Hoppa yfir valmynd
7. nóvember 1997 Utanríkisráðuneytið

AÞS: Skýrsla 1997: III Ísland í alþjóðlegri samkeppni

Yfirlitsskýrsla um utanríkismál - 1977
Staða Íslands, breytingar og horfur í alþjóðlegu umhverfi

III - Ísland í alþjóðlegri samkeppni

Mikilvægi erlendra markaða og alþjóðlegra viðskiptareglna fyrir íslenskt atvinnulíf er ótvírætt og óumdeilt. Er því nauðsynlegt að utanríkisþjónustan geti þjónað á markvissan hátt þörfum íslensks atvinnulífs, bæði á alþjóðavettvangi með starfi innan þeirra stofnana sem fjalla um alþjóðlegar viðskipta- og efnahagsreglur og með beinni þjónustu við útflutningsatvinnuvegina. Utanríkisþjónustan vinnur að þessu markmiði í meginatriðum á tvennan hátt. Í fyrsta lagi með sértækri viðskiptaþjónustu, sem tók til starfa þann 1. september síðastliðinn (sjá kafla III.A) og hins vegar með virku samstarfi innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (sjá kafla III.B), Efnahags- og framfarastofnunarinnar (sjá kafla III.C) og síðast en ekki síst með víðtæku Evrópusamstarfi á vettvangi Norðurlandasamstarfsins (sjá kafla IV), innan Fríverslunarsamtaka Evrópu (sjá kafla VI.A) og Evrópska efnahagssvæðisins (sjá kafla VI.B).

Aðlögun utanríkisþjónustunnar að breyttu viðskiptaumhverfi

Í fimmtíu og sjö ára sögu utanríkisþjónustunnar má skipta starfsemi hennar að viðskiptamálum upp í þrjú tímabil. Frá árinu 1940 og fram undir 1960 voru aðalstörf utanríkisþjónustunnar tengd viðskiptamálum og þá ekki síst gerð tvíhliða viðskiptasamninga og útgáfu útflutningsleyfa. Frá þeim tíma og fram til 1987 hafði þessi málaflokkur minna vægi í starfi utanríkisþjónustunnar og þá sérstaklega ráðuneytisins. Meginástæða þess var sú að á þessu tímabili fór viðskiptaráðuneytið að mestu með útflutningsviðskipti. Gerð tvíhliða viðskiptasamninga og útgáfa útflutningsleyfa voru á ábyrgð þess ráðuneytis. Á þessum tíma jókst þátttaka Íslands í alþjóða- og svæðasamstarfi á sviði efnahags- og viðskiptamála með aðild Íslands að GATT, EFTA og tvíhliða samningi við Evrópusambandið. Virk samvinna var á milli utanríkisráðuneytisins og viðskiptaráðuneytisins um það samstarf.

Árið 1987 voru utanríkisviðskipti færð frá viðskiptaráðuneytinu til utanríkisráðuneytisins og var það í samræmi við þá þróun sem hafði átt sér stað í nágrannalöndunum.
Á undanförnum árum hefur sú þróun orðið hjá æ fleiri ríkjum að nýta sendiráð sín meir og markvissar í þágu útflutningsatvinnuveganna. Þessi þróun hefur orðið samfara því að alþjóðlegt viðskiptaumhverfi hefur tekið gífurlegum breytingum. Frjálsræði hefur aukist og alþjóðleg samkeppni fer sífellt vaxandi. Samhliða þessu hefur átt sér stað hugarfarsbreyting hjá stjórnendum íslenskra fyrirtækja með aukinni útrás sem er rökrétt og nauðsynleg og gerir þau færari til að taka þátt í alþjóðlegri samkeppni.

Til þess að takast á við þetta breytta viðskiptaumhverfi hefur utanríkisviðskiptastefna Íslands verið endurskoðuð rækilega í tíð núverandi ríkisstjórnar. Þessi endurskoðun hófst fyrir tveimur árum með auknu samstarfi við Útflutningsráð Íslands sem leiddi til samkomulags um að utanríkisráðuneytið tæki að sér þá starfsemi sem viðskiptafulltrúar Útflutningsráðs erlendis höfðu gegnt. Í framhaldi af því var sett á fót Viðskiptaþjónusta utanríkisráðuneytisins og tók hún til starfa 1. september síðastliðinn. Mikilvægur þáttur í þeirri þjónustu verður að efla starfsemi sendiráða Íslands á sviði viðskiptamála. Einnig er ætlunin að virkja enn frekar kjörræðismenn Íslands í þessum tilgangi.

Viðskiptafulltrúar hafa verið ráðnir til Parísar og New York og tilnefndir hafa verið viðskiptafulltrúar í öðrum sendiráðum. Jafnframt hafa verið staðarráðnir starfsmenn í Moskvu og Berlín til að sinna viðskiptamálum.

Í öllum sendiráðum Íslands er veitt markaðsaðstoð og fyrirtækjaþjónusta. Nú þegar hafa viðskiptafulltrúar sinnt fjölda verkefna fyrir íslenska útflytjendur og ljóst er að mikil þörf er fyrir þessa þjónustu. Ætlunin er að þróa og auka enn frekar starfsemi viðskiptaþjónustunnar á komandi misserum.

Sendiráðin hafa að undaförnu tekið virkan þátt í þessum breyttu áherslum utanríkisþjónustunnar. Í því sambandi má meðal annars nefna stofnun Þýsk-íslenska verslunarráðsins, Spænsk-íslenska verslunarráðsins og fyrirhuguð er stofnun slíks verslunarráðs í Bretlandi um miðjan nóvember 1997 í samvinnu við Verslunarráð Íslands. Einnig má nefna að sendiráðin hafa í samvinnu við Fjárfestingarskrifstofu Íslands unnið markvisst að því að kynna fjárfestingarmöguleika á Íslandi fyrir erlendum fjárfestum.

Annar þáttur í þessum breyttu áherslum í utanríkisviðskiptastefnu Íslands er að auka tengsl við ríki sem búið hafa við stöðugleika og mikinn hagvöxt undanfarin ár og þá ekki síst við þau ríki þar sem hefð er fyrir sjávarútvegi. Í þessum tilgangi var árið 1996 skipulögð opinber heimsókn til Kóreu þar sem var með í för stór viðskiptasendinefnd. Í ágúst 1997 var farið í opinbera heimsókn til Argentínu og Chile og með í þeirri ferð voru hátt í 30 fulltrúar íslenskra fyrirtækja og hagsmunasamtaka atvinnulífsins. Þetta var stærsta viðskiptasendinefnd sem farið hefur með íslenskum ráðherra til annarra landa.

Á undanförnum tveimur árum hafa jafnframt farið viðskiptasendinefndir undir forystu utanríkisráðuneytisins og í samvinnu við Útflutningsráð Íslands til Kína, Tékklands, Suður-Afríku, Namibíu, Rússlands og Pakistan.

Alþjóðaviðskiptastofnunin (WTO)

Á næsta ári verða fimmtíu ár liðin frá stofnsetningu hins fjölþjóðlega viðskiptakerfis með gildistöku GATT-samningsins. GATT var í upphafi einungis bráðabirgða-samkomulag, en í 47 ár þjónaði það sem eini alþjóðlegi samningurinn um grundvallarreglur í viðskiptum þjóða. Með því að stuðla að frelsi, réttaröryggi og stöðugleika í viðskiptum hefur GATT-samningurinn gegnt lykilhlutverki í ört vaxandi heimsviðskiptum og fært aðildarríkjum sínum aukna hagsæld og velmegun.

Ísland gerðist aðili að GATT-samningnum árið 1968 og stofnaðili að Alþjóða-viðskipta-stofnuninni (WTO) þann 1. janúar 1995. WTO var sett á laggirnar í kjölfar Úrúgvæviðræðnanna sem fyrsti eiginlegi stofnanaramminn utan um hið fjölþjóðlega viðskiptakerfi. Ekki er þar einungis um að ræða GATT-samninginn um vöruviðskipti í endurbættri mynd heldur einnig nýja samninga um landbúnað, þjónustuviðskipti, hugverkaréttindi og lausn deilumála, svo að dæmi séu nefnd. Stofnunin er jafnframt vettvangur áframhaldandi samningaviðræðna um frekara frjálsræði í viðskiptum.

Slíkar viðræður hafa verið mjög áberandi í starfsemi WTO fyrstu ár stofnunarinnar. Fyrr á þessu ári tókst að ljúka samningum um afnám tolla á ýmsar vörur tengdar upplýsingatækni, svo sem tölvur, hugbúnað og fjarskiptatæki. Ísland lagði sitt af mörkum til að tryggja að samningurinn yrði að veruleika í samræmi við framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið. Er almenningi og atvinnuvegum þar með tryggður greiður aðgangur að upplýsingasamfélaginu.

Innan ramma samningsins um þjónustuviðskipti (GATS) hafa átt sér stað viðræður um sjóflutninga og grunnfjarskipti. Þar tekur Ísland á sig skuldbindingar um almennan markaðsaðgang í samræmi við ákvæði EES-samningsins. Nútímaviðskipti krefjast þess að aðgangur að alþjóðlegri fjármálaþjónustu sé stöðugur og reglufastur og er nú stefnt að því að ljúka viðræðum um aukið frjálsræði í þessum þjónustugeira fyrir lok ársins. Framlag Íslands til þess markmiðs er að bjóðast til að binda þann markaðsaðgang sem núgildandi löggjöf heimilar.

Sjónir WTO hafa undanfarið beinst að einstökum þjónustugeirum en um aldamótin mun hefjast ný og umfangsmikil viðræðulota um þjónustuviðskipti, sem mun miða að því að útvíkka fyrirliggjandi skuldbindingar samningsaðila og fella ný svið undir ákvæði GATS-samningsins. Hér er á ferðinni mikilvægur vaxtarbroddur í íslensku atvinnulífi og hafa íslensk stjórnvöld mikilla hagsmuna að gæta í að tryggja markaðstækifæri í öðrum löndum.

Með landbúnaðarsamningi WTO var ýtt úr vör umbótaferli í viðskiptum sem að mestu höfðu fallið utan áhrifasviðs gamla GATT-samningsins. Frá gildistöku landbúnaðar-samningsins hefur WTO einbeitt sér að eftirliti með fyrirliggjandi skuldbindingum en athyglin beinist nú í auknum mæli að samningsbundnum viðræðum um áframhald umbótaferlisins, sem hefjast mun um aldamótin. Þær viðræður munu varða útvíkkun á öllum fyrirliggjandi skuldbindingum um markaðsaðgang, innanlandsstuðning og útflutningsbætur. Jafnframt verður framkvæmd samningsaðila á þessum skuld-bindingum í brennidepli að fenginni reynslu undanfarinna ára.

Ólíkt því sem gerist með þjónustuviðskipti og landbúnað er ekki að finna skuldbindingar í samningum WTO um nýjar viðræður á sviði vöruviðskipta. Vaxandi áhugi er þó fyrir því að viðræður á þessum þremur sviðum eigi sér stað samtímis, en slíkt myndi í raun þýða að ný allsherjarlota væri framundan. Auðveldara kynni að reynast að finna jafnvægi á milli ávinnings og ívilnana í slíku samningaumhverfi. Hefur Ísland verið fylgjandi hugmyndum um nýjar viðræður um vöruviðskipti, en þar mætti knýja fram frekari tollalækkanir fyrir helstu útflutningsvörur Íslands og semja um afnám annarra viðskiptahindrana sem kunna að vera fyrir hendi.

Í aðildarviðræðum hinna ýmsu ríkja felst einnig tækifæri til að bæta aðgang íslenskra útflutningsvara að mörgum mikilvægum mörkuðum. Um 30 ríki eiga nú í aðildar-viðræðum í WTO, þ.á m. stórþjóðir á borð við Kína og Rússland. Víðtæk aðild að hinu fjölþjóðlega viðskiptakerfi er nauðsynleg til að Alþjóðaviðskiptastofnunin standi undir nafni. Þó verður að gæta jafnvægis milli réttinda og skuldbindinga til að kerfið styrkist með hverjum nýjum aðila og hefur Ísland það sjónarmið að leiðarljósi í öllum aðildarsamningum.

Undanfarin ár hefur WTO fjallað um tengsl viðskipta og umhverfismála, m.a. með tilliti til hvort nauðsynlegt kunni að vera að skýra eða rýmka heimildir samningsaðila til að grípa til viðskiptaaðgerða í þágu umhverfisverndar. Um gífurlega víðfeðmt og flókið viðfangsefni er að ræða og hefur árangur því látið á sér standa. Málflutningur Íslands hefur miðast við að ekki eigi að líta á umhverfisvernd og viðskiptafrelsi sem ósamrýmanleg markmið heldur geti hvort tveggja stuðlað að sjálfbærri þróun. Jafnframt því sem hagsmunir Íslands felast í því að stuðla að almennri umhverfis-vernd og skynsamlegri nýtingu auðlinda þarf að gæta þess að heimildir ríkja til að grípa til umhverfisaðgerða veiti duldum viðskiptahindrunum ekki skjólshús.

Fjárfestingar eru í síauknum mæli drifkraftur heimsviðskipta og er WTO um þessar mundir að fjalla um og skilgreina tengslin þar á milli. Gætu þær viðræður að lokum leitt til þess að settar verði fjölþjóðlegar reglur um fjárfestingar innan ramma WTO. Einnig er vaxandi áhugi á slíkri reglusetningu á samkeppnissviðinu.

Efnahags- og framfarastofnunin (OECD)

Meginverkefni OECD hefur alla tíð verið að aðstoða ríkisstjórnir aðildarríkjanna við að marka skynsamlega stefnu við stjórn efnahagsmála. Árangur af störfum stofnunarinnar byggist meðal annars á því að aðildarríkin eru í meginatriðum sammála í afstöðu sinni til markaðsþjóðfélagsins og því fæst raunhæfur samanburður á milli þeirra þar sem eitt ríki getur af öðru lært. Hvergi kemur þetta betur í ljós en í yfirheyrslu efnahagsmálanefndarinnar þar sem aðildarríkin eru látin gera ýtarlega grein fyrir þróun og stjórn efnahagsmála heima fyrir. Hvað Ísland varðar er þetta nú gert annað hvert ár og síðast nú á þessu ári.

Það sem hæst ber í starfsemi stofnunarinnar um þessar mundir er að venju samstarf á sviði efnahags-, viðskipta- og ríkisfjármála. Auk þess má nefna starfsemi á sviði peninga-, iðnaðar-, fiski-, landbúnaðar- og umhverfismála, svo að dæmi séu tekin. Úttektir um íslensk landbúnaðarmál, umhverfismál, heilbrigðis- og menntamál hafa reynst mjög gagnlegar við ákvarðanatöku og stefnumótun hér innanlands. Af öðrum verkefnum, sem Ísland hefur haft hag af, má t.d. nefna samstarf stofnunarinnar við fjármálaráðuneytið um hagræðingu og endurskipulagningu í opinberri stjórnsýslu. Þátttaka Íslands í starfi OECD hefur farið vaxandi á undanförnum árum og taka flest ráðuneyti auk Þjóðhagsstofnunar og Seðlabanka Íslands nú beinan þátt í starfsemi stofnunarinnar.

Meðal þeirra verkefna sem OECD leggur mikla áherslu á nú um stundir má nefna gerð fjölþjóðlegs fjárfestingarsamnings (MAI). Standa vonir til að samningaviðræðum ljúki vorið 1998. Fulltrúar íslenskra stjórnvalda hafa tekið virkan þátt í þeirri samningagerð og er ljóst að umtalsvert hagræði getur orðið af þeim samningi.

Á vettvangi OECD er einnig unnið að gerð samnings um bann við mútugreiðslum og má vænta þess að honum verði lokið fyrir árslok. Slíkur samningur ætti að jafna samkeppnisskilyrði og þá væntanlega auka samkeppnishæfni smærri fyrirtækja.

Hröð þróun í átt til alþjóðavæðingar þar sem efnahagskerfi heimsins samtvinnast æ meir veldur óvissu meðal almennings í mörgum aðildarlöndum. Tækniframfarir verða æ örari, alþjóðlegar fjárfestingar aukast og upplýsingar streyma hraðar en áður. Til þess að mæta þessari þróun hefur OECD beitt sér fyrir könnun á ýmsum grunnþáttum efnahagslífsins, svo sem framleiðni, tækniframförum, félagslegum aðstæðum, sköttum og tengslum þeirra við atvinnusköpun.

OECD stendur að mörgu leyti á krossgötum. Frá árinu 1994 hafa bæst í hóp aðildarríkja Mexíkó, Ungverjaland, Tékkland, Pólland og Kórea. Meðal núverandi aðildarríkja eru uppi efasemdir um ágæti þess að fjölga ríkjum um of. Sú skoðun er almennt ríkjandi að fara beri varlega í stækkun OECD ella sé hætta á að það komi niður á starfsemi stofnunarinnar. Nokkur ríki hafa óskað eftir aðild en af framansögðu má ætla að nokkur tími líði þar til þeim verður bætt í hópinn enda þurfa ný aðildarríki að uppfylla ströng skilyrði til þátttöku og sýna fram á árangur í stjórn efnahagsmála. Hins vegar hefur OECD að undanförnu verið að auka samskipti sín við ýmis ríki sem ekki eiga aðild að stofnuninni, einkum við Rússland.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta