Hoppa yfir valmynd
4. mars 1998 Matvælaráðuneytið

Álit nefndar í kjaradeilu sjóm. og útvegsm. - Frumvarp um Verðlagsstofu skiptaverðs

Frumvarp til laga
um Verðlagsstofu skiptaverðs
og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna.


I. KAFLI
Verðlagsstofa skiptaverðs.
1. gr.
Hlutverk Verðlagsstofu skiptaverðs er að fylgjast með fiskverði og uppgjöri á aflahlut sjómanna og stuðla að réttu og eðlilegu uppgjöri á aflahlut sjómanna eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum.
2. gr.
Sjávarútvegsráðherra skipar forstöðumann Verðlagsstofu skiptaverðs til fimm ára í senn. Forstöðumaður ræður annað starfsfólk. Sjávarútvegsráðherra getur samið við aðrar ríkisstofnanir um að annast rekstur skrifstofu Verðlagsstofu skiptaverðs eftir því sem hagkvæmt þykir.
3. gr.
Verðlagsstofa skiptaverðs skal afla ítarlegra gagna um fiskverð. Skal hún með skipulegum hætti vinna úr upplýsingunum sundurliðuð yfirlit um fiskverð miðað við einstök landsvæði, tiltekna viðskiptahætti og stærðar- og gæðaflokka. Stofan skal reglulega birta upplýsingar um fiskverð þannig að þær gagnist útvegsmönnum og sjómönnum sem best. Þá skal stofan afla gagna um afurðaverð og horfur um þróun þess.
4. gr.
Til að Verðlagsstofa geti sinnt hlutverki sínu skv. 3. gr. ber Fiskistofu og þeim aðilum sem fyrir hennar hönd safna og vinna úr upplýsingum að veita Verðlagsstofu skiptaverðs aðgang að öllum upplýsingum um ráðstöfun afla og fiskverð. Þá er útgerð skips skylt að senda Verðlagsstofu án tafar alla samninga um fiskverð sem gerðir eru milli útgerðar og áhafnar.
5. gr.
Við athugun einstakra mála getur Verðlagsstofa skiptaverðs krafið sjómenn, útgerðir, kaupendur afla, flutningsaðila, fiskmarkaði, umboðsmenn og aðra þá sem milligöngu hafa um sölu á afla um allar nauðsynlegar upplýsingar. Upplýsinga er hægt að krefjast munnlega eða skriflega og skulu þær gefnar innan hæfilegs frests sem Verðlagsstofa setur. Þá getur stofan krafið framangreinda aðila um að afhenda gögn til athugunar innan hæfilegs frests.
Verðlagsstofa skiptaverðs getur við athugun einstakra mála krafist upplýsinga frá öðrum stjórnvöldum, þar á meðal skattyfirvöldum og tollyfirvöldum, sem og bönkum og sparisjóðum óháð þagnarskyldu þeirra.
Verðlagsstofa skiptaverðs getur einnig lagt skyldur á þá aðila sem um ræðir í 1. mgr. að upplýsa stofuna reglulega um atriði er máli skipta við framkvæmd laga þessara.

6. gr.
Verðlagsstofa skiptaverðs skal m.a. með úrtakskönnun fylgjast með því að við uppgjör á aflahlut áhafnar sé lagt til grundvallar raunverulegt söluverðmæti afla með þeim hætti sem kveðið er á um í lögum og kjarasamningum á hverjum tíma. Telji Verðlagsstofa misræmi milli gagna um söluverðmæti afla og þess verðs sem uppgjör við áhöfn hefur miðast við og framkomnar skýringar ekki fullnægjandi skal hún tilkynna það álit útgerð og áhöfn viðkomandi skips. Skal álit Verðlagsstofu rökstutt og skulu því fylgja nauðsynleg gögn.
7. gr.
Víki fiskverð við uppgjör á aflahlut áhafnar í verulegum atriðum frá því sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla á viðkomandi landsvæði að teknu tilliti til stærðar og gæða skal Verðlagsstofa skiptaverðs taka málið til sérstakrar athugunar. Skal stofan afla allra gagna um ráðstöfun afla viðkomandi skips og verðlagningu hans, upplýsinga um samninga útgerðar og áhafnar skips um fiskverð, umsagna útgerðar og áhafnar um málið og annarra gagna er máli skipta.
Telji Verðlagsstofa ekki fram komnar fullnægjandi skýringar skal hún skjóta málinu til úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna skv. II. kafla laga þessara með kröfu um að úrskurðarnefnd ákveði fiskverð er nota skal við uppgjör á aflahlut áhafnar þess skips er í hlut á. Skulu fylgja kæru öll gögn sem aflað hefur verið um uppgjör á aflahlut áhafnar skips skv. 1. mgr. svo og nauðsynlegar upplýsingar um verðlagningu sambærilegs afla í hliðstæðum viðskiptum.
II. KAFLI
Úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna.
8. gr.
Úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna hefur það hlutverk að ákveða fiskverð sem nota skal við uppgjör á aflahlut áhafnar einstakra skipa svo sem nánar er kveðið á um í þessum kafla.
Í nefndinni eiga sæti sjö menn, einn tilnefndur af Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, einn af Sjómannasambandi Íslands, einn af Vélstjórafélagi Íslands, þrír af Landssambandi íslenskra útvegsmanna og formaður sem sjávarútvegsráðherra skipar að höfðu samráði við framangreind samtök sjómanna og útvegsmanna. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt og aðalmenn.
Verðlagsstofa skiptaverðs skal annast upplýsingaöflun og skrifstofuhald fyrir úrskurðarnefnd.

9. gr.
Verðlagsstofa skiptaverðs getur skotið málum til úrskurðarnefndar, sbr. 7. gr.
Takist ekki samningar milli útgerðar og áhafnar fiskiskips um fiskverð sem nota skal við uppgjör á aflahlut þegar afli skipsins er afhentur eða seldur aðila sem telst skyldur útgerðinni geta þau heildarsamtök sjómanna og útvegsmanna sem standa að tilnefningu úrskuðarnefndar skv. 8. gr. hver um sig skotið málinu til úrlausnar nefndarinnar, í samræmi við ákvæði kjarasamninga aðila þar að lútandi.
Á sama hátt geta heildarsamtök sjómanna skotið til nefndarinnar ákvörðun fiskverðs í viðskiptum útgerðar við aðila sem ekki telst skyldur útgerðinni ef samningar um slíkt verð hafa ekki tekist innan fimm daga frá því að áhöfn skips óskaði slíkra samninga.
Útgerð og viðskiptaaðili hennar teljast skyld í þessu sambandi ef þau eru í eigu eða rekstri sama aðila eða ef sami aðili á meiri hluta beggja fyrirtækjanna, svo sem meiri hluta stofnfjár eða hlutafjár eða fer með meiri hluta atkvæðisréttar í þeim báðum eða hefur með öðrum hætti raunveruleg yfirráð þeirra beggja. Sama á við ef annað fyrirtækið hefur raunveruleg yfirráð yfir hinu með eignaraðild, atkvæðisrétti eða með öðrum hætti.
10. gr.
Úrskurðarnefnd skal ákvarða fiskverð til uppgjörs á aflahlut sjómanna í þeim tilvikum sem til hennar er skotið skv. 9. gr. Gildir ákvörðunin eingöngu um fiskverð gagnvart áhöfn þess skips sem málskotið varðar en ekki gagnvart áhöfnum annarra skipa sömu útgerðar. Ákvörðun nefndarinnar um fiskverð í málum sem skotið er til hennar af Verðlagsstofu skiptaverðs gildir um verð í öllum viðskiptum á gildistíma ákvörðunar, sbr. þó 3. mgr. Ákvörðun nefndarinnar um fiskverð í viðskiptum milli óskyldra aðila, sbr. 3. mgr. 9. gr., gildir um verð í öllum slíkum viðskiptum á gildistíma ákvörðunar.
Ákvörðun nefndarinnar nær til verðs fyrir afla sem landað er eftir að málinu var skotið til hennar ef ákvörðun varðar viðskipti milli skyldra aðila, sbr. 2. mgr. 9.gr., en til verðs fyrir afla sem landað er eftir að ákvörðun nefndarinnar er tilkynnt aðilum ef hún varðar kæru frá Verðlagsstofu skiptaverðs, sbr. 1. mgr. 9. gr., eða viðskipti milli óskyldra aðila, sbr. 3. mgr. 9. gr. Nefndin ákveður sjálf hversu lengi ákvörðun hennar skuli gilda. Þó skal hún aldrei gilda lengur en í þrjá mánuði.
Ákvörðun nefndarinnar um fiskverð gildir ekki þegar afli er seldur á innlendum eða erlendum uppboðsmörkuðum.
11. gr.
Úrskurðarnefnd skal við ákvörðun sína taka mið af upplýsingum sem Verðlagsstofa fiskverðs hefur safnað.
Nefndin skal við ákvörðun sína taka mið af því fiskverði sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla. Skal í því sambandi tekið mið af verði í nærliggjandi byggðarlögum fyrir sambærilegan fisk að stærð og gæðum. Þá skal nefndin taka tillit til líklegrar þróunar afurðaverðs. Varði ákvörðun nefndarinnnar fiskverð í skiptum óskyldra aðila skal og taka tillit til heildarráðstöfunar á afla skips.
12. gr.
Úrskurðarnefnd skal fela Verðlagsstofu skiptaverðs að leita upplýsinga hjá útgerð og áhöfn og þeim aðilum er um ræðir í 4. og 5. gr. um öll þau atriði sem máli kunna að skipta varðandi úrlausn í tilteknu máli.
13. gr.
Þegar eftir að máli er skotið til úrskurðar skulu þeir nefndarmenn, sem tilnefndir eru af heildarsamtökum sjómanna og útvegsmanna, taka málið til umfjöllunar. Nái þeir ekki samkomulagi um ákvörðun fiskverðs innan 14 daga ef málið varðar fiskverð í viðskiptum skyldra aðila en innan sjö daga varði málið kæru Verðlagsstofu skiptaverðs eða viðskipti óskyldra skal málið tekið fyrir í fullskipaðri nefnd og skal hún kveða upp úrskurð innan sjö daga ef málið varðar fiskverð í viðskiptum skyldra en innan fjögurra daga varði málið kæru Verðlagsstofu skiptaverðs eða viðskipti óskyldra.
Samkomulagi nefndarinnar um fiskverð skulu fylgja forsendur þess en úrskurður fullskipaðrar nefnar skal vera rökstuddur.

14. gr.
Þegar úrskurður er kveðinn upp ræður afl atkvæða úrslitum í úrskurðarnefnd. Um hæfi nefndarmanna til meðferðar einstaks máls og málsmeðferð að öðru leyti fer samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, eftir því sem við getur átt.
15. gr.
Ákvörðun úrskurðarnefndar um fiskverð hvort sem hún byggist á samkomulagi eða úrskurði er bindandi gagnvart útgerð og allri áhöfn skips á gildistíma hennar og er óheimilt að semja um annað fiskverð við einstaklinga í áhöfn. Skal ákvörðun nefndarinnar lögð til grundvallar fyrir dómi, nema svo sé ástatt sem um er rætt í 2. mgr. 13. gr. laga nr. 53/1989, um samningsbundna gerðardóma. Hafi skip landað afla hjá aðila er telst skyldur útgerð eftir að máli var skotið til nefndarinnar en áður en úrskurður er upp kveðinn getur nefndin úrskurðað um aflahlut áhafnar vegna þess afla. Er sá úrskurður aðfararhæfur, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 53/1989.
16. gr.
Stöðvi útgerð rekstur skips eða breyti útgerðarháttum þess í verulegum atriðum á gildistíma úrskurðar skal það tilkynnt áhöfn skriflega með a.m.k. 10 daga fyrirvara. Er útgerð skylt að greiða áhöfn bætur fyrir skertan aflahlut fyrir þann tíma sem eftir lifir af gildistíma úrskurðar. Skulu þær nema áætluðum aflahlut einstakra skipverja miðað við óbreytta útgerðarhætti að frádregnum greiðslum sem í stað aflahlutar kunna að hafa komið.
Við áætlun aflahluta skv. 1. mgr. skal taka mið af fyrri veiðum skips og afla hliðstæðra skipa sem stunda sambærilegar veiðar á þeim tíma er bæturnar varða.
Ákvæði 1. mgr. eiga ekki við ef óviðráðanlegar ástæður valda því að útgerð stöðvar rekstur skips eða breytir útgerðarháttum þess.
III. KAFLI
Ýmis ákvæði.
17. gr.
Starfsmönnum Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefndarmönnum er óheimilt að skýra óviðkomandi aðilum frá því sem þeir komast að í störfum sínum.
18. gr.
Kostnaður af Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna greiðist úr ríkissjóði. Þó skulu heildarsamtök útvegsmanna og sjómanna hver um sig bera kostnað af þeim fulltrúum sem hlutaðeigandi samtök hafa tilnefnt til setu í úrskurðarnefndinni.
19. gr.
Lög þessi öðlast gildi 1. júní 1998. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 84 20. júní 1995, um úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna.
Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.
Í kjarasamningum sjómanna og útvegsmanna í júní 1995, er bundu enda á erfiðar kjaradeilur, var m.a. kveðið á um að útgerðarmaður og áhöfn skuli gera sín á milli samninga um fiskverð þegar útgerð selur afla til eigin vinnslu, þ.e. í viðskiptum skyldra aðila. Í samningunum eru jafnframt ákvæði um að sé afli seldur milli óskyldra aðila geti áhöfn krafist að gerður verði samningur um uppgjörsverð fyrir þann afla. Í kjarasamningunum eru loks ákvæði um að sett skuli á fót sérstök úrskurðarnefnd sem fjalla skuli um þau tilvik þegar ekki næst samkomulag um fiskverð milli áhafnar og útgerðar.
Að sameiginlegri beiðni samtaka sjómanna og útvegsmanna flutti sjávarútvegsráðherra frumvarp um úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna vorið 1995 og var það samþykkt með smávægilegum breytingum sem lög nr. 84 20. júní 1995. Samkvæmt þeim skal úrskurðarnefndin í ákvörðunum sínum taka mið af því fiskverði sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla miðað við verð í nærliggjandi byggðarlögum fyrir sambærilegan fisk að stærð og gæðum. Nefndinni var komið á fót þegar eftir að lögin öðluðust gildi og hefur hún starfað síðan. Allmörgum málum hefur verið skotið til nefndarinnar og hefur þeim ýmist lokið með samkomulagi fulltrúa hagsmunaaðila í nefndinni eða úrskurði fullskipaðrar nefndar en sjávarútvegsráðherra tilnefnir oddamann.
Nokkuð skiptar skoðanir eru um ágæti þessa fyrirkomulags og hvort úrskurðarnefndin hafi gegnt hlutverki sínu á fullnægjandi hátt. Telja sjómenn og samtök þeirra að ekki hafi tekist til sem skyldi með störf nefndarinnar og að tilraun síðustu kjarasamninga til að leysa fiskverðsákvarðanir með samningum áhafna einstakra skipa og útgerðar hafi mistekist. Af þessum sökum hafa tilraunir verið gerðar í yfirstandandi kjaradeilu til að leysa fiskverðsákvarðanir með almennari hætti. Ekki er talið fært að leiða í lög almenn ákvæði um opinbera ákvörðun fiskverðs. Athyglin hefur því beinst að því hvort treysta megi grundvöll áhafnabundinna fiskverðssamninga þannig að komist verði hjá því að sjómenn þurfi að þola óeðlileg frávik frá því fiskverði sem venjulegt er vegna þess að fiskvinnsla er í eigu sömu aðila og útgerð eða af öðrum ástæðum.
Óánægja með núverandi úrskurðarnefnd hefur ekki beinst að einstökum úrskurðum hennar þótt það leiði af eðli máls að þeir hljóti jafnan að vera umdeilanlegir. Óánægjan hefur fyrst og fremst beinst að því að fáum málum er skotið til nefndarinnar. Kenna forustumenn sjómanna því um að aðstaða áhafna sé oft örðug og návígið valdi því að skipverjar leggi ekki í að efna til ágreinings við útgerðina. Þá hefur verið á það bent að aðstaða áhafna til að afla upplýsinga um verð á fiski í hliðstæðum tilvikum sé örðug. Á þessu má ráða bót með tiltölulega einföldum hætti. Af öðrum sviðum eru fordæmi um að opinberum aðilum er falið að hafa yfirsýn yfir hvort fylgt sé almennt orðuðum leikreglum á viðkomandi sviði og eiga frumkvæði um að afla gagna og leita úrskurðar um réttmæti aðgerða ef út af er brugðið að mati eftirlitsaðilans. Dæmi um slík vinnubrögð eru ákvæði samkeppnislaga.
Með frumvarpi þessu er lagt til að lögfest verði ákvæði um Verðlagsstofu skiptaverðs og að ákvæðum núverandi laga um úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna verði breytt til samræmis við það. Er lagt til að sett verði á laggirnar ný stofnun, Verðlagsstofa skiptaverðs, er starfi í nánum tengslum við úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna. Hlutverk stofunnar verði að stuðla að réttu og eðlilegu uppgjöri á aflahlut sjómanna. Stofunni verði skipaður sérstakur forstöðumaður en honum falið að ráða aðra starfsmenn ef ráðherra ákveður ekki að semja við aðrar ríkisstofnanir um að annast skrifstofuhald fyrir Verðlagsstofu. Á þessu stigi er erfitt að segja til um umfang starfseminnar. Stofunni verði falið að afla ítarlegra gagna um fiskverð og vinna úr þeim upplýsingum. Slíkt hlutverk er nú í höndum úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna, sbr. 2. gr. laga nr. 84/1995, en nefndin hefur ekki haft bolmagn til að sinna því sem skyldi. Útvegsmönnum verði skylt að senda Verðlagsstofunni alla fiskverðssamninga milli áhafna og útvegsmanna og Fiskistofu verði skylt að láta stofunni í té allar nauðsynlegar upplýsingar. Sama á við um Fiskifélag Íslands og aðra aðila sem vinna í umboði Fiskistofu. Þá verði mjög víðtæk upplýsingaskylda gagnvart Verðlagsstofu vegna athugunar einstakra mála.
Nokkurrar tortryggni hefur gætt hjá forustumönnum samtaka sjómanna varðandi það hvort raunverulegt söluverð afla sé í öllum tilvikum lagt til grundvallar hlutaskiptum á þann hátt sem lög og kjarasamningar kveða á um. Verðlagsstofu verði falið að fylgjast með þessu, m.a. með úrtakskönnunum. Með því er unnt að slá á tortryggni án þess að fórna neinu varðandi leynd viðskiptaupplýsinga. Þagnarskyldu Verðlagsstofu er því einungis aflétt að upp komi misræmi og er henni þá gert að greina útgerð og áhöfn frá málavöxtum.
Kjarninn í störfum Verðlagsstofu skiptaverðs verður umfjöllun stofunnar um skiptaverð í einstökum tilvikum. Víki fiskverð við uppgjör á aflahlut sjómanna í verulegum atriðum frá því sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla á viðkomandi landsvæði, að teknu tilliti til stærðar og gæða, verður Verðlagsstofu rétt og skylt að skjóta málinu til úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna. Ekki er í lögum unnt að orða þessa viðmiðunarreglu um lágmarksverð nákvæmlega en auðvitað mun stofan vinna eftir föstum reglum í framkvæmd og þá m.a. byggja á tölfræðilegum frávikum frá meðalverðum.
Athugun stofunnar á tilteknu tilviki getur ýmist verið að frumkvæði hennar sjálfrar eftir athugun á opinberum verðupplýsingum og samningum eða samkvæmt ábendingum. Verðlagsstofa aflar allra opinberra gagna um fiskverð vikomandi skips og samninga útgerðar þess og áhafnar. Hún snýr sér síðan til útgerðar og krefst allra frekari upplýsinga sem hún metur nauðsynlegar og leitar umsagnar útgerðar og áhafnar um málið. Að þessu búnu tekur Verðlagsstofa ákvörðun um hvort máli verði skotið til úrskurðarnefndarinnar. Telji stofan ástæðu til málskots leggur hún málið fullbúið til ákvörðunar ásamt öllum upplýsingum fyrir úrskurðarnefndina. Telji Verðlagsstofa ekki ástæðu til málskots fær úrskurðarnefndin aldrei vitneskju um frumathugunina.
Málsmeðferð fyrir úrskurðarnefndina fylgir í meginatriðum ákvæðum núgildandi laga. Málið fer fyrst fyrir fulltrúa heildarsamtaka hagsmunaaðila sem hafa skamman tíma til lausnar á því en náist ekki samkomulag fer málið til fullskipaðrar nefndar. Úrskurðarnefndin mun eftir sem áður geta fjallað um mál sem heildarsamtök hagsmunaaðila skjóta til hennar vegna þess að ekki næst samkomulag um fiskverðssamning milli áhafnar og útgerðar. Í þeim tilvikum mun úrskurðarnefndin fela Verðlagsstofu gagnasöfnun. Er ekki lagt til að aðrar breytingar verði gerðar á meðferð þessara mála fyrir nefndinni.
Úrskurðir nefndarinnar verða aðeins framvirkir líkt og nú er (frá því að máli er skotið til nefndarinnar eða frá því að nefndin kemst að niðurstöðu). Komist nefndin að því að lágmarksverðsreglan hafi verið brotin kveður hún upp úrskurð um að um tiltekinn tíma, allt að þremur mánuðum, skuli fylgt verði sem algengast er í hliðstæðum viðskiptum að teknu tilliti til aðstæðna allra. Útgerð tekur með öðrum orðum þá áhættu að vera úrskurðuð til að fylgja því verði sem algengast er í hliðstæðum viðskiptum ef hún fer niður fyrir lágmarksverð í uppgjöri við áhöfn. Ekki er unnt að leggja þá skyldu á útgerðarmenn að stunda útgerð með óbreyttu sniði á gildistíma úrskurðar. Hins vegar er ljóst að útgerðir geta rýrt gildi úrskurðar með því að leggja skipi eða gjörbreyta um útgerðarhætti. Í þeim tilvikum er lagt til að gera útgerð skylt að greiða áhöfn bætur fyrir það sem eftir lifir af gildistíma úrskurðar ef stöðvun á rekstri skips eða breyting á útgerðarháttum er ekki til komin vegna óviðráðanlegra aðstæðna.



Athugasemdir við einstaka kafla og greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.
Um hlutverk Verðlagsstofu skiptaverðs vísast til almennra athugasemda með frumvarpinu. Stofunni er ætlað að stuðla að réttu og eðlilegu uppgjöri á aflahlut sjómanna. Þetta á hún að gera með því að fylgjast með fiskverði við uppgjör á aflahlut sjómanna. Mun stofan eiga frumkvæði að því að skjóta málum til úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna ef fiskverð við uppgjör á aflahlut víkur í verulegum atriðum frá því sem algengast er í hliðstæðum viðskiptum. Jafnframt er stofunni ætlað að fylgjast með því að við uppgjör á aflahlut áhafnar sé lagt til grundvallar raunverulegt söluverðmæti afla með þeim hætti sem kveðið er á um í lögum og kjarasamningum á hverjum tíma. Með þessu er ætlunin að styrkja grundvöll áhafnabundinna fiskverðssamninga. Með því að veita hlutlausum aðila málskotsrétt til úrskurðarnefndar er dregið úr því návígi milli áhafnar og útgerðar sem samtök sjómanna hafa talið valda því að sjómenn hafi ekki til þessa nýtt að fullu samningsbundinn rétt sinn. Þá ætti eftirlit óháðs aðila með því að raunverulegt söluverðmæti sé lagt til grundvallar uppgjöri á aflahlut að uppræta þá tortryggni sem gætt hefur af hálfu samtaka sjómanna varðandi þetta atriði.
Um 2. gr.
Hér er lagt til að forstöðumaður Verðlagsstofu verði skipaður með sama hætti og aðrir forstöðumenn ríkisstofnana, sbr. lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Sjávarútvegsráðherra er veitt heimild til þess að semja við aðrar ríkisstofnanir um að annast rekstur skrifstofu Verðlagsstofu ef það þykir hagkvæmt. Nýting þessarar heimildar hefur að sjálfsögðu engin áhrif á heimildir stofunnar til að krefjast upplýsinga, sbr. 4. og 5. gr. Erfitt er að sjá fyrir hversu umfangsmikil starfsemi Verðlagsstofu verður í upphafi.
Um 3. gr.
Þessi grein er efnislega að mestu samhljóða 2. gr. laga nr. 84/1995, um úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna. Á grundvelli þeirrar greinar hefur úrskurðarnefndin gert samning við Fiskifélag Íslands um útgáfu mánaðarlegs rits um verð einstakra tegunda sjávarafla. Að öðru leyti hefur úrskurðarnefndin ekki haft bolmagn til að sinna þessu hlutverki. Með stofnun Verðlagsstofu skiptaverðs ætti að geta orðið veruleg breyting hér á. Ætti stofan í samvinnu við Fiskifélagið, sbr. 4. gr., að geta byggt upp ítarlegan gagnagrunn um fiskverð eftir tegundum, viðskiptaháttum, landsvæðum, stærð og gæðum. Gögn um afurðaverð og þróun þess mun stofan væntanlega fyrst og fremst sækja til Þjóðhagsstofnunar en á hennar vegum fer nú þegar fram söfnun og úrvinnsla slíkra gagna.
Um 4. gr.
Í þessari grein er kveðið á um þær upplýsingar sem reglulega skulu berast Verðlagsstofu, sbr. einnig 3. mgr. 5. gr. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 36/1992 annast Fiskistofa m.a. söfnun, úrvinnslu og útgáfu upplýsinga á sviði sjávarútvegsmála. Skv. 4. gr. sömu laga getur Fiskistofa með heimild ráðherra og að höfðu samráði við Hagstofu Íslands falið öðrum tiltekna þætti við söfnun, úrvinnslu og útgáfu þessara upplýsinga. Þessi heimild hefur verið nýtt og hefur Fiskistofa samið við Fiskifélag Íslands um söfnun og úrvinnslu svonefndra ráðstöfunarskýrslna, en það eru skýrslur fiskkaupenda m.a. um verð og magn keypts afla. Er þetta langvíðtækasti grunnur tölulegra upplýsinga um fiskverð sem safnað er hér á landi. Þessar upplýsingar hljóta að verða uppistaðan í gagnasafni Verðlagsstofu um fiskverð. Er ljóst að Verðlagsstofa þarf að semja við Fiskifélagið um það í hvaða formi þessar upplýsingar verði afhentar og einnig hlýtur að koma til greina að semja við Fiskifélagið um að það taki að sér tiltekna úrvinnslu og greiningu á talnaefninu.
Samkvæmt síðastgildandi kjarasamningum sjómanna og útvegsmanna skulu útgerðarmaður og áhöfn gera sín á milli samning um fiskverð þegar útgerð selur afla til eigin vinnslu og áhöfn getur kallað eftir slíkum samningi ef afli er seldur óskyldum aðila. Í greininni er kveðið á um að útgerð skips sé skylt að senda Verðlagsstofu án tafar alla slíka samninga.
Um 5. gr.
Í þessari grein er kveðið á um víðtæka upplýsingaskyldu aðila er tengjast veiðum, flutningum, kaupum eða sölu á afla gagnvart Verðlagsstofu sem og upplýsingaskyldu stjórnvalda og lánastofnana. Hliðstæð ákvæði eru víða í lögum varðandi heimildir stofnana sem falið er eftirlit með tilteknum málaflokkum. Sem dæmi um hliðstætt ákvæði má nefna 39. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993, varðandi upplýsingaskyldu til samkeppnisstofnunar.
Fyrsta og 2. mgr. greinarinnar fjalla um heimildir Verðlagsstofu til að krefjast upplýsinga í tilefni af rannsóknum einstakra mála. Á grundvelli þessara málsgreina getur stofan ekki krafið þá aðila er hér um ræðir um almenna upplýsingagjöf sem ekki tengist könnun einstakra mála, sbr. á hinn bóginn ákvæði 3. mgr.
Skv. 3. mgr. getur Verðlagsstofa lagt skyldur á þá aðila sem um ræðir í 1. mgr. að upplýsa reglulega um atriði er máli skipta um framkvæmd laga þessara. Ætla verður að þessari heimild muni beitt í hófi og þá fyrst og fremst til að fá fyllri gögn um fiskverð skv. 3.gr., en unnt er að fá á grundvelli þeirra upplýsinga sem um er rætt í 4. gr. Þannig mætti t.d. hugsa sér að Verðlagsstofa legði þá skyldu á fiskmarkaði að senda reglulega upplýsingar um verð einstakra tegunda eftir stærðarflokkum.
Um 6. gr.
Í lögum um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, nr. 24/1986, með síðari breytingum, og í kjarasamningum sjómanna og útvegsmanna er kveðið á um skiptaverðmæti aflans til hlutaskipta. Er það jafnan reiknað með einum eða öðrum hætti af því heildarverðmæti sem útgerð fær fyrir aflann. Í kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna hefur komið í ljós að nokkurrar tortryggni gætir af hálfu samtaka sjómanna um að við uppgjör á aflahlut sé í öllum tilvikum miðað við raunverulegt söluverðmæti útgerðar svo sem lög og kjarasamningar kveða á um. Hefur uppgjör á aflahlut áhafna vinnsluskipa verið nefnt í þessu sambandi. Þessu hafa útvegsmenn eindregið mótmælt. Benda þeir réttilega á að upplýsingar um söluverð afla séu viðskiptaupplýsingar sem leynt þurfi að fara og því sé ekki eðlilegt að veita almennan aðgang að þeim. Hér er lagt til að Verðlagsstofu skiptaverðs sé falið að kanna, m.a. með úrtakskönnun, að rétt verðmæti afla sé lagt til grundvallar við uppgjör á aflahlut sjómanna. Starfsmenn Verðlagsstofu eru bundnir þagnarskyldu skv. 17. gr. þannig að engin hætta er á að þetta eftirlit leiði til að trúnaðarupplýsingar berist til óviðkomandi aðila. Með þessu eftirliti ætti að vera tryggð sú vissa áhafna að uppgjör byggist jafnan á réttum forsendum og tortryggni því eytt. Telji Verðlagsstofa að misræmi sé milli gagna um söluverðmæti afla og þess verðs sem lagt er til grundvallar hlutaskipta og að ekki séu fram komnar fullnægjandi skýringar, tilkynnir hún útgerð og áhöfn þá niðurstöðu sína. Skal álitið rökstutt og því skulu fylgja nauðsynleg gögn. Þar með er hlutverki Verðlagsstofu lokið. Er það lagt í hendur útgerðar og áhafnar að ljúka málinu, en staða áhafnar til að sækja rétt sinn hlýtur að teljast sterk með álit Verðlagsstofu stutt nauðsynlegum gögnum í höndum.
Um 7. gr.
Samkvæmt síðastgildandi kjarasamningum útgerðarmanna og sjómanna skulu gerðir samningar um fiskverð milli útgerðar og áhafnar hvers skips ef afli er seldur aðila skyldum útgerðinni. Þá getur áhöfn kallað eftir slíkum samningi ef afli er seldur óskyldum aðila. Ef þessir samningar takast ekki má skjóta málinu til úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna sem úrskurðar þá um fiskverð. Að beiðni samningsaðila voru leidd í lög ákvæði um úrskurðarnefndina vorið 1995. Eins og rakið er í almennum athugasemdum telja samtök sjómanna að úrskurðarnefndin hafi ekki verið eins virk og skyldi. Kenna sjómenn þetta því að áhafnir séu oft í erfiðri stöðu gagnvart útgerð og eigi erfitt um vik með að beita sér ef í odda skerst. Láti áhafnir því oft yfir sig ganga hluti sem ekki séu eðlilegir og sætti sig við fiskverð í tilvikum sem eðlilegt hefði verið að vísa til úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna. Þetta nefna þeir návígisvandann.
Tilgangur þessarar greinar er að taka á þessu með því að heimila óháðum aðila, Verðlagsstofu skiptaverðs, að skjóta málum að eigin frumkvæði til úrskurðarnefndar ef hún telur fiskverð við uppgjör á aflahlut víkja í verulegum atriðum frá því sem algengast er í sambærilegum tilvikum. Aðdragandi að könnun Verðlagsstofu á einstöku máli getur hvort sem er verið ábending utan frá eða vísbendingar um óeðlileg frávik í fiskverði úr gögnum sem safnað er skv. 3. gr. Aðalatriðið er það að áhöfn eða einstakir skipverjar þurfa á engan hátt að vera bendlaðir við málið. Verðlagsstofa skal skv. 1. mgr. taka mál til sérstakrar athugunar ef fiskverð við uppgjör á aflahlut áhafnar víkur í verulegum atriðum frá því sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla á viðkomandi landsvæði að teknu tilliti til stærðar og gæða. Hér er sett fram almenn viðmiðunarregla um lágmarksfiskverð við uppgjör á aflahlut sjómanna. Það leiðir af eðli máls að ekki er unnt að orða slíka reglu nákvæmlega í lagatexta. Þetta er viðmiðunarregla sem verður að mótast nánar í framkvæmd en að sjálfsögðu mundi Verðlagsstofa vinna eftir föstum reglum og byggja m.a. á tölfræðilegum frávikum frá meðalverðum. Telji Verðlagsstofa að lokinni könnun ekki fram komnar fullnægjandi skýringar skal hún skjóta málinu til úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna og gera kröfu um að nefndin ákveði fiskverð er nota skal við uppgjör á aflahlut áhafnar hlutaðeigandi skips. Er í greininni kveðið á um gögn er fylgja skuli málskoti til úrskurðarnefndarinnar. Samkvæmt 11. gr. skal úrskurðarnefndin jafnt í þessum málum sem öðrum taka við ákvörðun sína mið af því fiskverði sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla. Skal hún í því sambandi taka mið af verði í nærliggjandi byggðarlögum fyrir sambærilegan fisk að stærð og gæðum. Þetta felur í sér að ef Verðlagsstofa skýtur máli til úrskurðarnefndar vegna þess að hún telur fiskverð hafa farið niður fyrir lágmarksviðmiðun skal úrskurðarnefnd í úrskurði sínum miða við verð sem algengast er í hliðstæðum viðskiptum.
Um II. kafla
Ákvæði II. kafla eru nær samhljóða núgildandi ákvæðum laga nr. 84/1995, um úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, ef frá eru skilin atriði er leiða af ákvæðum I. kafla um Verðlagsstofu skiptaverðs og ákvæði 16. gr. um bótaskyldu útgerðar gagnvart áhöfn ef rekstur skips er stöðvaður eða honum breytt í verulegum atriðum á gildistíma úrskurðar.
Um 8. gr.
Grein þessi er efnislega samhljóða 1. gr. laga 84/1995. Í 3. mgr. er þó kveðið á um að Verðlagsstofa skiptaverðs afli upplýsinga fyrir úrskurðarnefnd og annist skrifstofuhald fyrir nefndina.
Um 9. gr.
Í 1. mgr. er ítrekað að Verðlagsstofa skiptaverðs geti skotið málum til úrskurðarnefndar, sbr. 7. gr.
2.–4. mgr. eru samhljóða 3. gr. laga nr. 84/1995.
Um 10. gr.
Grein þessi svarar til 4. gr. laga nr. 84/1995.

Gildissvið úrskurða nefndarinnar varðandi mál er Verðlagsstofa skiptaverðs skýtur til hennar nær til fiskverðs í öllum viðskiptum á gildistíma ákvörðunar öðrum en viðskiptum á opinberum uppboðsmörkuðum. Ákvörðun úrskurðarnefndar í málum sem Verðlagsstofa hefur skotið til nefndarinnar gildir um verð fyrir afla sem landað er eftir að ákvörðun nefndarinnar er tilkynnt aðilum. Er það sama reglan og gildir um úrskurði varðandi viðskipti milli óskyldra aðila.
Um 11. gr.
Grein þessi er samhljóða 5. gr. laga nr. 84/1995. Um úrskurði varðandi mál sem Verðlagsstofa skiptaverðs á frumkvæði að vísast til athugasemda við 7. gr.
Um 12. gr.
Grein þessi er hliðstæð 6. gr. laga nr. 84/1995. Eðlilegt þykir að úrskurðarnefnd feli Verðlagsstofu að afla nauðsynlegra upplýsinga.
Um 13. gr.
Greinin er samhljóða 7. gr. laga nr. 84/1995 að öðru leyti en því að lagt er til að sömu málsmeðferðarreglur gildi um mál sem skotið er til nefndarinnar af Verðlagsstofu skiptaverðs og gilda um fiskverð í viðskiptum óskyldra.
Um 14. gr.
Grein þessi er samhljóða 9. gr. laga nr. 84/1995.
Um 15. gr.
Grein þessi er samhljóða 8. gr. laga nr. 84/1995.
Um 16. gr.
Grein þessi er nýmæli. Á það hefur verið bent að lítið hald sé fyrir áhöfn í ákvörðun úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna um fiskverð þar sem útgerð geti ákveðið að leggja skipi eða breyta um útgerðarhætti ef hún er ósátt við niðurstöðu nefndarinnar. Telja forustumenn sjómanna sig geta bent á dæmi þess. Það hlýtur að vera háð ákvörðun útgerðar hvort skipi sé haldið til veiða eða hvers konar veiði er stunduð. Er því ófært að skylda útgerð til að halda óbreyttum útgerðarháttum á gildistíma úrskurðar. Engu að síður sýnast full rök til þess að tryggja virkni úrskurðar fyrir áhöfn. Í því sambandi ber sérstaklega að líta til þess að gildistími úrskurða er skammur, að hámarki er hann þrír mánuðir og að meðaltali mun skemmri og að tekið er tillit til aðstæðna, svo sem vertíðarloka, við ákvarðanir úrskurðarnefndar. Þykir því ekki varhugavert að kveða á um bótaskyldu útgerðar ef útgerð skips er stöðvuð eða útgerðarháttum þess breytt í verulegum atriðum á gildistíma úrskurðar enda valdi því ekki óviðráðanlegar ástæður (vis major). Auk þess að kveða á um bótaskyldu útgerðar gefur greinin leiðbeiningar við ákvörðun bótafjárhæðar. Skulu bæturnar miðaðar við áætlaðan aflahlut skipverja miðað við óbreytta útgerðarhætti fyrir þann tíma sem eftir lifði af gildistíma úrskurðar þegar rekstur var stöðvaður eða útgerðarháttum breytt. Oft hlýtur að vera erfiðleikum bundið að áætla aflaverðmæti skips og þar með grundvöll aflahlutar skipverja á þessu tímabili. Eru í 2. mgr. settar fram viðmiðunarreglur í þeim efnum. Samkvæmt 1. mgr. i.f. ber að draga frá bótum greiðslur sem í stað aflahlutar hafa komið. Er hér átt við hvers konar launagreiðslur eða ígildi þeirra frá útgerð skips til skipverja er varða viðkomandi tímabil.
Um 17. gr.
Hér er kveðið á um þagnarskyldu starfsmanna Verðlagsstofu og úrskurðarnefndar. Hliðstætt ákvæði er í 10. gr. laga nr. 84/1995.
Um 18. gr.
Lagt er til að ríkissjóður beri kostnað af rekstri Verðlagsstofu skiptaverðs. Ákvæði varðandi kostnað við úrskurðarnefnd eru samhljóða 11. gr. laga nr. 84/1995.
Um 19. gr.
Greinin þarfnast ekki skýringa.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta