Hoppa yfir valmynd
21. apríl 1998 Matvælaráðuneytið

Umhverfisyfirlýsing sjávarútvegsráðuneytisins - apríl 1998

UMHVERFISYFIRLÝSING SJÁVARÚTVEGSRÁÐUNEYTIS



Forsendur
Í sjávarútvegsráðuneyti er stefnt að því að nýting auðlinda hafsins sé sjálfbær, og byggt sé á bestu tiltækum vísindalegum rökum þegar ákvarðanir eru teknar. Þess verði gætt að líffræðilegum fjölbreytileika og vistkerfi hafsins sé ekki ógnað.

Við stjórnvaldsákvarðanir ber að taka mið af, skyldu hverrar kynslóðar til að skila afkomendum sínum lífvænlegu umhverfi, skyldum þjóða til að vernda lífríki og vistkerfi hafsins, og mikilvægi þess að bjóða neytendum íslensks sjávarfangs heilnæmar afurðir.

1. Vernd og sjálfbær nýting lifandi auðlinda hafsins við Ísland
Í sjávarútvegsráðuneyti er það markmið sett, að umgengni um nytjastofna sjávar við Ísland tryggi til frambúðar hámarksafrakstur fyrir íslensku þjóðina.

1.1 Nýtingarstefna
Byggja skal ákvarðanir um veiðar á vísindalegum grunni, og að nýta aflann, þannig að sem minnst fari til spillis og verðmætasköpun verði sem mest.

1.1.1 Veiðar nytjastofna
Við stjórn veiða skal vera innbyggður hvati til að ganga vel um lifandi auðlindir hafsins og nýta alla framleiðsluþætti á sem hagkvæmastan hátt. Ákvarðanir byggi á skýrum forsendum og við undirbúning þeirra verði haft víðtækt samráð. Ákvörðunum skal fylgja fast eftir með skilvirku eftirliti.

1.1.1.a Aflaregla
Stefnt skal að því að þróa reglur um nýtingu einstakra nytjastofna. Við mótun slíkra aflareglna skal farin varúðarleið að því marki að ná fram hámarksafrakstri stofna til langs tíma.

1.1.1.b Veiðarfæri og meðferð afla
Stuðla skal að þróun kjörhæfra veiðarfæra sem fara vel með umhverfi, auðlindina og afla og hvetja til notkunar þeirra. Ráðuneytið setur reglur til að stuðla að því að fenginn afli spillist ekki. Bannað er að henda nýtanlegum fiski og skal veiðum stjórnað með það fyrir augum að dregið sé úr hættu á að fiski sé hent.

1.1.1.c Verndun svæða
Veiðar eru bannaðar á tilteknum hafssvæðum eða með tilteknum veiðarfærum til að vernda hrygningarfisk og ungfisk. Hafsvæði eru vöktuð til að hægt sé að bregðast skjótt við.

1.1.2 Vinnsla sjávarfangs
Í reglum um vinnslu aflans skal ávalt haft að markmiði að varðveita heilnæmi afla og afurða allt til neytenda. Stuðla skal að því að bestu framleiðslutækni sé beitt með tillliti til vinnslu og umhverfis. Stefna skal að nýtingu alls hráefnis.

1.2 Rannsóknastefna
Stefna ráðuneytisins er að stundaðar séu markvissar hafrannsóknir og rannsóknir á vinnslu sjávarafla hér á landi til að tryggt sé að byggt sé á bestu fáanlegri þekkingu hverju sinni. Í þessu skyni er leitað eftir samstarfi við innlendar og erlendar vísindastofnanir og aðra aðila.

1.2.1 Hafrannsóknir
Stundaðar séu rannsóknir á vistkerfi hafsins, nytjastofnum, haffræði og veiðarfærum, og áhersla lögð á fjölstofnarannsóknir. Virk þátttaka í alþjóðlegu samstarfi s.s. innan Alþjóðahafrannsóknaráðsins er mikilvæg, til að fá gagnrýni á þær aðferðir sem hér er beitt, og til að hagnýta niðurstöður nýjustu rannsókna.

1.2.2 Fiskiðnaðarrannsóknir
Rannsóknir á meðferð og vinnslu sjávarafla miði að því að íslenskur fiskiðnaður eigi ávalt aðgang að haldgóðri þekkingu um hvernig bæta má nýtingu sjávarafla og annarra aðfanga.

1.2.3 Tengsl við önnur fræðasvið
Ráðuneytið leggur áherslu á að rannsóknir séu stundaðar á ýmsum fræðasviðum er nýtast við auðlindastjórnun, s.s. hagfræði, markaðsfræði, lögfræði, stjórnmálafræði, félagsfræði og jarðfræðirannsóknir.


2. Veiðar á alþjóðlegum hafsvæðum
Það er stefna sjávarútvegsráðuneytisins að lifandi auðlindir á alþjóðlegum hafsvæðum verði nýttar á sjálfbæran hátt. Ákvarðanir um stjórn veiða byggi á bestu vísindalegri þekkingu. Þeim verði stjórnað í samræmi við alþjóðareglur hverju sinni, af þar til bærum stofnunum eða samtökum. Aðeins þeir sem hlíta reglum hafi leyfi til veiða á þessum svæðum.

2.1 Nýtingarstefna
Lögð er áhersla á að nýting á alþjóðlegum hafsvæðum taki mið af aflareglum, að eftirlitskerfi sé skilvirkt og stjórnkerfið geti brugðist skjótt við vísbendingum um breyttar aðstæður í vistkerfinu.

2.1.1 Rannsóknarstefna
Sjávarútvegsráðuneytið vill auka rannsóknir á alþjóðlegum veiðisvæðum og beita sér fyrir því að þeim sem stunda rannsóknir á hverju svæði sé umbunað.

3. Mengun og frárennsli
Sjávarútvegsráðuneytið mun beita sér fyrir auknum rannsóknum varðandi mengun í hafinu bæði með vöktun umhverfisþátta og rannsóknum á áhrifum mengunar á vistkerfið, sem og sjávarafurðir. Sjávarútvegsráðuneytið leggur áherslu á að gerðir verði nauðsynlegir alþjóðlegir samningar og ráðstafanir til að hvers kyns losun þrávirkra og geislavirkra úrgangsefna í hafið ógni ekki lífríkinu.

3.1 Orkunotkun
Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki eru hvött til að halda orkunotkun í lágmarki og nýta eins og kostur er endurnýjanlega orkugjafa. Draga skal úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda eins og unnt er að teknu tilliti til þess hvað þjóðin er háð sjávarútvegi.

4. Viðskipti
Á alþjóðavettvangi vill sjávarútvegsráðuneytið að Íslendingar beiti sér fyrir fríverslun með fisk og að niðurgreiðslur og ríkisstyrkir sem hvetja til ofnýtingar lifandi auðlinda sjávar og skaða umhverfi þeirra verði afnumdir. Sjávarútvegsráðuneytið er andvígt því að beitt sé hindrunum á aðgangi að mörkuðum til að hafa áhrif á nýtingu auðlinda sjávar.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta