AÞS: Skýrsla 1997: V Samstarf á grannsvæðum
Yfirlitsskýrsla um utanríkismál 1977
Staða Íslands, breytingar og horfur í alþjóðlegu umhverfi
V - Samstarf á grannsvæðum
Í samræmi við niðurstöðu sérstakrar nefndar, er utanríkisráðherrar Norðurlanda skipuðu og skilaði áliti á síðasta ári, leggja Norðurlönd nú áherslu á að samræma margvíslegan stuðning og starfsemi í Eystrasaltsríkjunum, Norðvestur-Rússlandi og á heimsskautasvæðum. Lögð er áhersla á að efla stuðning á þeim sviðum þar sem framlag Norðurlanda getur orðið að sem mestu gagni. Þar ber hæst félags- og atvinnumál, á sviði frjálsra félagasamtaka og varðandi réttindi minnihlutahópa. Ennfremur gott samstarf við norrænar fjármálastofnanir og Evrópusambandið og að samstarf Norðurlanda á vettvangi Eystrasaltsráðsins, Barentsráðsins og Norðurskautsráðsins verði eflt eins og kostur er.
Eystrasaltsráðið (CBSS)
Eftir lok kalda stríðsins, vöknuðu ríkin við Eystrasaltið til nýrrar vitundar um sameiginlega arfleifð á sviði stjórnmála, viðskipta, mennta og menningar. Sú vitund skerptist enn með sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna þriggja, Eistlands, Lettlands og Litháens í upphafi þessa áratugar. Í ljósi þessa buðu utanríkisráðherrar Danmerkur og Þýskalands starfsbræðrum sínum í ríkjum er liggja að Eystrasalti, þ.e. í Eistlandi, Lettlandi, Litháen, Finnlandi, Svíþjóð, Rússlandi og Póllandi, að Noregi og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins viðbættum, til fundar í Kaupmannahöfn 5. – 6. mars 1992. Á dagskrá var stofnun Eystrasaltsráðsins. Fyrirmynd að skipulagi og starfsemi ráðsins var að verulegu leyti sótt til hefðbundins samstarfs Norðurlandanna.
Stofnskrá Eystrasaltsráðsins endurspeglar það meginhlutverk þess að stuðla að stjórnmálalegum og efnahagslegum stöðugleika í norðausturhluta Evrópu. Í því felst að leitast er við að treysta mannréttindi og aðstoð við þróun og uppbyggingu lýðræðis og réttarríkis í þeim aðildarríkjum sem áður bjuggu við kommúnisma og að efla samkennd með nýfrjálsum íbúum þessara ríkja. Markmið samstarfs á sviði efnahags- og viðskiptamála er að bæta viðskiptaumhverfi til eflingar frjálsum viðskiptum. Á vettvangi ráðsins fer einnig fram margvíslegt annað samstarf, til dæmis á sviði samgangna og fjarskipta, umhverfismála, orkumála, heilbrigðismála, réttarfars og upplýsinga- og ferðamála.
Á grundvelli sögulegra tengsla og nýrra áherslna Norðurlanda á grannsvæðasamstarf lögðu íslensk stjórnvöld áherslu á aðild að Eystrasaltsráðinu og fékk Ísland aðild að ráðinu á utanríkisráðherrafundi þess í maí 1995. Með aðildinni vildu íslensk stjórnvöld leggja sitt af mörkum til að stuðla að stjórnmálalegum og efnahagslegum stöðugleika í Evrópu og efla samskipti við Eistland, Lettland, Litháen, Pólland og Rússland.
Uppbygging Eystrasaltsráðsins og fastir vinnuhópar
Ráðherranefnd Eystrasaltsráðsins er skipuð utanríkisráðherrum aðildarríkjanna og kemur hún saman til fundar einu sinni á ári í viðkomandi formennskuríki. Eystrasaltsráðið hefur náin samskipti við Evrópusambandið, Evrópuráðið, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu og Norðurlandaráð. Stjórnarnefnd embættismanna (CSO) kemur reglulega saman. Þrír fastir vinnuhópar starfa innan Eystrasaltsráðsins og gefa þeir stjórnarnefndinni reglulega yfirlit um starfsemi sína. Vinnuhóparnir fjalla um mannréttindi og uppbyggingu lýðræðislegra stofnana, efnahagssamvinnu, kjarnorkueftirlit og geislavarnir. Einnig starfar í umboði ráðsins sérstakur fulltrúi sem fer með mannréttindamál og málefni tengd uppbyggingu lýðræðislegra stofnana. Hann hefur aðsetur í Kaupmannahöfn. Að auki eru starfandi ýmsar undirnefndir og sérfræðingahópar er fjalla um margvísleg málefni.
Vinnuhópur um mannréttindi og uppbyggingu lýðræðislegra stofnana
Meginviðfangsefni vinnuhópsins er að stuðla að uppbyggingu lýðræðislegra stofnana í aðildarríkjunum og miðla fenginni reynslu af lýðræðislegum stjórnarháttum til nýfrjálsra ríkja. Í því skyni hefur vinnuhópurinn beitt sér fyrir margvíslegri starfsemi og mótað tillögur um leiðir til að efla lýðræðisþróun og ryðja úr vegi hindrunum í því sambandi. Á skömmum tíma hefur náðst verulegur árangur á sviði samræmdrar lagasetningar sem endurspeglast meðal annars í aðild einstakra ríkja að alþjóðlegum skuldbindingum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu og Evrópuráðsins. Einnig hafa mannréttindamál verið mjög til umfjöllunar í vinnuhópnum og mótaðar hafa verið tillögur til úrbóta.
Að frumkvæði utanríkisráðherra og mannréttindafulltrúa Eystrasaltsráðsins heimsótti umboðsmaður Alþingis Eistland í apríl síðastliðnum þar sem hann upplýsti Eista um starfsemi umboðsmanns Alþingis og reynslu Íslendinga af starfi embættisins. Eistar undirbúa nú skipun umboðsmanns þjóðþingsins og hafa sérstakan áhuga á því að fræðast um reynslu Íslendinga á því sviði. Vinnuhópurinn hélt fund á Íslandi í maí síðastliðnum og var sérstök áhersla lögð á að kynna stofnanir réttarríkis á Íslandi, með heimsóknum til umboðsmanns Alþingis og umboðsmanns barna, auk þess sem fundir voru haldnir með allsherjarnefnd Alþingis og borgarritara Reykjavíkur. Vinnuhópurinn tekur nú saman skýrslu um málefni barna og er haft um það samstarf við umboðsmann barna.
Vinnuhópur um efnahagssamvinnu
Grundvallarmarkmiðið með starfi vinnuhópsins er að efla og bæta viðskiptaumhverfi í aðildarríkjum Eystrasaltsráðsins og laga efnahagskerfi Eystrasaltsríkjanna, Póllands og Rússlands að því efnahagsmynstri sem nútímaviðskipti byggjast á. Margvíslegir möguleikar á sviði viðskipta hafa þróast á Eystrasaltssvæðinu á skömmum tíma. Efnahagslegur uppgangur á svæðinu hefur verið mikill og spáð er allt að fimm til sex prósenta hagvexti á næstu árum. Vinnuhópurinn á náið samstarf við önnur ríkjasamtök og stofnanir á sviði efnahagsmála, svo sem Evrópusambandið, EFTA, Alþjóðabankann, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, OECD og Viðreisnarbanka Evrópu. Starfsáætlanir Evrópusambandsins og þróunarverkefni á Eystrasaltssvæðinu, einkum svonefndar PHARE og TACIS áætlanir, hafa ennfremur verið samræmdar af hálfu vinnuhópsins. Vinnuhópurinn hefur einnig beitt sér fyrir eflingu samstarfs hagsmunasamtaka á starfssvæðinu, einkum á milli einstakra verslunarráða. Hefur sérstakt viðskiptaráð, Baltic Business Advisory, verið sett á laggirnar á hans vegum með aðild fulltrúa verslunar- og útflutningsráða aðildarríkja Eystrasaltsráðsins.
Á núverandi starfsári vinnuhópsins er meðal annars lögð áhersla á samstarf á sviði orkumála, samstarf á landamærum til að efla landflutninga og draga úr skjalafári í landamærastöðvum, og á samgöngur á landi og bætt fjarskipti.
Vinnuhópur um geislavarnir og kjarnorkueftirlit
Höfuðverkefni hópsins er að fylgjast með öryggi í kjarnorkuverum á Eystrasalts-svæðinu og annast samstarf á sviði geislavarna. Eins og dæmin sanna er eftirliti og viðhaldi kjarnorkuvera í Eystrasaltsríkjunum, Póllandi og Rússlandi nokkuð ábótavant. Leitað er leiða til að þróa sameiginleg eftirlitskerfi til að fylgjast með geislavirkni og tekur vinnuhópurinn þátt í tilraunum til að koma á alþjóðlegum samningum um geymslu og flutning geislavirks úrgangs frá kjarnorkuverum. Jafnframt er hvatt til þess að aðildarríki Eystrasaltsráðsins fullgildi aðra alþjóðasamninga er málið varða. Á skömmum tíma hefur verulegur árangur náðst í Eistlandi, Lettlandi og Litháen á sviði geislavarna og kjarnorkueftirlits, einkum vegna náins samstarfs við grannríkin Svíþjóð og Finnland sem af eðlilegum ástæðum hafa látið þessi málefni mjög til sín taka. Aftur á móti vekur ástand einstakra kjarnorkuvera í Rússlandi verulegan ugg, svo að ekki sé minnst á ástand kjarnorkuofna og geislavirks úrgangs frá rússneska hernum og úr aflóga skipum og kafbátum.
Annað starf innan vébanda Eystrasaltsráðsins
Forvarnarstarf gegn skipulagðri glæpastarfsemi
Í kjölfar samþykktar á leiðtogafundi Eystrasaltsráðsins i Visby í júlí 1996 ákváðu stjórnvöld í aðildarríkjum ráðsins að setja á laggirnar sérstakan starfshóp sérfræðinga er falið yrði að þróa forvarnarstarf gegn skipulagðri glæpastarfsemi, sem fer vaxandi á Eystrasaltssvæðinu. Á undanförnum mánuðum hefur starfshópurinn haft til umfjöllunar ýmsar tillögur til úrbóta, í náinni samvinnu við lögreglu- og dómsmálayfirvöld í aðildarríkjunum. Skipulögð glæpastarfsemi er ein helsta hindrun eðlilegs samruna og samstarfs á milli ríkja Evrópu. Starfshópurinn hefur meðal annars fjallað um aðgerðir til að sporna við sölu og dreifingu eiturlyfja, sölu stolinna ökutækja, ólöglegum innflytjendum, peningafölsun, peningaþvætti og vopnasölu. Starfshópurinn starfar náið með alþjóðalögreglunni Interpol.
Eurofaculty – samstarf háskóla á Eystrasaltssvæðinu
Í kjölfar stofnunar Eystrasaltsráðsins árið 1992 var komið á samstarfi háskóla í aðildarríkjum ráðsins er miðaði að því að leysa úr brýnni þörf og efla háskólakennslu í Eystrasaltsríkjunum. Fljótlega komst á samstarf við háskóla í Eystrasaltsríkjunum þremur. Nú er ákveðið að háskólinn í Kaliningrad í Rússlandi taki einnig þátt í háskólasamstarfinu. Mikill skortur er á hæfum háskólakennurum og kennsluefni, einkum á sviði lögfræði, stjórnmálafræði og viðskiptafræði.
Samstarf á sviði umhverfismála
Innan Eystrasaltsráðsins er unnið að margvíslegum samstarfsverkefnum á sviði umhverfismála og eru m.a. haldnir reglulegir fundir umhverfisráðherra aðildarríkjanna. Grunnvatn er víða mengað af ýmsum spilliefnum og skólp og iðnaðarúrgangur rennur hindrunarlaust í sjó fram. Loftmengun er einnig alvarlegt vandamál.
Samstarf á sviði ferðaþjónustu og samgangna
Samhliða frelsi til ferðalaga og aukinni efnahagslegri velferð hefur ferðaþjónustu á Eystrasaltssvæðinu vaxið fiskur um hrygg. Ferðaþjónusta hefur einnig dafnað vegna afnáms gagnkvæmra krafna um vegabréfsáritanir. Í apríl voru af Íslands hálfu undirritaðir samningar við Eistland, Lettland og Litháen um gagnkvæmt afnám vegabréfsáritana.
Norðurskautsráðið
Norðurskautsráðið, sem stofnað var fyrir rúmu ári, er nú smám saman að fá á sig svip. Skipulagsreglur ráðsins eru nær fullgerðar. Einungis stendur eftir ágreiningur um hvernig skuli haga brottvikningu áhugamannasamtaka sem veitt hefur verið áheyrnaraðild að ráðinu ef þau fyrirgera rétti sínum með ábyrgðarlausri framkomu. Íslendingar, Grænlendingar og fleiri hafa bitra reynslu af öfgum slíkra samtaka. Þau njóta mörg hver ekki lýðræðislegs aðhalds en ráða hins vegar yfir miklu fé sem of oft er misnotað til blekkjandi áróðurs. Því er það stefna Íslands að ekki komi annað til greina en að nærvera fulltrúa frá slíkum samtökum á fundum Norðurskautsráðsins og þátttaka í starfi þess falli niður jafnskjótt og ljóst verður að ekki er lengur samstaða meðal aðildarríkjanna um áheyrnaraðildina, m.ö.o. að andstaða eins fullgilds aðildarríkis nægi til brottvikningar, jafnframt því sem slík andstaða mun einnig nægja til að hindra þátttöku nýrra áheyrnaraðila. Víðtæk samstaða er um þessa afstöðu innan samtakanna, þótt ekki sé hún algjör.
Sú regla gildir á vettvangi ráðsins að fulla samstöðu þarf um allar ákvarðanir. Þannig ræður sá ferðinni sem hægast vill fara. Ísland stefnir að því að efla starfsemi ráðsins og hefur starfi okkar innan þess verið hagað í þeim anda. Ráðið hefur nú tekið við víðtæku umhverfisverndarstarfi á norðurslóðum sem hófst á grunni Rovaniemi-ferilsins 1991 og hefur lotið forystu umhverfisráðherra aðildarríkjanna. Þar hefur margt þegar áunnist, m.a. var um mitt þetta ár lögð fram viðamikil úttekt á umhverfisástandi norðurslóða. Hún færði sönnur á að þótt ástandið sé með því besta sem gerist í veröldinni er engu að síður um að ræða staðbundin vandamál sem ráða þarf bót á. Hefur formönnum fjögurra vísindahópa ráðsins verið falið að undirbúa aðgerðir. Þær verða svo ákveðnar á fyrsta ráðherrafundi Norðurskautsráðsins sem ekki náðist samstaða um að halda fyrr en síðari hluta næsta árs. Vert er að nefna að mengun norðurslóða á sér að verulegu leyti uppsprettur utan landanna átta sem að samstarfinu standa. Árangursrík barátta gegn henni, í senn mengun lands, lofts og sjávar, kallar því á enn víðtækari samvinnu. Verður brugðist við því með því að herða róðurinn á alþjóðavettvangi.
Það er hagsmuna- og baráttumál Íslands að Norðurskautsráðið nái sem fyrst að verða vettvangur þar sem yfirsýn fæst yfir stöðu mála á norðurslóðum og þjóðirnar geta tekið höndum saman um að tryggja í senn sjálfbæra nýtingu auðlinda og eðlilega umhverfisvernd.
Ísland hefur sýnt í verki vilja sinn til þess að leggja lið starfseminni sem nú fer fram á vegum Norðurskautsráðsins með því m.a. að annast skrifstofuhald fyrir þann hluta starfsins sem lýtur að vernd náttúrulífs á norðurslóðum (Conservation of Arctic Flora and Fauna/CAFF). Önnur aðildarríki taka þátt í greiðslu kostnaðar en forstöðumaður er Snorri Baldursson líffræðingur. Hefur rekstur skrifstofunnar nú staðið í rúm þrjú misseri og hlotið verðskuldað lof. Einnig höfum við tjáð okkur reiðubúna til að koma til móts við þarfir vísindahópsins um verndun hafsvæðis norðurslóða (Protection of the Arctic Marine Environment/PAME) fyrir skrifstofuþjónustu, enda er verksvið hennar einkar mikilvægt fyrir okkur. Er það mál í deiglunni. Enn sem komið er hefur ekki náðst samstaða um að setja á fót eina aðalskrifstofu fyrir Norðurskautsráðið – en komi til þess mæla ýmis rök með því að henni yrði valinn staður hérlendis, mitt á milli aðildarríkjanna í austri og vestri. Flestum ber saman um þá skoðun sem við fylgjum eindregið að með sameinuðu skrifstofuhaldi fyrir ráðið væri auðveldara að sneiða hjá tvíverknaði og tryggja þannig markvissara starf og betri nýtingu fjárveitinga.
Af ýmsum öðrum verkefnum, sem unnið er að undir merkjum Norðurskautsráðsins, má t.d. nefna starf vísindahópsins að eftirliti og mati á umhverfisástandi (Arctic Monitoring and Assessment Programme/AMAP) að áframhaldandi söfnun upplýsinga um þróun mengunar á norðurslóðum með sérstakri áherslu á að greina áhrif mengandi efna á heilsufar. Einnig er fylgst með breytingum af völdum útfjólublárrar geislunar og loftslagsbreytinga. Unnið er að frekari afmörkun svæða sem þarfnast sérstakrar verndar (Circumpolar Protected Areas Network/CPAN). Áætlun um aðgerðir til að tryggja líffræðilegan fjölbreytileika á norðurhjara er í undirbúningi hjá vísindahópnum. Skrifstofan á Akureyri sinnir því starfi en umhverfisráðherrarnir hafa markað því stefnu. Þá er vonast til að áætlun um aðgerðir til að vernda hafið gegn mengun frá landi verði endanlega samþykkt á ráðsfundinum næsta haust. Unnið er að áframhaldandi skipulagningu kerfis til söfnunar upplýsinga um sjóflutninga á norðurhöfum, jafnframt því sem Alþjóðasiglingamálastofnunin hefur verið hvött til að ljúka samningu leiðbeininga fyrir skip sem sigla um nyrstu höf. Leiðbeiningar varðandi olíu- og gasvinnslu á sjó hafa þegar verið staðfestar, jafnframt því sem hvatt hefur verið til þess að aðildarríkin nýti sér leiðbeiningar sem vísindahópur um aðgerðir til að fyrirbyggja og draga úr afleiðingum umhverfisslysa (Emergency Prevention, Preparedness and Response/EPPR) hefur samið. Þannig mætti áfram telja margvíslegt nýtilegt starf sem unnið hefur verið og verða mun á dagskrá ráðsins.
Eins og ljóst er af framansögðu gegna umhverfisráðuneyti aðildarríkjanna mikilvægu hlutverki í því starfi sem Norðurskautsráðið mun einbeita sér að. Áformað starf að sjálfbærri nýtingu auðlinda norðurslóða, sem ennþá er eftir að móta, mun fyrirsjáanlega einnig snerta m.a. sjávarútvegsráðuneyti landanna. Vaxi ráðinu eðlilega fiskur um hrygg má þannig ætla að starfið snerti smám saman svið æ fleiri fagráðuneyta þótt gert sé ráð fyrir að utanríkisráðuneyti landanna gegni samræmingar- og forystuhlutverki þar sem um milliríkjasamstarf er að ræða. Með hliðsjón af þessu hefur Ísland verið eitt forgönguríkja þess að í núverandi drögum að skipulagsreglum ráðsins er möguleikum haldið opnum til að halda undir merkjum þess sérstaka fundi fagráðherra eftir því sem þörf þykir á. Einnig hefur Ísland beitt sér fyrir því að reglurnar greiði leiðina til skynsamlegrar samhæfingar á starfi ráðsins við það sem önnur samtök, t.d. Barentsráðið, eru að gera á sömu sviðum.
Mikilsvert er að sá áhugi, sem alþingismenn hafa sýnt tilkomu þessa samstarfs á norðurslóðum og stuðningur þeirra við starfið, haldist. Einnig er rétt að geta sérstaklega um gagnlegan skerf Alþjóða-vísindanefndarinnar um norðurskauts-rannsóknir (International Arctic Science Committee/IASC) sem þar til nýlega laut formennsku Magnúsar Magnússonar fv. prófessors.
Barentsráðið (BEAC)
Barentsráðið hefur þrengri landfræðilegan starfsvettvang en Norðurskautsráðið en starf þess er engu að síður mjög mikilvægt. Hefur það þegar orðið til þess að treysta tengslin milli Norðurlanda og Rússlands einkum hvað varðar mengunarvarnir og efnahagslega uppbyggingu í norðvestanverðu Rússlandi. Lega Íslands veldur því ásamt fleiru að á sumum sviðum, s.s. samgöngumálum, verður ekki um jafnnáið samstarf að ræða af okkar hálfu og hinna Norðurlandanna. Engu að síður eru fullar forsendur fyrir þátttöku okkar eins og samstarf um tækniframfarir í rússneskri fiskvinnslu og hagnýtar hugmyndir um verkefni á sviði orkusparnaðar o.fl. sýna. Meðal þess sem unnið hefur verið að á vegum ráðsins síðustu misseri er skipulagning forgangsverkefna og leiðir til fjáröflunar til þeirra. Einnig er Rússum kappsmál að siglingar um hina svokölluðu norðaustursiglingaleið milli Evrópu og Asíu, þ.e. norðan Rússlands, vaxi og starfar sérstakur vinnuhópur að könnunum á þessu sviði. Höfum við upp á síðkastið fylgst vel með framvindu þessa starfs ef í ljós kæmu möguleikar því tengdir fyrir íslenska aðila. Ekki verður unnt að fara þessa leið nema nokkurn hluta ársins og einungis á skipum styrktum til siglinga í ís. Hefur því ekki þótt útilokað að aukist þessar siglingar geti orðið hagkvæmt að setja upp birgðastöðvar á Íslandi þeim tengdar. Eftir á að koma í ljós hvort hér er um raunhæfar hugmyndir að ræða. Vaxandi nýting auðlinda í nyrstu héruðum Rússlands, sem kalla mun á sjóflutninga frá norðlægum höfnum, kynni einnig að fela í sér möguleika fyrir íslenska aðila, einkum að því leyti sem Ísland yrði í flutningaleið til markaðslanda.