Hoppa yfir valmynd
14. júlí 1998 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ástand og þróun umhverfismála á Íslandi á árinu 1996

Skýrsla um ástand
og þróun umhverfismála
á Íslandi á árinu

1996

Gefin út skv. 9. gr. laga nr. 21/1993


EFNISYFIRLIT

Formáli umhverfisráðherra 3

1. Ný lög um umhverfismál 1996 4
1.1 Lög nr. 18/1996 um erfðabreyttar lífverur
1.2 Lög nr. 56/1996 um spilliefnagjald
1.3 Lög nr. 93/1996 um náttúruvernd
1.4 Lög nr. 87/1996 um breyt. á byggingarlögum nr. 54/1978

2. Áherslur í starfi ráðuneytisins 8
2.1 Umhverfisþing
2.2 Snjóflóðamál og ofanflóðasjóður
2.3 Landmælingar til Akraness
2.4 CAFF-skrifstofa á Akureyri
2.5 Varnir gegn mengun sjávar frá skipum
2.6 Dýravernd: Lyfjagjafir til hrossa
2.7 Útgáfur ráðuneytisins 1996
2.8 Viðurkenningar ráðuneytisins til fyrirtækja

3. Alþjóðasamstarf 16
3.1 Stofnun Norðurskautsráðs
3.2 Alþjóðasamningur gegn mengun hafsins
3.3 Heimsþing alþjóða náttúruverndarsamtakanna
3.4 Samningafundir um loftslagsbreytingar
3.5 Fundur umhverfisnefndar Sameinuðu þjóðanna (CSD)

4. Endurvinnsla á Íslandi 20
4.1 Lög og reglur um endurvinnslu
4.2 Stefna íslenskra stjórnvalda á sviði endurnýtingar
4.3 Staða endurvinnslu á Íslandi
4.4 Sóknarfæri í endurvinnslu


Formáli

Þessi skýrsla er hin þriðja í röðinni sem kemur út á grundvelli laga nr. 21/1993 um upplýsingamiðlun og aðgang að upplýsingum um umhverfismál. Í skýrslunni er farið í stuttu máli yfir mörg þeirra mála sem efst voru á baugi í starfi umhverfisráðuneytisins á árinu 1996, en að auki er sérstök umfjöllun um endurvinnslu úrgangs á Íslandi.

Umræða um umhverfismál fer stöðugt vaxandi á Íslandi og æ fleiri láta málaflokkinn til sín taka. Það sást hvað skýrast á umhverfisþingi, hinu fyrsta sinnar tegundar, sem haldið var í október 1996, en þar mættu um 200 fulltrúar frá öllum sviðum samfélagsins, sem fjölluðu af þekkingu og áhuga um þau margbrotnu verkefni, sem falla undir umhverfismál. Það er von mín að árleg skýrslugjöf um starf umhverfisráðuneytisins og þróun umhverfismála verði til þess að efla enn þá þróttmiklu umræðu sem nú á sér stað um umhverfismál og verði þegar fram í sækir góð heimild um þá öru þróun sem á sér stað í þessum málaflokki.


Guðmundur Bjarnason
umhverfisráðherra


1. Lög sem sett voru 1996 á sviði umhverfismála


1.1 Lög nr. 18/1996 um erfðabreyttar lífverur

Markmið laga um erfðabreyttar lífverur er að vernda náttúru landsins, vistkerfi, plöntur og heilsu manna og dýra gegn skaðlegum og óæskilegum áhrifum erfðabreyttra lífvera. Jafnframt er markmið laganna að tryggja að framleiðsla og notkun erfðabreyttra lífvera fari fram á siðferðilega og samfélagslega ábyrgan hátt í samræmi við grundvallarregluna um sjálfbæra þróun. Lögin taka til allrar notkunar og starfsemi með erfðabreyttar lífverur. Jafnframt taka þau til innflutnings, markaðssetningar, sölu og annarrar afhendingar erfðabreyttra lífvera, svo og til vöru sem inniheldur þær að einhverju leyti. Enn fremur taka lögin til flutnings á erfðabreyttum lífverum og vöru sem inniheldur þær. Við framkvæmd laganna skal höfð í huga sérstaða landsins á norðurslóð. Setning laganna var til komin vegna aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, en nær engin ákvæði voru til í íslenskum lögum sem tóku sérstaklega til erfðabreyttra lífvera.

Umhverfisráðherra fer samkvæmt lögunum með yfirstjórn mála sem varða erfðabreyttar lífverur, en níu manna ráðgjafarnefnd, sem hefur sérfræðiþekkingu á þessu sviði, er stjórnvöldum til ráðgjafar um framkvæmd laganna. Sækja þarf um leyfi til Hollustuverndar ríkisins fyrir starfsemi með erfðabreyttar lífverur og þarf umsækjandi að leggja fram áhættumat um hugsanleg áhrif lífveranna á heilsu manna, vistkerfi og umhverfi. Hollustuvernd ríkisins hefur eftirlit með þeim tegundum erfðabreyttra lífvera sem unnið er með, en óheimilt er að sleppa eða dreifa þeim án leyfis stofnunarinnar.

Hollustuvernd ríkisins hefur yfirumsjón með framkvæmd laganna, veitir leyfi og stjórnar eftirliti með starfsemi samkvæmt lögum þessum.


1.2 Lög nr. 56/1996 um spilliefnagjald

Með lögum um spilliefnagjald er ætlunin að koma í veg fyrir mengun af völdum spilliefna með því að skapa hagræn skilyrði fyrir söfnun, meðhöndlun og viðunandi endurnýjun eða eyðingu þeirra. Helmingur þeirra spilliefna, sem til falla á Íslandi er úrgangsolía. Önnur spilliefni eru m.a. málning, ýmis leysiefni, ósoneyðandi efni, framköllunarvökvi, rafgeymar og rafhlöður.

Með lögunum er lagt gjald á vörur sem geta orðið að spilliefnum og á spilliefnagjaldið að standa undir kostnaði við söfnun, meðhöndlun, endurnýtingu og eyðingu efnanna. Umhverfisráðherra skipar spilliefnanefnd, sem gera mun áætlun um hvernig best verður staðið að söfnun og meðferð spilliefna og hvernig spilliefnagjaldinu er varið til að ná bestum árangri. Stefnt er að því að álagningu spilliefnagjalds verði komið á í áföngum til ársins 2000.

Spilliefnanefnd

Í kjölfar setningar laga um spilliefnagjald skipaði Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra Spilliefnanefnd til fjögurra ára. Spilliefnanefnd á skv. lögunum að gera áætlun um hvernig best verði staðið að söfnun, móttöku, meðhöndlun, endurnýtingu og eyðingu spilliefna.

Nefndin er þannig skipuð: Guðmundur G. Þórarinsson, formaður, skipaður án tilnefningar; Þuríður Jónsdóttir, héraðsdómslögmaður, skipuð án tilnefningar; Óskar Maríusson, efnaverkfræðingur, tilnefndur af Vinnuveitendasambandi Íslands; Stefán Hermannsson, borgarverkfræðingur, tilnefndur af Sambandi ísl. sveitarfélaga; Ólafur Kjartansson, verkfræðingur, tilnefndur af Samtökum iðnaðarins; Albert Ingason, tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands; og Guðfinnur Johnsen, véltæknifræðingur, tilnefndur sameiginlega af Landssambandi ísl. útvegsmanna og Samtökum fiskvinnslustöðva. Varamenn eru: Anna Margrét Jóhannesdóttir, Ágúst Elíasson, framkvæmdastjóri, Bjarni Þór Einarsson framkvæmdastjóri, Hvammstanga, Ólafur Jónsson fulltrúi, Pálmi Gíslason bankaútibússtjóri og Sveinn Hannesson framkvæmdastjóri.


1.3 Lög nr. 93/1996 um náttúruvernd

Með nýjum lögum um náttúruvernd, sem leystu af hólmi náttúruverndarlög frá 1971, urðu verulegar breytingar á stjórn náttúruverndarmála og hún aðlöguð stofnun og starfi umhverfisráðuneytisins.

Í lögunum er kveðið skýrt á um yfirstjórn umhverfisráðherra yfir málaflokknum og stofnun nýrrar ríkisstofnunar, Náttúruverndar ríkisins, sem starfa mun undir yfirstjórn ráðherra. Verkefni Náttúruverndarráðs færast til ráðherra og hinnar nýju stofnunar.

Umhverfisráðherra skipar Náttúruvernd ríkisins fimm manna stjórn, svo og forstjóra hennar til fimm ára í senn. Þá skipar hann sex af níu mönnum í Náttúruverndarráð og boðar til náttúruverndarþings. Heimild til setningar reglugerða og ákvörðunarvald um friðlýsingar flyst frá Náttúruverndarráði til ráðherra. Fullnaðarákvörðun um stofnun fólkvangs verður og á hendi ráðherra og hann gefur út náttúruminjaskrá fjórða hvert ár.

Með gildistöku laganna tók Náttúruvernd ríkisins við daglegum rekstri og verkefnum Náttúruverndarráðs. Hér var í raun um skrifstofu Náttúruverndarráðs að ræða, sem var nú aðskilin frá ráðinu og fékk nýja og betur skilgreinda stöðu innan ríkiskerfisins. Náttúruvernd ríkisins hefur eftirlit með að náttúru landsins verði ekki spillt, sér um rekstur og eftirlit með friðlýstum svæðum, sér um undirbúning friðlýsingar, gerir verndaráætlanir fyrir náttúruverndarsvæði og skráir náttúruminjar svo eitthvað sé nefnt.

Í samræmi við nýtt hlutverk Náttúrufræðistofnunar Íslands, sbr. lög nr. 60/1992, mun stofnunin taka meiri þátt í undibúningi friðlýsingar og getur hún gert tillögur til ráðherra og veitt umsagnir um friðlýsingu.

Verulegar breytingar urðu á hlutverki Náttúruverndarráðs með lögunum. Ráðið er skipað níu mönnum í stað sjö. Umhverfisráðherra skipar sex fulltrúa í upphafi hvers náttúruverndarþings, þar af fimm samkvæmt tilnefningum fag- og hagsmunaaðila. Þrír eru kosnir á náttúruverndarþingi. Náttúruverndarráð annast ekki stjórnsýslu á vegum ríkisins eða ber ábyrgð á ríkisrekstri. Meginhlutverk ráðsins er að stuðla að almennri náttúruvernd með ráðgjöf og stefnumótun. Ráðið er ráðherra til ráðgjafar um náttúruverndarmál. Því er falið að gangast fyrir ráðstefnum og opinni umræðu um náttúruverndarmál og getur gert tillögur til ráðherra um friðlýsingar og aðrar verndunaraðgerðir. Náttúruverndarráð skal fjalla um náttúruminjaskrá áður en hún er gefin út. Þá fer ráðið ennfremur með vörslur og úthlutanir úr Friðlýsingarsjóði eins og verið hefur.

Í lögunum er gert ráð fyrir að náttúruverndarþing sé haldið að loknum alþingiskosningum og aftur tveimur árum síðar. Í samræmi við stefnu umhverfisráðherra um að flytja ábyrgð á náttúruverndarmálum í auknum mæli heim í hérað er kveðið á um heimild til að fela náttúrustofum og náttúruverndarnefndum sveitarfélaga almennt eftirlit með náttúru landsins. Þá er ennfremur heimilt að fela einstaklingum eða lögaðilum umsjón og rekstur annarra náttúruverndarsvæða en þjóðgarða og sveitarfélögum eða héraðsnefndum umsjón og rekstur gestastofa.


1.4 Lög nr. 87/1996 um breytingar á byggingarlögum nr. 54/1978

Nauðsynlegt var að gera smávægilega breytingu á byggingarlögum frá 1978 til að kveða nánar á um veitingu starfsleyfa raflagnahönnuða.

Í kjölfar samþykktar laganna birti umhverfisráðuneytið reglugerð um löggildingu rafiðnfræðinga, rafvirkjameistara og rafvirkja sem raflagnahönnuða. Reglugerðinni var ætlað að tryggja réttindi þeirra sem starfað hafa við raflagnahönnun, en höfðu ekki til þess löggildingu. Reglugerðin tók til fyrrgreindra stétta, sem höfðu á tímabilinu 1. janúar 1992 til 1. janúar 1996 fengið samþykki opinberra aðila fyrir raflagnauppdráttum eða störfuðu þann 1. janúar 1996 við raflagnahönnun undir umsjón og eftirliti annarra, án þess að hafa í eigin nafni fengið samþykki opinberra aðila fyrir raflagnauppdráttum.



2. Af starfi ráðuneytisins

2.1 Umhverfisþing

Umhverfisþing, hið fyrsta á Íslandi, var haldið á Hótel Loftleiðum 8.-9. nóvember 1996. Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra bauð tugum samtaka og stofnana að senda fulltrúa á þingið og var þátttaka mjög góð, en yfir 200 manns mættu á þingið. Guðmundur sagði í ávarpi sínu á þinginu að það væri von sín að umhverfisþing yrðu í framtíðinni reglulegur umræðuvettvangur stjórnvalda, vísinda- og fræðimanna og félags- og stjórnmálasamtaka um umhverfismál og sjálfbæra þróun.

Umhverfisþing hófst með ávarpi Davíðs Oddssonar forsætisráðherra, en að því loknu og ávarpi umhverfisráðherra fluttu ávörp þau Gylfi Þ. Gíslason, formaður Æskulýðssambands Íslands, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, Auður Sveinsdóttir, formaður Landverndar, Þórarinn V. Þórarinsson, framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands og Johannah Bernstein, fulltrúi alþjóðasamtakanna Earth Council, sem fylgjast með framfylgd samþykkta Ríó-ráðstefnunnar 1992 um umhverfi og þróun.

Fyrir þinginu lágu drög að plaggi, sem bar heitið Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi - framkvæmdaáætlun til aldamóta, en það var unnið upp úr skýrslum sjö starfshópa, sem gerðu tillögur um hvernig innleiða mætti hugmyndir sjálfbærrar þróunar inn í íslenskt atvinnulíf og samfélag. Farið var yfir einstaka kafla plaggsins í fjórum starfshópum eftir almennar umræður á þinginu og fjölmargar tillögur gerðar þar um endurbætur á texta þess. Umhverfisráðherra þakkaði tillögur þingsins í lok þess og sagðist munu taka tillit til þeirra áður en hann legði plaggið fyrir ríkisstjórn til samþykktar. Með samþykkt umhverfisþings á framkvæmdaáætluninni ætti að geta náðst víðtæk samstaða í þjóðfélaginu um ákvæði hennar og metnaðarfulla stefnu í umhverfismálum.

Starfshóparnir fjórir fjölluðu um eftirfarandi málaflokka: Landbúnað og sjávarútveg; samgöngu- og ferðamál og byggðaþróun; orku og iðnað, nytjavatn og jarðefni; og meðferð úrgangs og umhverfisfræðslu.

Þingforsetar voru þau Ólafur Örn Haraldsson alþingismaður og Þóra Ellen Þórhallsdóttir prófessor. Formenn starfshópa á þinginu voru þau Drífa Hjartardóttir, formaður Kvenfélagasambands Íslands, Guðný Sverrisdóttir sveitarstjóri, Páll Skúlason prófessor og Tómas Ingi Olrich alþingismaður.



2.2 Snjóflóðamál og ofanflóðasjóður

Með breytingum á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum árið 1995 var málaflokkurinn færður frá félagsmálaráðuneyti til umhverfisráðuneytis og Veðurstofu Íslands falið verulega aukið hlutverk og ábyrgð í ofanflóðavörnum, m.a. að gera hættumat í sveitarfélögum þar sem talin er hætta á ofanflóðum, að gefa út viðvaranir og lýsa yfir og aflétta hættuástandi. Framkvæmd ákvæða laganna var stór þáttur í starfsemi umhverfisráðuneytisins árið 1996.

Reglugerð um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Á árinu 1996 gaf umhverfisráðuneytið út reglugerð um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, þar sem m.a. voru settar reglur um þátttöku Ofanflóðasjóðs í gerð varnarvirkja og um uppkaup og flutning á húseignum í sveitarfélögum sem búa við snjóflóðahættu. Skv. lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, sem samþykkt voru á Alþingi hinn 18. desember 1995, var Ofanflóðasjóði heimilt að greiða allt að 90% af kostnaði við gerð varnarvirkja vegna ofanflóða eða kaup eða flutning á húsnæði á hættusvæðum.

Skv. reglugerðinni skal að jafnaði bregðast við snjóflóðahættu með því að reisa varnarvirki, nema það sé talið hagkvæmara að kaupa eða flytja húseignir. Telji sveitarstjórn þann kost hagkvæmari til að tryggja öryggi íbúa á hættusvæðum, skal hún gera tillögu, þar sem gerður er samanburður á kostnaði við kaup eða flutning á húsum og kostnaði við gerð varnarvirkja.

Tillögur sveitarstjórna um varnaraðgerðir skulu lagðar fyrir Ofanflóðanefnd, sem fer yfir framkvæmda- og kostnaðaráætlanir. Þátttaka Ofanflóðasjóðs í framkvæmdum öðlast gildi að fengnu samþykki nefndarinnar og staðfestingu umhverfisráðherra.

Sveitarstjórnir annast framkvæmdir við gerð varnarvirkja og samninga um kaup eða flutning á húseignum í samræmi við staðfestar áætlanir. Náist ekki samkomulag um kaup á húseign er sveitarstjórn heimilt að taka eignina eignarnámi. Ofanflóðasjóður greiðir kostnað við rannsóknir sem miða að því að bæta hönnun varnarvirkja og hættumat. Hvorki má byggja á óbyggðum hættusvæðum né þétta þá byggð sem fyrir er, fyrr en tilskyldum varnarvirkjum hefur verið komið upp.

Greiðsla Ofanflóðasjóðs til sveitarfélags vegna kaupa á húsnæði skal miðast við staðgreiðslumarkaðsverð sambærilegra húseigna í sveitarfélaginu utan hættumarka. Greiðslur sjóðsins skulu inntar af hendi til sveitarfélags, sem aftur annast greiðslur til húseigenda.

Ný Ofanflóðanefnd var skipuð 25. janúar 1996 og átti hún m.a. fund með bæjar- og sveitarstjórnum allra þeirra sveitarfélaga sem búa við snjóflóðahættu í þéttbýli og lagði drög að frumathugun á hugsanlegum snjóflóðavörnum ásamt kostnaðarmati fyrir öll umrædd sveitarfélög. Formaður nefndarinnar er Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóri.

Borgarafundir um snjóflóðavarnir

Að tilstuðlan umhverfisráðuneytisins voru haldnir borgarafundir um snjóflóðavarnir á átta stöðum í desember 1995 og janúar 1996: Bolungarvík, Flateyri, Ísafirði, Neskaupstað, Patreksfirði, Seyðisfirði, Siglufirði og Súðavík. Á fundunum var íbúum kynnt breytt framkvæmd snjóflóðavarna í framhaldi af samþykkt nýrra laga, en einnig var rætt um stöðuna í snjóflóðamálum almennt, neyðaráætlanir og viðbrögð við hættuástandi og hvað er hægt að gera til að auka öryggi íbúa í bæjum þar sem er snjóflóðahætta.

Skýrsla um þörf fyrir snjóflóðavarnarvirki

Í framhaldi af þeirri stefnumótun að fremur bæri að reisa varnarvirki en kaupa upp húsnæði á snjóflóðahættusvæðum var Veðurstofu Íslands falið að kanna þörf á snjóflóðavarnarvirkjum á Íslandi fyrir umhverfisráðuneytið og sveitarstjórnir á snjóflóðahættusvæðum. Niðurstaða þeirrar athugunar, sem unnin var af starfsmönnum Veðurstofunnar í samvinnu við snjóflóðasérfræðinga frá Noregi og Sviss, var birt í skýrslu sem ber heitið "Þörf fyrir snjóflóðavarnarvirki á Íslandi - Yfirlit og mat á kostnaði". Skýrslunni var ekki ætlað að fastmóta stefnu um framkvæmdir á þessu sviði, heldur að aðstoða sveitarfélög og stjórnvöld við ákvarðanir um uppbyggingu snjóflóðavarna í einstökum sveitarfélögum á komandi árum.

Möguleikar á snjóflóðavörnum voru athugaðir fyrir 8 sveitarfélög á Vestfjörðum, Norður- og Austurlandi og gróft mat lagt á byggingarkostnað þeirra. Innan þessara sveitarfélaga eru stærstu þéttbýlissvæði þar sem hætta er á snjóflóðum hér á landi. Kostnaður við snjóflóðavarnirnar var borinn saman við verðmæti eigna á þeim svæðum sem varnirnar miðast við. Heildarkostnaður við varnartillögurnar var áætlaður um 7 milljarðar kr., en heildarverðmæti bygginga og annarra eigna á viðkomandi svæðum er um 24 milljarðar kr. skv. brunabótamati. Skv. því virðist bygging varnarvirkja vera mun hagkvæmari kostur en uppkaup fasteigna.

Ef kostnaður við krapa- og aurflóðavarnir, auk kostnaðar við uppkaup eigna á svæðum þar sem snjóflóðavarnir eru ekki taldar koma til greina, er talinn með, gæti heildarkostnaður við ofanflóðavarnir og óhjákvæmileg uppkaup numið alls u.þ.b. 9 milljörðum kr. Kostnaðarmatið er allmikilli óvissu undirorpið, einkum vegna óvissu um umfang snjóflóðahættusvæða og óljósra hönnunarforsenda fyrir snjóflóðavarnarvirki. Erfitt er að leggja formlegt mat á óvissuna á þessu stigi en talið er rétt að miða við að heildarkostnaður gæti í reynd legið á bilinu 7 til 14 milljarða kr.

Snjóflóðahættu á svæðunum, sem tekin eru fyrir í skýrslunni, er lýst með svokölluðu "hættustigi". Það er annars vegar byggt á tíðni og stærð snjóflóða og hins vegar á fólksfjölda á svæðinu. Rúmlega helmingur heildarkostnaðar við snjóflóðavarnir svarar til svæða þar sem hættustigið gefur til kynna mesta snjóflóðahættu.

Beint efnahagslegt tjón af völdum snjóflóða í þéttbýli á Íslandi á tímabilinu frá 1974 til 1995, að meðtöldum kostnaði við uppkaup eigna og byggingu snjóflóðavarna, er um 3.800 milljónir kr. Þá er meðtalinn kostnaður við flutning Súðavíkur, uppkaup eigna í Hnífsdal og áætlaður kostnaður við snjóflóðavarnargarða á Flateyri. Tjón af völdum snjóflóða utan þéttbýlis er hins vegar ekki talið með. Þar er m.a. um að ræða tjón á íbúðar- og útihúsum á sveitabæjum, sumarbústöðum, síma- og rafmagnslínum, skíðalyftum o.fl.

Alls fórust 52 menn í snjóflóðum á byggð ból á tímabilinu frá 1974 til 1995. Ef manntjón er talið með í efnahagslegu tjóni með sama hætti og í skýrslu um tjón af völdum umferðarslysa á Íslandi (100 milljónir kr. á hvern mann sem ferst af slysförum), þá er heildartjón af völdum snjóflóða á Íslandi á þessu 22 ára tímabili sambærilegt heildarkostnaði við snjóflóðavarnirnar sem lýst er í skýrslunni.


2.3 Landmælingar til Akraness

Guðmundur Bjarnason, umhverfisráðherra, ákvað á árinu 1996 að flytja aðsetur og starfsemi Landmælinga Íslands til Akraness og er gert ráð fyrir að stofnunin taki þar að fullu til starfa í janúar 1999. Ákvörðunin átti sér nokkurn aðdraganda. Það hefur verið stefna flestra stjórnmálaflokka og ríkisstjórna undanfarna tvo áratugi að flytja ríkisstofnanir frá höfuðborgarsvæðinu út á land. Á vegum stjórnvalda var lögð mikil vinna í tillögugerð um flutning ríkisstofnana, en lítið hefur þó orðið úr framkvæmd-um, ef frá er talinn flutningur Skógræktar ríkisins til Egilsstaða og embættis veiðistjóra til Akureyrar.

Það er stefna ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að flytja ríkisstofnanir út á land og var raunar stefna fyrri ríkisstjórnar einnig. Ákvörðun um flutning Landmælinga Íslands var því tekin á stjórnmálalegum forsendum til að framfylgja stefnu ríkisstjórnarinnar. Í ríkisstjórnarsáttmála stjórnarflokkanna segir m.a. að stuðlað verði að eflingu þjónustukjarna með ákvörðun um staðsetningu opinberra stofnana. Með stefnu sinni um flutning opinberra stofnana vilja stjórnvöld m.a stuðla að jafnvægi í byggð landsins, styrkja byggðakjarna, dreifa opinberri þjónustu og stuðla að fleiri og fjölbreyttari atvinnutækifærum utan höfuðborgarsvæðisins. Þá vilja stjórnvöld gefa ungu fólki sem leitar sér háskólamenntunar á höfuðborgarsvæðinu eða erlendis kost á vinnu við sitt hæfi í heimabyggð og jafnframt hamla gegn þeirri þróun að fólk og fyrirtæki flytji í auknum mæli af landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið. Með sífellt bættum samgöngum og fjarskiptum, svo og aukinni tækni, verður flutningur og rekstur ríkisstofnana utan höfuðborgarsvæðisins auðveldari en áður. Í samræmi við þessa stefnu var tekin ákvörðun um flutning Landmælinga Íslands til Akraness og var hún samþykkt af ríkisstjórn þann 2. júlí 1996.

Athugun á flutningi Landmælinga Íslands hafði staðið lengi yfir. Nefnd á vegum forsætisráðherra undir forystu Þorvalds Garðars Kristjánssonar, fyrrverandi alþingismanns, sem í áttu sæti fulltrúar allra stjórnmálaflokka sem sæti áttu á Alþingi, lagði á árinu 1993 til að stofnunin yrði flutt á Selfoss. Sagði í áliti nefndarinnar að verkefni Landmælinga Íslands væru þess eðlis að þau væru ekki bundin við aðsetur á höfuðborgarsvæðinu. Af hálfu fyrrverandi umhverfisráðherra, Össurar Skarphéðinssonar, var hafin athugun á flutningi stofnunarinnar í nýtt stjórnsýsluhús á Akranesi. Gerð var könnun á húsnæðisþörf stofnunarinnar og leitað álits Framkvæmdasýslunnar og Hagsýslu ríkisins á flutningnum. Jafnframt ræddi stjórnunarráðgjafi við starfsmenn Landmælinga Íslands og viðskiptamenn stofnunarinnar og kannaði hug þeirra til flutnings. Þá var leitað lögfræðilegra álita, m.a. um réttarstöðu starfsmanna. Athugun á flutningi var haldið áfram eftir stjórnarskipti og að auki var á ný leitað lögfræðilegra álita og beðið um nýtt mat Framkvæmdasýslunnar og Hagsýslu ríkisins á grundvelli breyttra forsendna.

Stofnuninni er ætlað rými í nýja stjórnsýsluhúsinu á Akranesi. Umrætt húsnæði verður tekið á leigu og mun leigusali innrétta það sérstaklega eftir þörfum og óskum Landmælinga Íslands. Áætlað er að leigukostnaður verði lægri á Akranesi en kostnaður við húsnæði stofnunarinnar í Reykjavík. Þar að auki mun húsnæðið nýtast betur fyrir starfsemi Landmælinga þar sem hægt verður að haga innréttingum í samræmi við þarfir stofnunarinnar. Núverandi húsnæði í Reykjavík er að mati ráðuneytisins bæði óhentugt og of stórt. Leigutími var runninn út og aðeins tímaspursmál að mati ráðuneytisins að taka ákvörðun um annað og hentugra húsnæði. Kostnaður við rekstur stofnunarinnar á ekki að vera hærri eftir flutning en nú er. Í minnisblöðum Framkvæmdasýslunnar og Hagsýslu ríkisins um flutninginn kemur fram að fjárhagslegar ástæður mæli ekki í mót flutningi og geti ekki ráðið ákvörðun þar að lútandi.

Sérstök framkvæmdanefnd var sett á fót til að undirbúa og annast flutninginn, en í henni eiga sæti fulltrúar umhverfisráðherra og fjármálaráðherra, auk bæjarstjórans á Akranesi og forstjóra Landmælinga Íslands. Nefndinni var m.a. ætlað að ganga frá húsaleigusamningi fyrir stofnunina á Akranesi, annast samstarf við framkvæmdanefnd um einkavæðingu og undirbúa flutninginn á annan hátt.

Af hálfu umhverfisráðuneytisins og Akranesbæjar var lögð áhersla á að sem flestir starfsmenn ynnu áfram hjá stofnuninni. Ákvörðun um flutning var því tekin með löngum fyrirvara til að hægt sé að vinna að flutningi í samráði og samvinnu við stjórnendur og starfsfólk Landmælinga Íslands. Skipaður var sérstakur vinnuhópur fulltrúa ráðuneytisins, Akranesbæjar og starfsmanna til að fjalla sérstaklega um málefni þeirra starfsmanna, sem vilja flytja á Akranes, s.s. um flutning, aðgang að félagslegri þjónustu, húsnæðismál, vinnu fyrir maka o.fl.


2.4 CAFF-skrifstofa á Akureyri

Skrifstofa samvinnuverkefnis um náttúruvernd á norðurslóðum (CAFF - Conservation of Arctic Flora and Fauna) tók formlega til starfa á Akureyri sumarið 1996. Dr. Snorri Baldursson líffræðingur var ráðinn verkefnisstjóri CAFF. Skrifstofa CAFF starfaði í Ottawa í Kanada í um tvö ár áður en hún var flutt til Akureyrar.

CAFF er samvinnuverkefni átta þjóða (Bandaríkjanna, Kanada, Rússlands og Norðurlandanna fimm), sem er hluti víðtækara samstarfs þjóðanna um umhverfisvernd á norðurslóðum, sem var sett á laggirnar í Rovaniemi í Finnlandi árið 1991. Á fundi sem Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra sótti ásamt umhverfisráðherrum hinna ríkjanna 7 í Inuvik í Kanada í mars 1996 ákváðu ráðherrarnir forgangsverkefni fyrir CAFF, sem verða m.a. framkvæmd áætlunar um vernd stuttnefju og langvíu og gerð áætlunar um hvernig ákvæðum sáttmála Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni verður fylgt eftir á norðurslóðum.


2.5 Varnir gegn mengun sjávar frá skipum

Ný reglugerð um varnir gegn mengun sjávar frá skipum tók á árinu við af fyrri reglugerð frá 1984. Meðal helstu nýmæla í reglugerðinni voru ákvæði um að öll skip yfir 400 brúttótonnum skuli hafa til taks áætlun um viðbrögð við mengunaróhöppum.

Í reglugerðinni er m.a. að finna ákvæði um útgáfu alþjóðlegs olíumengunarvarnaskírteinis, sem stjórnvöld gefa út til skipa sem fullnægja skilyrðum um varnir og viðbúnað gegn mengun. Í ákvæðum um eftirlit með losun olíu er kveðið á um að móttökustöðvar fyrir olíuleifar og olíublöndur frá skipum skulu vera til staðar í höfnum þar sem hráolíu er lestað og ákveðin þjónusta veitt skipum. Önnur ákvæði fjalla m.a. um ráðstafanir til að takmarka olíumengun frá olíuflutningaskipum vegna síðu- og botnskaða og skýrslugerð vegna óhappa þar sem um skaðleg efni er að ræða.

Reglugerðin byggir á lögum frá 1986 um varnir gegn mengun sjávar og grundvallast á viðauka í alþjóðasamningi (MARPOL) um varnir gegn mengun frá skipum. MARPOL-samningurinn - eða viðaukar hans öllu heldur - eru í stöðugri endurnýjun og því var orðið nauðsynlegt að uppfæra reglugerðina.


2.6 Dýravernd: Notkun lyfja í hrossum
Umhverfisráðuneytið setti á árinu reglugerð um notkun lyfja og meðferð á sýningar- og keppnishrossum. Samkvæmt henni er óheimilt að láta hest taka þátt í sýningu eða keppni hafi hestinum verið gefið lyf og/eða lyf greinist í lyfjasýni sem tekið hefur verið úr hestinum. Einnig er óheimilt að láta hest taka þátt í sýningu eða keppni ef hesturinn er staðdeyfður.

Reglugerðin er sett í samræmi við lög um dýravernd og drög að henni voru samin af stjórnskipaðri nefnd, þar sem áttu sæti m.a. fulltrúar Dýraverndarráðs, yfirdýralæknis og Landssambands hestamanna. Í reglugerðinni eru tilgreind þau lyf sem óheimilt er að gefa hestum fyrir keppni eða sýningu og einnig sá tími sem þarf að líða frá því að hesti er gefið lyf vegna sjúkdóms eða meiðsla þar til hann má taka þátt í sýningu eða keppni.

Þegar dýralæknir er kvaddur til hests vegna sjúkdóms eða meiðsla er knapa eða ábyrgðaraðila skylt að veita honum upplýsingar um hvort og þá hvenær ætlunin sé að hesturinn taki þátt í keppni eða sýningu. Dýralækni sem stundar keppnis- eða sýningarhest er skylt að kynna sér hvort læknismeðferð hans fellur undir ákvæði reglugerðarinnar. Á skipulegum sýningum eða mótum skal reglubundið taka lyfjasýni. Komi í ljós við rannsókn lyfjasýna að þau innihaldi lyf sem brjóta í bága við reglugerðina og leiki grunur á um að ákvæði laga um dýravernd hafi verið brotin, skulu viðkomandi samtök umsvifalaust tilkynna það til lögregluyfirvalda og Dýraverndarráðs.


2.7 Útgáfur umhverfisráðuneytisins á árinu 1996

Nokkrar nýjar útgáfur komu út á vegum umhverfisráðuneytisins á árinu:

• Umhverfismál - lög og reglur hefur að geyma texta allra laga sem eru á verksviði umhverfisráðuneytisins, auk nokkurra laga á verksviði annarra ráðuneyta sem varða umhverfismál.

• STATUS REPORT FOR ICELAND pursuant to the United Nations Framework Convention on Climate Change er 104 bls. skýrsla á ensku um útblástur koltvíoxíðs og annarra sk. gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Íslendingum er skylt að gefa reglulega út skýrslu um þetta efni til skrifstofu Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, til að gera grein fyrir hvernig gangi að fylgja eftir markmiðum samningsins.

• Endurvinnsla í garðinum - Leiðbeiningar um heimajarðgerð er 18 bls. myndskreyttur bæklingur, sem hefur að geyma leiðbeiningar um hvernig hægt er að nýta lífrænan úrgang til gerðar jarðvegsbætis. Samhliða útgáfu bæklingsins gaf ráðuneytið út annan bækling um jarðgerð, Heimajarðgerð - Snjöll leið til að farga sorpi, sem dreift var til sveitarstjórna og heilbrigðisfulltrúa. Sveitarstjórnir fengu einnig senda skýrsluna Heimajarðgerð á Íslandi og í Færeyjum - Tilraunaverkefni, eftir Helgu Jóhönnu Bjarnadóttur, sem hefur að geyma niðurstöður tilraunaverkefnis um hvernig best er að haga heimajarðgerð á þessu stöðum, þar sem aðferðin er lítið þekkt.

• Umhverfið - og við heitir 24 bls. bæklingur, sem gefinn var út af Kvenfélagasambandi Íslands í samvinnu við umhverfisráðuneytið. Í honum er að finna ýmsar ráðleggingar til almennings um hvernig hægt er að stuðla að bættu umhverfi, m.a. í innkaupum, með flokkun og endurvinnslu úrgangs og skynsamlegri notkun bílsins og hreinlætisvara.


2.8 Viðurkenningar til fyrirtækja

Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra afhenti tveimur fyrirtækjum viðurkenningarskjöl á umhverfisþingi fyrir að innleiða sjónarmið umhverfisverndar í rekstri sínum.

Viðurkenningu umhverfisráðuneytisins fyrir árið 1995 hlaut Fiskvinnslustöð KEA í Hrísey, sem fékk hana fyrir "fyrirmyndar hráefnisnýtingu og minnkun úrgangs, snyrtilegt umhverfi og umhverfismeðvitund stjórnenda og starfsfólks".

Viðurkenningu ráðuneytisins fyrir árið 1996 fékk Árvakur hf. fyrir "ítarlega útfærslu á umhverfisstefnu við vinnslu og prentun Morgunblaðsins, góðan árangur við endurnýtingu úrgangs og ábyrga meðferð spilliefna".




3. Alþjóðasamstarf


3.1 Stofnun Norðurskautsráðs

Í september 1996 náðist samkomlag um stofnun Norðurskautsráðsins sem samstarfsvettvangur Norðurlandanna, Bandaríkjanna, Kanada og Rússlands. Ákveðið var að fella umhverfissamstarf sömu ríkja, sem stofnað var til árið 1991, undir starfsemi ráðsins.

Fyrsti embættismannafundur í hinu nýja ráði var haldinn í Osló í nóvember. Þeir Ólafur Egilsson, sendiherra, og Tryggvi Felixson, deildarstjóri alþjóðadeildar umhverfisráðuneytisins, sóttu fundinn. Eitt helsta viðfangsefni fundarins var að semja vinnureglur og fundarsköp fyrir starfsemina, og náðist samkomulag um fyrstu skrefin í því starfi. Þá var rætt um fjármál og skipulagsmál, en skiptar skoðanir voru um hvort heppilegt sé að koma á fót fastri skrifstofu fyrir ráðið sem sett yrðu föst fjárlög. Þá gerðu 4 fastir vinnuhópar um umhverfismál grein fyrir starfi sínu.

Stofnun ráðsins kom í kjölfar samþykktar þess efnis á fundi umhverfisráðherra og embættismanna ríkjanna átta (Íslands, Bandaríkjanna, Danmerkur/Grænlands, Finnlands, Kanada, Noregs, Rússlands og Svíþjóðar) í Inuvik í Kanada. Fundur ráðherranna var sá þriðji af sínu tagi, en hinn fyrsti var haldinn í Rovaniemi í Finnlandi árið 1991, þar sem grunnurinn var lagður að samstarfi ríkja á norðurslóðum um umhverfismál og gerð áætlunar um vernd norðurheimskautssvæðisins. Auk fulltrúa ríkjanna átta áttu fulltrúar samtaka frumbyggja á Norðurslóðum aðild að samstarfinu og munu einnig eiga aðild að Norðurskautsráðinu.


3.2 Alþjóðasamningur gegn mengun hafsins

Fulltrúar 43 ríkja, þ.á m. Íslands, rituðu undir alþjóðasamning í Lundúnum í nóvember 1996, sem herti verulega alþjóðlegar reglur um varp úrgangs í hafið frá skipum. Samningurinn er viðaukasamningur við Lundúnasamninginn frá 1972.

Meðal helstu breytinga frá fyrri samningi eru þær að nú er allur bruni úrgangsefna á hafi úti bannaður og að helstu meginreglur umhverfisréttar, s.s. varúðar- og mengunarbótareglan, hafa verið settar inn í samninginn. Þá kemur leyfislisti í stað bannlista í samningnum, þ.e. bannað er að losa allan úrgang í sjó með nokkrum undantekningum, sem eru taldar upp í viðauka. Meðal þeirra efna sem ekki er bannað að varpa í hafið eru: dýpkunarefni, seyra, fiskúrgangur, lífrænt efni af náttúrulegum uppruna og óvirk ólífræn jarðefni. Hins vegar verða stjórnvöld hvers lands að láta meta hvaða förgunaraðferð henti hverju sinni, þ.e. hvort heppilegt sé að varpa slíkum úrgangi í hafið eða farga honum á annan hátt.

Lundúnasamningurinn er alheimssamningur og mun því setja fordæmi fyrir öll ríki heims. Hins vegar hafa víða verið settar strangari reglur á einstökum svæðum, eins og á hafsvæðinu við Ísland. Almennt er talið að Lundúnasamningurinn frá 1972 hafi orðið til þess að verulega hefur dregið úr losun úrgangsefna frá skipum, einkum ýmissa eiturefna, sem algengt var að varpað væri í hafið. Fyrsti formaður samningsins var Hjálmar R. Bárðarson, fyrrum siglingamálastjóri.


3.3 Heimsþing alþjóða náttúruverndarsamtakanna

Heimsþing alþjóða náttúruverndarsamtakanna, IUCN, var haldið í Montreal í Kanada 13.-23. október 1996. Af Íslands hálfu sátu þingið Sigurður Á. Þráinsson, deildarstjóri í umhverfisráðuneytinu og Pétur G. Thorsteinsson, frá sendiráði Íslands í Washington. Fyrir þinginu lágu tillögur um breytingu á lögum og reglum samtakanna en hvoru tveggja hefur verið til endurskoðunar frá síðasta þingi sem haldið var í Buenos Aires árið 1994. Tillögurnar voru samþykktar með nokkrum breytingum og tóku gildi að þinginu loknu.

Fulltrúar Íslands tóku þátt í störfum 6 vinnunefnda sem fjölluðu um 12 tillögur sem snerta íslenska hagsmuni. Íslenska sendinefndin lagði fram tillögur um breytingar við allar þessar tillögur og í flestum tilvikum náðist samkomulag í vinnunefndum um þær breytingar.

Í tengslum við þingið kynnti nefnd um tegundir í útrýmingarhættu (SSC), sem er ein af sex fastanefndum IUCN, nýjan válista yfir tegundir skriðdýra, skeldýra, skordýra, fiska, fugla og spendýra sem taldar eru í hættu í heiminum. Nokkrar tegundir sjávarfiska í Norður Atlantshafi, eins og þorskur og ýsa, höfðu verið settar á listann. Þetta er í fyrsta skipti sem sjávarfiskar eru settir á listann, en alls eru um 150 tegundir sjávarfiska á honum. Válistinn var til umræðu utan dagskrár á þinginu og gagnrýndu fulltrúar Íslands það að fiskitegundum sem eru nýttar og nýtingu er stjórnað, eins og þorski og ýsu, hafi verið bætt inn á válistann meðan flokkunarkerfið tekur ekki tillit til slíkra aðstæðna. Fulltrúar annarra fiskveiðiþjóða tóku undir þessa gagnrýni.

Í válista IUCN er lagt mat á það hvaða dýrategundir eru í hættu á heimsvísu, en ekkert tillit er tekið til styrkleika tegunda á einstökum svæðum eða löndum. Fyrir fundinum lá tillaga um að SSC láti útbúa leiðbeiningarreglur um hvernig eigi að beita stöðlum, skilgreiningum og flokkunarkerfi IUCN fyrir svæðisbundna válista. Fulltrúar Íslands og annarra fiskveiðiþjóða fengu bætt við tillöguna tilmælum til SSC að hún geri notendum válistans grein fyrir því að flokkunarkerfið henti ekki endilega til þess að meta hættuna á útrýmingu fyrir allar tegundir sjávarfiska og að kerfið verði endurskoðað m.t.t. til þess.

Auk þess komu fiskveiðiþjóðirnar því inn í ályktun þingsins um SSC að hraðað verði endurskoðun á skilgreiningu á því hvernig metið er hvaða tegundir séu í hættu og hve mikilli, sérstaklega þegar um tegundir sjávarfiska er að ræða og að tekið verði tillit til þátta eins og stjórnun nýtingar. Í framhaldi af þessum samþykktum þingsins óskuðu íslensk stjórnvöld eftir því að stofnuð verði nefnd sem vinni að endurskoðun flokkunarkerfisins fyrir sjávarfiska.


3.4 Samningafundir um loftslagsbreytingar

Ríkisstjórnin samþykkti í upphafi árs 1996 að ráðstafa sérstaklega einni milljón króna til að styrkja þátttöku stjórnvalda í samningaviðræðum á vettvangi Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Umhverfisráðuneytið hafði tekið virkan þátt í viðræðum um að styrkja samninginn, en með fjárveitingunni var tryggt að a.m.k. tveir íslenskir fulltrúar í stað eins gæti setið þá þrjá samningafundi, sem haldnir voru á árinu.

Þá var einnig samþykkt tillaga umhverfisráðherra um sérstaka umsjónarnefnd með framkvæmdaáætlun Íslands vegna Rammasamnings S.þ., sem ríkisstjórnin samþykkti í október 1995. Umsjónarnefndin var skipuð aðstoðarmönnum ráðherra sjö ráðuneyta (umhverfis-, fjármála-, iðnaðar- og viðskipta-, samgöngu-, landbúnaðar-, dómsmála- og sjávarútvegsráðuneytis), en formaður hennar er Guðjón Ólafur Jónsson, aðstoðarmaður umhverfisráðherra.

Einnig var á árinu skipuð sérstök samráðsnefnd til að fara með málflutning íslenskra stjórnvalda í samningaviðræðunum. Í henni sitja Tryggvi Felixson, umhverfisráðuneyti (formaður), Arnór Halldórsson, sjávarútvegsráðuneyti, Halldór Þorgeirsson, tilnefndur af landbúnaðarráðuneyti, Jón Ingimarsson, iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, Kristján Vigfússon, samgönguráðuneyti og Tómas H. Heiðar, utanríkisráðuneyti.

Á aðildarríkjaþingi Rammasamnings S.þ. í Genf í júlí var samþykkt yfirlýsing þar sem því er heitið að herða aðgerðir til að koma í veg fyrir stórfelldar loftslagsbreytingar af mannavöldum. Á vegum Íslands fór þriggja manna sendinefnd á fundinn í Genf, skipuð þeim Tryggva Felixsyni frá umhverfisráðuneytinu, Jóni Ingimarssyni frá iðnaðarráðuneytinu og Þóri Ibsen, fulltrúa þessarra tveggja ráðuneyta í Sendiráði Íslands í Brussel. Í ræðu sem Tryggvi flutti fyrir hönd Guðmundar Bjarnasonar umhverfisráðherra sagði m.a. frá framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Þá var því lýst yfir að íslensk stjórnvöld tækju niðurstöður vísindanefndarinnar mjög alvarlega og myndu leggja sitt af mörkum til að samningar tækjust um aðgerðir til að styrkja samninginn. Einnig var í ræðunni bent á þann árangur sem Íslendingar hafa náð í að nýta endurnýjanlega orkugjafa og þar með draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

3.5 Fundur umhverfisnefndar Sameinuðu þjóðanna (CSD)

Fjórði fundur umhverfisnefndar Sameinuðu þjóðanna (Commission on Sustainable Development - CSD) var haldinn í New York 18. apríl til 3. maí 1996. Sérstakar áherslur fundarins voru verndun andrúmsloftsins og verndun hafsins. Fundinn sóttu af Íslands hálfu Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra, Friðrik Sophusson fjármálaráðherra, Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóri umhverfisráðuneytisins, Tryggvi Felixson, deildarstjóri í umhverfisráðuneytinu og Tómas H. Heiðar, lögfræðingur í utanríkisráðuneytinu.

Samþykktar voru fjölmargar ályktanir á fundinum. Ályktun um framfylgd og stofnanabindingu Framkvæmdaáætlunar til að vernda hafið gegn mengun frá landstöðvum (Global Programme of Action - GPA) felur í sér að umhverfisstofnun S.þ. (UNEP) mun annast skrifstofuhald fyrir GPA. Ýmsar helstu stofnanir S.þ., s.s. Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO), Alþjóða matvælastofnunin (FAO) og Alþjóða siglingamálastofnunin (IMO), eiga að standa fyrir þekkingar- og tæknimiðlun fyrir Framkvæmdaáætlunina, sem samþykkt var í Washington árið 1995. Ákveðið var að málefni hafsins yrðu framvegis reglulega á dagskrá CSD. Í ályktun um mengun af völdum þrávirkra lífrænna efna sagði að koma þyrfti á alþjóðlegum samningi til að draga úr ógn sem stafar af þessum efnum í umhverfinu.



4. Endurvinnsla á Íslandi

Meðferð úrgangs hefur tekið stakkaskiptum á Íslandi á undanförnum árum. Opin brennsla við lágan hita var algeng aðferð um allt land til þess að losa sig við úrgang, en hún hefur í för með sér myndun margra hættulegra efna. Auk þess var mikil lyktar- og sjónmengun af opnum öskuhaugum með logandi eldum, sem voru algeng sjón við marga helstu þéttbýlisstaði. Slík opin brennsla er nú að mestu aflögð, en mestallur úrgangur er urðaður á skipulagðan hátt á viðurkenndum urðunarstöðum, sem fengið hafa til þess starfsleyfi. Á nokkrum stöðum er sorp brennt við háan hita í sorpbrennslustöðum, yfirleitt þar sem land til urðunar er af skornum skammti, s.s. á Ísafirði og í Vestmannaeyjum.

Ekki hefur aðeins orðið mikil bragarbót á förgun úrgangs á Íslandi, heldur hefur magn úrgangs sem fer til förgunar minnkað með aukinni flokkun hans og endurvinnslu. Fyrir tæpum áratug má segja að endurvinnsla úrgangs á Íslandi hafi verið nær engin, ef brotajárn er undanskilið, en nú er pappír, timbri, drykkjarvöruumbúðum og spilliefnum safnað saman og endurnýtt eftir föngum. Talið var að um 37% úrgangs á höfuðborgarsvæðinu færi til endurvinnslu á árinu 1996.

Hér á eftir verður fjallað lítillega um þau lög og reglur sem gilda um endurvinnslu á Íslandi, stöðu mála á árinu 1996 og sóknarfæri til þess að auka endurvinnslu enn frá því sem er. Efni kaflans byggir að stórum hluta á erindum á ráðstefnu sem haldin var í maí 1996 um endurvinnslu á Íslandi.

Helstu hugtök

Í daglegri málnotkun er hugtakið endurvinnsla gjarnan notað yfir hvers kyns endurnýtingu á úrgangi. Í lögum og reglugerðum er hugtakið hins vegar notað þrengra, þar er "endurnýting" notað sem yfirhugtak, en endurnýting úrgangs getur síðan verið þrenns konar:

• Endurnotkun: allar aðgerðir þar unnt er að nota vörur/efni/úrgang að minnsta kosti nokkrum sinnum á endingarferli þeirra eða notaðar í sama tilgangi og áður, með eða án aukaafurða sem til eru á markaðinum. Dæmi: Endurnotkun á glerflöskum, þar sem drykkjarvöru er tappað á sömu flöskuna oftar en einu sinni.

• Endurvinnsla: endurframleiðsla úrgangsefna til upprunalegra eða annarra nota, þar með talin lífræn endurvinnsla en ekki orkuvinnsla. Dæmi: Endurvinnsla á glerflöskum, þar sem glerið er mulið og/eða brætt og notað til að búa til nýjar flöskur eða aðra hluti úr gleri.

• Orkuvinnsla: notkun brennanlegs úrgangs til að framleiða orku beint við brennslu með eða án annars úrgangs en með nýtingu varmans.



4.1 Lög og reglur um endurvinnslu

Hér á landi eru engin almenn lög um endurvinnslu úrgangs. Fyrstu lögin sem lúta að endurvinnslu eru lög nr. 52/1989 um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur.

Samkvæmt þeim lögum skal leggja skilagjald á innfluttar drykkjarvörur í einnota umbúðum úr málmi, gleri eða plastefni, sem innheimt skal við tollafgreiðslu. Sama gjald skal lagt á drykkjarvörur sem framleiddar eru eða átappaðar hér á landi og seldar eru í slíkum umbúðum. Má gjaldið nema allt að 10 krónum á hverja umbúðaeiningu og er ráðherra heimilt að hækka hámarksfjárhæðina. Skilagjaldið skal síðan endurgreiða neytendum við móttöku á notuðum umbúðum.

Samkvæmt lögunum skal iðnaðarráðherra beita sér fyrir stofnun hlutafélags sem taki að sér umsýslan skilagjaldsins svo og söfnun og endurvinnslu einnota umbúða. Það var gert í kjölfar lagasetningarinnar með stofnun Endurvinnslunnar hf. Félagið hefur skv. lögunum einkarétt til slíkrar starfsemi hér á landi og á að sjá til þess að koma upp skilvirku fyrirkomulagi á söfnun skilagjaldsskyldra umbúða um land allt.

Á grundvelli laganna er nánar kveðið á um endurvinnslu á drykkjarvöruumbúðum í reglugerð 282/1994.

Markmið laga nr. 56/1996 um spilliefnagjald er, eins og kemur fram hér að ofan, fyrst og fremst að koma í veg fyrir mengun af völdum spilliefna. Ekki er fjallað sérstaklega um endurvinnslu spilliefna í lögunum, utan að nefnt er að koma megi í veg fyrir mengun annað hvort með viðeigandi eyðingu spilliefna, eða með endurnýtingu þeirra.

Alþjóðlegar skuldbindingar Íslands varðandi endurvinnslu úrgangs, er fyrst og fremst að finna í tilskipun Evrópusambandsins nr. 94/62/EBE um umbúðir og umbúðaúrgang, sem tók gildi í lok árs 1994. Tilskipunin varð með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar hluti af samningnum um Evrópskt efnahagssvæði í ársbyrjun 1996 og þar með var íslenskum stjórnvöldum skylt að setja hér á landi nauðsynleg lög og reglur til þess að framfylgja ákvæðum hennar.

Aðildarríki EES skuldbinda sig til þess að endurnýta allt að 65% af umbúðaúrgangi fimm árum eftir gildistöku tilskipunarinnar. Innan fimm ára frá þeim degi sem tilskipunin hefur verið samþykkt í landslögum skal 25-45% af þyngd allra pökkunarefna í umbúðaúrgangi endurunninn, með minnst 15% af þyngd fyrir hvert umbúðahráefni.

Megininntak tilskipunarinnar er að aðildarríki sjái til þess að umbúðir verði ekki að úrgangsefni, heldur verði þær endurheimtar með endurnotkun eða endurnýtingu. Forgangsröð aðgerða til að lágmarka magn úrgangs til förgunar er sú sama og í grunntilskipunum ESB um úrgang frá 1975 og 1991, þ.e. að fyrst skuli reynt að draga úr magni umbúðaúrgangs sem til fellur, þar næst skuli reynt að endurnota eftir megna þær umbúðir sem til falla og að síðustu að endurvinna efnið í umbúðunum, áður en til endanlegrar förgunar kemur. Orkuvinnsla úr umbúðaúrgangi telst vera endurnýting, jafnt og endurvinnsla efnis. Tilskipunin tekur til allra gerða umbúða sem eru markaðssettar og alls umbúðaúrgangs.

Umhverfisráðuneytið gaf út reglugerð á árinu 1996, sem tók á þeim þáttum tilskipunarinnar, sem lagastoð er fyrir. Markmið hennar er: Að tryggja að umbúðaúrgangur hafi sem minnst skaðleg áhrif á umhverfið; að draga úr magni umbúða sem er fargað; að minnka heildarrúmmál umbúða; að koma í veg fyrir myndun umbúðaúrgangs og að stuðla að endurnotkun umbúða og endurnýtingu umbúðaúrgangs.

Reglugerðin tekur til allra umbúða sem settar hafa verið á markað og alls umbúðaúrgangs, hvort sem hann er notaður í eða kemur frá iðnaði og annarri vöruframleiðslu, skrifstofum, verslunum, þjónustufyrirtækjum, heimilum eða annars staðar frá, án tillits til þess úr hvaða efni umbúðirnar eru.

Eftir 1. júlí 1999 má aðeins setja á markað umbúðir sem samræmast öllum kröfum er kveðið er á um í reglugerðinni.

Í reglugerðinni eru sett fram þau markmið sem tiltekin eru í tilskipuninni um endurnýtingu og endurnotkun umbúðaúrgangs: Eftir 1. júlí 2001 skal í minnsta lagi 50% og í mesta lagi 65% af þyngd umbúðaúrgangs endurnýtt. Innan þeirra marka og á sama tíma skal í minnsta lagi 25% og í mesta lagi 45% þyngd allra umbúðaefna í umbúðaúrgangi endurunnið, þar af minnst 15% af þyngd allra umbúðaefna í umbúðaúrgangi fyrir hverja tegund umbúðaefnis. Sérstök umsjónarnefnd sem í eiga sæti m.a. fulltrúar frá atvinnulífinu og sveitarfélögunum skal setja upp áætlun hvernig ná eigi markmiðum reglugerðarinnar.

Þá er í reglugerðinni kveðið á um að setja skuli upp áætlun um hvernig komið verður í veg fyrir myndun umbúðarúrgangs og hvernig umbúðir verði endurnotaðar. Við gerð þessarar áætlunar skal meðal annars taka mið af kröfum um verndun umhverfis og um hreinlæti, um heilbrigði og öryggi neytenda, um verndun gæða, ósvikni og tæknilega eiginleika þeirra pökkuðu vara og hráefna sem notuð eru, svo og verndun hugverkaréttar á sviði iðnaðar og viðskipta.

Hollustuvernd ríkisins, eða aðili sem stofnunin semur við, skal koma upp og varðveita gagnagrunn um umbúðir og umbúðaúrgang.

4.2 Stefna íslenskra stjórnvalda á sviði endurnýtingar

Í framkvæmdaáætlun um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi, sem lögð var fyrir og samþykkt á umhverfisþingi í nóvember 1996, er að finna skilgreiningu á markmiðum varðandi meðferð úrgangs. Þar segir m.a.: "Sjálfbær þróun varðandi meðferð úrgangs miðar að því að lágmarka allan úrgang, en nýta hann eða farga honum þar sem hann fellur til, þó þannig að það hamli ekki þróun atvinnulífs, en verði komandi kynslóðum til efnahagslegs og félagslegs ábata og skerði ekki lífsskilyrði þeirra. . . . Meðhöndlun úrgangs skal sett fram í tiltekinni forgangsröð: Að draga úr magni úrgangs, að endurnota og endurnýta það sem mögulegt er og að farga því sem afgangs er á þann veg að það skaði umhverfið sem minnst." Síðan er sett fram það tölulega markmið, að reynt skuli að draga úr úrgangsmyndun á Íslandi, þannig að það sem fer til endanlegrar förgunar verði um 50% minna um næstu aldamót en árið 1990.

Í framkvæmdaáætluninni er að finna nokkur ákvæði um leiðir að þessu markmiði. Þau ákvæði sem lúta að endurvinnslu eru m.a. eftirfarandi:

• Til að draga úr magni úrgangs sem fer til endanlegrar förgunar og auka endurnýtingu verður hagrænum aðgerðum beitt í ríkara mæli.

• Sveitarfélög beiti sorphirðugjöldum þannig að þau hvetji íbúa og atvinnulífið til þess að flokka úrgang og skila honum til móttökustöðva, að draga úr myndun úrgangs og auka endurnýtingi. Umhverfisráðuneyti, Hollustuvernd ríkisins og Samband íslenskra sveitarfélaga vinni leiðbeiningar um hvernig áætlanir um gjöld og tekjur í sorphirðumálum skuli unnar.

• Ríkisstjórnin, samtök atvinnulífsins og Samband íslenskra sveitarfélaga beiti sér fyrir að koma söfnun og endurvinnslu brotamálma í viðunandi horf sem fyrst.

• Sveitarfélög skipuleggi söfnun og endurnýtingu/eyðingu á landbúnaðarplasti í samstarfi við atvinnulífið eða sorpeyðingarstöðvar. Umhverfisgjald verði innheimt til að standa undir kostnaði við söfnun og endurnýtingu/eyðingu.


Sérstakur undirkafli fjallar um endurvinnslu á lífrænum úrgangi. Þar er að finna eftirfarandi tillögur:

• Samráðshópur á vegum umhverfisráðuneytis og landbúnaðarráðuneytis vinni að því að finna not fyrir afurðir lífræns úrgangs.

• Skilgreina þarf garðaúrgang sem endurnýtanlegt efni og hvetja að hann fari í moltu. Sama á við um eldhúsúrgang frá heimilum. Hvatt verði til heimajarðgerðar þar sem það á við.

• Stefna skal að því að endurnýta lífrænan úrgang og skilgreina kröfur til afurðar mismunandi eftir notkun. Setja þarf fram kröfur til framleiðsluferlisins í vinnslustöð og íláta fyrir heimajarðgerð. Skoða þarf nýtingu afurðarinnar.

• Ríkisstjórnin, Samband íslenskra sveitarfélaga og samtök atvinnulífsins beiti sér fyrir að nú þegar verði fiskúrgangi, sláturhúsa- og kjötvinnsluúrgangi ásamt úrgangi frá stóreldhúsum, fundinn annar farvegur en urðun, og skal því markmiði náð að fullu fyrir aldamót.

Annar undirkafli fjallar um meðferð umbúða, þar sem eftirfarandi ákvæði er að finna:

• Umhverfisráðuneytið beiti sér fyrir samstarfi við atvinnulífið sem stuðli að því að markmið reglugerðar um umbúðir og umbúðaúrgang verði komið á eins fljótt og auðið er.

• Á grundvelli reglugerðar um umbúðir og umbúðaúrgang verði komið á skráningu innlendra framleiðenda og innflytjenda um notkun umbúða. Framleiðendur skili inn gögnum reglulega til Hagstofu Íslands með upplýsingum um tegund umbúða, stærð, magn, efnasamsetningu o.fl. þætti sem nauðsynlegt er að fá upplýsingar um til að hægt sé að fylgjast með umbúðamagni. Innflytjendur skulu með sama hætti tiltaka magn umbúða sem fluttar eru inn til landsins hvort sem þær eru tómar eða utan um erlendar vörur.

• Kannaðir verði möguleikar á að taka fleiri tegundir drykkjarvöruumbúða inn í lög um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur og að breyta þeim lögum þannig að þau taki einnig til annarra tegunda umbúða.



4.4 Staða endurvinnslu á Íslandi

Nú er talið að um 250.000 tonn af úrgangi falli til á Íslandi á ári hverju, eða rúm 900 kg á hvert mannsbarn. Kostnaður við meðferð og förgun þessa úrgangs er um 2 milljarðar króna á ári. Stefna stjórnvalda er að draga úr magni úrgangs sem fer til endanlegrar förgunar um 50% árið 2000, miðað við árið 1990. Árið 1996 var hlutfall úrgangs til endurvinnslu á höfuðborgarsvæðinu talið nema um 37%, þannig að ljóst er að verulega hefur miðað í rétta átt. Hér á eftir er skoðaður árangur við endurvinnslu varðandi nokkra flokka úrgangsefna, eftir þeim upplýsingum sem helst liggja fyrir.

Ástæða þess að endurvinnsla hefur aukist verulega á Íslandi er ekki síst tveimur fyrirtækjum að þakka, Endurvinnslunni hf., sem sér um söfnun og útflutning á drykkjarvöruumbúðum og Sorpu bs., sem er langstærsta sorpsamlag landsins og tekur við ríflega helmingi alls úrgangs sem fer til förgunar og endurvinnslu. Upplýsingarnar hér í kaflanum eru að mestu leyti byggðar á reynslu þessarra tveggja fyrirtækja. Þó ber að geta þess að fleiri aðilar hafa sýnt frumkvæði og góðan árangur á sviði endurvinnslu en þessir tveir. Þannig hefur Sorpsamlag Eyjafjarðar og fyrirtæki á sviði endurvinnslu á Akureyri aukið mjög endurvinnslu á Eyjafjarðarsvæðinu. Úrvinnslan hf. framleiðir þar brettakubba úr úrgangsplasti og -pappír og Gúmmívinnslan hf. hefur endurunnið gúmmí síðan árið 1984. Hringrás hf. hefur um margra ára skeið safnað brotajárni víða um land og komið því til endurvinnslu.

Brotamálmar

Saga skipulegrar endurvinnslu úrgangs á Íslandi er ekki löng. Segja má að afskipti ríkisins hefjist með samvinnu við Sindrastál á sviði endurvinnslu á brotamálmum í kringum 1974, en fyrirtækið hefur unnið að vinnslu brotajárns frá stríðslokum. Þá hefur fyrirtækið Hringrás hf. unnið brautryðjendastarf í söfnun og endurvinnslu brotamálma. Talið er að árið 1996 hafi magn málma sem brotajárnsfyrirtæki safna og fara til endurvinnslu numið um 18.000 tonnum í heild, eða um 113 kg á íbúa.

Drykkjarvöruumbúðir og plast

Árið 1989 eru svo samþykkt lög um endurvinnslu á einnota drykkjarföngum og í kjölfar þeirra var Endurvinnslan hf. sett á fót, eins og áður sagði. Óhætt er að segja að árangur Íslendinga á þessu sviði sé verulegur. Talið er að árið 1995 hafi um 83% af einnota drykkjarvöruumbúðum verið skilað til endurvinnslu og árið 1996 var þetta hlutfall komið upp í 87%. Heildarmagnið var í kringum 600 tonn á ári, eða sem nemur um 13 kg á íbúa. Ávinningur af þessarri endurvinnslu er margþættur. Fullyrða má að einnota drykkjarvöruumbúðir valdi ekki lengur umhverfismengun á Íslandi, a.m.k. alls ekki í þeim mæli sem var áður en skilagjaldskerfi umbúða var komið á. Þá hefur orðið veruleg minnkun á sorpi sem fer til förgunar og flokkun og sala á umbúðum til endurvinnslu skapar útflutningstekjur og atvinnu.

Drykkjarvöruumbúðir eru að mestu fluttar úr landi til endurvinnslu, en margvíslegir annmarkar eru á því að endurvinna þær hér á landi. Þar skiptir mestu máli að endurvinnslukerfið er yfirleitt flókið og dýrt og stendur ekki undir kostnaði nema mikið magn hráefnis berist til þessarrar sérhæfðu starfsemi. Endurvinnslan hf. hefur þó starfrækt verksmiðju á Akureyri, sem tekur við úrgangspappír (um 600 tonn á ári) og landbúnaðarplasti (um 3-400 tonn á ári) og endurvinnur þetta efni, einkum í brettakubba. Þá hefur dótturfyrirtæki Endurvinnslunnar, Sagaplast hf., hafið endurvinnslu á fiskikössum úr plasti.

Pappír

Pappír er talinn nema allt að 40% af sorpi frá heimilum. Talið er að um 6.000 tonn af pappír og pappa hafi farið til endurvinnslu á höfuðborgarsvæðinu árið 1996, eða sem svarar um 40 kg á íbúa.

Borgarráð Reykjavíkur samþykkti í apríl 1995 að setja í gang tilraunaverkefni um innsöfnun á dagblaða- og tímaritapappír og ákvörðun nágrannasveitarfélaga Reykjavíkur að fela Sorpu bs. að annast sambærilegt verkefni fyrir þau. Átakinu var valið heitið "Pappír - endurtekið efni" og var formlega hleypt af stokkunum 5. júlí 1995.

Um 520 tonn af pappír söfnuðust á fyrstu sex mánuðum verkefnisins, sem þótti ágætur árangur, ekki síst með tilliti til þess að enginn fjárhagsávinningur er fyrir fólk að skila pappír til endurvinnslu. Mest safnaðist á íbúa í Breiðholtshverfum, en þar var komið fyrir fleiri og smærri söfnunargámum en á öðrum svæðum í Reykjavík og því styttra fyrir fólk að fara í næsta gám með úrgangspappír. Að meðaltali skilað hver Breiðholtsbúi um 40% meira af pappír til endurvinnslu en íbúar í öðrum borgarhlutum þar sem söfnunargámum var komið fyrir.

Lífrænn úrgangur

Sorpa bs. safnar garðaúrgangi til jarðgerðar og nam magn hans um 4.000 tonnum árið 1996, eða sem svarar um 25 kg á íbúa. Fyrirtækið safnar grasi, trjágreinum og öðru því sem fellur til úr görðum og nýtir það til framleiðslu á lífrænum jarðvegsbæti, sem gengur undir nafninu molta.

Timbur

Talið er að um 14% úrgangs á Íslandi sé timbur. Sorpa bs. safnaði um 9.500 tonnum af timbri árið 1996, sem svarar til um 60 kg á íbúa. Hluti af timbrinu er endurnotað eftir hreinsun, en hitt er kurlað niður og notað sem kolefnisgjafi við framleiðslu kísilmálms.

Spilliefni

Um 100 tonn af spilliefnum (öðrum en olíu) er safnað saman á spilliefnamóttöku Sorpu bs. og þau send utan til endurvinnslu eða öruggrar förgunar. Olía og leysiefni sem berast til spilliefnamóttökunnar eru send til Sementsverksmiðjunnar á Akranesi, sem nýtir þau til orkubrennslu ásamt annarri úrgangsolíu sem fellur til á landinu.

Gúmmí

Gúmmívinnslan hf. á Akureyri framleiðir rúm 300 tonn af ári af vörum úr endurunni gúmmíi, s.s. mottum, bobbingum o.fl. Hráefnið er einkum gúmmírasp vegna sólunar á hjólbörðum, sem fyrirtækið fær frá bílaverkstæðum á Akureyri og í Reykjavík, eða um 250 tonn, en afganginn flytur Gúmmívinnslan inn. Talið er að um 5-7.000 tonn af ónýtum hjólbörðum séu til í landinu og að um 4.500 tonn af gúmmíi séu í hjólbörðum undir bifreiðum landsmanna.


4.4 Sóknarfæri í endurvinnslu

Á ráðstefnu um endurvinnslu á Íslandi, sem haldin var í maí 1996, komu fram ýmsar hugmyndir um hvernig auka megi endurvinnslu úrgangs, bæði um hvernig mætti almennt bæta starfsskilyrði endurvinnslu og um einstök verkefni, sem hægt væri að hrinda í framkvæmd.

Hagræn stjórntæki geta hvatt til aukinnar endurnýtingar. Hér á landi hvetja sorphirðugjöld á fyrirtæki þau til að draga úr magni úrgangs til förgunar, en kostnaður við förgun heimilisúrgangs er ekki að sama skapi sýnilegur. Á ráðstefnunni var nefnt að erlendis þekktist það að magn heimilissorps hefði minnkað um og yfir 30% eftir að tekið var að vigta sorpið og láta menn greiða samkvæmt vigtinni. Hér á Íslandi hefur það fyrirkomulag að láta menn greiða fyrir móttöku spilliefna latt menn til endurvinnslu en hvatt til þess að spilliefnum sé fargað á óábyrgan hátt (þessu fyrirkomulagi var breytt á árinu með tilkomu spilliefnagjalds).

Aukið frumkvæði fyrirtækja og atvinnulífsins gæti leitt til aukinnar endurvinnslu. Margir virðast gefa sér það fyrirfram að flokkun úrgangs og endurnýting hafi aukinn kostnað í för með sér, en það þarf þó ekki alltaf að vera raunin. Á ráðstefnunni um endurvinnslu lýstu forsvarsmenn nokkurra fyrirtækja jákvæðri reynslu sinni af því að koma á umhverfisstefnu og endurvinnslukerfi. Þannig er reynsla Árvakurs hf., útgáfufélags Morgunblaðsins, sú að endurvinnsla á hreinsiefnum, framköllunarvökva, fixerum, álprentplötum o.fl. hafi ekki haft aukinn kostnað í för með sér, þrátt fyrir fyrirhöfn og fjárfestingu í tækjabúnaði, heldur þvert á móti. Sala á notuðum prentplötum, silfri sem fellt er út úr fixervökva o.s.frv. skilar tekjum til fyrirtækisins og minna þarf að greiða fyrir úrgang sem fer til urðunar. Þessi jákvæða niðurstaða fæst þrátt fyrir að Árvakur gefur úrgangspappír og -plast til Úrvinnslunar hf. á Akureyri, í stað þess að selja hann til endurvinnslu erlendis. Þá var nefnt að í tilraunaverkefni á vegum Iðntæknistofnunar hefði eitt fyrirtæki náð að minnka úrgang til förgunar um 50% og annað um 70% með því að taka upp hreinni framleiðslutækni, með samhliða lækkun sorphirðugjalda.

Eitt af því sem hvað flestir bentu á á áðurnefndri ráðstefnu var möguleikinn á aukinni endurvinnslu á lífrænum úrgangi. Talið er að lífrænn úrgangur sé um 30-35% af magni heimilissorps og að sláturúrgangur nemi um 4% af öllum úrgangi á Íslandi, en hann er að langmestu leyti urðaður. Það er því ljóst að aukin endurnýting lífræns úrgangs gæti dregið verulega úr magni úrgangs sem fer til endanlegrar förgunar. Það er þó ekki síður hvati til aukinnar endurnýtingar á lífrænum úrgangi að hægt er að nýta hann í baráttunni gegn gróðureyðingu og fyrir endurheimt landgæða. Garðaúrgangur hefur verið jarðgerður hjá Sorpu með góðum árangri. Umhverfisráðuneytið gaf út tvo leiðbeiningarbæklinga á árinu um jarðgerð, ætluðum sveitarstjórnum og almenningi, sem var dreift til allra sveitarstjórna á landinu í því skyni að hvetja til jarðgerðarverkefna. Auk jarðgerðar er hægt að endurnýta lífrænan úrgang með brennslu, þar sem varmaorka hans er nýtt, eða með gösun, sem flýtir fyrir niðurbroti og býður upp á nýtingu gastegundanna.

Aukin endurvinnsla á plasti er ýmsum erfiðleikum bundin. Hver plasttegund þarf sérstaka meðhöndlun, erfitt er að koma á viðunandi söfnunarkerfi, lágt verð er á endurunnu plasti og hár framleiðslukostnaður. Endurvinnsla á landbúnaðarplasti hefur verið sérstaklega til skoðunar í nokkurn tíma, en talið er að um 7-800 tonn af því falli til árlega. Þar gildir um margt hið sama og um plastefni almennt, að það er erfitt í endurvinnslu.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta