Hoppa yfir valmynd
7. nóvember 1997 Utanríkisráðuneytið

AÞS: Skýrsla 1997: VI Ísland í Evrópu

Yfirlitsskýrsla um utanríkismál 1977
Staða Íslands, breytingar og horfur í alþjóðlegu umhverfi

VI - Ísland í Evrópu

Þróun mála innan Evrópu hefur mikil áhrif á Ísland og snertir flesta þætti þjóðlífsins. Ísland á aðild að Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA) og á jafnframt aðild að stærsta sameinaða markaðsvæði veraldarinnar, Evrópska efnahagssvæðinu.

Fríverslunarsamtök Evrópu

Allt frá aðild Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA) árið 1970 hefur þátttaka landsins í samtökunum stuðlað að bættri stöðu þess í fríverslunar- og efnahagssamstarfi við aðrar þjóðir. Á þessum tíma hafa orðið gífurlegar breytingar á efnahags- og viðskiptaumhverfi álfunnar. Frjálsræði í viðskiptum hefur aukist, ríki Mið- og Austur-Evrópu hafa horfið frá miðstýrðu markaðskerfi til frjálsra verslunar- og viðskiptahátta og aðildarríkjum Evrópusambandsins (ESB) hefur fjölgað nokkuð. EFTA hefur reynst þess megnugt að laga starfsemi sína að hinu breytta umhverfi, jafnt við brotthvarf nokkurra aðildarríkja þess og með því að koma á fríverslunar-samstarfi við önnur ríki í álfunni.

Starfsemi EFTA er komin í fastar skorður eftir að Austurríki, Finnland og Svíþjóð gengu í ESB. Þrátt fyrir fækkun aðildarríkjanna hefur starfsemi fríverslunar-samtakanna ekki dregist saman að því marki sem fækkunin gæti gefið til kynna. EFTA í nýrri mynd hefur reynst vera trúverðugur samstarfsaðili en því er ekki að leyna að ábyrgð og álag ríkjanna, sem eftir sitja, eru meiri en áður. Þetta hefur í för með sér að þátttaka Íslands í starfi EFTA verður að vera öflugri og virkari.

Meginviðfangsefni er sem fyrr samskipti við ESB og þá ekki síst á grundvelli EES-samningsins. Jafnframt hafa samskipti EFTA-ríkjanna við ríki utan ESB orðið stöðugt umfangsmeiri og fara þau einkum fram með tvennum hætti, annars vegar í formi fríverslunarsamninga og hins vegar á grundvelli samstarfsyfirlýsinga. Nú stendur einnig yfir innan EFTA undirbúningur að gerð nýrrar tegundar samstarfsyfirlýsinga gagnvart svæðisbundnu samstarfi ríkjahópa.

Á ráðherrafundi EFTA-ríkjanna í Bergen í júní 1995 voru meginlínurnar lagðar varðandi styrkingu á samskiptum EFTA við önnur ríki en ESB, þ.e. að EFTA skyldi áfram leitast við að skila sjálfstæðu og virku framlagi til bætts efnahags- og viðskiptaumhverfis í Evrópu og utan álfunnar. EFTA-ríkin hafa frá árinu 1991 gert fríverslunarsamninga við þrettán ríki, þ.e. Tyrkland, Ísrael, Pólland, Rúmeníu, Búlgaríu, Ungverjaland, Tékkland, Slóvakíu, Slóveníu, Eistland, Lettland, Litháen og Marokkó.

Ofangreindir fríverslunarsamningar fela í sér fríverslun með iðnaðarvörur, sjávarafurðir og unnar landbúnaðarafurðir. EFTA-ríkin hafa afnumið tolla á þessum vörum við gildistöku fríverslunarsamninganna með heimild til verðjöfnunar á unnar landbúnaðarafurðir. Samningsaðilar EFTA-ríkjanna hafa hins vegar samið um mislangan aðlögunartíma varðandi afnám tolla. Jafnhliða gerð ofangreindra fríverslunarsamninga hafa EFTA-ríkin, hvert fyrir sig, gert tvíhliða landbúnaðar-samninga við þessi ríki. Hvað Ísland varðar er þar um að ræða vörur sem ekki eru framleiddar hér á landi og í flestum tilvikum er um að ræða vörur með engum rauntollum. Framkvæmd þessara fríverslunarsamninga hefur tekist vel.

Enn sem komið er eru viðskipti Íslands við mörg þau lönd, sem EFTA-ríkin hafa samið um fríverslun við, ekki ýkja mikil. Hagvöxtur er þó víða talverður og verslun og viðskipti í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu breytist nú hratt í frjálst og viðurkennt markaðsform. Fríverslunarsamningarnir skapa nýjan grunn fyrir viðskipti og möguleikar Íslands og íslenskra fyrirtækja til að auka viðskipti við þessi lönd eru mun betri en áður. Mikilvægir útflutningsmarkaðir fyrir íslenskar afurðir hafa því opnast í þessum löndum.

Samningaviðræður standa nú yfir á milli EFTA-ríkjanna og Túnis um gerð fríverslunarsamnings. Þeim viðræðum lýkur væntanlega á næsta ári. Þess er jafnframt vænst að fríverslunarviðræður við Möltu og Kýpur hefjist á næstu mánuðum.

Auk ofangreindra fríverslunarsamninga hafa EFTA-ríkin staðið að gerð sjö samstarfsyfirlýsinga við ýmis ríki sem geta síðar leitt til gerðar fríverslunarsamninga. Um er að ræða samstarfsyfirlýsingar við Albaníu, Egyptaland, Túnis, Makedóníu, heimastjórn Palestínumanna (PA), Jórdaníu og Líbanon.

Umræður hafa einnig farið fram innan EFTA um styrkingu hinna efnahags- og viðskiptalegu tengsla á milli EFTA-ríkjanna og Kanada. Þessar umræður eru enn á byrjunarstigi, þannig að of snemmt er að segja til um til hvaða niðurstöðu þær muni leiða. Engu að síður hljóta þessi tengsl að vekja sérstakan áhuga Íslendinga og geta styrkt efnahags- og viðskiptahagsmuni þessara ríkja.

Innan EFTA er nú unnið að styrkingu hins svæðisbundna samstarfs við annars vegar ASEAN-ríkin (Brunei, Indónesíu, Kambodíu, Laos, Malasíu, Mýanmar, Singapúr, Filipseyjar, Taíland og Víetnam) og hins vegar MERCOSUR-ríkin (Argentínu, Brasilíu, Paragvæ og Úrugvæ).

Ráðherrar efnahagsmála ASEAN-ríkjanna og starfsbræður þeirra frá EFTA-ríkjunum hittust á óformlegum fundi í Singapúr í desember sl. þar sem hin auknu viðskipta-tengsl voru rædd. Samskipti EFTA og MERCOSUR voru tekin til umræðu í fyrsta sinn á ráðherrastigi á fundi utanríkisráðherra Íslands og starfsbróður hans í Argentínu í Buenos Aires í ágúst sl. Þar kom fram staðfestur vilji beggja til að kanna og vinna að frekara samstarfi EFTA og MERCOSUR. Innan EFTA er nú hafin vinna að skilgreiningu á samstarfi ríkjahópanna.

Samstarfið innan Evrópska efnahagssvæðisins

EES-samningurinn

Ísland hefur greiðan aðgang að innri markaði ESB með EES-samningnum og hefur hann sannað gildi sitt á þeim tæplega fjórum árum sem liðin eru frá gildistöku hans. Ef litið er yfir farinn veg hefur framkvæmd samningsins gengið vel og er unnt að staðfesta að ótti margra við neikvæðar afleiðingar hans hefur reynst ástæðulaus. Í opinberri umræðu hér á landi hefur verið tilhneiging til að gera minna úr áhrifum EFTA-ríkjanna við gerð reglna á Evrópska efnahagsvæðinu en efni standa til. EFTA-ríkin hafa að undanförnu notfært sér í vaxandi mæli réttinn til þess að fylgjast með störfum nefnda á vegum framkvæmdastjórnarinnar og koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Þannig hafa áhrif EFTA-ríkjanna á endanlega mótun evrópskra reglna sífellt verið að aukast.

Í dag hafa EFTA-ríkin aðgang að um 300 sérfræðingafundum á vegum framkvæmdastjórnarinnar í nánast öllum nefndum sem tengjast framkvæmd EES-samningsins. EFTA-ríkin og EFTA-skrifstofan hafa samvinnu sín á milli og sjá til þess að skortur á mannafla komi ekki í veg fyrir að löndin taki virkan þátt í þessu starfi. Auk þess hafa EFTA-ríkin möguleika til þess að gera skriflegar athugasemdir við tillögur ráðherraráðsins eftir að framkvæmdastjórnin hefur lagt fram tilllögur sínar og er þetta gert í vaxandi mæli. Jafnframt njóta Ísland og Noregur sérstöðu að því leyti að þau eiga þess kost að gæta hagsmuna sinna að vissu marki með nánu samstarfi við hin Norðurlöndin þrjú sem eiga aðild að ESB. Norðurlöndin hafa í ríkari mæli en áður þörf fyrir nánara samstarf á sviði utanríkis-, öryggis-, viðskipta- og efnahagsmála. Mikilvægt er að efla þá samvinnu á markvissan hátt þannig að hið norræna sjónarhorn komist betur til skila á alþjóðlegum vettvangi. Þá er umhugsunarefni hvort efla eigi samstarf þingmannanefndar EFTA og ESB í ljósi vaxandi mikilvægis Evrópuþingsins. Það má því staðhæfa að EFTA-ríkjunum standi ýmsar leiðir til boða til að gæta hagsmuna sinna og að það sé að miklu leyti undir þeim sjálfum komið hversu vel tekst til í þeim efnum.

Mikilvægt er að hafa í huga að aðildarríki ESB eru meðal nánustu samstarfsríkja okkar á sviði utanríkis- og öryggismála. EES-samningurinn hefur gert EFTA-ríkjunum kleift að stofna sérstakan viðræðuvettvang við ESB um pólitísk mál og pólitískt samstarf. Samstarfið gengur vel og er Ísland nú aðili að fjölda yfirlýsinga ESB um utanríkismál. Þá eru reglulega haldnir pólitískir upplýsinga- og samsráðsfundir um þau mál sem efst eru á baugi hverju sinni innan ramma pólitíska samráðsins milli ESB og EFTA-ríkjanna í EES. Jafnhliða þessu er mikilvægt að halda áfram að efla sem mest tvíhliða pólitísk samskipti við aðildarríki ESB í því skyni að fá aðgang að upplýsingum og koma á framfæri íslenskum sjónarmiðum eftir því sem kostur er.

Rekstur EES-samningsins felur í sér miklu meira en undirbúning að nýrri löggjöf og pólitískt samráð. Samstarfsverkefni eru fjölmörg og ná til vísinda og þróunar, félags- og heilbrigðismála, neytendaverndar, tölvusamskipta í stjórnsýslu, umhverfismála, menningarmála og svo mætti lengi telja. Nú fer að líða að lokum fjórðu rammaáætlunarinnar um vísindi og þróun og er þegar farið að huga að því að meta hvernig íslenskum vísindamönnum hefur gengið að nýta sér þau tækifæri sem þar hafa gefist. Eins og kunnugt er miðast framlag Íslands til sameiginlegra verkefna við þjóðarframleiðslu en styrkir eru veittir til þeirra samstarfsverkefna sem áhugaverðust þykja hverju sinni. Virðist næsta ljóst að þótt aðeins sé talið það fjármagn sem beint skilar sér aftur til Íslands þá er þar um að ræða hærri fjárhæðir en það sem íslensk stjórnvöld hafa látið af hendi. Þátttaka í samstarfsverkefnum af þessu tagi gefur íslenskum vísindamönnum færi á að taka þátt í umfangsmiklum vísindarannsóknum og notfæra sér niðurstöður þeirra. Undirbúningur fimmtu rammaáætlunarinnar er vel á veg kominn og hafa íslensk stjórnvöld tekið virkan þátt í honum við uppsetningu, skipulag og forgangsröðun.

Eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dómstóllinn

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) sér um eftirlit með framkvæmd EES-samningsins meðal EFTA/EES-ríkjanna. Eftirlit stofnunarinnar hefur verið mjög skilvirkt og miðar að því að ganga úr skugga um að ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar verði felldar inn í löggjöf viðkomandi ríkisins með réttum hætti. Einnig fylgist stofnunin með því að framkvæmd og túlkun sé í fullu samræmi við ákvæði samningsins, t.d. þegar kemur að veitingu ríkisstyrkja, framkvæmd á opinberum útboðum og því að samkeppnisreglur séu virtar. Hefur ESA í nokkrum tilfellum séð ástæðu til þess að gera formlegar athugasemdir við lögfestingu eða framkvæmd EES-reglna hér á landi.

EFTA-dómstóllinn gegnir afar þýðingarmiklu hlutverki við að tryggja réttaröryggi og samræmda framkvæmd EES-samningsins. Dómstóllinn hefur ekki kveðið upp dóm gagnvart EFTA-ríkjunum vegna brota á ákvæðum samningsins en hins vegar gefið fjölda ráðgefandi álita.

Sjávarútvegssamningur Íslands og ESB

Um sama leyti og gengið var frá EES-samningnum gerðu íslensk stjórnvöld og ESB einnig með sér samning um gagnkvæm fiskveiðiréttindi, sem m.a. fól í sér að ESB fékk heimildir til að veiða allt að 3000 tonn af karfa hér við land en Ísland fékk á móti 30.000 tonn af loðnu af kvóta þeim sem ESB hefur fengið frá Grænlandi. Í samningnum voru ESB sett mjög skýr skilyrði um það hvers konar skip mættu veiða, strangar reglur voru settar um íslenskt eftirlit um borð o.s.frv. Hins vegar var fallist á að árlega skyldu samningsaðilar hittast og ræða m.a. hvort þau veiðisvæði, sem fiskiskipum ESB hefur verið hleypt í, nægi til þess að stunda arðbærar veiðar.

Eftirtekja skipa ESB hefur til þessa verið rýr. Á síðasta ári veiddu þau aðeins um 220 tonn í fjórum veiðiferðum. Hafa íslensk stjórnvöld þegar einu sinni stækkað veiðisvæði sem til boða standa. Svo virðist sem íslensk fiskimið hafi ekki sama aðdráttarafl á þýska togara og áður. Hefur ESB ekki aðeins sótt á um að fá stærri svæði til athafna heldur einnig um endurskoðun sjálfs grunnsamningsins og dregur framkvæmda-stjórnin í efa að arðbærar veiðar séu mögulegar með þeim skilyrðum sem sett voru. Hafa íslensk stjórnvöld svarað því til að ákvæði samningsins um endurskoðun veiðisvæða verði að sjálfsögðu virt en fyrst verði að liggja fyrir að fullreynt sé að þau svæði, sem samið var um, dugi ekki. Sókn skipa ESB hafi ekki verið það mikil að það sé ljóst. Hins vegar sé engin ástæða til þess að ganga aftur til viðræðna um breytingar á sjálfum grunnsamningnum.

Evrópusambandið

Ríkjaráðstefna Evrópusambandsins

Upphaflega var ráðgert að markmið ríkjaráðstefnunnar yrðu takmörkuð við endurskoðun málamiðlana sem gerðar voru í Maastricht og gengu skemmra en sumir vildu varðandi samruna Evrópusambandsins (ESB). Fljótlega kom í ljós að þróun mála í Evrópu útilokaði slíka takmarkaða endurskoðun á Maastricht-sáttmálanum. Erfiðlega hafði gengið í mörgum ríkjum að fullgilda Maastricht-sáttmálann og ljóst var talið að frekari samrunahugmyndir ættu ekki vísan stuðning meðal almennings. Þá þurftu sum aðildarríkin á miklum pólitískum stuðningi að halda í kjölfar erfiðra aðgerða sem nauðsynlegt var að grípa til vegna undirbúnings að stofnun Efnahags- og myntbandalags Evrópu. Sumir litu því svo á að meginmarkmið ráðstefnunnar yrði að ná betur en áður til almennings.

Aukin áhersla var lögð á ýmis stefnumarkandi sjónarmið eins og umhverfismál, félagsmál, heilbrigðismál, mannréttindi, gagnsæi stofnana ESB og baráttu gegn atvinnuleysi og glæpum. Þá hafði þróun mála í Evrópu leitt í ljós að meginviðfangsefni Evrópusambandsins myndi snúast um undirbúning ESB að stækkun þess og stofnun Efnahags- og myntbandalagsins. Frammistaða Evrópusambandsins í lýðveldum fyrrverandi Júgóslavíu hafði sömuleiðis valdið mörgum vonbrigðum og voru því ýmsir þeirrar skoðunar að endurskoðun utanríkis- og öryggisstefnu ESB þyrfti einnig að vera meðal forgangsverkefna ríkjaráðstefnunnar.

Endurskoðun ríkjaráðstefnunnar var því umfangsmeiri en upphaflega var gert ráð fyrir. Lokaskjal ríkjaráðstefnunnar, Amsterdam-sáttmálinn, felur í sér fjölmargar málamiðlanir og margir lýstu miklum vonbrigðum yfir því að ekki hefði tekist að ná samkomulagi um aðgerðir sem nauðsynlegar voru vegna stækkunar ESB. Þrátt fyrir slíka annmarka hefur niðurstaða ríkjaráðstefnunnar verið túlkuð sem skýr pólitísk skilaboð til umsóknarríkja um áform ESB um að hefja aðildarviðræður.

Árangur ráðstefnunnar verður að meta í ljósi þeirra væntinga sem aðilar gerðu til hennar. Vonbrigði eru meiri hjá þeim sem lögðu höfuðáherslu á meiri samrunaþróun, breytingar á stofnanafyrirkomulagi vegna undirbúnings að stækkun ESB og aukin valdahlutföll stærri aðildarríkja á kostnað þeirra minni.

Helstu niðurstöður Amsterdam-sáttmálans voru eftirfarandi:

Schengen-samstarfið

Að því er Ísland varðar var innlimun Schengen-samstarfsins í ESB vafalítið athyglisverðasta málið. Schengen-samstarfið var fellt bæði inn í fyrstu stoð og þriðju stoð. Dregið er úr áhrifum stofnana ESB í fyrstu stoðinni. Völd dómstólsins eru takmörkuð og ná t.d. ekki yfir þætti varðandi allsherjarreglur og innra öryggi ríkja. Einnig er frumkvæðisréttur framkvæmdastjórnarinnar að afleiddum lögum takmarkaður og halda aðildarríkin honum að vissu marki a.m.k. til að byrja með. Gert er ráð fyrir að tillögur verði afgreiddar samhljóða næstu fimm árin og þá verði hugsanlega tekin ákvörðun um það hvort aukinn meirihluti ráði niðurstöðu mála eða hvort áfram verði stuðst við samhljóða atkvæðagreiðslu. Þýskaland mun m.a. hafa lagt ríka áherslu á samhljóða atkvæðagreiðslur á þessum sviðum.

Danir fengu samþykktan sérstakan viðauka sem tiltekur sérstöðu þeirra. Samkvæmt viðaukanum munu Danir að miklu leyti standa utan hefðbundins ESB-samstarfs á þessu sviði en taka fullan þátt í fundum og vinnuhópum fram að ákvarðanatöku en taka hins vegar ekki þátt í lokaákvörðun ESB. Ákveðið er að Danir muni síðan taka sjálfstæða ákvörðun innan sex mánaða sem bindur þá aðeins samkvæmt þjóðarétti. Evrópudómstóllinn mun því ekki hafa beinu hlutverki að gegna gagnvart Danmörku á fyrrgreindum sviðum.

Tiltekið er að um hugsanlega þátttöku Íslands og Noregs í Schengen-samstarfinu verði samið í sérstökum viðræðum og tekið er fram að það skuli gert á grunni núverandi samstarfssamnings milli Schengenríkja og Íslands og Noregs.

Utanríkis- og öryggismál

Á sviði utanríkis- og öryggismála er Amsterdam-sáttmálinn túlkaður sem nánast staðfesting á Maastricht-sáttmálanum. Hins vegar er í fyrsta sinn vísað með beinum hætti í svokölluð Petersberg-verkefni. Í raun er ekki um efnisbreytingu að ræða því að ESB gat fyrir þessar breytingar beðið VES um að vinna slík verkefni. Það var síðan undir VES komið hvort slík beiðni yrði framkvæmd. Tilvísun í Petersberg-verkefnin breytir því í raun engu og þykir vera stefnumarkandi ákvæði fremur en breyting á Rómarsamningnum. Annað orðalag í textanum er svipaðs eðlis, samanber ákvæði um að leiðtogafundur ESB geti hugsanlega ákveðið í framtíðinni að koma á fót sameiginlegum vörnum eða að fella VES undir ESB. Mikilvægt er að hafa í huga að ekki er um einfalda ákvörðun að ræða heldur breytingar á Rómarsamningnum. Slíkar breytingar á Rómarsáttmálanum yrði að taka með samhljóða samþykki á sérstakri ríkjaráðstefnu. Ofangreind niðurstaða hefur því verið túlkuð sem sigur fyrir þau sjónarmið sem Bretar hafa verið í fararbroddi fyrir.

Fulltrúar þeirra er lengst vildu ganga á þessu sviði hafa lýst yfir vonbrigðum með þessa niðurstöðu ráðstefnunnar en staðhæfa að áfangasigur felist í því að nú sé búið að ná fram vísi að orðalagi um innlimun ("integration") VES í ESB. Þrátt fyrir að orðalagið sé veikt sé búið að marka ákveðna braut. Ísland, sem aukaaðildarríki í VES, hefur lagst mjög ákveðið gegn öllum hugmyndum um innlimun VES í ESB.

Hins vegar náðist árangur í þá veru að gera utanríkisstefnu ESB skilvirkari og skýrari. Þannig er leiðtogaráði ESB falið að skilgreina grundvallarþætti sameiginlegrar utanríkisstefnu sem utanríkisráðherrarnir munu síðan fylgja eftir. Ákveðið var að setja á fót miðstöð til að safna og greina upplýsingar í Brussel í stað þess að reiða sig á slíkar upplýsingar frá höfuðborgum aðildarríkjanna. Skrifstofu ráðherraráðsins verður falið, á ábyrgð aðalframkvæmdastjóra þess, að undirbúa stefnumótun í utanríkis-málum sem m.a. felst í að fylgjast með og meta pólitíska þróun hinna ýmsu landsvæða. Aukinn meirihluti atkvæða mun hér eftir gilda sem meginregla við ákvarðanatöku en veigamiklar undantekningar verða þó gerðar frá þeirri meginreglu.

Einnig er gert ráð fyrir því að formennskuríkið gegni fyrirsvarshlutverki varðandi utanríkis- og öryggismálin og að í framkvæmdastjórn ráðsins verði sérstakur fulltrúi í utanríkispólitískum málum.

Sveigjanlegur samruni

Fallist var á ákvæði um sveigjanlegan samruna. Samkvæmt samkomulaginu getur aukinn meirihluti ríkja óskað eftir nánari samruna og geta ríki, sem standa fyrir utan samstarfið, ekki stöðvað samrunann nema um sé að ræða grundvallarhagsmuni. Bretar náðu ekki að koma í veg fyrir að aukinn meirihluti ríkja nægði til þess að taka upp nánara samstarf á skilgreindum sviðum, en fengu samþykkta málamiðlun um að þeir gætu stöðvað slíkan samruna ef stjórnvöld teldu slíkt samstarf geta farið gegn grundvallarhagsmunum Breta.

Hugmyndin að sveigjanlegum samruna er ekki ný. Ákvörðun var tekin um sveigjanlegan samruna í Maastricht varðandi félagsmálasáttmálann og Efnahags- og myntbandalag Evrópu. Nú er hins vegar slíkur farvegur opinn á fleiri sviðum ef aukinn meirihluti ríkja óskar þess án þess að slík svið séu skilgreind fyrirfram í samningnum. Slík samvinna getur hins vegar ekki breytt ákvæðum Rómarsáttmálans og varðar því fyrst og fremst svið sem ekki falla undir núverandi verkefni ESB.

Undirbúningur að stækkun ESB

Ekki náðist samkomulag um fækkun framkvæmdastjóra eða varðandi breytingar á vægi atkvæða í ráðinu. Augljóslega hafa margir vanmetið afstöðu smærri ríkja til þessa þáttar. Hins vegar var samþykkt yfirlýsing sem tiltekur að þessir þættir, þ.e. fjöldi framkvæmdastjóra og aukið vægi atkvæða stærri ríkjanna, tengist stækkun og að þessi atriði þurfi að leysa áður en af stækkun getur orðið. Því er augljóst að boða verður til annarrar ríkjaráðstefnu ef leysa á þennan ágreining. Þessi niðurstaða gengur skemmra en margir vildu, enda var talið nauðsynlegt að gera breytingar á þessu fyrirkomulagi til þess að undirbúa stækkun ESB. Samt sem áður er undirbúningur að stækkun ESB þegar hafinn.

Sjávarútvegsstefna ESB

Endurskoðun sjávarútvegsstefnu ESB var eins og kunnugt er ekki til umræðu á ríkjaráðstefnunni. Hins vegar kröfðust Bretar þess að ríkjaráðstefnan fjallaði um svokallað kvótahopp. Þrátt fyrir það var ekkert ákvæði um kvótahopp í Amsterdam-sáttmálanum. Bretar töldu sig samt sem áður hafa náð árangri á leiðtogafundinum í Amsterdam varðandi það mál. Ekki var hins vegar um að ræða breytingar á Rómarsamningnum heldur skrifaði Jacques Santer, forseti framkvæmdastjórnar ESB, bréf til Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, þar sem lýst er skilningi á stöðu Breta. Í bréfinu var vísað í efnahagslega hagsmuni strandríkja og farið almennum orðum um hagsmuni þeirra. Rétt er að hafa í huga að framkvæmdastjórnin getur ekki breytt einhliða þessum reglum og því er umrætt bréf óhefðbundið og hefur að geyma með öllu óskuldbindandi ákvæði.

Félagsmálasáttmálinn

Ákveðið er að fella félagsmálasáttmálann undir Rómarsáttmálann. Þetta er hægt að gera nú þar sem Bretar hafa látið af andstöðu sinni við sáttmálann. Þessi breyting er einnig talin munu leiða til aukinnar áherslu ESB á atvinnumál.

Önnur mál

Á ríkjaráðstefnunni náðist einnig árangur á ýmsum öðrum sviðum, svo sem varðandi stöðugleikasáttmálann, atvinnumál, mannréttindi, hlutverk þjóðþinga, umboð stofnana ESB, aðgang að upplýsingum, umhverfismál, hina svokölluðu nálægðarreglu og meðalhófsreglu, neytendavernd, hollustuvernd og sérstöðu landssvæða.

Efnahags- og myntbandalag Evrópu

Niðurstöður ríkjaráðstefnunnar hafa fallið í skuggann af því sem æ fleiri telja nú að sé hinn raunverulegi vaxtarbroddur samrunaþróunar í Evrópu, þróun gjaldmiðils-samstarfs að einum evrópskum gjaldmiðli. Má til sanns vegar færa að innri markaður ESB komist ekki að fullu til framkvæmda meðan skipta þarf um gjaldmiðil við hver landamæri. Undanfarin ár hefur efnahagsástand flestra Evrópuríkja ekki aðeins orðið stöðugra heldur hefur dregið saman með þeim í flestu tilliti. Sveiflur milli gengis franska frankans, þýska marksins, hollenska gyllinisins og belgíska frankans hafa lengi verið óverulegar og aðrir evrópskir gjaldmiðlar nálgast óðum. Stöðugleiki efnahags Suður-Evrópuríkjanna er snöggtum meiri en flestir hefðu þorað að vona fyrir nokkrum árum og eru þau nú öll nema Grikkland líkleg til þess að uppfylla þátttökuskilyrði gjaldmiðilseiningar á næstu árum.

Þátttökuskilyrði Efnahags- og myntbandalags Evrópu (EMU) um verðbólgustig, vexti, fjárlagahalla, ríkisskuldir, stöðugan gjaldmiðil og sjálfstæðan seðlabanka hafa verið snar þáttur allrar efnahagsumræðu undanfarin ár. Athyglin hefur þó undanfarið beinst sérstaklega að fjárlagahalla. Í Maastricht var tekið fram að halli ætti að vera lítill og 3% landsframleiðslu sett fram sem viðmiðun. Sú viðmiðun var þó aldrei njörvuð niður sem frumskilyrði. Aftur á móti hefur í pólitískri umræðu, einkum í Þýskalandi, verið lögð þung áhersla á að ekki megi sýna sveigjanleika þar sem hinn nýi gjaldmiðill, Evró, mundi þá hefja líf sitt rúinn öllu trausti. Bæði Þýskaland og Frakkland hafa átt í erfiðleikum með að ná þessu marki; Þýskaland vegna viðvarandi örðugleika eftir sameiningu og Frakkland vegna atvinnuleysis. Gjaldmiðilseining án þessara tveggja ríkja væri hins vegar skelin tóm. Það hefur verið pólitískt keppikefli Ítalíu að vera með frá byrjun en samstarfsríkin hafa mörg hver litið það hornauga og talið að þátttaka þeirra mundi veikja hinn nýja gjaldmiðil. Betri horfur í ríkisfjármálum Þýskalands og aukinn hagvöxtur í Frakklandi virðast nú geta fleytt ríkjunum fram hjá helstu erfiðleikum og tryggt fæðingu Evró.

Undanfarnar vikur og mánuði hafa æ fleiri látið uppi að nú verði ekki lengur aftur snúið. Það eru hagtölur þessa árs sem munu ráða úrslitum ásamt fjárlögum ársins 1998. Þegar í maí á næsta ári verður greint frá því hvaða gjaldmiðlar verði með frá upphafi og þá þegar tilkynnt viðmiðunargengi þeirra gagnvart Evró. Ellefu ríki koma til greina, þ.e. öll nema Bretland og Danmörk, sem hafa sérstaka undanþágu frá þátttöku, Svíþjóð, sem vill frekari frest, og Grikkland, sem engar líkur eru á að geti uppfyllt þátttökuskilyrði. Reyndar hefur umræða í Bretlandi um kosti og galla þátttöku aukist mjög eftir að líkur tóku að aukast á því að Evró færi af stað á tilsettum tíma.

Útgáfa seðla og myntar vegna hins nýja gjaldmiðils hefst í síðasta lagi 1. janúar 2002 og 1. júlí sama ár munu gamlir seðlar og mynt þátttökuríkja hverfa.

Frakkar hafa lengi verið talsmenn þess að hinn nýi seðlabanki starfi undir einhvers konar pólitísku eftirliti en Þjóðverjar hafa lagt áherslu á fullt sjálfstæði. Samkomulag hefur nú náðst sem áréttar sjálfstæði bankans.

Seðlabanki Íslands hefur gefið út skýrslu um aðdraganda og áhrif stofnunar EMU, sem nær m.a. til áhrifa á efnahagsþróun og hagstjórn á Íslandi. Áhrif EMU eru líkleg til að teygja sig víða. Njóti gjaldmiðillinn nýi trausts markaða getur hann grafið undan ráðandi stöðu Bandaríkjadollars á alþjóðavettvangi. Einn gjaldmiðill mun einnig stuðla að samræmingu verðlags og aukinni samkeppni.

Stækkun Evrópusambandsins

Skömmu eftir lok ríkjaráðstefnunnar lagði framkvæmdastjórnin fram skýrslur sínar um undirbúning og væntanlegar afleiðingar stækkunar, ásamt álitsgerð um hvert umsóknarríki fyrir sig. Þau ríki, sem framkvæmdastjórnin leggur til að rætt verði við í fyrstu umferð, eru Eistland, Pólland, Slóvenía, Tékkland, Ungverjaland og ef pólitísk vandamál leysast á Kýpur fylgja Kýpurbúar með. Þetta eru þau ríki sem framkvæmdastjórnin telur að geti innan tiltekins tíma uppfyllt nauðsynleg skilyrði til inngöngu ef þau halda áfram á sömu braut í umbótum. Aðildarríkin munu síðan gefa sitt álit á umsóknarríkjum sem mun liggja frammi fyrir leiðtogafund ESB-ríkja sem haldinn verður í desember næstkomandi. Á þeim fundi ákveða leiðtogarnir síðan við hvaða ríki verður rætt um aðild. Ljóst er að ESB verður að ráðast í breytingar á ýmsum sviðum ef sú verður raunin að framangreind sex ríki verði aðilar að ESB. Landbúnaðarjarðir ESB munu til að mynda stækka um 50% og fjöldi landbúnaðarverkamanna tvöfaldast. Framkvæmdastjórnin hefur því lagt til að landbúnaðarstefna sambandsins, sem hefur verið ein af helstu stoðum þess, verði löguð að þróun markaðarins, markaðsstefnum og viðskiptareglum. Þróunarsjóði ESB á að endurskipuleggja en þeir sjóðir, ásamt jöfnunarsjóðum sambandsins, eru eitt helsta vogaraflið til að jafna lífskjör innan ESB. Hins vegar er ljóst að sum aðildarríki ESB óttast að missa spón úr aski sínum við þessar breytingar og sæta þessar tillögur því andstöðu sem hefur leitt til þess að sum ríki hafa jafnvel hótað að beita neitunarvaldi.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta