Umhverfisstefna í ríkisrekstri
Umhverfisstefna í ríkisrekstri
FORMÁLI
Á undanförnum árum hefur orðið mikil breyting á viðhorfum Íslendinga til umhverfismála. Sú breyting birtist ekki einungis í stóraukinni umræðu um umhverfismál á opinberum vettvangi, heldur einnig í athöfnum og áþreifanlegum árangri. Sem dæmi um góða þátttöku almennings má nefna að yfir 80% einnota drykkjarvöruumbúða er nú skilað til endurvinnslu og er það hlutfall óvíða hærra í heiminum. Nokkur fyrirtæki víða um land byggja nú afkomu sína að einhverju eða öllu leyti á vinnslu úrgangs, sem einstaklingar og fyrirtæki flokka og skila í stað þess að henda á glæ.
Hlutverk stjórnvalda á þessu sviði er m.a. að móta leikreglur sem samrýmast nýjum viðhorfum og þar hefur töluvert áunnist á undanförnum árum. Það skiptir þó ekki minna máli að ríkið og stofnanir þess kappkosti eftir megni að hafa sjónarmið umhverfisverndar að leiðarljósi í daglegum rekstri sínum og sýna góða fyrirmynd á því sviði. Sú hugsun lá að baki þeirri ákvörðun minni á sínum tíma að láta móta umhverfisstefnu í ríkisrekstri. Þeirri vinnu er fráleitt lokið með samþykkt hennar í ríkisstjórn og útgáfu þessa bæklings; þvert á móti er það von mín að umhverfisstefna í ríkisrekstri haldi áfram að eflast og þróast og að frumkvæði komi í ríkum og vaxandi mæli frá starfsmönnum sjálfum.
Hin mikla umræða um umhverfismál er ekki tískubóla, heldur hluti af vitundarvakningu sem ekki sér fyrir endann á. Langflestir viðurkenna nú þau sjónarmið sem felast í hugtakinu sjálfbær þróun, þó að ekki sé alltaf augljóst hvernig byggja eigi upp samfélag sem sameinar þau efnislegu lífsgæði sem við eigum að venjast og ábyrga umgengni við náttúruna. Það er von mín að meðfylgjandi tillögur feli í sér raunhæf skref í átt að því markmiði.
____________________
Guðmundur Bjarnason
umhverfisráðherra
INNGANGUR
Eftirfarandi tillögur um umhverfisstefnu í ríkisrekstri eru samdar af starfshóp, sem Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra skipaði í maí 1996. Tillögurnar voru síðan samþykktar í ríkisstjórn í febrúar 1997.
Hvatinn að skipun starfshópsins var samþykkt fundar umhverfisráðherra Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) í mars 1996. Þar voru aðildarríki hvött til þess að fella umhverfissjónarmið að almennri starfsemi ríkisins, þ.á m. ákvarðanatöku. Meðal einstakra atriða sem umhverfisráðherrarnir bentu á að taka þyrfti til við mótun slíkrar umhverfisstefnu voru: Að bæta nýtingu á orku, vatni og aðföngum í daglegum rekstri, að auka endurnýtingu, að beina innkaupum að vörum sem teldust umhverfisvænar og að hanna og reka byggingar á vegum ríkisins með umhverfisvernd í huga.
Rit þetta eru tillögur starfshópsins um umhverfisstefnu í ríkisrekstri. Þær byggja á samþykkt ráðherrafundarins, en taka mið af íslenskum aðstæðum.
Þær forsendur sem starfshópurinn gaf sér við samningu tillagnanna voru:
• að umhverfisstefna í ríkisrekstri skyldi samrýmast og styðja við önnur stefnumið ríkisins, s.s. í sambandi við hagræðingu og upplýsingastefnu;
• að tillögurnar væru leiðbeinandi og reyndu að virkja áhuga starfsmanna ríkisins á umhverfismálum með því að benda á leiðir sem eru færar til að bæta umhverfið;
• að tillögurnar væru framkvæmanlegar og árangur áþreifanlegur og mælanlegur þar sem því er hægt að koma við; og
• að gerð yrði áætlun um eftirfylgni og áframhald starfsins.
Tillögur starfshópsins taka einkum mið af almennum skrifstofurekstri, sem einstakar stofnanir ríkisins geta notað við setningu ítarlegri reglna um umhverfisstefnu í sérhæfðri starfsemi sinni.
Hin síðari ár hefur orðið vakning í umhverfismálum í heiminum. Æ fleiri gera sér ljóst að stigvaxandi mengun og ágangur á auðlindir og óspillta náttúru mun leiða til ófarnaðar ef ekkert er að gert. Af þeim sökum hafa ríki heims tekið höndum saman við að reyna að hrinda hugmyndinni um "sjálfbæra þróun" í framkvæmd, en hún felst í því að taka ber tillit til umhverfissjónarmiða og hagsmuna komandi kynslóða við alla ákvarðanatöku og í samskiptum okkar við náttúruna.
Stjórnvöld í hverju ríki reyna að hrinda markmiðum sjálfbærrar þróunar í framkvæmd með lagasetningu og eftirliti heima fyrir. Því fer þó fjarri að unnt sé að koma sjálfbærri þróun á eingöngu með valdboði: skilningur og umbótavilji hjá almenningi er forsenda árangurs í umhverfismálum í lýðræðissamfélagi. Það hlýtur að teljast æskilegt að ríkisvaldið, sem hvetur til sjálfbærrar nýtingar auðlinda og umbóta í umhverfismálum, gangi á undan með góðu fordæmi. Þá má benda á þá staðreynd að við Íslendingar flöggum því í vaxandi mæli erlendis að afurðir okkar, orkulindir og landið sjálft sé hreint og ómengað. Okkur ber að tryggja að raunveruleikinn sé ekki annar en þessi ímynd. Af þessum sökum er nauðsynlegt að íslenska ríkið móti umhverfisstefnu fyrir þann rekstur sem það stendur sjálft fyrir.
MARKMIÐ:
Markmið umhverfisstefnu í ríkisrekstri er að fella starfsemi ríkisins að sjónarmiðum umhverfisverndar og sjálfbærrar þróunar, þannig að hún valdi sem minnstri mengun og álagi á auðlindir og umhverfi. Hafa ber sjónarmið umhverfisverndar í huga við alla þætti rekstrar og ákvarðanatöku. Almenn sjónarmið í því sambandi eru m.a. eftirfarandi:
• Leitast skal við að ná hámarksnýtingu og draga úr hvers kyns sóun verðmæta, t.d. orku og aðfanga, í ríkisrekstri.
• Fremur ber að velja viðurkenndar "umhverfisvænar" vörur en þær sem valda meiri skaða á umhverfinu.
• Úrgang sem til fellur í rekstri ríkisins ber að endurnota og endurvinna eftir því sem kostur er og tryggja að spilliefnum sé fargað á viðeigandi hátt. Draga skal úr notkun einnota hluta eins og kostur er.
• Til þess að sýna fram á gagnsemi umhverfisstefnu og sjá hvernig miðar við framkvæmd hennar er æskilegt að mæla eftir föngum innkaup og notkun á vöru og þjónustu og þann sparnað sem hlýst af því að draga úr sóun og koma endurnýtanlegum hlutum í verð.
LEIÐIR:
INNKAUP:
• Við innkaup skal tekið tillit til umhverfissjónarmiða jafnt sem kostnaðar og gæða. Ef vörur eru sambærilegar að öðru leyti ber að velja þá tegund sem telst síður skaðleg umhverfinu (er "umhverfisvæn"). Hafa verður í huga að vara sem er dýrari í innkaupum kann að leiða til beins sparnaðar þegar til lengri tíma er litið. Dæmi um þetta eru orkusparandi ljósaperur, sem endast lengur og nota minna rafmagn.
• Við innkaup á vöru er rétt að athuga hvort hún sé merkt með viðurkenndu umhverfismerki, s.s. merki Evrópusambandsins eða norræna umhverfismerkinu (Svaninum), eða uppfylli þær kröfur sem þar eru gerðar.
• Hægt er að athuga hvort til eru rammasamningar hjá Ríkiskaupum um vörur sem teljast umhverfisvænar.
PAPPÍRSNOTKUN:
• Rétt er að nota pappír sem ekki er klórbleiktur og æskilegt er að hann sé endurunninn að hluta eða öllu leyti og/eða merktur með viðeigandi umhverfismerki. Þetta á bæði við um pappír til notkunar á skrifstofum og eins í útgáfur rita.
• Forðast ber að nota gluggaumslög með plastfilmu, en hægt er að fá umslög með opnum glugga eða glugga úr endurnýjanlegu efni. Einnig ber að forðast umslög með lími úr leysiefnum, þar sem ekki er hægt að endurvinna þau. Best er að kaupa Svansmerkt umslög. Hvatt er til aukinnar notkunar fjölnota umslaga eins og notuð hafa verið innan Stjórnarráðsins.
• Draga ber eftir föngum úr pappírsnotkun, en pappír er oftast langstærsti hluti úrgangs frá skrifstofum. Þetta er hægt með því m.a. að: lesa yfir texta á tölvuskjá fremur en í útprentun; ljósrita báðum megin á hverja síðu; nýta úrgangspappír til gerðar minnismiða; og nota sérstakan prentara með notuðum blöðum (þ.e. með texta öðrum megin) til útprentunar á handritum, minnisblöðum og öðrum óformlegum texta. Sjálfsagt er að reyna að mæla pappírsnotkun og fylgjast með hvernig gengur að draga úr henni.
• Senda á allan pappír til endurvinnslu, en henda honum ekki með öðru rusli. Sjálfsagt er að flokka pappír til endurvinnslu inni á skrifstofum, en helstu flokkarnir eru:
- skrifstofupappír
- dagblaðapappír
- pappi
- annar pappír (s.s. glanspappír)
ÝMIS SKRIFSTOFUGÖGN OG -VÉLAR
• Forðast ætti að nota vörur sem innihalda lífræn leysiefni, þar sem þau eru skaðleg bæði umhverfinu og heilsu manna. Slík efni finnast m.a. í mörgum gerðum líms, leiðréttingalakks, tússlita o.fl. Yfirleitt er hægt að fá tegundir sem nota vatnsleysanleg efni í stað hinna. Oft er hægt að þekkja vörur sem ber að forðast á því að á þeim eru varúðarmerkingar vegna hugsanlegs heilsutjóns.
• Forðast ber vörur sem innihalda PVC-plast (s.s. möppur), en nota þess í stað sambærilegar vörur úr pappa eða öðrum gerðum plasts.
• Æskilegt er að nota fjölnota vörur fremur en einnota, þar sem hægt er að koma því við. Dæmi um óþarfa notkun á einnota vörum er notkun einnota drykkjarmála.
• Ljósritunarvélar ættu að vera merktar umhverfismerki, s.s. með Svaninum eða Bláa englinum (þýska umhverfismerkinu). Þannig merktar vélar fullnægja ströngum kröfum um losun ryks og ósons (sem getur verið hættulegt heilsunni), hávaða, orkunotkun og möguleikum á endurvinnslu ákveðinna hluta vélanna. Svokölluð "tóner-hylki" í ljósritunarvélum og bréfsímum skulu sett í endurvinnslu; æskilegt er að þau séu merkt umhverfismerki.
NOTKUN UPPLÝSINGATÆKNI:
• Með aukinni og markvissri notkun upplýsingatækni er unnt að koma við mikilvirkum umhverfisbótum í starfsemi ríkisins. Að þessu þarf sérstaklega að huga þegar stefna ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið kemur til framkvæmda.
• Með auknu aðgengi landsmanna að nettengdum tölvum opnast nýir möguleikar til þess að bæta þjónustu og jafna aðgengi að opinberri þjónustu, óháð búsetu og afgreiðslutíma. Gera þarf öll upplýsingakerfi ríkisins þannig úr garði að ekki verði einungis hægt að sækja þangað upplýsingar um lög, réttindi, skyldur, hagtölur o.fl. heldur verði á sem sjálfvirkastan hátt beinlínis hægt að reka erindi með þessum hætti gegnum slík net. Auk þess yrðu helstu útgáfur, skýrslur og nefndarálit gerð aðgengileg þeim sem í þær vildu sækja upplýsingar og fróðleik.
• Öll ráðuneyti þurfa að koma upp samræmdum gagnagrunni undir heimasíðu Stjórnarráðs Íslands á Internetinu. Slíkt mun ekki eingöngu leiða til pappírssparnaðar, heldur einnig vinnusparnaðar, þar sem minni tími fer í að svara beiðnum um upplýsingar og gögn sem verða aðgengileg á nettengdum tölvum.
• Til skemmri tíma litið eru fáar nýjungar í upplýsingatækni sem geta leitt til meiri umhverfisbóta en víðtæk og markviss notkun tölvupósts. Sem fyrsta skref í notkun tölvupósts og upptöku pappírslausra samskipta er að sú regla verði strax tekin upp að fundarboð og fundargögn verði send með tölvupósti og að dregið verði úr beinni fundarsetu með skoðanaskiptum um tölvur og með símafundum. Framkvæmd þessa er auðveld, hún sparar tíma og fé og dregur úr mengun vegna samgangna.
UMBÚÐANOTKUN OG ENDURNÝTING:
• Hægt er að draga úr sóun vegna umbúðanotkunar m.a. með því að velja fremur vörur sem nota minni umbúðir og með því að kaupa fremur inn í stórum einingum en smáum.
• Koma ber upp flokkun úrgangs á vinnustað, þannig að endurnýtanlegum úrgangi sé safnað sérstaklega og skilað til endurvinnslu. Sjálfsagt er að koma upp móttöku fyrir pappír, drykkjarumbúðir og rafhlöður með því að setja upp sérstaklega merkt ílát til þeirra nota. Síðar má huga að frekari flokkun eftir því sem endurvinnslumöguleikar aukast, t.d. á lífrænum úrgangi.
• Garðaúrgang og slegið gras af lóðum er hægt að nýta til jarðgerðar, annað hvort á lóðinni sjálfri eða með því að fara með hann á þar til gerðan stað (gámastöð) í viðkomandi sveitarfélagi.
EFNANOTKUN OG HREINGERNINGAR:
• Forðast ber að nota hvers kyns eiturefni og hættuleg efni til hreingerninga. Hafa ber í huga að ráðlagðir skammtar framleiðenda á þvotta- og hreinsunarefnum eru oft óþarflega stórir, meðal annars er íslenskt vatn kalksnauðara og þ.a.l. mýkra en víðast erlendis og því ekki þörf á efnum sem eiga að vinna á móti kalki í þvotti. Setja má umhverfiskröfur í þjónustuútboð varðandi hreingerningar.
ORKUNOTKUN:
• Slökkva ber á öllum rafmagnstækjum, s.s. tölvum, prenturum og ljósritunarvélum í lok hvers vinnudags til þess að draga úr orkusóun og auka öryggi.
• Athuga má möguleika á því að setja upp sjálfvirk stýrikerfi á hita og ljósum, sem dragi úr orkunotkun og auki jafnframt vellíðan starfsmanna. Sjálfsagt er að mæla þann sparnað sem af slíku hlýst í orkunotkun og peningum.
• Reyna á að nýta afgangsorku á sem bestan hátt. Það má gera t.d. með því að endurnýta heitt vatn til húshitunar með endurupphitun, með upphitun á gangstéttum í enn ríkari mæli en nú er gert og á annan hátt.
BYGGINGAR - HÖNNUN, SMÍÐI OG VIÐHALD:
• Hanna ber byggingar með tilliti til umhverfissjónarmiða ekki síður en hagkvæmni- og útlitssjónarmiða. Þannig skal leitast við að draga úr hljóðmengun, nýta dagsbirtu til lýsingar eins og kostur er og lágmarka orkusóun, m.a. með reglubundinni stillingu tækja og fyrirbyggjandi viðhaldi. Rannsóknir hafa sýnt að slík atriði samrýmast oftast vellíðan starfsmanna á vinnustað. Velja skal gler sem gefur góða einangrun og uppfyllir a.m.k. lágmarkskröfur í byggingarreglugerð um einangrunargildi.
SAMGÖNGUR:
• Við kaup á ríkisbifreiðum á að hafa hliðsjón af sparneytni jafnt sem öðrum þáttum. Minnt er á að skv. alþjóðlegum skuldbindingum Íslendinga ber okkur eftir megni að draga úr útstreymi svokallaðra gróðurhúsalofttegunda og er mikilvægt að ríkisvaldið sýni þar ákveðið frumkvæði. Í því sambandi er rétt að athuga kosti bifreiða sem ganga fyrir díselolíu í stað bensíns (þær gefa frá sér minna koltvíoxíð, en meira af sóti og sumum öðrum mengunarefnum). Einnig ætti að fylgjast með þróun farartækja sem nota hreina og endurnýjanlega orku, s.s. raforku, með það að markmiði að nota þau til reynslu við aðstæður sem þeim gæti hentað.
VIRK ÞÁTTTAKA STARFSMANNA - FRÆÐSLA:
• Starfsfólki verði boðið á námskeið um umhverfismál og/eða fengnir verði sérfræðingar á því sviði á viðkomandi vinnustað til að halda fyrirlestra. Aðgengilegu fræðsluefni verði dreift til starfsfólks.
• Umhverfisstefna á vinnustað verður ekki virk ef hún er sett upp sem húsreglur án þess að að baki liggi áhugi og vilji starfsfólks. Takmarkið er að slík umhverfisstefna verði hluti af daglegu lífi starfsmanna, þar sem tekið er tillit til sjónarmiða umhverfisverndar hvort sem er á vinnustað, á heimili, á ferðalagi eða annars staðar.
Mikilvægt er að á hverjum vinnustað á vegum ríkisins verði einn maður gerður ábyrgur fyrir að koma á umhverfisstefnu í rekstri með því að hrinda ofangreindum tillögum í framkvæmd og eftir atvikum að koma með nýjar tillögur sem miða að sama marki. Eðlilegt er að sá maður sé umsjónarmaður innkaupa og almenns skrifstofuhalds.
Umhverfisráðuneytið mun eftir föngum leitast við að fylgjast með aðgerðum stofnana ríkisins og mun halda skrá yfir ábyrgðarmenn átaksins í einstökum stofnunum. Ráðuneytið mun í upphafi árs 1999 meta árangur átaksins og leggja fram frekari tillögur eftir því sem ástæða er til.