Hoppa yfir valmynd
14. september 1999 Dómsmálaráðuneytið

Nokkrar skýringar og leiðbeiningar varðandi ákvæði nýrrar reglugerðar um ökuskírteini

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið
13. ágúst 1997

Nýjar reglur um ökuskírteini

Föstudaginn 15. ágúst 1997 taka gildi nýjar reglur um ökuskírteini. Hinar nýju reglur eru tvíþættar. Annars vegar er um að ræða nýja reglugerð um ökuskírteini. Hins vegar verður tekin í notkun ný gerð ökuskírteina.

Hin nýja reglugerð hefur að geyma margvísleg ný og jafnframt ítarlegri ákvæði um ökuskírteini og ökuréttindaflokka en gilt hafa til þessa, ákvæði um ökunám og ökupróf, svo og um önnur skilyrði sem fullnægja skal til að öðlast ökuréttindi og halda þeim.

Hinar nýju reglur taka mið af tilskipun Evrópusambandsins um ökuskírteini en reglur þeirrar tilskipunar eru nú hluti af reglum Evrópska efnahagssvæðisins.

Hin nýju ökuskírteini eru gerð úr plasti af svipaðri gerð og greiðslukort. Form ökuskírteinanna og gerð er í samræmi við samræmdar kröfur sem gilda innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Formlegur útgefandi nýju ökuskírteinanna verður ríkislögreglustjóri en allar ákvarðanir um útgáfu ökuskírteina, svo og um afturköllun ökuréttinda, verða í höndum hlutaðeigandi lögreglustjóra. Samkomulag hefur verið gert við Reiknistofu bankanna um að hún annist gerð ökuskírteinanna.

Nýja reglugerðin felur í sér heildarendurskoðun á eldri reglum um ökukennslu, próf ökumanna o.fl. Uppsetning reglugerðarinnar og kaflaskipting er því ný og verulega breytt frá núgildandi reglugerð sem að stofni til er frá árinu 1983. Í framhaldi þessa er gert ráð fyrir að gefin verði út sérstök reglugerð um löggildingu ökukennara og um ökuskóla.

Verður hér getið helstu nýmæla sem felast í hinum nýju reglum.

Tekin er upp ný skilgreining ökuréttindaflokka og eru íslenskir réttindaflokkar þá að fullu í samræmi við reglur sem gilda um það efni innan Evrópska efnahagssvæðisins og víðar. Eru jafnframt teknir upp nýir réttindaflokkar til að stjórna bifreiðum með stærri gerðir eftirvagna og tengitækja. Hinir nýju réttindaflokkar varða þá sem öðlast ökuréttindi eftir gildistöku reglugerðarinnar en þeir sem þegar hafa öðlast tiltekin réttindi munu halda öllum sínum réttindum áfram. Ný ökuskírteini sem gefin verða út í stað eldri ökuskírteina munu bera áritun sem sýnir þau réttindi.

Skilyrði fyrir útgáfu ökuskírteinis er að hlutaðeigandi eigi fasta búsetu hér á landi (í reynd oftast sama og lögheimili). Er þetta í samræmi við tilskipunina um ökuskírteini. Felur það í sér áskilnað um búsetu í landinu í a.m.k. 185 daga á almanaksári. Þó verður heimilt að endurnýja íslensk ökuskírteini án tillits til búsetu, svo og að gefa út samrit íslensks ökuskírteinis. Heimilt verður að krefjast þess að erlendir ríkisborgarar, aðrir en norrænir, leggi fram dvalarleyfi.

Framvegis verður heimilt að leggja fram umsókn um ökuskírteini hjá hvaða lögreglustjóra sem er, óháð því hvar á landinu umsækjandi hefur búsetu. Lögreglustjóri aflar sjálfur upplýsinga úr skrám lögreglu og ákæruvalds.

Tekin verða upp ný aldursskilyrði til að stjórna vörubifreið. Er lágmarksaldur lækkaður úr 20 árum í 18 ár til samræmis við tilskipunina um ökuskírteini. Þess ber þó að geta að við tiltekna vöruflutninga sem falla undir reglur um aksturs- og hvíldartíma ökumanna þarf stjórnandi ökutækis eða samtengdra ökutækja sem eru meira en 7.500 kg að leyfðri heildarþyngd að vera orðinn 21 árs eða hafa sérstakt starfshæfnisvottorð.

Til að stjórna hópbifreið er áskilinn 21 árs aldur. Tóku þær reglur gildi fyrr á þessu ári. Þessar reglur eru í samræmi við tilskipunina um ökuskírteini; aldur til farþegaflutninga í atvinnuskyni á almenna fólksbifreið verður óbreyttur, 20 ár.

Réttindi til að stjórna bifhjóli verða framvegis tvískipt, annars vegar fyrir lítið bifhjól (tvíhjóla bifhjól þar sem hlutfall vélarafls og eigin þyngdar fer ekki yfir 0,16 kW/kg, og vélarafl ekki yfir 25 kW ef bifhjólið er án hliðarvagns) og hins vegar fyrir stórt bifhjól sem þá er aflmeira. Ökuskírteini til að stjórna bifhjóli heimilar skírteinishafa ekki stjórn stórs bifhjóls fyrr en að undangenginni tveggja ára reynslu sem ökumaður lítils bifhjóls á grundvelli bifhjólaréttinda. Undanþága frá þessu er ef skírteinishafi stenst verklegt viðbótarpróf á stóru bifhjóli eftir að 21 árs aldri er náð, eða ef ökuskírteinið er gefið út að undangengnu ökunámi og ökuprófi þegar 21 árs aldri er náð. Áfram eru í gildi reglur um 15 ára aldursmark til að stjórna léttu bifhjóli (skellinöðru); bifhjóli sem ekki skal hannað til hraðari aksturs en 45 km á klst.

Tekin verða í notkun ný eyðublöð fyrir umsóknir um ökuskírteini, svo og ný eyðublöð fyrir læknisvottorð. Að því er varðar almenn ökuréttindi, þ.e. réttindi til að stjórna fólksbifreið/sendibifreið og bifhjóli, og réttindi til að stjórna dráttarvél og léttu bifhjóli, verður byggt á eigin heilbrigðisyfirlýsingu umsækjanda. Verður þá ekki krafist læknisvottorðs nema lögreglustjóri telji þess þörf eða ef umsækjandi hefur náð 65 ára aldri. Ákvæði um líkamlegt og andlegt heilbrigði eru ítarlegri en til þessa og eru þau í samræmi við tilskipunina um ökuskírteini.

Nánari ákvæði eru um undirbúning nemanda sem sækir um ökuréttindi; kennsla skal fara fram í samræmi við námskrá fyrir hlutaðeigandi réttindaflokk. Próf til einstakra ökuréttindaflokka verða aðskilin. Jafnframt verður það meginregla að nám til aukinna réttinda má ekki hefja nema áður hafi verið aflað tiltekinna réttinda.

Til próftöku, hvort heldur er fyrir fræðilegt próf eða verklegt próf, skal ökukennari staðfesta að nemandi hafa hlotið fullnægjandi kennslu. Þá er reglum um prófgjald breytt þannig að greiða skal gjald fyrir hvert próf, fræðilegt og verklegt. Þannig verður sá sem ekki stenst próf eða mætir ekki til prófs án gildra ástæðna að greiða nýtt prófgjald vilji hann halda prófi áfram.

Nýjar reglur eru um undirbúning að réttindum til að stjórna léttu bifhjóli og dráttarvél. Áður en lögreglustjóri gefur út (æfingaleyfi) á létt bifhjól skal nemandi hafa hlotið fræðilega kennslu og þjálfun hjá ökukennara.

Settar eru reglur um hæfnispróf. Tilgangur hæfnisprófs er að kanna hvort sá sem þegar hefur ökuréttindi fullnægi enn skilyrðum um aksturshæfni og þekkingu á umferðarlöggjöf eða hafi nægan skilning á tillitssemi við aðra vegfarendur. Hæfnispróf er eins og almennt ökupróf (eins og fyrir flokk B, fræðilegt próf og verklegt). Hæfnispróf má áskilja við útgáfu fullnaðarskírteinis í stað bráðabirgðaskírteinis, við endurnýjun ökuskírteinis, til ákvörðunar um afturköllun ökuréttinda, við endurveitingu réttinda, svo og við útgáfu íslensks ökuskírteinis í stað erlends ökuskírteinis.

Þá eru ný ákvæði um hæfnisathugun. Hæfnisathugun getur farið fram til ákvörðunar um hvort umsækjandi um tiltekin ökuréttindi fullnægir heilbrigðisskilyrðum, og hvort réttindi skuli af þeim ástæðum takmörkuð á einhvern hátt, svo og hvenær sem er ella þegar ástæða er til að kanna hvort þeim skilyrðum sé fullnægt. Það getur m.a. átt við um aldraða.

Fyrsta ökuskírteini fyrir bifreið og bifhjól verður, svo sem verið hefur, gefið út til tveggja ára. Að því búnu verður meginreglan sú að almenn ökuréttindi (fyrir fólksbifreið/sendibifreið og bifhjól) verða gefin út til 70 ára aldurs en viðbótarréttindi til að stjórna vörubifreið og hópbifreið og til farþegaflutninga í atvinnuskyni verða gefin út til 10 ára. Ný ökuskírteini munu framvegis bera óbreyttan gildistíma almennra ökuréttinda en 10 ára gildistíma viðbótarréttindanna. Þó munu þeir sem nú hafa viðbótarréttindi til sjötugs halda þeim. Þótt gildistími ökuskírteinis vegna viðbótarréttinda renni út mun ökuskírteinið halda gildi sínu að því er varðar aðra flokka.

Nýung er varðandi bráðabirgðaakstursheimild. Þar er um að ræða sérstakt skilríki sem staðfestir að hlutaðeigandi hafa gild ökuréttindi. Slíkt skilríki verður gefið út til stutts tíma, að jafnaði til eins mánaðar, einkum handa þeim lokið hefur ökuprófi, hvort heldur er í fyrsta skipti eða við öflun aukinna ökuréttindi, meðan beðið er eftir því að ökuskírteini verði tilbúið. Sama er um þann sem glatað hefur ökuskírteini og bíður eftir útgáfu samrits.

Félag íslenskra bifreiðaeigenda mun annast útgáfu alþjóðlegs ökuskírteini til jafns við lögreglustjóra.

Ítarlegar reglur eru settar um afturköllun ökuréttinda þegar skírteinishafi fullnægir ekki lengur skilyrðum til að öðlast ökuskírteini. Skilyrði afturköllunar geta varðað vanþekkingu á umferðarreglum, vanhæfni til aksturs eða skort á tillitssemi við aðra vegfarendur. Brot á umferðarreglum fela ekki í sér heimild til afturköllunar nema brotin verði rakin til vanþekkingar o.s.frv. Skilyrði afturköllunar getur einnig varðað heilbrigði skírteinishafa. Má þá áskilja að skírteinishafi skuli gangast undir hæfnispróf, fræðilegt og verklegt, eða að hann skuli gangast undir rannsóknir eða athuganir, m.a. hæfnisathugun, vegna líkamlegs heilbrigðis. Ef skírteinishafi neitar að gangast undir hæfnispróf eða rannsóknir eða athuganir sem taldar eru nauðsynlegar til að unnt sé að taka ákvörðun getur lögreglustjóri afturkallað ökuréttindin þegar í stað. Sama er ef skírteinishafi stenst ekki hæfnispróf. Ef ökuréttindi hafa verið afturkölluð vegna þess að hlutaðeigandi stóðst ekki hæfnispróf eða það fór ekki fram fer endurveiting réttinda ekki fram nema að undangengnu nýju hæfnisprófi.

Ný ákvæði eru um erlend ökuskírteini. Við dvöl hér á landi um stundarsakir gilda erlend ökuskírteini almennt. Sá sem hefur fasta búsetu í landinu á að meginstefnu til að hafa íslenskt ökuskírteini. Ökuskírteini sem gefin eru út í ríki sem er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu eða í Færeyjum veita þó rétt til að stjórna ökutækjum hér á landi, þó ekki lengur en til 70 ára aldurs. Ökuskírteini sem gefin eru út í öðrum ríkjum, svo og ökuskírteini sem gefin eru út á grundvelli slíks ökuskírteinis, heimila handhafa einungis að stjórna ökutæki hér á landi í allt að einn mánuð eftir að skilyrðum um fasta búsetu er fullnægt.

Sá sem hefur fasta búsetu hér á landi getur fengið útgefið íslenskt ökuskírteini í stað erlends ökuskírteinis. Ef erlenda ökuskírteinið var gefið út í ríki sem er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu eða í Færeyjum verður íslenskt ökuskírteini að jafnaði gefið út án þess að leggja þurfi fram heilbrigðisyfirlýsingu eða læknisvottorð eða að umsækjandi þurfi að gangast undir hæfnispróf. Ef ökuskírteinið var gefið út í öðru ríki eða það var gefið út á grundvelli slíks ökuskírteinis þarf að leggja fram heilbrigðisyfirlýsingu eða læknisvottorð eftir því sem við á. Handhafi slíks ökuskírteinis þarf að jafnaði að gangast undir hæfnispróf, en heimilt er að falla frá þeirri kröfu ef talið verður að útgáfa ökuskírteina í hlutaðeigandi ríki lúti ekki verulega vægari skilyrðum en hér á landi.

Sú meginregla er sett að engum er heimilt að hafa ökuskírteini frá meira en einu ríki sem er aðili að Evrópska efnhagssvæðinu. Jafnframt er á því byggt að hver sá sem fær útgefið íslenskt ökuskírteini á grundvelli erlends ökuskírteinis skuli afhenda sitt erlenda ökuskírteini.

Sérstök ákvæði eru um gildi eldri ökuréttinda. Þeir sem samkvæmt eldri reglum hafa öðlast tiltekin réttindi halda þeim, enda fullnægi þeir almennum skilyrðum til þess, og eldri ökuskírteini halda gildi sínu. Ný ökuskírteini verða gefin út í samræmi við hina nýju réttindaflokka. Handhafar eldri ökuskírteina sem þess óska geta fengið útgefin ný ökuskírteini.

Upplýsingar um réttindaflokka á hinum nýju ökuskírteinum munu verða greindar þannig að á framhlið skírteinisins kemur fram bókstafur/bókstafir ökuréttindaflokka og gildistími sjálfs ökuskírteinisins. Á bakhlið skírteinisins verður hins vegar táknmynd réttindaflokkanna, svo og útgáfudagur og lokadagur hvers réttindaflokks fyrir sig. Á bakhliðinni verða einnig í formi sérstakra tákntalna ýmsar upplýsingar, m.a. að því er varðar skilyrði og takmarkanir á gildi ökuskírteinisins eða einstakra réttinda, svo sem að því er varðar sjón skírteinishafa eða fötlun, búnað ökutækis o.fl. Þar munu og með tákntölu koma fram upplýsingar um réttindi til farþegaflutninga í atvinnuskyni.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið
13. ágúst 1997

Nokkrar skýringar og leiðbeiningar varðandi ákvæði
nýrrar reglugerðar um ökuskírteini

Til viðbótar þeim upplýsingum sem fram koma í yfirliti um "nýjar reglur um ökuskírteini" þykir rétt að gefa nokkrar skýringar á einstökum ákvæðum hinnar nýju reglugerðar um ökuskírteini sem taka mun gildi 15. ágúst næstkomandi og veita jafnframt nokkrar leiðbeiningar um ýmis atriði sem varða framkvæmd hinna nýju reglna. Skýringar þessar og leiðbeiningar eru ekki tæmandi og varða ekki öll ákvæði reglugerðarinnar. Má því gera ráð fyrir að síðar þurfi að auka við þessar upplýsingar.

Við 1. gr.

Hér er um að ræða almennt ákvæði um að enginn megi stjórna vélknúnu ökutæki nema hann hafi gilt ökuskírteini sem veitir honum réttindi fyrir viðkomandi flokk ökutækja. Vísað er til 5. - 13. gr. þar sem ökuréttindaflokkar eru skilgreindir og 81. gr. þar sem gerð er grein fyrir ökuréttindum sem menn kunna að hafa á grundvelli eldri reglna.
Þá er í 2. mgr. ákvæði þess efnis að enginn megi hafa ökuskírteini frá meira en einu ríki sem er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu. Handhafi ökuskírteinis sem gefið er út í EES ríki getur notað það hér á landi, sbr. 1. mgr. 73. gr., og annars staðar innan svæðisins. Ef hann á fasta búsetu hér á landi getur hann og fengið því skipt í íslenskt ökuskírteini, sbr. 1. mgr. 77. gr.

Við 2. gr.

1. mgr. vísar með almennum hætti til ökuprófs sem skilyrðis fyrir útgáfu ökuskírteinis.
2. mgr. byggir á almennu reglunni um að ökuskírteini verði einungis veitt þeim sem hefur fasta búsetu hér á landi svo sem greinir í 4. gr. Frá því eru fjögur tilvik, þ.e. útgáfa samrits íslensks ökuskírteinis, útgáfa bráðabirgðaakstursheimildar, útgáfa alþjóðlegs ökuskírteinis til handhafa íslensks ökuskírteinis og útgáfa fullnaðarskírteinis og endurnýjun íslensks ökuskírteinis.

Við 3. gr.

Í 1. mgr. kemur fram að umsókn má leggja fram hjá hvaða lögreglustjóra sem er, óháð því hvar umsækjandi hefur búsetu. Hins vegar hlýtur umsækjandi að þurfa að vera til staðar í nágrenninu svo að umsókn geti fengið meðferð.
Skv. a- lið 2. mgr. nægir ein ljósmynd af umsækjanda, þ.e. andlitsmynd án höfuðfats, sem líkist umsækjanda vel. Skilyrðið er að myndin sé nægilega skýr og að hún líkist umsækjanda en ekki sjálfur aldur myndarinnar. Jafnframt er gert ráð fyrir að notast megi við fullnægjandi ljósmynd sem kann að vera til í gagnagrunni ökuskírteinaskrár.
Af b-lið 2. mgr. leiðir að heilbrigðisyfirlýsing ein sér nægir að öllum jafnaði við umsókn um réttindi fyrir A, B, BE, M og T réttindi. Lögreglustjóri getur þó krafist læknisvottorðs og mundi það m.a. ráðast af svörum umsækjanda í heilbrigðisyfirlýsingunni. Ef umsækjandi hefur náð 65 ára aldri skal krefjast læknisvottorðs, svo og við umsókn um réttindi fyrir flokkana C, CE, D og DE og til farþegaflutninga í atvinnuskyni. Allir þurfa þó að gefa heilbrigðisyfirlýsingu á umsóknareyðublaði.
Skv. 3. mgr. skal umsækjandi gefa skriflega yfirlýsingu um að hann hafi fasta búsetu hér á landi eða fullnægi að öðru leyti búsetuskilyrði 4. gr. Krefjast má gagna í þessu sambandi, svo sem dvalarleyfis. Staðfestingu á fastri búsetu (lögheimili) má að jafnaði fá með upplýsingum úr íbúaskrá þjóðskrárinnar. Þar kemur sérstaklega fram ef lögheimili hér á landi hefur staðið skemur en 185 daga samfellt. Upplýsingar um dvalarleyfi má fá hjá Útlendingaeftirlitinu.
Skv. 4. mgr. skal umsækjandi gefa yfirlýsingu um að hann hafi hvorki undir höndum ökuskírteini gefið út í EES ríki né sætt takmörkunum á eða sviptingu ökuréttar í þeim löndum. Ekki er gert ráð fyrir sjálfstæðri upplýsingaöflun af þessu tilefni.
Í 5. mgr. er gert ráð fyrir að umsækjandi kunni að vera krafinn um skilríki fyrir því hver hann er. Slíkt gæti átt við um þann sem ekki er kunnugur þeim sem fjalla um umsókn, t.d. um útlending. Skilríki gæti t.d. verið vegabréf eða bankakort eða nafnskírteini með mynd.
Skv. 6. mgr. skal umsækjandi rita nafn sitt, á þann hátt sem hann að jafnaði ritar nafnið, á þar til gerðan reit á kennispjald sem ljósmynd af umsækjanda skal og fest við. Nafnritunin verður færð á ökuskírteinið. Rétt er að ný nafnritun verði jafnan fengin við síðari útgáfu ökuskírteinis.

Við 4. gr.

Hér er hugtakið föst búseta skýrt nánar. Er það sá staður þar sem hlutaðeigandi býr að jafnaði, þ.e. í a.m.k. 185 daga á hverju almanaksári, vegna persónu- eða atvinnutengsla svo sem nánar er tekið fram. Ákvæðið byggir á tilskipun EB um ökuskírteini.
Skv. 2. mgr. kemur fram að föst búseta telst vera komin á þegar sá sem flytur til landsins tekur sér búsetu hér í þeim tilgangi að fullnægja a.m.k. einu þeirra skilyrða sem tilgreind eru í 1. mgr. Hér skiptir tilkynning um aðsetursskipti máli en tilgangur dvalarinnar þarf að vera fyrir hendi.
Skv. 4. mgr. felur námsdvöl hér á landi ekki sjálfkrafa í sér að viðkomandi teljist hafa fasta búsetu hér.

Við 5. - 13. gr.

Hér eru ökuréttindaflokkarnir skilgreindir hver fyrir sig.
Nýir réttindaflokkar eru í 10. gr. vegna bifreiða með stóra eftirvagna/tengitæki. Með almennum réttindum til að stjórna fólksbifreið/sendibifreið, vörubifreið og hópbifreið fylgir þó réttur til að tengja tiltekna létta eftirvagna/tengitæki við bifreið.
Skv. 6. gr. skiptast réttindi á bifhjól í tvo flokka, lítil bifhjól og stór bifhjól; létt bifhjól (skellinöðrur) eru áfram sérstakur réttindaflokkur, sbr. 13. gr.
Réttindaflokkurinn fólksbifreið/sendibifreið, sbr. 7. gr., felur í sér heimild til að stjórna bifreið sem er 3.500 kg eða minna að leyfðri heildarþyngd og með sæti fyrir 8 farþega eða færri auk ökumanns.
Í 11. gr. er gerð grein fyrir undirflokkum. Ekki verður unnt að öðlast réttindi samkvæmt þeim hér á landi. Flokkarnir kunna hins vegar að vera notaðir í einstökum EES ríkjum og hafa þeir þá gildi gagnvart þeim sem koma með slík ökuskírteini til landsins og við útgáfu á íslensku ökuskírteini í skiptum fyrir slíkt ökuskírteini. Flokkarnir munu einnig verða notaðir við útgáfu nýs ökuskírteinis í stað eldra ökuskírteinis til að sýna réttindi sem menn hafa öðlast fyrir gildistöku reglugerðarinnar, sbr. 81. og 82. gr.

Við 14. gr.

Greinin svarar til þeirra ákvæða umferðarlaganna er heimila að stjórna vélknúnu ökutæki án ökuskírteinis.

Við 15. - 20. gr.

Hér eru tilgreind aldursskilyrði vegna einstakra réttindaflokka.
Skv. 15. gr. er almennt aldursskilyrði á bifhjól 17 ár. Bifhjólum er í 6. gr. skipt í lítil bifhjól og stjór bifhjól. Rétt til að stjórna stóru bifhjóli geta menn öðlast með tvennum hætti. Annars vegar með a.m.k. tveggja ára reynslu af að stjórna litlu bifhjóli. Hér er byggt á reynslu þannig að tveggja ára gildistími einn sér veitir ekki viðbótarréttindin. Hins vegar með verklegu prófi á stóru bifhjóli innan tveggja ára frestsins en að fullnuðum 21 árs aldri eða með bifhjólaprófi að fullnuðum 21 árs aldri þar sem verklega prófið er tekið á stóru bifhjóli.
Skv. 17. gr. verða aldursskilyrði til að öðlast réttindi til að stjórna vörubifreið 18 ár. Sama aldursmark gildir um réttindi til að stjórna fólksbifreið/sendibifreið með stórum eftirvagni.
Skv. 21. gr. er aldursskilyrði fyrir hópbifreið 21 ár.
Réttindi fyrir flokkana C og D má einungis veita þeim sem hefur öðlast réttindi fyrir flokk B. Réttindi fyrir flokkana BE og CE má einungis veita þeim sem hefur réttindi fyrir flokk B, sbr. 17. gr.
Réttindi fyrir flokk DE má einungis veita þeim sem hefur réttindi fyrir flokk D, sbr. 18. gr.
Aldursskilyrði til farþegaflutninga í atvinnuskyni er óbreytt, 20 ár, sbr. 19. gr. Sérstakt ökupróf þarf til þessara réttinda, fyrir hvorn flokk um sig, B og D.
Samkvæmt 4. mgr. 19. gr. er heimilt að synja um útgáfu á ökuskírteini til farþegaflutninga í atvinnuskyni ef ákvæði 2. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga eiga við. Í þessu sambandi er nauðsynlegt að taka tillit til allra aðstæðna hlutaðeigandi, svo sem eðlis brots, hversu alvarlegt brotið var og hvernig það var framið, hverjar eru persónulegar aðstæður dómþolans og hve langt er frá því brot var framið. Taka ber tillit til þess hvort breytingar hafa orðið á hátterni hlutaðeigandi og hvort starfsheimild sé líkleg til að fela í sér misnotkun í starfinu. Ákvörðun ber að taka á grundvelli heildarmats allra aðstæðna. Synjun um útgáfu réttinda til farþegaflutninga í atvinnuskyni af þessum ástæðum verður borin undir dómstóla.

Um 21. og 22. gr.

Í 21. gr. eru almenn ákvæði um heilbrigði, andleg og líkamleg, en nánari ákvæði um það efni koma fram í II. viðauka. Þá er gert ráð fyrir að settar verði í samráði við landlækni leiðbeinandi reglur um meðferð mála í sambandi við ökuskírteini þar sem fram koma upplýsingar um heilbrigði sem krefjast læknisfræðilegra yfirlýsinga, umsagna eða mats.
Í 22. gr. vikið að læknisvottorði sem rita skal á eyðublað sem gert er eftir fyrirmælum landlæknis. Miðað er við að heimilislæknir gefi út læknisvottorð, t.d. heilsugæslulæknir eða annar læknir sem er kunnugur þeim sem vottorð er gefið út fyrir.

Um 23. - 25. gr.

Hér er kveðið á um könnun lögreglustjóra á umsókn um ökuskírteini, hvort skírteini megi gefa út eða það skuli skilyrt á einhvern hátt. Könnunin nær til þeirra gagna sem umsækjandi leggur fram en lögreglustjóri getur auk þess krafist frekari gagna, svo sem vottorða sérfræðilækna. Þá getur hann krafist þess að umsækjandi gangist undir hæfnisathugun, sbr. 45. gr.
Skv. 24. gr. aflar lögreglustjóri sjálfur upplýsinga úr skrám lögreglu eða ákæruvalds. Eftir atvikum fer hvort þær upplýsingar eigi að vera skriflegar. Jafnframt metur lögreglustjóri hvort umsækjandi fullnægir skilyrðum til að öðlast þau ökuréttindi sem sótt er um, og hvort þau skuli á einhvern hátt skilyrt. Niðurstöðu þessara athugana og mats færir lögreglustjóri á umsóknareyðublaðið. Ef skilyrði eru fyrir hendi og það á við skal umsækjanda vísað í ökupróf. Fær umsækjandi umsóknareyðublaðið þá afhent enda skal hann afla áritunar ökukennara um ökukennslu áður en skráð verður í ökupróf.

Um 26. - 31. gr.

Ökunám skal fara fram hjá ökukennara sem hefur löggildingu fyrir viðkomandi réttindaflokk; kennsla fyrir flokk BE skal skal þó fara fram hjá ökukennara sem hefur löggildingu fyrir flokkana C, D og E, sbr. 1. og 2. mgr. 26. gr.
Kennsla skal fara fram í samræmi við námskrár um ökunám sem Umferðarráð setur, að höfðu samráði við Ökukennarafélag Íslands, og staðfestar skulu af dómsmálaráðherra fyrir hvern réttindaflokk. Fræðilegur hluti ökunáms skal að jafnaði fara fram í ökuskóla. Sjá 3. og 4. mgr. 26. gr.
Í 27. gr. eru ákvæði um að kennsla fyrir viðbótarflokka megi að jafnaði ekki hefjast fyrr en umsækjandi hefur öðlast tiltekin grunnréttindi.
Í 29. gr. eru ný ákvæði um ökukennslu á bifhjóli. Samkvæmt því má ökukennari kenna mest tveimur nemendum í senn. Þá eru nánari ákvæði um hvernig kennarinn skal fylgjast með akstri nemendanna. Þessar takmarkanir gilda þó ekki ef kennslan fer fram á svæði þar sem ekki er önnur umferð og ökukennarinn getur haft stöðugt eftirlit með nemanda og veitt honum nauðsynlegar leiðbeiningar.
Um æfingaakstur með leiðbeinanda eru nánari ákvæði í IV. viðauka, sbr. 30. gr.
Í 31. gr. eru nýmæli um æfingaakstur á léttu bifhjóli og dráttarvél, sbr. og IV. viðauka. Heimild til að æfa slíkan akstur án ökukennara er háð leyfi lögreglustjóra. Æfingaleyfi á létt bifhjól er bundið því skilyrði að nemandi hafi lokið fræðilegu námi og fengið nauðsynlega þjálfun í akstri hjá ökukennara.

Um 32. - 41. gr.

Í greinum þessum eru ákvæði um ökupróf.
Ökupróf skiptist að jafnaði í tvo hluta, sbr. 32. gr., fræðilegt próf og verklegt próf (aksturspróf). Próf fyrir stórt bifhjól og próf fyrir flokk BE er þó eingöngu verklegt. Við aksturspróf skal umsækjandi, ef það á við, hafa þegar útgefið ökuskírteini meðferðis. Niðurstöðu prófs skal tilkynna umsækjanda um leið og prófið hefur verið dæmt.
Um ökupróf eru nánari ákvæði í V. viðauka, sbr. 34. gr. Almenna reglan er sú að ökupróf er fyrir tiltekinn réttindaflokk. Próf fyrir flokk D og próf til farþegaflutninga í atvinnuskyni fyrir þann flokk geta þó farið fram samtímis.
Að loknu verklegu prófi tilkynnir prófdómari lögreglustjóra niðurstöðu prófs, sbr. V. viðauka, 9. tölulið. Niðurstöðuna skal færa á umsóknareyðublaðið. Komist prófdómari að því að andlegri eða líkamlegri hreysti próftaka sé að einhverju leyti áfátt skal prófdómari geta þess í tilkynningu til lögreglustjóra, hvort sem próftaki stóðst próf eða ekki.
Í 35. gr. eru ákvæði um heimild til að notast við túlk ef umsækjandi getur ekki talað eða skilið íslensku eða erlent tungumál sem prófdómari veldur nægilega vel. Ekki má notast við túlk við próf til farþegaflutninga í atvinnuskyni. Í V. viðauka, 2. tölulið, eru ákvæði um aðstoð við þann sem á erfitt með að tjá sig.
Forsenda þess að nemandi megi gangast undir ökupróf, fræðilegt próf og verklegt próf, er að hann hafi hlotið fullnægjandi ökukennslu, sbr. 36. og 39. gr., í samræmi við námskrá fyrir hlutaðeigandi flokk, sbr. 38. gr. Ökukennari skal staðfesta þetta skriflega með áritun á umsóknareyðublaðið. Ef fleiri en einn ökukennari hafa kennt nemanda, eða hluti náms hefur farið fram í ökuskóla, skal sá sem síðast kenndi honum staðfesta þetta.
Í 37. gr. eru ákvæði um hvenær fræðilegt próf má fyrst fara fram og í 40. gr. hvenær verklegt próf má fyrst fara fram. Verklegt próf fyrir flokkana A, B, BE, M og T má ekki fara fram fyrr en einni viku áður en umsækjandi hefur náð þeim aldri sem er skilyrði fyrir útgáfu þess ökuskírteinis sem óskað er eftir. Ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi má prófið þó fara fram allt að tveimur vikum áður en aldrinum er náð. Svo mundi t.d. vera á stöðum þar sem langt líður milli prófa eða ef próftaki er á förum úr landi.
Í 41. gr. er sérstakt ákvæði þess efnis að ef umsækjandi sem sækist eftir viðbótarökuréttindum stenst ekki verklegt próf vegna vanþekkingar á umferðarreglum eða slakrar aksturshæfni skuli lögreglustjóri ákveða hvort umsækjandi skuli gangast undir hæfnispróf til að mega halda ökuskírteini sem hann þegar kann að hafa öðlast fyrir aðra flokka.

Um 42. - 44. gr.

Hér eru ákvæði um hæfnispróf. Tilgangur hæfnisprófs er að kanna hvort sá sem þegar hefur ökuréttindi fullnægir enn skilyrðum til að halda þeim.
Að hæfnisprófi er vikið á ýmsum stöðum; í sambandi við próf til aukinna ökuréttinda í 41. gr., við útgáfu fullnaðarskírteinis og endurnýjun ökuskírteinis í 56. gr., afturköllun ökuréttinda í 60. og 62. gr., endurveitingu ökuréttinda í 67. og 68. gr., útgáfu íslensks ökuskírteinis í stað erlends ökuskírteinis í 76. - 78. gr. og útgáfu bráðabirgðaakstursheimildar í 4. mgr. 51. gr.
Hæfnispróf fer að jafnaði fram samkvæmt sömu reglum og ökupróf fyrir flokk B, þ.e. fræðilegt próf og verklegt próf á fólksbifreið, sbr. 42. gr. Samkvæmt 44. gr. má þó ákveða að prófið fari fram eftir reglum um próf fyrir aðra flokka. Ef hæfnispróf fer fram vegna vafa um hvort hlutaðeigandi hefur enn næga aksturshæfni eða nauðsynlega þekkingu á umferðarlöggjöf eða vankunnáttu skal ökuskírteini haft meðferðis og það afhent prófdómara ef skírteinishafi stenst ekki prófið.

Um 45. gr.

Hér eru ákvæði um hæfnisathugun sem lögreglustjóri getur krafist að umsækjandi gangist undir svo að ákveða megi hvort gefa megi út ökuskírteini eða það eftir atvikum skuli gefið út með sérstökum skilyrðum, sbr. ákvæði í 23. gr.
Tilefni hæfnisathugunar getur verið upplýsingar sem fram koma í læknisvottorði, svo sem til að kanna hvort áskilja eigi aðlögun tiltekins búnaðar í ökutæki, en einnig til að kanna hvort um er að ræða hrörnun vegna aldurs eða sjúkdóms sem hefur slík áhrif að varði hæfni til að stjórna ökutæki. Hæfnisathugun er að jafnaði ekki fræðilegs eðlis, sbr. nánar V. viðauka, 8. tölulið.
Til hæfnisathugunar getur einnig komið við útgáfu aukinna ökuréttinda skv. 54. gr., útgáfu fullnaðarskírteinis og endurnýjun ökuskírteinis skv. 57. gr., ákvörðun um afturköllun ökuréttinda skv. 63. gr., endurveitingu ökuréttinda skv. 66. gr. og við útgáfu íslensks ökuskírteinis í stað erlends skírteinis skv. 75. gr.

Um 46. og 47. gr.

Í 46. gr. kemur fram að það er lögreglustjóri sem tekur endanlega ákvörðun um útgáfu ökuskírteinis. Hann metur niðurstöðu prófs, sbr. V. viðauki, 9. töluliður. Ef óeðlilegur tími hefur liðið frá því könnun skv. 24. gr. fór fram getur verið tilefni til að kanna að nýju heilbrigðisskilyrði, m.a með hliðsjón af 3. mgr. 22. gr. um aldur læknisvottorðs, svo og reglusemi og áreiðanleik umsækjanda.
Lögreglustjóri ákveður hvort réttindi skuli takmarka eða skilyrða, sbr. 2. mgr. 47. gr. Skilyrði og takmarkanir skal færa á ökuskírteinið í formi tákntalna í samræmi við ákvæði VII. viðauka. Ríkislögreglustjóri er hins vegar hinn formlegi útgefandi ökuskírteina, sbr. 2. mgr. 46. gr.

Um 48. og 49. gr.

Almenn ákvæði um gildistíma ökuskírteina eru í 48. gr.
Ákvæði um bráðabirgðaskírteini til tveggja ára og fullnaðarskírteini til fullra 70 ára hlutaðeigandi eru óbreytt, sbr. 1. - 3. mgr.
Ökuskírteini fyrir flokkana C, CE, D og DE skulu vera fullnaðarskírteini og til 10 ára, jafnvel þótt tveggja ára tíminn sé ekki liðinn. Ökuskírteini fyrir þessa flokka skulu þó gefin út til 70 ára aldurs ef hlutaðeigandi hefur slík réttindi útgefin fyrir gildistöku reglugerðarinnar og þau réttindi eru að öðru leyti ekki tímabundin, sbr. 4. mgr. Svo er um réttindi fyrir flokkana C og D, að fullu eða að hluta, þ.e. C1 og D1, sem byggjast á eldri bifreiðastjóraréttindum, sbr. 81. gr. og VI. viðauka. Ef hlutaðeigandi hefur réttindi fyrir flokkana C1 eða D1 til sjötugs en sækir um full réttindi fyrir flokkana C eða D breytist gildistími nýju réttindaflokkanna í tíu ár.
Ökuskírteini til farþegaflutninga í atvinnuskyni skal gefa út til tíu ára, sbr. 5. mgr.
Þótt tiltekin réttindi verði þannig gefin út til 10 ára munu önnur réttindi (A, B, BE) halda gildi sínu til fullnaðs 70 ára aldurs, sbr. 8. mgr. Ökuskírteinið er í gildi áfram varðandi suma réttindaflokka þótt aðrir séu útrunnir.
Óbreytt eru ákvæði um gildstíma ökuskírteina sem gefin eru út til þeirra sem náð hafa 65 ára aldri, sbr. 6. og 7. mgr., og ökuskírteina fyrir dráttarvél og létt bifhjól, sbr. 9. mgr.

Um 50. gr.

Hér er fjallað um útgáfu samrits þegar ökuskírteini hefur glatast eða það skemmst eða slitnað svo að áritanir, númer, stimplar, ljósmynd eða þess háttar verður ekki staðreynt þegar í stað, eða skírteini hefur að öðru leyti skemmst. Ef ökuskírteini hefur glatast skal umsækjandi undirrita yfirlýsingu um það efni. Skv. 58. gr. getur lögreglustjóri afturkallað ökuskírteini sem er skemmt eða slitið.
Ef samrit er gefið út í stað ökuskírteinis sem gefið er út í ríki sem er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. 3. mgr., skal það tilkynnt ríkislögreglustjóra og, ef því er að skipta, honum sent hið skemmda ökuskírteini.
Samrit sem gefið er út í stað ökuskírteinis sem hefur glatast skal bera áritun þess efnis, tákntöluna 71 ásamt númeri eldra ökuskírteinis, sbr. VII. viðauka.

Um 51. gr.

Hér er um nýmæli að ræða. Bráðabirgðaakstursheimild má gefa út, að jafnaði til ekki lengri tíma en eins mánaðar, við tilteknar aðstæður. Heimildin staðfestir að hlutaðeigandi hafi gild ökuréttindi en ökuskírteini er ekki tilbúið. Á þetta t.d. við þegar ökuskírteini hefur glatast eða skemmst eða að afloknu prófi, hvort heldur við fyrsta próf eða við aukin ökuréttindi. Akstursheimildin er án ljósmyndar og því er áskilið að handhafinn skuli hafa viðurkennt skilríki meðferðis.

Um 52. gr.

Gert er ráð fyrir að auk lögreglustjóra muni Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) gefa út alþjóðleg ökuskírteini. FÍB lætur í té eyðublöð undir skírteini þessi eins og verið hefur.

Um 53. - 54. gr.

Með auknum ökuréttindum er átt við allar viðbætur við gildandi ökuskírteini sem skírteinishafi sækir um.
Skv. 3. mgr. 53. gr. skal umsókn um að ökuskírteini gildi einnig fyrir flokkana C, CE, D eða DE eða til farþegaflutninga í atvinnuskyni fyrir flokkana B eða D fylgja læknisvottorð. Þessa er þó ekki þörf ef umsækjandi hefur áður fengið ökuskírteini fyrir nefnda flokka eða til farþegaflutninga í atvinnuskyni. Sá sem sækir um ökuskírteini til farþegaflutninga í atvinnuskyni fyrsta sinni þarf þannig að leggja fram læknisvottorð þótt hann hafi fengið ökuskírteini fyrir flokkinn C.

Um 55. - 57. gr.

Hér eru ákvæði um umsókn um fullnaðarskírteini eða endurnýjun ökuskírteinis.
Í 1. mgr. 56. gr. er kveðið á um heimild til að áskilja hæfnispróf áður en fullnaðarskírteini verður gefið út í stað bráðabirgðaskírteinis ef hlutaðeigandi hefur sýnt af sér vankunnáttu í akstri, vanhæfni eða vítaverða aksturshætti.
Í 2. mgr. segir að ef sótt er um útgáfu fullnaðarskírteinis eða endurnýjun ökuskírteinis meira en tveimur árum frá því ökuskírteini féll úr gildi skuli umsækjandi standast hæfnispróf. Hér er tíminn lengdur úr einu ári í tvö. Miðað er við gildistíma sjálfs ökuskírteinisins en ekki einstaka réttindaflokka. Lögreglustjóri getur ákveðið að ekki þurfi að gangast undir hæfnispróf.

Um 58. - 63. gr.

Hér eru ákvæði um afturköllun ökuréttinda og ökuskírteinis og um hæfnispróf.
Skv. 58. gr. getur lögreglustjóri afturkallað ökuréttindi ef skilyrðum til að öðlast ökuskírteini er ekki lengur fullnægt. Réttur til farþegaflutninga í atvinnuskyni lýtur ákvæðum 2. mgr. 68. gr. hegningarlaganna og getur lögreglustjóri því ekki afturkallað þann rétt einan sér. Til þess þarf hann að afturkalla hin almennu ökuréttindi (B eða D). Ef ökuskírteini er skemmt eða slitið getur lögreglustjóri afturkallað það.
Þegar ákveðið hefur verið að afturkalla ökuréttindi eða ökuréttindi hafa sætt sviptingu skal ökuskírteinið afhent lögreglu, sbr. 59. gr. Sama er ef takmarka á ökuréttindi. Ökuskírteini sem þannig er afhent lögreglu skal eyðilagt enda verður nýtt ökuskírteini gefið út þegar umsækjandi fullnægir skilyrðum til að öðlast ökuréttindi að nýju, sbr. 66. gr. Ef ökuskírteinið hafði verið gefið út í stað erlends ökuskírteinis skal tilkynning send ríkislögreglustjóra.
Skilyrði til að öðlast ökuskírteini sem ekki er lengur fullnægt geta varðað vanþekkingu eða vanhæfni, sbr. 62. gr., og heilbrigði skírteinishafa, sbr. 63. gr.
Ef rökstuddur vafi er um hvort skírteinishafi hafi enn næga aksturshæfni, nauðsynlega þekkingu á umferðarlöggjöf eða skilning á tillitssemi við aðra vegfarendur getur lögreglustjóri áskilið hæfnispróf. Ítrekuð brot á umferðarreglum fela ein sér ekki í sér heimild til að áskilja hæfnispróf. Ef skírteinishafi neitar að gangast undir hæfnispróf getur lögreglustjóri afturkallað ökuréttindi þegar í stað, sbr. 4. mgr. 60. gr. Ef skírteinishafi stenst ekki hæfnispróf í fyrstu tilraun skal lögreglustjóri afturkalla ökuréttindin, sbr. 5. mgr. 60. gr.
Ef talið er að skírteinishafi fullnægi ekki heilbrigðisskilyrðum getur lögreglustjóri ákveðið að hann skuli gangast undir rannsóknir eða athuganir, sem nauðsynlegar eru til að taka um það ákvörðun, þ. á m. að leggja fram læknisvottorð, eftir atvikum frá sérfræðingi, sbr. 1. mgr. 63. gr. Undir þetta fellur m.a. hæfnisathugun. Ákvörðun um afturköllun ökuréttinda, allra eða að hluta, eftir atvikum með takmörkunum, tekur lögreglustjóri á grundvelli rannsóknanna eða athugunanna. Ef ökuréttindi eru takmörkuð verður gefið út nýtt ökuskírteini, sbr. 3. mgr. 63. gr.
Ef ökuréttindi hafa verið afturkölluð og skírteinishafi vill fá réttindi á ný fer um það eftir reglum um endurveitingu í VIII. kafla.

Um 64. - 68. gr.

Ef ökuréttindi hafa verið afturkölluð eða sætt sviptingu skal sótt um endurveitingu ökuréttinda.
Ef afturköllunin var vegna læknisfræðilegra ástæðna eða ástæðna er varða reglusemi, sbr. 3. mgr. 64. gr., skal leggja fram læknisvottorð. Að öðru leyti þarf því aðeins að leggja fram læknisvottorð að fyrra læknisvottorð gefi tilefni til þess.
Ef afturköllunin var vegna þess að hlutaðeigandi stóðst ekki hæfnispróf eða próf fór ekki fram skal umsækjandi standast nýtt hæfnispróf, sbr. 1. mgr. 67. gr.
Ef afturköllun hefur varað þrjú ár eða lengur vegna notkunar ávana- og fíkniefna eða annarra sljóvgandi efna, vegna ónógrar reglusemi eða vegna upplýsinga um heilbrigði þarf umsækjandi að jafnaði að standast hæfnispróf, sbr. 3. mgr. 67. gr.
Endurveiting sviptra ökuréttinda til lengri tíma en eins árs er háð því að umsækjandi standist hæfnispróf, sbr. 1. mgr. 68. gr. og 2. mgr. 53. gr. umferðarlaga. Ef sviptingartími er skemmri er ekki áskilnaður um próf.
Ef umsækjandi fullnægir skilyrðum til að öðlast ökuréttindi að nýju skal gefa út nýtt ökuskírteini, sbr. 66. gr.

Um 69. - 74. gr.

Hér er fjallað um heimild til að nota erlend ökuskírteini hér á landi.
Skv. 69. gr. gilda ákvæði reglugerðarinnar eftir því sem við á um erlend ökuskírteini. Réttindi samkvæmt erlendu ökuskírteini má m.a. afturkalla. Ef ökuréttindi samkvæmt erlendu ökuskírteini eru afturkölluð eða réttindin hafa sætt sviptingu skal ökuskírteinið sent ríkislögreglustjóra ásamt upplýsingum um ástæðu afturköllunarinnar/sviptingarinnar. Ef um alþjóðlegt ökuskírteini er að ræða skal skírteinið áritað um afturköllunina/sviptinguna og tilkynning send ríkislögreglustjóra. Skírteinishafinn fær hins vegar að halda skírteininu.
Erlent ökuskírteini veitir ekki heimild til að stjórna bifreið eða bifhjóli nema hlutaðeigandi hafi náð 17 ára aldri, sbr. 1. mgr. 70. gr. Farþegaflutninga í atvinnuskyni má ekki stunda á grundvelli erlends ökuskírteinis og ökuskírteini til slíkra flutninga má ekki gefa út á grundvelli erlends ökuskírteinis, sbr. 2. mgr. 70. gr.
Í 71. gr. er kveðið á um gildi erlendra ökuskírteina þeirra sem dvelja hér á landi um stundarsakir.
Í 72. og 73. gr. er kveðið á um gildi erlendra ökuskírteina þeirra sem hafa fasta búsetu hér á landi. Meginreglan er að sá sem hefur hér fasta búsetu skal hafa íslenskt ökuskírteini. Ökuskírteini sem gefið er út í EES ríki eða í Færeyjum veitir þó rétt á gildistíma ökuskírteinisins, þó ekki lengur en til 70 ára aldurs handhafans. Ökuskírteini sem gefið er út í ríkjum utan EES eða á grundvelli slíks ökuskírteinis veitir rétt í allt að einn mánuð eftir að skilyrðum um fasta búsetu er fullnægt.
Erlent ökuskírteini veitir handhafa þess rétt til að stjórna sömu ökutækjum og í útgáfulandinu, sbr. 2. mgr. 71. gr. og 73. gr. Hið erlenda ökuskírteini þarf að sjálfsögðu að vera í gildi, sbr. 74. gr.

Um 75. - 79. gr.

Hér er fjallað um skipti á erlendu ökuskírteini í samsvarandi íslenskt ökuskírteini.
Gerður er greinarmunur á ökuskírteinum sem gefin eru út í EES ríki og í Færeyjum annars vegar og ökuskírteinum sem gefin eru út í ríkjum utan EES og ökuskírteinum sem gefin eru út á grundvelli slíks ökuskírteinis hins vegar.
Reglur um útgáfu ökuskírteinis á grundvelli ökuskírteinis sem gefið er út í EES ríki eða í Færeyjum eru einfaldari. Handhafi slíks ökuskírteinis getur fengið því skipt í íslenskt ökuskírteini án frekari könnunar, sbr. 1. mgr. 77. gr.
Við skipti á ökuskírteini sem gefið er út í ríki utan EES eða á grundvelli slíks ökuskírteinis er krafist heilbrigðisyfirlýsingar/læknisvottorðs, sbr. 3. mgr. 75. gr., og hæfnisprófs, sbr. 2. mgr. 76. gr. Á nýja skírteininu skal vera áritun um útgáfulandið, svo og sérhver síðari endurnýjun eða skipti á ökuskírteininu. Áritunin kemur fram með tákntölunni 70, sbr. VII. viðauka. Útgáfulandið skal tilgreint með skammstöfun sem notuð er á þjóðernismerki ökutækja samkvæmt alþjóðasamningum um umferð. Upplýsingar um þessar skammstafanir eru á fylgiskjali nr. 4.
Falla má frá kröfu um hæfnispróf við útgáfu ökuskírteinis í stað erlends ökuskírteinis ef telja má að útgáfa ökuskírteina í hlutaðeigandi ríki lúti ekki verulega vægari skilyrðum en hér á landi, sbr. 1. mgr. 78. gr. Má gera ráð fyrir að ráðuneytið gefi út leiðbeiningar í þessu skyni.
Í 2. mgr. 78. gr. eru ákvæði sem heimila lögreglustjóra að áskilja hæfnispróf í tengslum við skipti á erlendu ökuskírteini ef skírteinishafi hefur áður gengist undir ökupróf hér á landi sem hann stóðst ekki eða ef hann hefur áður sætt afturköllun eða sviptingu hér.
Skilyrði fyrir útgáfu ökuskírteinis í stað erlends ökuskírteinis er skv. 1. mgr. 76. gr. að erlenda ökuskírteinið sé í gildi og að skírteinishafi fullnægi þeim skilyrðum sem gilda um öflun samsvarandi íslensks ökuskírteinis. Ef hið erlenda ökuskírteini er ekki í gildi og það stafar eingöngu af því að gildistíminn er liðinn er skv. 2. mgr. 76. gr. heimilt að gefa út ökuskírteini á grundvelli hæfnisprófs.
Nýja ökuskírteinið skal veita handhafa þess samsvarandi réttindi og hann hafði samkvæmt erlenda skírteininu. Um gildi réttindaflokka samkvæmt ökuskírteinum sem gefin voru út í ríkjum Evrópusambandsins fyrir 1. júlí 1996 vísast til fylgiskjals nr. 5.
Skv. 1. mgr. 79. gr. getur sá sem hefur fasta búsetu hér á landi og öðlast hefur ökuskírteini erlendis fengið því skipt enda hafi dvölin staðið lengur en sex mánuði. Þessi takmörkun gildir þó ekki um færeysk ökuskírteini eða ökuskírteini útgefin í EES ríki.
Þegar sótt er um útgáfu íslensks ökuskírteinis í stað erlends ökuskírteinis skal hið erlenda ökuskírteini afhent lögreglustjóra, sbr. 2. mgr. 75. gr. Hið erlenda ökuskírteini skal framsent ríkislögreglustjóra.

Um 80. - 82. gr.

Í 80. gr. er ákvæði um áframhaldandi gildi fullnaðarskírteina sem gefin höfðu verið út fyrir 1. mars 1988.
Í 81. gr. eru ákvæði um að þeir sem þegar hafa öðlast tiltekin ökuréttindi haldi þeim rétti, enda fullnægi þeir almennum skilyrðum til þess. Er þetta tilgreint nánar miðað við hvernig réttindaflokkar hafa þróast samkvæmt umferðarlögunum. Réttindum þessum halda menn að óbreyttum ökuskírteinum meðan þau halda gildi sínu.
Með útgáfu nýs ökuskírteinis í stað eldra ökuskírteinis verða ökuréttindin færð í viðeigandi réttindaflokk, sbr. 82. gr., svo sem nánar greinir í VI. viðauka, og gildistíminn ákveðinn í samræmi við ákvæði IV. kafla. Handhafi gilds ökuskírteinis af eldri gerð getur fengið útgefið nýtt ökuskírteini og gilda þá ákvæði 1. og 2. mgr. 50. gr. um samrit eftir því sem við á.
Að því leyti sem réttindin verða ekki færð í nýjan réttindaflokk leiðir af greininni að skírteinishafi heldur þeim réttindum enda fullnægi hann almennum skilyrðum til þess. Með því að þessi réttindi verða ekki lesin af ökuskírteininu getur skírteinishafi ekki borið þau fyrir sig erlendis.
Af áskilnaði um að skírteinishafi skuli fullnægja almennum skilyrðum til að halda tilteknum réttindum leiðir að lögreglustjóri getur beitt ákvæðum um afturköllun ökuréttinda ef hann telur skilyrðum til að öðlast ökuskírteini fyrir einstaka flokka ekki lengur fullnægt.

Um 83. gr.

Greinin byggir á almennum reglum um málskot til æðra stjórnvalds. Í 1. mgr. er sérákvæði um sérstaka nefnd er starfi á vegum Umferðarráðs sem ætlað er að fjalla um ágreining um niðurstöðu einstakra prófa áður en ákvörðun verður skotið til dómsmálaráðuneytisins.

Um 84. - 87. gr.

Gjöld fyrir próf eru ákveðin þannig að greiða skal sérstakt gjald fyrir hvert próf, fræðilegt próf og verklegt próf, sbr. 84. gr.
Ef próftaki kemur ekki til prófs á tilsettum tíma án þess að boða forföll í tíma eða próftaki stenst ekki próf skal greiða nýtt prófgjald þegar skráð er í próf að nýju nema forföll stafi af staðfestum veikindum umsækjandans eða ökukennarans, sbr. 85. gr.
Í 86. gr. eru ákvæði um gjöld fyrir einstök ökuskírteini og í 87. gr. eru ákvæði um hvenær gjöld skuli greidd.

Um 88. gr.

Ríkislögreglustjóri skal halda skrá um útgefin ökuskírteini. Annars vegar þarf að halda heildarskrá um ökuskírteini sem í gildi eru hverju sinni. Þegar ökuréttindi eru afturkölluð eða þau sæta sviptingu falla viðkomandi ökuskírteinin af þeirri skrá. Upplýsingar um það og ýmislegt annað, svo sem upplýsingar um fyrri ökuskírteini o.fl., þarf hins vegar einnig að halda. Nánari reglur þarf að setja um ökuskírteinaskrá, þ. á m. um hvernig hátta skuli aðgangi að skránni og einstökum hlutum hennar.

Um 89. gr.

Reglugerðin er fyrst og fremst sett á grundvelli umferðarlaganna en einnig með hliðsjón af tilskipunum Evrópusambandsins um ökuskírteini.
Um er að ræða tilskipun 91/439/EBE sem er megintilskipunin. Þar eru reglurnar um samræmt form ökuskírteina, um gagnkvæma viðurkenningu ökuskírteina, ökuréttindaflokka, aldursskilyrði, reglur um hæfni og þekkingu, þ. á m. um próf og kennslutæki, og um líkamlegt og andlegt hæfi ökumanna. Auk þess er tilskipun 96/47/EB með reglum um plastkortin og tilskipun 97/26/EB með reglum um tákntölurnar.
Fyrstu tilskipanirnar tvær hafa þegar verið felldar inn í reglur EES samningsins. Síðasta tilskipunin hefur enn ekki verið tekin inn í reglukerfi EES en þess er að vænta að svo verði síðar á árinu. Tilskipanirnar fylgja sem fylgiskjöl nr. 1 - 3.
Með gildistöku reglugerðarinnar fellur reglugerð um ökukennslu, próf ökumanna o.fl. frá 1983 úr gildi að undanskildum ákvæðum um ökukennara og ökuskóla. Gert er ráð fyrir að gefin verði út sérstök reglugerð um löggildingu ökukennara og ökuskóla.

Um ákvæði til bráðabirgða

Hér eru fyrst tvö ákvæði er varða próf sem hafin hafa verið eða þeim lokið fyrir gildistöku reglugerðarinnar.
Annars vegar eru ökupróf fyrir flokkana A, B, M og T sem hafist hafa fyrir gildistöku reglugerðarinnar. Um framhald þeirra fer eftir eldri reglum. Verklegt próf á bifhjól skal þó fara fram samkvæmt nýjum ákvæðum um afl bifhjóla og um réttindi fer samkvæmt nýjum reglum.
Hins vegar eru próf vegna aukinna ökuréttinda sem lokið hefur verið við fyrir gildistöku reglugerðarinnar en próftaki fullnægir þá ekki aldursskilyrði til að fá útgefið ökuskírteini er veitir þau réttindi. Hann skal þá fá útgefin ökuréttindi í samræmi við ákvæði 81. gr.
Þá er ákvæði um gildi námskráa sem nú er starfað eftir. Þær halda gildi sínu, þar til nýjar námskrár hafa verið settar, með þeim breytingum sem leiðir af ákvæðum reglugerðarinnar.
Loks er ákvæði sem tekur fram að ökukennarar sem nú hafa löggildingu til kennslu í akstri bifreiðar megi annast ökukennslu fyrir þá flokka bifreiða sem ökuskírteinið heimilar þeim að stjórna. Er þetta tekið fram til öryggis með hliðsjón af 1. mgr. 26. gr. en löggildingar ökukennara ná til að "kenna bifreiðaakstur fyrir almennt bifreiðastjórapróf".

Um I. viðauka

Í viðaukanum eru ákvæði um gerð ökuskírteinisins og efni þess.
Á framhlið skírteinisins er nafn skírteinishafa fært í tvær línur. Í efri línu sem auðkennd er með tölunni 2 kemur eiginnafn (eiginnöfn) og síðan millinafn, ef skírteinishafi ber slíkt nafn. Í neðri línu sem auðkennd er með tölunni 1 kemur kenninafn (t.d. föðurnafn eða ættarnafn). Miða skal við að nafn skírteinishafa sé fært á ökuskírteini eins og það er í þjóðskrá.
Á framhlið ökuskírteinisins skal færa númer ökuskírteinis. Hvert ökuskírteini skal fá sitt númer.
Á framhlið skal og færa upplýsingar um réttindaflokka. Samræmdir réttindaflokkarnir eru: A, B, C, D, BE, CE og DE. Ef skírteinishafi hefur öðlast rétt fyrir flokk BE, CE eða DE þarf ekki að rita flokkana B, C eða D á framhliðina. Réttindaflokkar sem byggja á undirflokkum eru ritaðir með sama hætti en undirflokkarnir sýndir á bakhlið með viðeigandi tákntölu, sbr. VII. viðauka. Innlendir réttindaflokkar eru M og T og skulu þeir ritaðir með öðru letri en samræmdu flokkarnir. Réttindi til farþegaflutninga í atvinnuskyni eru einungis skráð á bakhlið með sérstökum tákntölum.
Á bakhlið ökuskírteinisins eru allir réttindaflokkar tilgreindir. Þar skal rita upphafsdag hvers réttindaflokks í dálk 10 og lokadag í dálk 11. Tvær línur eru fyrir bifhjól, sú efri er fyrir lítið bifhjól og sú neðri fyrir stórt bifhjól. Öll eldri réttindi skal færa í neðri línu. Í efri línu skal færa réttindi samkvæmt prófi sem tekið er fyrir 21 árs aldur. Ef viðbótar verklegt próf er tekið eftir að 21 árs aldri er náð eru þau réttindi færð í neðri línuna, svo og réttindi sem byggjast á ökuprófi sem tekið er á stóru bifhjóli eftir að 21 árs aldri er náð. Réttur skv. a-lið 2. mgr. 15. gr. til að stjórna stóru bifhjóli byggir á tveggja ára reynslu sem ökumaður lítils bifhjóls og verður ekki færður sérstaklega í neðri línuna.
Á bakhlið skal einnig rita viðbótarupplýsingar og eftir atvikum skilyrði eða takmarkanir. Upplýsingar um þessi atriði eru tilgreindar með tákntölum og færðar í dálk 12, annað hvort aftan við viðkomandi réttindaflokk eða í dálkinn neðst á bakhliðinni. Upplýsingar um tákntölurnar eru í VII. viðauka.
Þar sem viðbótarupplýsingar, skilyrði og takmarkanir er fært á ökuskírteinið með tákntölum er nauðsynlegt að hverjum og einum skírteinishafa sé kynnt hvað tákntölur á ökuskírteini hans merkja. Skírteinishafa er ætlað að kunna skil á þeim og honum ber að fylgja þeim skilmálum eða takmörkunum sem um ræðir (t.d. takmarkanir að því er varðar réttindaflokkana C1 og D1). Hann á líka að vita að farþegaflutningar í atvinnuskyni eru ekki heimilir nema hann hafi öðlast sérstök réttindi til þess og honum ber þá að þekkja tákntölur í því sambandi.

Um II. viðauka

Viðaukinn fjallar um lágmarkskröfur um líkamlegt og andlegt hæfi ökumanna sem vísað er til í 21. gr.
Gert er ráð fyrir að leiðbeiningar um þetta efni verði gefnar út í samráði við landlækni.

Um III. viðauka

Viðaukinn fjallar um ökutæki sem notuð eru til ökukennslu og við verklegt ökupróf.

Um IV. viðauka

Viðaukinn fjallar um námskrár og fræðilegt nám. Einnig um æfingaakstur með leiðbeinanda, þ. á m. þau skilyrði sem fullnægja þarf til að hann megi fara fram. Loks eru sérákvæði um æfingaakstur á léttu bifhjóli og dráttarvél.

Um V. viðauka

Viðaukinn fjallar um ökupróf.

Um VI. viðauka

Í viðaukanum er sýnt hvernig réttindi samkvæmt ökuskírteini sem gefið hefur verið út fyrir gildistöku reglugerðarinnar verða færð á nýtt ökuskírteini.

Um VII. viðauka

Í viðaukanum eru nánari ákvæði um viðbótarupplýsingar, skilyrði og takmarkanir sem færa skal á ökuskírteini.
Upplýsingarnar geta varðað heilbrigði skírteinishafa og ökutæki sem hann má stjórna, svo og stjórnsýslu vegna ökuskírteinisins. Þessar upplýsingar eru tilgreindar með tákntölum í dálk 12 á bakhlið ökuskírteinisins. Tákntölurnar eru annars vegar samræmdar tölur sem gilda innan EES og hins vegar innlendar tölur sem gilda einungis innan þess lands sem gefur ökuskírteinið út.
Tákntölurnar byggjast á aðalflokkum og undirflokkum. Fram kemur að sumar tákntölur (05, 44 og 90) skal nota með undirflokkum. Stundum getur verið að nota beri fleiri tákntölur en eina og eru þær þá tengdar saman með auðkenni, t.d. kommu (,), plús- (+) eða mínus- (-) merki eða skástriki (/). Þannig getur verið að nota beri tvær tákntölur eða fleiri (t.d. 01.06, 02.02), að tengja þurfi undirflokka (t.d. 20.06+90.04+90.05) eða að val sé milli tákntalna (t.d. 20.02/20.06).
Gert er ráð fyrir að fyrst um sinn verði flokkar og undirflokkar notaðir eftir því sem hentar. Að svo stöddu er þó ekki gert ráð fyrir notkun þessara flokka og undirflokka: 04, 05.02, 05.05, 05.07, 10.01, 10.05, 15.02, 15.04, 20.04, 20.05, 20.08, 25.02, 25.07, 30.03, 30.04, 40.02, 40.03, 43.06, 44.07, 55, 56, 90.01, 90.02 og 90.07.
Tákntölurnar koma fram í tilskipun 97/26/EB. Undirflokkar tákntalnanna hafa hins vegar ekki verið afgreiddir formlega en þá á að ákvarða af sérstakri nefnd í samræmi við ákvæði í tilskipuninni. Drög að ákvörðun um það efni liggja fyrir, þar sem m.a. eru upplýsingar um tákntölurnar 55 og 56 og undirflokka þeirra, sbr. fylgiskjal nr. 6.
Meginregla er að tákntölur skulu færðar aftan við viðeigandi ökuréttindaflokk. Ef dálkurinn aftan við réttindaflokkinn nægir ekki fyrir tákntölurnar skulu þær með tilvísun (*) færðar neðan við réttindaflokkana og dálkana 8 - 11. Ef tákntala varðar alla ökuréttindaflokka þá skal færa hana neðan við réttindaflokkana, svo og tákntölur vegna stjórnsýslu. Þar skal einnig færa innlendu tákntölurnar vegna farþegaflutninga í atvinnuskyni og skal þá einnig tilgreina lokadag réttinda innan sviga, t.d. 450 (20.08.2007).

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta