Skýrsla starfshóps um notkun farsíma í ökutækjum
SKÝRSLA STARFSHÓPS
UM
NOTKUN FARSÍMA VIÐ AKSTUR
Reykjavík, nóvember 1998
Inngangur.
I. Ályktun Alþingis, greinargerð og fyrirspurnir þingmanna.
II. Áhrif farsímanotkunar á slysatíðni í umferðinni.
III. Rannsóknir á farsímanotkun ökumanna.
IV. Lagastaðan á Íslandi og í öðrum löndum.
V. Möguleikar í löggjöf.
VI. Möguleikar á tæknibúnaði.
VII. Mat starfshópsins.
VIII. Samantekt.
Heimildaskrá.
Fylgiskjöl.
Inngangur.
Í starfshópinn voru skipuð Guðmundur H. Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn, tilnefndur af ríkislögreglustjóra, Óli H. Þórðarson framkvæmdastjóri, tilnefndur af Umferðarráði og Margrét Hauksdóttir deildarstjóri, tilnefnd af dómsmálaráðherra, sem jafnframt var skipuð formaður starfshópsins.
Starfshópurinn hóf störf í júlímánuði 1998 og hefur haldið alls 9 fundi. Örn Þ. Þorvarðarson deildarsérfræðingur hjá Umferðarráði hefur setið fundi hópsins, verið honum til aðstoðar og ritað fundargerðir.
Starfshópnum var ekki falið að skila skýrslu sinni fyrir tiltekinn tíma, en í skriflegu svari dómsmálaráðherra, dags. 2. mars 1998, við fyrirspurn á Alþingi um notkun síma í ökutækjum kom m.a. fram að fyrirhugað væri að fela starfshópi framangreint hlutverk og gert væri ráð fyrir að hópurinn skili niðurstöðum sínum næsta haust. Hefur vinna hópsins því tekið mið af framangreindu svari dómsmálaráðherra.
I. Ályktun Alþingis, greinargerð og fyrirspurnir þingmanna.
Tillaga til þingsályktunar um notkun síma í bifreiðum var flutt á Alþingi á árinu 1987 af fimm þingmönnum. Tillagan var svohljóðandi:
"Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir því að settar verði almennar reglur um notkun farsíma í ökutækjum hér á landi og þær kynntar ökumönnum og við ökukennslu. Skipuð verði átta manna nefnd sem í eiga sæti fulltrúar frá Ökukennarafélagi Íslands, Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, Bandalagi íslenskra leigubílstjóra, Pósti og síma og dómsmálaráðuneyti og skal fulltrúi þess jafnframt veita nefndinni forstöðu.
Nefndin skal hafa lokið störfum sínum fyrir 1. maí 1988. Kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði."
Í greinargerð með þingsályktunartillögunni er lýst kostum farsíma við íslenskar aðstæður og þeim tímasparnaði og því hagræði sem hann hefur í för með sér, en með vaxandi notkun farsíma sé sú sjón orðin algeng á Stór-Reykjavíkur-svæðinu að ökumenn tali í síma við akstur og að það sé áhyggjuefni og af því kunni að stafa slysahætta. Sérstaklega er vikið að því að ætla megi að símanotkun við akstur kynni að trufla unga og óreynda ökumenn. Þá er í greinargerðinni fjallað um sívaxandi umferðarþunga á vegum landsins, nauðsyn þess að ökumenn beiti varúð og árvekni við aksturinn og þá ekki síst á þéttbýlissvæðum, en víst sé að símasamtöl geta dregið athygli ökumanns frá akstrinum auk þess sem önnur hönd hans er teppt meðan á samtalinu stendur sem kynni að draga úr viðbragðsflýti ef hætta steðjaði að. Minnst er á í greinargerðinni hina miklu slysatíðni hér á landi, að ökumönnum sé meiri vandi á höndum hér á landi en víða annars staðar m.a. vegna ófullkomins vegakerfis og erfiðra veðurskilyrða. Þá séu börn meira úti í umferðinni hér á landi en víða annars staðar og því stærri áhættuhópur hér en í nágrannalöndum okkar. Flutningsmenn tillögunnar mæltust til þess að nefnd sú, sem lagt var til að yrði skipuð, yrði falið að finna leiðir til þess að auka fræðslu um áhrif notkunar síma á ökumenn við akstur og kanna hver áhrif aksturshraði kann að hafa í því sambandi, um leið og nefndin athugaði sérstaklega áhrif sívaxandi notkunar bifreiðasíma á þéttbýlissvæðum.
Þann 11. maí 1988 var svohljóðandi þingsályktun samþykkt:
"Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir því að settar verði almennar reglur um notkun farsíma í ökutækjum hér á landi og þær kynntar ökumönnum og við ökukennslu."
Í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn á Alþingi 1997 um hvað líði gerð reglna um notkun síma í bifreiðum samkvæmt framangreindri ályktun kom m.a. fram að þingsályktunartillagan hafi á sínum tíma verið send samgönguráðuneyti til meðferðar. Í skýrslu um framkvæmd þingsályktunartillögunnar frá 1990 segir að ályktunin hafi verið send póst- og símamálastjóra til umsagnar og að umsögn hans hafi falið í sér almennar ábendingar um notkun farsíma með umferðaröryggi í huga.
Fyrirspurn til dómsmálaráðherra kom á ný í febrúar 1998 um notkun síma í ökutækjum. Þar var í fyrsta lagi spurt hvort kannað hafi verið hvort símanotkun ökumanna við akstur hafi sannanlega valdið slysum á fólki og tjóni á ökutækjum. Samkvæmt þeim upplýsingum sem dómsmálaráðuneytið aflaði af tilefni fyrirspurnarinnar eru ekki dæmi um skráð umferðarslys, þ.e. hjá lögreglu, þar sem orsök umferðarslyss hefur verið rakin til notkunar farsíma. Samkvæmt upplýsingum tryggingarfélaga eru þess ekki mörg dæmi að ökumaður hafi viðurkennt að orsök umferðaróhapps eða slyss hafi mátt rekja til þess að hann hafi verið að tala í síma. Aftur á móti væru allmörg dæmi um að ökumenn að umferðaróhappi hafi fullyrt að hinn ökumaðurinn hafi verið að tala í síma þegar óhappið átti sér stað, gegn mótmælum þess síðarnefnda. Þá var í öðru lagi spurst fyrir um hversu mörg ökutæki séu búin símtæki. Í svari dómsmálaráðherra kom fram að samkvæmt umferðarkönnun 1997 er farsími í rúmlega fjórðu hverri bifreið hér á landi og er þá ekki tekið tillit til GSM-síma sem menn kunna að hafa lausa í bílum. Í þriðja lagi laut fyrirspurnin að því hvað hafi verið gert vegna ályktunar Alþingis frá 11. maí 1988 um að settar yrðu reglur um símanotkun í ökutækjum. Auk þess sem hér að framan er rakið kom m.a. fram í svari dómsmálaráðherra að Umferðarráð hafi haft þessi mál til meðferðar og í námi til almennra ökuréttinda er um þetta fjallað. Í bréfi til þeirra sem fá ökuskírteini er minnst á þá ábyrgð sem fylgir því að aka bifreið og varað við hættu af notkun farsíma í akstri. Þá er í námsefni til aukinna ökuréttinda fjallað um hættu af slíkri notkun sem og í ökukennaranámi. Eigendum og ökumönnum hópbifreiða hafa verið send bréf þar sem fjallað er um ábyrgð ökumanna hópbifreiða og þeir hvattir til að nota ekki farsíma í akstri. Einnig hafi í útvarpsþáttum og öðrum upplýsingum á vegum Umferðarráðs almennum leiðbeiningum verið komið á framfæri. Í fjórða og síðasta lagi var spurt hvort búast megi við að símanotkun ökumanna við akstur verði takmörkuð með lögum eins og ýmsar þjóðir hafi gert, nú síðast Danir. Greindi dómsmálaráðherra þá frá fyrirhugaðri skipun starfshópsins sem falið yrði að kanna þetta mál nánar, þ.e. áhrif og afleiðingar símanotkunar ökumanna á umferðaröryggi, svo og til hvaða úrræða eigi að grípa til að tryggja sem best umferðaröryggi hvað þetta varðar.
II. Áhrif farsímanotkunar á slysatíðni í umferðinni.
Ef ná skal hámarks öryggi við akstur þarf athygli á vegi og umferð að vera stöðug. Því vaknar spurning um hver áhættan sé þegar settur er búnaður í bifreiðir, sem getur orsakað að athyglin dregst frá akstrinum.
Á seinni árum hefur athygli beinst að þeirri hættu sem fylgir ýmsum tegundum samskipta- og upplýsingabúnaðar í bifreiðum. Mikilvægt er því að greina slysatíðni af völdum farsíma í víðara samhengi, þ.e. notkun almennra upplýsingakerfa í bifreiðum.
Einn þeirra þátta sem hafa ber í huga í sambandi við skoðun á slysum af völdum farsíma er fjölgun slysa þar sem bifreið hefur verið ekið yfir á rangan vegarhelming án sýnilegrar ástæðu. Skortur á athygli þeirra sem nota farsíma hefur af mörgum verið sett fram sem kenning um orsök slíkra umferðarslysa. Þrátt fyrir að ekki sé augljóst að notkun farsíma hafi átt þátt í slysunum er notkun síma í bifreið á ferð nokkuð sem krefst svo mikillar athygli að eðlilegt er að rannsakað verði að hve miklu leyti um er að ræða áhættuþátt í umferðinni.
Einnig er ástæða til að ætla að meirihluti handsíma séu einnig notaðir í bifreiðum þannig að notkunarhlutfallið eykst nánast með fjölgun áskrifenda.
Það er mikilvægt að benda á að aðgangur að farsíma hefur augljóslega jákvæð áhrif á umferðaröryggi þar sem möguleikar á að tilkynna hættur í umferðinni aukast. Einnig er unnt að kalla fyrr á hjálparlið ef slys verður og á þann hátt er hægt að draga úr alvarlegum afleiðingum umferðarslysa. Þá er almenn notkun farsíma til þess fallin að draga úr svokölluðum spennuakstri, t.d. þegar ökumaður sem ætlar sér að vera á tilteknum stað á tilteknum tíma getur látið vita ef hann tefst á leið sinni.
Mikilvægt er að greina á milli þess hvort haldið sé á símanum í hendinni á meðan símtalið fer fram eða hvort handfrjáls búnaður er notaður þannig að unnt sé að hafa báðar hendur á stýri.
Ætla má að notkun farsíma geti haft nokkur áhrif á slysatíðni:
· Minni möguleikar á að stjórna bifreiðinni.
· Minni athygli á meðan síminn er í notkun.
· Minni athygli á meðan á samtali stendur.
Notkun farsíma hefur áhrif á aksturinn:
· Aksturhæfni minnkar þegar númer er slegið inn og á meðan samtal varir.
· Akstur verður skrykkjóttur, sérstaklega á meðan númer er slegið inn.
· Á meðan samtal varir lengist viðbragðstími og athygli gagnvart annarri umferð skerðist. Þetta leiðir m.a. til þess að ökumenn sem tala í síma eru lengur að bregðast við t.d. þegar ökumaður á undan dregur úr hraða.
· Ökumenn draga úr ferð þegar þeir nota símann en sú minnkun virðist ekki vera nóg til að vega á móti þeirri lengingu sem verður á viðbragðstíma og þeirri skerðingu sem er á athygli gangvart annarri umferð.
Notkun farsíma með handfrjálsum búnaði virðist skerða aksturshæfni minna en ef haldið er á símanum.
III. Rannsóknir á farsímanotkun ökumanna.
Ökumenn hafa notað farsíma við akstur í mörg ár og frá því að notkun símanna hófst hefur verið rætt um þær hættur sem tengjast notkun þeirra í akstri. Margar rannsóknir hafa verið gerðar í öðrum löndum á farsímanotkun. Niðurstöður flestra þeirra sýna að almennt fylgir augljós hætta notkun síma við akstur og hættan eykst til muna undir vissum kringumstæðum.
Tveir nemendur við félagsvísindadeild Háskóla Íslands, þær Ásta Dís Óladóttir og Margrét Lilja Guðmundsdóttir unnu sumarið 1998 að viðamikilli könnun á umferðarmálum í tengslum við BA verkefni sitt. Í samantekt þeirra sem nefnist "Punktakerfið - ný refsiviðurlög við umferðarlagabrotum" kemur m.a. fram að þær spurðu hvort setja ætti ákvæði í umferðarlög sem takmarka notkun farsíma í akstri. Afstaða þátttakenda í könnuninni var mjög skýr. Mikill meirihluti eða 81,5% vill annað hvort banna með öllu notkun farsíma í akstri eða leyfa eingöngu notkun handfrjáls búnaðar. Aðeins 15,3% svarenda vildi ekki takmarka farsímanotkun við akstur. Konur eru frekar þeirrar skoðunar að algjört bann verði sett við farsímanotkun við akstur. Þeir sem eru í elsta aldursflokknum eru einnig frekar hlynntir algjöru banni. Þá má sjá að tekjuhæsti hópurinn vill síður en fólk í öðrum tekjuflokkum banna með öllu notkun farsíma í akstri. Greinilegt er að fólk vill sjá breytingar hvað varðar notkun farsíma í akstri. Ýmist vill það ganga svo langt að banna hana alveg, eða takmarka hana með því að leyfa eingöngu notkun handfrjáls búnaðar. Niðurstöðurnar má sjá í töflunni hér að neðan.
Fjöldi
|
Hlutfall
|
|
Já, banna alveg notkun farsíma |
191
|
30,4%
|
Já, leyfa mönnum eingöngu að nota handfrjálsan búnað |
321
|
51,1%
|
Nei, leyfa mönnum að nota farsíma að vild |
96
|
15,3%
|
Veit ekki |
20
|
3,2
|
Samtals svöruðu |
628
|
100,%
|
Tryggingafélagið Sjóvá/Almennar hefur staðið fyrir námskeiðum fyrir unga ökumenn. Á námskeiðunum hefur m.a. verið gerð könnun á afstöðu til farsímanotkunar ökumanna og samkvæmt henni vilja 58,5% þátttakenda banna notkun farsíma í akstri og 2,4% ökumanna höfðu lent í umferðaróhappi þegar þeir voru að tala í farsíma.
Vísindamenn eru ekki sammála um hvaða augnablik farsímanotkunar í akstri sé hættulegast. Briem og Hedman sýndu fram á að aðgerðir sem tengjast sjálfu símtólinu skerða athygli ökumanna mest og skiptir engu hvort um sé að ræða farsíma með handfrjálsum búnaði eða ekki. Valdimar Briem, Leif R. Hedman, Karl Radberg, 1995 Þetta átti þó einkum við undir erfiðum akstursskilyrðum. Brookhuis o.fl. komust að svipaðri niðurstöðu. K.A. Brookhuis, 1991 En hjá þeim kom í ljós að athygli ökumanns skerðist enn frekar ef síminn er ekki búinn handfrjálsum búnaði. Í Svíþjóð gerði Johansen nýlega könnun (1998) á farsímanotkun og komst að því að það er ekki meðhöndlun símtækisins við akstur sem er hættulegust heldur sjálft símtalið því ökumaður getur þurft að hafa alla einbeitingu við samtalið og við það skerðist viðbragð hans mjög mikið. Briem og Hedman sýndu einnig fram á í rannsókn sinni að ef ökumaður talar í síma á ferð þá verði hann að deila athyglinni á milli símtals og stjórnunar ökutækis sem leiðir til skerðingar athygli jafnt á símtali sem akstri og á það bæði við um akstur við auðveldar og erfiðar aðstæður.
Aðrar rannsóknir sem gerðar hafa verið á farsímanotkun ökumanna gefa til kynna að hæfni til aksturs minnkar hjá þeim ökumönnum sem nota farsíma. Í rannsóknum Brown o.fl. 1969; Drory 1985; California Highway Patrol 1987; Zwahlen o.fl., 1988; Stein o.fl., 1989; Nilsson og Alm, 1991; Alm og Nilsson, 1992, 1994 og 1995 hefur komið fram að aldur ökumanns hefur áhrif á hæfni hans til aksturs sé farsími notaður og að einhverju leyti hefur komið fram munur eftir kyni.
Tengsl á milli farsímanotkunar og umferðarslysa hafa nýlega verið rannsökuð í þremur bandarískum rannsóknum. Í þeirri fyrstu (Violanti og Marshall, 1996) kom í ljós að þeir sem eru með farsíma í bifreiðum sínum voru líklegri til að lenda í umferðarslysum en þeir sem ekki höfðu farsíma. Í annarri rannsókninni (Violanti 1997) kom í ljós að 13% að þeim sem söguðst nota farsíma í akstri höfðu lent í umferðarslysum síðastliðin tvö ár á meðan 9% þeirra sem ekki notuðu farsíma lentu í slysum. Þeir ökumenn sem töluðu lengst og lentu í erfiðustu símtölunum höfðu mestu slysatíðnina. Í þriðju rannsókninni (Redelmeier og Tibshirani, 1997) voru símreikningar ökumanna sem lent höfðu í umferðarslysum skoðaðir gaumgæfilega. Í ljós koma að slysastíðni var 4,8 hjá þeim ökumönnum sem talað höfðu í síma allt að fimm mínútum fyrir umferðarslys (meðalslysatíðnin var 1) en 1,3 hjá þeim sem luku símtali 15 mínútum eða lengur áður en slysið varð. Slysatíðnin er því fjórum sinnum meiri hjá þeim sem töluðu í farsíma rétt áður eða um það bil sem slysið varð.
Rannsókn Redelmeier og Tibshirani er sú umfangsmesta sem gerð hefur verið um farsímanotkun og slysahættu. Í rannsókninni skráðu þeir notkun farsíma í umferðarslysum í Toronto. Þeir töldu hættumörk vera síðustu 10 mínúturnar áður en slys varð og það var kannað hvort um farsímanotkun hafi verið að ræða á þessu tímabili hjá ökumanni.Niðurstöðurnar sýndu að 170 ökumenn höfðu notað farsíma síðustu 10 mínúturnar fyrir árekstur samanborið við aðeins 37 ökumenn í samanburðarhópnum. Þetta sýnir að slysaáhætta virðist vera fjórum sinnum meiri ef farsími er notaður. Ef litið var til þess hvort notaður væri handfrjáls búnaður eða ekki þá var ekki verulegur munur á áhættunni. Þessi rannsókn virðist mjög traust sé litið á hana frá aðferðarfræðilegu sjónarhorni og mjög erfitt er að mæla gegn niðurstöðunum, sem sýna að aukin slysaáhætta tengist farsímanotkun. Þó koma fram villur sem að einhverju leyti geta haft áhrif á niðurstöðurnar, þannig að veruleg óvissa er um hve mikið áhættan eykst. Mesta óvissan felst í nákvæmri tímasetningu á árekstrinum því alltaf er hætta á því að símtal sem er sett innan 10 mínútna rammans eigi að vera þar fyrir utan. Höfundar rannsóknarinnar hafa bent á að rannsóknin sýni aðeins að það sé tölfræðilegt samband á milli farsímanotkunar og slysaáhættu. En það þarf ekki að merkja að orsakasamband sé þar á milli. Einnig má benda á að niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að samtal í akstri hefur meiri áhrif á slysaáhættu en hvort haldið sé á símanum eða handfrjáls búnaður sé notaður.
Í nýlegri norskri rannsókn (TÖI 1998) eru niðurstöðurnar ekki í samræmi við þær sem sagt er frá hér á undan. Niðurstöðurnar leiða í ljós að notkun farsíma við akstur hafi ekki nein mælanleg neikvæð áhrif á aksturinn.
Í Þýskalandi hafa farið fram rannsóknir til að komast að því hvort banna eigi notkun farsíma við akstur. Árið 1996 gerði lögregla könnun á því hve margir þeirra sem lentu í umferðarslysum notuðu farsíma. Samhliða var gerð könnun til að sjá hve margir notuðu farsíma. Í ljós kom að u.þ.b. 8% ökumanna voru með farsíma; af þeim voru 30% með handfrjálsan búnað. Akstur ökumanna með farsíma er yfir meðaltali. Telja má að akstur þeirra sé um 15% heildaraksturs í Þýskalandi. Þegar umferðarslys voru skoðuð kom í ljós að 6% þeirra áttu aðild að slysi með meiðslum og 7% að eignatjónsóhöppum. Af þessu er ekki hægt að álykta að slysatíðni sé meiri hjá ökumönnum með farsíma. Slysatölur og niðurstöður könnunarinnar sem gerð var sýna að meirihluti símanna er í kraftmeiri og nýlegri bifreiðum.
Í maí 1997 var í Austuríki gerð rannsókn við gangbrautir á ökumönnum sem nota farsíma. Fylgst var með 5.219 ökumönnum og höfðu 2% (104) alla athygli við notkun farsíma og í ljós kom að 73% þeirra stöðvuðu ekki bifreið sína við gangbraut svo gangandi vegfarendur kæmust yfir götu. Aðeins 27% þeirra sem voru að tala í farsíma stoppuðu fyrir gangandi vegfarendum. Meðal ökumanna sem notuðu ekki farsíma var þetta hlutfall 40%. Dr. Schützenhöfer, sem stóð fyrir rannsókninni segir að staðreynd sé að truflunin sem verði af notkun farsíma við akstur sé svo mikil að ökumaðurinn taki ekki eftir gangandi vegfarendum.
The Royal Society for Prevention of Accidents í Bretlandi hefur með tilraunum í ökuhermi sýnt fram á að farsími getur verið hættulegur jafnvel þótt hann sé handfrjáls. Tilraunin fór þannig fram að einstaklingum var boðið í ökuhermi þar sem ökumaður sat eins og hann væri undir stýri á bifreið. Þegar hann sá rautt ljós fyrir framan sig átti hann að nauðhemla og var mælt hve langur tími leið frá því ökumaður sá ljósið þar til hann hemlaði. Að þessu loknu var tilraunin endurtekin og var ökumaðurinn þá látinn svara spurningum sem beint var til hans líkt og úr handfrjálsum farsíma með orðunum rétt/rangt jafnhliða því sem hann þurfti að fylgjast með rauða ljósinu. Niðurstöður tilraunarinnar sýndu að í öllum tilvikum var ökumaðurinn seinni að hemla á meðan hann var undir yfirheyrslunni. Talsmaður ROSPA segir að stundum muni þetta allt að heilli sekúndu. Þeir sem gagnrýnt hafa þessa tilraun hafa sagt að þátttakendur sitji undir spurningaflóði og telji að þeir þurfi að vanda svör sín. Því megi búast við því að þeir veiti spurningunum meiri athygli en ef verið væri að spjalla um almennt efni í farsímann.
Í Finnlandi hefur verið gerð nýleg rannsókn (1998)á farsímanotkun ökumanna. Þar kom í ljós að 43% þeirra sem nota bifreið í vinnutíma eru með handfrjálsan búnað í bifreiðinni. Fjórir af hverjum 10 farsímaeigendum draga úr ökuhraða á meðan þeir tala í símann og u.þ.b. 10% stöðva bifreiða í vegkanti. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að 25% þeirra sem tóku þátt í henni höfðu lent í hættulegum aðstæðum að þeirra mati vegna notkunar farsíma við akstur.
Ýmsar tillögur sem miða að fækkun slysa sem orsakast af notkun farsíma hafa verið settar fram. Þróun símtækja og aukin fræðsla til almennings um notkun þeirra er mjög mikilvægur þáttur til að koma í veg fyrir slys af völdum notkunar þeirra í akstri.
Mikill meirihluti þeirra rannsókna sem gerðar hafa verið benda til þess að notkun farsíma í akstri leiði til aukinnar slysatíðni. Þó er mismunandi eftir rannsóknum hvaða atferli það er nákvæmlega varðandi farsímanotkunina sem hefur mesta slysahættu í för með sér. Svo virðist sem það sé mismunandi eftir löndum.
IV. Lagastaðan á Íslandi og í öðrum löndum.
Í umferðarlögum nr. 50/1987 eru ekki bein ákvæði sem lúta að notkun farsíma, en í 4. gr. er mælt fyrir um að vegfarandi skuli sýna tillitssemi og varúð svo að eigi leiði til hættu eða valdi tjóni eða óþægindum og þannig að eigi trufli eða tefji umferð að óþörfu. Þetta almenna ákvæði á auðvitað við um notkun farsíma og gerir mönnum skylt að nota farsímann á þann veg að ekki leiði til hættu í umferðinni. Síðan hafa verið settar sérstakar reglur í reglugerð um staðsetningu farsíma í ökutækjum sem miða að því að draga úr slysahættu, sbr. 20. gr. reglulgerðar um gerð og búnað ökutækja nr. 411/1993 ásamt síðari breytingum.
Nokkur lönd í Evrópu hafa sett ákvæði í lög um notkun farsíma meðan á akstri stendur. Þau eru eftirfarandi samkvæmt upplýsingum úr skýrslu frá norskri umferðarrannsóknar-stofnun Transportøkonomisk Institutt TøI (Saagberg & Vaa 1995) og upplýsingum um Norðurlöndin sem starfshópurinn hefur aflað:
Ítalía – Þar er bann við notkun farsíma við akstur ef ekki er notaður handfrjáls búnaður.
Sviss – Þar er aðeins heimilt að nota farsíma með handfrjálsum búnaði við akstur, en bannið er grundvallað á dómaframkvæmd á reglum sem ekki fjalla gagngert um farsímanotkun heldur kveða á um að báðar hendur skulu vera tiltækar til að stjórna bifreiðinni og ætíð skuli minnst önnur hönd vera á stýrinu. Ákvæðið hefur verið túlkað svo að farsímar sem þarf að halda á í hendi séu ekki leyfilegir. Heimilt er að slá inn númer á handfrjálsan búnað.
Frakkland og Austurríki – Þar er einnig að finna ákvæði um að a. m. k. önnur hönd skuli vera á stýri, en þau hafa ekki verið túlkuð á sama hátt og í Sviss.
Spánn og Portúgal – Þar er aðeins leyfilegt að nota handfrjálsan farsíma við akstur og bann er við því að slá inn símanúmer á handfrjálsan síma á ferð.
Danmörk – Þann 1. júlí 1998 gekk í gildi bann við notkun farsíma við akstur án handfrjáls búnaðar. Bannið nær einnig til annarra ökumanna en þeirra sem stjórna vélknúnum ökutækjum, þ.e. hjólreiðamanna og reiðmanna og í vissum tilvikum notenda hjólastóla. Samkvæmt danska ákvæðinu getur ráðherra sett nánari reglur um notkun símabúnaðar eða þess háttar búnaðar til notkunar í akstri. Miðað er að því að þannig sé hægt að tryggja að reglur verði í samræmi við tækniþróun á handfrjálsum búnaði. Samkvæmt leiðbeiningum Færdelsstyrelsennr. 77 frá 19. maí 1998 kemur m.a. fram að ríkissaksóknari hafi tilkynnt lögreglustjórum að brot á ákvæðinu varði sektum að fjárhæð Ikr. 3000.-
Í Belgíu, Tékklandi, Svíþjóð, Noregi, Hollandi, Þýskalandi, Finnlandi og Bretlandi gildir almennt ákvæði, sbr. og 4. gr. umferðarlaganna hér á landi, og er í athugun í nokkrum þeirra að koma á banni við notkun farsíma án handfrjáls búnaðar í akstri. Samkvæmt upplýsingum frá samgönguráðuneytinu í Noregi er nú unnið að gerð frumvarps þar sem mælt verði fyrir um takmarkanir á notkun farsíma við akstur. Gert er ráð fyrir að frumvarpið muni liggja fyrir í lok þessa árs.
Þann 1. október 1998 tóku gildi reglur í Evrópusambandinu sem eru þær ströngustu sem settar hafa verið í heiminum um árekstravarnir í bílum. Þær miða að því að fækka dauðsföllum í umferðinni, en á hverjum degi látast eða slasast alvarlega tvö hundruð og fimmtíu einstaklingar í umferðinni í Evrópu. Bílar sem framleiddir verða í aðildarríkjunum skulu vera styrktir sérstaklega að framan og á hliðum til að geta staðist árekstur á fimmtíu til sextíu kílómetra hraða. Nýju reglurnar þykja mikil framför að mati þeirra sem vinna að umferðarvörnum, en þeir benda þó á að sterkari bílar breyti ekki öllu. Það sé áhyggjuefni að engar reglur séu í gildi um notkun farsíma í bílum.
V. Möguleikar í löggjöf.
Í skýrslu (TøI) eru teknir saman nokkur mismunandi möguleikar á lagasetningu um notkun farsíma við akstur. Þeir eru eftirfarandi:
(1) Bann við allri notkun farsíma við akstur. Það getur sennilega komið í veg fyrir umferðaróhapp sem verður vegna skertrar athygli ökumanns og skerts möguleika hans á að stjórna bifreið samfara notkun farsíma. Það getur þó aukið hættu á umferðaróhöppum og skapað hættulegar aðstæður ef bifreið er stöðvuð í því skyni að hringja úr farsíma eða taka við símtali.
(2) Bann við notkun farsíma sem halda verður á, þ.e.a.s. að farsíminn skuli vera handfrjáls meðan á akstri stendur. Það getur dregið úr hættu á umferðaróhöppum þar sem áhættan er minni með handfrjálsan farsíma. Sú áhætta sem fylgir því að ökumaður er upptekinn af samtalinu minnkar vitaskuld ekki og áhættan sem verður við að bifreið er stöðvuð í vegarkanti getur jafnvel aukist ef hlutfall handfrjálsra farsíma eykst ekki í kjölfar bannsins.
(3) Boð um að farsími skuli vera fastur í bifreiðinni eða í sérstöku statífi, en án þess að gerð er krafa um handfrjálsa notkun. Þetta getur haft áhrif á þegar slegið er inn númer á farsíma, þar sem þegar slegið er inn númer á farsíma sem haldið er á í hendi virðist draga meira úr athygli ökumanns en það að setja símann á sinn stað aftur.
(4) Krafa um að farsími skuli vera handfrjáls og einnig meðan beðist er þjónustunnar. Hægt er að fá farsíma (a.m.k. í Danmörku og Noregi) sem uppfylla þessar kröfur. Í samanburði við lið 2 er hér um að ræða mun meiri fyrirbyggjandi áhrif á þann áhættuþátt sem fylgir því að hringja úr farsíma og taka við símtali.
Hafa ber í huga að ávallt eru um að ræða huglæg áhrif hjá ökumanninum af samtalinu sjálfu. Þetta er einasti áhættuþátturinn sem ekki er hægt að draga úr með tæknilegum úrræðum.
Handfrjáls búnaður til notkunar síma í ökutækjum hefur verið lengi fáanlegur hér á landi. Hann hefur hinsvegar verið dýr í samanburði við verð símtækjanna.
Í Bandaríkjunum hefur verið framleiddur athyglisverður búnaður sem fæst nú hér á landi. Um er að ræða einfalda lausn og fyrirferðalitla. Handfrjálsi búnaðurinn er ekki annað en lítið tengistykki sem stungið er í rauf símans. Um er að ræða örlítið tæki sem er bæði hljóðnemi og hátalari í senn og snúra sem tengir þetta tvennt saman. Eyrnatækinu er stungið í annað eyrað með hjálp eyrnatútta úr gelefni. Í "geltúttunum" er rauf sem hleypir utanaðakomandi hljóðum inn í eyrað t.d. sírenuvæli þannig að ökumaður er meðvitaður um það sem gerist í umferðinni. Eyrnatækið, sem er stafrænt, er hannað til að nema rödd notandans og minnka bakgrunnshávaða þannig að viðmælandinn heyri sem best. Rödd viðmælandans berst beint inn í eyrað og heyrist því betur en þegar símatæki er þrýst að eyranu. Tækið virkar þannig að GSM sími er stilltur á sjálfvirka svörun. Þegar hringt er í símann svarar hann sjálfkrafa eftir tvær (eða færri/fleiri) hringingar og notandinn er kominn í samband. Sambandið rofnar þegar viðmælandinn leggur á. Þegar hringt er úr símanum þarf að slá inn númerið. En meðan talað er, sem oft tekur langan tíma, getur ökumaður notað báðar hendur við aksturinn. Sambandið rofnar síðan þegar lagt er á.
Vegna vaxandi samkeppni með fjölgun símaþjónustufyrirtækja hefur verð á símtækjum farið lækkandi að undanförnu og þá sérstaklega verð á GSM símum. Þeir eru nú fáanlegir allt niður í 3.900.- með því að kaupandi skuldbindur sig í áskrift hjá tilteknu símaþjónustufyrirtæki í lágmarkstíma. NMT símar eru mun dýrari. Útbreiðslukerfi þeirra er mun stærra hér á landi en GSM síma, sbr. fylgiskjöl.
Tvær gerðir símtækja eru notaðar í ökutækjum þ.e. NMT og GSM símar. Mismunur tækjabúnaðar er aðallega sá að NMT símar eru með sérstökum ísetningarbúnaði sem fylgir möguleiki til handfrjálsrar notkunar símans. Við GSM síma þarf hins vegar að kaupa sérstakan búnað til handfrjálsrar notkunar. Ýmsar gerðir búnaðar eru fáanlegar, en sá búnaður er nokkuð dýr samanborið við verð símtækjanna. Ástæða þess er m.a. sú að við innflutning er þessi búnaður settur í tollflokk 8515 3000 og ber 7,5% toll og 25% vörugjald ásamt virðisaukaskatti. Verð þessa búnaðar er nú frá kr. 6000.- fyrir GSM síma, en frá um 20.000.- fyrir NMT síma.
VII. Mat starfshópsins.
Ljóst er að mikil aukning er á notkun farsíma hér á landi. Starfshópurinn leitaði upplýsinga hjá símafyrirtækjum hér á landi um fjölda notenda GSM-síma og NMT-síma. Í bréfi Landssímans hf. til starfshópsins, dags. 6. október sl., kemur fram að fjöldi notenda GSM síma þar er nú 59.664 og fjöldi NMT notenda er 25.730. Samkvæmt bréfi TALs hf., dags. 5. október sl., var fjöldi notenda GSM síma þar 7000. Í upplýsingum frá Landssímanum hf. er birtust í Degi 6. október sl. hefur GSM-símanotendum fjölgað um 150% frá ársbyrjun 1997 og hefur aukningin aldrei verið jafnmikil eins og síðastliðið vor. Ástæður þess má m.a. rekja til þess að verð á símtækjum fer lækkandi og GSM-afnotagjöldin fara lækkandi. Að sögn upplýsingarfulltrúa Landssímans er fyrirsjáanlegt að munur á símgjöldum venjulegra síma og GSM-síma minnki á næstu árum og fjölgun notenda GSM- síma hraðar þeirri lækkun. Þá virðist aukning notkunar GSM-síma vera í miklum mæli hjá ungu fólki og hefur nefndin áhyggjur af notkun farsíma við akstur hjá ungum ökumönnum sem eru að hefja sinn akstursferil. Ljóst er að slysahætta ökumanna á aldrinum 17-20 ára hefur verið mun meiri en annarra aldurshópa undanfarin ár og við bætist nú þessi áhættuþáttur.
Starfshópurinn leggur áherslu á að þörf er á fræðslu um notkun farsíma við akstur. Um þessar mundir vinna Umferðarráð og Landssíminn hf. að gerð bæklings sem fyrirhugað er að dreifa með NMT- og GSM- símreikningum Landssímans hf. Í bæklingnum er m.a. dregið fram að vandasamt er að aka bíl samtímis og talað er í farsíma. Þá er kostum farsíma lýst og gefnar upplýsingar um hvaða áhrif símanotkun við akstur hefur á ökumanninn og akstur hans og að lokum gefnar ábendingar um notkun farsíma í bílum. Það var rætt í nefndinni að heppilegt sé að bæði símafyrirtækin sem nú starfa hér á landi standi að dreifingu bæklingsins þannig að tryggt sé að hann berist öllum notendum farsíma. Það er álit starfshópsins að útgáfa og dreifing bæklings um notkun farsíma við akstur sé ekki nægjanleg til að tryggja sem best umferðaröryggi í þessu sambandi. Þó svo að ekki liggi fyrir óyggjandi upplýsingar um að notkun farsíma við akstur leiði til umferðaróhappa hafa rannsóknir sýnt fram á að aksturinn við þær aðstæður verði óöruggari og viðbragðstími ökumannsins lengri.
Með vísan þess, til aukins fjölda notenda farsíma, sem ekkert lát virðist á, aukins fjölda ungra ökumanna sem notenda farsíma og með hliðsjón af afstöðu ökumanna sjálfra leggur starfshópurinn til að ákvæði verði sett í umferðarlög sem leggi bann við notkun farsíma við akstur án handfrjáls búnaðar. Ákvæðið gæti komið sem 57. gr. a umferðarlaganna og efnislega sams konar og nýtt ákvæði í dönsku umferðarlögunum sem er svohljóðandi:
"Stjórnendur ökutækja mega ekki nota farsíma við akstur sem ekki eru búnir handfrjálsum búnaði.
Umferðarmálaráðherra getur sett nánari reglur um notkun annars símabúnaðar við akstur."
Starfshópurinn leggur til að miðað verði við að a.m.k. sex mánuðir líði frá birtingu laga þar að lútandi þar til að þau taki gildi. Talið er nauðsynlegt að hafa nokkurn aðdraganda að slíku banni í lögum til að svigrúm gefist til að kynna almenningi bannið og undirbúa það að handfrjáls búnaður verði fáanlegur í nokkru úrvali hér á landi.
Til umræðu kom í starfshópnum hvort leggja ætti til bann á alla notkun farsíma hjá tilteknum hópum ökumanna við ákveðnar aðstæður. Er þar fyrst að nefna ökukennara þegar þeir eru við kennslu. Það verður að teljast afar slæm fyrirmynd fyrir hina verðandi ökumenn að ökukennari þeirra sé upptekinn í farsíma meðan hann á að leiðbeina nemanda og á sama tíma að bera ábyrgð á akstri hans. Að meginstefnu til á það sama við um bann notkunar farsíma hjá leiðbeinendum við leiðbeinendaakstur. Þá var einnig rætt um hvort leggja ætti til bann á stjórnendur hópbifreiða að nota farsíma við akstur með farþega þar sem þeir bera ábyrgð á lífi og öryggi fjölda farþega. Horfið var frá þeirri hugmynd að sérreglur gildi um tiltekna hópa ökumanna en lögð er áhersla á mikilvægi leiðbeininga til þeirra.
Starfshópurinn telur að boð um notkun handfrjáls búnaðar farsíma við akstur gefi til kynna að umferðaröryggi sé stefnt í hættu við notkun farsíma við akstur og bann við notkun farsíma við akstur án handfrjáls búnaðar muni að öllum líkindum leiða til minni notkunar á farsíma við akstur og hvetji framleiðendur og innflytjendur að bjóða upp á einfaldan og ódýran handfrjálsan búnað.
Starfshópurinn leggur til að bann við notkun farsíma við akstur án handfrjáls búnaðar verði refsilaust í eitt ár frá gildistöku bannsins. Eftir það verði heimilt að leggja á sektir vegna brota við því banni. Starfshópurinn gerir sér grein fyrir því að eftirlit með þessu banni er erfiðleikum háð, en telur að það eigi ekki út af fyrir sig að koma í veg fyrir slíkt bann. Þá er bent á varnaðaráhrif sektarheimildar vegna brota á fyrrgreindu banni.
Starfshópurinn leitaði upplýsinga hjá fjármálaráðuneyti um möguleika á því að fella niður tolla og vörugjald á handfrjálsum búnaði vegna farsíma. Þar kom fram að ekki væri fyrirsjáanlegt annað en það væri vel framkvæmanlegt að uppfylltum lagaskilyrðum. Með vísan til þess leggur starfshópurinn til að handfrjáls búnaður farsíma í bifreiðum verði án tolls og vörugjalds á sama hátt og símtækin sjálf þar sem slíkur búnaður er að mati hópsins til þess fallinn að stuðla að auknu umferðaröryggi.
VIII. Samantekt.
Með vísan til þess sem er rakið í kaflanum hér að framan eru tillögur starfshóps, sem falið var að kanna áhrif og afleiðingar símanotkunar ökumanna við akstur á umferðaröryggi og til hvaða úrræða eigi að grípa til að tryggja sem best umferðaöryggi hvað þetta varðar, eftirfarandi:· að ákvæði verði sett í umferðarlög, 57. gr. a, sem leggi bann við notkun farsíma við akstur án handfrjáls búnaðar,
· að miðað verði við að a.m.k. sex mánuðir líði frá birtingu laga þar að lútandi þar til að þau taki gildi,
· að bann við notkun farsíma við akstur án handfrjáls búnaðar verði refsilaust í eitt ár frá gildistöku bannsins,
· að handfrjáls búnaður farsíma í bifreiðum verði án tolls og vörugjalds.
Heimildaskrá.
Alþingistíðindi 1987-1988 A-deild 32. mál. Reykjavík. Alþingi.
Alþingistíðindi 1996-1997 B-deild 360. mál. Reykjavík. Alþingi.
Alþingistíðindi 1997-1998 B-deild 488. mál. Reykjavík. Alþingi.
Alm, H. og Nilsson, L. (1991). Effects of mobile telephone use on elderly drivers behaviour - including comparisons to young drivers behaviour, Swedish Road and Traffic Research Institute, Linköping, Sweden.
Alm, H og Nilsson, L. (1992). The effects of a mobile telephone conversation on driver behavior in a car following situation, Swedish Road and Traffic Research Institute, Linköping, Sweden, Óbirt rannsókn.
Alm, H. og Nilsson, L. (1994). Change in driver behavior as a function of handsfree mobile telephones. A simulator study, Accident analysis and Prevention, 441-451.
Alm, H. og Nilsson, L. (1995). The effects of a mobile telephone task on driver behaviour in a car following situation, Accident analysis and Prevention, 707-715.
Ásta Dís Óladóttir og Margrét Lilja Guðmundsdóttir (1998). Punktakerfið - ný refsiviðurlög við umferðarlagabrotum, verkefni unnið við félagsvísindadeild Háskóla Ísland.
Brookhuis, K. A., De Vries, G. og De Waard, D. (1991). The effects of mobile telephoning on driving performance; Accident analysis and Prevention, 309-316.
Brown, I. D., Tickner. A. H. og Simmonds, D. C. V. (1969) Interference between concurrent tasks of driving and telephoning; Journal of Applied Psychology, 419-424.
California Highway Patrol (1987). A special report to the legislature on the findings of the mobile telephone safety study;Department of the California Highway Patrol, Senate Concurrent Resolution No. 8, Los Angeles.
European Road Safety (1997). Mobile Telephone at the Ear Blind to Pedestrians, News nr. 10.
Drory (1985). A. Effects of rest and secondary task on stimulated truck-driving task performance, Human Factors, 201-207.
Færdselsstyrelsen (1998). Vejledning om færdselslovens forbud mod andvendelse af håndholdte mobiltelefoner under kørsel. Ministerialtidende nr. 77.
Helberg, N. og Larsen, L. (1996). Anvendelse af mobiltelefoner under kørsel. Rådet for Trafiksikkerhedsforskning. Arbejdsrapport 6/1996. Gentofte.
Lenz, I. K. H., (1998). Road Traffic and Safety Research in Germany, erindi haldið á vegum Vegagerðinnar 7. Júlí.
Liikenneturva (1998). Nästan alla som kör I sitt jobb har mobiltelefon i bil.
Stein, A. C., Parseghian, Z. og Allen, R. W. (1989). A simulator study of the safety implications of cellular mobile phone use, American Association for Automotive Medicine, Proceedings of the 31st Annual Conference (AAAM, Desplaines).
Redelmeier, D. A. og Tibshirani, R. J. (1997). Association between cellular telephones calls and motor vehicle collisions, The New England Journal of Medicine, 453-458.
Sagberg, F. (1998). Betydningen av mobiltelefonbruk for ulykkesrisiko i trafikken, TÖI-rapport nr. 387.
Sjóvá/Almennar. Óbirtar spurningakannanir sem lagðar voru fyrir unga ökumenn á námskeiðum 1998.
ROSPA – The Royal Society for Prevention of Accidents (1998). Tilraunir gerðar á sýningunni Motor Show sem haldin var í Birmingham á Englandi. 21. október – 1. nóvember.
Umferðarráð (1987-1998). Umferðakannanir.
Violanti, J. M. og Marshall, J. R. (1996). Cellular phones and traffic accidents, an epidemiological approach, Accident analysis and Prevention, 265-270.
Violanti, J. M. (1997). Celluar phones and traffic accidents, Public Health, 423-428.
Valdimar Briem, Hedman L. R. og Radberg K (1995). Behavioural and cognitive effects of mobile telephone use during simulated driving; Department of Psychology, Lund University, Sweden.
Zwahlen, H. T., Adams Jr., C. C. og Schwartz, P. J. (1988). Safety aspects of cellular telephones in automobiles 18th International Symposium on Automotive Technology and Automation vol 1 (Allied Automation, Croydon).
Fylgiskjöl.
Útbreiðslumynd GSM farsímakerfis Landssímans í september 1998.
Yfirlit yfir GSM stöðvar Landssímans í september 1998.
Útbreiðslumynd NMT farsímakerfis Landssímans í september 1998. Myndin miðast við notkun 15W farsíma, en flestir NMT handsímar eru 2W.
Yfirlit yfir NMT stöðvar Landssímans í september 1998.