Auglýsing varðandi íslenskan ríkisborgararétt
Auglýsing
varðandi íslenskan ríkisborgararétt
Með lögum nr. 62 12. júní 1998 um breyting á lögum um íslenskan ríkisborgararétt nr. 100/1952 er sett ákvæði til bráðabirgða þar sem þeim hjónabandsbörnum íslenskra mæðra og erlendra feðra, sem fædd eru á tímabilinu eftir 1. júlí 1964 en fyrir 1. júlí 1982 og hefðu öðlast íslenskt ríkisfang ef lagabreyting, sem tók gildi 1. júlí 1982, hefði verið í gildi við fæðinguna, er veitt heimild til að öðlast íslenskan ríkisborgararétt að fullnægðum tilteknum skilyrðum.
Þeir sem óska eftir að notfæra sér þessa heimild skulu tilkynna það til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.
Samkvæmt lagaákvæðinu skal móðir barns sem fætt er á þessu tímabili og er innan 18 ára aldurs lýsa yfir að hún óski eftir íslenskum ríkisborgararétti fyrir barn sitt og skal barnið einnig samþykkja yfirlýsinguna. Móðirin skal vera íslenskur ríkisborgari og hafa forsjá barnsins.
Hafi barn sem lagaákvæði þetta á við náð 18 ára aldri getur það tilkynnt ráðuneytinu um að það óski eftir að nýta sér þessa heimild til að fá íslenskan ríkisborgararétt. Í því tilviki skal móðirin hafa haft íslenskan ríkisborgararétt við fæðingu barnsins og a.m.k. til 1. júlí 1982 og barnið skal fullnægja skilyrðum 8. gr. laga um íslenskan ríkisborgararétt til að vera íslenskur ríkisborgari. Samkvæmt þeirri lagagrein skal barnið vera fætt hér á landi eða hafa átt lögheimili hér áður en það náði 22ja ára aldri eða dvalið hérlendis umtalsverðan tíma áður en þeim aldri var náð.
Yfirlýsingu eða tilkynningu þess sem óskar eftir að notfæra sér ofangreindan rétt skulu fylgja eftirtalin gögn:
1. Fæðingarvottorð barnsins.
2. Fæðingarvottorð móðurinnar.
3. Gögn um ríkisborgararétt móðurinnar.
4. Gögn um forsjá móður sé barnið undir 18 ára aldri.
5. Vottorð Hagstofu Íslands um búsetu eða önnur gögn um dvöl hér á landi sé barnið yfir 18 ára aldri og ekki fætt hérlendis.
6. Upplýsingar um í hvaða ríki barnið á nú ríkisborgararétt.
Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, 23. júní 1998.