Hoppa yfir valmynd
7. nóvember 1997 Utanríkisráðuneytið

AÞS: Skýrsla 1997: X Þróunarmál

Yfirlitsskýrsla um utanríkismál 1977
Staða Íslands, breytingar og horfur í alþjóðlegu umhverfi

X - Þróunarmál

Þróunarsamvinnustofnun Íslands
Þrátt fyrir aðhald í ríkisrekstri hafa fjárveitingar til Þróunarsamvinnustofnunar aukist lítillega undanfarin tvö ár, eftir að hafa staðið í stað næstu þrjú ár þar á undan. Íslenskum starfsmönnum stofnunarinnar í Afríku hefur einnig fjölgað úr 16 í 20 á þessu tímabili. Stofnunin hóf samstarf við Mósambík um áramótin 1995/6. Þar er höfuðáherslan lögð á aðstoð við bætta meðferð sjávarfangs og gæðaeftirlit með útfluttum fiski. Í aðalsamstarfslandinu, Namibíu, hefur verið dregið úr aðstoð við fiskirannsóknir og tilraunaveiðar en aðstoð við fræðslu og þjálfun aukist, m.a. með því að leggja til sex af tíu kennurum við sjómannaskóla Namibíu. Samvinnusamningur við Malaví var framlengdur til ársins 2000, með aukinni áherslu á rannsóknir og fræðslu í fiskimálum. Stofnunin hefur einnig aukið aðstoð sína við grunnmenntun og heilsugæslu í öllum samstarfslöndunum. Aðstoð við Grænhöfðaeyjar hefur dregist saman og samstarfssamningur landanna rennur út í árslok 1998. Að tilstuðlan utanríkisráðherra var vorið 1997 gerð ýtarleg skýrsla um þróunarsamvinnu Íslendinga. Stjórn Þróunarsamvinnustofnunar hefur gert tillögur um framhald starfseminnar sem byggðar eru á niðurstöðum höfundar þeirrar skýrslu, Jónasar Haralz. Á grunni þeirra tillagna samþykkti ríkisstjórnin nú nýverið að fjárveitingar til þróunarsamvinnu Íslands yrðu hækkaðar í áföngum næstu ár þannig að hlutfall þeirra af þjóðarframleiðslu verði komið í 0,15% árið 2003, í stað 0,1% nú. Verður heildarfjárveiting til ÞSSÍ komin í u.þ.b hálfan milljarð króna árið 2003.

Starfsemi

Stjórn Þróunarsamvinnustofnunar Íslands er skipuð sex mönnum kjörnum af Alþingi, auk formanns sem skipaður er af utanríkisráðherra. Stjórnin vinnur m.a. að stefnumótun fyrir stofnunina og gerir tillögur til ráðherra um einstök verkefni og fjárveitingar til þeirra. Framkvæmdastjóri sér um daglegan rekstur.

Fjárveitingar til stofnunarinnar voru hækkaðar um 9% milli áranna 1996 og 1997, í 172 milljónir króna. Fjárveitingar til þróunarmála eru mjög lágar á Íslandi miðað við flestar OECD-þjóðir eða aðeins um 0,1% af vergri þjóðarframleiðslu, þar af fer aðeins rúmur þriðjungur til ÞSSÍ eða tvíhliða þróunarsamvinnu.

Íslenskir starfsmenn stofnunarinnar eru nú alls 22, þrettán í Namibíu, þrír í Malaví, þrír í Mósambík, einn á Grænhöfðaeyjum og tveir í Reykjavík, auk nokkurra Afríkumanna og íslenskra skammtímaráðgjafa. Helstu þættir starfseminnar í einstökum samstarfslöndum eru raktir hér í örstuttu máli:

Grænhöfðaeyjar

Nú er aðeins einn starfsmaður ÞSSÍ eftir á Grænhöfðaeyjum. Hann hefur að mestu leyti unnið að samstarfsverkefni ÞSSÍ, Norræna þróunarsjóðsins og sjávarútvegs-ráðuneytisins á Grænhöfðaeyjum um menntun, rannsóknir og skipulag sjávarútvegs eyjanna.

Íslenskur fiskifræðingur hefur verið við störf á Grænhöfðaeyjum stutt tímabil undanfarin ár og fiskifræðingur frá Grænhöfðaeyjum lauk nýlega mastersnámi í fiskifræði frá H.Í. Áformað er að halda starfsemi á Grænhöfðaeyjum sem mest óbreyttri út árið 1998 þegar samstarfsverkefni ÞSSÍ/NDF á að vera lokið, en framhald eftir það er óákveðið.

Malaví

Þróunarsamstarf Íslands og Malaví er mjög fjölþætt. Veiðimálaskrifstofa ríkja í sunnanverðri Afríku, sem er í Malaví, er styrkt með sérfræðiaðstoð og nokkru rekstrafé. Íslenskur fiskifræðingur stjórnar þeirri skrifstofu.

Ísland hefur um 7–8 ára skeið tekið þátt í og leitt rannsóknir á nytjastofnum í Malavívatni sem er eitt stærsta stöðuvatn Afríku. Hefur það verið mjög vel heppnuð vinna í samstarfi við Alþjóðabankann. Nú er komið að því að fara að nýta það sem þessar rannóknir hafa leitt í ljós. Væri mjög æskilegt að ÞSSÍ gæti tekið þátt í verkefni um nýtingu auðlinda vatnsins sem nú er á döfinni hjá Alþjóðabankanum.

Fiskeldisbraut Landbúnaðarháskóla Malaví hefur verið studd með námsstyrkjum og launum kennslukrafta. Styrkþegar eru frá ýmsum ríkjum í sunnanverðri Afríku auk Malaví.

Stofnunin hefur einnig tekið þátt í félagslegum verkefnum eins og byggingu barnaskóla við Malavívatn og endurbótum á berkladeild aðalsjúkrahússins í höfuðborginni Lilongwe. Nú hafa Alþjóðabankinn og Norræni þróunarsjóðurinn (NDF) óskað eftir því að ÞSSÍ taki þátt í nýju stóru verkefni á sviði menntamála.

Mósambík

Árið 1996 var fyrsta heila starfsár ÞSSÍ í Mósambík, nýjasta samstarfslandinu. Rannsóknaskip stofnunarinnar, Fengur, hefur verið lánað til rannsókna á grunnsjávardýrum og leggur ÞSSÍ einnig til útgerðarstjóra. Yfirvélstjóri er einnig íslenskur en NDF fjármagnar rekstur skipsins.

Stofnunin leggur til stjórnanda samvinnuverkefnis Suður-Afríkuríkja um gæðastaðla fyrir fiskafurðir. Það verkefni er einnig styrkt af Evrópusambandinu.

Nýtt verkefni, útflutningseftirlit með rækju frá Mósambík, hófst í ársbyrjun 1997. Það verkefni, sem unnið er með DANIDA, dönsku þróunarsamvinnustofnuninni, kemur líklega til með að aukast að umfangi, en nú er það að mestu fólgið í vinnu eins íslensks sérfræðings. Fleiri verkefni á sviði sjávarrannsókna og fiskveiða eru í athugun.

Í félagsmálum hefur ÞSSÍ styrkt byggingu heimilis fyrir götubörn í Maputo í samvinnu við RKÍ. Þá styrkir stofnunin einnig félagsmálasamtök í einu fátækarahverfi borgarinnar.

Namibía

Í Namibíu eru mannfrekustu og fjárfrekustu samstarfsverkefni ÞSSÍ. Í upphafi ársins 1990 fór mestur stuðningur til Hafrannsóknarstofnunnar Namibíu og reksturs rannsóknarskips þeirra. Helstu breytingar á árinu 1996 voru þær að stýrimaður og vélstjóri á rannsóknarskipinu Welvitschia létu af störfum skv. áætlun um áherslubreytingar í samstarfinu en einn kennari í viðbót var ráðinn við sjávarútvegsskólann í Walvis Bay í staðinn. Eru sjómannakennaranir því orðnir sex og það verkefni orðið þungamiðja starfseminnar í Namibíu.

ÞSSÍ hefur lagt til sérfræðing í fiskimálum í sjávarútvegsráðuneyti Namibíu. Hefur hann stjórnað sjávarútvegsstofnun SADC, og verið ráðgjafi sjávarútvegsráðherra Namibíu í ýmsum málum.

Annar af tveimur fastráðnum fiskifræðingum ÞSSÍ í Namibíu, sem jafnframt gegndi stöðu verkefnisstjóra, lét af störfum og hafa tveir sérfræðingar sinnt tímabundnum verkefnum til skiptis að ósk sjávarútvegsráðuneytis Namibíu fyrir það fé sem sparaðist við brotthvarf hans.

Stofnunin hefur um fimm ára skeið staðið fyrir fullorðinsfræðslu í lestri og skrift fyrir fátækar konur, fyrst í Lüderitz og síðar einnig í Walvis Bay. Ákveðið var að auka stuðning við fullorðinsfræðslu í Walvis Bay með því að byggja þar skólastofur.

Umfang aðstoðar við Namibíu, sem hefur verið 70–80 m.kr. á ári, mun ekki breytast næstu tvö árin en úr því er reiknað með að dregið verði úr aðstoð, a.m.k. annarri en menntun og þjálfun.

ÞSSÍ gefur árlega út yfirlitsskýrslu um starfsemi stofnunarinnar. Ársskýrsla fyrir 1996 liggur þegar fyrir.

Alþjóðabankinn

Almennt

Ísland gerðist stofnaðili að Alþjóðabankanum (International Bank for Reconstruction and Development – IBRD) ásamt 28 öðrum ríkjum þann 27. desember 1945. Alþjóðabankinn hafði það að markmiði að stuðla að endurreisn og þróun landssvæða eftir hörmungar seinni heimsstyrjaldarinnar. Þegar því uppbyggingarstarfi lauk breyttust áherslur bankans og veitir hann nú eingöngu lán til þróunarríkja á markaðskjörum.

Í dag eru systurstofnanir Alþjóðabankans fjórar talsins. Þær eru:

Alþjóðalánastofnunin (International Finance Corporation – IFC) sem var sett á stofn árið 1955. Hlutverk hennar er að örva vöxt einkafyrirtækja sem starfa á framleiðslusviði með því að eiga hlut að framkvæmdum þar sem ekki er tiltækt nægilegt einkafjármagn.

Alþjóðaframfarastofnunin (International Development Association – IDA) sem tók til starfa árið 1960. Markmið stofnunarinnar er að stuðla að efnahagslegum framkvæmdum, auka framleiðni og bæta lífskjör í þróunarlöndum. Lán Alþjóðaframfarastofnunarinnar eru einungis veitt til fátækustu landa heims og eru oft kölluð mjúk lán þar sem þau eru vaxtalaus, án afborgana í 10 ár og endurgreiðast á 35–40 árum.

Alþjóðlega stofnunin til lausnar fjárfestingardeilum (The International Center for Settlement of Investment Disputes – ICSID) sem var stofnuð árið 1965. Tilgangur hennar er að veita þjónustu til lausnar fjárfestingardeilum milli aðildarríkja og þegna annarra aðildarríkja. Þannig geti stofnunin stuðlað að auknu flæði alþjóðlegra fjárfestinga.

Alþjóðlega fjárfestingarábyrgðarstofnunin (Multilateral Investment Guarantee Agency – MIGA) sem var komið á laggirnar árið 1988 með það að markmiði að auðvelda þróunarríkjum fjárútvegun til fjárfestinga.

Í daglegu tali er rætt um Alþjóðabankann (World Bank) og er þá átt við IBRD og IDA, en sé talað um Alþjóðabankahópinn (World Bank Group) er átt við allar stofnanirnar fimm. Ísland er aðili að öllum stofnunum Alþjóðabankahópsins, að Alþjóðlegu fjárfestingarábyrgðarstofnuninni undanskilinni. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að stofnað verði til aðildar að stofnuninni og er nú unnið að því í ráðuneytinu.

Endurbætur á starfsemi Alþjóðabankahópsins

Töluverð uppstokkun hefur átt sér stað á starfsemi Alþjóðabankahópsins á síðustu misserum og má búast við áframhaldandi starfi í þá veru á komandi árum. Fyrr á þessu ári hófst verkefni innan bankans sem á að gera starfsemi hans skilvirkari og auka árangur þróunarstarfsins í heild. Þetta verkefni, the Strategic Compact, byggist að hluta á skipulagsbreytingum innan bankans þar sem draga á úr kostnaði vegna stjórnunar og auka ábyrgð stofnana hans. Jafnframt verða þarfir móttakenda hafðar að leiðarljósi og mun aukinn hluti undirbúningsvinnu og ákvarðanatöku færast til skrifstofa bankans í viðkomandi löndum. Með þessu er vonast eftir skilvirkari og fljótari afgreiðslu mála og að bankinn bregðist skjótar við þörfum þeirra landa er njóta þjónustu hans.

Annar mikilvægur þáttur verkefnisins er bætt sérfæðiþekking starfsfólks bankans, og endurbætur á sviði tækniaðstoðar. Einnig má nefna þá ætlan að byggja upp "þekkingarbanka" sem mun sækja styrk sinn í 52 ára reynslusögu bankans, þekkingu starfsmanna og rannsóknir bankans á þróunarmálum almennt.

Óháð ofannefndu verkefni hefur forseti bankans heitið því að aukið tillit verði tekið til minnihlutahópa, s.s. fámennra ættflokka og einstæðra mæðra, á sviði félagslegrar þróunar. Stuðningi við einkageirann verði haldið áfram og samvinna stofnana bankans verði aukin og endurbætt. Sjálfbær þróun verði áfram höfuðmarkmið í starfsemi bankans, með sérstakri áherslu á aðstoð við fátækustu íbúana í dreifðum byggðum þróunarríkjanna. Að lokum verði samvinna við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn efld og þjónusta bankans á fjármálasviðum styrkt.

Þróunarnefnd Alþjóðabankans

Utanríkisráðuneytið tók við málefnum Alþjóðabankans af viðskiptaráðuneytinu á árinu 1996 og má nú segja að ábyrgð á marghliða þróunarsamvinnu sé að mestu leyti á hendi utanríkisráðuneytisins. Það sem af er núlíðandi ári hafa umsvif vegna þessara samskipta aukist jafnt og þétt. Þar má nefna að utanríkisráðherra tók sæti Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í þróunarnefnd Alþjóðabankans. Í nefndinni, sem fundar tvívegis á ári, eiga sæti 24 ráðherrar fyrir hönd þeirra 180 landa sam aðild eiga að Alþjóðabankanum. Þróunarnefndin mótar meginstefnu bankans í þróunarmálum og er ráðgefandi aðili fyrir ársfund bankans hvað varðar framkvæmd og framvindu stefnumiða hans.

Á þessu ári hafa fjögur málefni verið mest áberandi í umfjöllun þróunarnefndarinnar og hefur utanríkisráðherra lagt fram tvær yfirlýsingar þar sem fram kemur afstaða Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna. Í fyrsta lagi hefur ráðherrann fagnað nýrri áherslu í þróunarstarfi bankans í baráttunni gegn spillingu. Hann leggur áherslu á að spilling dafnar þar sem stjórnarfar er veikt og oftast verði hinir fátæku verst fyrir barðinu á spilltum stjórnunaröflum. Ráðherrann bendir á að ábyrgð í baráttunni gegn spillingu sé á hendi yfirvalda í hverju landi, en alþjóðlegt þróunarsamstarf geti stuðlað að umbótum, m.a. þannig að þróunarfé styrki aldrei spillingaröfl en sé notað til að auka ábyrgð og gæði í stjórnsýslu. Í öðru lagi hefur ráðherrann lýst yfir fullum stuðningi við átak Alþjóðabankans til að auka fjárfestingar einkaaðila á sviði orku-, samgöngu- og fjarskiptamála í þróunarríkjunum. Á þessu sviði mun bankinn verða lítt áberandi í beinni fjármögnun, en mun einbeita sér að ráðgjöf og útvegun ábyrgða sem auðveldað geta fjármögnun einkaaðila. Í þriðja lagi styður ráðherrann átak bankans til aðstoðar skuldugustu þróunarríkjunum. Þetta átak (Heavily Indebted Poor Countries Initiative – HIPC) byggist á niðurfellingu skulda til þeirra ríkja sem fyrirsjáanlegt er að geti ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart lánardrottnum. Alþjóðabankinn hefur forystu í þessu átaki, en að því koma allar helstu þróunarlánastofnanir og -sjóðir heims, auk Parísarklúbbsins og lánardrottna sem veitt hafa tvíhliða lán. Í yfirlýsingum ráðherra koma þó fram áhyggjur Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna varðandi fjármögnun átaksins, þar sem sjö helstu iðnríki heims hafa ekki öll lagt fé í sérstakan styrktarsjóð þess. Í fjórða lagi hefur utanríkisráðherra fjallað um hvernig fjármagna skuli framtíðarstarfsemi Alþjóðlegu fjárfestingar-ábyrgðar-stofnunarinnar. Stofnunin hefur átt við töluverðan fjárhagsvanda að etja á undangengnum misserum og skýrði ráðherrann frá því að Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin styddu tveggja þrepa áætlun stjórnar bankans til lausnar þessum vanda. Sú áætlun gerir ráð fyrir yfirfærslu 150 milljóna Bandaríkjadala frá IBRD sem fyrsta þrepi, og innborgun 150 milljóna Bandaríkjadala frá aðildarlöndum auk 700 milljóna Bandaríkjadala í ríkisábyrgðum sem öðru þrepi. Ráðherrann greindi þó einnig frá því að Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin settu þau skilyrði fyrir þátttöku í þrepi tvö, að skýr stefnumótun og áætlun um hvernig staðið skuli að verkefnavali liggi fyrir frá hendi stofnunarinnar.

Norrænt samstarf í málefnum Alþjóðabankahópsins

Norðurlönd og Eystrasaltsríkin hafa með sér mjög náin samskipti um málefni Alþjóðabankahópsins. Þau skipa sameiginlega stjórnarmenn í stofnanir bankans og reka sameiginlega skrifstofu sem er í bankanum í Washington D.C. Samskipti við skrifstofuna eru náin, enda er það eitt af markmiðum hennar að þjónusta þau lönd sem að henni standa. Fyrirkomulag hins norræna samstarfs byggist á samræmingarstarfi sem fer fram með reglulegum símafundum, auk þess sem þrír embættismannafundir eru haldnir árlega. Löndin skiptast á um að halda slíka fundi og kom það í hlut Íslendinga í apríl síðastliðnum. Þann fund sóttu 22 embættismenn frá sjö löndum, en Litháar sendu engan fulltrúa. Auk þess sótti aðalfulltrúi landanna í stjórn bankans fundinn og sérstakur gestur, Ali Bourhane, sem er aðalfulltrúi meira en 20 Afríkuríkja í stjórn bankans. Bourhane var boðið til fundarins að frumkvæði Íslendinga til að ræða ástand mála í Afríku og þá sérstaklega nýtt átak afrískra leiðtoga til að bæta opinbera þjónustu og stjórnskipulag.

Sú ábyrgð, sem utanríkisráðuneytið hefur nú á sviði þróunarmála, gerir nýjar og auknar kröfur til starfsliðs þess. Af því tilefni hefur verið ráðinn einn nýr starfsmaður sem eingöngu mun sinna þróunarmálum er snúa að alþjóðlegum stofnunum, þ.m.t Alþjóðabankanum og ýmsum þróunarstofnunum Sameinuðu þjóðanna.

Á næsta ári er síðan komið að því að Íslendingar skipi í stöðu aðstoðarmanns til þriggja ára á skrifstofu Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í bankanum, og að þeim tíma liðnum eiga þeir að skipa í stöðu ráðgjafa til tveggja ára. Að því loknu, eða árið 2003, kemur síðan að því að Íslendingur setjist í stöðu aðalfulltrúa í stjórn bankans fram til ársins 2006. Af þessu er ljóst að utanríkisráðuneytið þarf að hafa á að skipa starfsliði, er hefur þekkingu og reynslu af þróunarmálum og er fært um að taka að sér þau störf við stjórn Alþjóðabankans sem Ísland á tilkall til.

Skýrsla um þróunarsamvinnu Íslendinga

Fyrr á þessu ári skrifaði Jónas H. Haralz skýrslu um þróunarsamvinnu Íslendinga á vegum utanríkisráðuneytisins. Jónas hefur áralanga reynslu af þróunarmálum og sat m.a. sem aðalfulltrúi Norðurlanda í stjórn Alþjóðabankans frá 1988 til 1991. Í skýrslunni kemur m.a. fram að upphæð framlaga til marghliða þróunarsamvinnu er oftast nær bundin samþykktum um þátttöku sem miðast við þjóðartekjur og hefur Ísland ávallt greitt skilvíslega framlög sín til Alþjóðabankans. Hlutfallslega greiðir Ísland þó lægri upphæð til marghliða þróunarsamvinnu en flest lönd önnur. Ástæður þessa eru tvær. Í fyrsta lagi er Ísland ekki aðili að ýmsum marghliða stofnunum, þ.á m. þróunarbönkum í öðrum heimsálfum. Í öðru lagi hefur Ísland ekki lagt fram fé umfram skuldbindingar til alþjóðlegra stofnana, líkt og tíðkast í ríkum mæli, m.a. af hinum Norðurlöndunum. Um ástæður þessa segir í skýrslunni: "Áhugaleysi um aðild eða frjáls framlög skýrist svo aftur á móti af þeirri skoðun, að starfsemi þessara stofnana þjóni lítt íslenskum hagsmunum, og þá einkum að framlög skili sér ekki að neinu leyti aftur til landsins í kaupum á vöru eða þjónustu, eins og þau gera að verulegu leyti til stærri landa."

Um framtíð marghliða þróunaraðstoðar segir í skýrslunni að ekki væri úr vöndu að ráða ef Íslendingar vildu auka framlag sitt til þessa málaflokks. Aukin framlög kæmu líklega í betri þarfir hjá Alþjóðaframfarastofnuninni en hjá nokkrum öðrum aðila. Þá er á það bent að aðild að Alþjóðlegu fjárfestingarábyrgðarstofnuninni gæti verið áhugaverð þar sem íslenskir fjárfestar í þróunarlöndunum gætu nýtt sér upplýsingar og tryggingar sem stofnunin hefur á boðstólnum. Af svipuðum ástæðum gæti aðild að þróunarbönkum annarra heimsálfa verið áhugaverð.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta