Hoppa yfir valmynd
7. nóvember 1997 Utanríkisráðuneytið

AÞS: Skýrsla 1997: VIII Ísland á vettvangi Sameinuðu þjóðanna

Yfirlitsskýrsla um utanríkismál 1977
Staða Íslands, breytingar og horfur í alþjóðlegu umhverfi

VIII - Ísland á vettvangi Sameinuðu þjóðanna

Þátttakan í starfi Sameinuðu þjóðanna var ein fyrsta ákvörðun hins unga íslenska lýðveldis og jafnframt fyrsta skrefið í þátttöku Íslendinga af alvöru í alþjóða-stjórnmálum. Starfið innan samtakanna hefur gert Íslendingum kleift að leggja fram sinn skerf til friðar og öryggis í heiminum, til eflingar lýðræðis, mannréttinda, þróunarhjálpar, umhverfismála, afvopnunar og bætts efnahags.

Íslendingum hefur gengið best að tryggja yfirráð yfir auðlindum sjávar á íslenska landgrunninu með markvissu starfi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 23. apríl 1995 er lýst þeim ásetningi að taka virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi til að verjast mengun og vernda lífríki hafsins. Fjárfesting í slíku alþjóðlegu samstarfi mun skila sér til komandi kynslóða.

Innan S.þ. koma þjóðir heims saman á jafnréttisgrundvelli til að taka sameiginlega á þeim vanda, sem mannkynið stendur andspænis. Fátækt og eymd þróunarlanda víða um heim, styrjaldir og innanlandsátök, mengun, sem virðir ekki landamæri, farsóttir og afleiðingar loftslagsbreytinga geta virst fjarlæg íslenskum veruleika, en jafnljóst er, að samstillt átak allra þjóða er eina leiðin til að bregðast við. Þar getur Ísland ekki skorast undan. Ábyrgð og skyldur fylgja viðurkenningu annarra ríkja á frelsi og fullveldi Íslands.

Hjá Sameinuðu þjóðunum fer nú fram mikil umræða um endurbætur á starfi þeirra, einkum til að vinna bug á fjárhagsvanda, og gera starf þeirra, á allsherjarþingi, sem og í ráðum og nefndum, skilvirkara. Í heimsókn Kofi Annans, framkvæmdastjóra samtakanna, til Íslands nú í september lýstu íslensk stjórnvöld eindregnum stuðningi við umbótaviðleitni hans.

Fimmtíu ára afmæli Sameinuðu þjóðanna 1995 varð aðildarríkjum mikil hvatning til að laga samtökin að nýjum tímum. Þrátt fyrir vonir manna um aukinn árangur af starfi samtakanna eftir lok kalda stríðsins, hefur áþreifanlega komið í ljós, að samtökin geta því aðeins gegnt hinu viðamikla hlutverki sínu, að aðildarríkin standi að fullu við skuldbindingar sínar gagnvart samtökunum og sýni í verki vilja sinn til að styrkja starf þeirra.

Síðan kalda stríðinu lauk hefur mikilvægi Sameinuðu þjóðanna aukist og þeim gefist ný tækifæri til að vinna sitt verk í þágu alls mannkyns. Öryggisráðið er virkara en áður og samtökin hafa víða beitt sér til að stuðla að friði og koma í veg fyrir að ófriður brjótist út. Íslendingum ber skylda til að leggja sitt af mörkum til afvopnunar, friðargæslu og mannúðaraðstoðar.

Í víðfeðmu starfi Sameinuðu þjóðanna er eðlilegt að viðhöfð sé forgangsröðun og athugað vandlega með hvaða hætti Íslendingar geti lagt mest af mörkum til starfsemi samtakanna.

Íslensk stjórnvöld telja að öllum aðildarríkjum beri skylda til að styðja starf samtakanna af öllu afli á þessum tímamótum í sögu þeirra og taka þátt í þeim miklu breytingum, sem þar eiga sér stað. Þetta á sérstaklega við um nýja stefnumótun í þeim málum, sem varða velferð alls mannskyns, en Sameinuðu þjóðirnar hafa síðustu misseri beitt sér fyrir miklum ráðstefnum, þar sem fjallað hefur verið um málefni barna, fatlaðra, aldraðra, umhverfismál, mannréttindi, fólksfjölgun og félagslega þróun, jafnrétti, byggðamál og fæðuöryggi. Ríkisstjórnin telur mikilvægt að hrundið verði í framkvæmd því umbótastarfi sem kveðið hefur verið á um í niðurstöðum þessara ráðstefna.

Innan stjórnarráðsins starfar nú tengiliðahópur um málefni Sameinuðu þjóðanna, sem sinnir m.a. þátttöku Íslands í Efnahags- og félagsmálaráðinu, stefnumörkun í umhverfismálum og öðrum þeim málum, sem krefjast samvinnu milli ráðuneytanna.

Í fyrra var þess minnst að fimmtíu ár voru liðin frá því að Ísland gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum, hinn 19. nóvember 1946. Þeirra tímamóta var minnst með ýmsum hætti. Skrifstofu S.þ. í Genf var afhent að gjöf listaverk, höggmyndin Óþekkti pólitíski fanginn, eftir Gerði Helgadóttur. Gjöfin var valin með mannréttindastarf samtakanna í huga, en höfuðstöðvar þess eru í Genf. Ríkisstjórnin fól Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi að hafa umsjón með hátíðardagskrá í tilefni af afmælinu. Hátíðarhöldin fóru fram 30. október og var Hans Dietrich Genscher, fyrrverandi utanríkisráðherra Þýskalands, heiðursgestur og aðalræðumaður. Félag S.þ. á Íslandi gaf út sérstakt rit í tengslum við afmælið. Eftirfarandi er yfirlit yfir helstu málefni sem fjallað er um á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Umbótastarf innan S.þ.

Síðustu misseri hefur mikilvæg umræða um umbótastarf farið fram innan Sameinuðu þjóðanna og skipaðir voru starfshópar, til að gera tillögur um breytingar á helstu þáttum í starfsemi þeirra. Mikilvægt er að umbótastarf þetta beri árangur, og að rekstur samtakanna verði í framtíðinni færður í nútímalegra horf. Framkvæmdastjóri þeirra hefur lagt fram tillögur um umbætur, m.a. í stjórnun og rekstri, sem vonir standa til að verði samþykktar á 52. allsherjarþinginu.

Íslensk stjórnvöld styðja tillögur um að fjölga föstum og lausum sætum í öryggisráðinu til að ráðið endurspegli betur fjölgun aðildarríkja og breyttar aðstæður í heiminum. Aftur á móti leggja þau áherslu á að ekki megi veikja getu ráðsins til ákvarðanatöku og framkvæmda.

Íslensk stjórnvöld leggja ennfremur mikla áherslu á að öll aðildarríki greiði skylduframlög sín tímanlega að fullu og án skilyrða. Ennfremur að gerðar verði breytingar á framlagastiga samtakanna.

Takmörkun vígbúnaðar og afvopnun

Undirritun samningsins um allsherjarbann við tilraunakjarnasprengingum (CTBT) við upphaf 51. allsherjarþingsins 24. september 1996 í New York markar tímamót í öryggismálum. Þótt gildistaka hans muni frestast um sinn, gefur yfirgnæfandi stuðningur á meðal aðildarríkjanna honum verulegt vægi, sem ekki verður litið fram hjá í viðræðum um kjarnaafvopnun í framtíðinni.

Ákveðið hefur verið að halda endurskoðunarráðstefnu samningsins gegn útbreiðslu kjarnavopna (NPT) árið 2000 og tekur Ísland þátt í undirbúningsstarfi fyrir hana.

Efnavopnasamningurinn frá 1993 (CWC) tók gildi hinn 29. apríl sl., er fleiri en 65 ríki höfðu lagt fram fullgildingarskjöl. Var fyrsta ráðstefna aðildarríkjanna haldin í Haag í maíbyrjun. Jafnframt hefur tekið þar til starfa af fullum krafti stofnunin (OPCW), sem komið er á fót skv. 8. grein samningsins og hafa skal eftirlit með framkvæmd hans.

Það sem borið hefur hæst á sviði afvopnunarmála á síðari hluta ársins er baráttan gegn jarðsprengjum. Nýafstaðin er í Osló ráðstefna þar sem samningsdrög að algjöru banni við sölu, framleiðslu, dreifingu og notkun jarðsprengna, sem beint er gegn fólki, voru samþykkt af fulltrúum nærri 90 ríkja, þar á meðal Íslands. Íslensk stjórnvöld líta á þetta sem mannúðarmál, en hreinsun á jarðsprengjum er eitt erfiðasta og kostnaðarsamasta verkefnið við uppbyggingu samfélaga í kjölfar ófriðar. Samningurinn verður undirritaður í byrjun desember í Ottawa. Vonir standa til að hann muni greiða fyrir starfi afvopnunarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Genf á þessum vettvangi.

Friðargæsla

Verulega hefur dregið úr umfangi og kostnaði vegna friðargæslu- og eftirlitsaðgerða á vegum Sameinuðu þjóðanna og líklegt er að reynslan af friðargæslu Sameinuðu þjóðanna í Bosníu og Sómalíu verði til þess samtökin verði varkárari í að beita slíkum aðgerðum í framtíðinni. Aftur á móti má búast við, að slík starfsemi verði markvissari og að vægi annarra þátta þessa starfs en að viðhalda vopnahlé, eins og verndar mannréttinda, eftirlits með kosningum og aðstoðar við samfélagsuppbyggingu, aukist.

Góður árangur af starfi Íslendinga í friðargæslusveitum í Bosníu-Hersegóvínu er stjórnvöldum hvatning til frekara starfs á þessu sviði. Nú er starfandi íslensk heilsugæslusveit á bresku hersjúkrahúsi í Bosníu-Hersegóvínu, auk þess sem þrír íslenskir löggæslumenn starfa þar í danskri löggæslusveit undir merkjum S.þ.

Umhverfismál

Umhverfismál hafa síðustu árin orðið æ umfangsmeiri þáttur í starfi samtakanna. Íslensk stjórnvöld vinna að því að hrinda í framkvæmd Starfsskrá 21, sem samþykkt var á Ríóráðstefnunni um umhverfi og þróun og fylgja eftir starfi Íslands í nefnd samtakanna um sjálfbæra þróun 1993–1995. Aukaallsherjarþing S.þ. í sumar fjallaði um árangurinn af Ríóráðstefnunni og náðist þar áfangi í baráttunni fyrir hertum aðgerðum á afmörkuðum sviðum umhverfismála, þ.á m. í loftslagsmálum og orkumálum.

Í starfi Íslands að umhverfismálum hefur sérstök áhersla verið lögð á varnir gegn mengun sjávar, einkanlega með framkvæmdaáætlun um varnir gegn mengun frá landsstöðvum og er stefnt að gerð alþjóðasamings í þeim efnum.

Ísland á sæti í vinnuhópi 20 ríkja um alþjóðlegar aðgerðir til að draga úr notkun þrávirkra lífrænna efna. Í vor staðfesti Alþingi samning gegn eyðimerkurmyndun. Unnið er að sérstakri áætlun hér á landi um framfylgd samings um líffræðilega fjölbreytni. Í athugun er aðild Íslands að samningnum um alþjóðleg viðskipti með dýra- og jurtategundir í útrýmingarhættu (CITES).

Ísland tekur þátt í viðræðum um að styrkja ákvæði Rammasamningsins um loftslagsbreytingar, sem Ísland hefur staðfest. Ráðstefnu aðildarríkja samningsins, sem haldin verður í Kyótó í Japan í desember næstkomandi, er beðið með nokkurri eftirvæntingu. Þar verður þess freistað að ganga frá bókun við rammasamninginn þar sem kveðið verði á um bindandi mörk losunar gróðurhúsalofttegunda í einstökum aðildarríkjum. Ekki er þó gert ráð fyrir að þróunarríkin taki á sig slíkar skuldbindingar. Ljóst er að Íslendingar hafa eins og aðrar þjóðir mikla hagsmuni af því að samkomulag náist um takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda og að komið verði í veg fyrir hættulega röskun á loftslagskerfinu. Í samningaviðræðum til undirbúnings Kýótó-ráðstefnunnar hafa komið fram margar mismunandi tillögur, m.a. frá Evrópusambandinu og Bandaríkjunum. Langur vegur er milli þessara tillagna og samkomulag ekki í sjónmáli. Ísland hefur tekið virkan þátt í samningaviðræðunum og lagt áherslu á eftirtalin atriði: Í fyrsta lagi að bókunin taki til allra gróðurhúsalofttegunda. Í öðru lagi að binding kolefna, t.d. landgræðsla og skógrækt, verði metin til jafns við aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Í þriðja lagi að skuldbindingar miðist við losun á hvern íbúa þannig að tillit verði tekið til mismunandi þróunar fólksfjölda í einstökum ríkjum. Í fjórða og síðasta lagi að tekið verði tillit til sérstakra aðstæðna einstakra ríkja, t.d. Íslands sem mætir orkuþörf sinni að verulegu leyti með endurnýjanlegum orkugjöfum. Af Íslands hálfu er lögð á það rík áhersla að nýjar skuldbindingar megi ekki takmarka möguleika aðildarríkja til að nýta endurnýjanlega orkugjafa, sem ekki hafa í för með sér losun gróðurhúsalofttegunda, vegna iðnaðarframleiðslu. Nefna má í þessu sambandi að álver, sem nýtir rafmagn framleitt úr kolum, losar um tífalt meira af koltvíoxíði en þegar vatnsorka er nýtt. Það er í samræmi við lokamarkmið rammasamningsins að framleiðsla fari fram þar sem losun vegna hennar er minnst.

Þróunarmál

Íslensk stjórnvöld leggja sitt af mörkum til þróunaraðstoðar með margvíslegum hætti, en aðallega með starfi Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, sem sinnir tvíhliða samstarfi við nokkur Afríkulönd, og með framlögum til alþjóðlegra þróunarstofnana. Nauðsyn ber til að uppfylla þau fyrirheit sem gefin hafa verið um þróunaraðstoð. Leita þarf leiða til að auka samstarf milli Íslendinga og þeirra stofnana Sameinuðu þjóðanna sem starfa að þróunarmálum. Auka þarf þátttöku Íslendinga í því starfi, þar sem þekking þeirra nýtist best, t.d. í fiskiðnaði, jarðhita-, tækni-, orkumálum og nýtingu endurnýjanlegrar orku. Slíkt getur gefið færi á aðstoðarverkefnum sem einnig gætu tengst íslensku atvinnulífi.

Íslendingar hafa um alllangt skeið átt gott samstarf við Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Jarðhitaskóli S.þ. á Íslandi hefur starfað síðan 1979 og Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna tekur til starfa á Íslandi 1998. Einnig hefur komið fram áhugi á samstarfi við stofnanir S.þ. um uppgræðslu og varnir gegn jarðvegseyðingu.

Í starfi Íslands að þróunarmálum er höfð að leiðarljósi skýrsla aðalframkvæmdastjóra, Starfsskrá þróunar, ásamt niðurstöðum hinna miklu ráðstefna Sameinuðu þjóðanna síðustu misseri. Þar má nefna fyrst Mannfjöldaráðstefnuna í Kaíró 1994, sem varpaði ljósi á vandann vegna hinnar miklu fólksfjölgunar í heiminum og tengsl hans við náttúruauðlindir, fæðuskort og umhverfisspjöll. Á leiðtogafundi í Kaupmannahöfn um félagslega þróun 1995 skuldbundu ríkisoddvitar sig til að útrýma algerri fátækt og var árið 1996 helgað baráttunni gegn fátækt. Á síðustu stórráðstefnu samtakanna, byggðaráðstefnunni í Istanbúl 1996, var fjallað um hinn mikla vanda, sem stafar af auknum flutningi fólks úr dreifbýli í þéttbýli og hin miklu vandamál þessu samfara í stórborgum þróunarlandanna.

Sérstofnanir Sameinuðu þjóðanna hafa einnig látið þessi mál til sín taka. Í nóvember 1996 efndi Matvæla- og landbúnaðarstofnunin, FAO, til leiðtogafundar í Róm um fæðuöryggi. Í málflutningi forsætisráðherra á fundinum var lögð áhersla á mikilvægi sjávarins fyrir fæðuöflun alls mannkyns í framtíðinni. Nánar er fjallað um tvíhliða þróunarstarf Íslands og starf innan Alþjóðabankans að þróunarmálum í kafla X hér á eftir.

Efnahags- og félagsmálaráð (ECOSOC)

Ísland tók í ársbyrjun sæti í Efnahags- og félagsmálaráði S.þ. (ECOSOC) fyrir árin 1997–99. Á ársfundi ráðsins í sumar létu fulltrúar Íslands meðal annars til sín taka í umræðum um þróunarmál, mannréttindamál, nýja orkugjafa og málefni Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Samráð var haft við sjálfstæð félagasamtök, eins og Mannréttindaskrifstofu Íslands, og aðra aðila um málflutning á ársfundinum. Frá upphafi aðildar að Sameinuðu þjóðunum hefur Ísland aðeins einu sinni áður tekið sæti í efnahags- og félagsmálaráðinu, en það var á árunum 1985–1987.

Ráðið vinnur í anda ákvæða í sáttmála S.þ. um alþjóðasamvinnu að efnahags- og félagsmálum (55. gr.), einkanlega hvað snertir að bæta lífskjör, tryggja atvinnu, stuðla að félagslegri þróun, heilbrigði, sinna menningar- og menntunarmálum og mannréttindum og finna lausn á vandamálum er lúta að þessu. Í 61.–72. gr. sáttmála samtakanna er fjallað um störf og verksvið ráðsins. Ráðið hefur frumkvæði að rannsóknum, skýrslugerð og tillögum í efnahags-, félags-, menningar-, menntunar-, umhverfis-, þróunar-, mannréttinda- og heilbrigðismálum. Það vinnur tillögur í þeim efnum til allsherjarþingsins, sérstofnana og einstakra aðildarríkja, gerir uppkast að samningum og hvetur til alþjóðlegra ráðstefna um ýmis mál. Ráðið er einnig öryggisráðinu til aðstoðar, sé þess óskað. Ráðið fylgist einnig með framkvæmd ákvarðana alþjóðlegra stórráðstefna sem haldnar hafa verið á vegum samtakanna á undanförnum árum. Undir ráðið falla ellefu starfsnefndir, fimm svæðanefndir um efnahagsmál og níu fastar nefndir og sérfræðingahópar. Flestar sérstofnanir S.þ. heyra stjórnskipulega undir ráðið og sérverkefni S.þ. sameiginlega undir það og allsherjarþingið.

Ársfundur Efnahags- og félagsmálaráðs S.þ. fór fram í Genf 30. júní til 25. júlí 1997. Dagskrá hans var fjórskipt: 1. Samráð háttsettra aðila um þróunarmál, þ.e. að skapa hagstætt umhverfi í þágu þróunar, þ.m.t. fjármagnsflutningar, fjárfestingar og verslun. 2. Aðgerðahluti um sama efni. 3. Samræmingarhluti, þar sem annars vegar var fjallað um það, hvernig best megi innleiða jafnrétti kynjanna í starf S.þ. og hins vegar um ferskvatnsmál. 4. Almennur hluti, þar sem fjallað var um flesta þætti í efnahags- og félagsmálastarfi S.þ., s.s. byggðamál, mannfjöldavandamál, aðstoð vegna náttúruhamfara, upplýsingatækni, umhverfismál, flutninga á hættulegum efnum og félagslega þróun, svo að eitthvað sé nefnt.

Undirbúningur er hafinn að málflutningi Íslands á næsta ársfundi ECOSOC og kemur þar t.d. til greina málflutningur á eftirfarandi sviðum: varnir gegn glæpum og fíkniefnum, mannúðarmál, kynþáttahatur, æskulýðsmál, málefni fatlaðra, málefni barna og umhverfismál, auk þess sem þróunarmál verða áfram í brennidepli á ECOSOC-ársfundum.

Orkumál

Fulltrúi Íslands var í ársbyrjun kosinn til setu í nefnd Sameinuðu þjóðanna um nýja og endurnýjanlega orkugjafa, sem heyrir undir Efnahags- og félagsmálaráðið. Nefndin vinnur m.a. að undirbúningi alþjóðlegrar ráðstefnu um nýja orkugjafa og standa vonir til, að þekking og reynsla Íslendinga í nýtingu umhverfisvænnar orku komi að góðum notum í því starfi.

Mannréttindamál

Íslensk stjórnvöld leggja áherslu á að tryggja beri mannréttindi um allan heim í samræmi við mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og niðurstöður mannréttindaráðstefnunnar í Vínarborg 1993, óháð svæðisbundnum aðstæðum, t.d. stjórnarfari og menningu, félagslegu umhverfi eða trúarbrögðum. Litið er svo á að mannréttindi séu órofa hluti af friðarstarfi Sameinuðu þjóðanna og verði ekki skilin frá starfi að öryggis- og þróunarmálum.

Ísland hefur fullgilt samning samtakanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi ásamt viðaukum, og saminginn um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, en þessir samningar geta talist samantekt lágmarksréttinda allra jarðarbúa.

Á síðustu árum hefur á vettvangi Sameinuðu þjóðanna æ meira verið fjallað um mannréttindi ýmissa hópa þjóðfélagsins, eins og kvenna, barna, aldraðra og fatlaðra, og vilja stjórnvöld leggja því starfi lið.

Málefni barna

Íslensk stjórnvöld hafa með ýmsum hætti lagt réttindum barna lið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og telja, að það sé eitt af forgangsverkefnum Sameinuðu þjóðanna að rétta hlut þeirra milljóna barna um allan heim, sem þurfa að þola ánauð, vinnuþrælkun og sæta kynferðislegri misnotkun. Samningurinn um réttindi barna hefur verið fullgiltur á Ísland og varsla barnakláms er nú refsiverð hérlendis.

Í fyrra styrkti utanríkisráðuneytið fulltrúa samtakanna Barnaheilla til þátttöku í alþjóðlegri ráðstefnu í Stokkhólmi um kynferðislega misnotkun barna. Fulltrúar frá utanríkisráðuneytinu og Barnaheillum tóku þátt í alþjóðlegri ráðstefnu í Osló í októberlok um vinnu barna.

Jafnréttismál

Nauðsynlegt er að tryggja grundvallarmannréttindi kvenna og stúlkna. Ísland fullgilti samninginn um afnám allrar mismununar gagnvart konum árið 1993.

Mikilvægt er að framkvæmdaáætlun kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Peking 1995 verði hrundið í framkvæmd. Stofnaður hefur verið samráðshópur innan stjórnarráðsins um framkvæmd áætlunarinnar. Leggja ber áherslu á að tryggja konum menntun og atvinnumöguleika til jafns við karla.

Flóttamenn

Mikilvægt er ennfremur starf Sameinuðu þjóðanna í þágu flóttamanna. Nauðsyn ber til að samræma hina alþjóðlegu aðstoð við flóttamenn, einkum hvað snertir móttöku flóttamanna, aðlögun þeirra í gistiríkjum og afturhvarf til fyrri heimkynna.

Í samvinnu við embætti flóttamannafulltrúa S.þ. hefur Ísland tekið við tveimur hópum flóttamanna frá Bosníu-Hersegóvínu.

Varnir gegn afbrotum

Á síðustu árum hefur barátta Sameinuðu þjóðanna gegn afbrotum og skipulagðri glæpastarfsemi orðið æ mikilvægari. Á þetta ekki síst við vegna tengsla slíkrar starfsemi við skipulagða hryðjuverkastarfsemi. Alþjóðleg glæpastarfsemi er þess eðlis að ríki heims verða taka höndum saman í baráttunni við að kveða hana niður. Hafinn er undirbúningur að þátttöku í sérstöku aukaallsherjarþingi árið 1998 í New York, helguðu baráttunni gegn fíkniefnum.

Hafréttarmál

Úthafsveiðisamningur Sameinuðu þjóðanna hefur það að markmiði að tryggja verndun og sjálfbæra nýtingu deilistofna og víðförulla fiskstofna. Það eru langtímahagsmunir allra fiskveiðiþjóða að þessu markmiði verði náð og að endi verði bundinn á stjórnlausar veiðar á úthafinu. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hefur Ísland hvatt aðildarríki til að staðfesta úthafsveiðisamninginn. Nánar er fjallað um hafréttar- og auðlindamál í kafla XI.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta