Internetkönnun í febrúar 1998
Könnun á aðgengi og áhuga landsmanna á tölvum og Interneti
- febrúar 1998 -
Inngangur
Í október 1996 birti ríkisstjórn Íslands stefnu sína í málefnum upplýsingasamfélagsins og er nú unnið að framkvæmd þeirrar stefnu. Ríkisstjórnin skipaði m.a. verkefnisstjórn 5 ráðuneyta, sem forsætisráðuneytið leiðir, til að fylgja eftir áherslum sínum á þessu sviði.
Til þess að hægt sé að fylgjast með þróun upplýsingsamfélagsins og bregðast við í samræmi við hana þarf að afla tölulegra upplýsinga með reglubundnum hætti. Því ákváðu verkefnisstjórnin og RUT-nefnd, sem er ráðgjafanefnd um upplýsinga- og tölvumál og starfar á vegum fjármálaráðuneytis, að semja við Gallup um gerð slíkrar könnunar. Niðurstöður könnunarinnar eru athyglisverðar og er ástæða til að koma þeim á framfæri. Sérstaklega má benda á þann mun, sem fram kemur eftir búsetu, fjölskyldutekjum og kyni, þegar skoðuð er tölvueign og notkun Internetsins.
Samantekt
Í stuttu máli eru niðurstöður könnunarinnar þær að tölva er á rúmlega 60% heimila í landinu. Tæpur helmingur landsmanna hefur aðgang að Internetinu, á heimili, í vinnu eða í skóla. Um 28% Íslendinga nota Internetið reglulega eða meira en 1 klst. á viku að jafnaði. Karlmenn nota netið að meðaltali í 4,1 klst á viku á meðan meðalnotkun kvenna er einungis 1,2 klst á viku. Notkun fer minnkandi með auknum aldri en hún fer vaxandi með auknum tekjum. Höfuðborgarbúar nota netið að meðaltali mun meira heldur en fólk af landsbyggðinni.
Könnun
Í febrúar s.l. framkvæmdi Gallup könnun á aðgengi landsmanna að tölvum og Internetinu. Hringt var í 1200 manns alls staðar á landinu á aldrinum 16-75 ára. Alls svöruðu 841 aðili könnuninni og var svarhlutfall 72,6 %. Könnunin fór fram dagana 5.-12. febrúar.
Niðurstöður
A. Niðurstöður þessarar könnunar sýna að tölvueign landsmanna er mikil en tölva er á rúmlega 60% heimila í landinu. Tölvueign er mjög mismunandi eftir aldurs- og tekjuhópum eins og sést í töflu 1 hér að neðan og er jafnframt mikill munur á tölvueign eftir búsetu. Meirihluti þeirra tölva sem eru á heimilum landsmanna eru með mótaldi eða um 56%.
Tafla 1: Er tölva á heimili / greint eftir grunnbreytum
Greint eftir aldri |
Já
|
Nei
|
---|---|---|
16-24 ára |
72,2%
|
27,8%
|
25-34 ára |
60,2%
|
39,8%
|
35-44 ára |
72,6%
|
27,4%
|
45-54 ára |
70%
|
30%
|
55-75 ára |
35,8%
|
64,2%
|
Greint eftir búsetu |
Já
|
Nei
|
Höfuðborgarsvæðið |
66,5%
|
33,5%
|
Landsbyggðin |
55,1%
|
44,9%
|
Greint eftir fjölskyldutekjum |
Já
|
Nei
|
Undir 100 þús. |
28%
|
72%
|
100-199 þús. |
50,9%
|
49,1%
|
200-299 þús. |
68,2%
|
31,8%
|
300 þús eða meira |
78,5%
|
21,5%
|
Helmingur þeirra sem ekki eru með tölvu á heimili var spurður um líkindi á tölvukaupum á næstu 12 mánuðum en helmingur um tölvukaup á næstu 2 árum. Var það gert í þeim tilgangi að gera samanburð á líkum á tölvukaupum á mislöngum tímabilum Svo fór að rúmur fjórðungur þeirra sem fengu fyrri spurninguna sagði líklegt að þeir myndu kaupa tölvu á næstu 12 mánuðum á meðan tæpur helmingur taldi það líklegt að þeir myndu kaupa tölvu á næstu tveimur árum. Líkur á tölvukaupum fara greinilega vaxandi með auknum tekjum en eru minnstar meðal þeirra sem ekki stunda atvinnu, meðal kvenna og meðal þeirra sem elstir eru.
B. Samkvæmt niðurstöðum þessara könnunar hefur tæpur helmingur landsmanna aðgang að Internetinu á heimili, í vinnu eða í skóla (49,5%). Þegar þessar niðurstöður eru bornar saman við samskonar könnun sem Gallup gerði í nóvember 1997 kemur í ljós að þeim sem hafa aðgang að netinu hefur fjölgað, en þá sögðust um 45% landsmanna hafa aðgang að Internetinu. Af niðurstöðum nú má ráða að um 28% Íslendinga nota Internetið reglulega eða meira en 1 klst. á viku að jafnaði.
C. Þegar niðurstöður eru greindar eftir helstu grunnbreytum kemur í ljós að karlar eru í marktækt meiri mæli en konur með aðgang að Internetinu á vinnustað. Þegar á heildina er litið er aftur á móti ekki kynjamunur hvað aðgengi að Internetinu varðar.
Tafla 2: Aðgengi að Interneti / greint eftir grunnbreytum
Greint eftir aldri |
Já
|
Nei
|
---|---|---|
16-24 ára |
67,6%
|
32,4%
|
25-34 ára |
54,7%
|
45,3%
|
35-44 ára |
52,6%
|
47,4%
|
45-54 ára |
55,4%
|
44,6%
|
55-75 ára |
19%
|
81%
|
Greint eftir búsetu |
Já
|
Nei
|
Höfuðborgarsvæðið |
57,4%
|
42,6%
|
Landsbyggðin |
38,7%
|
61,3%
|
Greint eftir fjölskyldutekjum |
Já
|
Nei
|
Undir 100 þús. |
23,4%
|
76,6%
|
100-199 þús. |
42%
|
58%
|
200-299 þús. |
52,7%
|
47,3%
|
300 þús eða meira |
67%
|
33%
|
Eins og sjá má í töflu 2 er fólk á aldrinum 55-75 ára síður en yngra fólk með aðgang að Internetinu og svo á einnig við um landsbyggðarfólk í samanburði við höfuðborgarbúa. Er munurinn verulegur, eða tæp 20%. Aðgengi að Internetinu er jafnframt mjög háð tekjum en aðgengi að tölvum og Internetinu virðist fara vaxandi samfara auknum tekjum.
Svarendur nota Internetið að meðaltali í um 2,7 klst. á viku þegar með eru taldir þeir sem ekki nota netið neitt. Þegar þeir hafa verið teknir frá í útreikningum kemur í ljós að meðalnotkun þeirra sem nota netið er 3,8 klst. á viku. Svo virðist sem karlmenn séu langt á undan konum hvað notkun varðar, en karlmenn nota netið að meðaltali í 4,1 klst á viku á meðan meðalnotkun kvenna er einungis 1,2 klst á viku. Notkun fer minnkandi með auknum aldri en hún fer vaxandi með auknum tekjum. Höfuðborgarbúar nota netið að meðaltali mun meira heldur en fólk af landsbyggðinni.
Þeir sem ekki eru með aðgang að Internetinu heima hjá sér voru spurðir um líkur á tengingu á næstu tveimur árum. Rúmur helmingur þeirra telur það líklegt að þeir muni fá sér tengingu heim á næstu tveimur árum á meðan 43% telja það ólíklegt. Hlutfall þeirra sem telja það líklegt er mun hærra meðal karla en kvenna, það er hæst meðal fólks á aldrinum 25-34 ára og fer hækkandi samfara auknum tekjum.
Í Reykjavík, 25. mars 1998.