Álit nefndar í kjaradeilu sjóm. og útvegsm. - Þjst. - Kvótaviðskipti
Þjóðhagsstofnun
4. mars 1998
Kvótaviðskipti
Flutningur á aflamarki
Flutningi á aflamarki er skipt í fjóra flokka samkvæmt skráningaraðferð Fiskistofu. Flokkarnir eru: A (flutningur aflamarks milli skipa í eigu sama aðila), B (flutningur aflamarks milli skipa sem gerð eru út frá sömu verstöð. C (aflaskipti milli skipa sem ekki eru gerð út frá sömu verstöð, en um jöfn skipti að ræða að mati Fiskistofu) D (flutningur aflamarks milli skipa sem ekki eru gerð út frá sömu verstöð).
Ef horft er á alla flokkana (A,B,C,D) þá er í sumum tilvikum sömu tonnin flutt á milli skipa oftar en einu sinni innan ársins og í hvert sinn sem flutt er milli skipa hækka tölurnar. Þannig segja tölurnar ekki alltaf til um fjárhagsleg viðskipti milli útgerða. Útgerðarmenn flytja oftast bæði aflamark og aflahlutdeild sína þegar þeir kaupa nýtt skip í stað eldra og er slíkur aflamarksflutningur inn í flokki A. Einnig reyna útgerðir að nýta geymslurétt sinn í ákveðnum tegundum og er kvóti sem færist vegna þessa færður til baka á nýju kvótaári. Einhverjar kvótamiðlanir færa allt það aflamark sem þeir hafa til sölu á ákveðið skip og síðan við sölu er aflamarkið svo flutt af skipinu yfir á skip kaupendanna. Einnig segja menn að tengsl milli fyrirtækja séu oft þannig að þeir flytji aflamark á milli fyrirtækja til hagræðingar innan ársins. Sveigjanleiki kerfisins er sem sé mikill og útgerðarmenn virðast nýta sér þann sveigjanleika vel. Síldina má nefna sem dæmi en þar var úthlutað 100 þúsund lestum árið 1996/97 en samtals voru fluttar 89 þúsund tonn það árið eða næstum allt aflamarkið.
Form kvótaviðskipa
Talið er að það séu aðallega ferns konar viðskipti með aflamark sem kunni að hafa áhrif á skiptakjör sjómanna. Í fyrsta lagi að fyrirtæki sem stunda fiskvinnslu og hafa jafnframt yfir aflaheimildum að ráða, framselji aflamark til kvótalítilla skipa gegn löndun á aflanum og telja sjómenn að í sumum tilfellum sé andvirði aflaheimildanna dregið frá andvirði aflans áður en til skipta kemur. Hér er um svonefnda leiguliða að ræða. Í öðru lagi hafa verið nefnd til sögunnar tonn á móti tonni viðskipti, en þá er um það að ræða að fiskvinnslufyrirtæki eða fyrirtæki tengd fiskmörkuðum semja við útgerðir um að framselja tiltekið aflamark til skipa í þeirra eigu með því skilyrði að skip útgerðarfyrirtækisins landi helmingi meira aflamagni til fiskvinnslunnar á verði undir markaðsverði sem nemur verðmæti aflaheimildanna. Í þriðja lagi eru sjómenn látnir leggja í sjóð sem er svo notaður til að taka þátt í kaupum útgerðarfyrirtækja á aflamarki og í fjórða lagi er andvirði keyptra aflaheimilda dregið frá aflaverðmæti áður en til skipta kemur.
Umfang kvótaviðskipt
Á myndi 1, sést flutningur aflamarks fiskveiðiárið 1996/97 í þorskígildum. Myndin sýnir samtals flutning milli skipa sem ekki eru í eigu sama aðila (B og D). Með því að sleppa (A) flutning milli skipa í eigu sama aðila og (C) aflaskipti milli skipa sem ekki eru gerð út frá sömu verstöð, en skipti á jafngildum heimildum að ræða, hreinsast að mestu út sá flutningur þar sem engin greiðsla kemur fyrir. Geymsluréttur útgerðar yfir kvótaár er þó enn fyrir hendi og sést það á flutningnum síðustu viku fiskveiðiársins sem er oft mun miklu meiri en flutningur í öðrum vikum fiskveiðiársins.
Mynd 1
Flutningur í hverri viku var frá um 1400 þorskígildum upp í tæplega 13 þúsund þorskígildi í enda fiskveiðiársins. Meðaltal fluttra þorskígilda í viku hverri var rúmlega 3 þúsund tonn eða um 168 þúsund þorskígildi á fiskveiðiárinu. Þar af voru 1126 tonn af þorski færð í viku hverri að meðaltali. Af kvótabundnum tegundum var einhver flutningur á flestum tegundum í hverri viku nema í langlúru, hörpudiski, innfjarðarrækju, humri, síld og loðnu. Flutningur í langlúru, humri, innfjarðarrækju, síld og loðnu var ekki nema á milli 100500 tonn á árinu á meðan flutningur í þorski var 59 þúsund tonn, úthafsrækju 31 þúsund tonn, ýsu og ufsa í kringum 20 þúsund tonn, karfa 15 þúsund tonn og öðrum botnfisktegundum í kringum 5 þúsund tonn. Á mynd 2 má sjá flutning á aflamarki eftir fisktegundum sem hlutfall af heildaraflamarki og í töflu 1 í meðfylgjandi töfluhluta má sjá hvenær flutningur á einstaka fisktegundum fór fram.
Mynd 2
Á mynd 3, má sjá að í hverri millifærslubeiðni sem kom til Fiskistofu fiskveiðiárið 1996/97 voru 268 þorskígildistonn, en að meðaltali í kringum 21 þorkígildistonn. Í millifærslubeiðnum vegna þorsks voru að jafnaði um 22 tonn, ýsu 16 tonn, ufsa 25 tonn, karfa 26 tonn og grálúðu 24 tonn. Millifærslubeiðnir vegna úthafsrækju og hörpudisk voru að jafnaði stærstar, 68 tonn í úthafsrækju og 58 tonn í hörpudiski. Færslubeiðnir vegna annarra tegunda innihéldu talsvert minna magn. Í töflu 3 í meðfylgjandi töfluhluta má sjá fjölda tonna í hverri færslubeiðni eftir fisktegundum.
Mynd 3
Samkvæmt töflu 2 í meðfylgjandi töfluhluta má sjá að fjöldi beiðna á fiskveiðiárinu var 7890, þar af 2713 fyrir þorsk, 1215 fyrir ýsu, 778 fyrir ufsa og 571 fyrir karfa. Fjöldi beiðna fyrir aðrar tegundir voru færri, fyrir utan grálúðu sem nær 838 skiptum. Þetta þýðir að í hverri viku komu fram um 150 beiðnir um flutning sem þýða um 30 beiðnir á hverjum virkum degi.
Flutningur á aflamarki, eftir kjördæmum, fiskveiðiárið 1996/97
Samkvæmt mynd 4, þá voru aðilar á Suðurlandi, Reykjanesi, Vesturlandi og Austurlandi að kaupa til sín meiri kvóta en þeir seldu, á meðan aðilar á Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra voru að selja frá sér meiri kvóta en þeir keyptu. Í Reykjavík var álíka mikið keypt og selt. Á Reykjanesi voru t.d. keypt rúmlega 12 þúsund tonnum meira af þorski en þeir seldu, á meðan á Norðurlandi voru seld rúmlega 10 þúsund tonn af þorski umfram kaup. Á meðan Reykjanes seldi um 2500 tonn af úthafsrækju keypti Austurland rúmlega 1100 tonn af úthafsrækju. Í töflu 4 í meðfylgjandi töfluhluta má sjá hvernig flutningur á milli kjördæma í einstaka fisktegundum fór fram á fiskveiðiárinu. Tafla 5 inniheldur lýsingu á flutningi aflamarks í þorskígildum og í þorski milli skipa, eftir kjördæmum fiskveiðiárið 1996/97, og sýnir flutning frá einu kjördæmi til allra hinna kjördæmanna annarsvegar, og flutning til eins kjördæmis frá öllum hinum kjördæmunum hinsvegar.
Mynd 4