Hoppa yfir valmynd
1. október 1999 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Bráðabirgðaskýrsla ríkisstjórnar Íslands til Evrópunefndar um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (CPT)

BRÁÐABIRGÐASKÝRSLA

RÍKISSTJÓRNAR ÍSLANDS
TIL EVRÓPUNEFNDAR UM VARNIR GEGN PYNDINGUM OG
ÓMANNLEGRI EÐA VANVIRÐANDI MEÐFERÐ EÐA REFSINGU (CPT)



(Svör við skýrslu nefndarinnar, dags. 6. nóvember 1998, í tilefni af
heimsókn hennar til Íslands 29. mars - 6. apríl 1998).



Send nefndinni með bréfi, dags. 29. júlí 1999.


______________________



INNGANGUR.


Hér á eftir eru svör ríkisstjórnar Íslands við tillögum, athugasemdum og beiðnum um upplýsingar sem fram koma í skýrslu um heimsókn til Íslands, sem Evrópunefnd um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (CPT) gerði að aflokinni heimsókn dagana 29. mars til 6. apríl 1998.
Í skýrslu nefndarinnar eru í viðauka I samantekt um tillögur og athugasemdir nefndarinnar og óskir hennar um upplýsingar. Svörin fjalla um þau atriði sem þar eru tilgreind og í sömu röð.

Inngangsathugasemdir
Hinn 12. febrúar 1999 var skýrslan kynnt í ríkisstjórn Íslands og gerð grein fyrir helstu niðurstöðum hennar. Bent var á að mikilvægast væri að fylgja eftir þeirri framkvæmdaáætlun í fangelsismálum sem mótuð var árið 1992. Stærstu óloknu verkefnin eru bygging nýs gæsluvarðhaldsfangelsis í Reykjavík, útvegun vinnu handa föngum og virkari meðferð og endurhæfing fanganna í fangelsunum.
Umboðsmanni Alþingis var gefinn kostur á að koma með tillögur eða gera athugasemdir í tilefni af skýrslugerð íslenskra stjórnvalda vegna heimsóknar nefndarinnar og athugasemda nefndarinnar sem bárust ríkisstjórn Íslands í kjölfar heimsóknarinnar. Taldi hann ekki rétt að gera það, með tilliti til starfssviðs síns og stöðu hans, eins og hún er mörkuð í lögum nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis. Sjái hann aftur á móti ástæðu til að gera slíkar athugasemdir verða þær kunngerðar með þeim hætti sem greinir í lögum nr. 85/1997.
Að því er heilbrigðisstofnanir varðar er í sífellu unnið að þeim málaflokki og mikið samband haft við stjórnendur þeirra stofnana er veita heilbriðgisþjónustu í fangelsum. Athugasemdir nefndarinnar hafa verið mjög jákvæðar og reynt að fara eftir þeim til hins ítrasta, sumar athugasemdir bera þó nokkuð með sér, að ýmsir þættir, svo sem verkaskipting milli einstakra heilbrigðisstétta, getur verið frábrugðin frá einu landi til annars. Verður því að telja mikilvægt að þjónustan sé á besta veg, þótt um viss frávik milli verkefna einstakra heilbrigðisstétta geti verið að ræða.

Veigamiklar lagabreytingar hafa verið gerðar sem og skipulagsbreytingar frá fyrstu heimsókn nefndarinnar, einkum varðandi löggæslumál.
Embætti ríkislögreglustjóra hefur verið stofnað samkvæmt nýjum lögreglulögum, og er hinni nýju íslensku allsherjarlögreglu, sem m.a. tók við verkefnum Rannsóknarlögreglu ríkisins, nú stjórnað af ríkislögreglustjóra í umboði dómsmálaráðherra.
Lögreglustjórum í einstökum umdæmum hefur verið veitt ákæruvald í minni háttar málum.

Þá hefur bann gegn pyndingum og annarri ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verið lögfest með stjórnskipunarlögum nr. 97/1995 um breytingar á íslensku stjórnarskránni og jafnframt hafa gerðar breytingar á almennum hegningarlögum í sama skyni.


A. Löggæslustofnanir.

1. Ill meðferð.
Athugasemdir.
13. Í ljósi þeirra upplýsinga sem aflað var með á heimsókninni stóð beinir CPT því til íslenskra stjórnvalda að þau brýni ofangreindar meginreglur fyrir lögreglumönnum með viðeigandi hætti.Svar: Af hálfu íslenskra stjórnvalda er lögð mikil áhersla á að borgararnir skuli ekki sæta líkamlegri valdbeitingu af hálfu lögreglu nema nauðsyn krefji og þá þeirri minnstu valdbeitingu sem nauðsynleg er til að yfirvinna mótþróa þeirra.
Þann 22. febrúar 1999 setti dómsmálaráðherra reglur um valdbeitingu lögreglumanna er skýrt tekið fram að lögregla skuli ekki grípa til valdbeitingar nema nauðsyn krefji og að stig valdbeitingar skuli vera í samræmi við aðstæður hverju sinni. Í reglunum eru valdbeitingarstigin skilgreind og hver röð þeirra skuli vera. Kynning hefur farið fram á hinum nýju reglum og athugasemdunum sem fylgja þeim í hverju einasta lögregluumdæmi og hnykkt hefur verið á þeim. Þá mun í lögregluskóla ríkisins jafnframt verða ítarlegri kennsla í þessum fræðum en áður. Mun þjálfun lögreglumanna mun taka mið af þessum reglum og ítarlegum skýringum sem settar voru með þeim. Reglurnar eru ekki birtar opinberlega. Þá er ráðgert að aðlaga svipaðar reglur um valdbeitingu fyrir fangelsin og landhelgisgæslu ríkisins, en starfsmenn þeirrar stofnunar fara með lögregluvald. Meðfylgjandi sendist eintak af reglunum.
Í skýrslu nefndarinnar er vikið að því í lið 13, að ástæða sé til að stjórnvöld brýni fyrir lögreglumönnum, í ljósi þeirra upplýsinga sem aflað var meðan á heimsókn nefndarinnar stóð, inntak meðalhófsreglunnar við framkvæmd handtöku. Forsendu þessarar beiðni má að líkindum rekja til þess er segir í lið 143 um þetta efni. Af þessum sökum þykir vert að árétta skýr ákvæði 13. og 14. gr. lögreglulaga nr. 90, 1996 um að framkvæmd lögreglustarfa byggir á meðalhófsreglunni. Þá má og benda á 101. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála sem kveður á um að við handtöku skuli ekki baka hinum handtekna óþægindi framar en nauðsyn ber til. Öll þessi ákvæði eiga að vera lögreglumönnum kunn úr námi, endurmenntunarnámskeiðum eða almennri fræðslu sem lögreglustjórum ber að láta þeim í té. Þá er þess að geta að Lögregluskóli ríkisins leggur áherslu á að við framkvæmd handtöku sé í hvívetna farið að í samræmi við lög og reglur. Í réttarfarskennslu er rækilega farið yfir valdbeitingu lögreglu og þvingunarráðstafanir og verkleg kennsla miðast við að markmiði slíkra aðgerða verði náð svo þeim sem verða að þola slíkt verði sem minnstur bagi gerður.
Ríkislögreglustjórinn mun í samræmi við tilmæli nefndarinnar hlutast til um að kunngera lögreglustjórum óskir hennar í þessum efnum og mælast til þess, að þeir kynni lögreglumönnum sínum tilefni þessarar athugasemdar. Hér er þó um vandmeðfarið efni að ræða og gera verður ráð fyrir því að lögreglumenn muni óska eftir upplýsingum um það hvort og með hvaða hætti nefndin hafi leitað eftir staðfestingu þeirra ásakana sem fram voru bornar, þótt fáar séu.


2. Aðbúnaður til vistunar á löggæslustofnunum

Tilmæli

18. Veita ber gæsluvarðhaldsföngum á lögreglustöðinni í Keflavík kost á fullnægjandi líkamlegri hreyfingu utan dyra daglega.

Svar: Sýslumaðurinn í Keflavík hyggst bæta úr aðstöðu til útivistar með lokaðri girðingu. Fram til þess tíma að slík girðing verði reist mun sýslumaður draga úr notkun fangaklefa fyrir gæsluvarðhaldsfanga með því að senda þá til framhaldandi gæsluvarðhalds á Litla-Hraun, en þar hefur nú skapast nægilegt rými fyrir gæsluvarðhaldsfanga í stað Síðumúlafangelsisins sem lagt var niður, þannig að gæsluvarðhaldsfangar verði yfirleitt ekki vistaðir í fangageymslu lögreglunnar í Keflavík nema í 2-3 daga að hámarki, nema í algjörum undantekningartilvikum.

Athugasemdir

18. Mun betra væri að flytja gæsluvarðhaldsfanga þegar í stað til fangelsis.

Svar: Markvisst hefur verið unnið að því að gæsluvarðhaldsfangar verði sem allra fyrst fluttir í fangelsi, og hefur þar orðið veruleg breyting á til batnaðar t.d. í Reykjavík. Hins vegar koma einstaka sinnum upp mál þar sem margir eru hnepptir í gæsluvarðhald, að óæskilegt þykir að hafa alla í sama fangelsi. Þá vilja stjórnvöld benda á að illframkvæmanlegt er á stöðum úti á landsbyggðinni að flytja gæsluvarðhaldsfanga til Reykjavíkur (eða Akureyrar) nema með ærnum tilkostnaði og fyrirhöfn vegna rannsóknar málsins og það gæti jafnvel leitt til þess að viðkomandi gæsluvarðhaldsfangar þurfi að vera lengur í gæsluvarðhaldi en ella. Í Vestmannaeyjum hafa verið settar reglur um að ekki skuli gæsluvarðhaldsfangi að jafnaði hafður þar lengur en 4 sólarhringa, nema óveður hamli ferðum milli lands og Vestmannaeyja.

Upplýsinga óskað

16. Tímasetning þeirrar endurnýjunarvinnu sem framkvæma skal í fangaklefum lögreglustöðvarinnar í Reykjavík og nánar um hvaða umbætur eru fyrirhugaðar.

Svar: Sl. haust voru gerðar nokkrar umbætur á gólfum í fangageymslu svo og á sturtum en raki komst niður úr gólfinu og kom fram í lofti hæðarinnar fyrir neðan. Þessar lagfæringar voru gerðar í tengslum við breytingar á húsnæðinu á hæðinni fyrir neðan. Einnig var loftræsting í fangageymslum bætt og sett upp brunaviðvörunarkerfi. Um sl. áramót fluttist umsjón með húsnæði lögreglunnar á Hverfisgötu til Fasteigna ríkissjóðs og standa þær nú fyrir miklum breytingum og lagfæringum á húsnæði lögreglunnar. Á næstu árum er ljóst að ráðast þarf í umfangsmiklar lagfæringar og endurbætur á húsnæðinu m.a. loftræstingu, málun utanhúss og lagfæringum á sprungum í einstökum fangaklefum. Á næstu mánuðum mun embættið ásamt Fasteignum ríkissjóðs forgangsraða þessum verkefnum til 2 – 3 ára. Hvað varðar athugasemdir frá CPT þá verða þær teknar til athugunar við þessa forgangsröðun. Hins vegar eru ekki fyrirhugaðar frekari framkvæmdir á fangageymslu á þessu ári. Embættið vill þó benda á að dagsljós er í flestum klefum í gegnum glerstein og að almennt eru þeir sem vistaðir eru í fangaklefum lögreglunnar lausir úr haldi að morgni eftir aðeins nokkurra klukkustunda vistun.


3. Varnir gegn illri meðferð frelsissviptra manna

Tilmæli

24. Sérstakar reglur (eins og mælst var til í skjali CPT/Inf (94) 8, 36. lið) verði settar um aðgang fólks, sem lögreglan hefur í haldi, að lækni.

Svar: Íslensk stjórnvöld ítreka þá afstöðu sína sem birtist í svari til nefndarinnar frá 23. mars 1994 að fylgt sé þeirri grundvallarreglu að handtekinn maður fái læknisþjónustu þegar hennar er þörf. Óski handtekinn maður eftir læknisþjónustu er annað hvort farið með hann á þann stað þar sem almenn neyðarþjónusta lækna er veitt eða læknir sem sinnir neyðarþjónustu á viðkomandi svæði er kallaður til. Ekki hafa komið upp vandamál eða kvartanir þar sem handteknum manni hefur verið neitað um læknaþjónustu svo kunnugt sé.
Einnig er vert að árétta að þegar læknir er kallaður til handtekins manns eða handtekinn maður færður til læknis, þá er neytt þeirra úrræða sem almenna heilbrigðiskerfið veitir. Þannig nýtur handtekinn maður ekki betri réttar til að hitta tiltekinn lækni að eigin vali en hann myndi gera eftir almennum reglum um heilbrigðisþjónustu, t.d. neyðarþjónustu við sjúklinga. Læknisskoðun fer fram án nærveru lögreglunnar nema læknir óski annars.
Loks vilja íslensk stjórnvöld taka fram að þar sem læknisþjónusta við handtekna menn lýtur almennum reglum um læknisþjónustu í heilbrigðiskerfinu, tryggir það að þeir læknar sem þjónustuna veita eru ekki í neinum tengslum við lögregluyfirvöld, t.d. á vegum lögregluembættis eða fangelsis, enda kynni slík tilhögun að rýra trúverðugleika þeirra. Að öðru leyti er vísað til svars íslensku ríkisstjórnarinnar til nefndarinnar frá 23. mars 1994.

25. Upplýsingablöð fengin fólki í haldi hjá lögreglu verði endurskoðuð þannig að réttar manns í vörslu lögreglu til aðgangs að lækni sé þar einnig getið.

Svar: Eins og áður var nefnt hafa ekki komið upp vandamál eða kvartanir svo kunnugt sé þar sem handteknum manni hefur verið neitað um læknaþjónustu. Handteknir menn hafa óskað eftir læknisþjónustu, telji þeir hana nauðsynlega, án þess að athygli þeirra hafi sérstaklega verið vakin á þeim rétti. Íslenska ríkisstjórnin mun þó íhuga breytingar á fyrrgreindum upplýsingablöðum í samræmi við tilmæli nefndarinnar.

27. Krafist verði heimildar dómara eða saksóknara til að gæsluvarðhaldsfangi sé aftur afhentur lögreglu.

Svar: Oftast er nauðsynlegt að yfirheyra gæsluvarðhaldsfanga í þágu rannsóknar máls. Venjulega er fanginn þá yfirheyrður í gæsluvarðhaldsfangelsinu. Hins vegar kunna aðstæður að vera slíkar eða atvik með þeim hætti að nauðsynlegt þyki að yfirheyrsla eða rannsóknaraðgerð, t.d. sakbending, fari fram á öðrum stað. Fanginn verður þá væntanlega afhentur lögreglunni á meðan á rannsóknaraðgerð stendur.

Stjórnvöld telja að rannsókn máls, sem er þess eðlis og á því stigi að efni hafa þótt til að úrskurða sakborning í gæsluvarðhald, kalli á stöðugt samráð lögreglumanns og ákæranda um framgang rannsóknarinnar, sbr. 1. mgr. 8. gr. lögreglulaga og 67. gr. laga um meðferð opinberra mála. Jafnframt telja stjórnvöld rétt og reyndar sjálfgefið, samkvæmt meginreglum um ábyrgð og stjórn á lögreglurannsóknum, að ákærandi beri ábyrgð á beiðni um að gæsluvarðhaldsfangi sé aftur afhentur lögreglu til yfirheyrslu eða annarra rannsóknaraðgerða.

29. Núverandi tilhögun um meðferð á afar æstu fólki í vörslu lögreglunnar verði breytt.
Svar: Ráðuneytið hefur beint til ríkislögreglustjóra tilmælum nefndarinnar um að lögregla skuli kalla til lækni þegar mjög æst fólk á í hlut. Hefur ríkislögreglustjóra verið falið að endurskoða reglur sem varða meðferð á mjög æstu fólki í vörslu lögreglu með hliðsjón af tilmælum nefndarinnar.

Athugasemdir

23. Krefjast ber alltaf samþykkis yfirmanns í lögreglu eða saksóknara ef fresta á nýtingu réttar handtekins manns til að tilkynna öðrum um aðstöðu sína.

Svar: Samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 395/1997 getur stjórnandi lögregluvaktar eða sá sem ábyrgð ber á rannsókn máls tekið ákvörðun um að fresta tilkynningu. Í reynd er það svo að íþyngjandi ákvarðanir eins og þessar, eru bornar undir yfirmann í lögreglu sem er á vakt eða bakvakt hverju sinni. Sá skilningur virðist þó ríkjandi að átt sé við löglærðan starfsmann lögreglustjóra, starfsmann sem sinnir ákværuvaldsstörfum, þegar skírskotað er til þess sem ábyrgð ber á rannsókn máls í reglugerðinni. Er það því annars vegar á valdi yfirmanns lögregluvaktar eða fulltrúa ákæruvalds að taka umrædda ákvörðun.

Ef ákvæði 2. gr.reglugerðarinnar þykir ekki alveg nógu afdráttarlaust og skýrt má hugsanlega bæta úr því með því að bæta inn ákvæði sem mælir fyrir um að lögreglumaður taki ákvörðun um frestun tilkynningar og að hún skuli borin undir ákæranda til endurskoðunar án ástæðulauss dráttar og ávallt innan einnar klukkustundar frá því að hún var tekin. Munu íslensk stjórnvöld huga að slíkum breytingum á reglugerðinni.

Ef áskilið er að ákærandi taki þessa ákvörðun en ekki lögreglumaður, er hætt við að lögreglan fresti tilkynningu, stundum án tilefnis, og gefi sér tíma til þess að ná sambandi við ákæranda með það fyrir augum að leggja álitaefnið fyrir hann. Sú skipan sýnist geta leitt til frestunar tilkynningar að ástæðulausu.

26. Æskilegt væri að kveða á um ýmis fleiri atriði varðandi tilhögun lögregluyfirheyrslna í reglugerð nr. 395/1997. Þess er farið á leit við íslensk stjórnvöld að reglugerð nr. 397/1997 verði endurskoðuð þannig að gjörla komi fram að hlé skuli jafnan gera á yfirheyrslu oftar en á 6 klukkustunda fresti.
Svar: Þau atriði sem nefndin vekur sérstaklega athygli á í 26. lið skýrslunnar verða höfð til hliðsjónar við endurskoðun reglugerðar nr. 395/1997.

Upplýsinga óskað

28. Athugasemdir íslenskra yfirvalda um efasemdir sem fram hafa komið, m.a. frá skrifstofu umboðsmanns Alþingis, um gagnsemi hinnar nýju tilhögunar um rannsóknir á kærum um illa meðferð af hálfu lögreglu.

Svar: Með setningu lögreglulaga nr. 90/ 1996 sem tóku gildi 1. júlí 1997 var mælt fyrir um fyrirkomulag rannsóknar á kærum á hendur lögreglu í 35. gr. Var þar gert ráð fyrir að lögreglustjóri skyldi tilkynna ríkissaksóknara ef kæra bærist eða grunur vaknaði um að starfsmaður lögreglu hefði framið refsivert brot við framkvæmd starfa sinna. Skyldi ríkissaksóknari stýra rannsókn málsins en við rannsókn á slíkum kærum naut hann aðstoðar starfsliðs embættis ríkislögreglustjóra. Eftir setningu lögreglulaga hefur þessari skipan verið breytt með 6. gr. laga nr. 29/1998 sem tóku gildi 29. apríl 1998 eftir heimsókn nefndarinnar hingað til lands. Í 35. gr. eru nú enn frekar kveðið á um forræði ríkissaksóknara á meðferð máls af þessu tagi og er ákveðið svohljóðandi:
1. Kæru á hendur starfsmanni lögreglu fyrir ætlað refsivert brot við framkvæmd starfa hans skal beina til ríkissaksóknara og fer hann með rannsókn málsins.
2. Við meðferð slíkra mála getur ríkissaksóknari beitt þeim heimildum sem lögregla hefur endranær.
3. Lögreglu ber að veita ríkissaksóknara aðstoð við rannsókn mála samkvæmt þessari grein eftir því sem óskað er.
Með þessari tilhögun er vikið frá meginreglu 66. gr. laga um meðferð opinberra mála að lögregla fari með rannsókn opinberra mála. Reynir ríkissaksóknari að haga rannsókn þessara kærumála þannig að aðstoðarfólk hans annist rannsóknina að öllu leyti, sé þess nokkur kostur. Að öðrum kosti mun reynt að hafa meðferð máls þannig að ákærandi verði viðstaddur allar yfirheyrslur og að rannsóknin verði í höndum ákærandans, þ.e.a.s. starfsmanns ríkissaksóknara, allan tímann. Ekki hefur orðið vart við meiri háttar ágalla á þessu fyrirkomulagi á rannsóknum umræddra kærumála, enda reynslan lítil enn sem komið er. Hugsanlega má telja það óheppilegt að ríkissaksóknari, sem er æðsti handhafi ákæruvalds í landinu, fari með rannsóknir þessara mála, og taki jafnframt ákvarðanir um afdrif þeirra á frumstigi. Að mati íslenskra stjórnvalda veitir fyrirkomulag þetta þó viðunandi tryggingu fyrir hlutlægri meðferð slíkra mála og þykir ekki ástæða til að breyta því nema reynsla leiði annað í ljós.
Meðal þess sem umboðsmaður Alþingis hefur gert athugasemdir við er að ekki gildi skýrar reglur um hvernig lögreglu beri að bregaðst við berist henni kvörtun frá borgurunum vegna háttsemi eða ætlaðra brota lögreglunnar í starfi. Hefur ríkislögreglustjóri nú samið drög að reglum um meðferð kæru- eða klögumála á hendur lögreglu og má ætla að gerð þeirra ljúki á næstu vikum.


4. Fólk í haldi lögreglu samkvæmt lögum um eftirlit með útlendingum

Tilmæli

31. Að gerðar verði nauðsynlegar ráðstafanir til að fólki, sem synjað hefur verið um landgöngu og haft er undir eftirliti á transitsvæði alþjóðaflugvallarins í Keflavík sé veitt hæfileg aðstaða til svefns og aðgangur að farangri sínum og nægilega vel útbúinni hreinlætis- og þvottaaðstöðu, og að því sé tryggð læknisaðstoð ef nauðsyn ber til.

Svar:Íslensk stjórnvöld taka undir það sjónarmið sem lýst er að aðstaða fyrir fólk sem synjað hefur verið landgöngu og haft er undir eftirliti á transitsvæði sé ekki fullnægjandi. Ákveðið hefur verið að stækka flugstöðina í Keflavík og er ráðgert að viðbyggingu við hana verði lokið vorið 2001. Verður aðstaða fyrir útlendinga væntanlega bætt verulega í þessu tilliti. Hefur athygli utanríkisráðuneytisins, sem fer með málefni flugstöðvarinnar og lögreglustjórans á Keflavíkurflugvelli, verið vakin á tilmælum nefndarinnar um þetta atriði.

Athugasemdir

33. Varúðarráðstafanir gegn illri meðferð á frelsissviptu fólki, eins og lýst er í 21.- 25. lið, ættu einnig að gilda um fólk sem haft er í haldi samkvæmt lögum um eftirlit með útlendingum.

Svar:Íslensk stjórnvöld telja að staða þess fólks sem haft er í haldi samkvæmt lögum um eftirlit með útlendingum sé ekki lakari en annarra sem sviptir eru frelsi sínu. Læknisþjónusta er að sjálfsögðu fyrir hendi og er mönnum tryggður aðgangur að henni eftir atvikum og þörfum viðkomandi hverju sinni, með sama hætti og við á um handtekna menn í vörslu lögreglu
Í þessu sambandi má geta þess að Útlendingaeftirlitið veitir útlendingi færi á því að hafa samband við fulltrúa síns ríkis sé hann til staðar hér á landi, sbr. 36. gr. Vínarsamnings um ræðissamband sbr. lög nr. 4, 1978. Í leiðbeiningablaði sem afhent er handteknum mönnum er sérstaklega tiltekið að sé hinn handtekni erlendur ríkisborgari og heimaríki hans hafi sendiráð eða ræðisskrifstofu á Íslandi geti hann óskað þess að lögreglan tilkynni um handtökuna þangað.

Upplýsinga óskað

32. Athugasemdir íslenskra yfirvalda um möguleika á því að hafa fólk, sem svipt er frelsi samkvæmt lögum um eftirlit með útlendingum, í haldi á stað sem sérstaklega er tilgreindur í því skyni, þar sem aðbúnaður og tilhögun samræmist réttarstöðu þess og þar sem viðeigandi starfslið er fyrir hendi.

Svar:Íslensk stjórnvöld taka undir það sjónarmið að þegar svo háttar til að frekari könnunar er þörf á högum útlendinga sem gefur tilefni til afskipta lögreglu, að þá sé fyrir hendi önnur og viðeigandi aðstaða en er að finna á lögreglustöð.
Útlendingaeftirlit, sem ríkislögreglustjóri veitir enn forstöðu hefur ekki farið fram á gæsluvarðhald fyrir dómi í neinu tilviki, heldur hefur verið leitað á náðir Rauða Kross Íslands samkvæmt samkomulagi þar um, sem komið hefur fólki fyrir á gistiheimilum. Það er þó augljóst, að slíkt fyrirkomulag veitir ekki ávallt næga tryggingu fyrir návist útlendings svo sem mælt er fyrir um í 15. gr. laga nr. 45/1965 um eftirlit með útlendingum, en leitast er við að haga gæslu með þeim tilslökunum sem leiðir af eðli máls. Þess ber þó að geta, að þegar ákvörðun hefur verið tekin um að synja útlendingi landgöngu eða brottvísa manni sem hingað er kominn og kæruleiðir hafa verið tæmdar er honum kynnt sú ákvörðun að hann verði fluttur af landi brott. Af því leiðir að lögreglu ber að tryggja návist hans svo flutningur geti farið fram. Er þá tíðast ekki í önnur hús að venda en lögreglustöð (fangaklefa) í Hafnarfirði þar til ferð getur hafist. Er þá um að ræða vistun í tæpan sólarhring (12 –18 klst.).

34. Ítarleg lýsing á þeim ráðstöfunum sem gerðar eru í framkvæmd af hálfu íslenskra yfirvalda til að koma í veg fyrir að fólk sé endursent til lands þar sem það á á hættu að sæta pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.
Svar: Íslensk löggjöf tryggir að maður verði ekki framseldur eða endursendur til annars ríkis ef veruleg ástæða er til að ætla að hann eigi þar á hættu að sæta pyndingum. Fyrirmæli þessa efnis er einkum að finna í lögum framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum nr. 13/1984 og lögum um eftirlit með útlendingum nr. 45/1965. Sérstök lög nr. 7/1962 gilda um framsal sakamanna til Danmerkur, Finnland, Noregs og Svíþjóðar.
Samkvæmt lögunum um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum er heimilt að framselja mann til ríkis þar sem hann er grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað. Lögin setja þó ýmsa fyrirvara við þessa meginreglu. Samkvæmt 3. gr. laganna er framsal á manni þannig aðeins heimilt ef verknaður getur varðað fangelsi í meira en eitt ár samkvæmd íslenskum lögum. Í 5. gr. laganna er lagt bann við framsali vegna stjórnmálaafbrota. Samkvæmt 6. gr. laganna er óheimilt að framselja mann ef veruleg hætta er á að hann eftir framsal vegna kynþáttar, þjóðernis, trúar, stjórnmálaskoðana eða að öðru leyti vegna stjórnmálaaðstæðna verði að sæta ofríki eða ofsóknum sem beinist gegn lífi hans eða frelsi eða er að öðru leyti alvarlegs eðlis. Þá heimilar 7. gr. laganna að í sérstökum tilfellum megi synja um framsal ef mannúðarástæður mæla gegn því svo sem aldur, heilsufar eða aðrar persónulegar ástæður.
Dómsmálaráðuneytið tekur við beiðni frá erlendu ríki um framsal og eru nánari reglur um málsmeðferð slíkra beiðna í 13.-18. gr. laganna. Telji dómsmálaráðuneytið, á grundvelli framsalsbeiðni og þeim upplýsingum sem henni fylgja, að hafna beri beiðninni þá þegar, skal það gert. Sé beiðninni ekki hafnað strax hjá dómsmálaráðuneytinu, ber að senda ríkissaksóknara beiðnina og ber honum að sjá til þess að nauðsynleg rannsókn fari strax fram. Maður sem óskast framseldur getur krafist úrskurðar dómstóla um hvort skilyrði laga fyrir framsali séu fyrir hendi. Ríkissaksóknari skal, jafnframt því sem hann tilkynnir manni um framsalsbeiðnina og rök fyrir henni, láta hann vita um rétt sinn til að bera málið undir dómstóla og að hann eigi þess kost að fá sér skipaðan réttargæslumann. Laun slíks réttargæslumanns og annar sakarkostnaður eru greidd úr ríkissjóði.
Samkvæmt framangreindum reglum getur dómstóll metið hvort lagaskilyrði um framsal eru uppfyllt ef viðkomandi maður sem á að framselja krefst þess. Dómstóllinn metur þá m.a. hvort framangreindar 6. og 7. gr. laganna hindra að framsal geti átt sér stað. Ef veruleg ástæða er til að ætla að maður muni sæta pyndingum í landi sem hann verður framseldur til, eru lagaskilyrði ekki uppfyllt og dómstóll synjar þá um framsal.
Einu sinni hefur reynt á tilvik af þessu tagi fyrir íslenskum dómstólum, en með dómi Hæstaréttar frá 17. október 1997 var staðfestur úrskurður héraðsdóms þar sem neitað var um framsal hjóna til Bandaríkjanna. Í máli þessu höfðu bandarísk stjórnvöld krafist framsals þeirra vegna refsimáls sem höfðað hafði verið gegn þeim í Bandaríkjunum. Hjónin mótmæltu framsalskröfunni og lögðu fram ítarleg gögn fyrir dómi sem sýndu m.a. fram á að veruleg hætta væri á að þau fengju ekki réttláta málsmeðferð við rekstur sakamálsins fyrir dómstólum í Arizona fylki í Bandaríkjunum. Verulegar líkur væru einnig á að þau myndu sæta ómannúðlegri meðferð með því að vera flutt í járnum til áfangastaðar eftir reglum sem giltu um fangaflutninga í Bandaríkjunum og verða vistuð í gæsluvarðahaldi fangelsi í Maricopasýslu í Arizona. Sýnt var fram á að aðstæður í því fangelsi væru ómannúðlegar og vanvirðandi og ákvörðun íslenska ríkisins um að framselja þau bryti því gegn rétti þeirra samkvæmt 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar sem kveður á um bann við pyndingum og ómannúðlegri meðferð eða refsingu, 3. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Hæstiréttur féllst á að lagaskilyrði til framsals hjónanna væru ekki uppfyllt og að stjórnvöldum bæri að gæta meðalhófsreglu í ákvörðunum sínum um framsal, m.a. að leita samninga við bandarísk stjórnvöld um að hjónin gætu farið sjálfviljug til Bandaríkjanna og unnt væri að setja tryggingu í stað gæsluvarðhaldsvistar á meðan mál þeirra væri rekið fyrir dómstól í Arizona.
Heimildir til að synja útlendingum um landgöngu og vísa útlendingum úr landi eru í lögum um eftirlit með útlendingum nr. 45/1965. Gilda sömu sjónarmið um brottvísun manna og um framsal, ef talin er hætta á að maður sæti pyndingum eða ómannúðlegri eða grimmilegri meðferð í því landi sem útlendingi yrði vísað til. Verður þannig litið til 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar um bann við pyndingum, 3. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmáleg réttindi.
Ísland er aðili að samningi um réttarstöðu flóttamanna frá 1951 og viðauka við hann frá 1967. Samkvæmt 4. mgr. 10. gr. laganna er óheimilt að meina útlendingi landgöngu er hann ber að hann hafi orðið að leita sér hælis sem pólitískur flóttamaður enda teljist framburður hans sennilegur. Er hugtakið flóttamaður hér skýrt með hliðsjón af skilgreiningu 1. gr. flóttamannasamningsins. Útlendingaeftirlitið úrskurðar um beiðni manns til að fá hæli hér á landi sem flóttamaður. Unnt er að kæra úrskurð Útlendingaeftirlitsins til dómsmálaráðuneytisins og er skylt að leiðbeina útlendingi um slíkan kærurétt. Nánari reglur um málsmeðferð slíkra mála eru í lögunum um eftirlit með útlendingum svo og í almennum reglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en þar er m.a. mælt fyrir um andmælarétt útlendings til að koma að gögnum í máli sínu. Á síðustu árum fimm árum eru ekki dæmi um að fallist hafi verið á umsókn um hæli hér á landi, þ.e. að umsækjandi teljist flóttamaður í skilningi flóttamannasamningsins, en umsóknir um slíkt hafa verið tiltölulega fáar. Algengt er að mönnum sé snúið til baka til þeirra landa sem þeir komu frá, einkum Norðurlandanna, og þar séu hælisumsóknir þeirra til meðferðar hjá stjórnvöldum. Hins vegar eru nokkur dæmi þess að útlendingi sem sækir um hæli hafi verið veitt dvalarleyfi, t.d. vegna aðstæðna í heimalandi hans, sem réttlæta þó ekki að maður verði skilgreindur sem flóttamaður.


B. Fangelsi

1. Inngangsathugasemdir

Tilmæli

41. Að íslensk stjórnvöld veiti byggingu nýs gæsluvarðhaldsfangelsis í Reykjavík algeran forgang.

Svar. Á árinu 1999 eru 15 m. kr. á fjárlögum til að mæta kostnaði við hönnun og undirbúning byggingar fangelsis að Tunguhálsi í Reykjavík. Sérstök framkvæmdanefnd starfaði á árunum 1995-1996, en þá var skipuð ný nefnd til að vinna að undirbúningi að byggingu fangelsis að Tunguhálsi. Ýmsar hugmyndir hafa verið uppi hjá nefndinni en nýjustu ráðagerðir eru þær að auk þess að vera gæsluvarðhaldsfangelsi skuli það jafnframt vera móttökufangelsi og afplánunarfangelsi, er skuli leysa bæði Hegningarhúsið í Reykjavík og Kópavogsfangelsið af hólmi. Stefnt er að því að fá á fjárlögum næsta árs fé til áframhaldandi þarfagreiningar og undirbúningsvinnu, en verið er að huga að lausn er felst í byggingu fjölnotafangelsis. Athygli nýrrar ríkisstjórnar, sem tekur við eftir kosningar í maí nk., verður vakin á þeirri forgangsröðun sem bygging gæsluvarðhaldsfangelsisins hefur verið í.

Upplýsinga óskað

41. Upplýsingar um hið nýja gæsluvarðhaldsfangelsi í Reykjavík (áætlaðan opnunardag, vistmannafjölda, fyrirhugað fangelsisstarf, heilsugæsluþjónusta o.s.frv.)

Svar: Ljóst er að nokkur seinkun verður á byggingu gæsluvarðhaldsfangelsisins, en fyrstu áætlanir voru þær, að það yrði tilbúið til notkunar árið 2001. Á þessari stundu stendur yfir þarfagreining, þannig að ekki er enn ljóst fyrir hversu marga vistmenn það verður, o.s.frv. Verið er að skoða hugmynd af fjölnotafangelsi til að tryggja megi betri nýtingu fangarýmis en ella. Óvarlegt er að tímasetja hvenær gæsluvarðhaldsfangelsið verður tilbúið til notkunar.

42. Ítarlegar upplýsingar um hina fyrirhuguðu nýju reglugerð um fangelsisstarfsmenn og bætta vinnumöguleika fanga, í samhengi við framkvæmdaáætlun í fangelsismálum.

Svar: Íslensk stjórnvöld kannast ekki við að neinar formleg áform hafi verið tekin um að semja reglur fyrir fangelsisstarfsmenn, en hins vegar er unnið að samningu erindisbréfa fyrir þá, þar sem störf þeirra og hlutverk er nánar skilgreint. Þá kannast íslensk stjórnvöld heldur ekki við að formlega hafi verið ákveðið að gera átak í vinnumálum fanga. Það er verkefni sem er til stöðugrar skoðunar, bæði hvað varðar útvegun vinnu og eins að skapa föngum fjölbreyttari störf. Í ágúst 1998 voru settar nýjar reglur um laun fyrir einstök störf fanga.

2. Ill meðferð.

Tilmæli

43. Að starfsmenn á Litla-Hrauni sé minntir á aðeins beri að beita valdi þegar allt annað þrýtur og aðeins að því marki sem ekki verður komist hjá.

Svar: Fyrirhugað er að setja reglur um valdbeitingu fangavarða, sbr. tölulið 13, með hliðsjón af reglum sem settar hafa verið fyrir lögreglumenn. Ráðgert er að halda sérstök kynningarnámskeið í tengslum við setningu reglnanna, þar sem farið verður rækilega yfir reglurnar í öllum fangelsum.

Upplýsinga óskað

43. Fullar upplýsingar um þá þjálfun sem starfsmönnum fangelsa er veitt til að hafa hemil á föngum og til að halda aftur af þeim.

Svar: Starfsmenn við fangelsið á Litla-Hrauni eru þjálfaðir til að komast hjá valdbeitingu í lengstu lög. Því er algerlega hafnað, eins og ráða má af orðalagi skýrslunnar, að valdi sé beitt áður en önnur úrræði hafa verið reynd.

Allir nemar í fangavarðaskólanum fá þjálfun í því að róa æsta fanga. Einnig fá þeir þjálfun í því að beita valdi þannig að sem minnst hætta sé á líkamstjóni auk þess sem þeim eru kynntar þær lagareglur sem um þetta gilda. Á árinu 1997 fóru allir fangaverðir við fangelsið á Litla-Hrauni á tveggja daga námskeið þar sem fjallað var sérstaklega um valdbeitingu. Námskeiðið var í formi fyrirlestra og einnig voru verklegar æfingar.
Sérstök áhersla var lögð á:
1. Að reyna í lengstu lög að leysa mál án þess að beita valdi.
2. Gaumgæfa allar aðstæður og meta hvort markmið náist með valdbeitingu.
3. Hvernig beita má valdi án þess að nokkur slasist.
4. Að beita ekki meira valdi en nauðsynlegt er til að markmið náist.

Á árinu 1998 fóru allir fangaverðir á Litla-Hrauni á 8 tíma námskeið þar sem atvik voru sviðsett þannig að fangavörðum gæfist færi á að reyna sig við erfiðar aðstæður. Mikil áhersla var lögð á að reyna til þrautar að leysa mál án þess að beita valdi. Auk þessa eru allir meðlimir í sérsveit Litla-Hrauns á æfingum tvisvar í mánuði, 9 mánuði ársins, auk sérstaks námskeið einu sinni á ári, sem stendur í eina viku. Á æfingunum er fjallað um þetta efni bæði munnlega og með verklegum æfingum. Í sérsveitinni eru 12 meðlimir og þannig gengið frá vaktatöflum að á hverjum tíma eru að minnsta kosti 2-3 meðlimir sveitarinnar á vakt í fangelsinu. Með þessu er tryggt að sérhæft starfslið sé ávallt tiltækt ef þær aðstæður koma upp að beita þarf sértækri kunnáttu til að stilla til friðar eða róa fanga, sem eru í uppnámi. Valdbeiting er síðasta úrræði sem beitt er; þó getur komið fyrir að beita þurfi valdi án undangenginna tilrauna til að róa viðkomandi, til dæmis er fangi veitist að starfsmönnum án fyrirvara.

47. Skýrsla hinnar óháðu sérfræðinganefndar sem dómsmálaráðherra skipaði til að rannsaka nýleg sjálfsvíg í fangelsinu á Litla-Hrauni.

Svar: Skýrslan hefur verið send til CPT í enskri þýðingu. Athugun stendur yfir á því hvernig bregðast skuli við athugasemdum, ábendingum og tillögum sem nefndin setti fram í niðurstöðum sínum.

47. Leiðbeiningarreglur um varnir gegn sjálfsvígum sem samdar eru af sálfræðingi Fangelsismálastofnunar.

Svar: Samningu reglna um viðbrögð starfsmanna fangelsanna við sjálfsvígshættu o.fl. er lokið og meðfylgjandi sendist eintak þeirra.Þá munu starfsmenn fangelsanna fá sérstakar skriflegar leiðbeiningar um einkenni sjálfsvígshættu.

3. Einangrunarvistun gæsluvarðhaldsfanga í þágu rannsóknar

Tilmæli

51. Að lögreglu verði gert að skrá þær sérstöku ástæður sem réttlæta að gæsluvarðhaldsfangi sé settur í einangrun í þágu rannsóknar, og að fanganum sé skýrt frá þeim (þó ekki þurfi að taka þar fram einstök atriði sem eðlilegt er með tilliti til rannsóknarinnar að ekki séu tjáð fanganum).

Svar: Íslensk stjórnvöld árétta það svar að gæsluvarðhaldsfangi verður einungis settur í einangrun ef úrskurður um gæsluvarðhald hvílir á a-lið, 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála. Ljóst er að frelsissvipting nægir í allflestum tilvikum ef hætta er talin á því að afmá merki eftir brot, eða skjóta undan munum. Hins vegar getur frelsisskerðing ekki alltaf komið í veg fyrir að sakborningur reyni að hafa áhrif á vitni eða samseka á meðan rannsókn stendur yfir. Af þeirri ástæðu getur einangrun verið nauðynleg til þess að tryggja rannsóknarhagsmuni. Að öðru leyti er vísað til svara íslensku ríkisstjórnarinnar til nefndarinnar varðandi þetta atriði frá 23. mars 1994.

51. Að eins verði farið að þegar gæsluvarðhaldsúrskurðir eru endurskoðaðir í dómi, ef lögregla vill framlengja einangrunarvarðhald viðkomandi fanga í þágu rannsóknar á máli hans.

Svar: Eins og áður hefur komið fram er gæsluvarðhaldsfanga ávallt mögulegt að bera undir dómara ákvörðun um einangrun vegna rannsóknarnauðsynja, sbr. 16. gr. reglugerðar um gæsluvarðhaldsvist nr. 179/1992. Í slíku máli ber lögreglu að rökstyðja sérstaklega fyrir dómi þær ástæður sem liggja að baki ákvörðun um einangrun. Ber dómara þá að taka rökstudda afstöðu til þess hvort einangrun er nauðsynleg eða ekki. Ef um ræðir framlengingu gæsluvarðhalds er sakborningur aftur leiddur fyrir dómara. Hefur sakborningur þá kost á að mótmæla því að einangrunarvist muni standa áfram eftir að gæsluvarðhald hefur verið verið framlengt.

53. Að ætíð verði reynt að vinna gegn skaðlegum áhrifum einangrunarvistar þegar fanga er gert að sæta slíkri meðferð í langan tíma, svo sem með því að auka starfslið til að unnt sé að mynda viðeigandi mannleg tengsl eða veita kost á uppbyggilegri iðju. Miða ber við þann almenna tilgang að vernda fanga gegn þjáningu og skaða.

Svar: Rétt þykir að benda á að sjaldgæft er að refsifangar séu einangraðir. Þess í stað er reynt að beita öðrum aðferðum svo sem sviptingu ýmissa réttinda. Fangar hafa hins vegar í samtölum við starfsmenn fangelsiskerfisins oft bent á það að einangrun í skamman tíma sé að ýmsu leyti léttbærari agaviðurlög fyrir þá, hún standi í skemmri tíma, hún skaði þá ekki fjárhagslega og heimsóknir haldist.

Hvað varðar gæsluvarðhaldsfanga sem eru í lengri einangrun vegna rannsóknarnauðsynja þá er á döfinni að breyta starfsháttum fangavarða þannig að þeir fari oftar og reglubundið inn á klefa til fanganna og dvelji hjá þeim um tíma. Slíkt dregur úr skaðsemi einangrunarinnar. Þá er af sömu ástæðum eðlilegt að auka útivist þessara fanga. Unnið er að skipulagningu og innan skamms verða útbúnar starfsreglur fyrir starfsfólk.

Hvað varðar uppbyggilega iðju fyrir þessa fanga er erfiðara um vik. Langtímum saman er enginn í einangrun. Rétt er þó að huga að því hvort einhver tómstundaiðja komi til greina í þessu tilviki. Forstöðumönnum fangelsa verður falið að gera tillögur til Fangelsismálastofnunar um þetta efni fyrir 1. júní 1999.

Upplýsinga óskað

50. Hvort sú tilhögun sé enn í gildi að gæsluvarðhaldsfangi sem lögregla hyggst setja í einangrun, geti vefengt þá ákvörðun fyrir dómi um leið og ákveðið hefur verið að úrskurða viðkomandi í gæslu, og hvort sú tilhögun eigi við um alla gæsluvarðhaldsfanga undantekningarlaust.

Svar: Framangreind tilhögun er í fullu gildi og á jafnt við um alla gæsluvarðhaldsfanga. Í 16. gr
reglugerðar um gæsluvarðhaldsvist nr. 179/1992 er skýrt kveðið á um heimildir gæsluvarðhaldsfanga til að bera undir dómara ákvörðun um að hann skuli hafður í einangrun vegna rannsóknarnauðsynja án þess að nokkurra undantekninga sé getið frá þeirri reglu.

4. Almennt um vistunaraðbúnað

Ríkisfangelsið að Litla-Hrauni

Tilmæli

56. Að klefarnir þrír sem notaðir eru í undantekningartilvikum til einangrunarvistunar séu aldrei notaðir til að vista fanga lengur en 1 – 2 daga.

Svar. Látið er að því liggja að sérstakir neyðarklefar í húsi 2 séu notaðir til vistunar fanga í meira en 1 – 2 daga. Staðreyndin er hins vegar sú að umræddir klefar hafa, frá því að þeir voru útbúnir á árinu 1996, aldrei verið notaðir til vistunar fanga nema í örfáar klukkustundir og aðeins í fáum tilvikum.
59. Að íslensk stjórnvöld leitist við að byggja upp raunhæfa starfsemisáætlun fyrir fanga í húsi 3.

Svar: Ekki er ljóst hvernig nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að fangar í húsi 3 hafi aðeins einn klukkutíma á dag til líkamnsæfinga og útivistar og að þeir hafi ekki möguleika á vinnu eða námi. Á þeim tíma sem nefndin var á staðnum var útivist fanga í húsi 3 þannig að virka daga var aðgangur að íþróttasal frá kl. 09.00 – 11.15 og útivist frá kl. 13.00 – 14.30. Um helgar er hins vegar útivist frá kl. 13.00 – 14.00.
Það sem síðan hefur breyst er að nú hafa fangar í húsi 3 aðgang að skólavist og vinnu, og má þá segja að búið sé að búa svo um hnútana að fangar í húsi 3 hafi svipaða möguleika og fangar í húsi 4 til útivistar, náms og vinnu.

63. Að komið verði á skýrri og formlegri tilhögun við tilfærslu fanga á milli húsa eða deilda. Einkum ber að skúra viðkomandi föngum með skiljanlegum hætti frá þeim kröfum sem standast ber til að njóta góðs af betri aðbúnaði og starfsskipulagi, og tjá þeim skriflega ástæður þess að ákveðið sé að færa þá í annað hús eða á aðra deild. Ennfremur ber að veita þeim kost á að kæra slíka ákvörðun til æðra stjórnvalds og skýra þeim skriflega frá möguleikum þess.

Svar. Við komu í fangelsið er föngum gerð grein fyrir því fyrirkomulagi sem tíðkast um vistun á mismunandi deildum í fangelsinu svo og ástæðum se geta orðið þess valdandi að þeir geti flust milli deilda eða bygginga. Þær ástæður geta verið góð eða slæm hegðun, brot á reglum fangelsisins og ýmsar aðrar ástæður sem geta valdið því að heppilegt sé talið að flytja fanga til. Ósamkomulag og óvild milli fanga, hræðsla við samfanga o.fl. getur verið ástæða til flutnings. Hins vegar hefur ekki tíðkast að föngum sé gerð alltaf gerð sérstaklega grein fyrir ástæðum flutnings milli klefa eða deilda. Af þessu verður hugað þegar settar verða reglur um deildaskiptingu fangelsisins og flutning á milli þeirra eins og nefndin leggur til, en beint hefur verið erindi til Fangelsismálastofnunar um að semja slíkar reglur og um kæruleiðir til æðri stjórnvalda.

Athugasemdir

55. Lagt er til að íslensk stjórnvöld athugi leiðir til að ráða bót á því að fangar í húsi 4 í klefum, sem vissu út að sjó höfðu orðið að hylja loftristar til að loka úti vind og sandfok.

Svar: Vandamál samfara sandfoki og vindi eru ekki einskorðuð við fangelsisbyggingar á Litla-Hrauni. Það er alkunna að þegar veðurlag er þannig að séu gluggar opnir verður ekki hjá því komist að sandur og ryk berist inn í híbýli manna á þessu landssvæði. Fangar eiga þess kost að loka gluggum þegar veðri háttar svo til og er ekki annað vitað en að gluggar séu þéttir í fangelsinu.

56. Æskilegt er að þeir þrír klefar í húsi 2 sem notaðir eru í undantekningartilvikum til einangrunarvistunar séu teknir úr notkun sem fangaklefar.

Svar: Þessir klefar gegna ákveðnu öryggishlutverki og myndi það draga mjög úr möguleikum fangelsisins til viðbragða í neyðartilvikum, ef þeir væru teknir úr notkun. Er því ekki unnt að fallast á tilmæli nefndarinnar um að taka þá úr notkun sem fangaklefa.

58. Íslenskum stjórnvöldum er bent á að íhuga möguleika á að veita föngum kost á fjölbreyttari iðnmenntun. Einnig er mikilvægt að veita þeim föngum undirstöðumenntun, sem þess þurfa með.

Svar: Ýmislegt er gert af hálfu stjórnvalda í sambandi við grunnmenntun í fangelsinu á Litla-Hrauni og reynt að miða kennslu við þarfir hvers einstaklings. Alltaf er eitthvað um sérkennslu í skólanum, þar sem hluti fanganna hefur ekki lokið grunnskólaprófi. Þeir fangar fá gjarnan sérkennslu óski þeir eftir námi. Til bóta væri að auka enn frekar kennslu á grunnskólastigi, en til þess þyrfti meira fjármagn. Byrja þarf á því að kanna þörfina fyrir slíkt og mun Fangelsismálastofnun beita sér fyrir því.

Eflaust væri gott að auka starfs- og iðnmenntakennslu á Litla-Hrauni, en vakin skal athygli á því að kennsla fer nú fram í grunndeild málmiðna. Einnig má nefna að fjórir fangar luku á vorönn 1998 verslunarprófi frá Viðskiptafræðibraut. Þá eru reglulega haldin þungavinnuvélanámskeið og siglinganámskeið er veita rétt til að stjórna bátum allt að 30 tonn. Þá læra menn að beita og fella net á Litla-Hrauni og Kvíabryggju.

Upplýsinga óskað

58. Hvort almennar reglur um heilsuvernd og öryggi gildi á vinnustöðum stofnunarinnar.

Svar: Vinnueftirlit ríkisins kemur reglulega til skoðunar á vinnustöðum og vélakosti stofnunarinnar og hafa ekki borist athugasemdir um ástandið.


60. Sá misskilningur hefur vaknað að fangar á 3A hafi það umfram aðra fanga að geta leigt sér myndbönd. Staðreyndin er hins vegar sú að sýnd eru myndbönd í lokuðu kerfi sem allir fangar hafa aðgang að og gildir einu hvort þeir eru vistaðir í húsi 3 eða 4. Venjulega eru sýndar 2 kvikmyndir á dag í þessu kerfi. Það sem fangar á 3. hæð í húsi 4 hafa hins vegar umfram aðra fanga er eð þeir geta fengið að hafa myndbandstæki á klefum sínum.

61. Þar kemur fram að fangar séu vistaðir í húsi 3 við komu. Þessu hefur verið breytt þannig að fangar sem nú hefja afplánun á Litla-Hrauni vistast fyrst í húsi 4.

Hegningarhúsið við Skólavörðustíg í Reykjavík

Athugasemdir

67. Lagt er til að íslensk stjórnvöld leitist áfram við að veita föngunum kost á að stunda fleiri athafnir.

Svar: Áfram verður leitast við að finna verkefni sem hentað geta húsnæðinu.


Ríkisfangelsið á Akureyri

Athugasemdir

69. Klefar lögreglunnar sem staðsettir eru í kjallara hússins, henta ekki til vistunar í lengri tíma en fáeina daga.

Svar: Klefar í kjallara lögreglustöðvarinnar á Akureyri eru nánast eingöngu notaðir fyrir þá sem settir eru inn vegna ölvunar og óspekta og aðeins þar til þeir verða allsgáðir á ný. Kvenfangar eru ekki vistaðir þar nema í undantekningartilfellum. Á undanförnum árum hefur það komið fyrir í tvö eða þrjú skipti að konur sitji af sér vararefsingu í tvo – fjóra daga og hafa þær þá verið vistaðar í þessum klefum. Klefarnir hafa í þeim tilfellum verið gerðir vistlegri með því að setja borð, stóla, lampa o.fl. þangað inn. Ef enginn annar er vistaður í þessum klefum er þeim sem þar dvelja, leyft að vera frammi á ganginum að degi til. Þá hefur einnig komið fyrir tilvik þar sem kona var sett í gæsluvarðhald í einn eða tvo daga og gildir þá það sama hvað varðar vist á ganginum.

70. Að fangaklefar lögreglunnar í lögreglustöðinni á Akureyri henta ekki til fangavistunar lengur en í fáeina daga.

Svar: Þegar karlmenn eru í gæsluvarðhaldi eru þeir yfirleitt vistaðir utan gangs fyrir afplánunarfanga. Oftast þarf að halda slíkum mönnum í einangrun frá öðrum, en ef dómari telur þess ekki þörf, þá fá þeir leyfi til að vera innan um aðra fanga, og njóta þá sömu fríðinda og þeir. Nefndin leggur áherslu á að fangaklefar lögreglunnar henti ekki til fangavistar lengur en í örfáa daga og er Fangelsismálastofnun sammála því.

71. Íslenskum stjórnvöldum er bent á að reyna að sjá föngum í ríkisfangelsinu á Akureyri fyrir auknum verkefnum, einkum þeim sem eru vistaðir þar um langan tíma.

Svar: Til margra ára hefur verið reynt að fá einhvern léttan iðnað eða annars konar vinnu til að vinna að í fangelsinu en ekki tekist.

Upplýsinga óskað

69. Daglegt starfsskipulag fyrir kvenfanga á stofnuninni.

Svar: Eins og greint var í 69. lið hér að ofan heyrir til hreinna undantekninga að konur séu vistaðar í fangaklefum í kjallara lögreglustöðvarinnar á Akureyri, og þá jafnan 1 eða 2 daga og að hámarki fjóra daga. Af þeim sökum er ekki talin þörf á sérstöku starfsskipulagi fyrir kvenfanga.

72. Athugasemdur íslenskra stjórnvalda um möguleika á því að fela stjórn stofnunarinnar manni sem ekki væri beint undir Fangelsismálastofnun settur.

Svar: Sýslumaðurinn á Akureyri er forstöðumaður fangelsisins á Akureyri. Í umboði hans annast aðstoðaryfirlögregluþjónn daglega umsjón með rekstri fangelsisins.

Meðaltalsfjöldi fanga í Fangelsinu á Akureyri á árinu 1997 var 4,8 fangar. Algengur afplánunartími þar er 1 – 3 mánuðir og reynt er að velja fremur rólega fanga til dvalar þar. Agavandamál eru því afar sjaldgæf. Þegar slík mál koma upp ráðfærir aðstoðaryfirlögregluþjónn sig við Fangelsismálastofnun sem veitir leiðbeiningar og eftir atvikum gefur fyrirmæli um viðbrögð. Í því sambandi er rétt að taka fram að ákvarðanir um agaviðurlög eru kæranlegar til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins en ekki til stofnunarinnar.

Óhagkvæmt væri að skipa sérstakan forstöðumann fyrir fangelsið þar sem því fer fjarri að um fullt starf sé að ræða. Þar sem ekki hafa skapast vandamál vegna núverandi fyrirkomulags hefur Fangelsismálastofnun ekki séð ástæðu til að breyta því að sinni.

Almennt

Tilmæli

73. Ráðstafanir verði gerðar til að byggja upp endurhæfingar- og meðferðaráætlanir fyrir fanga.

Svar: Ekki er alveg ljóst á hvaða forsendum nefndin byggir þessar ályktanir sínar sem fram koma í þessum lið. Rétt þykir að skýra í stuttu máli möguleika íslenskra fanga til að fá meðferð við vandamálum sínum. Þá verður gerð grein fyrir niðurstöðum rannsókna á endurkomuhlutfalli íslenskra fanga.

1. Sálfræðimeðferð í íslenskum fangelsum

Hjá Fangelsismálastofnun hefur starfað einn sáfræðingur frá upphafi, en til þess að mæta aukinni eftirspurn var sálfræðingur ráðinn í fullt starf við Fangelsið á Litla-Hrauni árið 1996. Fjölda viðtala sem sálfræðingar áttu í Fangelsinu á Litla-Hrauni á árunum 1994 til 1997 er eftirfarandi:

1994 1995 1996 1997
Fjöldi viðtala sálfræðinga á Litla-Hrauni 178 162 300 302

Meginmarkmið með sálfærðiþjónustu við fanga er að hjálpa þeim að takast á við refsivistina og að aðlagast samfélaginu eftir að henni lýkur. Skjólstæðingar hafa einnig í auknum mæli leitað eftir áframhaldandi aðstoð að lokinni refsivist. Hér er ýmist um að ræða regluleg viðtöl eða óregluleg stuðningsviðtöl eftir samkomulagi. Góð reynsla hefur verið af núverandi fyrirkomulagi og skynsamleg að taka mið af aðstæðum og hefðum í fangelsiskerfinu þegar gagnrýnt er eða lagðar eru fram tillögur til úrbóta.
Varðandi sálfræðimeðferð ber að hafa eftirfarandi í huga:
(1) Einstaklingsmeðferð, eins og boðið hefur verið upp á síðastliðin tíu ár virðist hafa gefið nokkuð góðan árangur og draga má í efa að jafnhátt hlutfall fanga í nokkru landi fái einstaklingsmeðferð hjá sálfræðingi eins og tíðkast hér á landi. Sem dæmi má nefna að 22. mars 1999 var 20% fanga í einstaklingsmeðferð hjá sálfræðingi. Ekki eru til tölulegar upplýsingar um fjölda fanga á hverju ári sem njóta þjónustu sálfræðinga.
(2) Meðferðarúrræði það sem boðið hefur verið upp á í fangelsum hér á landi, þ.e. hugræn atferlismeðferð, þekkist víða í Evrópu og Norður-Ameríku, bæði í einstaklings- og hópmeðferð afbrotamanna og hefur verið talin bera mikinn árangur.
(3) Aðstæður til hópmeðferðar í svo fámennum hópi fanga sem hér á landi geta gert slíka meðferð mun erfiðari í framkvæmd og jafnvel ekki eftirsóknarverða fyrir fanga. Mjög stór hluti íslenskra fanga þekkist innbyrðis, þ.e. þeir þekktust áður en þeir komu í fangelsi og/eða þeir eiga von á að þekkjast og umgangast eftir að þeir losna úr fangelsi. Af þessum sökum eru t.d. AA fundir oft á tíðum mjög fámennir í fangelsinu, fangarnir þekkjast um of og þeir treysta ekki samföngum sínum, enda þekkist það mjög vel í fangasamfélögum að sýna ekki "veiku hliðar" sínar í hópnum.

2. Tveir kostir í endurhæfingu í lok refsivistar
A. Áfengis- og fíkniefnameðferð

Frá árinu 1990 hefur Fangelsismálastofnun gefið refsiföngum kost á að ljúka síðustu vikum afplánunar í áfengis- og fíkniefnameðferð hjá SÁÁ. Hér er um að ræða hefðbundna sex vikna meðferð sem fram fer á sjúkrastöð og síðan á viðeigandi stofnun.

Flestir þeirra sem sækja um að ljúka refsivist sinni í meðferð gera það að eigin frumkvæði, en oft vegna ábendingar eða fyrir milligöngu annara, s.s. aðstandenda eða starfsfólks fangelsiskerfisins. Umsóknum er komið til Fangelsismálastofnunar sem veitir leyfið í samráði við yfirlækni SÁÁ, m.a. á grundvelli frammistöðu fangans í refsivistinni svo og öðrum vísbendingum um að hugur fylgir máli. Í ársskýrslum stofnunarinnar hefur verið gefið yfirlit um fjölda þeirra sem gefinn hefur verið kostur á áfengis- og fíkniefnameðferð á hverju ári frá 1990, sjá töflu, en 22. mars 1999 voru þrír fangar að ljúka refsivist í áfengis- og fíkniefnameðferð. Í skýrslu nefndarinnar er sagt að hér sé aðeins um takmarkaðan fjölda fanga að ræða ("limited number of prisoners"), en eins og sjá má á töflu var hlutfall fanga sem lauk afplánun í áfengis- og fíkniefnameðferð hjá SÁÁ 13% af heildarfjölda þeirra sem lauk afplánun á árinu 1997. Á það skal ennfremur bent hér að afar sjaldgæft er að fanga sé neitað um að fara í meðferð nema hann eigi ólokið málum hjá lögreglu og endalok refsivistartímans því óráðin.

Flestir þeirra fanga sem fá að ljúka afplánun í meðferð eru að ljúka nokkuð langri refsivist og þá oftast með skilorðsbundinni reynslulausn. Með þessu tækifæri er hugmyndin að undirbúa þá betur undir lífið að lokinni refsivist. Áður en meðferð hefst er gerður skriflegur samningur á milli Fangelsismálastofnunar og fangans um skilyrði sem fanginn gengst undir. Ef skilyrðin eru rofin eða ef fanginn vill hætta í meðferð er hann færður til vistunar í fangelsi á ný þar sem hann lýkur afplánun.

B. Áfangaheimili Verndar í Reykjavík

Frá árinu 1995 hefur allt að fimmtungur fanga lokið afplánun sinni á áfangaheimili Verndar í Reykjavík. Þeir stunda þaðan vinnu eða skóla, taka þátt í AA dagskrá og hafa mjög frjálsan aðgang að fjölskyldu sinni og heimili, því útivistarreglur eru mjög rúmar. Þá njóta þeir sérstakrar félagslegrar aðstoðar Verndar og Félagsþjónustu Reykjavíkurborgar. Með því gefst þeim aukinn kostur á endurhæfingu með því að aðlagast samfélaginu á nýjan leik, oft eftir langa refsivist í fangelsi.

Til áréttingar má geta þess að þann 22. mars 1999 var u.þ.b. þriðjungur íslenskra fanga í einhvers konar meðferð (hjá sálfræðingi eða á meðferðarstofnun) eða í vistun á áfangaheimili í Reykjavík.

Taflan sýnir fjölda fanga sem fengu tækifæri til þess að ljúka refsivist í áfengis- og fíkniefnameðferð eða áfangaheimili Verndar á árunum 1994 til 1997.

1994 1995 1996 1997
Áfengis- og fíkniefnameðferð 14 25 41 30
Hlutfall af heildarfjölda fanga 7% 9% 13% 13%

Vistun á áfangaheimili Verndar * 31 60 43
Hlutfall af heildarfjölda fanga * 11% 19% 19%

* Vistun á áfangaheimili Verndar hófst á árinu 1995

3. Endurkomuhlutfall í íslensk fangelsi

Nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar á endurkomu afbrotamanna í íslensk fangelsi. Ómar Kristmundsson (1985) gerði rannsókn á endurkomu í íslensk fangelsi og komst að því að rúmlega helmingur (55%) fanga sem lauk refsivist árin 1979 og 1980 höfðu afplánað fangelsisrefsingu áður og 59% höfðu komið aftur í fangelsi árið 1984. Nýlega gerður þeir Jón Friðrik Sigurðsson og Gísli H. Guðjónsson (1997) rannsókn á afbrotasögu tæplega 500 íslenskra fanga sem afplánuðu refsivist á árunum 1991 til 1995. Í þeirri rannsókn kom m.a. fram að 40% fanganna höfðu áður afplánað refsivist í fangelsi.

Rannsóknir Ómars Kristmundssonar (1985) og þeirra Jóns Friðriks Sigurðssonar og Gísla H. Guðjónssonar (1997) gefa til kynna að endurkomum í íslensk fangelsi hafi fækkað töluvert á tímabilinu frá 1980 til 1995. Ef hins vegar er tekinn þverskurður í íslenskum fangelsum um þessar mundir kemur í ljós að um 50% fanga hefur afplánað refsidóm áður. Án þess að farið sé út í samanburð við endurkomuhlutfall annars staðar í Evrópu er ljóst að hér er ekki um mjög hátt endurkomuhlutfall að ræða.

5. Læknisþjónusta.

Tilmæli

78. Að ríkisfangelsinu að Litla-Hrauni verði séð fyrir læknisþjónustu hjúkrunarfræðings í fullu starfi, sem einkum er ætlað að bæta úr hinu óæskilega ástandi sem nú ríkir, þegar starfsmenn fangelsisins hafa aðgang að lyfjum og dreifa þeim til fanganna.

Svar: Dreifing lyfja fer núna fram eftir tilmælum landlæknisembættisins, þar sem segir að fangaverðir megi deila út lyfjum sem þegar hafa verið skömmtuð af lyfsala, og eru þau geymd hjá fangavörðum í lokaðri hirslu. Skömmtun þessi á sér stað hjá lyfsalanum samkvæmt fyrirmælum læknis, lyfjagjöf er öll á ábyrgð læknis sem og dreifing lyfjanna. Engin ákvörðun liggur hjá fangavörðum um lyfjagjafir og hafa þeir engan rétt til að breyta fyrirmælum. Verður ekki séð að ástæða sé til að hjúkrunarfræðingur sjái um allar reglubundnar lyfjagjafir; til þess þyrfti nánast fjögur stöðugildi sem væri úr tengslum við aðra mönnun.

78. Gert verði það sem unnt er til að manna stöðu sálfræðings við ríkisfangelsið á Litla-Hrauni eins fljótt og auðið er.

Svar: Samkvæmt lögum nr. 123/1997, sbr. samning Fangelsismálastofnunar og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, hefur stofnunin áfram umsjón með ákveðnum þáttum sem skilgreindir eru sem heilbrigðisþjónusta. Þetta á við um sálfræðiþjónustu og tannlæknaþjónustu. Í ágúst sl. var ráðinn sálfræðingur við Fangelsið Litla-Hraun og starfar hann þar 4 daga vikunnar. Auk þess sinnir sá sálfræðingur sem starfar hjá Fangelsismálastofnun einstaka föngum á Litla-Hrauni. Hugsanlega má endurskoða hvort ekki fari betur á því að öll skilgreind heilbrigðisþjónusta sé undir yfirstjórn og á ábyrgð heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins.

79. Að hjúkrunarfræðingur komi í ríkisfangelsið á Akureyri eigi sjaldnar en vikulega.

Svar: Þeim tilmælum mun verða beint til heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri að hjúkrunarfræðingur komi í ríkisfangelsið á Akureyri eigi sjaldnar en vikulega.

84. Allt verði gert sem nauðsynlegt er til að tryggja að aðgangur að lækni samræmist í framkvæmd þeim sjónarmiðum sem sett voru fram í 106. lið skýrslu um heimsóknina 1993.

Svar: Heilsugæslulæknir hefur nú reglulega stofutíma á Litla-Hrauni fjóra daga vikunnar, hjúkrunarfræðingur þrjá daga vikunnar og geta því fangar beðið um viðtal við starfsmanna heilsugæslunnar alla virka daga. Þar fyrir utan er einnig læknir ætíð á vakt sem hægt er að hafa samband við ef þurfa þykir.

84. Sú tilhögun verði lögð af að fangar geti lagt fram skriflegar beiðnir um lyfjaávísanir án læknisvitjunar. Lyfseðlar verði aðseins veittir af aflokinni raunverulegri læknisskoðun.

Svar: Hér má skilja svo að fangaverðir stjórni eða hafi eftirlit/áhrif á aðgengi fanga að læknum.
Fangaverðir hafa um það skýr fyrirmæli að hafa samband við lækni þegar fangi biður um slíkt. Fangaverðir skrá aðeins beiðnir fanga um viðtöl við lækna og er það síðan alfarið lækna að ákveða hvaða fanga þeir taka í viðtöl. Einnig er staðhæft að fangar geti sent skriflegar beiðnir um lyf án þess að vitja læknis. Ekki er ljóst hvað átt er við með þessu, því Fangelsismálastofnun er ekki kunnugt um að þessi háttur sé á hafður. Samkvæmt upplýsingum lækna eiga engar lyfjaávísanir sér nú stað án læknisvitjunar.

86. Leitast verði við að tryggja nánari samvinnu milli fagfólks hinna ýmsu heilbrigðisstétta sem veitir þjónustu föngum á Litla-Hrauni.

Svar: Frá síðastliðnum áramótum hafa verið haldnir samráðsfundir vikulega þar sem boðaðir hafa verið heilsugæslulæknar, hjúkrunarfræðingur, sálfræðinugr og geðlæknir sá er heimsækir fangelsið reglulega. Þessi nána samvinna er því þegar hafin.

88. Að núverandi tilhögun varðandi aðgang fanga að geðlæknisfræðilegri aðstoð verði tekin til endurskoðunar án tafar. Sérstaklega ber að gera ráðstafanir til að geðlæknir heimsæki ríkisfangelsið að Litla-Hrauni reglulega.

Svar: Þess ber að geta að viðvera allra lækna er nú regluleg. Geðlæknir hefur brugðist við hverri ósk heilsugæslulæknis um aðstoð en kemur auk þess í sérstakar heimsóknir. Því hefur verið beint til geðlæknisins að þær heimsóknir verði sem reglulegastar, en þær eru að jafnaði á fimmtudögum.

92. Gerðar verði ráðstafanir án tafar til að koma upp fullmótaðri meðferð til baráttu gegn áfengis- og lyfjafíkn.

Svar: Allir heilbrigðisstarfsmenn við fangelsið, heilsugæslulæknir, geðlæknir, hjúkrunarfræðingar og sálfræðingar hafa verið sér mjög meðvitaðir um þennan vanda. Hafa þau í viðtölum og margvíslegri annarri meðferð markvisst reynt að vinna gegn áfengis- og lyfjafíkn fanganna í samstarfi við fangaverði. Einnig er boðið upp á AA-fundi. Sömuleiðis er hægt að taka úr síðasta hluta afplánunarinnar í meðferð hjá meðferðarstofnun SÁÁ. Þessi þungi vandi er sífellt í skoðun og endurmati í samráði við stjórnendur fangelsisins.

Í fangelsi þar sem fangar eiga kost á heimsóknum frá ástvinum og vinum, verður alltaf um að ræða eitthvert smygl á fíkniefnum inn í fangelsið. Sama gildir um fanga sem fá skammtímaleyfi úr refsivistinni. Fangelsisyfirvöld eru hins vegar þeirrar skoðunar að þessi vandi hafi minnkað frá árinu 1995, en þá var Fangelsinu á Litla-Hrauni deildarskipt að fullu. Í raun má segja að reynt sé að halda húsi 4 vímulausu og eru fangar sem gerast þar sekir um neyslu ávana- og fíkniefna fluttir á aðrar deildir. Þá er rétt að geta þess að á árinu 1997 var umtalsverðum fjármunum varið til eftirlits, meðferðar og annara fyrirbyggjandi aðgerða gegn fíkniefnaneyslu á Litla-Hrauni.


Athugasemdir

77. Æskilegt er að dreifa viðverutíma læknis á ríkisfangelsinu að Litla-Hrauni jafnar á vikuna alla.

Svar: Á það skal bent að viðvera læknis er nú regluleg á mánudögum, þriðjudögum, fimmtudögum og föstudögum auk vaktþjónustu allan sólarhringinn alla daga vikunnar. Verður því að telja að við þessu hafi verið brugðist.

77. Læknir í ríkisfangelsinu að Litla-Hrauni þarf að starfa með virkari hætti í þágu bætts heilsufars, einkum að því er varðar lyfjamisnotkun og að fylgjast með heilsufarsástandi.

Svar: Við komu fara allir fangar í viðtal hjá heilsugæslulækni og heilbrigðisskoðun, þar sem m.a. eru teknar ýmsar blóðprufur. Þá er rætt við fanga almennt um heilsufar og lagðar fram tillögur um breytt líferni. Reglulegir viðtalstímar eru auglýstir og er vistmönnum í sjálfsvald sett hvort þeir vilja nýta sér þá þjónustu. Aðgengi verður að teljast gott að heilbrigðisstarfsfólki, auk þess sem strangar lyfjareglur kalla á heimsóknir til heilbrigðisstarfsmanna. Gefur það tækifæri til frekari umræðna og skoðunar sem og heilsueflingar.

81. Íslenskum stjórnvöldum er bent á að finna aðstöðu til skoðunar og viðtala í ríkisfangelsinu á Akureyri sem hentar betur.

Svar: Fangar sem kom til afplánunar í Fangelsið á Akureyri hafa yfirleitt verið skoðaðir af lækni í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg. Ef læknir er kallaður í fangelsið ákveður hann sjálfur hvort fanginn er skoðaður í fangelsinu eða fluttur á Heilsugæslustöðina. Ábendingin er til frekari skoðunar hjá stjórnendum fangelsisins og heilsugæslunni á Akureyri. Hins vegar má geta þess að heilbrigðisþjónusta við fanga á Akureyri virðist ganga mjög vel.

Upplýsinga óskað

76. Ítarlegar upplýsingar um hvernig hið nýja kerfi, sem á rætur að rekja til breytingarinnar á lögum um fangavist, verkar í raun – sérstaklega afrit af þeim þjónustusamningum sem gerðir hafa verið fyrir hvert fangelsi á Íslandi.

Svar: Unnið hefur verið að frágangi þjónustusamninga vegna heilbrigðisþjónustu í fangelsum, samningum er lokið vegna fangelsisins á Akureyri og eru þeir í lokafrágangi vegna heilbrigðisþjónustu á Litla-Hrauni, Kvíabryggju, á Skólavörðustíg 9 og við kvennafangelsið í Kópavogi. Afrit af þessum þjónustusamningum verða send þegar þeim er að fullu lokið.

85. Hvort hinir nýju þjónustusamningar sem gerðir hafa verið við íslensk fangelsi tryggi öllum föngum viðhaldsmeðferð á tönnum.

Svar: Misskilnings gætir varðandi hver ber kostnað af heilbrigðisþjónustu við fanga annarri en tannlæknaþjónustu sem er háð sérstökum reglum settum af Fangelsismálastofnun, þegar sagt er að "Kostnaður af annars konar meðferð var að fullu greiddur af Fangelsismálastofnun." Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið greiðir fyrir almenna heilsugæsluþjónustu og sérfræðiþjónustu. Því verður ekki sérstaklega getið um tannviðgerðir í þjónustusamningunum.

Rétt þykir að benda á að hið opinbera ber almennt ekki kostnað vegna tannlækninga og er það aðalskýringin á því að þessi liður heilbrigðisþjónustunnar heyrir áfram undir Fangelsismálastofnun. Samkvæmt reglum Fangelsismálastofnunar um tannlæknaþjónustu á fangi rétt á tannlæknaþjónustu og þá hvort sem um viðhaldsviðgerðir er að ræða eða bráðatilvik. Meginreglan er hins vegar sú, eins og gagnvart hinum almenna borgara, að hann greiði kostnað vegna þeirrar þjónustu sjálfur. Ef fangi hins vegar af fjárhagsástæðum getur ekki greitt kostnaðinn sjálfur greiðir fangelsið fyrir bráðaþjónustu. Heildarkostnaður hvers fanga má nema að hámarki 30.000 kr. á ári. Af þeirri fjárhæð greiðir viðkomandi fangelsi 75% eða 22.500 krónur. Læknir metur hvort um bráðatilvik er að ræða. Þar næst fer fanginn í tannmat hjá tannlækni.

Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga um fangelsi og fangavist skulu fangar njóta sambærilegrar heilbrigðisþjónustu og almennt gildir. Stofnunin telur núverandi fyrirkomulag varðandi tannlækningar viðunandi til að vega upp mismun á fjárhagsstöðu fanga og almennra borgara. Stofnunin telur að ef fangelsin greiddu kostnað vegna allra tannviðgerða fanga myndu fangar njóta mun betri heilbrigðisþjónustu að þessu leyti en hinn almenni borgari.

89. Efni þess samkomulags í einstökum atriðum, sem nýlega var gert þess efnis að geðdeildir í Reykjavík og á Akureyri myndu nú taka við föngum sem þörfnuðust innlagnar til geðlæknisfræðilegrar meðferðar, og upplýsingar um hvernig það verður framkvæmt.

Svar: Samkomulag þetta var gert við yfirlækna viðkomandi deilda, þar sem rík áhersla hefur verið lögð á það að fangar njóti sömu geðlæknisfræðilegrar meðferðar og aðrir borgarar. Ekki hefur verið gerður sérstakur skriflegur samningur um þetta.




6. Önnur atriði sem varða umboð CPT

Tilmæli

94. Að íslensk stjórnvöld leitist við að bæta uppbyggileg samskipti starfsmanna og fanga í ríkisfangelsinu að Litla-Hrauni, sérstaklega í húsi 3 á stofnuninni.

Svar: Samskipti fanga og starfsmanna eru yfirleitt á vinsamlegum nótum og viðmót fangavarða gagnvart föngum hefur ekki verið talið gefa ástæður til aðfinnslna. Hins vegar er ljóst að sumir fangar koma fram með þeim hætti að óhjákvæmilegt getur verið að umgangast þá með formlegri hætti en almennt gerist. Slíkt ástand er yfirleitt tímabundið og má geta þess að þegar nefndin var hér í heimsókn , var ástand mála í húsi 3 ótryggt og spenna var í fangahónum og þurfti m.a. að flytja einn fanga af gangi 4 með valdi á öryggisdeild í húsi 1.

96. Haldið verði áfram þeirri viðleitni að ráða bót á ofbeldi meðal fanga í ríkisfangelsinu að Litla-Hrauni, og að við það verði höfð hliðsjón af athugasemdum þeim, sem fram eru settar í 96. lið.

Svar: Erfitt getur reynst að koma alveg í veg fyrir að fangar beiti samfanga ofbeldi. Hins vegar er það reynt svo sem kostur er. Bent er á í skýrslu nefndarinnar að ein leið til að hindra ofbeldi milli fanga sé að tryggja aðskilnað milli fanga sem ekki eiga samleið. Í litlu fangelsi eins og Litla-Hrauni getur verið erfiðleikum bundið að tryggja slíkan aðskilnað, sérstaklega þegar fangelsið er fullsetið. Þegar vitað er um óvild milli fanga er reynt að haga vistun þeirra með slíkum hætti að líkurnar á því að þeir nái saman séu lágmarkaðar. Það er m.a. gert með því að flytja þá til innan fangelsisins eða jafnvel í önnur fangelsi.

Þá segir nefndin að u.þ.b. 60 fangar hafi á tímabilinu febrúar til apríl 1998 óskað eftir því sjálfir að vera í einangrun. Þessar tölur eru með öllu óskiljanlegar. Hið rétta er að á öllu árinu 1998 voru 8 fangar í slíkri einangrun af ýmsum ástæðum. Ekkert er óeðlilegt við það að fangar biðji í undantekingartilvikum um slíka vistun. Hún stendur í skamman tíma og mjög vel er fylgst með þeim á meðan.


97. Þegar séu gerðar ráðstafanir til að halda ungum föngum aðskildum frá fullorðnum föngum og veita þeim kost á að njóta fullskipulagðrar áætlunar um kennslu, tómstundastarf og aðra gagnlega iðju, þar sem líkamleg hreyting og áreynsla ætti að vera snar þáttur. Einnig ber að velja með kostgæfni þá starfsmenn sem starfa eiga með ungum föngum (en þeir verða einkum að hafa til að bera hæfileika til að leiðbeina ungu fólki og vera því til hvatningar), og veita þeim viðeigandi þjálfun.

Svar: Með lögðræðislögum er tóku gildi 1. janúar 1998 var sjálfræðisaldur hækkaður úr 16 í 18 ár. Fangelsismálastofnun hefur um nokkurra ára skeið unnið að því að leita leiða til að vista fanga undir sjálfræðisaldri á meðferðarheimili frekar en í fangelsi.

Með samkomulagi milli Fangelsismálastofnunar og Barnaverndarstofu í lok október sl. var því lýst yfir að stefnt væri að því að fangar yngri en 18 ára verði að jafnaði vistaðir á meðferðarheimili, sem rekin eru samkvæmt ákvæðum laga um vernd barna og ungmenna, þar sem fram fari sérhæfð meðferð, enda sé slíkt talið fanganum fyrir bestu. Meðfylgjandi er eintak af reglunum á íslensku.

Samkomulagið, sem er í upphafi til reynslu í 1 ár, er komið til fullra framkvæmda og þegar hafa nokkrir ungir fangar verið vistaðir á meðferðarheimilum á vegum barnaverndaryfirvalda. Á slíkum meðferðarheimilum er jafnan unnt að veita betri kennslu, iðju og umönnun við hæfi ungemenna, en unnt er í fangelsum.

Þá hafa fangelsisyfirvöld leitast við sl. áratug að vista unga fanga í uppbyggilegu umhverfi Fangelsisins að Kvíabryggju, en þar er um að ræða hálfopið 14 manna fangelsi á Snæfellsnesi, þar sem vímuefnlaus ungmenni eru í forgangshópi, en blandast síðan ágætlega saman við vel vinnufæra fanga á öllum aldri.

Að öðru leyti er nokkrum vandkvæðum bundið að hafa unga fanga sér í deild. Fjöldi ungra fanga, þ.e. fanga á aldrinum 16 til 20 ára er um og undir 10% af heildarfjölda fanga er ljúka afplánun ár hvert, sjá töflu. Því eru frekar fáir svo ungir einstaklingar að afplána fangelsisrefsingu hverju sinni og afar óheppilegt er að hópa þeim saman á eina deild, oft óstýrilátustu og erfiðustu föngunum, og sömuleiðis eru vandkvæði á að veita þeim sérstaka endurhæfingaraðstöðu eða meðferð. Á slíkri deild þyrfti að leggja ofuráherslu á að gæta öryggis, halda aga og koma í veg fyrir fíkniefnasmygl inn. Varðandi þátttöku ungra fanga í skólagöngu og tómstundastarfi gilda sömu reglur og um aðra fanga.

Tafla yfir fjölda fanga í aldurshópnum frá 16 til 25 ára ásamt hlutfalli af heildarfjölda þeirra dómþola sem luku afplánun á árunum 1994 til 1997:

Aldur 1994 1995 1996 1997
Fjöldi (%) Fjöldi (%) Fjöldi (%) Fjöldi (%)
16-17 ára 2 (1,0) 7 (2,6) 4 (1,3) 1 (0,5)
18-20 ára 22 (10,5) 22 (8,0) 29 (9,1) 17 (5,5)
21-25 ára 55 (26,3) 73 (26,6) 72 (22,7) 81 (26,0)

Samtals 79 (37,8) 102 (37,2) 108 (33,1) 99 (32,0)

98. Forðast ber eins og unnt er að vista karlmenn í ríkisfangelsinu í Kópavogi.

Svar: Vísað er til umsagnar um lið 26.

Upplýsinga óskað

100. Hvort fyrirhugaðar breytingar á lögum um meðferð opinberra mála, sem veita gæsluvarðhaldsföngum rétt á að skiptast á orðsendingum í trúnaði við ákveðin yfirvöld á sviði stjórnsýslu og dómgæslu og aðra aðila, hafi nú verið samþykktar:

Svar: Með lögum nr. 136/1996 var sú breyting gerð á 2. mgr. 108. gr. laga um meðferð opinberra mála að gæsluvarðhaldsfangar mega, þrátt fyrir d-lið 1. mgr., taka við og senda bréf til dómstóla, dómsmálaráðherra, umboðsmanns Alþingis og verjanda síns án þess að efni þess sé athugað. Dómsmálaráðherra er heimilt að setja í reglugerð ákvæði um að gæsluvarðhaldsfanar megi senda öðrum opinberum aðilum eða einstaklingum bréf án þess að efni þeirra sé athugað.

101. Athugasemdir íslenskra stjórnvalda um þann möguleika að koma á kerfi þar sem hvert fangelsi er heimsótt reglulega af óháðum aðila, sem heimildir hefur til að kanna húsnæði fangelsa og hlýða á kvartanir fanga um meðferð þeirra þar.

Svar: Á undanförnum árum hefur umboðsmaður Alþingis kallað embættismenn úr dóms- og kirkjumálaráðuneytinu í nokkur skipti til fundar við sig og embættismenn sína, þegar hann hefur talið ástæðu til að ræða einstök málefni fanga eða fangelsa eða málefni þeirra í víðara samhengi. Í þeim viðræðum hefur umboðsmaður Alþingis viðrað þá skoðun sína að hann telji að sú tilhögun gæti gefist vel, ef sett yrði á fót nefnd eða annað óháð eftirlitsvald, sem færi í fangelsin til þess að kanna kvartanir fanga vegna meðferðar mála sinna í fangelsiskerfinu, skoða aðbúnað þeirra, o.fl., þar sem því væru takmörk sett hversu mikið hans stofnun kæmist yfir. Jafnframt hefur hann talið eðlilegt að þessi óháði aðili gæti ennfremur sinnt verkefnum við að leysa úr kærumálum, þannig að kæruleiðin þurfi ekki ávallt að liggja upp í dóms- og kirkjumálaráðuenytið.

Ráðuneytið er að undirbúa tillögur, sem lagðar verða fyrir nýjan ráðherra, varðandi hugsanlegar breytingar í framangreinda átt.

Stofnanir á sviði geðlækninga

1. Inngangsathugasemdir

Upplýsinga óskað

106. Hvernig tryggt sé að kröfur um sjálfstæði og óhlutdrægni séu uppfylltar fyrstu 23 daga nauðungarvistunar á geðsjúkrahúsi, og hvernig tryggt sé að krafan um að gætt sé hlutlægra læknisfræðilegra sjónarmiða sé uppfyllt meðan á öllum nauðungarvistunartímanum stendur.

Svar: Á Íslandi styðst þessi aðgerð við lögræðislög en ekki lög um geðsjúka eins og gert er í mörgum löndum. Almenn regla á geðdeildum á Íslandi er að kalla til sérfræðing í geðlækningum á öðru sjúkrahúsi komi til framlengingar nauðungarvistunar eftir 48 tíma vistun, sé þess nokkur kostur. Síðan er sjúklingi og ættingjum hans kynntur réttur sjúklings til áfrýjunar til héraðsdóms. Í langflestum tilvikum liggur einnig fyrir vottorð viðkomandi heimilislæknis um þörf vistunar. Fjórði læknirinn sem komið hefur að málum af þessum toga er trúnaðarlæknir dómsmálaráðuneytisins, sem hefur metið málsgögn eftir atvikum. Aðkoma þessara óháðu lækna hefur verið sú trygging sem sjúklingurinn nýtur.

2. Endurheimsókn í Stofnun fyrir ósakhæfa afbrotamenn að Sogni

Tilmæli

109. Að ráðstafanir verði nú þegar gerðar til að tryggja hjúkrun á stofnuninni á öllum tímum, einnig að næturlagi og um helgar.

Svar: Vaktir eða gæsluvaktir ná yfir allan sólarhringinn og alla daga ársins. Viðvera hjúkrunarfræðings er ekki stöðug en með stuttum fyrirvara er hægt að ná í hann. Endanleg útfærsla þessara þátta er í höndum fagstjórnenda stofnunarinnar.

109. Að þegar verði gerðar ráðstafanir til að tryggja nægilegt starfslið við lækningar að Sogni.

Svar: Mat á þörf fyrir starfslið í öllum heilbrigðisstofnunum er í sífelldri endurskoðun og endurmati og byggja á upplýsingum og óskum yfirmanna og stjórnenda á hverjum stað. Reynt hefur verið að mæta óskum frá Sogni á þenna sama hátt. Endanleg afgreiðsla fjárveitinga er í höndum Alþingis.

113. Að bæklingur með innanhúsreglum og upplýsingum um réttindi og skyldur sjúklinga sé fenginn hverjum sjúklingi við komu á stofnunina.

Svar: Tilmælum hér að lútandi hefur verið beint til stjórnenda á Sogni.

Athugasemdir

112. Æskilegt er að formlegt, klíniskt mat á framförum sjúklinga sé betur tilgreint á viðkomandi skrám.

Svar: Þessu hefur verið beint til yfirmanna á Sogni.

113. Sérstök tilhögun þarf að vera fyrir hendi sem gerir sjúklingum kleift að leggja fram formlegar kærur við skýrlega skilgreinda stofnun.

Svar: Ljóst er af lögum um heilbrigðisþjónustu og lögum um réttindi sjúklinga að sjúklingar geta ávallt kært formlega til embættis landlæknis. Á þetta jafnt við um fanga sem aðra sjúklinga.

Upplýsinga óskað

114. Athugasemdir íslenskra yfirvalda um möguleika á að flytja stofnunina á stað, ekki eins fjarri höfuðstaðnum.

Svar: Staðsetning Sogns á sér ýmsar skýringar og var talin heppilegasta lausn á þessum þætti þegar vistun ósakhæfra var flutt til landsins. Staðsetning einstakra heilbrigðisstofnana er í sífelldri skoðun og er endanlega ákvörðuð af Alþingi.

3. Geðdeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri

Tilmæli

119. Að upplýsingabæklingur sé fenginn hverjum sjúklingi við komu.

Svar: Þessum tilmælum hefur verið beint til stjórnenda stofnunarinnar.

Athugasemdir

119. Sérstök tilhögun þarf að vera fyrir hendi sem gerir sjúklingum kleift að leggja fram formlegar kærur við skýrlega skilgreinda stofnun.

Svar: Sjá svar við lið 113.


D. Stuðlar, greiningar- og meðferðarstofnun fyrir unglinga

I. Aðbúnaður.

Tilmæli

125. Gerðar séu viðeigandi ráðstafanir til at bæta úr skorti á öryggi í minna neyðardeildarherberginu.

Athugasemdir

124. Loftræsting var alls ekki fullnægjandi í hvorgu neyðardeildarherberginu.

Upplýsinga óskað

125. Nánari upplýsingar um fyrirætlanir um að taka neyðardeildarherbergin úr notkun og breyta þeim í venjuleg herbergi fyrir unglinga í meðferð á heimilinu.

Svar: Af hálfu félagsmálaráðuneytisins var talið rétt að svara þessum þremur atriðum saman. Barnaverndarstofa hefur ítrekað lagt áherslu á þörfina fyrir nýja bráðamóttöku fyrir unglinga. Skv. ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá 23. febrúar 1999 var skipuð nefnd fulltrúa félags-, heilbrigðis- og dómsmálaráðuneyta til þess að fjalla um neyðarástand í meðferðarmálum unglinga, leggja mat á stöðu þeirra mála og finna leiðir til úrbóta. Nefndin gerði að tillögu að sett yrði á laggirnar bráðamóttaka fyrir unglinga vegna hegðunar- og geðraskana, s.s. vímuefnaneyslu og afbrotahneigðar. Tæki hún við því hlutverki sem neyðarvistun Stuðla hefur nú, jafnframt því að sinna hluta af bráðavistunum á Barna- og unglingageðdeild Landspítala Íslands. Lögð var áhersla á að bráðamóttakan yrði rekin sameiginlega á ábyrgð heilbrigðis- og félagsmálayfirvalda. Skýrsla nefndarinnar hefur ekki verið afgreidd en það er von Barnaverndarstofu að tillögum nefndarinnar verði hrint í framkvæmd sem fyrst.

Ef af þessu verður munu neyðardeildarherbergi Stuðla verða tekin úr notkun fyrir unglinga í meðferð og breytt í samræmi við það. Annars munu verða gerðar viðeigandi ráðstafanir til þess að bæta úr skorti á öryggi og loftræstingu og er verið að vinna að undirbúningi endurbóta.

Starfsmönnum er óheimilt að beita nokkurs konar líkamlegum höftum, og skv. 2. mgr. 53. gr. barnaverndarlaga nr. 58/1992 má ekki beita líkamlegum eða andlegum refsingum á heimilum eða stofnunum fyrir börn. Þetta kemur ekki í veg fyrir að starfsmenn meðferðarheimila geti gripið til nauðsynlegra aðgerða í skjóli neyðarréttar til þess að forða því að börn stefni lífi og heilsu sinni eða annarra í hættu. Barnaverndarstofa setti þann 1. febrúar 1999 reglur um réttindi barna og beitingu þvingunar á meðferðarheimilum undir yfirstjórn Barnaverndarstofu, sem leystu af hólmi eldri reglur um sama efni frá 1997. Eintak af reglunum fylgir til upplýsinga, en þær eru á íslensku eingöngu.

2. Starfslið

Athugasemdir

134. Lagt er til að íslensk stjórnvöld íhugi aðferðir til að ráða bót á þeim vanda sem felst í örum starfsmannaskiptum.

Svar: Árið 1995 átti sér stað mikil uppstokkun á meðferðarkerfi ríkisins sem leiddi af sér talsverðar mannabreytingar meðan nýtt skipulag var að festa sig í sessi. Mikið hefur dregið úr þessu og hefur t.d. einungis einn starfsmaður hætt störfum á undanförnum 7 mánuðum á Stuðlum. Telur Barnaverndarstofa að þetta megi þakka betra skipulagi, breyttri launastefnu og auknum stuðningi við starfsfólk og að þetta sé ekki teljandi vandamál í dag.

3. Læknisfræðileg umönnun

Tilmæli

137. Ráðstafanir séu gerðar til að tryggja að allir nýkomnir unglingar sæti læknisskoðun áður en þeir eru vistaðir eða meðan við þeim er tekið til vistunar.

Svar: Stjórnvöld eru sammála um að þörf sé á almennri læknisskoðun fyrir alla unglinga sem vista skal á Stuðlum og munu vinna að nánari útfærslu á þessu í samráði við barnaverndarnefndir sem vistunaraðila og heilbrigðisyfirvöld.

138. Séð verði til þess að hjúkrunarfræðingur komi daglega á greiningar- og meðferðarheimilið Stuðla. Hjúkrunarfræðingurinn gæti einkum tekið við beiðnum unglinganna um læknisvitjun, séð um töku og dreifingu ávísaðra lyfja og haft umsjón með lyfjabirgðum heimilisins.

Svar: Af hálfu Barnaverndarstofu er ekki talið að þesi verkefni séu svo viðamikil að hagkvæmt sé að fá hjúkrunarfræðing til að sinna þeim. Til þess að skýra framkvæmd þessara mála á Stuðlum í dag, þá geta unglingar komið á framfæri óskum um læknisþjónustu í gegnum ráðgjafa sinn, sálfræðing eða lækni meðferðarstöðvarinnar. Læknir meðferðarstöðvarinnar hefur yfirumsjón með lyfjabirgðum heimilisins og undir hans umsjón sjá tveir tilteknir starfsmenn um dreifingu ávísaðra lyfja, dagskrárstjóri og hópstjóri. Raðað er í sérstök lyfjabox fyrir hvern og einn ungling sem þarf á lyfjum að halda fyrir viku í senn og sérstaklega er kvittað fyrir hverja lyfjagjöf. Forstöðumaður fer reglulega yfir þessar kvittanir.

4. Kvartanir og eftirlit

Upplýsinga óskað

142. Hvort unglingar, sem komið er fyrir á heimilinu, geti átt í bréfaviðskiptum við barnaverndarnefnd í trúnaði, og hvort gert hafi verið ráð fyrir reglulegri skoðun unglingaheimila af hálfu óháðs aðila með vald til að taka við kvörtunum ungmennanna og athuga húsnæðið.

Svar: Í ofangreindum reglum um réttindi barna og beitingu þvingunar á meðferðarheimilum er lagt bann við því að opna póst eða hlusta á símtöl unglinga til eða frá opinberum aðilum, lögmanni eða talsmanni unglingsins. Skv. ákvæðum barnaverndarlaga eru meðferðarheimili fyrir unglinga rekin undir yfirumsjón og eftirliti Barnaverndarstofu. Starfsmenn Barnaverndarstofu fara í reglulegar heimsóknir á öll meðferðarheimili fyrir unglinga, þar með talið Stuðla. Í reglunum um réttindi barna og beitingu þvingunar segir ennfremur að ef talið er að um brot á reglunum sé að ræða geti unglingar, forsjáraðilar þeirra, barnaverndarnefndir og starfsmenn heimilanna komið kvörtunum á framfæri við Barnaverndarstofu. Skylt er að aðstoða unglingana við að koma á framfæri kvörtunum og hefur Barnaverndarstofa látið útbúa sérstök eyðublöð í þessu skyni.

Ábending

Í lið 126 er fjallað um meðferðar- og starfstilhögun á Stuðlum sem rétt er að leiðrétta. Sú breyting hefur orðið á Stuðlum að við komu á heimilið fara unglingar beint inn á meðferðardeild og inn á sín herbergi. Unglingar á Stuðlum eru ekki læstir inni á herbergjum sínum.

Í lið 136 er fjallað um geðlæknisfræðilega og sálfræðilega þjónustu og þar segir að barnasálfræðingur í 25% stöðu hafi viðtöl á heimilinu á hverjum virkum degi og sé einnig tiltækur í neyðartilvikum, og að sálfræðingarnir fjórir skipuleggi meðferðarfundi fyrir einstaklinga og hópa daglega. Hið rétta er að geðlæknir er í 20% starfi við Stuðla. Hann er kallaður til að sinna unglingum bæði á meðferðardeild og neyðardeild þegar nauðsyn ber til en hann hefur ekki dagleg viðtöl við unglingana. Þrír sálfræðingar sinna þeim unglingum sem eru til meðferðar á Stuðlum. Þeir sinna sálfræðilegu mati, einstaklings- og fjölskylduviðtölum og starfa náið með þeim ráðgjafa sem er tengill barnsins á deildinni. Meðferðarfundir eru fastir liðir á dagskrá og eru skipulagðir af dagskrárstjóra, hópstjórum og ráðgjöfum á meðferðardeild.



Viðauki I.

1. Reglur um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna. (13. liður).

2. Samkomulag milli Fangelsismálastofnunar ríkisins og Barnaverndarstofu um vistun fanga yngri en 18 ára.
(97. liður).

3. Reglur um réttindi barna og beitingu þvingunar á meðferðarheimilum undir yfirstjórn Barnaverndarstofu.
(125. liður).

4. Drög að reglum um aðgerðir starfsmanna fangelsa vegna sjálfsvígshættu fanga o.fl. (47. liður).

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta