Greinargerð nefndar um hugbúnaðargerð ríkisins, desember 1997
Desember 1997.
Greinargerð
nefndar iðnaðar- og viðskiptaráðherra um
hugbúnaðargerð ríkisins
nefndar iðnaðar- og viðskiptaráðherra um
hugbúnaðargerð ríkisins
Í Framtíðarsýn ríkisstjórnar Íslands um upplýsingasamfélagið eru skilgreind þrjú forgangsverkefni sem mikilvæg spor í að stefna stjórnvalda inn í samfélag upplýsinga og þekkingar, sem nefnt hefur verið upplýsingasamfélagið, nái fram að ganga. Eitt þessara forgangsverkefna er að útboðsstefnu ríkisins verði framfylgt við kaup hugbúnaðar fyrir ríkisstofnanir og ráðuneyti. Áhersla verði lögð á að auka þannig þátttöku hugbúnaðarframleiðenda í þróunarverkefnum á vegum ríkisstofnana og nýta betur það fé sem þær verja til hugbúnaðar.
I. Áhrif útboða og samkeppni um hugbúnaðargerð.
Á seinustu árum hefur hugbúnaðargerð á Íslandi vaxið og eflst umfram flestar aðrar greinar. Til hefur orðið öflug og sjálfstæð atvinnugrein þar sem boðið er upp á fjölbreytt úrval afurða sem margar hverjar hafa náð nokkurri fótfestu á erlendum mörkuðum. Nú er í boði hugbúnaður sem áður varð að þróa hjá notandanum sjálfum, m.a. vegna þess að ekki var unnt að kaupa hann af öðrum. Þessari jákvæðu framþróun þarf að fylgja eftir með aðlögun á starfsháttum ríkisins þar sem í auknum mæli verði beitt markaðslausnum við öflun hugbúnaðar í stað hugbúnaðargerðar í afmörkuðu stofnanaumhverfi. Í samræmi við þetta mun starfssvið sérfræðinga ríkisins með þekkingu á hugbúnaðargerð breytast því þeir munu þurfa að koma fram fyrir hönd þess sem hinn kröfuharði kaupandi.
Útboð hugbúnaðar.
Markmið útboðsstefnu ríkisins er annarsvegar að auka hagkvæmni í rekstri ríkisins og hinsvegar að efla samkeppni í einkageiranum. Með útboðum getur ríkið dregið sig út úr starfsemi sem unnt er að vinna á betri og hagkvæmari hátt hjá fyrirtækjum sem starfa á opnum samkeppnismarkaði. Ríkið á að vera upplýstur og kröfuharður kaupandi þar sem aukin áhersla verður lögð á árangur og góða nýtingu fjármagns.
Útboðsstefnu ríkisins má framfylgja með ýmsum hætti. Mikilvægt er að þeir sem með þau mál fara hafi jafnan að leiðarljósi að fylgja þeirri braut sem gefur mestan heildar ávinning. Vegna stöðugt aukins framboðs á tilbúnum hugbúnaðarlausnum er ástæða til að ríkið kaupi þær í eins miklum mæli og unnt er. Við öflun tilbúins hugbúnaðar er auðvelt að beita hefðbundnum útboðsaðferðum. Eftir sem áður mun, að einhverju marki, þurfa að þróa sérlausnir, til að uppfylla þarfir ríkisins fyrir nýjan hugbúnað. Þróun sérlausna er flóknari og gerir meiri kröfur til forvinnu og útboðsgagnagerðar.
Aukin útboð eru leið til að lækka kostnað ríkisins og efla samkeppnishæfni hugbúnaðarfyrirtækja á nýjum mörkuðum. Með útboðum er unnt að samræma og bæta skilyrði til fjármögnunar þróunar- og nýsköpunarverkefna í upplýsingatækni, m.a. með vöruþróunarverkefnum, frumgerðarkaupum og fleiru. Útboð, þar sem forval er notað og áhersla er lögð á hæfni og árangursmarkmið, getur verið undanfari vöruþróunarsamninga.
Vöruþróunarsamningar.
Vöruþróunarsamningar geta reynst árangursrík aðferð til að þróa hugbúnað, notendakerfi og aðrar sérlausnir á sviði upplýsingatækni. Vöruþróunarsamningar henta einkar vel þegar stefnt er að almennri markaðssetningu vöru eftir að þróun hennar lýkur. Í því tilfelli sem hér um ræðir er "varan" hverskonar hugbúnaður og upplýsingaefni þar sem rafeindatækni kemur við sögu.
Vöruþróunarsamstarf felur í sér samvinnu milli opinberrar stofnunar og fyrirtækis um þróun nýrrar afurðar eða breytingar og endurbætur á eldri afurð, lausn tiltekins vanda eða þróun nýrrar þjónustu fyrir stofnunina. Um er að ræða samvinnu um þróunarverkefni vegna lausnar sem ekki er unnt að kaupa á almennum markaði. Fleiri en eitt fyrirtæki getur komið að slíkum samningi, t.d. með s.k. netsamstarfi.
Þegar samstarfið miðar að því að þróa afurð til sölu á innlendum eða alþjóðlegum markaði getur kaupandinn (stofnunin) verið þáttakandi í markaðssetningu afurðarinnar og væntanlegum ávinningi af sölu hennar, eða látið sér nægja að fá eigin þörfum fullnægt og látið þróandanum eftir að markaðssetja hana frekar, með þeirri áhættu og von um fjárhagslegan ávinning sem því fylgir. Reikna má með að fái þróunarfyrirtækið eitt réttinn til markaðssetningar og sölu afurðarinnar beri það jafnframt hærri hluta þróunarkostnaðarins.
Ávinningur af opinberum útboðum.
Ávinningur hugbúnaðarfyrirtækja af opinberum útboðum er fyrst og fremst sá að við það að hugbúnaðargerð flyst til þeirra frá opinberum stofnunum vex samkeppnin um opinber verkefni og kaupendahópur fyrirtækjanna stækkar. Þetta mun skapa þeim betri starfsskilyrði og færa þeim stór og krefjandi verkefni. Jafnframt verður til ný þekking innan fyrirtækjanna sem styrkir stoðir þeirra til frekari afurðasköpunar.
Ávinningur þjóðfélagsins felst í þeim samanlagða ávinningi sem leiðir af lægri kostnaði hins opinbera við öflun sérlausna og þeim margvíslega ávinningi sem leiðir af eflingu innlends hugbúnaðariðnaðar og afleiddum áhrifum þess víðsvegar í samfélaginu.
II. Nefnd iðnaðar- og viðskiptaráðherra um hugbúnaðargerð ríkisins.
Í ljósi þess ásetnings ríkisstjórnarinnar að framfylgja betur útboðsstefnu ríkisins við kaup og þróun hugbúnaðar fyrir ríkisstofnanir skipaði Finnur Ingólfsson iðnaðar- og viðskiptaráðherra, í janúar 1997, nefnd til að meta umfang hugbúnaðargerðar ríkisins og koma með tillögur um á hvern hátt best væri að koma henni á frjálsan markað. Í nefndina voru skipuð þau Arnar Bjarnason hagfræðingur; Friðrik Sigurðsson forstjóri; Guðmundur Ásmundsson verkfræðingur; Guðbjörg Sigurðardóttir tölvunarfræðingur; Jóhann Gunnarsson deildarstjóri og Sveinn Þorgrímsson deildarstjóri, formaður.
Nefndin ákvað að skipta verkefninu í tvo hluta. Annarsvegar að gera könnun á umfangi hugbúnaðargerðar ríkisins með því að senda ríkisstofnunum spurningalista til útfyllingar. Hinsvegar að gera tillögur um á hvern hátt stofnanirnar gætu aðlagað sig að framkomnum kröfum um útboð hugbúnaðarverkefna og jafnframt byggt upp þekkingu til að geta sinnt betur hlutverki hins jákvæða og kröfuharða kaupanda. Hér á eftir eru niðurstöður nefndarinnar sem skiptast í samræmi við framansagt.
III. Könnun á umfangi hugbúnaðargerðar ríkisins.
Markmið og framkvæmd.
Markmiðið með könnuninni var að fá sem gleggstar upplýsingar um umfang hugbúnaðargerðar ríkisins með eigin starfsmönnum á árinu 1996 og til viðmiðunar að bera það saman við kaup þess á hugbúnaði og hugbúnaðarþjónustu á almennum markaði á sama tímabili. Upplýsingar um þetta yrðu síðan sá grunnur sem tillögur um framkvæmd útboðsstefnunnar byggðust á.
Umfang hugbúnaðargerðar ríkisins.
Í þeim tilgangi að fá sem sambærilegust svör var útbúið sérstakt spurningablað sem sent var, að því að talið er, öllum stofnunum ríkisins. Þær reyndust 292. Svör bárust frá 157 þeirra, sem er um 54% svarhlutfall. Spurningablaðið er sýnt í viðauka.
Í töflu 1 eru svarendur flokkaðir í sjö hópa eftir eðli starfsemi þeirra, sem einkum tók mið af gerð þeirra upplýsingakerfa sem álitið var að þeir noti.
Í flokknum ráðuneyti er einnig Alþingi og þær stofnanir sem hvað mest tengjast stjórnsýslu ráðuneytanna eins og ríkisbókhald og ríkisendurskoðun, alls 26 ráðuneyti og stofnanir. Í flokknum menntastofnanir eru ýmsar menningarstofnanir, eins og Ríkisútvarpið, Þjóðleikhúsið og Landsbókasafn, alls 58 stofnanir. Í flokknum heilbrigðisþjónusta eru spítalar og heilsugæslustöðvar, en auk þess félagsmálastofnanir á borð við svæðisskrifstofur fatlaðra, alls 90 stofnanir. Í flokknum rannsóknarstofnanir eru þær stofnanir sem stunda vísinda- og rannsóknatengda starfsemi, alls 20 stofnanir. Í flokknum löggæsla eru embætti sýslumanna, dómstólar og skyld starfsemi, alls 46 stofnanir. Í flokknum stjórnsýslustofnanir eru ýmsar stofnanir sem fara með eftirlitshlutverk, eins og t.d. Löggildingarstofa og stofnanir og ríkisfyrirtæki sem erfitt er að flokka með öðrum eins og Rafmagnsveitur ríkisins, alls 24 stofnanir og fyrirtæki. Í flokknum fjármálastofnanir eru bankar og sjóðir og aðrar stofnanir sem taldar voru að búi við svipað upplýsingaumhverfi.
Tafla 1. Hugbúnaðargerð ríkisstofnana árið 1996.
Fjöldi svara
|
Fjöldi starfsmanna
|
Fjöldi við hugb.gerð
|
Kostnaður eigin hugb.gerðar
|
|
Ráðuneyti |
18/26
|
797
|
10
|
20.700
|
Menntast. |
27/58
|
2.606
|
14
|
32.920
|
Heilbr.þjón. |
36/90
|
5.080
|
8
|
14.358
|
Ranns.st. |
13/20
|
742
|
11
|
31.652
|
Löggæsla |
28/46
|
767
|
1
|
750
|
Stjórnsýslust. |
20/24
|
1.321
|
3
|
8.105
|
Fjárm.st. |
15/28
|
520
|
7
|
12.982
|
SAMTALS: |
157/292
|
11.833
|
54
|
121.467 m.kr.
|
Í könnuninni eru ekki eftirfarandi stofnanir og fyrirtæki sem tengjast ríkinu: Skýrr hf. og Póstur og sími h.f., sem gerð voru að hlutafélagi í byrjun ársins; Reiknistofnun bankanna, sem er að hluta til í eigu annarra en ríkisbankanna; Raunvísindastofnun Háskóla Íslands, sem taldi sér ekki fært að svara þar sem hugbúnaðargerð hennar væri svo samofin annarri vísinda- og rannsóknastarfsemi og grunnskólarnir, sem hafa verið fluttir til sveitarfélaganna.
Í samtölum við stofnanir vegna útfyllingar spurningablaðsins kom í ljós að mjög vafðist fyrir mörgum þeirra að meta kostnaðarverð eigin hugbúnaðar svo og að meta hversu mikilli vinnu væri varið til þeirra hluta. Ljóst er að úr þessu þarf að bæta, gera kostnaðarbókhald gagnsærra og efla innra eftirlit með útgjaldaliðum.
Fjöldi starfsmanna þeirra 157 stofnana sem svöruðu voru alls 11.833. Þar af unnu 54 við hugbúnaðargerð (í sumum tilfellum hefur fjölda mannmánaða verið breytt í ársverk) sem er 4,6 ? þeirra.
Sennilega er kostnaður ríkisins við eigin hugbúnaðargerð nokkuð meiri en fram kemur í innsendum svörum og virtist tilhneiging til þess hjá viðmælendum að gera frekar lítið úr honum. Ætla má að, í a.m.k. sumum tilfellum, hafi kostnaðurinn verið metinn fyrst og fremst út frá beinum launakostnaði og lítið tillit verið tekið til annars kostnaðar. Þetta kemur þó ekki fram með beinum hætti í könnuninni, en byggir á takmarkaðri þekkingu þeirra nefndarmanna, sem úr svörunum unnu, á viðkomandi starfsemi. Jafnframt er rétt að benda á að markaðsverðmæti hugbúnaðarins kann að vera öllu hærra en framsett kostnaðarverð, ef það mat væri lagt á það. Þótt ekki sé unnt að álykta um arðsemi hugbúnaðargerðar ríkisins virðist nokkuð ljóst að hún byggir ekki á fullnægjandi kostnaðarforsendum né kostnaðareftirliti.
Aðkeyptur hugbúnaður og hugbúnaðarþjónusta.
Auk eigin hugbúnaðargerðar var einnig spurt um verðmæti aðkeypts hugbúnaðar og aðkeyptrar hugbúnaðarþjónustu. Niðurstöður þessa hluta könnunarinnar eru sýndar í töflu 2.
Tafla 2. Verðmæti aðkeypts hugbúnaðar og hugbúnaðarþjónustu árið 1996.
Verðmæti aðkeypts hugbúnaðar | Verðmæti aðk. hugbúnaðarþjónustu | |
Alls | ÍslenskurErlendurAllsÍslenskurErlendur | |
Ráðuneyti | 143.031 | 117.02626.00645.40634.8449.506 |
Menntast. | 39.784 | 17.49022.27345.65832.42212.906 |
Heilbr.þjón. | 23.537 | 18.4375.10043.37831.8529.952 |
Ranns.st. | 16.934 | 8.2117.4596.3503.7752.575 |
Löggæsla | 7.934 | 6.3161.59821.05716.3222.858 |
Stjórnsýslust. | 58.876 | 15.01114.26658.71333.26727.017 |
Fjárm.st. | 7.612 | 4.9192.69427.91322.7654.578 |
Samtals: | 297.708 | 187.41079.396248.475175.24769.392 |
Óskýrt |
30.9023.836
"Óskýrt " í töflunni vísar til þess að sumar stofnanir gátu ekki greint í sundur kostnað milli íslensks og erlends hugbúnaðar eða hugbúnaðarþjónustu.
|
Alls keyptu stofnanirnar 157 hugbúnað fyrir um 300 m.kr. Meginhluti þess er innlendur hugbúnaður, sennilega um 200 m.kr. en erlendur hugbúnaður kostaði um 100 m.kr.
Tafla 3. Skipting aðkeypts hugbúnaðar.
Aðkeyptur íslenskur hugbúnaður
|
Aðkeyptur erlendur hugbúnaður
|
187.410 þús.kr.
|
79.396 þús.kr.
|
Sérlausnir
|
FjöldaframleiddurSérlausnirFjöldaframleiddur
|
176.373 þús.kr.
|
11.037 þús.kr.15.258 þús.kr.64.138 þús.kr.
|
Athygli vekur hversu stór hluti íslenska hugbúnaðarins voru sérlausnir, eða um 94% hans. Erlendi hugbúnaðurinn er aftur á móti að mestu leyti fjöldaframleiddur, eða rúmlega 80 %.
Heildarverðmæti þess hugbúnaðar sem ríkisfyrirtækin öfluðu sér á árinu 1996 var tæplega 420 m.kr. Um helmingur hans var aðkeyptur íslenskur hugbúnaður, að verðmæti um 210 m.kr. (187,4 m.kr + hlutdeild í óskýrðum innkaupum, sbr. töflu 2). Næst kemur eigin hugbúnaðargerð ríkisins, að verðmæti 121,5 m.kr., sem er um 30% af heildarverðmætinu. Erlendur hugbúnaður var keyptur fyrir um 90 m.kr., sem á sama hátt er um 20%. Samtals er hlutur íslensks hugbúnaðar því um 80% af heildarverðmæti nýs hugbúnaðar þessara stofnana á árinu 1996.
Tafla 4. Skipting aðkeyptrar hugbúnaðarþjónustu.
Þjónusta vegna íslensks hugbúnaðar
|
Þjónusta vegna aðkeypts erlends hugbún.
|
175.247 þús.kr.
|
69.392 þús.kr.
|
Sérlausnir
|
FjöldaframleiddurSérlausnirFjöldaframleiddur
|
131.945 þús.kr.
|
43.302 þús.kr.12.328 þús.kr.57.064 þús.kr.
|
Tafla 4 sýnir hvernig aðkeypt hugbúnaðarþjónusta skiptist á milli þjónustu við innlendan og erlendan hugbúnað. Alls var aðkeypt þjónusta tæpl. 245 m.kr., rúmlega 70 % vegna íslensks hugbúnaðar en tæpl 30 % vegna erlends hugbúnaðar. Þetta er nánast í fullu samræmi við hlutfall íslensks (50/70) og erlends (20/70) aðkeypts hugbúnaðar, sbr. töflu 3. Aðrar tölur í þessari töflu hafa einnig eðlilegt samræmi við töflu 2.
Hlutfallsleg skipting hugbúnaðargerðar og aðkeypts hugbúnaðar og hugbúnaðarþjónustu eftir stofnunum.
Á eftirfarandi þrem myndum er hlutfallsleg skipting eigin hugbúnaðargerðar ríkisins, aðkeypts hugbúnaðar og aðkeyptrar hugbúnaðarþjónu milli stofnana hópanna sjö (sbr. töflu 1 og 2).
Eins og sést á mynd 1 eru tveir stærstu hópar stofnana í hugbúnaðargerð rannsóknarstofnanir og menntastofnanir, með saman rúmlega 50%. Það kemur ekki á óvart og er í samræmi við eðli starfsemi þeirra. Þriðji stærsti hugbúnaðarframleiðandinn eru ráðuneytin, en langstærstur í þeirra hópi er ríkisbókhaldið.
Mynd 1. Hlutfallsleg skipting hugbúnaðargerðar ríkisins.
Á mynd 2 er sýnt hvernig aðkeyptur hugbúnaður skiptist á milli hópanna. Langstærsti kaupandinn eru ráðuneytin með 47% aðkeypts hugbúnaðar.
Mynd 2. Hlutfallsleg skipting aðkeypts hugbúnaðar.
Á mynd 3 er sýnt hvernig aðkeypt hugbúnaðarþjónusta skiptist á milli hópanna. Þar eru stjórnsýslustofnanirnar stærstar með fjórðung þjónustukaupanna, en ráðuneytin og heilbrigðisþjónustan koma þar á eftir, báðir hóparnir með 18 %.
Mynd 3. Hlutfallsleg skipting aðkeyptrar hugbúnaðarþjónustu.
Ályktanir af framkomnum upplýsingum.
Þær tölulegu upplýsingar sem að framan hafa verið sýndar eru niðurstöður þeirra 157 svara sem bárust. Reynt var að fá svör frá sem flestum þeirra stofnana sem taldar voru með nokkra hugbúnaðargerð, en minna gengið eftir öðrum. Vegna þessa sýnir niðurstaða könnunarinnar stærra hlutfall af hugbúnaðargerð ríkisins en svarhlutfallið (54 %) bendir til.
Í þeim tilgangi að reyna að fá betri hugmynd um heildarumfang hugbúnaðargerðar ríkisins var hugbúnaðargerð þeirra 135 sem ekki svöruðu áætlað út frá svörum þeirra sem störfuðu á sama vettvangi og höfðu sambærileg umsvif.
Niðurstaða þess mats var að sennilega er hugbúnaðargerð þeirra ríkisstofnana sem ekki svöruðu mjög lítil. Líklegt þykir að ef svörun hefði verið 100 % hefði verðmæti hugbúnaðargerðar ríkisins aukist innan við 10 %. Munar þar mest (rúml. helming) um eina stofnun sem ekki gaf glöggt svar. Sé þetta rétt var heildarumfang hugbúnaðargerðar allra 292 stofnananna sem fengu spurningablaðið sent um eða rúmlega 130 m.kr. á árinu 1996. Þess niðurstöðu ber að meta út frá sömu fyrirvörum og áður voru settir við innsend svör.
Í langflestum tilfellum var hugbúnaðargerð stofnananna lítil. Aðeins átta stofnanir voru með hugbúnaðargerð að verðmæti yfir fimm m.kr. Tíu stofnanir voru með hugbúnaðargerð yfir þrem m.kr. og fimmtán stofnanir yfir tveim m.kr. Ekki er vitað hversu mörg verkefni hér er um að ræða. Sé einungis reynt að uppfylla þá skyldu að öll vörukaup og aðkeypta þjónustu yfir þrem m.kr. skuli bjóða út (sbr. reglugerð um innkaup ríkisins nr. 302/1996) sést að aukin útboð hafa áhrif á tiltölulega fáar stofnanir.
Mat á aðkeyptum hugbúnaði og hugbúnaðarþjónustu þeirra sem ekki svöruðu breytir fyrri niðurstöðu lítið. Um er að ræða mjög litlar upphæðir hjá mörgum stofnunum og virðist hugbúnaðarkaup allra ríkisfyrirtækjanna 292 geta verið um 310 ? 320 m.kr. og aðkeypt hugbúnaðarþjónusta um 260 ? 280 m.kr.
Það kom glögglega fram í samtölum við ríkisstofnanirnar, eins og var með eigin hugbúnaðargerð þeirra, að kostnaðarbókhald vegna kaupa á hugbúnaði og hugbúnaðarþjónustu var illa aðgreint í bókhaldi og ekki fært á þann hátt að auðvelt væri að svara framlögðum spurningum. Niðurstaða þeirra sem unnu úr könnuninni er að sennilega eru flestar tölur sem fram komu lágmarkstölur og raunkostnaður því talsvert hærri.
IV. Tillögur um framkvæmd útboða hugbúnaðargerðar fyrir ríkisstofnanir.
Um það leyti sem framangreindar niðurstöður könnunar á umfangi hugbúnaðargerðar ríkisins lágu fyrir var, á vegum forsætisráðuneytisins, sett á fót verkefnisstjórn um málefni upplýsingasamfélagsins, sem er ætlað að fylgja eftir framkvæmd á Framtíðarsýn ríkisstjórnar Íslands um upplýsingasamfélagið. Þar sem útboð hugbúnaðar fyrir ríkisstofnanir og ráðuneyti er hluti þeirrar stefnumótunar og fellur því undir verksvið verkefnastjórnarinnar hafa eftirfarandi tillögur verið unnar í samráði við hana.
Tillögurnar miða við að útboðsstefna við hugbúnaðarkaup verði hluti af upplýsingastefnu stofnananna og felld að daglegu rekstrakerfi þeirra. Þetta er gert í þeim tilgangi að undirstrika mikilvægi þess að ekki má líta á nýjungar í ríkisrekstrinum sem aðskilin átaksverkefni heldur sem hluta af stærri rökrænni heild.
Tillögur um framkvæmd:
1. Stefnumótun og árangursmarkmið.
a) Ráðuneyti og ríkisstofnanir móti stefnu í upplýsingamálum, sem byggi á virkri þátttöku yfirmanna og þeirra starfsmanna sem málið varðar. Þar verði m.a. tekið á þessum atriðum:
· Framtíðarfyrirkomulagi tölvu- og upplýsingamála.
· Uppbyggingu þekkingar á samningum og útboðsmálum.
· Framkvæmd útboða, eftirliti með samningum, samskiptum við seljendur, ráðgjafa o.fl.
b) Ráðuneyti veiti ríkisstofnunum aðhald m.a. með því að fella hugbúnaðar- og upplýsingamál inn í samninga þeirra við stofnanirnar um árangursstjórnun. Þar komi þetta m.a. skýrt fram:
· Að hugbúnaðargerð flytjist frá stofnunum á frjálsan markað og tímasetning þess.
· Hvort og hvernig að þróunarsamvinnu við hugbúnaðarfyritæki verði staðið.
· Að notast verði við fjöldaframleiddar lausnir eins og kostur er.
· Sett verði árangursmarkmið m.a. um aukin EDI-samskipti, eins og við á í hverju tilfelli.
· Hvernig að fræðslu og endurmenntun starfsmanna verði staðið.
2. Ríkisstofnanir verði upplýstir kaupendur.
a) Lokið verði við gerð innkaupahandbókar RUT-nefndar, hún kynnt og haldið við.
b) Á stærri stofnunum verði komið upp nauðsynlegri þekkingu til að ríkisstofnanir verði upplýstir kaupendur
c) Við ráðningu sérfræðinga sem koma að tölvumálum stofnana verði lögð áhersla á þekkingu og áhuga á sviðum sem tengjast skilgreiningu verkefna, gerð útboðslýsinga, framkvæmd útboða, samningagerð og eftirliti með framkvæmd samninga.
d) Boðið verði upp á námskeið er miði að því að ríkisstofnanir verði upplýstir kaupendur.
3. Stuðningur við stofnanir.
Ríkiskaup hafi á að skipa starfsmönnum með sérþekkingu á öllum þáttum hugbúnaðarútboða, þ.m.t. þekkingu á skilgreiningu verkefna. Ríkiskaup gegni lykilhlutverki við stuðning við ríkisfyrirtækin á öllum stigum útboðs á hugbúnaði, ekki hvað síst hin smærri.
4. Yfirsýn og eftirlit.
Óskað verði eftir því við Ríkisbókhald og Ríkisendurskoðun að komið verði á samræmdri tegundasundurliðun á öllum kaupum ríkisfyrirtækja á tölvubúnaði og tölvuþjónustu. Þetta er talið nauðsynlegt til þess að hægt verði að fylgjast með innkaupum á tölvubúnaði og tölvuþjónustu og fá til þess nothæfar upplýsingar úr bókhaldi ríkisstofnana.
5. Framkvæmd tillagnanna.
Lagt er til að framangreindar tillögur verði útfærðar frekar af verkefnisstjórn forsætisráðuneytisins um málefni upplýsingasamfélagsins. Mikilvægt er að hún eigi náið samráð og samvinnu við hagsmunasamtök hugbúnaðarfyrirtækja um þá útfærslu og framkvæmd. Auk þess verði verkefnastjórninni falið að kanna hvort ástæða sé til að breyta lögum eða reglugerðum til þess að bæta samkeppnisstöðu hugbúnaðarfyrirtækja gagnvart tölvudeildum ríkisfyrirtækja. Jafnframt að hún kynni tillögurnar fyrir öllum hlutaðeigandi.