Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi
Nefnd um endurskoðun framkvæmdaáætlunar um sjálfbæra þróun
Í ÍSLENSKU SAMFÉLAGI:
Mat á stöðu framkvæmdaáætlunar
Mars 1999
Efnisyfirlit:
Samantekt . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 3
1. Inngangur: Frá Ríó til framkvæmdaáætlunar . . . . . . . . . . . 5
2. Framkvæmd Dagskrár 21 á Íslandi . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 7
3. Skipun og starf nefndarinnar . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 8
4. Eftirfylgni framkvæmdaáætlunar: Nokkrir mikilvægir áfangar 11
5. Framkvæmd einstakra ákvæða . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 16
5.1. Umhverfisráðuneytið . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 18
5.2. Landbúnaðarráðuneytið . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 32
5.3. Sjávarútvegsráðuneytið . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 38
5.4. Iðnaðarráðuneytið . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 44
5.5. Samgönguráðuneytið . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 48
5.6. Menntamálaráðuneytið . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 55
5.7. Samband íslenskra sveitarfélaga . . . . . . . . . . . . . . . . . . 58
6. Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi - næstu skref . . . . . . . . . 61
Samantekt
Í skýrslu þessarri er að finna álit nefndar sem Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra skipaði til að leggja mat á stöðu og eftirfylgni framkvæmdaáætlunar Íslands um sjálfbæra þróun (Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi: Framkvæmdaáætlun til aldamóta), sem ríkisstjórnin samþykkti í ársbyrjun 1997.
Niðurstöðum nefndarinnar má skipta í þrennt. Í fyrsta lagi er í skýrslunni að finna (í 5. kafla) yfirlit um framkvæmd einstakra ákvæða áætlunarinnar. Þetta yfirlit er uppistaðan í skýrslunni, enda var það yfirlýstur megintilgangur nefndarinnar að afla upplýsinga um framkvæmd og stöðu einstakra ákvæða. Í öðru lagi er í skýrslunni (í 4. kafla) að finna yfirlit yfir nokkur þau mál sem nefndin telur mestu skipta varðandi framkvæmd áætlunarinnar og það markmið hennar að koma á sjálfbærri þróun í einstökum þáttum íslensks samfélags. Í þriðja lagi bendir nefndin á nokkrar leiðir (í 6. kafla) um hugsanlegt framhald á þeirri vinnu sem farið hefur fram við að framfylgja ákvæðum Dagskrár 21 hér á landi, en gildistími framkvæmdaáætlunarinnar er til ársloka 2000.
Samkvæmt svörum sem nefndin fékk frá sex ráðuneytum og Sambandi íslenskra sveitarfélaga, hefur stærstum hluta þeirra verkefna sem kveðið er á um í áætluninni verið hrint í framkvæmd og er mörgum lokið. Vinna hefur aftur á móti ekki hafist varðandi öll ákvæðin, sem er skiljanlegt, þar sem gildistími áætlunarinnar er til aldamóta, eða til ársloka árið 2000. Gróft mat á stöðu 101 svokallaðs lykilákvæðis, sem nefndin fékk umsögn um, sýnir að 85 þeirra hefur verið hrint í framkvæmd, en að vinna hafi ekki hafist við framkvæmd 16 ákvæða. Það er von nefndarinnar að skýrsla þessi verði til þess að ýta á að viðkomandi verkefnum verði hrint í framkvæmd og að öðrum verði hraðað þannig að þeim verði lokið í lok næsta árs eftir því sem gerlegt er.
Sé litið á megininntak framkvæmdaáætlunarinnar, að innleiða sjónarmið sjálfbærrar þróunar inn í ákvarðanatöku og atvinnulíf Íslendinga, er það mat nefndarinnar að mjög hafi þokast í rétta átt. Í raun má segja að bylting hafi orðið hvað þetta varðar á síðustu árum, bæði í stjórnsýslu og atvinnulífinu, þar sem stofnanir, fyrirtæki og félagasamtök hafa mörg hver sett sér umhverfisstefnu og komið sér upp þekkingu á sviði umhverfismála. Þessi vitundarvakning er vitaskuld ekki tilkomin vegna framkvæmdaáætlunar um sjálfbæra þróun, en hún hefur vissulega ýtt undir hana og veitt stjórnvöldum aðhald. Þessi skýrsla rekur vonandi enn á eftir aðgerðum á þessu sviði, auk þess að geyma almennt miklar upplýsingar um hvað hefur unnist á undanförnum árum. Framkvæmdaáætlun af þessu tagi veitir þó meira aðhald ef reglulegur samráðsvettvangur er til staðar til að fylgjast með framkvæmd hennar. Því telur nefndin æskilegt að slíkum vettvangi sé komið á fót ef íslensk stjórnvöld hyggjast áfram setja sér markmið á grundvelli Dagskrár 21 eftir að gildistími núverandi framkvæmdaáætlunar rennur út í lok ársins 2000.
Nefndin fjallaði um hvort ástæða væri til þess að stjórnvöld gerðu nýja framkvæmdaáætlun um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi að gildistíma núverandi áætlunar liðnum og taldi slíkt einsýnt. Sjálfbær nýting náttúruauðlinda er hornsteinninn í stefnu Íslands í auðlinda- og umhverfismálum og því er nauðsynlegt að stjórnvöld setji sér skýr markmið á þeim grunni og skilgreini leiðir að þeim markmiðum. Slíkt er ekki einungis nauðsynlegt í stefnumótun innanlands, heldur þurfa Íslendingar að halda merki sjálfbærrar nýtingar auðlinda á lofti í alþjóðastarfi. Nægir þar að nefna umræðu um nýtingu lifandi auðlinda hafsins, þar sem sjónarmið sjálfbærrar nýtingar rekast á við sjónarmið friðunarsinna sem byggja oft fyrst og fremst á tilfinninglegum forsendum. Í raun má segja að þátttaka Íslands í alþjóðlegu starfi sem miðar að sjálfbærri þróun, s.s. í nefnd Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun (CSD), sé marklítil ef ekki er um leið fyrir hendi stefnumörkun um framkvæmd Dagskrár 21 á landsvísu.
Með þessu er ekki sagt að ný framkvæmdaáætlun þurfi að vera eins upp byggð og núverandi áætlun, heldur hlyti hún að taka tillit til breyttra aðstæðna. Að mati nefndarinnar þyrfti ný framkvæmdaáætlun ekki að vera eins umfangsmikil og núverandi áætlun (en í henni er að finna 226 einstök ákvæði), heldur hefði hún að geyma færri ákvæði, með skýrum markmiðum, ábyrgð og tímaramma, auk áþreifanlegra og helst tölulegra viðmiða um árangur þar sem því verður við komið.
1. Inngangur: Frá Ríó til framkvæmdaáætlunar
Á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun, sem haldin var í Rio de Janeiro í Brasilíu árið 1992, skrifuðu Íslendingar ásamt öðrum þjóðum heims undir viðamikla og metnaðarfulla framkvæmdaáætlun, sem ber heitið Dagskrá 21 og hefur að geyma leiðbeiningar um hvernig hægt er að koma á sjálfbærri þróun á heimsvísu. Þar er m.a. að finna ákvæði um að hvert ríki skuli gera áætlun um hvernig innleiða megi sjónarmið sjálfbærrar þróunar hjá sér.
Á Íslandi hófst starf við gerð slíkrar "Landsáætlunar 21" á gerð stefnumörkunarplaggs sem kom út í mars 1993 undir heitinu "Á leið til sjálfbærrar þróunar". Skýrslan var síðan grunnur að gerð ítarlegrar framkvæmdaáætlunar í umhverfis- og þróunarmálum, sem taka átti til allra þátta íslensks samfélags.
Sú vinna hófst í september 1993, með skipun sjö starfshópa sem fengu það verkefni að vinna að gerð framkvæmdaáætlunar til næstu aldamóta, sem hefði sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Í vinnu starfshópanna tóku alls þátt 124 einstaklingar, sem tilnefndir voru af ýmsum aðilum í þjóðfélaginu. Hóparnir fjölluðu um eftirfarandi málaflokka:
• umhverfismál og landbúnað,
• umhverfismál og sjávarútveg,
• umhverfismál, iðnþróun og orkumál,
• umhverfismál, ferða- og samgöngumál,
• úrgangsmyndun, sorphirðu og meðferð á spilliefnum,
• umhverfismál og byggðaþróun og
• umhverfisfræðslu.
Hópunum var falið að skilgreina sjálfbæra þróun í viðkomandi málaflokkum og setja markmið til skemmri og lengri tíma, auk þess að gera tillögur um aðgerðir til að ná þeim markmiðum. Hóparnir skiluðu skýrslum á árunum 1994-1995. Í lok árs 1995 setti Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra á fót starfshóp sem fékk það verkefni að setja saman drög að framkvæmdaáætlun, sem samþykkt yrði af ríkisstjórninni og yrði byggð á skýrslum hópanna sjö. Hugmyndin með þessum síðasta hluta vinnunnar við framkvæmdaáætlunina er sú að leitast við að færa hana í búning sem gerði ríkisstjórninni kleift að samþykkja hana og auka vægi hennar þar með.
Samhliða þeirri ákvörðun umhverfisráðherra haustið 1995 að vinna framkvæmdaáætlun upp úr skýrslum hópanna sjö ákvað hann að boða til umhverfisþings - fyrstu samkomu sinnar tegundar hér á landi - þar sem lögð yrðu fyrir drög að framkvæmdaáætluninni. Hugmyndin að baki umhverfisþinginu var sú að ná sem víðtækastri samstöðu í þjóðfélaginu um metnaðarfulla framkvæmdaáætlun á grundvelli sjálfbærrar þróunar. Umhverfisþing gerði nokkrar breytingar á framkvæmdaáætluninni, sem var síðan samþykkt í ríkisstjórn í byrjun árs 1997.
Segja má að ávinningurinn af gerð framkvæmdaáætlunarinnar hafi verið tvíþættur. Annars vegar felst hann í áætluninni sjálfri, sem hefur að geyma fjölmörg ákvæði um skref í átt til sjálfbærrar þróunar á Íslandi, sem náðst hefur víðtæk samstaða um. Hins vegar felst ávinningur í hinni miklu vinnu, sem fjölmargir einstaklingar, stofnanir og samtök hafa innt af hendi við að kynna sér samþykktir Ríó-ráðstefnunnar og hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar og síðan að heimfæra þá hugmyndafræði upp á íslenskar aðstæður.
2. Framkvæmd Dagskrár 21 á Íslandi
Segja má að formleg vinna í stjórnsýslunni við að hrinda ákvæðum Dagskrár 21 á Íslandi fari fram á þremur stigum:
a. Alþjóðleg framkvæmd Dagskrár 21
Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna er farið reglulega yfir framkvæmd Dagskrár 21 í Nefnd S.þ. um sjálfbæra þróun (Commission on Sustainable Development, CSD). Ísland tekur þátt í starfi CSD og skilar árlega skýrslu um framkvæmd Dagskrár 21 á Íslandi. Umhverfisráðuneytið hefur yfirumsjón með þátttöku Íslands í CSD í samvinnu við utanríkisráðuneytið og fagráðuneyti, eftir því hvaða viðfangsefni eru tekin til sérstakrar umfjöllunar í hvert skipti.
b. "Landsdagskrá 21"
Samþykkt framkvæmdaáætlunar Íslands, Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi, árið 1997, er svar Íslands við þeirri kröfu að hvert ríki komi sér upp áætlun fyrir sig um að hrinda ákvæðum Dagskrár 21 í framkvæmd. Því má segja að framkvæmdaáætlunin sé eins konar "Landsdagskrá 21" (National Agenda 21) fyrir Ísland, þótt hún beri ekki það heiti og sé ekki byggð upp á sama hátt og Dagskrá 21, hvað kaflaskiptingu varðar.
c. Staðardagskrá 21
Umhverfisráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga hrintu árið 1998 af stað sameiginlegu verkefni um umhverfisáætlanir sveitarfélaga, sem hlaut heitið Staðardagskrá 21 (Local Agenda 21). Í Staðardagskrá 21 á að koma fram lýsing á stöðu umhverfismála í sveitarfélaginu, markmiðssetning þess í umhverfismálum og áætlun og ákvarðanir um framkvæmdir á því sviði. Sérstök verkefnisstjórn hefur verið skipuð og ráðinn starfsmaður til að sinna verkefninu. Þrjátíu og eitt sveitarfélag tekur nú þátt í verkefninu.
3. Skipun og starf nefndarinnar
Nefnd um endurskoðun framkvæmdaáætlunar um sjálfbæra þróun var skipuð af Guðmundi Bjarnasyni umhverfisráðherra 9. september 1998. Í skipunarbréfi ráðherra segir eftirfarandi um verkefni nefndarinnar:
"Umhverfisráðuneytið hefur ákveðið að skipa nefnd, sem hafi það verkefni að fara yfir og meta stöðu einstakra þátta framkvæmdaáætlunar um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi, sem ríkisstjórnin samþykkti 11. febrúar 1997. Nefndin skal skila umhverfisráðherra skýrslu um framkvæmd áætlunarinnar fyrir 1. febrúar 1999.
Í framkvæmdaáætluninni er ákvæði um endurskoðun hennar, þar sem segir: "Framkvæmdaáætlunin verður endurskoðuð af sérstakri nefnd sem umhverfisráðherra mun skipa. Í þeirri endurskoðun verður farið yfir tillögurnar og metið hvernig miðað hefur með framkvæmdina og eftir atvikum gerðar tillögur um frekari aðgerðir til umhverfisráðherra."
Nefndin var þannig skipuð:
Hugi Ólafsson, umhverfisráðuneyti, formaður
Arnór Halldórsson, tilnefndur af sjávarútvegsráðuneyti
Guðjón Axel Guðjónsson, tilnefndur af iðnaðarráðuneyti
Guðrún Ágústsdóttir, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga
Helga Haraldsdóttir, tilnefnd af samgönguráðuneyti
Níels Árni Lund, tilnefndur af landbúnaðarráðuneyti
Nefndarmenn voru sammála um að einstök ákvæði framkvæmdaáætlunarinnar væru innbyrðis ólík: Sum eru fyrst og fremst almennt orðaðar stefnuyfirlýsingar, en aðrar kveða á um ákveðnar framkvæmdir einstakra aðila. Fyrsta verkefni nefndarinnar var að fara yfir ákvæði framkvæmdaáætlunarinnar og flokka þau eftir því hver bæri ábyrgð á framkvæmd þeirra, en ábyrgðar- og framkvæmdaaðili eru ekki alltaf tilgreindir í ákvæðum áætlunarinnar. Þá reyndi nefndin að greina á milli almennt orðaðra stefnumótunarákvæða og beinna tilmæla um ákveðnar framkvæmdir, sem nefndin kallaði "lykilákvæði". Ákveðið var að endurskoðun áætlunarinnar myndi fyrst og fremst beinast að stöðu þeirra. Í því felst ekki dómur um mikilvægi ákvæðanna, heldur taldi nefndin starf sitt einkum felast í því að skoða stöðu tiltekinna skilgreindra verkefna. Í eftirfarandi töflu sést skipting ákvæða eftir einstökum aðilum.
Heild "Lykilákvæði"
- Umhverfisráðuneyti 70 43
- Samgönguráðuneyti/undirstofnanir 33 13
- Iðnaðarráðuneyti 26 14
- Sjávarútvegsráðuneyti/Hafró 22 14
- Landbúnaðarráðuneyti 18 6
- Menntamálaráðuneyti 8 4
- Fjármálaráðuneyti 2 2
- Dómsmálaráðuneyti 1 1
- Samband íslenskra sveitarfélaga 15 6
- Alþingi 1 1
- Vatnsveitur 5 1
- Orkufyrirtæki 5 2
- Umhverfisfræðsluráð 2 2
- KHÍ 2 1
- Námsgagnastofnun 1 1
- Hollustuvernd ríkisins 1 -
- Fyrirtæki (almennt) 10 -
- Olíufélög 3 2
- VSÍ/ASÍ 2 1
- Áhugasamtök 1 -
SAMTALS 226 113
Nefndin sendi út bréf til 6 ráðuneyta og Sambands íslenskra sveitarfélaga 10. okt. 1998, þar sem óskað var eftir því þessir aðilar tækju saman stöðuskýrslu um framkvæmd einstakra ákvæða, þar sem áhersla yrði lögð á lykilákvæði, en einnig væri æskilegt að gera grein fyrir stöðu mála varðandi önnur ákvæði, eftir því sem efni stæðu til.
Nefndin skipulagði síðan fundi með ráðuneytunum og Sambandi íslenskra sveitarfélaga í janúar og febrúar 1999, þar sem viðkomandi skiluðu inn stöðuskýrslu og gerðu grein fyrir þeim. Haldnir voru fundir með ráðuneytisstjórum og fulltrúum landbúnaðar-, iðnaðar-, samgöngu- og umhverfisráðuneyta og einnig var haldinn fundur með fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga og verkefnisstjóra Staðardagskrár 21. Skrifleg svör bárust frá sjávarútvegsráðuneyti og menntamálaráðuneyti. Nefndin tók síðan saman svör ráðuneytanna og Samb. ísl. sveitarfélaga og fór yfir þau og reyndi út frá því að meta stöðu framkvæmdaáætlunarinnar í heild.
Nefndin er skipuð fulltrúum þeirra aðila sem mest mæðir á í framkvæmd áætlunarinnar og hún reyndi ekki að leggja dóm á hvort vel eða illa hafi tekist til við framkvæmd einstakra ákvæða eða áætlunarinnar í heild. Slíkt er enda erfitt, þar sem skýrar viðmiðanir um hvað teljist fullnægjandi framkvæmd vantar í flest ákvæðin. Skýrslu nefndarinnar er ekki síst ætlað að vera leiðbeinandi fyrir viðkomandi ráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga, þannig að þau geti séð hvar miðað hefur áleiðis og hvar þarf að taka til hendinni á þeim tæpu tveimur árum sem eftir eru af gildistíma framkvæmdaáætlunarinnar. Að honum lokum telur nefndin athugandi að óháður aðili fari yfir áætlunina og leggi dóm á framkvæmd hennar, óski stjórnvöld eftir úttekt á stöðu hennar við lok gildistíma hennar.
4. Eftirfylgni framkvæmdaáætlunar: Nokkrir mikilvægir áfangar
Nákvæm lýsing á eftirfylgni einstakra ákvæða í framkvæmdaáætluninni kemur fram í kafla 5. Ekki er hins vegar ástæða til þess að gera þeim öllum jafn hátt undir höfði þegar reynt er að meta árangur við framkvæmd áætlunarinnar í heild. Á fundum sínum með fulltrúum ráðuneyta og Sambands íslenskra sveitarfélaga óskaði nefndin eftir því að viðkomandi gerðu grein fyrir mikilvægustu þáttunum í áætluninni þar sem árangur hefur náðst og eins hvernig tekist hefur til við að innleiða sjónarmið sjálfbærrar þróunar í starfsemi ráðuneytanna og stofnana þeirra. Nefndin fór síðan yfir svör ráðuneytanna og Sambands íslenskra sveitarfélaga og ákvað að draga fram nokkur dæmi um mikilvæga áfanga sem náðst hafa við hrinda áætluninni í framkvæmd og treysta grunn sjálfbærrar þróunar. Kaflaheitum framkvæmdaáætlunarinnar er fylgt í eftirfarandi úttekt.
1. Landbúnaður
• Vísindalegur grunnur að sjálfbærri nýtingu þeirrar auðlindar sem felst í gróðri og jarðvegi hefur verið styrktur verulega með kortlagningu jarðvegsrofs á Íslandi, en því verkefni lauk árið 1997. Í framhaldi af því verður ráðist í stórt verkefni, Nytjaland, þar sem gert verður gróðurkort af hverri jörð og út frá því hægt að stjórna beit í samræmi við landkosti. Þessi verkefni hafa og munu styrkja mjög sjálfbæra nýtingu landsins og auðvelda skipulag og forgangsröðun í landgræðslustarfi.
• Komið hefur verið á vottun lífrænna og vistvænna búfjárafurða á undanförnum misserum, m.a. með setningu reglugerða þar að lútandi og faggildingu vottunarstofa. Með vottun búfjárafurða er hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar komið inn hjá bændum.
• Stóraukin umsvif hafa verið í skógrækt, m.a. vegna átaks ríkisstjórnarinnar til að binda koltvíoxíð í gróðri með skógrækt og landgræðslu. Unnið er að gerð landsáætlunar um skógrækt.
2. Sjávarútvegur
• Mótun aflareglu fyrir þorskstofninn er eitt stærsta skrefið sem stigið hefur verið í átt til sjálfbærrar auðlindanýtingar á Íslandi. Aflareglan er byggð á forsendum líffræðilegs og efnahagslegs ávinnings og framkvæmd nýtingarstefnu í samræmi við hana sl. fjögur ár hefur gefið góða raun. Unnið hefur verið að þróun slíkrar nýtingarstefnu í anda varúðarleiðar í fiskveiðum fyrir aðra mikilvægustu fiskstofnana.
• Mörg skref hafa verið stigin á síðustu árum í átt til sjálfbærrar nýtingar fiskistofna sem nýttar eru sameiginlega af Íslendingum og öðrum þjóðum. Samningar hafa gilt í um áratug milli Íslands, Grænlands og Noregs um loðnuveiðar og Ísland er aðili að samkomulagi um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum og á úthafskarfa á Reykjaneshrygg. Unnið er að samkomulagi um stjórn kolmunna í Norðaustur-Atlantshafi og samkomulag um þorskveiðar Íslendinga í Barentshafi er í burðarliðnum. Samningsdrög liggja fyrir á milli Íslands, Færeyja og Grænlands um stjórn veiða úr sameiginlegum grálúðu- og karfastofnum. Ísland hefur sett íslenskum skipum einhliða kvóta á rækjuveiðar á Flæmingjagrunni.
• Framkvæmdaáætlun Íslands um varnir gegn mengun sjávar frá landstöðvum hefur verið unnin og kemur út vorið 1999. Mengunarmælingar í hafinu umhverfis Íslands hafa verið efldar og á þessu ári kemur út viðamikil skýrsla með niðurstöðum úr rannsóknum sem hafa farið fram á mengun hafsins undanfarin ár.
3. Orka og iðnaður
• Vinna er hafin við rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Vinnan verður í umsjón iðnaðarráðuneytisins, í samvinnu við umhverfisráðuneytið.
• Dregið hefur verið úr notkun innflutts jarðefnaeldsneytis á mörgum sviðum, s.s. í stóriðju og fiskimjölsverksmiðjum, en rafmagn frá endurnýjanlegum innlendum orkugjöfum notað í staðinn. Stofnað hefur verið félag um vetnisrannsóknir á Íslandi, að tillögu nefndar sem iðnaðarráðherra skipaði, en vetni gæti komið í stað innflutts jarðefnaeldsneytis á næstu áratugum.
• Dregið hefur úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda í iðnaði. Mestu munar þar um minnkaða losun flúorkolefna frá álverinu í Straumsvík, en samtals hafa aðgerðir stórra iðnfyrirtækja minnkað útstreymi gróðurhúsalofttegunda sem svarar um 300.000 tonnum á ári.
• Helstu orkufyrirtæki hafa sett sér umhverfisstefnu og sum ráðið sérstakan starfsmann til að sinna umhverfismálum.
4. Nytjavatn og jarðefni
• Vinna við gerð frumvarps til laga um vatnsvernd er að hefjast í umhverfisráðuneytinu.
• Lagaumhverfi varðandi nýtingu jarðefna og umhverfisáhrif námavinnslu hefur batnað til muna á undanförnum misserum. Skv. lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu frá 1998 þarf sérstakt nýtingarleyfi við nám jarðefna. Í nýjum náttúruverndarlögum frá 1999 er sérstakur kafli um landslagsvernd, þar sem m.a. er kveðið á um hvaða jarðmyndunum skuli forðast að raska, s.s. eldvörpum og gervigígum. Einnig er þar að finna ákvæði um framlagningu tryggingafjár við námavinnslu til að tryggja frágang námunnar að vinnslu lokinni. Í skipulagslögum frá 1998 eru ákvæði um skipulagningu námavinnslusvæða. Skv. breytingum á lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands á stofnunin að flokka námasvæði eftir m.a. efnismagni, gæðum og verndargildi, sem ætti að auðvelda mjög skynsamlega nýtingu auðlindarinnar.
5. Samgöngur og ferðamál
• Samgönguráðuneytið hefur ákveðið að koma á svokölluðum grænum reikningsskilum í starfsemi sinni og undirstofnana sinna. Reiknað er með að því verði hrint í framkvæmd í áföngum á nokkrum árum, en vinna á þessu sviði er þegar hafin. Með þessu verkefni verða umhverfissjónarmið tekin inn í ákvarðanatöku í samgöngumálum jafnt sem í innra starfi ráðuneytisins og stofnananna. Hér er um að ræða verkefni sem snertir kjarna þeirrar hugsunar sem liggur að baki framkvæmdaáætlunarinnar, þ.e. að samþætta umhverfismál inn í ákvarðanatöku í öllum geirum samfélagsins.
• Í samgönguráðuneytinu fer nú fram úttekt á því hvernig hægt er að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda í innanlandssamgöngum, en þær leggja til 1/3 af heildarútstreymi á Íslandi. Þessi þáttur verður skoðaður sérstaklega við allar framkvæmdir, ekki síst í vegamálum, þar sem bifreiðaumferð leggur til 80-90% af útstreymi í innanlandssamgöngum. Hægt er að draga töluvert úr útstreymi með styttingu vegleiða, lagningu bundins slitlags, betri umferðarstýringu o.s.frv. og verður slíkra leiða leitað við allar vegaframkvæmdir.
• Vinnuhópur á vegum Náttúruverndar ríkisins, Ferðamálaráðs og Vegagerðarinnar hefur verið settur á fót til að móta tillögur um framkvæmdir á friðlýstum svæðum og vinsælum ferðamannastöðum og hvernig megi stuðla að sjálfbærri ferðaþjónustu.
6. Meðferð úrgangs
• Tekist hefur að tryggja ábyrga meðferð hættulegasta úrgangsins sem til fellur á Íslandi með lögum um spilliefnagjald frá 1997. Gjaldið er innheimt af vörum sem geta orðið að spilliefnum og stendur undir kostnaði við endurnýtingu/endurvinnslu þeirra eða ábyrgri förgun.
• Endurvinnsla og endurnýting hvers kyns úrgangs hefur stóraukist á undanförnum misserum. Unnið er að því að skapa heildstætt lagaumhverfi með nýjum lögum um meðferð úrgangs, sem nú er verið að vinna að í umhverfisráðuneytinu.
• Í mörgum sveitarfélögum hefur verið komið á kerfi fyrir móttöku úrgangs frá atvinnulífinu sem hvetur til þess að draga úr úrgangsmyndun og auka flokkun úrgangs og endurnýtingu/endurvinnslu. Þá hafa nokkur sveitarfélög hafið undirbúning að slíku hvetjandi kerfi fyrir íbúa, þar sem heimilisúrgangur yrði vigtaður og sorphirðugjöld miðuð við magn úrgangs.
7. Byggðaþróun
• Sveitarfélög víða um land hafa hafið vinnu við gerð framkvæmdaáætlana sem byggja á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar og Dagskrár 21. Umhverfisráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga gerðu með sér samning árið 1998 um gerð Staðardagskrár 21 í sveitarfélögum og var ráðinn sérstakur verkefnisstjóri til þess. Alls taka 31 sveitarfélög með samtals nær 110.000 íbúum þátt í þessu verkefni, en þar að auki vinnur Reykjavíkurborg að gerð umhverfisáætlunar sem byggir á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar.
• Lokið hefur verið við tillögu að svæðisskipulagi miðhálendisins. Með nýjum sveitarstjórnarlögum er allt landið skipulagsskylt, en ekki aðeins byggð og þar er kveðið skýrt á um stjórnsýslumörk sveitarfélaga á miðhálendi sem og á jöklum.
8. Umhverfisfræðsla
• Við endurskoðun aðalnámskráa leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, sem nú er að ljúka, hefur vægi náttúrufræði og umhverfismála verið aukið. Í drögum að aðalnámskrá leikskóla fær umfjöllun um náttúruna og umhverfið mikla áherslu. Tími til náttúrufræðikennslu í grunnskólum eykst verulega, um 8-10 vikustundir og markmið kennslu í náttúruvísindum falla beint að hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Á framhaldsskólastigi hefur ábyrgð nemenda á námsvali verið aukin, sem eykur kosti nemenda til náms í náttúrufræðigreinum.
• Umhverfisfræðsluráð var skipað af umhverfisráðherra í janúar 1998, en það er samráðsvettvangur helstu aðila sem koma að umhverfis- og fræðslumálum. Umhverfisfræðsluráð hefur sett upp Umhverfisvefinn, efnisflokkaðan vef um umhverfismál á netinu, sem býður upp á tengingar við yfir 100 vefsíður um umhverfismál á íslensku.
• Ríkisstjórnin samþykkti í febrúar 1999 tillögu umhverfisráðherra um byggingu náttúruhúss. Eftir er að útfæra tillöguna nánar, en reiknað er með að smíði þess taki um 5 ár.
5. Yfirlit yfir framkvæmd einstakra ákvæða
Í bréfum til sex ráðuneyta og Sambands íslenskra sveitarfélaga óskaði nefndin eftir upplýsingum um framkvæmd tiltekinna ákvæða í framkvæmdaáætluninni. Í þessum kafla er finna svör þessarra aðila og eru þau birt óbreytt í kaflanum. Ákvæðunum er skipt í undirkafla eftir framkvæmdaaðila, en er ekki kaflaskipt á sama hátt og í framkvæmdaáætluninni sjálfri (utan að þeirri kaflaskiptingu er haldið innan fyrsta undirkaflans varðandi ákvæði sem heyra undir umhverfisráðuneytið, þar sem það ráðuneyti kemur að einhverju leyti að öllum þeim málaflokkum sem er að finna í áætluninni). Þetta er gert framkvæmdaaðilum og öðrum til hægðarauka, því með þessu móti er auðveldara fyrir viðkomandi að sjá hvaða ákvæðum hefur verið hrint í framkvæmd og hverjum ekki.
Ákvæði framkvæmdaáætlunarinnar eru auðkennd með punkti fyrir framan og svokölluð lykilákvæði eru feitletruð. Fyrir aftan hvert ákvæði birtist umsögn um framkvæmd þess og er textinn þá skáletraður.
Í kaflanum er að finna umsögn um stöðu langflestra ákvæða í framkvæmdaáætluninni, en ekki allra. Nefndin lagði í bréfum sínum til ráðuneyta og Sambands íslenskra sveitarfélaga á það höfuðáherslu að fá upplýsingar um lykilákvæði, sem hafa að geyma bein fyrirmæli um aðgerðir, en taldi æskilegt að fá upplýsingar um önnur ákvæði eftir því sem ástæða væri til. Mörg þeirra fela í sér almennt orðaða stefnumótun og því erfitt að gefa skýr svör um framkvæmd eða stöðu slíkra ákvæða og taldi nefndin ekki ástæðu til þess að ganga á eftir svörum varðandi slík ákvæði. Þess ber að gæta að fjöldi ákvæðanna er mikill (226) og þau koma inn á flesta þá starfsemi sem fram fer í landinu. Nákvæm úttekt á þeim öllum hefði kostað gífurlega vinnu og tíma og var í raun óþörf ef tekið er mið af starfslýsingu nefndarinnar og markmiðum skv. skipunarbréfi. Með því að einblína einkum á svokölluð lykilákvæði taldi nefndin sig geta einbeitt sér betur að verkefni sínu.
Þrátt fyrir að umsagnaraðilum hafi verið gefinn kostur á að svara fyrst og fremst spurningum varðandi lykilákvæði, gáfu þeir upplýsingar um nær öll ákvæði sem óskað var eftir svörum við, bæði lykilákvæði og önnur. Í sumum tilvikum voru svörin mun ítarlegri en krafist var og veita greinargott yfirlit um stöðu mála í viðkomandi málaflokki. Samgönguráðuneytið sendi einnig almennan inngang um verkefni sín á sviði umhverfismála, bæði þau sem tengjast ákvæðum framkvæmdaáætlunarinnar með beinum hætti og önnur. Þetta eykur upplýsingagildi skýrslunnar. Það er því mat nefndarinnar að meðfylgjandi yfirlit gefi góða mynd af stöðu framkvæmdaáætlunarinnar á þessu stigi og sé stjórnvöldum gagnlegur leiðarvísir við að meta hvernig til hefur tekist og hvar þurfi einkum að taka til hendinni, auk þess að veita almennt miklar upplýsingar um framkvæmdir sem stuðla að sjálfbærri þróun á Íslandi.
Gróft mat á stöðu 101 lykilákvæðis, sem nefndin fékk umsögn um, sýnir að 85 þeirra hefur verið hrint í framkvæmd, en að vinna hafi ekki hafist við framkvæmd 16 ákvæða. Erfitt er að leggja mat á hvort um fullnægjandi framkvæmd sé að ræða eða ekki, þar sem sjaldnast er að finna ákveðin tímamörk eða skýra viðmiðun um hvenær framkvæmd telst lokið. Orðalag í ákvæðum er oft á borð við "beiti sér fyrir setningu nauðsynlegra reglna" eða "rannsóknir verði efldar". Hægt er að ganga úr skugga um hvort reglur hafi verið settar um viðkomandi mál, eða rannsóknir farið fram, en það hlýtur að vera matsatriði hvort nóg sé að gert eða ekki.
5.1. UMHVERFISRÁ'UNEYTI'
1. Landbúnaður
• Hafin verði vinna að svæðisskipulagi um land allt og henni hraðað, þ.á m. vinnu að skipulagi miðhálendisins. Aðalskipulag sveitarfélaga taki á öllu landi innan lögsögu þeirra, en takmarkist ekki við þéttbýli og taki m.a. tillit til landnota og kosta landsins.
Fyrir 1. janúar 1997 hafði verið hafist handa við gerð svæðisskipulagsáætlana og síðan hefur verið lokið við svæðisskipulag í Borgarfirði, norðan og sunnan Skarðsheiðar; svæðisskipulag Dalasýslu og svæðisskipulag Þingvalla-, Grafnings- og Grímsneshreppa. Ennfremur er lokið við svæðisskipulag er tekur til vatnsverndar á höfuðborgarsvæðinu. Þá eru á lokastigi svæðisskipulagsáætlanir Mýrarsýslu og Skagafjörð og unnið er að svæðisskipulagi Eyjafjarðar og Fljótsdalshéraðs. Þá er nýhafin vinna við svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins. Lokið er svæðisskipulagi miðhálendis; einungis er eftir lokameðferð Skipulagsstofnunar og ráðherra.
Með skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 er land allt skipulagsskylt og til þess ætlast að aðalskipulag sveitarfélag taki jafnt til þéttbýlis sem dreifbýlis. Fyrir árslok 2007 er gert ráð fyrir að öll sveitarfélög hafi gert aðalskipulag.
• Lög og reglur er varða landnotkun verði endurskoðuð til að byggja á skipulagsákvarðanir og tryggja eftirlit. Við slíka endurskoðun er nauðsynlegt að þeir sem nota land og auðlindir svari til um áætlaðar þarfir í nútíð og nánustu framtíð. Þetta á við um bændur og aðstandendur ferðaþjónustu, sumarhúsabyggða, sæluhúsa, skógræktar, vegagerðar, útivistar, veiði o.s.frv. Þeir sem bera ábyrgð á verndun lands þurfa einnig að leggja fram sínar tillögur um landnot og aðgerðir: friðlýsingu, stjórn búfjárbeitar, jarðvegsvernd, skógvernd, landgræðslu, votlendisvernd, verndun menningarminja og landlags o.s.frv.
Með skipulags- og byggingarlögum (nr. 73/1997) er miklu nánar en áður kveðið á um undirbúning og aðdraganda við gerð skipulagsáætlana. (sbr. 12. gr., um svæðisskipulag; 16. og 17. gr. um aðalskipulag og 23. og 25. gr. um deiliskipulag.)
• Könnuð verði áhrif villtra grasbíta á gróðurfar.
Helstu villtu grasbítar hér á landi eru gæsir, álftir og hreindýr. Gerð var könnun á áhrifum hreindýrabeitar á gróðurfar árið 1993, en engar frekari rannsóknir á villtum grasbítum hafa verið gerðar eftir að framkvæmdaáætlunin gekk í gildi.
• Við skógrækt og landgræðslu verði reiknað út hve mikil binding koltvíoxíðs í lífmassa á sér stað og það fært Íslandi til tekna í viðleitninni við að draga úr gróðurhúsaáhrifum. Kostir landgræðslu í þessu skyni verða vegnir og metnir á móti öðrum leiðum til að draga úr losun koltvíoxíðs.
Hluti þessarar vinnu fellur undir starfssvið verkefnisstjórnar landbúnaðarráðherra vegna viðbótarframlaga ríkisstjórnarinnar til landgræðslu og skógræktarverkefna til aldamóta. Á vegum verkefnisstjórnarinnar starfar nú sérfræðinganefnd sem vinnur að rannsóknum á bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi í tengslum við landgræðslu og skógrækt. Hlutverk nefndarinnar er jafnframt að fara yfir framkvæmdir í landgræðslu og skógrækt m.t.t. bindingar kolefnis.
• Auknar verði rannsóknir á nytjuðum fiskum, fuglum og spendýrum og vistkerfum sem þeir eru hluti af. Fylgt verði eftir reglum um skráningu allrar veiði.
Rannsóknir á fuglum og landspendýrum hafa aukist, sérstaklega undanfarin 2 ár, vegna tilkomu veiðikortasjóðsins, en árlega er úthlutað úr sjóðnum um 10 milljónum króna til slíkra rannsókna. Með gildistöku laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum var skráning allrar veiði þessara dýra skilyrt og hefur þeim reglum verið fylgt eftir eins og hægt er.
• Áframhaldandi stjórnun og nýting veiðihlunninda verði tryggð og þróuð þannig að hún skili hámarksarði til langs tíma.
Þessum markmiðum hefur verið fylgt í stjórnun og nýtingu hreindýrastofnsins. Tekin var ákvörðun um að halda stofninum í kring um 2500 dýr og hafa veiðikvótar og skipting veiðiheimilda tekið mið af því.
• Tryggt verði að áhrif framkvæmda og atvinnurekstrar á vistkerfi áa og vatna verði sem minnst.
Almennt séð tryggja lög um mat á umhverfisáhrifum að áhrif stærri framkvæmda á vistkerfi áa og vatna eru metin fyrirfram og eftir atvikum reynt að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum þeirra. Ekki hefur þó verið gripið til neinna sérstakra ráðstafana til að tryggja vistkerfi áa og vatna umfram önnur.
2. Sjávarútvegur
• Unnið verði að gerð alþjóðlegrar framkvæmdaáætlunar um vernd og sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda sjávar á grunnsævi og strandsvæðum innan ramma samnings SÞ um líffræðilega fjölbreytni.
Á vettvangi samningsins um líffræðilega fjölbreytni hefur Ísland tekið virkan þátt í gerð áætlunar um líffræðilega fjölbreytni sjávar og strandsvæða og sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda sjávar, Jakarta áætlunarinnar.
• Efldar verði rannsóknir til að afla víðtækari þekkingar á mengun af völdum þrávirkra lífrænna mengunarefna. Ennfremur verði efldar rannsóknir á þáttum í jarðefnafræði og lífríki sem tengjast þungmálmum sem eru á annan hátt hér við land en við meginlönd. Rannsóknir á flutningsleiðum mengunarefna til íslenska hafsvæðisins verði auknar.
Kerfisbundnar mengunarmælingar í sjó hér við land hafa verið framkvæmdar síðan 1989 í tengslum við skuldbindingar okkar gagnvart OSPAR-samningnum og AMAP Norðurlandasamstarfinu. Mæliþáttum hefur verið fjölgað og jafnframt hefur fé til verkefnisins verið aukið á undanförnum misserum. Á næstunni kemur út skýrsla um rannsóknirnar þar sem gerð er grein fyrir niðurstöðum rannsókna frá 1989 til 1996. Rannsóknirnar hefa m.a. beinst að styrk, dreifingu og flutningsleiðum þungmálma hér við land.
• Leitað verði frekari leiða til að koma í veg fyrir losun úrgangsolíu og annars úrgangs í sjó. Mikilvægt er að viðunandi aðstaða sé í höfnum landsins til að taka á móti úrgangsolíu og sorpi frá skipum.
Í nóvember 1998 gaf HVR út bæklinginn "Mengun frá skipum - Reglur um olíu- og sorpmenguna frá skipum - Leiðbeiningar fyrir áhafnir".
Í reglugerð um varnir gegn sorpmengun frá skipum nr. 107/1998 er gerð krafa um að skip sem eru 400 brúttótonn eða stærri og skip sem skráð er til að flytja fleiri en 15 menn eiga að hafa sorpdagbók.
Í reglugerð um varnir gegn mengun sjávar frá skipum nr. 715/1995, er m.a. gerð krafa um austursskilju, geyma fyrir úrgangsolíu og olíudagbækur.
Í reglugerð um viðbrögð við bráðamengun sjávar nr. 465/1998 er að finna ákvæði um mengun af völdum úrgangsolíu.
Spilliefnanefnd er að taka á olíumálum. Búið er að gera þjónustusamning við olíufélögin um smurolíu. Olíufélögin hafa gert með sér samning um svartolíu, sem staðfestur var af umhverfisráðherra í mars 1999. Breyting á spilliefnareglugerð vegna olíu tók gildi 15. mars 1999. Í heild má segja að móttaka olíu og úrgangs í höfnum sé í góðum farvegi, þótt auðvitað megi alltaf gera betur.
• Banna skal notkun málningar hér á landi sem inniheldur tribútyltin-sambönd (tbt). Almennt hefur notkun málningar með efninu á fiskiskip verið hætt, en þar sem hún var notuð töluvert áður fyrr skal fylgst áfram með áhrifum tbt á lífríkið.
Í reglugerð nr. 516/1994 er kveðið á um bann við notkun á efnum sem innihalda kvikasilfurssambönd, arsenefnasambönd og lífræn efnasambönd tins (tribútýltin).Skip yfir 25 m mega nota málningu sem inniheldur tbt, en slík málning er ekki notuð eða flutt inn af íslenskum aðilum. Gefnar voru út almennar leiðbeiningar fyrir um fimm árum og sendar til slippa um hvernig æskilegt er að standa að vinnu við að sandblása og hreinsa af skipum og hvað á að gera þegar verið er að nota tbt-málningu.• Stefnt verði að hreinni framleiðslutækni í fiskiðnaði með hagræðingu í vinnsluhúsum, t.d. með minni vatnsnotkun, fitugildrum og grófsíun frárennslis. Áætlanir um umbætur í frárennslismálum einstakra fyrirtækja skulu gerðar í samvinnu við viðkomandi sveitarfélög.Á vegum norrænu ráðherranefndarinnar, í vinnuhóp um dreifðar byggðir, var unnið verkefni um hreinni framleiðslutækni. Í framhaldi af því styrkti ráðuneytið útgáfu handbókar um hreinni framleiðslutækni. Þá hefur verið í gangi evrópskt verkefni um umhverfisstjórnun í fyrirtækjum. Í tengslum við þetta hafa Iðntæknistofnun, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og Hollustuvernd ríkisins unnið með nokkrum framleiðslufyrirtækjum í fiskiðnaði að verkefni um hreinni framleiðslutækni og umhverfisstjórnun. Samkvæmt mengunarvarnareglugerð skal vera fráveita á öllum þéttbýlisstöðum.Í reglugerðinni er kveðið á um að sveitarfélög skuli gera áætlun um hreinsun skólps. Í starfsleyfum mengandi fyrirtækja er kveðið á um hreinsun skólps áður en það er sett í kerfi sveitarfélagsins og hvernig skólpið má vera samansett.• Alþjóðlegri framkvæmdaáætlun um vernd hafsins gegn mengun frá landstöðvum, sem samþykkt var á ráðstefnu í Washington 1995, verði fylgt eftir með það að markmiði að draga úr og stöðva mengun hafsins af völdum þrávirkra lífrænna efna. Gera þarf úttekt á öllum þeim atriðum sem framkvæmdaáætlunin nær til og meta hvar nauðsynlegt er að gera endurbætur svo að þessi áætlun komist til framkvæmda hér á landi. Á vegum Hollustuverndar ríkisins, mengunarvarna sjávar, hefur verið unnið að íslenskri framkvæmdaáætlun og gert ráð fyrir að skýrsla komi út í vor 1999.
• Ísland mun knýja á um alþjóðlegar takmarkanir eða bann við notkun þrávirkra lífrænna efna sem valda umhverfisskaða og heilsutjóni með gerð sérstaks alþjóðasamnings um þrávirk lífræn efni. Íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir því á alþjóðavettvangi að notkun málningar sem inniheldur tribútyltin verði hætt.
Samningaviðræður um gerð alþjóðasamnings um takmörkun á losun þrávirkra lífrænna efna hófust í Montreal í Kanada sumarið 1998.
Tillögur um bann við notkun málningar sem inniheldur tríbútyltin hefur verið á dagskrá Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO), en lítið hefur gerst í því máli undanfarin ár. Ísland styður bann við notkun tbt-málningar á þessum vettvangi.
• Ísland mun fylgjast grannt með alþjóðlegum samningum um verndun hafsins. M.a. verður unnið að því að Ísland verði aðili að samningum um bætur vegna olíuslysa frá árinu 1992.
Ísland tók virkan þátt í samningum um viðauka við OSPAR samninginn sem gekk í gildi á árinu 1998. Í október 1998 staðfesti Ísland samninga um olíubótasjóð og einkaréttarlega ábyrgð. Þeir öðlast gildi fyrir Ísland í nóvember 1999.
• Nýr samningur um vernd Norðaustur-Atlantshafsins (OSPAR) verði fullgiltur og ráðstafanir gerðar um þjóðréttarlega vernd hafsins á norðurslóðum.
Ríkisstjórnin fullgilti OSPAR-samninginn eftir að Alþingi samþykkti í maí 1997 þingsályktunartillögu sem heimilaði henni að fullgilda samninginn. Samningurinn gekk í gildi í mars 1998.
3. Orka og iðnaður
• Ríkisvaldið hafi forustu um að tryggja að ávallt sé fyrir hendi búnaður í höfnum landsins til að bregðast við olíuóhöppum og -slysum í þeim, bæði vegna dælingar olíu úr olíuskipum sem og vegna dælingar um borð í skip og báta. Jafnframt þarf að vera fyrir hendi viðbragðsáætlun til að vinna eftir sem og þjálfaður mannskapur, ella er hætta á að búnaðurinn komi að litlu haldi.
Í reglugerð um viðbrögð við bráðamengun sjávar nr. 465/1998 er kveðið á um nauðsynlegan búnað í höfnum, viðbragðsáætlanir o.fl. sem lýtur að viðbrögðum við olíuóhöppum og mengunarslysum.
• Eftirlit með reglum um varnir gegn mengun vegna geymslu, flutnings og dreifingar olíu verði hert.
• Gerðar verði strangar öryggiskröfur um olíuflutninga í bílum og geymslu olíu með tilliti til hugsanlegra mengunaróhappa. Gripið verði til nauðsynlegra ráðstafana á svæðum þar sem olía getur haft í för með sér óbætanlegan skaða, t.d. á vatnsverndarsvæðum.
• Keppt verði að því í skipulagi byggðar og samgöngukerfis að draga úr flutningaþörf m.a. milli heimila og vinnustaða.
Í nýju svæðisskipulagi fyrir höfuðborgarsvæðið mun slíkt vera til skoðunar, en þar er ætlunin að taka tillit m.a. til loftslagsbreytinga og hvernig megi draga úr loftmengun með bættu skipulagi.
• Ríkisstjórnin leiti hagrænna leiða sem hvetji til endsneytisnotkunar er feli í sér minnkun á útstreymi mengandi lofttegunda, svo sem koltvíoxíðs. Jafnframt verði í samvinnu við atvinnulífið kannaðar aðrar leiðir að sama marki.
Árið 1997 voru felld niður aðflutningsgjöld af rafmagnsbílum. Fræðsla til bíleigenda um eldsneytisnotknun bifreiða verður aukin með samvinnuverkefni um slíka upplýsingagjöf á vegum umhverfisráðuneytisins, Bílgreinasambandsins og Félags íslenskra bifreiðaeigenda.
• Ísland taki virkan þátt í gerð bókunar við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Reynt verður að draga eftir megni úr þeirri aukningu á útstreymi koltvíoxíðs sem orðið hefur, með það að markmiði að fylgja eftir framkvæmdaáætlun Íslands vegna samningsins. Endurmeta þarf framkvæmdaáætlunina ef og þegar ný ákvæði bætast við rammasamninginn. Sérstök "umsjónarnefnd ráðuneyta" mun hafa umsjón með framkvæmdaáætlun vegna rammasamningsins. Hlutverk nefndarinnar verður m.a. það að meta á hverju ári árangur af framkvæmdum og aðgerðum í fyrirliggjandi framkvæmdaáætlun.
Ísland tók virkan þátt í samningum um bókun við loftslagssamninginn sem felur í sér lagalega bindandi losunarmörk fyrir iðnríkin 2008-2012. Bókunin sem kennd er við Kyoto var samþykkt í desember, 1997. Frestur til að undirrita bókunina rann út 15. mars, 1999 en Ísland var ekki á meðal stofnaðila bókunarinnar.
Í mars 1998 var settur á fót samráðshópur ráðuneytisstjóra um loftslagsmálin undir formennsku ráðuneytisstjóra umhverfisráðuneytisins. Einnig var stofnuð vísindanefnd um loftslagsbreytingar sem meta mun afleiðingar loftslagsbreytinga fyrir íslenskt þjóðfélag og efnahagslíf. Auk þess var stofnsettur hópur hagfræðinga sem meta munu hagræn áhrif af aðgerðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þjóðhagstofnun vinnur að hagfræðilegu reiknilíkani í þeim tilgangi. Hópar um aðgerðir í samgöngum og sjávarútvegi hafa haldið áfram starfi sínu og skilaði samgönguhópurinn tillögum til samgönguráðherra á árinu 1998. Álit sjávarútvegshópsins mun liggja fyrir fyrri hluta árs 1999.
• Lög og reglugerðir um umhverfiskröfur til innflutts eldsneytis skal endurskoða með hæfilegu millibili. Hér er meðal annars um að ræða lög um varnir gegn mengun sjávar, lög um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, mengunarvarnareglugerð og reglugerð um varnir gegn olíumengun frá starfsemi í landi.
Umhverfiskröfur til innflutts eldsneytis hafa verið teknar til skoðunar við gerð mengunarvarnareglugerða og reglugerð um varnir gegn olíumengun frá starfsemi í landi.
• Lögleiddar verði reglur um að skylt sé að veita væntanlegum kaupendum nýrra bíla samræmdar upplýsingar um eldsneytisnotkun bíla sem boðnir eru til sölu.
Málið hefur verið til skoðunar, en nýverið hefur umhverfisráðuneytið skrifað undir samkomulag með Bílgreinasambandinu og Félag íslenskra bifreiðaeigenda um upplýsingagjöf varðandi eldsneytisnotkun nýrra bifreiða.
• Gerður verði samanburður á hagkvæmni og orkunotkun sjó- og landflutninga með tilliti til orkusparnaðar.
Slík athugun hefur ekki verið gerð að tilstuðlan umhverfisráðuneytisins.
4. Nytjavatn og jarðefni
• Lög verði sett um vatnsvernd. Í framhaldi af því verði metin nauðsynleg vatnsvernd umhverfis vatnsból.
Í reglugerð um neysluvatn nr. 319/1995, með síðari breytingum, er kveðið á um vatnsvernd. Þar er m.a. kveðið áum að umhverfis vatnsból skuli ákvarða verndarsvæði. Hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd ákvarðar stærð, lögun og fjölda verndarsvæða m.t.t. land- og jarðfærðilegra aðstæðna á vatnasviði vatnsbólsins. Vatnsból og verndarsvæði eru tilgreind á skipulagsuppdrætti.
Í umhverfisráðuneytinu er nú verið að hefja vinnu við smíði frumvarps til laga um vatnsvernd. Þá hefur verið lagt fram frumvarp til laga um vatnsvernd á Þingvallasvæðinu.
• Gert verði átak í að efla þekkingu á grunnvatni og nauðsyn þess að vernda vatnsból og koma í veg fyrir sóun vatns.
Umhverfisráðuneytið hefur ekki staðið fyrir fræðsluátaki á þessu sviði.
• Lög um vinnslu jarðefna verði endurskoðuð og samræmd, þannig að þau stuðli að aðhaldi í nýtingu þessarar takmörkuðu og endanlegu auðlindar og því að nýtingin sé í anda meginreglna um sjálfbæra þróun. Meðal annars verði kveðið á um að kortleggja skuli jarðefni. Flokka þarf námusvæði eftir efni, magni, aðgengi og gæðum efnis. Gerð verði rammaáætlun til langs tíma um nýtingu jarðefna á einstökum landsvæðum í samvinnu við sveitarfélög og eigendur náma.
Í nýjum lögum um náttúruvernd frá 1999 hafa ákvæði er lúta að vinnslu jarðefna verið styrkt verulega til þess að stuðla að bættu skipulagi námavinnslu og skýrari reglum um vinnslu jarðefna. Auk þess hefur lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands verið breytt þannig að ný skal stofnunin skrá berg- og jarðgrunna landsins með kerfisbundnum hætti og vinna að flokkun námasvæða eftir efni, magni, aðgengi, gæðum og verndargildi. Stofnunin er að hefja undirbúning þessarar vinnu og á grundvelli þess er ráðgert að vinna áætlun um nýtingu jarðefna.
• Lögum verði breytt þannig að tryggt verði að efnistökustaðir verði deiliskipulagðir. Þar verði m.a. gerð grein fyrir vinnsluaðferðum, tilhögun efnistöku og frágangi námu eftir vinnslu. Krafist verði tryggingar til frágangs námu að vinnslu lokinni.
Í nýjum lögum um náttúruvernd frá 1999 er lagt til að til frágangs á námum og efnistökustöðum verði heimilt að leggja fram tryggingafé til frágangs þegar efnistöku er lokið. Auk þess er að finns ákvæði um frágang námasvæða.
Í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 sbr. lög nr. 73/1997 er kveðið á um að í deiliskipulagi fyrir efnistökustaði skal greina frá þeirri efnistöku sem fram hefur farið og /eða er fyrirhuguð og öðru sem þurfa þykir. Einnig skal gera grein fyrir frágangi svæðisins að lokinni vinnslu og fyrirhuguðum eða mögulegum síðari notum svæðisins
• Við endurskoðun laga um náttúruvernd verði skýr ákvæði um verndun jarðmyndana auk ákvæða um verndun landslags. Við endurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum verði stærðarmörk náma sem falla undir lögin endurskoðuð og námuhugtakið skýrt betur.
Í nýjum lögum um náttúruvernd frá 1999 er sérstakur kafli sem fjallar m.a. um landslagsvernd þar sem m.a. er kveðið á um að ákveðnar landslagsgerðir njóti sérstakrar verndar og að þeim skuli forðast að raska, en það eru t.d. eldvörp, gervigígar og eldhraun, fossar, hverir og aðrar heitar uppsprettur.
Í drögum að frumvarpi til nýrra laga um mat á umhverfisáhrifum eru stærðarmörk náma skýrð betur en áður.
• Tryggt verði í samvinnu við sveitarfélög virkt eftirlit með námavinnslu og frágang svæða að henni lokinni. Sveitarfélög taki mið af þörfum fyrir jarðefni og hvar þau kunni að vera að finna við gerð skipulags.
Í núgildandi skipulagslögum eru ákvæði um skipulagningu námavinnslusvæða og er það eðlilegur þáttur í skipulagsvinnu að taka tillit til þarfa sveitarfélagsins fyrir jarðefni á gildistíma skipulagsins.
• Stuðlað verði að fræðslu um mikilvægi þess að nútíma samfélag hafi aðgang að jarðefnum og þess að sóun þeirra verði hætt.
Skýrslan Námur á Íslandi var gefin út á vegum Náttúruverndarráðs haustið 1995, en í henni er að finna mikilsverðar upplýsingar um fjölda efnisnáma á Íslandi og umgengni við þær. Ekki hefur verið staðið að fræðslu á þessu sviði síðan þá.
5. Samgöngur og ferðamál
- Stjórnvöld, í samvinnu við Siglingastofnun Íslands, útgerðir og samtök þeirra og eftir því sem við á aðrar stofnanir, félög og samtök:
• Beiti sér fyrir setningu nauðsynlegra reglna, í samræmi við alþjóðlegar reglur og samninga um staðla, um ábyrgð mengunarvalds vegna mengunaróhappa í höfnum og við strendur landsins og á hafinu innan lögsögu.
Í byrjun árs 1999 hófst endurskoðun laga um varnir gegn mengun sjávar nr. 32/1986 og var skipuð nefnd til að vinna það verk.
- Stjórnvöld, í samvinnu við hlutaðeigandi stofnanir og flutningafyrirtæki og eftir því sem við á félög og samtök:
• Beiti sér fyrir samræmdum reglum og eftirliti með flutningi og geymslu hættulegra efna.
- Stjórnvöld, í samvinnu við Náttúruvernd ríkisins, Náttúruverndarráð og Ferðamálaráð Íslands, ferðamálasamtök landshluta, áhugamannasamtök, einstaklinga, fyrirtæki og samtök þeirra:
• Tryggi að við stefnumótun í skipulags- og umhverfismálum verði tekið tillit til þarfa ferðaþjónustunnar.
Hér er um að ræða almennt stefnumið, sem umhverfisráðuneytið reynir að hafa í heiðri, m.a. með reglulegum samráðsfundum með samgönguráðuneytinu, sem fer með ferðamál.
• Umhverfisráðuneytið tryggi í samvinnu við samgönguráðuneytið, Ferðamálaráð, hagsmunaaðila og samtök áhugamanna, fjármuni vegna kostnaðar við nauðsynlega náttúruvernd samhliða ferðaþjónustu. Aukin ferðaþjónusta kallar á aukna landvörslu og náttúruvernd, til þess að hún geti talist sjálfbær og náttúruminjar skaðist ekki.
Vinnuhópur Náttúruverndar ríkisins, Ferðamálaráðs Íslands og Vegagerðar ríkisins vinnur að því að móta tillögur til viðkomandi stofnana og umhverfisráðuneytisins og samgönguráðuneytisins um framkvæmdir á friðlýstum svæðum og vinsælum ferðamannastöðum og hvernig styrkja megi landvörslu, náttúruvernd og sjálfbæra ferðaþjónustu.
6. Meðferð úrgangs
• Á heimilum skal stefnt að minnkun úrgangs með upplýsingum og fræðslu til heimilanna, þar sem hvatt er til minnkunar sorps strax við innkaup.
Umhverfisráðuneytið vann í samvinnu við Kvenfélagasambandi Íslands að útgáfu bæklings árið 1996, þar sem m.a. var að finna leiðbeiningar um hvernig hægt væri að minnka úrgang með skynsamlegri innkaupum og aukinni endurvinnslu.
• Sett verði skýr ákvæði um eftirlit og framkvæmd sorphirðumála (meðferð heimilis- og framleiðsluúrgangs) í lög.
Verið er að vinna að frumvarpi um úrvinnslu úrgangs í umhverfisráðuneytinu og unnið er að endurskoðun mengunarvarnareglugerðar.
• Umhverfisráðuneyti, Hollustuvernd ríkisins og Samband íslenskra sveitarfélaga vinni leiðbeiningar fyrir sveitarfélög um sorphirðuáætlanir.
Sorphirðuáætlanir fyrir einstaka landshluta voru unnar á árunum 1994-1996. Hollustuvernd ríkisins heldur saman upplýsingum um sorphirðuáætlanir sveitarfélaga, samkvæmt ákvæðum mengunarvarnareglugerðar.
• Til að draga úr magni úrgangs sem fer til endanlegrar förgunar og auka endurnýtingu verður hagrænum aðgerðum beitt í ríkara mæli.
Lög um spilliefnagjald nr. 56/1996 komu til framkvæmda síðari hluta árs 1996. Með spilliefnagjaldi er hagrænum aðferðum beitt til þess að tryggja endurvinnslu eða ábyrga förgun spilliefna.
Í umhverfisráðuneytinu er unnið að frumvarpi til laga um úrvinnslu úrgangs. Þar er gert ráð fyrir að leggja umhverfisgjald á vörur til að stuðla að úrvinnslu þegar varan er orðin að úrgangi. Tekið er mið af því kerfi sem komið hefur verið á í tengslum við spilliefnagjald.
• Umhverfisráðuneytið, Hollustuvernd ríkisins og Samband íslenskra sveitarfélaga skipuleggi, í samráði við spilliefnanefnd, kynningarstarfsemi um leiðir til þess að draga úr notkun efna sem enda sem spilliefni í sorpinu og þær hættur og kostnað sem hlýst af völdum spilliefna.
Ekki hefur verið ráðist í sérstakt kynningarátak í þessu skyni enn sem komið er, en Soilliefnanefnd hefur staðið fyrir námsstefnu um spilliefni.
• Umhverfisráðuneytið leiti eftir samstarfi við heilbrigðisyfirvöld og Samband íslenskra sveitarfélaga til að tryggja farveg fyrir förgun sóttmengaðs úrgangs frá öllum heilbrigðisstofnunum og lækningastofum.
Í undirbúningi er að skipa nefnd á vegum umhverfisráðuneytisins um þetta mál.
• Ríkisstjórnin, samtök atvinnulífsins og Samband íslenskra sveitarfélaga beiti sér fyrir að koma söfnun og endurvinnslu brotamálma í viðunandi horf sem fyrst. Enn fremur verði reglugerð fjármálaráðuneytis nr. 248/1990 um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila lagfærð sem fyrst þannig að endurgreiðsla virðisaukaskatts nái til söfnunar, flutnings og meðhöndlunar á úrgangi til endurnýtingar.
Í umhverfisráðuneytinu er unnið að frumvarpi til laga um úrvinnslu úrgangs. Þar er gert ráð fyrir að leggja umhverfisgjald á vörur til að stuðla að úrvinnslu þegar varan er orðin að úrgangi. Reiknað er með að fjallað verði um brotamálma innan ramma slíkra laga.
Reglugerð nr. 248/1990 um VSK af skattskyldri starfsemi opinberra aðila hefur verið lagfærð. eins og tilgreint er í ákvæðinu.
• Tryggja verður að íslensk fyrirtæki geti fengið umhverfisstjórnunarkerfi (EMAS, ISO 14001) skráð/vottuð hér á landi.
Eitt íslenskt fyrirtæki, Íslenska álfélagið hf., hefur fengið vottun hér á landi skv. ISO 14.001 staðli.
• Stjórnvöld tryggi að fylgst verði með þeirri vinnu sem unnin er í tengslum við staðlagerð í umhverfismálum. Niðurstöður þeirrar vinnu verði settar fram á aðgengilegu formi fyrir fyrirtæki og þeim auðveldað að laga starfshætti að þeim kröfum sem fram koma í stöðlunum. Í reglugerðum um umhverfismál verði vísað beint í staðla þar sem það á við.
Umhverfisráðuneytið hefur styrkt starf Staðlaráðs á þessu sviði.
• Kannað verði hlutfall lífræns úrgangs hér á landi og fáanleg stoðefni.
Umhverfisráðuneytið hefur ekki staðið fyrir slíkri könnun. E.t.v. ættu sorphirðufyrirtæki að hafa forgöngu um slíka könnun.
• Samráðshópur á vegum umhverfisráðuneytis og landbúnaðarráðuneytis vinni að því að finna not fyrir afurðir lífræns úrgangs.
Nefnd var starfandi um þetta verkefni og skilaði tillögum til umhverfisráðherra. Í kjölfar þess var málið tekið upp í ríkisstjórn og á fjárlögum 1999 er veitt fé til að ráðast í þetta verkefni. Taka þarf upp samstarf við atvinnulífið og sveitarfélög um málið.
• Skilgreina þarf garðaúrgang sem endurnýtanlegt efni og hvetja að hann fari í moltu. Sama á við um eldhúsúrgang frá heimilum. Hvatt verði til heimajarðgerðar þar sem það á við.
Á vegum norrænu ráðherranefndarinnar í vinnuhóp um dreifðar byggðir var unnið að verkefnum um jarðgerð. Í framhaldi af því gaf ráðuneytið út tvo bæklinga árið 1996.
"Heimajarðgerð - Snjöll leið til að farga sorpi - leiðbeiningar fyrir sveitarfélög" og Endurvinnsla í garðinum - Leiðbeiningar um heimajarðgerð". Þessir bæklingar voru sendir öllum sveitarfélögum til kynningar og þeim boðið að fá fleiri eintök. Nokkur þeirra tóku því boði.
• Stefna skal að því að endurnýta lífrænan úrgang og skilgreina kröfur til afurðar mismunandi eftir notkun. Setja þarf fram kröfur til framleiðsluferlisins í vinnslustöð og íláta fyrir heimajarðgerð. Skoða þarf nýtingu afurðarinnar.
Vísað er í svar ráðuneytisins hér að ofan varðandi jarðgerð lífræns úrgangs.
• Ríkisstjórnin, Samband íslenskra sveitarfélaga og samtök atvinnulífsins beiti sér fyrir að nú þegar verði fiskúrgangi, sláturhúsa- og kjötvinnsluúrgangi ásamt úrgangi frá stóreldhúsum, fundinn annar farvegur en urðun, og skal því markmiði náð að fullu fyrir aldamót.
Ekki hefur verið tekið á þessum málum á heildstæðan hátt eins og nefnt er í ákvæðinu. Framkvæmdin kallar á samstarf margra aðila.
• Umhverfisráðuneytið beiti sér fyrir samstarfi við atvinnulífið sem stuðli að því að markmið reglugerðar um umbúðir og umbúðaúrgang verði komið á eins fljótt og auðið er.
Umsjónarnefnd til að vinna að markmiðum reglugerðar nr. 609/1996 um meðferð umbúða og umbúðaúrgang hefur verið starfandi frá því vorið 1997. Í umsjónarnefndinni eru fulltrúar frá Vinnumálasambandinu, Samtökum iðnaðarins, VSÍ, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Hollustuvernd og umhverfisráðuneytinu. Nefndin hefur unnið frumáætlun að markmiðum þeim sem fram koma í reglugerðinni og tekið saman upplýsingar um magn umbúða og umbúðaúrgangs á Íslandi árið 1995. Umsjónarnefndin hefur ekki lokið störfum.
• Á grundvelli reglugerðar um umbúðir og umbúðaúrgang verði komið á skráningu innlendra framleiðenda og innflytjenda um notkun umbúða. Framleiðendur skili inn gögnum reglulega til Hagstofu Íslands með upplýsingum um tegund umbúða, stærð, magn, efnasamsetningu o.fl. þætti sem nauðsynlegt er að fá upplýsingar um til að hægt sé að fylgjast með umbúðamagni. Innflytjendur skulu með sama hætti tiltaka magn umbúða sem fluttar eru inn til landsins hvort sem þær eru tómar eða utan um erlendar vörur.
Þetta mál er í vinnslu, sbr. ofangreint svar varðandi störf umsjónarnefndar til að vinna að markmiðum reglugerðar nr. 609/1996 um meðferð umbúða og umbúðaúrgang.
• Kannaðir verði möguleikar á að taka fleiri tegundir drykkjarvöruumbúða inn í lög um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur og að breyta þeim lögum þannig að þau taki einnig til annarra tegunda umbúða.
Ekki er í bígerð á næstunni að breyta lögunum í þessu skyni.
• Hollustuvernd ríkisins kynni almenningi niðurstöður rannsókna, mengunarmælinga og verkefna á sviði umhverfisvöktunar sem unnin eru í tengslum við rekstur förgunarstöðva.
Ákvæði um að almenningi séu kynntar niðustöður rannsókna, mengunarmælinga og verkefna á sviði umhverfisvöktunar sem unnin eru í tengslum við rekstur förgunarstöðva eru að hluta til í starfsleyfum fyrir sorpförgun. Kveðið verður nánar á um kynningarmál í væntanlegri reglugerð um starfsleyfi sem kemur út á þessu ári.
7. Byggðaþróun
• Skipaður verði starfshópur með fulltrúum frá forsætisráðuneyti, umhverfisráðuneyti, Skipulagi ríkisins og Byggðastofnun til að gera tillögur um hvernig samræma megi svæðisskipulagsgerð samkvæmt skipulagslögum og svæðisbundnar byggðaáætlanir Byggðastofnunar.
Starfshópurinn var ekki skipaður. Þess í stað fór af stað tilraun um markvissari samræmingu á vinnubrögðum Skipulags ríkisins og Byggðastofnunar við gerð tveggja svæðisskipulagsáætlana, fyrir Eyjafjörð og Fljótsdalshérað. Forsendur hafa breyst og mun ástæða til að leita nýrra leiða um samræmingu á hagrænum áætlunum í formi svæðisbundinna byggðaáætlana og landnotkunaráætlunum samkvæmt skipulagslögum.
• Til að renna stoðum undir markvissari áætlanagerð og meiri samræmingar milli stjórnvalda og framkvæmdaraðila, verði unnið að stafrænni kortagerð og uppbyggingu á landfræðilegu upplýsingakerfi.
Markviss uppbygging landupplýsingakerfa hefur liðið fyrir að ekki er allt landið til á stafrænum kortagrunni. Á fjárlögum 1999 er sérstakri fjárveitingu veitt í stafræna kortagerð. Einnig er á fjárlögum sama árs fjárveiting vegna tilraunaverkefnis á Suðurlandi um landskrá fasteigna og einskráningu upplýsinga fyrir fasteignaskrár og þinglýsingar með með tengingu við stafræn kort.
• Áætlanir um þróun og skipulag byggðar taki tillit til umhverfis- og öryggisþátta, svo sem hættu á náttúruhamförum, með sama hætti og hagfræðilegra vaxtarskilyrða.
Með skipulags- og byggingarlögum er gildi tóku 1. janúar 1998, er ítarlegar en áður kveðið á um að gera þurfi grein fyrir umhverfis- og öryggisþáttum við gerð skipulagsáætlana.
• Rannsakað verði samhengi samgangna og byggðamynsturs og metin langtímaáhrif tiltekinna skipulagskosta fyrir umhverfið.
Slík rannsókn hefur ekki farið fram að tilstuðlan umhverfisráðuneytisins.
• Rannsökuð verði langtímaáhrif stofnvega á miðhálendinu með tilliti til umhverfis, hagkvæmni, ferðaþjónustu, atvinnuþróunar og byggðamynsturs.
Slík rannsókn hefur ekki farið fram.
• Mörkuð verði stefna um landsskipulag með ríka áherslu á umhverfisvernd og þar sem tillit er tekið til ólíkra hagsmuna, svo sem framleiðslu og dreifingar orku, samgangna, hollustuhátta og öryggis.
Slík stefna um landsskipulag hefur ekki verið mörkuð. Vinna við rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma er að hefjast í samvinnu iðnaðarráðuneytisins og umhverfisráðuneytisins.
• Lokið verði hið fyrsta við gerð svæðisskipulagsáætlana fyrir allt landið. Unnið verði í samræmi við stefnu sem Alþingi og ríkisstjórn marka um landsskipulag.
Svæðisskipulag á enn eftir að gera á Vestfjörðum, Húnavatnssýslum, Þingeyjarsýslum, Suður-Múlasýslu, Skaftafellssýslum, Rangárvallasýslu og í uppsveitum Árnessýslu. Nokkrar svæðisskipulagsáætlanir eru á lokastigi og fáeinar eldri áætlanir eru komnar á endurskoðunarstig.
• Við svæðisskipulagsgerð verði lögð áhersla á að landnotkun og landnýting gangi ekki á auðlindir og umhverfi þannig spillt sé möguleikum síðari kynslóða til búsetu í landinu. Jafnvægis sé gætt á milli nýtingar og náttúruverndar.
Í skipulags- og byggingarlögum og skipulagsreglugerð eru ákvæði þar sem gert er ráð fyrir að í greinargerð komi umhverfismat á áætlunina, m.a. þannig að sjá megi hvaða valkostir hafi verið bornir saman.
Einnig hefur farið af stað samstarfsverkefni umhverfisráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga um Staðardagskrá 21 um sjálfbæra þróun sem á þá einnig að taka til landnotkunar.
• Lokið verði við áætlun um skipulag miðhálendisins þar sem m.a. verði kveðið á um stjórnsýslumörk sveitarfélaga.
Lokið er við tillögu að svæðisskipulagi miðhálendis og með nýjum sveitarstjórnarlögum er skýrt kveðið á um stjórnsýslumörk sveitarfélaga á miðhálendi sem og á jöklum.
• Þróaðar verði aðferðir með það að markmiði að samræma mat á umhverfisáhrifum og gerð skipulagsáætlana.
Í skipulagsreglugerð (nr. 400/1998) eru ákvæði sem renna stoðum undir að umhverfisáhrifum áætlunarinnar verði lýst sérstaklega í greinargerð áætlunarinnar.
8. Umhverfisfræðsla
• Umhverfisráðuneyti, menntamálaráðuneyti og/eða aðrir til þess bærir aðilar stuðli að útgáfu og gefi út fræðsluefni með upplýsingum, verkefnum og leiðbeiningum. Æskilegt er að afmörkuð efni verði tekin ítarlega fyrir og verði hentug fyrir ákveðin skólastig.
Umhverfisráðuneytið og stofnanir þess hafa gefið út og styrkt gerð bæklinga og annars fræðsluefnis síðastliðin ár, bæði fyrir almenning og skólafólk. Ráðuneytið gaf út bæklinginn Mengun á Íslandsmiðum árið 1998, sem dreift var í 10.000 eintökum til grunn- og framhaldsskóla. Bæklingnum Verndun ósonlagsins, sem gefinn var út af norrænu ráðherranefndinni og styrktur af umhverfisráðuneytinu og Hollustuvernd ríkisins, var dreift í 10.000 eintökum til grunnskóla. Ráðuneytið styrkti gerð námsefnisins Sorpið okkar (tölvudiskur og myndband) í samvinnu við Sorpu og Námsgagnastofnun og styrkti dreifingu myndbanda með þáttunum Í sátt við náttúruna eftir Ara Trausta Guðmundsson til skóla.
• Saminn verði vegvísir fyrir kennara um umhverfisfræðslu. Þar verði yfirlit yfir aðgengileg gögn, ábendingar um leiðir til að ná ákveðnum markmiðum, ábendingar um hvar hægt sé að leita upplýsinga og fá aðstoð. Námsgagnastofnun gefi út sérstakan lista yfir aðgengilegt efni og námsgögn um umhverfismennt.
Slíkur vegvísir hefur verið saminn og var gefinn út árið 1998. Heiti ritsins er Umhverfismennt og höfundur er Þorvaldur Örn Árnason. Gerð ritsins var styrkt af menntamálaráðuneytinu og umhverfisráðuneytið veitti styrk til útgáfu þess.
• Stofnað verður sérstakt umhverfisfræðsluráð til að sjá um að hagnýtum upplýsingum um mikilvægi sjálfbærrar þróunar á öllum stigum samfélagsins sé veitt með skipulegum hætti til almennings og skóla. Hlutverk ráðsins verði að hvetja til aðgerða, koma á samvinnu, samræma og stuðla að aukinni umhverfismennt í samvinnu við sveitarfélög, samtök áhugamanna um umhverfismál, samtök almennings, aðila vinnumarkaðarins og stofnanir.
Umhverfisfræðsluráð var skipað af umhverfisráðherra í janúar 1998. Eftirtaldir aðilar skipa fulltrúa í ráðið: Umhverfisráðuneytið, menntamálaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Námsgagnastofnun, ASÍ, VSÍ/VMSS, Neytendasamtökin og umhverfisverndarsamtök.
• Umhverfisráðuneytið og stjórnvöld stuðli að útgáfu fræðsluefnis fyrir almenning og aukinni þáttagerð í fjölmiðlum, þar sem getið skal helstu atriða í rekstri heimilis og daglegu lífi, sem áhrif hafa á umhverfið og bent á leiðir til úrbóta.
Umhverfisráðuneytið aðstoðaði við gerð og styrkti útgáfu bæklinga um umhverfismál, sem UMFÍ og Kvenfélagasamband Íslands gáfu út og ætlaðir voru almenningi. Í bæklingi KÍ, Umhverfið og við, var greint frá því sem almenningur getur gert til að bæta umhverfið, s.s. með betri nýtingu orku og hráefnis, aukinni endurvinnslu o.s.frv. Þá gaf umhverfisráðuneytið út tvo bæklinga um jarðgerð, annan ætlaðan almenningi en hinn sveitarstjórnum, þar sem var að finna leiðbeiningar um jarðgerð lífræns úrgangs.
• Sérstakri fræðslu og hvatningu verði beint til þeirra, sem sinna innkaupum fyrirtækja þannig að þau auki notkun á viðurkenndum umhverfisvænum vörum.
Að tilhlutan umhverfisráðherra samþykkti ríkisstjórnin umhverfisstefnu í ríkisrekstri árið 1997, þar sem m.a. er fjallað um innkaup á umhverfisvænum vörum. Í framhaldi af því var settur á fót vinnuhópur árið 1998, sem vinna á handbók um umhverfisvæn innkaup, en í honum eiga fulltrúa samtök atvinnulífsins og sveitarstjórna, auk umhverfisráðuneytis.
• Stofnað verði til sérstakra umhverfisverðlauna, sem veitt verða árlega fyrir umfjöllun um umhverfismál. Verðlaunin verði veitt fjölmiðlum jafnt sem einstökum blaðamönnum, dagskrárgerðarmönnum, textahöfundum og kvikmyndagerðarmönnum.
Umhverfisverðlaunum til fjölmiðla var úthlutað í fyrsta sinn árið 1998. Nefnd sem skipuð er fulltrúum umhverfisráðuneytis, umhverfisverndarsamtaka og Blaðamannafélags Íslands sér um úthlutun verðlaunanna.
• Stofnað verði til sérstakrar fræðslu á sviði umhverfismála fyrir blaðamenn, t.d. við fjölmiðlanám Háskóla Íslands, svo og í endurmenntunarkerfi H.Í., þar sem fjölmiðlafólki væri m.a. gefinn kostur á að taka þátt í vinnuhópum við hæfi þess fjölmiðils (ljósvakamiðlar, dagblöð, tímarit, landsmála- og héraðsfréttablöð) sem það starfar við.
Umhverfisráðuneytið hélt námskeið fyrir blaðamenn í apríl 1997, þar sem fjallað var um helstu áherslur í umhverfismálum á Íslandi og á alþjóðavettvangi.
• Umhverfisráðuneytið leiti eftir samstarfi við fræðslu- og vísindastofnanir, háskóla, áhugamannasamtök og sveitarfélög um uppbyggingu Náttúrugripasafns Íslands sem nútímalegs náttúrusafns, þannig að það nýtist almenningi sem fræðimönnum og geti þjónað öllum skólastigum og ferðamönnum.
Ríkisstjórnin samþykkti í febrúar 1999 tillögu umhverfisráðherra um byggingu náttúruhúss. Eftir er að útfæra tillöguna nánar, en reiknað er með að smíði þess taki um 5 ár.
• Komið verði á samstarfi aðila vinnumarkaðarins á sviði umhverfisfræðslu. Umhverfisfræðsluráð, ásamt samtökum atvinnulífsins, vinni að því að efla og samræma umhverfisfræðslu vinnumarkaðarins. Með markvissri fræðslu verði starfsmenn í fyrirtækjum meðvitaðir um skaðsemi efna sem þeir vinna með og hvernig draga megi úr áhrifum á umhverfið og um leið bæta andlega og líkamlega líðan.
Umhverfisfræðsluráð hefur, enn sem komið er a.m.k., ekki unnið sérstaklega að þessu máli.
• Umhverfisfræðsluráð komi upp upplýsingabanka um umhverfismál á netinu í samráði við stofnanir, samtök og aðra aðila sem koma að umhverfismálum. Slíkt upplýsinganet ætti m.a. að nýtast fjölmiðlafólki og stuðla þannig að aukinni upplýsingamiðlun, bæði um innlend og alþjóðleg umhverfismál.
Að tilstuðlan umhverfisfræðsluráð hefur verið settur upp upplýsingabanki um umhverfismál á netinu, sem hlotið hefur heitið Umhverfisvefurinn og mun vera fyrsti gagnvirki og flokkaði vefurinn á íslensku. Umhverfisvefurinn var formlega opnaður 10. feb. 1999.
5.2. LANDBÚNA'ARRÁ'UNEYTI'
• Landnotendur geri gróðurnýtingaráætlun hver fyrir sína jörð þar sem gerð er grein fyrir því hvernig þeir hyggjast sjá búfé fyrir fóðri og bithaga hvort sem það er með nýtingu heimalanda, leigu á beitarrétti, landgræðslu eða afréttarnotum. Eftirlit með landnytjum verði á ábyrgð sveitarfélags og heimaaðila, svipað og er um forðagæslu búfjár.
Landeigendur gera enn ekki gróðurnýtingaráætlanir fyrir sínar jarðir nema í undantekningatilfellum en vísir að slíkum áætlunum er á nokkrum jörðum.
Gert er ráð fyrir að verkefnið "Nytjaland" hefjist á næsta ári þ.e. ný alhliða jarðabók fyrir einstakar jarðir þar sem safnað er saman ýmsum grunnupplýsingum um jarðirnar en slíkar upplýsingar eru forsendur fyrir gerð gróðurnýtingaráætlana. Brýnt er að aðstoð við framkvæmd eftirlits sveitarfélaga og heimaaðila með landnýtingu sé skýr. Í tengslum við "Bændur græða landið" er unnið að undirbúningi kortlagningar einstakra jarða vegna uppgræðslu og landnýtingar. Sú upplýsingasöfnun verður hluti af "Nytjalandi" er fram líða stundir.
Landgræðsla ríkisins fer með gróðureftirlit samkvæmt lögum um landgræðslu nr. 17/1965. Lög um búfjárhald nr. 46/1991 kveða á um að búfjáreftirlitsmenn fylgist einnig með ástandi beitilanda á sínu starfssvæði. Landgræðslan hefur staðið fyrir fræðslufundum fyrir búfjáreftirlitsmenn í samstarfi við Búnaðarsamböndin til að treysta framkvæmd laganna. Landgræðslulögin eru í endurskoðun og er gert ráð fyrir að fram komi breytingar sem geri landnotendur enn frekar ábyrgari gangvart landnytjum og að eftirlitið færist meira í hendur sveitarstjórna.
• Búvöruframleiðsla og búfjárhald taki mið af landgæðum í mun ríkara mæli en nú er. Samfara endurskipulagningu og hagræðingu, sem nú á sér stað í landbúnaði, þarf að afla gagna til að hægt sé að votta að landnýting sé í samræmi við landkosti og æskilega nýtingu.
Með setningu reglugerðar um vistvæna landbúnaðarframleiðslu nr. 504/1998 skapaðist grundvöllur til að koma á betra samræmi á milli landgæða og búvöruframleiðslu. Í mótun eru viðmiðunarreglur um vottun vistvænnar landbúnaðarframleiðslu og í undirbúningi er vísir að gæðastýringu í hrossarækt sem styðst við vottunarkerfi búfjárafurða. Sumarið 1998 fékk Rannsóknastofnun landbúnaðarins sérstaka fjárveitingu til að hefja úttekt á úthaga, bæði á einstökum jörðum og í afréttum þannig að unnt verði að meta beitarþol og tengja þeim kröfum sem gerðar eru til vistvænnar gæðastýringar en hún stuðlar að sjálfbærri þróun. Einnig nýtast þessar upplýsingar vegna lífrænnar gæðavottunar, sbr. reglugerð um lífræna landbúnaðarframleiðslu nr. 219/1995 með breytingum nr. 90/1998.
• Fræðsla verði aukin til leiðbeinenda um beitarnot sem auðveldi þeim að aðstoða bændur við mat á hóflegri nýtingu lands, við landbætur í heimalöndum og afréttum og beitarstjórnun.
Bændasamtök Íslands hafa verið með sérhæfðar leiðbeiningar um beitarnýtingu síðan 1977 og er því starfi haldið áfram, m.a. í tengslum við umhverfistengda gæðastýringu. Þá má nefna tvo bæklinga sem Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Landgræðsla ríkisins gáfu út, annars vegar Hrosshagar og hins vegar Að lesa landið.
• Gerð verði áætlun um skógrækt á landinu. Aðferðir við skógrækt t.d. tegundaval og ræktunaraðferðir, þurfa að taka mið að markmiðum skógræktar á hverjum stað.
Unnið er að gerð landsáætlunar í skógrækt samkvæmt þingsályktun þar að lútandi. Skógrækt ríkisins áætlaði kostnað upp á 15 m.kr. á ári ef takast ætti að ljúka við áætlunina á 3 árum. Unnið var að skráningu skógræktarreita á landinu öllu til undirbúnings nýrrar úttektar á skógræktarskilyrðum, sem verður þungamiðja landsáætlunar í skógrækt . Þá fór fram talsverð stefnumörkunarvinna í tengslum við samningu frumvarps til nýrra skógræktarlaga.
Ljóst er, miðað við það fjármagn sem varið er til verksins, að annað hvort 1) mun það taka talsvert lengri tíma að semja landsáætlun í skógrækt en þau 3 ár sem upphaflega var gert ráð fyrir eða 2) landsáætlunin verður gróf og það mun vanta ýmsa þætti sem æskilegt væri að hafa með.
• Rannsóknir á þýðingu skógræktar fyrir sjálfbæra landnýtingu verða efldar, þ.m.t. rannsóknir á áhrifum skógræktar á vatnabúskap, jarðvegsvernd, líffræðilega fjölbreytni, framleiðni vistkerfa, efna- og orkuhringrásir og félags- og efnahagsþætti. Jafnframt verða rannsóknir á leiðum til að auka útbreiðslu, vöxt og sjálfbæra nýtingu skóga efldar.
Skógrækt ríkisins tekur þátt í eða stuðlar að eftirfarandi rannsóknaverkefnum sem tengjast sjálfbærri skógrækt:
Umhverfisvöktun að Litla-Skarði í Stafholtstungu þar sem m.a. er fylgst með vatnsbúskap og efnafræði vatns á svæði sem er að klæðast skógi með sjálfgræðslu birkis eftir friðun fyrir beit. (í samvinnu við Náttúrufræðistofnun og Rala)
Rannsóknir á efnainnihaldi vatns sem rennur um mismunandi gróðurlendi í Skorradal. (í samvinnu við Yale háskóla)
Rannsóknir á kolefnisbúskap í lerkiskógi, furuskógi, birkiskógi og blandskógum í Hallormsstaðaskógi. (í samvinnu við Yale háskóla)
Rannsóknir á kolefnisbindingu og framleiðni í mismunandi vistkerfum. (í samvinnu við Landgræðsluna, Náttúrufræðistofnun og Rala og styrkt af CO2átaki)
Rannsóknir á áhrifum uppvaxandi skógar á ýmsa þætti umhverfisins, þ.á.m. skjól, vatnsbúskap, framleiðni, kolefnisbúskap o.m.fl. (svo kallað Kanadaverkefni í Gunnarsholti)
Nokkur rannsóknaverkefni um skaðvalda í skógrækt sem eru um leið verkefni í líffræðilegri fjölbreytni og sjálfbærri skógrækt.
Rannsóknir á framvindu í ýmsum tegundum gróðurlenda.
Rannsóknir á áhrifum Héraðsskóga á viðhorf og efnahag bænda og byggðaþróun á Héraði.
Mörg rannsóknaverkefni um nýskógrækt á skóglausu landi til að auka árangur og hagkvæmni skógræktar.
• Skógrækt ríkisins í samvinnu við búnaðarfræðslu og fleiri aðila, leggi í
auknum mæli áherslu á leiðbeiningar til einstaklinga, áhugamannafélaga og ekki síst sveitarfélaga um skógrækt.
Skógrækt ríkisins gerir út skógræktarráðunauta í öllum landshlutum. Hlutverk skógræktarráðunauta er m.a. að leiðbeina um skógrækt og gera skógræktaráætlanir. Skógrækt ríkisins, í samstarfi við Garðyrkjuskóla ríkisins, Landgræðslu ríkisins og Bændaskólann á Hvanneyri stendur að námskeiðahaldi um ýmsa þætti skógræktar. Veturinn 1997-1998 voru haldin eftirfarandi námskeið, flest þeirra oftar en einu sinni og á fleiri en einum stað:
Grunnnámskeið í skógrækt (markhópur - nýir skógarbændur)
Skjólbeltarækt (markhópur - bændur og aðrir landeigendur)
Jarðvinnsla fyrir nytjaskógrækt (markhópur - skógarbændur)
Staðardagskrá 21 og sjálfbær þróun (markhópur - sveitarstjórnarfólk)
Ræktun skógarplantna (markhópur - eigendur og starfsfólk gróðrarstöðva)
Heilbrigður trjágróður (markhópur - áhugafólk um skógrækt)
Íslenskur smíðaviður (markhópur - handverksmenn og starfsmenn S.r.)
Grisjun og umhirða (markhópur - bændur, skógræktarfélög, starfsmenn S.r.)
Skógrækt á rýru landi (markhópur - sumarbústaðaeigendur, skógræktarfélög.
• Verndun og útbreiðsla birkiskóga, skógrækt á bújörðum, skógrækt til jarðvegsverndar og skjólbeltarækt verði aukin þar sem við á.
Eftirfarandi þróun hefur orðið á s.l. 3 árum:
Verndun og útbreiðsla Birkiskóga.
Skógrækt ríkisins keypti Vatnshornsskóg í Skorradal með því að selja húseignir. Héðan í frá verður skógurinn friðaður birkiskógur.
Sú stefna var tekin að afhenda einkum íslenskt birki til verkefnisins Landgræðsluskóga til að stuðla að frekari útbreiðslu birkiskóga. Árið 1998 voru 80% af þeim milljón plöntum sem afhentar voru til verkefnisins íslenskt birki.
Gróðureyjar með birki og víði voru gróðursettar á uppgræðslusvæðum á Hólasandi og víðar í samstarfi við Landgræðslu ríkisins. Birki var tekið til skipulegrar fræræktar.
Þrátt fyrir einstök verkefni eins og hér eru talin upp eykst útbreiðsla birkiskóglendis á Íslandi ekkert að ráði. Til þess að ná teljandi árangri í endurheimt skóglendis og um leið landgræðslu þarf að breyta hefðbundinni landnýtingu verulega, þ.e. að girða búfé af í stað skóglendis.
Skógrækt á bújörðum
Veruleg aukning hefur orðið á skógrækt á bújörðum. Meirihluti framlags ríkisins til skógræktar vegna bindingar CO2til aldamóta fer til skógræktar á bújörðum, einkum á Suðurlandi (Suðurlandsskógar), en einnig hefur verið aukning á Vestur-, Norður- og Austurlandi. Áætlað er að gróðursetning til nytjaskógræktar á bújörðum sé um 60% af allri gróðursetningu á landinu 1998, eða á þriðju milljón plantna.
Með tilkomu laga um Suðurlandsskóga var í fyrsta sinn viðurkennt að ríkið styrkti bændur til annars konar skógræktar en nytjaskógræktar. Hér er um svo kallaða landbótaskógrækt að ræða, en hún getur falið í sér uppgræðslu örfoka lands með skógi, skógrækt til jarðvegsverndar á rýru landi, aukna útbreiðslu birkiskóglendis eða landbætur til skjóls, fegrunar, beitar o.m.fl. í framtíðinni. Enn sem komið er hefur enginn bóndi fengið styrk til landbótaskógræktar, enda Suðurlandsskógar aðeins á fyrsta starfsári.
Samfara aukinni áherslu á þjónustu við bændur hefur Skógrækt ríkisins neyðst til að draga úr gróðursetningu á eigin vegum, allt þar til í ár þegar gróðursetning S.r. jókst um 100.000 plöntur (sem er hátt í tvöföldun) vegna tilkomu CO2átaksins.
Skógrækt til jarðvegsverndar
Öll skógrækt stuðlar að jarðvegsvernd.
Skógrækt sem hefur jarðvegsvernd sem helsta markmið hefur þó dregist saman og stafar sá samdráttur af stefnubreytingu Reykjavíkurborgar í skógræktarmálum. Gróðursetning á vegum Reykjavíkurborgar, einkum landgræðsluskógrækt á Hólmsheiði, hefur dregist saman úr 7-800.000 plöntum á ári á fyrri hluta áratugarins í um 100.000 plöntur 1998.
Landgræðsluskógaverkefnið hefur haldið sínu striki, en á þess vegum er skógrækt stunduð á rýru landi á um 70 svæðum um land allt. Þar eru gróðursettar um milljón plöntur árlega.
Skjólbeltarækt
Skjólbeltarækt hefur aukist undanfarin 3 ár og er fjöldi bænda í ríkisstyrktri skjólbeltarækt kominn vel á annað hundarð. Ekki var boðið upp á styrki til skjólbeltaræktar fyrr en 1995.
Þegar þetta er dregið saman eru niðurstöður þessar:
Sáralítil útbreiðsla birkiskóga á sér stað með sjálfgræðslu.
Gróðursetning dróst saman 1996 og 1997 vegna samdráttar í gróðursetningu á vegum Reykjavíkurborgar og í lönd Skógræktar ríkisins, en eykst aftur 1998 vegna CO2átaksins upp í svipaða tölu og var 1995, eða í um 4,5 milljónir plantna.
Áhersla á að styrkja bændur til skógræktar hefur aukist.
Áhersla á verndun og endurheimt birkiskóga og skógrækt til jarðvegsverndar hefur ekki aukist.
• Upplýsingaöflun um jarðvegsrof og aðra þætti er varða ástand lands verði efld til að styrkja forsendur forgangsröðunar landgræðsluverkefna, áætlanagerðar og áhættuflokkunar lands með hliðsjón af nýtingu. Lokið verði gerð jarðvegsrofs- og gróðurkorta af einstökum jörðum og landinu öllu. Notkun fjarkönnunargagna verði aukin.
Lokið er gerð rofkorts af landinu öllu í mælikvarða 1:100.000 en gróðurkort vantar af stórum hluta láglendis. Áhættuflokkun lands með hliðsjón af nýtingu er ekki til og lítið hefur verið tekið saman um ástand lands með tilliti til ströngustu túlkunar þess hugtaks.
Notkun fjarkönnunargagna hefur stóraukist undanfarin ár. Bændur og leiðbeinendur verða að geta tileinkað sér nýjustu gögn og upplýsingar jafnóðum og þær berast.
• Lokið verði gerð landgræðsluáætlunar fyrir landið allt með hliðsjón af ástandi lands og fjármögnun framkvæmda tryggð. Áætlunin verði unnin í nánu samstarfi við sveitarfélög, skipulagsyfirvöld og aðra hlutaðeigandi hagsmunaaðila.
Einföld áætlun liggur fyrir en fjárveitingar eru í miklu ósamræmi við þá gróður- og jarðvegseyðingu sem nú á sér stað. Gera þarf langtímaáætlun sem samþykkt yrði á Alþingi og endurskoðuð reglulega líkt og gert er um Vegaáætlun. Sem lið í bindingu kolefnis í jarðvegi væri brýnt að tífalda fjárveitingu til landgræðslu og stöðvun á eyðingu auðlinda landsins. Stefnt er að aukinni samvinnua milli sveitarfélaga og Landgræðslunnar sbr. ný skipulagslög.
• Efldar verði þær fjölbreyttu rannsóknir sem nauðsynlegar eru vegna mats á ástandi lands, verndunar vistkerfa, aðferða við uppgræðslu og skipulags sjálfbærrar landnýtingar. Efldar verði rannsóknir hvað varðar gróðurframvindu, jarðvegsþróun og uppbyggingu frjósemi í næringarsnauðum jarðvegi. Auka þarf skilning á þeim grunnþáttum sem ráða hraða framvindunnar og því hvernig inngrip mannsins (beitarnot, friðun, áburðargjöf, sáning) hafa áhrif á hraða og stefnu hennar.
Vinna er hafin við að efla rannsóknir vegna mats á ástandi lands, m.a. í tengslum við viðstræna vottun búfjárframleiðslu. Nokkuð er langt í land á þessu sviði, m.a. vegna manneklu og fjárskorts. Fjórir nemendur eru að hefja framhaldsnám á þessu sviði m.a. vegna hvatningar og tilstyrks RALA og Landgræðslunnar.
• Fræðsla til landnotenda og annarra þeirra sem haft geta áhrif á ástand lands verði efld. Fræðslustarfið miði m.a. að því að auka skilning þeirra á sameiginlegri ábyrgð og veita þekkingu á leiðum til að vernda og bæta vistkerfi landsins.
Haldin hafa verið nokkur námskeið á vegum Landgræðslunnar og fleiri aðila og gefið út nokkuð af fræðsluefni þar að lútandi. Endurskipuleggja þarf núverandi fræðslukerfi og endurmenntun.
• Gerðar verði tilraunir með að loka framræsluskurðum sem ekki eru nýttir. Gerð verði úttekt á lífríki í votlendi hér á landi og reynt að meta áhrif þess á vatnsbúskap og lífkeðju í ám og vötnum. Settar verði skýrar og strangar reglur um nýja framræslu og krafist umhverfis- og hagkvæmnismats í hvert sinn sem framræsla er fyrirhuguð.
Á vegum landbúnaðar- og umhverfisráðuneytisins er starfandi nefnd sem hefur það verkefni að gera tilraunir með endurheimt votlendis. Þegar hafa svæði veriðendurheimt með lokun framræsluskurða og einnig endurheimtar tjarnir sem ræstar hafa verið fram. Í undirbúningi eru 3 verkefni, m.a. lokun skurða í Loðmundarfirði. Þá hefur í fyrsta skipti fengist viðurkennt að þeir aðilar sem ræsa fram votlendi endurheimti annað á móti.
Skógrækt ríkisins hefur lagt fram skýra stefnu um meðferð votlendis í tengslum við skógrækt. Þar kemur fram að ekki skuli ræsa fram flestar gerðir votlendis til skógræktar og að einungis sé réttlætanlegt að lækka grunnvatnsstöðu í þurrari gerðum mýra og mýrarjöðrum (þau svæði sem eru líkleg til að breytast í skóglendi hvort eð er við friðun) og þá aðeins að vandlega athuguðu máli. Stefna þessi er bindandi fyrir S.r. og leiðbeinandi fyrir aðra.
• Settar verði reglur um notkun á innfluttum tegundum. Þar verði tilgreint við hvaða aðstæður notkun þeirra eigi við og metnar afleiðingar þess að dreifa þeim á svæðum þar sem þær teljast ekki eiga heima. Eiginleikar innfluttra tegunda og tegunda sem til stendur að flytja inn verði rannsakaðar með tilliti til dreifingarleiða, dreifingarhraða, samkeppnishæfni og aðlögunar að íslenskum lífsskilyrðum. Innfluttum tegundum verði ekki dreift til notenda fyrr en lagt hefur verið mat á hugsanlegan skaða sem leitt gæti af dreifingu viðkomandi tegundar. Tryggt verði að slíkur innflutningur leiði ekki til þess að sjúkdómar eða meindýr berist til landsins.
Nefnd er að ljúka störfum sem átti að semja reglugerð er lýtur að þessu málefni. Skógrækt ríkisins hefur eftirlit með og heldur skrá yfir öllu því trjáfræi sem flutt er til landsins. Skógrækt ríkisins fylgist einnig með afdrifum erlendra trjátegunda og heldur skrá yfir þau tilfelli þar sem þekkt er að þær hafi fjölgað sér.
• Unnar verði skýrar leiðbeiningar um meðferð búfjáráburðar, haughús og frárennsli frá verksmiðjubúum.
Nokkuð er um að búfjáráburði, sérstaklega frá verksmiðjubúum sé veitt í læki, ár og sjó auk þess sem hann er urðaður. Búfjáráburður er frábær til uppgræðslu en það er kostnaðarsamt að dreifa honum. Mikið þróunarstarf er óunnið varðandi ódýra tækni við dreifingu og nýtingu búfjáráburðar. Brýnt er að herða og framfylgja reglugerðum um förgun búfjáráburðar
Nefnd hefur unnið að þessum málum og í henni hefur verið fulltrúi frá Bændasamtökum Íslands. Brýnt er að semja reglur og leiðbeiningar um þessi efni, sérstaklega m.t.t. verksmiðjubúa.
• Stuðlað verði að skynsamlegri nýtingu búfjáráburðar, bæði sem áburðar á ræktað land og ekki síður á óræktað land. Öll búvöruframleiðsla hafi nægjanlegt landrými til að taka við búfjáráburði og koma honum inn í eðlilega hringrás náttúrunnar.
Ráðunautar Bændasamtaka Íslands og búnaðarsambanda hafa ætíð leiðbeint um þessi efni. Á seinni árum hefur áhersla verið lögð á hagkvæma nýtingu búfjáráburðar vegna lífrænnar ræktunar. Í IV. viðauka við reglugerð um vistvæna landbúnaðarframleiðslu nr. 504/1998 sem fjallar um egg varphænsna í lausagöngu er framleiðendum slíkra afurða gert skylt að nýta allt hænsnadritfrá búinu til áburðar eða uppgræðslu. Hér er um nýmæli að ræða sem hafa mætti til fyrirmyndar við reglugerðarsmíð.
• Stofnað verði til alþjóðlegs samstarfs um rannsóknir og þróun á sviði jarðvegs- og gróðurverndar. Starfið beinist að því að efla rannsóknir og miðla til þróunarlanda reynslu og tækni á sviði landgræðslu, jarðvegs- og gróðurverndar, beitarstjórnunar, landnýtingar og fræðslu, m.a. með vísindalegri og tæknilegri ráðgjöf og þjálfun sérfræðinga frá þróunarlöndum.
Alþjóðlegt samstarf um rannsóknir og þróun á sviði jarðvegs og gróðurverndar hefur aukist ekki síst í kjölfar CO2 samninga. Slíkt samstarf hefur verið takmarkað. Ráðstefna um stöðvun eyðimerkurmyndunar í sept. }97 var upphaf af víðtækara samstarfi á þessu sviði. Sérfræðingar RALA og Landgræðslunnar taka þátt í alþjóðlegu starfi á þessu sviði.
Með vaxandi mannauði og viðurkenningu stjórnvalda á því sem gert hefur verið verður þessi þáttur trúlega efldur. Rætt hefur verið um að koma á laggirnar alþjóðastofnun hér á landi er verði leiðandi á þessu sviði þ.e. hvað varðar öflun og miðlun á þekkingu hér heima og erlendis. Við höfum mikla reynslu og þekkingu að miðla í uppgræðslu og framkvæmdum við endurheimt landgæða.
• Veittir verði styrkir til þróunar afurða úr sláturúrgangi.
Verið er að stofna verksmiðju til að vinna afurðir úr sláturúrgangi á Suðurlandi og slík vinnsla fer fram í kjötmjölsverksmiðjunni í Borgarnesi. Fyrirhugað er að hún verði staðsett í Hveragerði og notuð jarðgufa við framleiðlsuna sem mun vera í fyrsta sinn sem slíkt er gert í heiminum. Stefnt er að því að verksmiðjan taki til starfa á komandi hausti.
• Allar fiskeldisstöðvar og verksmiðjubú hafi rot- og setþrær sem tryggi sem minnsta hættu fyrir umhverfið. Kannaðar verði leiðir til að auka nýtingu á lífrænum úrgangi í áburð og fóður.
Setja þarf reglur um meðferð og nýtingu lífræns úrgangs frá slíkum búum. Skortur á lífrænum áburði hamlar útbreiðslu lífrænna búskaparhátta hér á landi en þeir búskaparhættir ganga lengst í átt til sjálfbærrar þróunar. Því er nýting alls lífræns úrgangs til áburðargerðar mikið hagsmunamál og efla þarf rannsóknir á því sviði.
• Samræmdar verði reglur sem kveða á um fiskeldi annars vegar og nýtingu á náttúrulegum fiskistofnum hins vegar.
Með breytingu á lögum nr. 24, 17. apríl 1997 um lax- og silungsveiði í ám og vötnum er nú fiskrækt í ám og vötnum einungis heimil ef notaður er stofn úr viðkomandi veiðivatni. Einnig er hvers konar flutningur á laxfiskum úr náttúrulegu veiðivatni, hafbeitar- eða eldisstöð í annað náttúrulegt veiðivatn til stangveiði óheimill. Veiðimálastjóri getur þó veitt undanþágu frá þessum ákvæðum að fengnu sérstöku mati á áhrifum framkvæmdarinnar á lífríki veiðivatnsins og aðliggjandi veiðivatna.
Með aðstoð stjórnvalda náðist sá tímamóta árangur að allri netaveiði á laxi í sjó við Ísland hefur verið hætt.
5.3. SJÁVARÚTVEGSRÁ'UNEYTI'
• Sjávarútvegsráðuneytið setji fram fyrir hönd stjórnvalda nýtingarstefnu og aflareglur fyrir nýttar tegundir sem miði að ofangreindu markmiði um sjálfbæra nýtingu.
Mótun aflareglu fyrir þorskstofninn byggðri á forsendum líffræðilegs og efnahagslegs ávinnings og framkvæmd nýtingarstefnu í samræmi við hana sl. fjögur ár hefur gefið góða raun. Í þverfaglegum samstarfshópi um langtímanýtingu fiskistofna hefur í framhaldinu verið unnið að þróun slíkrar nýtingarstefnu í anda varúðarleiðar í fiskveiðum fyrir aðra mikilvægustu fiskstofnana. Nýtingarstefna fyrir loðnu og íslenska sumargotssíld hefur raunar um langt árabil verið í gildi og hefur reynst vel.
• Umhverfisvöktun á hafsvæðinu við landið verði aukin, svo og vöktun lífsferils helstu nytjastofna og fæðutegunda þeirra.
Hafrannsóknastofnunin hefur sl. þrjú ár verið þátttakandi í Norrænu verkefni sem lýtur að mengunarvöktun á grunnslóð. Í tengslum við skuldbindingar Íslands vegna OSPAR-samningsins hefur Hafrannsóknastofnunin séð um víðtæka sýnasöfnun á íslensku hafsvæði.
• Stefnt verði að því að hefja nýtingu á þeim sjávarspendýrum sem rannsóknir sýna að óhætt sé að nýta. Forsenda þess að Íslendingar séu aðilar að alþjóðasamstarfi um nýtingu auðlinda sjávar á að vera að vísindaleg þekking sé lögð til grundvallar.
Alþingi ályktaði þann 10. mars 1999 um að stefnt skuli að endurupptöku hvalveiða hér við land. Með framangreindri ályktun er grundvöllur treystur fyrir stjórnvöld til þess að vinna að framangreindu markmiði, þ.á m. að fá það fé til verksins sem þarf til þess að hrinda í framkvæmd þeirri stefnu. Ljóst er að barátta fyrir þessu markmiði kostar bæði fé og fyrirhöfn.
Ísland er aðili að Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðinu, NAMMCO. Ályktanir stofnunarinnar um nýtingu sjávarspendýra eru byggðar á vísindalegum niðurstöðum vísindanefndar stofnunarinnar.
• Fiskileit á djúpslóð verði efld. Áhersla verði lögð á Reykjaneshrygg þar sem líklegast er að árangur náist. Samvinna stjórnvalda og útgerða er æskileg og til þarf að koma stuðningur og hvatning frá hinu opinbera. Upplýsingar um eðli og lögun botnsins er forsenda skynsamlegrar nýtingar tegunda á djúpslóð; þeirrar þekkingar þarf að afla með rannsóknum og aðgangi að fullkomnum kortum.
Farið hefur verið í leiðangra á Reykjaneshrygg á undanförnum árum með sérstakri áherslu á karfastofna vestan og suðvestan Íslands, innan og utan lögsögumarka. Gera má ráð fyrir að með tilkomu nýs rannsóknaskips í lok árs 1999 muni skapast nýir og auknir möguleikar til rannsókna á djúpslóð, bæði hvað snertir rannsóknir á lífríkinu og umhverfi þess (m.a. botni).
• Íslensk stjórnvöld leitist við að ná samkomulagi við grannríki um veiðar og skiptingu afla úr stofnum sem ganga á milli lögsögu ríkjanna eða á milli lögsögu einstakra ríkja og úthafsins.
Allt frá árinu 1989 hafa gilt samningar milli Íslands, Grænlands og Noregs um stjórn veiða úr sameiginlegum loðnustofni þessara landa.
Innan NEAFC er Ísland aðili að samkomulagi um stjórn veiða á úthafskarfaá Reykjaneshrygg og úr norsk-íslenskasíldarstofninum. Þegar skýrsla þessi er rituð er óvíst hvort íslensk stjórnvöld mótmæla formlega fyrirkomulagi um veiðar á makríl á samningssvæði NEAFC sem Íslendingar ásamt Rússum greiddu atkvæði gegn á fundi stofnunarinnar í janúar 1999. Viðkomandi samþykkt sem því hlaut aðeins fjögur atkvæði viðurkennir ekki að Ísland teljist til strandríkja. Innan stofnunarinnar er nú unnið að því að ná samkomulagi um stjórn kolmunna í Norðaustur-Atlantshafi. Samkomulag um þorskveiðar Íslendinga í Barentshafi er í burðarliðnum þegar þetta er ritað. Samningsdrög hafa legið fyrir um nokkurt skeið milli Íslands, Færeyja og Grænlands um stjórn á veiðum úr sameiginlegum grálúðu- og karfastofnum. Er vonast til að samningurinn verði undirritaður hið fyrsta. Enn liggur ekki fyrir samningur milli Íslands og Grænlands um rækjuveiðar á Dohrnbanka. Ísland hefur mótmælt sóknarstýringu NAFO á rækjuveiðum á Flæmingjagrunni en hins vegar sett íslenskum skipum einhliða kvóta á veiðarnar. Hefur svo verið frá því árið 1997.
• Áfram verði stefnt að bættri nýtingu sjávarafla, m.a. með því að minnka brottkast afla, bæta meðferð á afla í skipum og við vinnslu í landi og með því að vinna markaði fyrir vannýttar tegundir. Opinberir aðilar þurfa að stuðla að því að framhald verði á þeirri þróun með því að verja auknu fjármagni til rannsókna og þróunar á þessu sviði. Meðal annars þarf að kanna beitingu veiðarfæra og eiginleika þeirra með tilliti til bættrar meðferðar afla.
Leitast hefur verið við að minnka brottkast afla með ýmsum hætti. Má þar nefna aðgerðir sem miða fyrst og fremst að því að minnka líkurnar á því að óæskilegur aukaafli komi um borð, s.s. setningu reglna sem skylda notkun smáfiska- og seiðskilju eða leggglugga við tilteknar veiðar (sbr. næsta kafla hér á eftir), afmörkun friðunarsvæða fyrir ungfisk og bann við því að hefja veiðiferð nema viðkomandi skip hafi yfir að ráða aflaheimildum sem sem telja má líklegt að dugi fyrir afla í ferðinni.
Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins hefur unnið að fjölda verkefna og haldið námskeið er miða að bættri meðferð og nýtingu sjávarafla. Rétt er að geta þess að ekki gengu eftir markmið fyrri laga um fullvinnslu botnfiskafla um að komið skyldi að landi með allt slóg og annan úrgang enda hefur fjárhagslegur ávinningur verið fjarri því að vega upp á móti þeim kostnaði sem leggja þyrfti út í vegna breytinga á fiskiskipum sem nauðsynlegar hefðu verið.
• Kjörhæfni veiðarfæra verði aukin til að bæta nýtingu stofnanna og til að draga úr óæskilegum aukaafla. Kannaðir verða möguleikar á almennari notkun leggglugga, smáfiska- og seiðaskilju, notkun stærri króka með stórskornari beitu og öðrum veiðarfærabreytingum sem stuðla að aukinni kjörhæfni veiðarfæra.
Miklar framfarir hafa orðið á síðustu árum hvað varðar smáfiska- og seiðaskiljur. Legggluggarannsóknir benda almennt ekki til jafn góðs árangurs í að skilja smáfisk úr afla. Kostur legggluggans er hins vegar sá að unnt er að kom honum við í þeim tilvikum þegar ekki er unnt að koma við skiljunum. Netagerðaverkstæði og útgerðir fiskiskipa eru mikilvægir samstarfsaðilar Hafrannsóknastofnunarinnar í hinni öru þróun á þessu sviði. Samstarf við sjómenn er einnig þýðingarmikið svo og samráð á alþjóðavettvangi.
Framangreindur árangur hefur náðst þrátt fyrir að erfiðleikum hafi verið bundið að manna stöðu veiðarfærasérfræðings Hafrannsóknastofnunarinnar um nokkurt skeið enda hefur stofnunin leitast við að sinna rannsóknum um kjörhæfni veiðarfæra eftir bestu getu. Auglýst hefur verið eftir sérfræðingum á þessu sviði, jafnvel á erlendum vettvangi en framboð er lítið.
Sjávarútvegsráðuneytið hefur á síðustu árum með útgáfu reglugerða um verndun smáfisks við tog- og dragnótaveiðar áskilið notkun smáfiskaskilju eða leggglugga á stórum svæðum hér við land. Þá hefur notkun skilju verið áskilin á stórum svæðum við rækjuveiðar hér við land.
• Þekking á áhrifum veiðarfæra á lífríki sjávar og búsvæði verði aukin.
Hafnar eru rannsóknir og tilraunir varðandi hugsanleg áhrif veiðarfæra á lífríki sjávar og liggja fyrir áætlanir og áform um eflingu þessa starfs á komandi árum.
• Rannsóknir á samspili stofna ólíkra lífvera hafsins (fjölstofnarannsóknir) verði efldar til þess að auka þekkingu og skilning á lífríki hafsins og stuðla þannig að skynsamlegri nýtingu auðlinda þess.
Víðtækari áætlun Hafrannsóknastofnunarinnar um fjölstofnarannsóknir lauk í lok ársins 1996. Þessum rannsóknum er haldið áfram, þó í minna mæli en fyrr, m.a. með vöktun á einstökum þáttum sem endurspegla sviptingar í fæðuvefnum.
• Hugað verði að eflingu stofnmælinga botnfiska og kannað hvort æskilegt sé að efna til reglubundinna stofnmælinga á öðrum árstíma og svæðum en nú er gert. Með þessu móti mætti fylgjast með framvindu í fleiri stofnum botnlægra tegunda, s.s. grálúðu og karfa.
Skipulag stofnmælinga botnfiska í mars hefur verið endurskoðað svo fjárveitingar til rannsóknanna nýtist sem best. Árið 1996 var hleypt af stokkunum stofnmælingu botnfiska að haustlagi, með sérstakri áherslu á grálúðu- og karfastofna. Fyrirhugað er að efla þennan þátt með þátttöku nýs rannsóknaskips frá hausti komanda.
• Efldar verði hrygningarrannsóknir á þorski og slíkar rannsóknir teknar upp á fleiri tegundum. Fram fari ítarlegar rannsóknir á áhrifum friðunar um hrygningartímann á þorsk og ýsu. Auknar verði grundvallarrannsóknir á nýliðun, útbreiðslu og göngu annarra nytjafiska en þorsks, síldar og loðnu.
Á undanförnum árum hefur verið unnið að umfangsmiklum rannsóknum á hrygningu nytjafiska með sérstakri áherslu á þorsk. Áhersla hefur verið lögð á hvernig aldurssamsetning hrygningarstofns og umhverfisþættir spila saman við ákvörðun á árgangastyrk. Mikilvæg ný vitneskja hefur þegar aflast á þessu sviði og fullyrða má að á næstu árum muni skilningur aukast á nýliðunarferli þorska.
Rannsóknir á nýliðun annarra nytjafiska hafa einnig verið efldar til muna á undanförnum árum.
• Auknar verði rannsóknir á sviði hafefna- og hafeðlisfræði til þess að bæta skilning á því hvernig framleiðslugeta hafsins og lífríki þess eru háð breytilegum umhverfisþáttum.
og
• Niðurstöður rannsókna með veðurfarslíkön benda til þess að með auknum gróðurhúsaáhrifum geti straumakerfi N-Atlantshafsins breyst. Því er Íslendingum nauðsynlegt að efla hafrannsóknir og taka þátt í alþjóðlegum verkefnum er lúta að breytileika hafsins.
Hafrannsóknastofnun hefur á undanförnum árum tekið þátt í umfangsmiklum samstarfsverkefnum á hita- og seltuhringrás heimshafanna og á varma- og orkuskiptum Norðurhafa og Atlantshafsins, á vegum Evrópusambandsins. Niðurstöður úr báðum þessum verkefnum, sem nú eru langt á veg komin verða notuð í líkön sem miða að því að skilja hvernig gróðurhúsaáhrif og langtíma veðurfarsbreytingar hafa áhrif á straumkerfið við Ísland og þar með framleiðslugetu íslenskra hafsvæða.
Auknar verði rannsóknir á útbreiðslu, magni og veiðiþoli hryggleysingja, s.s. kúfisks og ígulkera.
Átaksverkefni varðandi könnunar útbreiðslu og stofnstærðar kúfskeljarfór fram árin 1994-1995. Verkefnið náði til hafsvæðisins umhverfis Ísland að undanskildu svæðinu frá Garðskaga suður um land að Tvískerjum. Var könnuð útbreiðsla og þéttleiki, frá 5-10 metra dýpi og niður á 30-50 metra dýpi, þ.e. niður að því dýpi sem þau tæki sem Hafrannsóknastofnuninn hafði yfir að ráða dugðu til. Ljóst þykir að unnt er að stunda veiðar á kúfiski á meira dýpi.
Frá því að framangreindri könnun lauk hefur ekki verið lögð áhersla á þessar rannsóknir í þeirri forgangsröðun verkefna sem Hafrannsóknastofnunin þarf að framkvæma. Ekki hefur verið þrýstingur á slíkar rannsóknir fyrr en nú enda ekki farið að ganga á þau svæði sem verksmiðjur á Flateyri og Þórshöfn fengu úthlutað til nýtingar. Nýir aðilar hafa gert grein fyrir áhuga sínum á nýtingu kúfisks utan þessara svæða. Ljóst er að frekari rannsókna er þörf varðandi svæðið frá Garðskaga og suður um land að Tvískerjum ef Hafrannsóknastofnuninni er ætlað að veita ráðgjöf um veiðiþol á því svæði.
Markaður fyrir ígulkerhrundi í Japan fyrir tveimur árum í kjölfar heiftarlegrar matareitrunar sem rakin var til neyslu hrárra matvæla. Var þá stofnmælingum, sem einkum lutu að Breiðafirði hætt. Rannsóknaáætlun er þó til og verður hún sett af stað ef veiðar hefjast að einhverju marki. Stofnmæling tekur skamman tíma. Ígulker eru skammlíf og því talin lítil ástæða til þess að fylgjast náið með stofnsveiflum á meðan nýting stendur ekki yfir.
Stofnmælingar á beitukóngivoru fyrst framkvæmdar hér við land árið 1997 í Breiðafirði. Var henni framhaldið þar árið eftir auk þess sem þá var mælt í Ísafjarðardjúpi. Fyrirliggjandi áætlun verður ekki framkvæmd fyrr en útlit verður fyrir frekari nýtingu sem hefur legið niðri þar sem markaðsástand hefur verið bágt undanfarið m.a. vegna efnahagslægðar í Suðaustur Asíu.
Rannsóknir á rækju, humri og hörpudiski hafa verið í föstum skorðum um langt skeið.
• Lögð verði aukin áhersla á grunnrannsóknir og ráðgjöf um hagnýtingu áður ónýttra stofna.
Hafrannsóknastofnunin hefur á undanförnum þremur árum tekið þátt í umfangsmiklu samstarfsverkefni sem styrkt er af ESB og miðar að því að afla grundvallarþekkingar á djúpfiskum, útbreiðslu þeirra og lífsháttum suður og suðvestur af landinu. Slíkar rannsóknir eru mjög kostnaðarsamar. Árið 1998 voru farnir kolmunnaleiðangrar til þess að kanna útbreiðslu og göngu kolmunna suður og suðaustur af landinu. Útbreiðsla makríls var einnig könnuð.
Hafrannsóknastofnunin hefur sl. þrjú ár gert samninga við útgerðir japanskra túnfiskveiðiskipa um rannsóknarveiðar í íslensku lögsögunni og hafa eftirlitsmenn á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar verið um borð í skipunum. Tilgangurinn er m.a. að rannsaka hverjir séu stofnhlutar, göngu- og dreifingarmynstur túnfisks innan lögsögunnar og í hvaða æti fiskurinn er.
Vísað er til rannsókna varðandi hryggleysingja (kúskel, ígulkera og beitukóngs) hér að framan.
• Auknar verði vistfræðirannsóknir í fjörum og á grynnstu veiðislóð því áhugi á nýtingu ýmissa botndýra hefur aukist, auk þess sem slíkar rannsóknir munu varpa ljósi á afdrif yngri aldurshópa ýmissa fisktegunda.
Vísað er til rannsókna á kúskel, ígulkerum og beitukóngi hér að framan. Þá hefur Hafrannsóknastofnunin tekið mikinn þátt í BIOICE verkefninu sem er samnorrænt verkefni með mikilli alþjóðlegri þátttöku. Er hér um að ræða rannsóknir á samsetningu botndýrasamfélaga á grunn og djúpslóð allt í kring um Ísland og samanburð við aðliggjandi hafsvæði.
• Efldar verði rannsóknir á fæðunámi og göngu lax í sjó til að varpa ljósi á tengsl lax við aðra dýrastofna, þ.m.t. nytjastofna.
Hafrannsóknastofnun hefur átt samstarf við Veiðimálastofnun varðandi þetta.
• Alþjóðleg samvinna á sviði fiskirannsókna verði efld. Þetta á alveg sérstaklega við um þá stofna sem ná yfir stærra útbreiðslusvæði en íslenska hafsvæðið, svo sem karfa, ufsa, grálúðu o.fl.
Innan ICES og í samstarfi við Evrópuþjóðir hefur Hafrannsóknastofnunin um langt skeið tekið þátt í fjölda verkefna varðandi fiskstofna hér við land, þ.m.t. stofna sem ná til annarra hafsvæða. Varðandi nýleg verkefni má nefna sérstök verkefni er lúta að grálúðu og makríl svo og erfðarannsóknir og aðrar rannsóknir á þorski, karfa og kolmunna.
• Efldar verði rannsóknir á jarðfræði og jarðeðlisfræðilegri uppbyggingu hafsbotnsins á landgrunni Íslands.
Um árabil hafa þessar rannsóknir verið stundaðar af Hafrannsókastofnuninni. Er þar einkum um að ræða rannsóknir á jarðsögu og jarðfræði hafsbotnsins og á lífverum í honum (götunga) m.t.t. langtíma verðurfarsbreytinga.
• Starfshópur skipaður af sjávarútvegsráðherra til þess að gera áætlun um hvernig megi ná settu markmiði um að draga úr útstreymi koltvíoxíðs og annarra gróðurhúsalofttegunda frá fiskiskipaflotanum vinni ötullega að verkefni sínu svo hefja megi aðgerðir til úrbóta.
Á vegum framangreinds starfshóps sjávarútvegsráðherra hefur verið unnið að skýrslu um orkunotkun fiskiskipaflotans og liggja fyrir lokadrög hennar. Þar er m.a. gerð grein fyrir þróun varðandi olíunotkun miðað við afla upp úr sjó og verðmæti þess afla. Meðal annars sýnir skýrslan þróunina innan einstakra útgerðarflokka og eftir stærð og tegund skipa. Frá árinu 1990 til ársins 1997 jókst reiknuð orkunotkun fiskiskipa úr 261.370 rúmmetrum í 294.142 rúmmetra. Á sama tíma jókst verðmæti afla upp úr sjó úr kr. 47.450 í 56.558 miðað við verðlag hvors árs.
Hefur starfshópurinn litið á framangreinda úttekt sem forsendu fyrir frekara starfi. Ljóst er að markviss fiskveiðistjórnun á Íslandsmiðum og samningar um stjórn fiskveiða á fjarlægum miðum geta leitt til minna útstreymis koltvíoxíðs miðað við verðmæti afla.
Í kjölfar átaks í byrjun þessa áratugar, til þess að minnka olíunotkun skipa vegna keyrslu ljósavéla í höfnum, hefur rafmagnssala til skipa í höfnum aukist úr 8,1 gígawattstundum árið 1991, í 16,1 árið 1998. Verulegur hluti þessarar aukingar er vegna sölu til fiskiskipa. Ástæða þess að ljósavélar eru enn keyrðar í einhverjum tilvikum kunna að vera margar t.d. að sumar hafnir geta ekki boðið upp á þá tengingu sem til þarf.
• Sjávarútvegsráðuneytið beiti sér fyrir aðgerðum til að stuðla að orkusparnaði hjá fiskiskipaflotanum á sem flestum sviðum. Meðal annars verði könnuð hagkvæmni og eldsneytisnotkun mismunandi veiða og veiðarfæra og gerðar tillögur um aðgerðir. Auk þess verði unnið að eflingu fræðslu fyrir útgerðarmenn, skipsstjóra og vélstjóra um leiðir til að koma í veg fyrir sóun eldsneytis og til að draga úr notkun eldsneytis við fiskveiðar og siglingar.
Þetta verkefni er nátengt verkefni sem gerð er grein fyrir hér næst að framan. Eldsneytisnotkun mismunandi veiða og veiðarfæra hefur verið könnuð. Vísast að öðru leyti til framangreindra útskýringa.
• Stefnt verði að því að nýta innlenda orku í ríkari mæli til fiskimjölsframleiðslu.
Árið 1993 var sett á laggirnar nefnd á vegum iðnaðarráðuneytisins sem vinna skyldi að framangreindu verkefni. Í framhaldi af starfi nefndarinnar sem lauk starfi sama ár, bauðst fiskmjölsframleiðendum að kaupa umframraforku á hagstæðu verði fram til fyrsta apríl árið 2000, þar sem aðstæður buðu upp á slíkt án verulegs tilkostnaðar af hálfu orkuveitu. Vonir til þess að fiskmjölsframleiðendur hagnýttu sér þetta brugðust að verulegu leyti og eru ástæður m.a. þessar:
• Umframorka á hagstæðu verði er afar ótrygg og er hætt við að hennar njóti ekki við allan þann tíma sem tekur að borga fjárfestingu til nýtingar raforku til fiskmjölsframleiðslu.
• Aðeins á fáum stöðum á landinu eru rafmagnslínur svo burðugar að þær geti flutt það rafmagn að fiskmjölsverksmiðjunum sem til þarf en þær eru afar aflfrekar.
• Sú aðferð sem notuð er, sem felst m.a. í því að afsog er leitt inn í katlana til aukinnar nýtingar, leiðir til aukinnar útblástursmengunar.
5.4. I'NA'ARRÁ'UNEYTI
• Kveðið verði nánar á um eftirlit með framkvæmdum með vatnsafls- og jarðvarmavirkjunum, sem eru matsskyldar skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum, og rekstri sem þeim tengist.
Ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum hefur verið fylgt og iðnaðarráðherra ekki veitt leyfi til framkvæmda nema að mati á umhverfisáhrifum hafi verið lokið og skilyrði sem kveðið hefur verið á um í úrskurði sett í leyfin.
• Kveðið verði á um að haft skuli samráð við lögbundið stjórnvald áður en undirbúningsrannsóknir vegna stærri virkjanaframkvæmda hefjast, með það fyrir augum að landi sé ekki raskað tilviljanakennt eða að nauðsynjalausu við rannsóknirnar, t.d. með lagningu vega eða vegslóða.
Í lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998, er kveðið á um að iðnaðarráðherra veiti leyfi til rannsókna á jarðhita að undangengu lögboðnum umsögnum umhverfisráðuneytis og Orkustofnunar. Samkvæmt lögunum skal í rannsóknarleyfi kveða á um umhverfisverndarráðstafanir.
• Iðnaðarráðherra, í samráði við umhverfisráðherra, láti gera rammaáætlun til langs tíma um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og skal henni lokið fyrir árslok 2000. Áætlunin sé í samræmi við samhæfða stefnu í umhverfis-, orku-, iðnaðar- og efnahagsmálum auk ferðaþjónustu. Í henni verði sérstaklega fjallað um verndargildi einstakra vatnasvæða og niðurstöður felldar að skipulagi. Í því sambandi verði sérstaklega könnuð áhrif smárra virkjana.
Iðnaðarráðherra, í samráði við umhverfisráðherra, hefur skipað verkefnisstjórn rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma, undir kjörorðinu: ,,Maður — Nýting — Náttúra". Markmið rammaáætlunarinnar er að leggja mat á og flokka virkjunarkosti, jafnt vatnsafls og háhita, meðal annars með tilliti til orkugetu, hagkvæmni og annars þjóðhagslegs gildis, samhliða því að skilgreina, meta og flokka áhrif þeirra á náttúrufar, náttúru- og menningarminjar svo og á hagsmuni allra þeirra sem nýta þessi sömu gæði. Með þessu verður lagður grundvöllur að forgangsröðun virkjunarkosta með tilliti til þarfa þjóðfélagsins hvað varðar atvinnustarfsemi, varðveislu náttúrugæða, styrkingu landsbyggðar og hagsmuna allra þeirra sem nýta þessi sömu gæði með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Ætla má hins vegar að þetta verkefni taki nokkur ár.
• Séð verði til þess að áður en vinnsla jarðhita hefst hafi farið fram grunnrannsóknir á lífríki og vatnsbúskap sem hugsanlega raskast við rannsóknir eða vinnslu.
Á síðastliðnu ári voru sett lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Lögin kveða meðal annars á um leyfi til rannsókna og nýtingar á jarðhita. Áður en iðnaðarráðherra gefur út leyfi skal hann m.a. leita umsagnar umhverfisráðuneytis.
• Séð verði til þess að neytendur hafi greiðan aðgang að upplýsingum um raforkunotkun tækja og búnaðar og eigi kost á ráðgjöf um leiðir til að draga úr raforkunotkun. Neytendur hafi einnig greiðan aðgang að upplýsingum um hitunarþörf húsa og hitunarbúnað og eigi kost á ráðgjöf um leiðir til að draga úr henni, svo sem með betri einangrun og stillingu hitakerfa.
Ráðuneytið hefur sett fimm reglugerðir um merkingar og upplýsingaskyldu um orkunotkun heimilistækja, sem byggja á tilskipunum Evrópusambandsins.
Þá hefur ráðuneytið lagt fyrir Alþingi frumvarp til laga um orkunýtnikröfur. Tilgangur þessa frumvarps er að stuðla að því að orka verði notuð með skynsamlegum og hagkvæmum hætti, að dregið verði úr áhrifum orkunotkunar á umhverfið og stuðlað verði að þróun og notkun orkusparandi búnaðar með því að setja kröfur um orkunýtni tækja, búnaðar o.fl. Iðnaðarráðherra er þannig ætluð heimild til að kveða á um orkunýtni tiltekinna tegunda tækja.
Iðnaðarráðherra skipaði í lok árs 1995 starfshóp sem falið var að skilað tillögum um aðgerðir til að lækka húshitunarkostnað. Hópnum var m.a. falið að leita leiða til að stuðla að aukinni þekkingu almennings á því hvernig draga mætti úr orkunotkun til hitunar íbúðarhúsnæðis og að stuðla að því að neytendur hafi greiðan aðgang að upplýsingum um hitunarþörf húsa og hitunarbúnað. Ráðherra hefur óskað tilnefninga í stjórn verkefnisins og er verkefnisstjórninni ætlað að hrinda þessum tillögum í framkvæmd og annast eftirfylgni með verkefninu. Verkefnið hefur þegar fengið loforð um fjárframlög úr Orkusjóði og Átaki til atvinnusköpunar.
• Iðnaðarráðherra skipi starfshópa til að kanna leiðir til að auka hlut raforku á kostnað innflutts eldsneytis á tilteknum sviðum, svo sem í iðnaði og til lengri tíma litið til samgangna og flutninga. Iðnaðarráðherra skipi einnig starfshópa til að kanna leiðir til að auka notkun á heitu vatni og jarðgufu á kostnað innflutts eldsneytis á tilteknum sviðum, svo sem í iðnaði.
Iðnaðarráðherra skipaði um mitt ár 1997 nefnd sem falið er að gera tillögur um aukna hlutdeild innlendra orkugjafa í orkubúskap landsmanna og jafnvel til útflutnings. Starfi nefndarinnar er lokið og hefur hún skilað ráðherra tillögum sínum. Stefnt er að því að stofnað verði félag um vetnisrannsóknir á Íslandi með þátttöku innlendra og erlendra fyrirtækja á næstunni en nokkur fyrirtæki hafa á undanförnum mánuðum átt í viðræðum um stofnun slíks félags. Ráðuneytið hefur stutt verkefnið meðal annars kostað að hluta undirbúning að stofnun þess.
Iðnaðarráðuneytið, Byggðastofnun og Orkusjóður hafa hrint af stað sérstöku átaki til leitar að jarðhita til húshitunar á þeim svæðum þar sem ekki eru hitaveitur nú en talið er að þjóðhagslega hagkvæmt kunni að vera að leggja hitaveitu. Um er að ræða styrki til jarðhitaleitar gegn mótframlagi sveitarfélags eða orkufyrirtækis og hefur verkefnisstjórn 60 milljónir króna til ráðstöfunar. Átakinu er ætlað að standa fram á mitt ár árið 2000.
• Iðnaðarráðherra, í samvinnu við sveitarfélög, hafi frumkvæði að því að skipuleg athugun fari fram á því hvar afhenda megi gufu til iðnaðar nálægt höfn, mat á gufukostnaði, hvenær afhending gæti hafist sem og önnur atriði sem máli skipta. Í því sambandi verði sérstaklega fjallað um umhverfisáhrif vegna öflunar, flutnings og notkunar gufunnar.
Um mitt ár 1996 undirrituðu iðnaðarráðherra, borgarstjórinn í Reykjavík og bæjarstjórinn í Hafnarfirði viljayfirlýsingu um sameiginlegt átak til að kanna afhendingarkosti á jarðgufu til stórnotenda við starfandi stórskipahöfn, er skapað gæti ný tækifæri til þróunar orkuiðnaðar hérlendis. Stuttu síðar undirrituðu sömu aðilar stofnskjal vegna Jarðgufufélagsins. Jarðgufufélagið starfar enn þrátt fyrir að Hafnarfjarðarbær hafi dregið sig út úr samstarfinu. Er félagið um þessar mundir m.a. að kanna hagkvæmni þess að reisa pappírsverksmiðju hér á landi.
Þá hefur iðnaðaðrráðuneytið tekið þátt í og styrkt könnun á því að reisa Polyol-verksmiðju hérlendis auk ýmissa styrkja til verkefna á þessu sviði í gegnum Átak til atvinnusköpunar.
• Notkun olíu til hitunar á húsnæði sem ríki og sveitarfélög reka verði hætt að svo miklu leyti sem það er unnt.
Ráðuneytið er ekki í aðstöðu til að svara fyrir þessa aðila í heild en telur að í reynd sé þetta ákvæði nú þegar uppfyllt að því leyti að nánast undantekninglaust er kostur á heitu vatni eða raforku til hitunar húsnæðis. Þó kann í einstaka tilfellum að vera notuð olía til hitunar húsnæðis í eigu ríkis og sveitarfélaga. Til þess að kanna þetta þyrfti að leita eftir upplýsingum frá viðkomandi rekstraraðilum.
• Sett verði af stað eldsneytis- og orkusparnaðarátak í iðnfyrirtækjum. Sérstök áhersla verður lögð á að koma í veg fyrir orkusóun og draga úr notkun jarðefnaeldsneytis.
Ráðuneytið hefur átt fundi með fulltrúum stóriðjufyrirtækja vegna útstreymis gróðurhúsalofttegunda. Á þeim fundum hefur komið fram að meðal fyrstu aðgerða fyrirtækjanna hafa verið tilraunir til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Hafa menn ýmist gripið til brennslu úrgangsefna eða uppsetningar á búnaði sem notar aðra orkugjafa.
• Gerð verði úttekt á möguleikum til þess að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda og annarra lofttegunda fráiðnaði.
Ráðuneytið hefur átt fund með fulltrúum stóriðjufyrirtækja til að kanna aðgerðir fyrirtækjanna til að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Á fundinum kom fram að fyrirtækin hafa tekið þessi mál til skoðunar hjá sér. Öllum ætti að vera kunnugt um árangur Íslenska álfélagsins hf. við að draga úr losun flúorkolefnis. Auk þessa hefur fyrirtækið dregið úr notkun jarðefnaeldsneytis með því að taka upp rafmagnshitun þar sem það er unnt og nota rafmagnsfarartæki í auknum mæli. Þessar aðgerðir hafa leitt til um 2 þúsund tonna minnkun olíunotkunar sem jafngildir um 6 þúsund tonnum af koldíoxíði. Samtals hafa þessar aðgerðir fyrirtækisins dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda umreiknað í koldíoxíðsígildi um 278 þúsund tonn.
Sementsverksmiðjan hf. hefur nýtt úrgangsolíu, leysiefni, skautabrot frá Ísal o.fl sem til fellur í stað kola. Verksmiðjan hefur möguleika á að auka notkun á föstum brennanlegum efnum, s.s. hjölbörðum o.fl. Þá er sömuleiðis hugsanlegt að brenna þar metangas sem safnast hjá Sorpu. Aðgerðir verksmiðjunnar hafa dregið úr losun koldíoxíðs um ca. 14.000 tonn á ári.
Steinullarverksmiðjan hf. nýtti sér tilboð Landsvirkjunar um kaup á ótryggðu rafmagni og var settur upp rafskautaketill til hitunar á herslulofti og minnkaði þannig olíunotkun um 700 tonn á ári, sem jafngildir um 2.000 tonnum af koldíoxíði. Með þessum hætti var unnt að minnka losun fyrirtækisins á koldíoxíði um rúm 60%.
Samtals hafa þessar aðgerðir iðnfyrirtækjanna minnkað losun gróðurhúsalofttegunda umreiknað í koldíoxíðsígildi um 300.000 tonn.
• Fylgst verði með útflutningi jarðefna og settar reglur í því efni ef þörf krefur.
Þann 11. nóvember 1996 staðfestu iðnaðarráðherra, landbúnaðarráðherra og umhverfisráðherra verklagsreglur um veitingu leyfa til töku lausra jarðefna á svæðum sem lúta forræði ríkisins. Með lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu hafa verið settar samræmdar reglur um nýtingu auðlinda. Lögin taka meðal annars til jarðefna og þarf sérstakt nýtingarleyfi til töku þeirra. Nýting ýmissa tegunda jarðefna á eignarlandi er þó undanþegin skilyrði um nýtingarleyfi. Í sérvinnsluleyfum vegna vikurvinnslu, útgefnum fyrir gildistöku laganna, var kveðið á um að leyfishafi skyldi ljúka mati á umhverfisáhrifum fyrir ákveðinn tíma.
• Athugaðir verði möguleikar á úrvinnslu jarðefna á Íslandi, þannig að sem minnst verði af útflutningi á óunnu hráefni.
Í útgefnum sérvinnsluleyfum vegna vikurvinnslu er gert ráð fyrir að sérleyfishafi geri samning við viðurkennda rannsóknarstofu um rannsóknir og þróun afurða úr vikri.
Orkufyrirtækin fylgjast grannt með áhrifum virkjana sem þau reka. Virkjanir eru meðal framkvæmda sem lög um mat á umhverfisáhrifum segja matsskylda framkvæmd. Orkufyrirtækin eru því nú þegar skyldug til að rannsaka umhverfisáhrif virkjana sem eru í undirbúningi og ýmsar rannsóknir fara fram vegna starfandi virkjana.
• Orkufyrirtæki móti umhverfisstefnu, á grundvelli sjálfbærrar þróunar, sem fylgt sé í allri starfsemi þeirra.
Orkufyrirtækin hafa sett sér umhverfisstefnu. Sum hver hafa einnig ráðið sérstakan umhverfisstjóra eða falið tilteknum starfsmanni það verkefni.
• Orkufyrirtæki og viðkomandi skipulagsyfirvöld kanni hvort og þá með hvaða hætti nýta má aðstöðu sem sköpuð er við framkvæmdir og undirbúning orkumannvirkja, svo sem vegna samgangna og ferðamennsku.
Það er álit ráðuneytisins að atvinnugreinarnar eigi að vinna saman en ekki vera stillt um sem andstæðum pólum. Bendir ráðuneytið t.d. á skýrslu um áhrif virkjana norðan Vatnajökuls á ferðamennsku. Reynslan hefur sýnt að aðstaða tengd orkumannvirkjum hefur víða verið notuð í tengslum við samgöngur og ferðamennsku. Nægir þar að nefna mannvirki við Svartsengi og á Nesjavöllum.
• Rafveitur og hitaveitur efli neytendaþjónustu sína. Meðal annars upplýsi þær og leiðbeini viðskiptamönnum um leiðir til að nota rafmagn, heitt vatn og jarðgufu með skilvirkum hætti. Upplýsingar verði sendar reglulega til heimila og fyrirtækja um notkun á rafmagni og heitu vatni og ábendingar um leiðir til að draga úr henni. Í þessu sambandi þarf sérstaklega að auka þær upplýsingar sem fram koma á orkureikningum til heimila og fyrirtækja með það fyrir augum að notendur geti áttað sig á því hvort orkunotkun þeirra sé óeðlilega mikil borin saman við aðra sambærilega notendur.
Á undanförnum árum hafa veitufyrirtækin mörg hver eflt mjög neytendaþjónustu sína. Hefur það verið gert með útgáfu bæklinga, hollráðum á heimasíðum og upplýsingum á orkureikningum neytenda.
• Gæta skal þess að gjaldskrá orkuveitna hvetji til þess að innlendir orkugjafar séu nýttir í stað innfluttra.
Þetta er nú þegar gert m.a. með niðurgreiðslum á raforku til húshitunar.
5.5. SAMGÖNGURÁ'UNEYTI
[Almennt um vinnu samgönguráðuneytisins að verkefnum sem falla inn í ramma framkvæmdaáætlunarinnar:
Meginmarkmið samgönguráðuneytisins í umhverfismálum lúta að rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftlagsbreytingar en ríkisstjórnin samþykkti framkvæmdaráætlun í umhverfismálum í október 1995. Þótt ekki verði skrifað undir Kyoto-bókunina að sinni mun ráðuneytið engu að síður einbeita sér að því að ná sem mestum árangri í að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda í samgöngum. Ber þar helst útblástur CO2 en hann er verulegur af samgöngum á landi. Losun CO2 í samgöngum er þriðjungur af heildarlosnun Íslands og af því er um 93% frá landssamgöngum.
Til að bregðast við þessu mikla vandamáli skipaði samgönguráðherra starfshóp árið 1997 sem hafði það verkefni að koma með tillögur um takmörkun á útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum. Starfshópurinn skilaði tillögum sínum um mitt síðasta ár og hefur ráðuneytið síðan unnið að nánari útfærslu þeirra. Ljóst er að ef ekkert verður að gert mun losun gróðurhúsalofttegunda aukast verulega næstu árin og því brýnt að taka málið föstum tökum. Þær aðgerðir sem líklegar eru til að skila árangri eru þessar helstar:
• Bæta þjóðvegakerfi landsins með því að auka bundið slitlag og stytta vegalengdir þar sem kostur er.
• Bæta skipulag samgangna á höfuðborgarsvæðinu.
• Bæta almenningssamgöngur í landinu, bæði í þéttbýli og dreifbýli.
• Huga að hertum reglum í innflutningi notaðra bifreiða.
• Huga að skattlagningu bifreiða.
Varðandi stefnu íslenskra stjórnvalda í umhverfismálum kemur hún aðallega fram í tveimur ritum: "Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi" og "Umhverfisstefna í ríkisrekstri". Hið síðarnefnda snertir sérstaklega umhverfisþætti í skrifstofurekstri. Í bæklingnum Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi eru m.a. sett fram eftirfarandi meginmarkmið í samgöngu- og ferðamálum: "Markmið með sjálfbærum samgöngum á Íslandi er að auðvelda hagkvæma nýtingu landsins í atvinnuskyni og að auðvelda okkur að njóta þess sem einstaklingar til útivistar og hagsældar án þess að rýra landgæði eða möguleika komandi kynslóða. Reynt verður að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis í samgöngum á landi, í lofti og á sjó til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Einnig verður leitast við að draga úr þörf fyrir flutninga, m.a. með notkun nýrrar tækni í fjarskiptum. Draga skal úr sjónmengun, jarðraski og annari mengun samfara vegagerð og halda áfram uppgræðslu vegsvæða."
Á þessu ári verður þeim markmiðum sem sett eru í skýrslunni hrint í framkvæmd auk þess sem sett verða ný markmið fyrir skýrslu næsta árs. Ber þar fyrst að nefna að stofnanir ráðuneytisins munu hver um sig gefa út sjálfstæða umhverfisskýrslu fyrir árið 1999. Verður lögð áhersla á að auka nokkuð við umfang skýrslna stofnana t.d. með því að taka útibú þeirra á landsbyggðinni með í vinnuna. Í skýrslu þessa árs voru lykiltölur úr rekstri Ferðamálaráðs teknar inn í skýrslu ráðuneytisins en gert er ráð fyrir því að stofnunin ásamt Póst- og fjarskiptastofnun geri sjálfstæða skýrslu fyrir árið 1999.
Settur verður á fót vinnuhópur með fulltrúum ráðuneytisins og allra stofnana þess til að fylgjast með vinnu við skýrslu næsta ársog hafa sameiginlegt eftirlit með því hvernig gangi að ná markmiðum þessarar skýrslu.
Enn fremur er stefnt að því að útbúa betri gögn í skýrsluna, m.a. með nákvæmari tölum um endurvinnslu og notkun áhersluþátta skýrslunnar. Til þess að hægt verði að ná fram þeim markmiðum sem hafa verið sett fram er nauðsynlegt að virkja alla starfsmenn ráðuneytis og stofnana. Það er vissulega mikið verk að upplýsa allt starfsfólk um þá vinnu sem hafin er og verður það verkefni næstu ára. Þá er ekki síður mikilvægt að upplýsa birgja um markmið grænna reikningsskila og leggja áherslu á að einungis verði keyptar umhverfisvænar vörur. Hér er um langtímamarkmið að ræða sem krefst stöðugrar árvekni yfirstjórnar stofnunar.]
• Samgönguráðherra skipi starfshóp, að höfðu samráði við umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra, til að leggja grunn að heildstæðu skipulagi samgangna í landinu m.t.t. umhverfis- og orkumála. Starfshópnum verður falið að stuðla að stórefldri fræðslu til að draga úr sóun eldsneytis og bæta nýtingu ökutækja. Starfshópurinn láti gera könnun á hagkvæmni og eldsneytisnotkun mismunandi samgöngumáta með það að markmiði að efla þjóðhagslega hagkvæma, lítt mengandi og eldsneytissparandi samgöngumáta.
Slíkur starfshópur hefur ekki enn verið skipaður.
• Stjórnvöld, í samvinnu við hlutaðeigandi stofnanir og aðra aðila, gangist fyrir rannsóknum á hagkvæmni mismunandi samgöngukerfa með tilliti til þess að ná fram markmiðum um að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum.
Starfshópur skilaði niðurstöðum vorið 1998. Þegar hefur verið fundað með Vegagerð, Flugmálastjórn og Siglingastofnun um úrvinnslu. — Rætt er um styttingu leiða, bundið slitlag, samsræmda stýringu umferðarljósa.
• Stjórnvöld móti og framfylgi stefnu um aðlögun framkvæmdaáætlana að niðurstöðum hagkvæmnirannsókna.
Stjórnvöld, í samvinnu við Flugmálastjórn, flugrekendur og eftir því sem við á aðrar stofnanir, félög og samtök:• Móti stefnu um uppbyggingu og rekstur flugvalla m.t.t. niðurstaðna hagkvæmnirannsókna og endurskoði á þeim grundvelli flugmálaáætlun sem gerð er skv. 1. kafla laga nr. 31/1987.
Sífellt er unnið að mótun slíkrar stefnu, sbr. úttektir sem gerðar hafa verið vegna uppbyggingar Reykjavíkurflugvallar.
• Tryggi að þess sé gætt að skipulag mannvirkja sé í sem bestu samræmi við aðliggjandi vegi og nálæga byggð, þannig að leiðir að og frá flugvelli og flugstöð séu sem skemmstar og greiðastar um leið og þess er gætt að hávaði frá flugumferð sé í lágmarki í byggð.
Skipulag, deiliskipulag og mat á umhverfisáhrifum á að tryggja ofangreint samræmi.• Setji reglur - eftir því sem við á til viðbótar við núgildandi reglur og í samræmi við staðla alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að, þ. á m. Alþjóða flugmálastofnunarinnar (ICAO) - sem takmarki umhverfisáhrif frá flugumferð, þ.m.t. loftmengun og hávaðamengun, og um notkun og efnasamsetningu ís- og hálkueyðandi efna á flugbrautum og flugvélum að teknu fullu tilliti til öryggisstaðla.Von er á ESB reglum um þessi mál og því ekki verið að vinna að gerð sérstakra reglna hér á landi.
Stjórnvöld, í samvinnu við Siglingastofnun Íslands, útgerðir og samtök þeirra og eftir því sem við á aðrar stofnanir, félög og samtök:• Endurskoði hafnaáætlun, m.a. með tilliti til niðurstaðna hagkvæmnirannsókna, með það fyrir augum að uppbygging hafna landsins leiði til hagkvæmustu flutninga.Umsjón með þessum málaflokki er í höndum sveitarfélaga. Starfshópur samgönguráðuneytis er að vinna að samræmdri samgönguáætlun en undir hana fellur m.a. hagkvæmni í flutningum.• Beiti hagrænum aðgerðum varðandi vöruflutninga, m.t.t. niðurstaðna umhverfis- og hagkvæmnirannsókna, í þeim tilgangi að beina flutningum hagkvæmustu leið. • Stuðli að notkun orkusparandi búnaðar um borð í skipum í samræmi við nýjustu tækni hverju sinni.• Gerðar verði ráðstafanir til þess að í öllum höfnum geti skip fengið rafmagn úr landi. Ef þurfa þykir verði jafnframt settar reglur sem takmarka notkun ljósavéla skipa í höfnum.Þessi mál eru til umfjöllunar hjá Siglingastofnun. Leysa þarf vandamál varðandi greiðslu notenda fyrir ragmagnið. Notkun díselrafstöðva er ódýrari og því tregða við að innleiða aðra aðferð.
Stjórnvöld, í samvinnu við Vegagerðina og eftir því sem við á aðrar stofnanir, félög og samtök:• Leggi áfram áherslu á fagurfræðilega hönnun og kröfur um frágang og hirðingu mannvirkja, m.a. með ákvæðum um fagurfræðilega hönnun í hönnunarleiðbeiningum.Vegagerðin leitast við að halda þeirri stöðu sem náðst hefur hvað snertir fagurfræðilega hönnun og bæta eftir því sem unnt er. Unnið er að útgáfu staðla fyrir vegagerð þar sem verða mörg ákvæði varðandi kröfur til útlits.• Setji skýrari reglur um hirðingu og viðhald mannvirkja með tilliti til útlits og geri áætlun um snyrtingu og frágang þeirra malarnáma, þar sem frágangur og umgengni telst enn ófullnægjandi. Reglur Vegagerðarinnar um hirðingu og viðhald mannvirkja eru lítið breyttar frá því framkvæmdaáætlunin var gerð. Innan Vegageraðrinnar er mikill áhugi á að ganga frá malargryfjum sem stofnunin ber ábyrgð á. Þannig er nú í gangi staðbundið reynsluverkefni þar sem verið er að skrásetja námur sem unnt er að loka og áætla kostnað við þær aðgerðir. Vegna uppbyggingar vegakerfisins og aukinnar notkunar bundins slitlags fækkar þeim námum sem Vegagerðin notar reglulega. • Dragi úr hávaða frá umferð með því að kanna möguleika á skermun milli hljóðgjafa og móttakenda.Skermun vegna hávaða er orðin venjuleg aðgerð hjá Vegagerðinni. Bæði er um að ræða hljóðveggi og hljóðmanir. Aðgerðirnar geta verið úrbætur við eldri vegi eða mótvægisaðgerðir meðfram nýjum vegum. Vegna mikils kostnaðar krefjast slíkar aðgerðir yfirleitt sérstakra fjárveitinga.
• Dragi úr loftmengun með: bundnu slitlagi á vegakerfið, styttingu vegalengda milli staða, greiðfærum gatnamótum sem ekki valda umferðartöfum, þjóðvegum sem sneiða hjá þéttbýli, hágæða eldsneyti, minni lausagangi ökutækja og virku eftirliti með útblæstri.
Framkvæmdir Vegagerðarinnar á sviði styttinga leiða og lagningar bundinna slitlaga draga úr eldsneytisnotkun bifreiða og þar með loftmengun, einkum kolefnistvíildi. Vegagerðin vinnur að því að stuðla að gerð mislægra gatnamóta á höfuðborgarsvæðinu þar sem þau eiga við, en vaxandi umferðartafir á gatnamótum leiða til aukningar loftmengunar frá vélum í tómagangi.
• Dragi úr staðbundnum áhrifum loftmengunar og hávaða við staðsetningu umferðarmannvirkja svo sem með því að skilja umferðarmannvirki með mikla umferð sem best frá íbúðar- og athafnasvæðum.
Aðskilnaður íbúðarsvæða og umferðar er stöðugt verkefni Vegagerðarinnar og annarra skipulagsaðila.
• Dragi sem kostur er úr notkun lífrænna leysiefna í bundnu slitlagi og leiti leiða til að komast hjá notkun þeirra, þ. á m. hvort raunhæft sé að nota vatnsleysanleg efni við gerð slitlaga. Vegagerðinni verði falið að gera nákvæmari tillögur í þessu efni.
Vegagerðin hefur á undanförnum árum leitað leiða til að draga úr óheppilegum áhrifum af notkun white spirit við gerð klæðinga. Árangurinn er misjafn en verkefninu er ekki lokið.
• Dragi úr hættu á grunnvatnsmengun með kerfisbundnu aðhaldi í notkun affitunar- og hreinsiefna og með því að nota einungis umhverfishæfa málningu á vegamannvirki, þ.e. málningu sem ekki inniheldur sink- eða blýefnasambönd.
Ekki hafa verið settar reglur til takmörkunar á sápu- og leysiefnum við þvott á umferðarmerkjum og stikum. Notkun á tjöruleysi úti á vegum er lítil og takmörkuð við umferðarmestu vegina. Bent hefur verið á að nota umhverfisvænni tjöruleysi, t.d. Sám í stað white spirit.
Sinkgrunnur er enn notaður sem grunnmálning undir epoxy- polyurethanlög á stálfleti svo sem burðarvirki brúa o.þ.h. enda hafa ekki komið fram málningarkerfi án þungmálma sem jafnast á við hana. Króm og blý er hins vegar horfið úr notkun á þessu sviði.
• Komi á reglubundinni hreinsun rusls meðfram vegum og hvetji til bættrar umgengni og reki áróður gegn losun úrgangs á víðavangi og meðfram vegum.
Reglubundin hreinsun rusls er fastur liður í rekstri umferðarmesta hluta vegakerfisins. Vegagerðin hefur annars lítið sem ekkert staðið að áróðri á þessu sviði, en ætla má að hreint umhverfi sé áskorun um góða umgengni.
• Fjölgi áningarstöðum meðfram vegum og við markverða staði og komi þar upp aðstöðu, fræðsluskiltum og sorpílátum og tryggi reglubundna umhirðu þeirra.
Áningarstöðum meðfram vegakerfinu og við markverða staði fjölgar jafnt og þétt. Jafnframt eykst upplýsingaþjónusta í formi ýmissa skilta á þessum stöðum. Vegna kostnaðar hefur þróun þjónustu á sviði sorphirðu og snyrtiaðstöðu þó verið hægari en æskilegt er.
• Standi fyrir könnun á heildarkostnaði þjóðfélagsins af rekstri einkabíla og niðurstöður m.a. notaðar til að kynna almenningi kosti almenningssamgangna.
Samgönguráðuneytið er að skoða þessi mál, sérstaklega tollamál. Búast má við niðurstöðum með haustinu (1999).
Til þess að draga úr flutningsþörf munu stjórnvöld, í samvinnu við fjarskiptaveitendur, fyrirtæki og einstaklinga og samtök þeirra:
• Beita sér fyrir því að áfram verði unnið að útbreiðslu þeirra fjarskiptakerfa sem enn hafa ekki náð til meginþorra byggða í landinu.
Skv. reglugerð 205/1998 um talþjónustu eru skýr ákvæði um rétt landsmanna til talsímaþjónustu állum byggðum svæðum landsins. Varðandi leyfisveitingar vegna GSM farsímakerfa hefur leyfishöfunum tveimur, Landssímanum og Tali, verið gert að skyldu að ná með þjónustu sinni til ákveðins hluta þéttrar byggðar á landinu. Sett eru þau skilyrði við veitingu rekstrarleyfis að þjónusta verði veitt um allt land eða á tilteknum landssvæðum innan ákveðinna tímamarka.
• Beita sér fyrir því að gjaldtöku fyrir fjarskiptaþjónustu og fjarskiptabúnað verði hagað þannig, að hún hvetji til notkunar fjarskipta í stað flutninga.
Samkvæmt lögum um fjarskipti eru áhrif stjórnvalda á gjaldtöku fyrir fjarskiptaþjónustu rýrð frá fyrri lögum og setha fjarskiptafyrritæki nú að mestu leyti sína gjaldskrá sjálf.
Ferðamál og umhverfismál
Stjórnvöld, í samvinnu við Náttúruvernd ríkisins, Náttúruverndarráð og Ferðamálaráð Íslands, ferðamálasamtök landshluta, áhugamannasamtök, einstaklinga, fyrirtæki og samtök þeirra:
• Stofni samráðsnefnd um umhverfismál á ferðamannastöðum. Verkefni nefndarinnar verði að ræða og gera tillögur um framtíðarskipan og mannvirkjagerð á ferðamannastöðum, einkum utan þéttbýlis, m.a. um ábyrgð, álag og kostnað við framkvæmdir og þjónustu.
Starfshópur, skipaður fulltrúum Ferðamálaráðs, Vegagerðar og Náttúruverndar ríkisins, hóf störf á janúar 1999. Búist er við niðurstöðum fljótlega.
• Samræmi stefnu um gjaldtöku fyrir veitta þjónustu og/eða aðstöðu á ferðamannastöðum.
Nýskipað Ferðamálaráð (apríl 1999) mun væntanlega fjalla um þetta mál þegar það kemur saman.
• Stuðli að rannsóknum á áhrifum ferðamennsku á umhverfi og þjóðfélag og á vistfræðilegu þoli fjölsóttra svæða. Niðurstöður rannsóknanna verði notaðar við mótun stefnu og framkvæmdaáætlanir gerðar þar sem þess er gætt að vernda og viðhalda náttúrlegu umhverfi.
Stofnaðar hafa verið tvær rannsóknarstöður í ferðaþjónustu (við HA og hjá Ferðamálaráði (1998)). Reiknað er með að ofangreindar rannsóknir fari af stað á þessu ári (1999).
• Beiti sér fyrir því að við skipulag, hönnun og staðsetningu mannvirkja í þágu ferðaþjónustu verði tekið mið af landslagi, náttúrufari og menningarminjum.
Flugmálastjórn, Siglingastofnun Íslands og Vegagerðin eru þær stofnanir samgönguráðuneytis sem mest áhrif hafa á ásjónu landsins með framkvæmdum á sínum vegum. Í mjög auknum mæli er lögð áhersla á að mannvirki falli að landslagi enda kröfur skipulagsyfirvalda og landsmanna sífellt meiri. Stofnanirnar eru allar þátttakendur í verkefni samgönguráðuneytis um græn reikningsskilen í því starfi fer fram umræða um alla þætti umhverfisverndar.
• Leggi áherslu á skipulagningu fjölsóttra ferðamannastaða. M.a. þarf að flokka svæði eftir verndargildi og skilgreina hvaða tegund ferðamennsku og útivistar hentar best hverju svæði.
Áðurnefndur starfshópur Ferðamálaráðs, Náttúruverndar ríkisins og Vegagerðar mun gera tillögur um þessi mál auk þess sem Náttúruvernd ríkisins, Ferðamálaráð, Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) og ýmis útivistarsamtök fjalla um þessi mál.
• Gangist fyrir samstarfi við ferðaþjónustuaðila í því skyni að við skipulagningu ferða verði tekið tillit til umhverfisverndar og þess álags sem einstakir staðir og svæði bera.
Samgönguráðuneytið hefur ekki gengist fyrir slíku samstarfi. Ferðamálaráð hefur hins vegar staðið fyrir fjölda námskeiða fyrir ferðaþjónustuaðila þar sem sérstaklega hefur verið fjallað um samspil ferðaþjónustu og umhverfisverndar enda er það í anda þeirra upplýsinga sem fyrir liggja um áhugasvið þeirra ferðamanna sem sækja landið heim.
Umhverfisnefnd er ein af fagnefndum SAF og því greinilegt að rekstraraðilar í ferðaþjónustu láta þessi mál til sín taka í auknum mæli.
• Stuðli að því að álagi á landið vegna ferðalaga verði dreift eftir því sem unnt er um landið og yfir árið. Áhersla verði lögð á slíka dreifingu við landkynningu og markaðssetningu og stuðlað verði að uppbyggingu ferðaþjónustu á þann veg að bygging mannvirkja verði fyrst og fremst utan hálendisins.
Allt markaðsstarf í íslenskri ferðaþjónustu miðar að lengingu ferðamannatímans. Fara þar saman umhverfissjónarmið og sú stefna að bæta nýtingu fjárfestinga í greininni.
• Stuðli að því að við markaðssetningu íslenskrar ferðaþjónustu, gerð landkynningarefnis og hvers konar upplýsinga fyrir ferðaskrifstofur, skipuleggjendur ferða og ferðamenn, sé þess gætt að kynningin efli skilning og umhyggju einstaklingsins fyrir umhverfi sínu og að áhersla sé lögð á að auka skilning ferðamannsins á hinni viðkvæmu íslensku náttúru.
Á þeim tíma sem liðinn er frá gerð framkvæmdaáætlunar um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi var hefur áhersla fyrirtækja á umhverfisvæna ferðamennsku aukist verulega. Nokkur fyrritæki starfa þegar í anda sjálfbærrar þróunar, þ.e. leitast við að velja umhverfisvænan ferðamáta, veita fræðslu, hafa gott samstarf við heimamenn á hverjum stað og sýna menningu og náttúru nærgætni í hvívetna.
• Sjái um öfluga fræðslu um umhverfismál meðal þeirra sem skipuleggja ferðir um landið með það að markmiði að stuðla að aukinni þekkingu og meiri skilningi á verðmæti auðlindarinnar. Landvarsla verði aukin og ábyrgð og þátttaka aðila við landvörslu og náttúruvernd verði skilgreind. Auka þarf umhverfismerkingar og merkingar á sögustöðum og fleiri menningarminjum.
Frá því haustið 1998 býður HA upp á nám í ferðamálafræðum við rekstrardeild skólans. Í náminu er lögð áhersla á skilgreiningar á sjálfbærri þróun og mikilvægi umhverfisverndar.
Innan ferðaþjónustu starfa margir einstaklingar sem hafa að baki háskólanám í náttúruvísindum og umhverfisfræðum og setur þessi menntun í auknum mæli mark sitt á samsetningu ferða.
Vegagerðin hefur um árabil unnið að uppsetningu upplýsingaskilta fyrir ferðamenn. Um er að ræða kort og þjónustuupplýsingar auk aðvörunarskilta við einbreiðar brýr og vegi inn á hálendið. Einnig hefur aðvörunarskiltum af öðru tagi fjölgað verulega. Merkingar á sögustöðum og menningarminjum hafa einnig aukist en þar er oft um frumkvæði heimamanna að ræða. Ferðamálaráð hefur um árabil styrkt gerð slíkra merkinga, ekki síst merkingar á gönguleiðum.
Nauðsynlegt er að samstarf umhverfis- og ferðamálayfirvalda sé öflugt á þessu svið því nauðsynlegt samræmi þarf að vera fyrir hendi þegar upplýsingaskilti eru annars vegar.
Um ábyrgð og þátttöku í landvörslu hefur ekki verið fjallað sérstaklega.
• Sjái til þess að á hverjum tíma séu til aðgengilegar upplýsingar, á íslensku og helstu tungumálum öðrum sem erlendir ferðamenn hér tala, um akstur og umgengni við landið, náttúrufar og öryggismál. Nota þarf samhliða bæklinga, upplýsingaskilti og merkingar. Ekki síst þarf að stuðla að gerð og útbreiðslu nákvæmra korta, sem þætti í öryggis-, landkynningar- og fræðslumálum.
Samgönguráðuneytið og Vegagerðin eru að fjalla sérstaklega um leiðir í bættri upplýsingagjöf til ferðamanna sem komi til viðbótar þeim aðgerðum sem þegar hefur verið ráðist í.
Einnig eru málefni upplýsingamiðstöðva til umfjöllunar hjá Ferðamálaráði en Ferðamálaráð stendur að rekstri Upplýsingamiðstöðvar ferðamála í Reykjavík í samstarfi við Reykjavíkurborg og Ferðamálasamtök Íslands. Á síðasta ári var veitt sérstök vfjárveiting til Ferðamálaráðs til stofnunar og reksturs upplýsingamiðstöðvar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. • Stuðli að því að almennar upplýsingamiðstöðvar fyrir ferðamenn verði jafnframt nýttar til fræðslu og upplýsinga um umhverfismál.
Á hverju vori stendur Ferðamálaráð fyrir námskeiðum fyrir starfsfólk upplýsingamiðstöðva þar sem m.a. er lögð áhersla á umhverfismál. Einnig hefur verið gefin út handbók um upplýsingamiðstöðvar þar sem sérstaklega er fjallað um tengsl upplýsinga og náttúruverndar.
5.6. MENNTAMÁLARÁ'UNEYTI
• Við endurskoðun sem nú er í gangi á námskrám leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla verði sett fram skýr stefna og markmið um umhverfismennt og fræðslu um grundvallarmarkmið sjálfbærrar þróunar.
Endurskoðun aðalnámskráa fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla (bóknámsbrautir) er rétt að ljúka.
Í drögum að aðalnámskrá leikskóla er sérstakur kafli sem heitir Samofin námssvið í leikskólauppeldi. Í þessum kafla fær umfjöllun um náttúruna og umhverfið mikla áherslu. Víða annars staðar í drögum að aðalnámskrá leikskóla er að finna beina skírskotun til þeirra viðhorfa sem liggja að baki sjálfbærri þróun. Sem fyrr er náttúruskoðun, náttúrugripir og lifandi tengsl barns og náttúru mjög sterkur þáttur í leikskólastarfinnu.
Við endurskoðun aðalnámskrár grunnskóla hefur verið lögð áhersla á að gera markmið og markmiðssetningu skýrari og ákveðnari en áður. Markmið náms í grunnskóla eru flokkuð í þrjá flokka, lokamarkmið, áfangamarkmið og þrepamarkmið. Áfangamarkmiðin hafa sérstaka stöðu. Þau lýsa því hvaða kröfur eru gerðar um þekkingu, skilning, færni o.s.frv. í lok 4. bekkjar, í lok 7. bekkjar og í lok 10. bekkjar. Við þessa áfanga á sérstaklega að huga að árangri og endurskipuleggja kennslu eftir þörfum.
Sjálfbær þróun kemur einkum fram í námskrá í náttúrufræði. Hún skiptist í eðlisvísindi, jarðvísindi og lífvísindi auk þess sem aðferðir vísindanna við þekkingarleit ganga eins og rauður þráður í gegnum alla náttúrufræðinámskrána. Markmið á öllum þessum sviðum falla beint að þeirri hugmyndafræði sem sjálfbær þróun byggir á.
Tími til náttúrufræðikennslu í grunnskólum eykst verulega. Nú er náttúrufræði kennd í 16-18 vikustundir samanlagt í 1.-10. bekk. Skólaárið 2001-2002 hefur þessi tími aukist upp í 26 vikustundir.
Endurskoðuð aðalnámskrá framhaldsskóla byggir á ákvæðum laga um aukna sérhæfingu í námi frá því sem verið hefur og aukið valfrelsi nemenda. Bóknámsbrautir eru þrjár, málabraut, félagsfræðabraut og náttúrufræðabraut. Nám á bóknámsbrautum framhaldsskólanna skiptist í kjarna, kjörsvið og val. Allir nemendur taka kjarna, á kjörsviði taka nemendur þær námsgreinar sem einkenna hverja námsbraut, í vali geta nemendur lagt stund á hvaða grein sem er í boði.
Samkvæmt nýrri námskrá þurfa nemendur á málabraut og félagsfræðabraut að ljúka 9 einingum í náttúrufræði í kjarna. Auk þess eiga þeir kost á að taka allt að 12 einingar af náttúrufræðakjörsviði. Einnig má benda á að frjálst val nemenda er 12 einingar sem nemandinn getur ráðstafað af eigin vild, t.d. til náms í náttúrurfræðigreinum.
Á náttúrufræðabraut þurfa nemendur að ljúka 18 einingum í kjarna í náttúrufræðigreinum en þeir hafa möguleika á að bæta við sig námi sem nemur allt að 42 einingum í náttúrufræðigreinum í kjörsviði og frjálsu vali.
Hin nýja skipan felur í sér að ábyrgðinni á námsvali er vísað til nemenda í ríkari mæli en verið hefur. Nemendur velja sér greinar í samræmi við áhuga og framtíðaráform en á móti eiga þeir kost á að velja sig frá greinum sem þeir hafa ekki áhuga á eða eiga í erfiðleikum með. Ráðuneytið lítur því svo á að með þessu fyrirkomulagi séu kostir nemenda til náms í náttúrufræðigreinum meiri en í núverandi kerfi á mála- og félagsfræðabraut og umtalsvert meiri á náttúrufræðabraut. Er það í anda framhaldsskólalaga og nýrrar skólastefnu sem leggur m.a. áherslu á aukið vægi raungreina. Þessu til viðbótar má nefna að ráðherra mun heimila í tilraunaskyni rekstur upplýsinga- og tæknibrautar sem enn eykur á námsframboð í raungreinum.
• Ráðinn verði verkefnisstjóri til að fylgja markmiðum og stefnu í umhverfismennt eftir í skólakerfinu. Stjórnvöld láti fara fram mat á árangri umhverfisfræðslu í skólakerfinu, t.d. árið 2000, til þess að meta árangur af breyttum áherslum.
Ekki hefur verið tekin afstaða til tillögu um ráðningu verkefnisstjóra. Rétt þótti að koma nýrri námskrá í framkvæmd fyrst.
• Fagskólar geri sérstakt átak í að upplýsa nemendur um umhverfismál sem tengjast viðkomandi fagsviði. Þeir setji jafnframt upp endurmenntunarnámskeið um vinnuaðferðir, tækni og efni sem eru umhverfisvæn og stuðla að sjálfbærri þróun.
Menntamálaráðuneytið hefur ekki upplýsingar um framkvæmd þessara tillagna. Bent skal á að samkvæmt lögum um framhaldsskóla skulu starfsgreinaráð sem í sitja fulltrúar atvinnulífsins, gera tillögur til menntamálaráðherra um námskrár í starfsgreinum. Skipuð hafa verið starfsgreinaráð á ýmsum sviðum starfsmenntunar og fagmenntunar og tóku þau nýlega til starfa .
• Skólar á viðskipta- og hagfræðisviði leggi aukna áherslu á kennslu í umhverfishagfræði.
Innan Viðskipta- og hagfræðideildar Háskóla Íslands er til meistaranám í hagfræði náttúruauðlinda. Þar eru kennd þrjú námskeið á meistarastigi, þ.e. almenn náttúruauðlindahagfræði, fiskihagfræði og umhverfishagfræði. Í meistaranámi í umhverfisfræðum er einnig boðið upp á auðlindahagfræði, sem kennd er innan hagfræðiskorar. Bæði þessi meistaranám eru nýjar áherslur innan Háskóla Íslands í umhverfis- og auðlindahagfræði.
• Við gerð og endurskoðun námsefnis verði umhverfismennt og hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar felld inn í sem flestar námsgreinar til þess að tryggja fjölfaglega umfjöllun á öllum sviðum náms, þar sem við á.
Vísað er til annarra ábendinga um námsefnisgerð.
• Verkefnum á sviði umhverfisfræðslu, sem unnin hafa verið í grunnskólum landsins, verði safnað saman og þau samræmd eftir því sem við á og komið til Námsgagnastofnunar eða skólaskrifstofa til frekari dreifingar og upplýsingar fyrir aðra skóla. Sérstaklega verði hugað að því að nýta menntanetið í þessum tilgangi.
Námsgagnastofnun er miðstöð námsefnisgerðar fyrir grunnskóla. Þangað safnast sjálfkrafa tillögur og hugmyndir um námsefni og verkefni á sviði umhverfisfræðslu. †mis vandamál hafa komið upp í sambandi við höfundarrétt og framlag efnis á netinu.
• Kennsluefni í óskyldum námsgreinum, t.d. móðurmáli, félagsfræði, o.s.frv. verði yfirfarið og gerð áætlun um mögulegar breytingar þannig að við kennslu verði m.a. tekið tillit til sjálfbærrar þróunar og þekkingar um umhverfi.Gildistaka nýrrar aðalnámskrár felur í sér gagngera endurskoðun á öllu námsefni grunnskóla. Þá gefst tækifæri til að huga þessum þáttum.
• Útgefið fræðsluefni um umhverfismál verði strax gert aðgengilegt til kennslu á viðkomandi skólastigi og/eða því fylgi viðunandi kennsluleiðbeiningar unnar í samráði við kennaraskóla, Námsgagnastofnun eða aðra aðila.Allt námsefni sem Námsgagnastofnun gefur út er öllum grunnskólum aðgengilegt. Skólar geta líka aflað sér efnis frá öðrum útgefendum fyrir milligöngu Námsgagnastofnunar.• Kennaranemar fái þjálfun í að útfæra umhverfisfræðslu í sem flestum námsgreinum. Kennarar fái leiðsögn um umhverfisfræðslu og hvernig fella megi hana inn í sem flestar námsgreinar.
Kennaraháskóli Íslands starfar nú eftir nýjum lögum sem tóku gildi 1. janúar 1999. Skólinn annast nú menntun leikskólakennara, grunnskólakennara, íþróttakennara og þroskaþjálfa. Fyrir dyrum stendur að endurskipuleggja námið í öllum skorum Kennaraháskólans. Frá 1991 hefur umhverfismennt verið fastur liður fyrir alla kennaranema á 1.ári í formi 2 ein. námskeiðs, auk þess sem hún hefur komið við sögu í nokkrum valgreinum, s.s. náttúrufræðigreinum og heimilisfræði. Skólinn hefur ýmsa möguleika til að byggja ofan á þetta nám í einstökum námsgreinum sem ekki hafa verið nýttir til þessa sem skyldi. Umhverfismennt hefur einnig verið fastur liður í námi leikskólakennara.
• Kennaramenntunarstofnanir auki framboð endurmenntunarnámskeiða í
umhverfisfræðslu fyrir kennara í leik-, grunn- og framhaldsskólum.
Til að fylgja nýrri aðalnámskrá eftir hefur verið ákveðið að tvöfalda fjárframlög ríkisins til endurmenntunar grunnskólakennara. Stofnaður verður sérstakur endurmenntunarsjóður. †msir aðilar sem hyggjast bjóða fram endurmenntun geta sótt um fjárframlög úr sjóðnum, svo sem kennaraskólar, skólaskrifstofur, fyrirtæki, félög. Nú hefur endurmenntunardeild KHÍ verið lögð niður og stofnuð sjálfstæð stofnun tengd skólanum sem nefnist Símenntunarstofnun KHÍ. Hún tekur við verkefni endurmenntunardeildar en mun taka upp samstarf við þá sem áhuga hafa og standa vilja að námskeiðum fyrir kennara og hópa sem stunda uppeldi, umönnun og þjálfun eða fyrir almenning. Við þessa formbreytingu skapast möguleikar á að fjölga námskeiðum og bjóða upp á meiri fjölbreytni. Þróunin hefur orðið sú hin síðari að umhverfismennt hefur tengst námskeiðum fyrir kennara í ýmsum greinum og því síður verið haldin sérstök námskeið um umhverfismennt.• Námsgagnastofnun efli útgáfu námsefnis á sviði umhverfismála.Í kjölfar nýrrar aðalnámskrár fyrir grunnskóla verður allt námsefni sem Námsgagnastofnun gefur út, metið að nýju til að ákvarða hvort það fellur að nýjum og breyttum markmiðum námskrár. Sumt efni gengur áfram, annað þarf að lagfæra og semja þarf nýtt efni á sumum sviðum. Ráðherra hefur ákveðið að veita viðbótarfé til Námsgagnastofnunar og fela henni að gera sérstakt átak í námsefnisgerð á árinu 1999. Átakið á að beinast að því annars vegar að sjá grunnskólum fyrir námsefni í nýjum námsgreinum þ.e. lífsleikni og upplýsinga- og tæknimennt og hinsvegar í greinum þar sem verulegar breytingar hafa orðið á námskrá þ.e. í erlendum málum og náttúrufræði.
5.7. SAMBAND ÍSLENSKRA SVEITARFÉLAGA
• Sveitarfélög sjái til þess í samvinnu við Skipulag ríkisins að gert verði skipulag er nái til landsins alls af öflun vatnsorku og jarðvarma fyrir árslok 2000 og tryggi að það sé endurskoðað með reglubundnum hætti.
Sveitarfélögin hafa ekki unnið að slíku landsskipulagi.
• Sveitarfélögin kanni í samvinnu við umhverfis- og iðnaðarráðuneyti sem lið í skipulagsáætlunum hvort og þá hvar komi til greina að gera iðnaðarsvæði, m.a. fyrir stór iðnfyrirtæki, með tilliti til umhverfis- og náttúruverndar í samvinnu við embætti skipulagsstjóra ríkisins, Siglingastofnun ríkisins, Hollustuvernd ríkisins, Náttúruvernd ríkisins, Náttúrufræðistofnun Íslands o.fl.
Bent er á ákvæði skipulags- og byggingarlaga, skipulagsreglugerðar og byggingarreglugerðar, en skv. þeim verða sveitarfélög nú að gera aðalskipulag í öllu sveitarfélaginu.
• Sveitarfélög geri heildarúttekt á vatni sem nýtanlegt er til neyslu og/eða hvers konar starfsemi innan sveitarfélagsins og í nágrenni þess, það síðarnefnda í samvinnu við nágrannasveitarfélög og sjái til þess að fullt tillit sé tekið til nauðsynlegrar vatnsöflunar og vatnsverndar við gerð skipulags.
Hjá Hollustuvernd ríkisins er verið að vinna að reglugerð um vatnsvernd.
• Sveitarfélög tryggi vatnsveitum sínum nægilegt fé til rannsókna á vatnsvinnslusvæðum og eftirlits með þeim, sem og til nauðsynlegra framkvæmda og viðhalds á vatnsöflunar-og dreifikerfum.
• Sveitarfélög sjái til þess að eftirlit með nýtingu vatnsbóla sé virkt.
• Samband íslenskra sveitarfélaga sjái um að ráðgjafi eða sérstakur starfsmaður vinni verk- og tímaáætlanir varðandi sorphirðumál, skilgreiningar, tölfræði- og mælieiningar. Umhverfisráðherra, félagsmálaráðherra og Samband íslenskra sveitarfélaga láti gera úttekt á þörf sveitarfélaga fyrir aðstoð og leiti leiða til að veita sveitarfélögum í landinu fjárhagsaðstoð á meðan breytingar eiga sér stað.
Bent er á að hjá nokkrum Byggðasamlögum sveitarfélaga um sorphirðu og/eða sorpförgun eru starfandi ráðgjafar varðandi sorphirðumál, s.s. á Suðurlandi, Austurlandi og hjá EyÞing.
• Sveitarfélög beiti sorphirðugjöldum þannig að þau hvetji íbúa og atvinnulífið til þess að flokka úrgang og skila honum til móttökustöðva, til að draga úr myndun úrgangs og auka endurnýtingu. Umhverfisráðuneyti, Hollustuvernd ríkisins og Samband íslenskra sveitarfélaga vinni leiðbeiningar um hvernig áætlanir um gjöld og tekjur í sorphirðumálum skuli unnar.
Í mörgum sveitarfélögum er komið þannig kerfi fyrir móttöku úrgangs frá atvinnulífinu sem er hvetjandi fyrir það að flokka úrgang og draga úr myndun hans og auka endurnýtingu. Varðandi íbúa þá hafa nokkur sveitarfélög hafið undirbúning að því að heimilisúrgangur verði vigtaður frá heimilum í viðkomandi sveitarfélögum. Vigtunin er fyrsta skrefið að því að setja á sorphirðugjöld sem verði hvetjandi fyrir íbúa að flokka úrgang, og draga úr myndun hans. Í Reykjavík er hafinn undirbúningur að slíkri vigtun.
• Sveitarfélög skipuleggi söfnun og endurnýtingu/eyðingu á landbúnaðarplasti í samstarfi við atvinnulífið eða sorpeyðingarstöðvar. Umhverfisgjald verði innheimt til að standa undir kostnaði við söfnun og endurnýtingu/eyðingu.
Endurvinnsla á landbúnaðarplasti hefur farið fram á Akureyri og á Flúðum. Tæknileg vandamál hafa komið upp við endurvinnslu af þessu tagi.
[Í umhverfisráðuneytinu er unnið að frumvarpi til laga um úrvinnslu úrgangs. Þar er gert ráð fyrir að leggja umhverfisgjald á vörur til að stuðla að úrvinnslu þegar varan er orðin að úrgangi. Tekið er mið af því kerfi sem komið hefur verið á í tengslum við spilliefnagjald. Reiknað er með að landbúnaðarplast falli inn í þennan almenna ramma, en ekki verði settar sérstakar reglur um söfnun og eyðingu/endurnýtingu þess.]
• Sveitarfélög hafi markvisst eftirlit með að framkvæmdir séu ávallt í samræmi við skipulagsáætlun.
Bent er á ákvæði skipulags- og byggingarlaga, skipulagsreglugerðar og byggingarreglugerðar hvað þetta varðar.
• Áfram verði unnið að því að styrkja sveitarfélög m.a. með sameiningu, sem ætti að auðvelda þeim framkvæmd og eftirlit með hinum ýmsu þáttum skipulags og umhverfismála og tryggja forræði þeirra yfir þessum málaflokkum.
Sveitarfélögum hefur mjög fækkað með sameiningu undanfarin ár. Þau eru nú 124, en voru 165 árið 1997 og ekki er langt síðan þau voru yfir 200 talsins.
• Sveitarfélög vinni framkvæmdaáætlun um umhverfismál og hafi reglubundið eftirlit með framkvæmd hennar. Áætlunin byggi á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar, Dagskrá 21 og stefnumörkun ríkisvaldsins. Á þennan hátt bera sveitarfélögin sjálf sem mesta ábyrgð á framkvæmd umhverfismála í sveitarfélaginu.
Í mars 1998 var gerður samningur milli umhverfisráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um gerð Staðardagskrár 21 í sveitarfélögum. Sérstakur verkefnisstjóri Stefán Gíslason hóf störf við verkefnið í október 1998.
Verkefnisstjórn verkefnsisins skipa eftirfarandi:
Sigurbjörg Sæmundsdóttir, formaður og Ragnar Frank Kristjánsson, tilnefnd af umhverfisráðuneytinu og Þuríður Backman og Magnús Már Júlíusson tilnefnd af sambandinu.
Alls taka 31 sveitarfélag þátt í verkefninu. Vinna við gerð Staðardagskrár 21 er þríþætt samkvæmt þeirri áætlun sem fylgt er í verkefninu:
A: Gerð úttekt á núverandi stöðu
B: Sett langtímamarkmið
C: Skilgreindar leiðir að langtímamarkmiðum.
Reiknað er með að þessari vinnu verði að mestu lokið í hverju sveitarfélagi í september 1999 og að sveitarstjórnir afgreiði hver sína Staðardagskrá 21 fyrir lok nóvembermánaðar sama ár. Verkefninu lýkur í lok mars árið 2000 með útgáfu lokaskýrslu.
• Gerðar verði aðalskipulagsáætlanir fyrir öll sveitarfélög fyrir 2007 og þeim fylgt eftir með reglubundinni endurskoðun.
Bent er á ákvæði skipulags- og byggingarlaga, skipulagsreglugerðar og byggingarreglugerðar.
• Sveitarfélög verði hvött til að ráða umhverfisráðgjafa. Hlutverk þeirra verði að ráðleggja íbúum sveitarfélagsins um náttúruvernd, aðstoða við skipulagningu á umhverfismennt í skólum og fyrir almenning og skipuleggja úrbætur í umhverfismálum héraðsins.
Þegar eru starfandi ráðgjafar í umhverfismálum hjá sveitarfélögum. Einnig hafa nokkur af þeim 31 sveitarfélagi sem taka þátt í verkefni um Staðardagskrá 21 ráðið til sín ráðgjafa.
• Komið verði á upplýsingakerfi sem nýtist heilbrigðisnefndum, náttúruverndarnefndum og sveitarfélögum til að kynna þjónustu á sviði umhverfismála og þá möguleika sem eru til staðar í viðkomandi sveitarfélagi.
Bent er á heimasíðu Sambands ísl. sveitarfélaga á internetinu þar sem umhverfisdeild sambandsins er með upplýsingar varðandi umhverfismál.
• Sveitarfélög varðveiti og verndi náttúruleg svæði, ekki síst í nágrenni þéttbýlis, m.a. til fræðslu. Nemendum gefist tækifæri til að taka þátt í verndun og viðhaldi svæðanna og þau gætu jafnvel verið falin skólum til umsjónar og varðveislu í samvinnu við yfirvöld. Hluti af starfi í vinnuskólum unglinga verði umhverfisfræðsla og náttúruupplifun. Nemendum, kennurum og foreldrum verði boðið að taka þátt í aðgerðum, svo sem viðhaldi, gerð fræðslustíga, merkingum, náttúruskoðun o.fl. í samvinnu við starfsmenn sveitarfélaga til þess að efla samkennd og ábyrgðar- tilfinningu gagnvart umhverfinu.
• Náttúrusöfnum verði gert kleift að efna til umhverfisfræðslu og hafi frumkvæði að því að koma á markvissu samstarfi innbyrðis og við skóla.
6. Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi - næstu skref
Hugtökin "sjálfbær þróun" og "sjálfbær nýting" virðast vera orðin föst í sessi í íslenskri tungu, eða í það minnsta í opinberri umræðu. Þetta á ekki síst við í sjávarútvegi, þar sem allir virðast sammála um það markmið að tryggja sjálfbæra nýtingu fiskistofna og annarra lifandi auðlinda. Flestir gera sér sæmilega grein fyrir því hvað felst í markmiðinu um sjálfbæra nýtingu fiskistofna og því er hugsanlegt að Íslendingar skilji inntak hugtaksins "sjálfbær þróun" betur en sumar aðrar þjóðir, sem byggja afkomu sína ekki með eins beinum hætti á nýtingu náttúruauðlinda.
Þeir eru hins vegar færri sem þekkja vel til þeirrar alþjóðlegu framkvæmdaáætlunar sem byggir á hugmyndafræðinni um sjálfbæra þróun og skjalfest var í Dagskrá 21 og samþykkt af þjóðum heims árið 1992. Ísland hefur að sumu leyti verið eftirbátur nágrannaríkjanna við að framfylgja Dagskrá 21 á formlegan hátt og að hrinda mörgum lykilákvæðum hennar í framkvæmd. Á Íslandi hefur t.a.m. ekki verið komið á fót Landsnefnd um sjálfbæra þróun, eins og víða hefur verið gert og framkvæmd Staðardagskrár 21 hófst hér mun seinna en á Norðurlöndunum og öðrum ríkjum sem við berum okkur gjarnan saman við.
Það er ekki víst að slík atriði ráði úrslitum um hvort vel tekst til við að koma á sjálfbærri þróun samfélagsins. Athuganir sem gerðar hafa verið á eftirfylgni Dagskrár 21* sýna að víða er við svipuð vandamál að etja. Landsnefndir um sjálfbæra þróun glíma víðast við þann vanda að hafa lítil völd og illa skilgreint hlutverk. "Sjálfbær þróun" er líka oft talin vera nánast samheiti yfir "umhverfisvernd", þó að hún taki til efnahagslegrar og félagslegar þróunar samfélagsins auk umhverfisþáttarins og því er framkvæmd Dagskrár 21 oft falin umhverfisráðuneytum eða stofnunum á sviði umhverfismála, en lítið tillit tekið til ákvæða hennar við ákvarðanatöku í efnahags- og félagsmálum.
Síðast en ekki síst, þá vefst fyrir mörgum að útfæra hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar í einstökum atvinnugreinum og annarri starfsemi, jafnvel þótt menn telji sig hafa skilning á grunnhugsuninni sem felst í hugtakinu. Þetta gerir mönnum erfitt um vik við að hrinda sjálfbærri þróun í framkvæmd. Þetta er þó væntanlega miserfitt eftir því um hvaða greinar
.
* (sjá m.a. Implementing sustainable development: Experiences and Recommendations from National and Regional Consultations for the Rio+5 Forum, þar sem finna má niðurstöður samráðsfunda með landsnefndum um sjálfbæra þróun víða um heim, þ.á m. á Íslandi.)
er að ræða. Þannig kann að vera tiltölulega auðvelt að skilgreina hvað felst í sjálfbærum fiskveiðum - þar sem um er að ræða skynsamlega langtímanýtingu á endurnýjanlegum auðlindum í stað skyndigróða sem byggir á rányrkju - en erfiðara að útskýra í hverju "sjálfbær iðnaðarstefna", "sjálfbær ferðaþjónusta" eða "sjálfbært neyslumynstur" felst, svo dæmi séu tekin.
Ísland býr að mörgu leyti yfir mikilli sérstöðu meðal ríkja heims. Hér býr rík og hátæknivædd þjóð, sem byggir auð sinn fyrst og fremst á veiðum á villtum dýrastofnum. Íslendingar þekkja afleiðingar þess að nýta gæði náttúrunnar á ósjálfbæran hátt, m.a. af hruni síldarstofnsins á 7. áratugnum og aldalöngum uppblæstri af völdum skógarhöggs og ofbeitar á rofgjörnum eldfjallajarðvegi. Skynsamleg nýting auðlinda, byggð á vísindalegri þekkingu og sjálfbær þróun samfélagsins er Íslendingum ekki aðeins kappsmál í ljósi nýrra viðhorfa í umhverfismálum, heldur lífsnauðsyn og forsenda byggðar í landinu. Afkoma allra jarðarbúa byggir auðvitað beint eða óbeint á gæðum náttúrunnar, en fáar ríkar þjóðir eiga lífsafkomu sína með jafn beinum hætti undir nýtingu náttúruauðlinda og við Íslendingar. Þetta á ekki aðeins við um fiskistofnana, heldur einnig um gróður og jarðveg, jarðefni, nytjavatn og orku fallvatna og jarðhita, en einnig náttúrugæði sem að sumu leyti eru huglæg, s.s. ómengað loft og haf, náttúrufegurð og óbyggð víðerni. Stefna þarf að sjálfbærri nýtingu allra þessarra auðlinda.
Starf á alþjóðavettvangi, sem byggir á samþykktum Ríó-ráðstefnunnar, er þar gott veganesti, m.a. vegna þess að mörg þeirra viðfangsefna sem við er að glíma eru hnattræn, s.s. loftslagsbreytingar af mannavöldum og mengun úthafanna. Það er þó Íslendingum nauðsynlegt að skilja og skilgreina hvað sjálfbær þróun í íslensku samfélagi hefur í för með sér og hafa skýrt mótaða stefnu um forgangsmál hér heima fyrir.
Framkvæmdaáætlunin, sem nefndinni var falið að endurskoða, er mikilvægt skref í þá átt. Hún hefur að geyma fjölmörg ákvæði um aðgerðir, sem víðtæk samstaða hefur náðst um, en gildi hennar felst ekki síður í þeirri miklu vinnu sem lá að baki henni. Með henni var tryggt að fulltrúar víðs vegar að í stjórnkerfinu, atvinnulífinu og hjá frjálsum félagasamtökum kynntu sér þau sjónarmið sem liggja að grunni Dagskrár 21 og þekkja til þess starfs sem unnið er innanlands og á alþjóðavettvangi við að koma á sjálfbærri þróun. Það er nú regla fremur en undantekning að helstu stjórnvaldsstofnanir, hagsmunasamtök og stærri fyrirtæki hafi aflað sér þekkingar á sviði umhverfismála og mörg hafa markað sér umhverfisstefnu. Slík hefði vafalaust orðið raunin hvort sem væri, m.a. vegna efnahagslegrar nauðsynjar sjálfbærra fiskveiða og þrýstings erlendis frá, sem kallar á umhverfisstefnu hjá atvinnugreinum á sviði sjávarútvegs, ferðaþjónustu o.fl. Það er þó án vafa að sú vinna sem fór fram við undirbúning og samþykkt framkvæmdaáætlunar um sjálfbæra þróun hefur sáð fræjum þekkingar víða og þar með ýtt undir þessa þróun. Sú vinna sem nú er hafin við Staðardagskrá 21 mun enn auka áhuga og skilning á mikilvægi sjálfbærrar þróunar á Íslandi. Mikil þátttaka í því verkefni (31 sveitarfélög) sýnir að jarðvegurinn fyrir frekari vinnu á þessu sviði á Íslandi er frjósamur og áhugi mikill.
Það er hins vegar íhugunarefni hvernig að þessum málum verður staðið á komandi árum. Gildistíma framkvæmdaáætlunarinnar lýkur um aldamótin, sem væntanlega eru skilgreind sem áramótin 2000/2001 og verkefninu Staðardagskrá 21 á að ljúka í mars 2000. Á árinu 2002 verður væntanlega litið um öxl á tíu ára afmæli Ríó-ráðstefnunnar og reynt að gera allsherjarúttekt á framkvæmd Dagskrár 21 á heimsvísu, svipað og gert var 1997, þegar fimm ár voru liðin frá Ríó. Því er ljóst að áætlanir þurfa að liggja fyrir um hvort ástæða sé til þess að gera nýja framkvæmdaáætlun, eða Landsdagskrá 21, og þá hvernig slík áætlun yrði.
Hugsanlega geta menn komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé þörf á að gera nýja framkvæmdaáætlun á landsvísu í því formi sem verið hefur. Ljóst er af þessarri skýrslu að flest þeirra verkefna sem um er getið í núverandi framkvæmdaáætlun eru komin a.m.k. á rekspöl og að þekkingu á umhverfismálum og skilning á mikilvægi sjálfbærrar þróunar er að finna á flestum sviðum þjóðlífsins. Ekki er því víst að samræmdrar og víðtækrar áætlunar um sjálfbæra þróun sé sömu þörf og áður.
Það er hins vegar skoðun nefndarinnar að íslensk stjórnvöld eigi áfram að vinna að stefnumótun um sjálfbæra þróun, þannig að reynt verði að meta hver séu forgangsverkefni Íslendinga og hvaða aðgerðir eru raunhæfar til árangurs. Ekki er þó nauðsynlegt að slík áætlun sé með sama sniði og núverandi framkvæmdaáætlun eða að unnið verði að henni á sama hátt. Ný áætlun hlýtur að taka tillit til þeirra miklu breytinga sem orðið hafa á sviði umhverfismála á Íslandi síðustu ár, ekki síst stóraukins áhuga og þekkingar almennings og atvinnulífsins.
Einn helsti kosturinn við núverandi framkvæmdaáætlun er hve víðtækt samráð var haft við gerð hennar, en á móti kemur að segja má að forgangsröðun sé nokkuð erfið í svo víðfeðmri áætlun, sem telur vel yfir 200 ákvæði. Í nýrri áætlun mætti skerpa markmið, fækka ákvæðum og forgangsraða og taka skýrt fram hver ber ábyrgð á að hrinda ákvæðum í framkvæmd. Setja þyrfti tímasett markmið og helst tölulegar eða aðrar áþreifanlegar viðmiðanir um árangur, s.s. umhverfisvísitölur eða vísitölur um sjálfbæra þróun, sem verið er að þróa í mörgum löndum og á vettvangi alþjóðasamtaka.
Vinna við slíkt framhald núverandi framkvæmdaáætlunar þyrfti að fara fram samhliða starfi Íslands í nefnd Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun (CSD) og væntanlegu mati á framkvæmd Dagskrár 21 á þeim vettvangi árið 2002 og í samvinnu við þau sveitarfélög sem vinna að áætlunum um sjálfbæra þróun á grundvelli verkefnisins um Staðardagskrá 21. Þannig yrði samfella í vinnu á sviði framkvæmdar Dagskrár 21, "Landsdagskrár 21" og Staðardagskrár 21; m.ö.o. unnið heildstætt að því að koma á sjálfbærri þróun, hnattrænt jafnt sem heima í héraði. Full ástæða er til að taka nauðsynlegar ákvarðanir og skipuleggja vinnu við framhald framkvæmdaáætlunarinnar á þessu ári.