Hoppa yfir valmynd
4. maí 1999 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Internetkönnun í mars og apríl 1999 og stöðuskýrsla 1998

Stöðuskýrsla og Gallupkönnun maí 1999 - Íslenska upplýsingasamfélagið

Í október 1996 gaf ríkisstjórnin út ritið Framtíðarsýn ríkisstjórnar Íslands um upplýsingasamfélagið. Í ritinu er birt stefna stjórnvalda í málefnum upplýsingasamfélagsins sem byggð var á vinnu hátt á annað hundrað manna sem komu að stefnumótunarvinnunni í nefndum og vinnuhópum. Góð sátt hefur verið um þessa stefnu enda tóku fulltrúar ráðuneyta, atvinnurekenda, launþega og ýmissa hagsmunaaðila virkan þátt í mótun hennar.

Í framhaldi af birtingu stefnunnar var mótaður farvegur fyrir framkvæmd hennar. Í maí 1997 ákvað ríkisstjórnin að setja á stofn þróunarverkefni um íslenska upplýsingasamfélagið. Verkefnið stendur yfir í fimm ár, frá 1. september 1997 til 1. september 2002. Verkefnisstjórn um upplýsingasamfélagið, sem starfar á vegum forsætisráðuneytis, stýrir verkefninu.

Nú hefur verkefnisstjórnin ásamt samráðshópi ráðuneyta og Alþingis um upplýsingasamfélagið tekið saman stöðuskýrslu 1998 um þróunarverkefnið og var aflað upplýsinga frá fjölmörgum öðrum aðilum. Skýrslan nefnist: Framkvæmd stefnu ríkisstjórnar Íslands um upplýsingasamfélagð - Stöðuskýrsla 1998. Skýrsluna má finna á vef forsætisráðuneytis. Í henni er fjallað um hvernig miðar í þróun upplýsingasamfélagsins og greint frá verkefnum sem unnin eru á tímabilinu 1996-1998. Sagt er frá ýmsum tölulegum staðreyndum, opinberum verkefnum og nýrri þjónustu sem fellur að stefnunni um upplýsingasamfélagið.

Verkefnisstjórnin hefur látið gera 3 kannanir á tölvueign, tölvunotun og Internetnotkun Íslendinga á árunum 1998-1999. Nú liggja fyrir niðurstöður nýjustu könnunarinnar sem gerð var í mars og apríl 1999.

Stöðuskýrsla-samantekt:

Í fjárlögum fyrir árið 1999 er í fyrsta sinn gert ráð fyrir sérstökum fjárveitingum til nýrra verkefna sem falla að stefnunni um upplýsingasamfélagið. Þar er gert ráð fyrir ríflega 300 m.kr. til þessara verkefna (þarf af eru um 150 m.kr. mótframlag ráðuneyta og stofnana). Þar að auki er í fjárlögum 1999 sérstök viðbótarfjárveiting til fjarkennslumála og er hún um 60 milljónir króna. Einnig hefur verið hleypt af stokkunum nýrri markáætlun um rannsóknir og þróunarstarf í upplýsingatækni og umhverfismálum. Á 5 ára tímabili er þar áætlað að veita um 352 m.kr. til upplýsingatækniverkefna þar af um 70 m.kr. á árinu 1999. Með þessum nýju fjárveitingum kemst aukinn skriður á framkvæmdina.

Hér á eftir er stutt samantekt yfir það sem áunnist hefur í þróun upplýsingasamfélagsins á árunum 1996-1998.

  • Stjórnsýslan og þjónusta hins opinbera hefur á þessu tímabili (1996-1998) tekið stórt skref inn í upplýsingasamfélagið. Komið hefur verið upp upplýsingakerfum sem auka hagræði og auðvelda daglega vinnu. Með aukinni notkun upplýsingatækninnar er stjórnsýslan stöðugt að opnast og aðgengi að upplýsingum og þjónustu að batna. Sem dæmi má nefna aðgengi almennings að lögum, reglugerðum, hæstaréttardómum og opinberum skýrslum. Stöðugt bætist nýtt efni við stjórnarráðsvefinn og vefi stofnana. Í auknum mæli er hægt að fá ýmsa þjónustu beint gegnum opinbera vefi s.s. að sækja eyðublöð, sækja um leyfi og ljúka erindum með rafrænum hætti. Sem dæmi um rafræna þjónustu má nefna rafræna tollafgreiðslu og rafræn skil fyrirtækja og einstaklinga á skattskýrslum.
  • Hrint hefur verið í framkvæmd ýmsum verkefnum sem falla að stefnunni. Sem dæmi um slík verkefni má nefna að framboð á sérmenntun á sviði upplýsingatækni hefur verið aukið stórlega, komið hefur verið á þróunarskólum á sviði upplýsingatækni, fjarkennslu og fjarlækningum hefur vaxið fiskur um hrygg, útsendingar þingfunda á Internetinu hófust 1998 og komið hefur verið á svokallaðri Byggðabrú og settur upp fjarfundabúnaður sem tengir saman byggðarlög.
  • Fram hefur farið nauðsynleg undirbúningsvinna þar sem ný viðfangsefni á sviði upplýsingatækni hafa verið skilgreind og mótaðar tillögur um hvernig þeim skuli hrint í framkvæmd. Þessi vinna hefur m.a. verið unnin í ráðuneytum, nefndum og starfshópum. Sem dæmi um vinnu af þessu tagi má nefna stefnumótun í upplýsingamálum innan heilbrigðiskerfisins, úttekt á íslenskum lögum m.t.t. rafrænna viðskipta, úttekt á tungutækni, útgáfa innkaupahandbókar um upplýsingatækni, stefnumótunarvinnu um fjarskiptamál og nefndarvinnu um aðgengi að lagagögnum á veraldarvefnum. Í stöðuskýrslunni er að finna önnur verkefni af þessu tagi.
  • Komið hefur verið á víðtæku samráði um málefni upplýsingasamfélagsins milli ráðuneyta, skrifstofu Alþingis, atvinnurekenda, launþega og ýmissa annarra hagsmunaaðila. Starfandi eru ýmsir samráðshópar og nefndir til að tryggja þetta samráð.
  • Almenningur getur í æ ríkara mæli sótt ýmis konar þjónustu gegnum Netið, t.d. sinnt bankaviðskiptum og keypt vörur og þjónustu. Fjölmiðlar hafa sett upp sérstaka frétta- og upplýsingavefi.
  • Upplýsingaiðnaður er ört vaxandi atvinnugrein sem byggir á vel menntuðu starfsfólki. Gera má ráð fyrir að í þessari atvinnugrein skapist fjöldi nýrra starfa á næstu árum (sjá nýja samantekt SÍH og SI á ut.is)
  • Sá áfangi hefur náðst í fjarskiptamálum að landið hefur verið gert að einu gjaldsvæði.

Tölvu- og Internetnotkun Íslendinga - samantekt

27. mars - 8. apríl 1999 framkvæmdi Gallup könnun á aðgengi landsmanna að tölvum og Internetinu fyrir verkefnisstjórn um upplýsingasamfélag. Hringt var í 1200 manns alls staðar að á landinu á aldrinum 16-75 ára.

Í töflunni hér fyrir neðan sést hvernig aðgangur að Interneti hefur breyst á þessu tímabili og hve mörg prósent svarenda hafa aðgang að Internetinu á heimili, í vinnu eða skóla.

Aðgangur að Interneti

febrúar 1998 september 1998 mars/apríl 1999
Heima 28,1% 37,5% 47,2% *
Í vinnu 24,4% 25,9% 33,8% *
Í skóla 11,4% 12,3% 11,2% *

* Tölur leiðréttar miðað skv. nýjum útreikn. frá Gallup í nóvember 1999.

  • Tengitími á viku eykst mikið og er nú að meðaltali 4,7 klst. á viku hjá þeim sem á annað borð nota Netið.
  • Konur hafa aðgang að Interneti á heimili næstum því til jafns við karla en nota það mun minna eða að meðaltali 2,5 klst/viku á móti 4,7 klst/viku hjá körlum. Konur hafa hins vegar sjaldnar aðgang að Internetinu á vinnustað en karlar.
  • Ungt fólk notar Internetið miklu meira en eldra fólk, það hefur miklu lengri tengitími á viku og stærra hlutfall er með Internetið eða ætlar að fá sér aðgang á næstunni.
  • Það er munur á Internetnotkun eftir búsetu, fleiri aðspurðra á landsbyggðinni hafa ekki Internetaðgang en á höfuðborgarsvæðinu.
  • Mikil aukning er fyrirsjáanleg á tölvu- og Internetnotkun á næstu mánuðum því um 38 % af þeim sem ekki hafa aðgang að tölvu telja fekar líklegt eða mjög líklegt að þeir fái aðgang á næstu 12 mánuðum.
  • Tölvur eru nú á tveim af hverjum þremur heimilum á landinu.
  • Mikill munur er á tölvueign eftir tekjum. Tölvueign tekjulágra hópa er minni og þeir ætla síður að kaupa tölvu á næstunni.
  • Það hefur orðið mikil breyting á hvernig fólk notar tölvur á heimilum. Internetið vinnur gríðarlega á og færist í annað sæti á eftir ritvinnslu (ritvinnsla 22%, Internetið 20%).

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta