og síldar. Tilgangur slíkrar sameiningar er þá að dreifa áhættu í rekstri og renna fleiri stoðum undir starfsemina. Þá hafa fyrirtæki séð sér hag í að sameinast til að standa betur að vígi í alþjóðlegri samkeppni og til að treysta grundvöll undir áhættusama fjárfestingu í sjávarútvegi erlendis.
Skiptar skoðanir eru uppi í þjóðfélaginu um það hvort of mikil samþjöppun aflaheimilda eigi sér stað. Sumir eru þeirrar skoðunar að ekki sé rétt að setja hámark á hve mikla aflahlutdeild skip í eigu einstakra aðila geta haft. Slíkt hámark geti vikið til hliðar því meginmarkmiði stjórnenda fyrirtækjanna að reka fyrirtækin á sem hagkvæmastan hátt og takmarkað möguleika þeirra til að dreifa áhættu í rekstri, t.d. með því að ráða yfir aflahlutdeild í sem flestum tegundum. Stærri og traustari fyrirtæki hafi að öllu jöfnu betri aðgang að áhættufjármagni til að þróa nýja tækni og aðferðir og ættu því frekar að vera í stakk búin til að tryggja atvinnu-öryggi og að skapa störf fyrir sérmenntað og sérhæft starfsfólk. Þá skapi rekstur stærri sjávarútvegsfyrirtækja jafnari rekstrarskilyrði og traustari grundvöll til að takast á við verkefni á alþjóðavettvangi.
Aðrir benda á þá ókosti sem geti fylgt samþjöppun aflahlutdeildar, sérstaklega þegar haft er í huga hversu mikilvæg útgerð fiskiskipa er fyrir íslenskan þjóðarbúskap. Of sterk yfirráð fárra aðila yfir fiskveiðiauðlindinni þýði að viðkomandi fái mikil völd í þjóðfélaginu og staða þeirra sem ráða útgerðarfyrirtækjunum geti orðið of sterk gagnvart stjórnvöldum, lánastofnunum og starfsfólki. Þeir sem væru fyrir í greininni gætu í raun ráðið hverjir kæmu nýir inn og gætu þannig komið í veg fyrir eðlilega samkeppni. Það stafi m.a. af þeirri sérstöðu í þessari atvinnugrein að nauðsynlegt sé að takmarka aðgang að auðlindinni og því sé t.d. ekki hægt að veita nýjum skipum rétt til veiða án þess að annað sambærilegt skip hverfi úr rekstri í þess stað. Eina leiðin fyrir nýja aðila til að koma inn í atvinnugreinina sé því að kaupa út þá sem fyrir eru. Fyrir utan það ójafnvægi sem mikil samþjöppun í útgerð geti falið í sér þá geti samþjöppun beinlínis reynst hættuleg fyrir þjóðina, sérstaklega ef viðkomandi standi sig ekki í því að skapa sem mest verðmæti úr auðlindinni. Þá er bent á að mikil samþjöppun aflaheimilda leiði til tilfærslu aflaheimilda á milli byggða og geti af þeim sökum leitt til röskunar. Jafnframt verði tilflutningur á milli útgerðarflokka sem oft leiði til þess að minni útgerðir fari halloka. Það geti haft þau áhrif að fjölbreytni í útgerð minnki og svigrúm verði minna til að bregðast við breyttum aðstæðum.
Spyrja má hvort þörf sé á sérstakri lagasetningu vegna samþjöppunar í sjávarútvegi þegar til þess er litið að í gildi eru samkeppnislög. Í bréfi Samkeppnisstofnunar til starfshópsins kemur fram það mat stofnunarinnar að samkeppnislög taki að fullu til atvinnureksturs sjávarútvegsfyrirtækja, þ.m.t. viðskipti með aflahlutdeild, nema sérlög geymi ósamrýmanleg ákvæði. Í þessu sambandi er þó á tvennt að líta. Engan veginn er útilokað að ákvæði sérlaga um stjórn fiskveiða sem kveða á um að flutningur aflahlutdeildar á milli fiskiskipa skuli, með þeirri undantekningu er greinir í 6. mgr. 11. gr. laga nr. 38/1990, vera frjáls, yrðu talin ganga framar almennum ákvæðum samkeppnislaga. Hitt skiptir þó meiru að jafnvel þótt gengið sé út frá því að samkeppnislög taki að fullu til atvinnureksturs sjávarútvegsfyrirtækja er það, eins og á er bent í bréfi Samkeppnisstofnunar, úrslitaatriði varðandi það hvort samruni fyrirtækja teljist samkvæmt samkeppnislögum vera lögmætur eða ekki, hvort hann leiði til þess að markaðsráðandi staða verði til eða hún eflist. Mat á því hvenær fyrirtæki hefur náð markaðsráðandi stöðu er margþætt og margslungið. Niðurstaða starfshópsins er sú að líklegt sé að ákvæði samkeppnislaga yrðu ekki talin eiga við fyrr en samanlögð aflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra sjávarútvegsfyrirtækja hefði náð mun hærra hlutfalli en miðað er við í tillögum starfshópsins, sem byggja á sérstöðu sjávarútvegs hér á landi og gildandi fiskveiðistjórnunarkerfi. Þá er og með öllu óvíst að samkeppnislög yrðu yfir höfuð talin ná til aflahlutdeildar einstakra tegunda. Það er því niðurstaða starfshópsins að eðlilegast sé að taka afstöðu til samþjöppunar aflaheimilda í lögum um stjórn fiskveiða, þótt ákvæði samkeppnislaga eftir sem áður taki til atvinnurekstrar sjávarútvegsfyrirtækja, eftir því sem við á.
Ljóst er að það er flókið verkefni að finna jafnvægi milli þess að leyfa hagkvæmni stærðarinnar að njóta sín en setja á sama tíma reglur til að reyna að koma í veg fyrir ýmsa ókosti sem geta fylgt of mikilli samþjöppun í útgerð. Það er mat starfshópsins að slíkar reglur geti aldrei leyst öll þau atriði sem sæta gagnrýni þegar um þetta mál er fjallað. Starfhópurinn telur hins vegar að það sé skynsamlegt að gera breytingar á gildandi lögum um stjórn fiskveiða með það að markmiði að einstök fyrirtæki geti ekki orðið það stór að það beinlínis hamli eðlilegri samkeppni í útgerð. Með því er fyrst og fremst átt við að setja reglur til að tryggja að þeir sem fyrir eru í útgerð verði ekki svo öflugir að þeir geti með samtakamætti sínum komið í veg fyrri að nýir aðilar komi inn í útgerðina. Tillögur starfshópsins eins og þær birtast í meðfylgjandi frumvarpi ber því að skoða með þetta meginmarkmið í huga.
Upplýsingaöflun
Í upphafi starfsins ritaði starfshópurinn bréf til Samkeppnisstofnunar, sbr. fylgiskjal II, þar sem óskað var eftir upplýsingum frá stofnuninni um það hvort, og þá á hvern hátt, ákvæði samkeppnislaga taki til samþjöppunar eignarhalds í sjávarútvegi. Jafnframt var óskað eftir upplýsingum um hvort ákvæði í samkeppnislöggjöf erlendra ríkja gætu haft áhrif á þessu sviði ef slík lög giltu hér á landi. Í svari Samkeppnisstofnunar við erindi starfshópsins, sbr. fylgiskjal III, kom fram að það væri skoðun stofnunarinnar að samkeppnislög taki að fullu til atvinnureksturs sjávarútvegsfyrirtækja, þ.m.t. viðskipta með aflahlutdeild, nema sérlög geymi ósamrýmanleg ákvæði.
Starfshópurinn fékk á sinn fund Alastair MacFarlane frá Nýja-Sjálandi er hann var staddur hér á landi til að flytja erindi, um reynslu Nýsjálendinga af fiskveiðistjórnun með framseljanlegum aflakvótum, á ráðstefnu um fiskveiðistjórnun sem sjávarútvegs-ráðuneytið stóð fyrir sl. vetur. Hann skýrði starfshópnum frá þeim reglum sem gilda á Nýja-Sjálandi um hámarksaflahlutdeild sem einstaklingar eða fyrirtæki geta ráðið yfir. Samkvæmt upplýsingum sem hann veitti starfshópnum kom fram að almenna reglan í Nýja-Sjálandi er sú að enginn einn aðili getur ráðið yfir meira en sem nemur 45% af heildarkvóta einstakra tegunda. Frá þessari reglu eru þó undantekningar og er hlutfallið fyrir sumar tegundir mun lægra eða 10%. Á árum áður voru þessi mörk almennt lægri á Nýja-Sjálandi. Meginmarkmið þessara reglna er að koma í veg fyrir að einstakir aðilar geti í krafti stærðar sinnar komið í veg fyrir eðlilega samkeppni í sjávarútvegi.
Starfshópurinn aflaði upplýsinga frá Fiskistofu um aflaheimildir fiskiskipa í eigu 55 stærstu útgerðarfyrirtækjanna. Kannaði hópurinn m. a. þær breytingar sem höfðu orðið á aflaheimildum fyrirtækjanna á síðustu árum. Í fylgiskjali IV er að finna upplýsingar um aflaheimildir fiskiskipa í eigu 55 stærstu útgerðarfyrirtækjanna. Er annars vegar miðað við aflaheimildir 55 stærstu fyrirtækjanna þann 1. september 1991 og hins vegar þann 1. september 1997. Í báðum tilvikum er miðað við verðmætastuðla eins og þeir voru þann 1. september 1997. Eins og fram kemur í sérstöku forsendublaði sem fylgir þessari samantekt þarf að hafa ýmsa fyrirvara þegar mat er lagt á slíkar upplýsingar. Í töflunum fyrir hvort ár koma fram upplýsingar um aflahlutdeild fyrirtækjanna í þeim 8 tegundum sem starfshópurinn gerir tillögu um að lúti sérstöku hámarki. Þá koma fram upplýsingar um samanlagða aflahlutdeild fiskiskipa í eigu þessara fyrirtækja eftir að tekið hefur verið tillit til verðmætis einstakra tegunda í þorskígildum. Athygli er vakin á því að við útreikning á samanlagðri aflahlutdeild er tekið tillit til allra þeirra tegunda sem sæta ákvörðun um leyfilegan heildarafla en ekki einungis þeirra 8 tegunda sem gert er ráð fyrir að sæti sérstöku hámarki. Er þetta í samræmi við ákvæði frumvarpsins sem samið var á vegum starfshópsins. Eins og fram kemur í þessum upplýsingum þá eru núverandi aflaheimildir þessara fyrirtækja innan þeirra marka sem starfshópurinn leggur til. Hins vegar þarf að hafa í huga að þessar upplýsingar eru byggðar á skipaskrá Fiskistofu en henni er viðhaldið samkvæmt upplýsingum sem stofan fær frá Siglingastofnun Íslands. Oft verður dráttur á að Siglingastofnun berist upplýsingar um eigendaskipti að skipum, hvort sem slík viðskipti gerast með beinum hætti eða við samruna eða sameiningu fyrirtækja. Því til viðbótar er rétt að benda á að upplýsingar um tengsl fyrirtækja liggja ekki fyrir. Ljóst er því að þessar upplýsingar eru ekki tæmandi varðandi það hvort einstök fyrirtæki séu innan þess hámarks sem gert er ráð fyrir að sett verði sbr. meðfylgjandi frumvarp. Starfshópurinn hefur hins vegar á grundvelli upplýsinga sem hann aflaði sér, m.a. með því að rita bréf til 50 stærstu útgerðarfyrirtækjanna kannað þessi mál frekar. Niðurstaða þeirrar könnunar er birt í fylgiskjali V. Þessi tafla er alfarið á ábyrgð starfshópsins en svipaðar upplýsingar hafa m.a. birst í Fiskifréttum nýlega. Það er mat starfshópsins að miðað við stöðu mála í dag sé frekar ólíklegt að eitthvert fyrirtæki sé yfir þeim mörkum sem hópurinn gerir tillögu um í frumvarpinu. Miðað við þróun undanfarinna ára má þó búast við því að það reyni á þetta hámark verði tillögur starfshópsins að lögum.
Eignaraðild að sjávarútvegsfyrirtækjum
Eins og áður segir ritaði starfshópurinn bréf sbr. fylgiskjal VI til 50 stærstu útgerðarfyrirtækja landsins miðað við aflahlutdeild þeirra eins og hún var í febrúar á þessu ári. Alls svöruðu rúmlega 30 fyrirtæki bréfi starfshópsins en samandregin svör þeirra er að finna í fylgiskjali VII.
Hjá 16 þeirra fyrirtækja sem svöruðu hafði orðið breyting á fjölda hluthafa frá árinu 1990 til 1997. Þar af hafði hluthöfum fjölgað hjá 13 fyrirtækjum og í sumum tilfellum hafði fjöldi hluthafa margfaldast og hlutfjáreign stærstu hluthafa minnkað að sama skapi. Hluthöfum hafði hins vegar fækkað lítilega hjá 3 fyrirtækjum.
Í bréfinu var m.a. spurt um hvort fyrirtækin ættu eignarhluti í öðrum sjávarútvegs-fyrirtækjum. Samkvæmt upplýsingum fyrirtækjanna kom fram að alls áttu 24 sjávarútvegsfyrirtæki hlut í 9 þeirra fyrirtækja sem svöruðu bréfi starfshópsins. Á hinn bóginn áttu 17 þeirra sjávarútvegsfyrirtækja sem svöruðu erindi starfshópsins hlut í 29 sjávarútvegsfyrirtækjum.
Starfshópurinn fjallaði um það hvort rétt væri að hafa annað og hærra hámark á aflahlutdeild fiskiskipa í eigu aðila þar sem eignaraðild er dreifð. Eftir allítarlegar umræður í hópnum var ákveðið að gera tillögu um að hámarksaflahlutdeild miðað við verðmæti yrði í slíkum tilvikum nokkru hærri eða 10% í stað 8%. Sömu reglur yrðu hins vegar látnar gilda, óháð eignardreifingu, hvað varðar hámarksaflahlutdeild fyrir einstakar tegundir. Það varð niðurstaða hópsins að draga mörkin við það að enginn einn aðili megi eiga meira en sem nemur 20% af hlutafé, stofnfé eða atkvæðisrétti í viðkomandi félagi samfara því skilyrði að engar hömlur megi vera á viðskiptum með eignarhluta í því félagi sem um ræðir. Starfshópurinn kannaði þær reglur sem gilda um skráningu fyrirtækja á Verðbréfaþingi Íslands. Það varð niðurstaða hópsins að ekki væri heppilegt að miða við reglur Verðbréfaþings enda er í þeim einungis kveðið á um tiltekinn lágmarks-fjölda hluthafa en ekki gerð krafa um dreifingu eignaraðildar að öðru leyti. Þá leggur starfshópurinn til að ef fjöldi félagsmanna í samvinnufélögum er 100 eða fleiri þá teljist slík félög uppfylla skilyrði um dreifða eignaraðild.
Áhrif lagasetningar
Sú þróun hefur orðið á undanförnum árum að aflaheimildir hafa færst á færri fyrirtæki og hlutur stærri fyrirtækja því vaxið. Jafnframt þessu hefur eigendum stærstu fyrirtækjanna fjölgað verulega. Það er mat starfshópsins að ef þær tillögur sem settar eru fram í meðfylgjandi frumvarpi nái fram að ganga þá muni þær styðja við þá þróun að eignarhald sjávarútvegsfyrirtækja færist á fleiri hendur en áður. Slík lagasetning myndi jafnframt koma í veg fyrir ótakmarkaða samþjöppun afla-heimilda og stuðla að því að eðlileg endurnýjun eigi sér stað varðandi eignarhald útgerðarfyrirtækja. Þá myndi slík löggjöf styrkja við þá almennu samkeppnislöggjöf sem er í gildi og nær m.a. annars til starfsemi sjávarútvegsfyrirtækja eins og fram kom í svari Samkeppnisstofnunar við bréfi starfshópsins.
Eins og fram kemur í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Fiskistofa fari með daglega framkvæmd laganna. Á þessu stigi er erfitt að áætla hversu viðamikið verkefni þetta yrði fyrir Fiskistofu. Miðað við stöðu mála í dag fer þó varla að reyna verulega á lögin alveg á næstunni. Fiskistofa þyrfti þó frá fyrsta degi að halda utan um skrá yfir alla þá aðila sem eiga meira en 10% í útgerðarfyrirtækjum.
Um nánari útfærslu á tillögum starfshópsins vísast til frumvarps til laga sem samið var á vegum hópsins og fylgir skilabréfi hans til sjávarútvegsráðherra.