AÞS: Skýrsla 1997: II Utanríkisþjónustan
Yfirlitsskýrsla um utanríkismál - 1977
II - Utanríkisþjónustan
Íslenska utanríkisþjónustan samanstendur af aðalskrifstofu ráðuneytisins, ásamt 15 sendiráðum og fastanefndum sem starfræktar eru í ýmsum löndum. Grundvallarmarkmið utanríkisstefnunnar eru að tryggja öryggis- og viðskipta- og menningarhagsmuni Íslands. Framlög til utanríkisþjónustunnar eru fjárfesting í hagsmunagæslu á þessum sviðum fyrir Ísland í samfélagi þjóðanna. Rekstur utanríkisþjónustunnar verður æ viðameira og margslungnara verkefni. Vart verður lengur hjá því komist að skapa aðstæður til að efla og endurskipuleggja utanríkisþjónustuna til að hún geti betur gegnt hlutverki sínu í breyttum heimi.
Þessi þróun er þegar hafin með stofnun viðskiptaþjónustunnar sem hefur að markmiði að aðstoða íslensk fyrirtæki og atvinnulíf í alþjóðlegri samkeppni. Fastanefnd hefur ennfremur verið sett á laggirnar við Evrópuráðið sem gegnir lykilhlutverki í þeim breytingum sem eru að eiga sér stað í Evrópu eftir lok kalda stríðsins. Loks hefur sendiráð verið opnað í Helsinki. Óhjákvæmilegt er að ganga enn lengra í þessari þróun og skoða stöðu utanríkisþjónustunnar í nýju ljósi og hvernig hún best getur gegnt hlutverki sínu. Í þessu skyni var sett á laggirnar nefnd undir forsæti ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins, sem í sitja fulltrúar frá forsætis- og utanríkisráðuneytum, utanríkismálanefnd og viðskiptalífinu. Vonir standa til þess að nefndin skili niðurstöðu sinni nú síðar í vetur.
Heildarútgjöld utanríkisþjónustunnar, þ.m.t. framlög til þróunarmála og aðildargjöld vegna alþjóðastofnana, hafa á undanförnum árum numið um einum af hundraði af heildarútgjöldum ráðuneyta. Hafa ber í huga að þessi framlög eru nauðsynleg og í raun arðbær fjárfesting sem treystir öryggi lands og þjóðar og stuðlar m.a. að auknum viðskiptum.