Hoppa yfir valmynd
27. mars 1998 Matvælaráðuneytið

Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar í tilefni af ári hafsins (ísl.)

Ár hafsins
Yfirlýsing ríkisstjórnar Íslands



Verndun hafsins er eitt mikilvægasta verkefni mannkyns nú á dögum. Tryggja þarf að mannkynið geti áfram notið auðlinda hafsins og hafið gegni áfram margþættu hlutverki sínu m.a. því sem það hefur í vistkerfi jarðar. Koma þarf í veg fyrir að mengun, ofveiði og hugsanleg áhrif loftlagsbreytinga ógni lífríki sjávar.

Lífshagsmunir íslensku þjóðarinnar eru í húfi. Fáar þjóðir eiga meira undir lífríki sjávar. Sjávarútvegur og skyld atvinnustarfsemi leggur grunninn að efnahagskerfi þjóðarinnar en 75% tekna af vöruútflutningi er af sjávarafurðum. Þótt enn megi gera betur hafa Íslendingar tekið af skarið og gripið til ráðstafana sem stöðvað hafa ofveiði og dregið úr mengun sjávar. Þetta hefur tekist í sátt við þjóð og atvinnulíf.

Mengun sjávar á Íslandsmiðum er hverfandi þó svo vaxandi mengun herji á fjölmörg strandsvæði heims. Þá mengun má rekja til aukins mannfjölda og vaxandi framleiðslu efna, sem vistkerfi hafsins ræður ekki við að brjóta niður í skaðlaus efni. Hér er á ferð ein alvarlegasta ógnunin við lífríki sjávar og því er mikilvægt að kalla eftir hertum alþjóðlegum aðgerðum gegn mengun hafsins.

Samfélag þjóðanna hefur skuldbundið sig til að nýta auðlindir náttúrunnar með sjálfbæra þróun að markmiði og þess vegna að skila þeim jafngóðum eða betri í hendur afkomenda. Íslendingar hafa um árabil búið við fiskveiðistjórnunarkerfi sem skilað hefur þeim árangri að sjávarútvegsfyrirtæki dafna vel án ríkisstyrkja, jafnframt því sem mikilvægustu fiskistofnarnir hafa styrkst. Rannsóknir Íslendinga á lífríki sjávar hafa stóraukist og þar með þekkingin sem er ein af forsendum sjálfbærrar þróunar.

Brýnt er að þær þjóðir sem raunverulegra hagsmuna eiga að gæta komist að samkomulagi, m.a. innan viðkomandi svæðastofnana, um skiptingu og skynsamlega nýtingu sameiginlegra fiskistofna og fiskveiðar utan lögsögu ríkja. Virða ber sjálfsákvörðunarrétt strandríkja til þess að nýta lifandi auðlindir sem fyrirfinnast í lögsögu þeirra enda hefur reynslan sýnt að þeim þjóðum sem eru efnahagslega háðar auðlindunum er best treystandi fyrir þeim.

Vissulega eru blikur á lofti varðandi ofnýtingu stofna og mengun sjávar en slíkt má ekki leiða til órökstuddra alhæfinga og hræðsluáróðurs. Það er nauðsynlegt að benda á vandamálin, en það sem mestu máli skiptir er að finna lausnir á þeim. Við Íslendingar höfum, ásamt mörgum öðrum þjóðum, stigið mikilvæg skref í átt til sjálfbærrar nýtingar auðlinda hafsins og á ári hafsins er rétt að beina athyglinni að slíkum árangri og þeim lærdómi sem af honum má draga.

Íslendingar telja að nota beri ár hafsins til þess að auka þekkingu og skilning almennings á lífríki sjávar og ástandi hafsins. Þá þarf að skapa skilning á þeim alþjóðlegu aðgerðum sem nauðsynlegar eru til að tryggja vernd og nýtingu hafsins til frambúðar. Með upplýstri umræðu munu þjóðir heims finna leiðir fyrir mannkyn til að nýta lifandi auðlindir hafsins, líkt og það hefur gert í aldaraðir, en án þess að ganga á þá innistæðu sem hver kynslóð hlýtur í arf.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta