Skýrsla dómsmálaráðherra um útgjöld vegna laga um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota.
(Lögð fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)
Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 69/1995, um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, skal dómsmálaráðherra á ári hverju til ársloka 2000 gera Alþingi grein fyrir þeim útgjöldum sem lögin hafa í för með sér. Í þessari skýrslu er gerð grein fyrir útgjöldum á árinu 1998.
Lögin um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota tóku gildi 1. júlí 1996. Gilda þau um tjón sem leiðir af brotum á almennum hegningarlögum sem framin voru 1. janúar 1993 og síðar, og eru skilyrði fyrir greiðslu bóta úr ríkissjóði nánar tilgreind í lögunum.
Heildargreiðsla úr ríkissjóði árið 1998 nam 25.383.809 kr. í 40 málum eða 634.595 kr. að meðaltali.