Hoppa yfir valmynd
4. mars 1998 Matvælaráðuneytið

Álit nefndar í kjaradeilu sjóm. og útvegsm. - Frumv. um br. á l. um stjórn fiskveiða

Frumvarp til laga
um breyting á lögum nr. 38 15. maí 1990,
um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.


1. gr.
Tólfta gr. laganna orðast svo:
Heimilt er að færa aflamark milli skipa. Ráðherra getur með reglugerð bundið flutning aflamarks af einstökum tegundum því skilyrði að það skip, sem fært er til, hafi aflahlutdeild af þeirri tegund sem millifærð er.
Heimilt er að flytja aflamark milli skipa án undangenginna viðskipta á Kvótaþingi í eftirtöldum tilvikum:
1. Þegar aflamark er flutt milli skipa í eigu sama aðila, einstaklings eða lögaðila.
2. Þegar um er að ræða jöfn skipti miðað við meðaltalsviðskiptaverð viðkomandi tegunda á Kvótaþingi í síðastliðinni viku.
3. Þegar um er að ræða flutning aflamarks af tegund sem ráðherra hefur með reglugerð undanþegið viðskiptaskyldu á Kvótaþingi. Forsenda slíkrar undanþágu er að fyrir liggi tillaga stjórnar Kvótaþings, enda séu viðskipti með aflamark af viðkomandi tegund svo lítil að ekki séu að mati stjórnarinnar forsendur til myndunar markaðsverðs á tilboðsmarkaði.
Tilkynna skal Fiskistofu fyrir fram um flutning aflamarks skv. 2. mgr. og öðlast hann ekki gildi fyrr en stofan hefur staðfest flutninginn.
Allur flutningur aflamarks milli skipa, annar en um getur í 2. mgr., er óheimill nema að undangengnum viðskiptum á Kvótaþingi. Fer um hann samkvæmt lögum um Kvótaþing.
Veiði fiskiskip minna en 50% af samanlögðu aflamarki sínu í þorskígildum talið fellur veiðileyfi þess og aflahlutdeild niður við upphaf næsta fiskveiðiárs og skal aflahlutdeild annarra skipa í viðkomandi tegundum hækka sem því nemur. Skal við mat á þessu hlutfalli miðað við verðmæti einstakra tegunda í aflamarki skips samkvæmt ákvörðun ráðuneytis í upphafi fiskveiðiárs. Viðmiðunarhlutfall, sem ákveðið er í þessari málsgrein, lækkar þó um 5% fyrir hverja fulla 30 daga sem skipi er haldið til veiða utan fiskveiðilandhelgi Íslands á fiskveiðiárinu á þeim tegundum sem ekki hefur verið samið um veiðistjórn á. Falli veiðileyfi skips niður samkvæmt þessari málsgrein er óheimilt að veita því leyfi til veiða í atvinnuskyni næstu þrjú fiskveiðiár.
Tefjist skip frá veiðum í sex mánuði eða lengur innan fiskveiðiárs vegna tjóns eða meiri háttar bilana hefur afli þess fiskveiðiárs ekki áhrif til niðurfellingar aflahlutdeildar eða veiðileyfis samkvæmt þessari grein.
2. gr.
Lög þessi öðlast gildi 1. september 1998.



Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.
Með frumvarpi þessu er lagt til að gerðar verði breytingar á reglum 12. gr. fiskveiðistjórnunarlaga um framsal aflamarks til samræmis við tillögur í frumvarpi til laga um Kvótaþing.
Jafnframt er lagt til að veiðiskylda verði aukin þannig að skip þurfi að veiða 50% af samanlögðu aflamarki sínu á hverju fiskveiðiári en missi ella leyfi til veiða í atvinnuskyni og aflahlutdeild, en samkvæmt gildandi lögum þurfa skip að veiða 50% aflamarks annað hvert fiskveiðiár.
Tilgangur þessarar breytingar er að stuðla að því að aflahlutdeild verði eingöngu á skipum sem stunda reglubundnar fiskveiðar. Mun breytingin stuðla að því að aflahlutdeild verði færð til þeirra skipa sem veiðarnar stunda og því draga úr umfangi óeðlilegra aflamarksflutninga, en tengsl þeirra við fiskverð til uppgjörs á aflahlut sjómanna hafa verið í brennidepli í kjaradeilum sjómanna og útvegsmanna á undanförnum árum. Mikilvægt er að þessi aukna veiðiskylda dragi ekki úr sveigjanleika fiskveiðistjórnarkerfisins og möguleikum einstakra útgerða til hagræðingar.
Um 1. gr.
Samkvæmt gildandi lögum er almennt skilyrði fyrir flutningi aflamarks að það skip sem flutt er til hafi aflahlutdeild af þeirri tegund sem flutt er. Fiskistofa hefur heimild til að víkja frá þessu skilyrði og eru frávikin í reynd svo mörg að reglan er aðeins virk varðandi tiltölulega fáar tegundir, t.d. humar og innfjarðarrækju. Er lagt til að hið almenna skilyrði verði í ljósi þessarar framkvæmdar fellt niður en ráðherra þess í stað heimilt að ákveða með reglugerð að það gildi um tilteknar tegundir.
Lagt er til að meginreglan verði að viðskipti á Kvótaþingi séu forsenda flutnings aflamarks milli skipa. Efnisákvæði þar um eru í frumvarpi til laga um Kvótaþing. Í 2. mgr. er kveðið á um að flutningur aflamarks milli skipa í eigu sömu útgerðar, jöfn skipti á aflamarki og millifærsla af þeim tegundum sem mjög lítið er flutt af geti eftir sem áður farið fram utan Kvótaþings. Öðlast flutningur þessi ekki gildi fyrr en Fiskistofa hefur staðfest hann.
Þegar aflamark er flutt milli skipa í eigu sama aðila eiga sér ekki stað viðskipti og því er ekki ástæða til að láta þann flutning fara um Kvótaþing. Hugtakið "sami aðili" ber að skýra þröngt. Það tekur aðeins til sama einstaklings eða sömu lögpersónu. Móður- og dótturfyrirtæki teljast ekki sami aðili. Þá þurfa skip að vera í "eigu" sama aðila. Það táknar að hann verður að hafa beinan eignarrétt bæði að því skipi sem flutt er frá og því sem flutt er til og dugar ekki að hann hafi skip á leigu eða kaupleigu í þessu sambandi.
Ekki sýnist þörf á að skylda aðila til að láta jöfn skipti fara fram á Kvótaþingi til að ná því markmiði að rjúfa tengsl viðskipta með aflamark og viðskipta með afla að því tilskyldu að skiptin séu raunverulega á jafnverðmætum aflaheimildum. Er því kveðið á um að miða skuli verðmætahlutföll við meðaltalsviðskiptaverð í síðastliðinni viku. Hafi ekki átt sér stað viðskipti í þeirri viku yrði að líta til verðs í síðustu viku sem viðskipti áttu sér stað.
Loks sýnist ljóst að viðskipti með aflamark af ákveðnum tegundum eru svo lítil að óraunhæft virðist að gera viðskipti á Kvótaþingi að skyldu. Hér má fyrst og fremst nefna viðskipti með aflaheimildir af einstökum stofnum innfjarðarrækju. Er lagt til að ráðherra geti að fengnum tillögum stjórnar Kvótaþings með reglugerð undanþegið slíkar tegundir viðskiptaskyldu á Kvótaþingi.
Samkvæmt núgildandi lögum er gerður munur á flutningi aflamarks milli skipa sem gerð eru út frá sömu verstöð og öðrum flutningi og er krafist umsagnar sveitarstjórnar og sjómannafélags í viðkomandi verstöð í síðarnefnda tilvikinu. Á Kvótaþingi vita kaupendur og seljendur ekki hvor af örðum og því er ekki hægt að setja skilyrði fyrir flutningi aflamarks eftir því hver kaupandinn er. Því er lagt til að þetta ákvæði verði fellt niður. Það hefur í reynd haft lítil áhrif á viðskipti með aflamark.
Í 5. mgr. 2. gr. er lagt til að leyfi skips til veiða í atvinnuskyni og aflahlutdeild þess falli niður ef það veiðir ekki a.m.k. 50% af samanlögðu aflamarki sínu á hverju fiskveiðiári. Samkvæmt núgildandi ákvæði þarf að veiða a.m.k. 50% aflamarks annað hvert ár. Að öðru leyti eru skilyrði þessarar málsgreinar óbreytt frá gildandi lögum. Þó er lagt til að óheimilt verði að veita skipi sem ekki veiðir 50% af aflamarki sínu eitthvert fiskveiðiár veiðileyfi á næstu þremur fiskveiðiárum þótt skilyrðum sé að öðru leyti fullnægt, m.a. varðandi úreldingu í þess stað. Er þetta gert til að koma í veg fyrir að unnt sé að komast hjá ákvæðinu með því að flytja veiðileyfi af skipi í lok fiskveiðiárs og síðan til baka í upphafi þess næsta.

Um 2. gr.
Greinin þarfnast ekki skýringa.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta