Hoppa yfir valmynd
18. október 1999 Forsætisráðuneytið

Fjarvinnsla á landsbyggðinni

Frá blaðamannafundi þar sem skýrslan var kynnt
Frá blaðamannafundi þar sem skýrslan var kynnt

Fréttatilkynning 18. okt. 1999 varðandi skýrslu um fjarvinnslu á landsbyggðinni

Iðntæknistofnun hefur unnið skýrslu um notkun upplýsingatækni við fjarvinnslu og gagnavinnslu á landsbyggðinni, og nefnist hún Nýsköpun í gagna- og fjarvinnslu á landsbyggðinni. Skýrslan er unnin fyrir Byggðastofnun og forsætisráðuneytið auk Iðntæknistofnunar og er henni ætlað að kortleggja þau tækifæri, sem nýst geta til atvinnuuppbyggingar á landsbyggðinni.

Í skýrslunni er verkefnahugmyndum skipt eftir stofnkostnaði og því hve mikillar sérhæfni þau krefjast. Kynntar eru samtals 211 hugmyndir, sem skiptast þannig:

  • Þjónustu-/aðlögunarverkefni án verulegs kostnaðarauka, 28 verkefnahugmyndir. Þar má nefna símsvörun og úthringiþjónustu.
  • Yfirfærsluverkefni án verulegs kostnaðarauka, 18 verkefnahugmyndir. Þar má nefna viðhald heimasíðna og hvers kyns þýðingarvinnu.
  • Verkefni á sviði þjónustu sem krefjast nokkurs fjármagns, 22 verkefnahugmyndir. Þar má nefna rekstur og viðhald gagnagrunna og upplýsingaveitna.
  • Yfirfærsluverkefni sem krefjast nokkurs fjármagns, 46 verkefnahugmyndir. Þar má nefna fjarkennslu og skráningarvinnu.
  • Þróunarverkefni sem krefjast nokkurs fjármagns, 35 verkefnahugmyndir. Þar má nefna skráningu gagna á heilbrigðissviði og gerð gagnvirks upplýsingakerfis svo sem við íbúðarkaup.
  • Yfirfærsluverkefni á sérfræðistigi, 1 verkefnahugmynd, "Benchmarking" (bestu viðmið). Þróunarverkefni á sérfræðistigi, 61 verkefnahugmynd. Þar má nefna gerð sérhæfðra gagnagrunna, upplýsingaveitna og hugbúnaðar.

Skýrslan er jákvæð fyrir landsbyggðina, og sýnir að hinar öru framfarir, sem nú eiga sér stað á sviði upplýsinga- og fjarskiptatækni, opna ný tækifæri og gefa ýmsa möguleika á atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni. Ýmis fyrirtæki sjá sér nú þegar hag í að nýta þessa möguleika, m.a. hefur fyrirtækið Íslensk miðlun sett upp starfsstöðvar á Raufarhöfn, Stöðvarfirði, Þingeyri og Suðureyri, og fleiri eru áformaðar. Fjarlægðir og erfiðar samgöngur standa því ekki lengur í vegi fyrir að hægt sé að byggja upp fjölbreytt atvinnulíf með nýjustu tækni á landsbyggðinni. Skýrslan fjallar þó eingöngu um þá möguleika, sem fyrir hendi eru, ásamt tillögum um næstu skref.

Til þess að koma frekari hreyfingu á þessi mál er lagt til að:

  • Í samræmi við 6. lið þingsályktunar um stefnu í byggðamálum 1999-2001, sem fjallar um fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni, m.a. með notkun upplýsingatækni, verði gert sérstakt átak til að hvetja stofnanir til að nýta sér þennan möguleika.
  • Greindir verði möguleikar byggðarlaga á landsbyggðinni á að taka við verkefnum í áðurnefndum flokkum fjarvinnsluverkefna.
  • Beint verði til atvinnuþróunarfélaga og Iðntæknistofnunar að aðstoða einka- og opinber fyrirtæki við flutning verkefna til landsbyggðarinnar og hagkvæmniathuganir á þeim.

Lagt er til að þessi skýrsla fái ítarlega kynningu og verði dreift til sveitarfélaga, fyrirtækja, stofnana og ráðuneyta.

Skýrsluna má nálgast á heimasíðu Iðntæknistofnunar: www.iti.is og hér:

 

18. október 1999,
Forsætisráðuneyti, Byggðastofnun og Iðntæknistofnun

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta