Hoppa yfir valmynd
6. janúar 2000 Matvælaráðuneytið

Samningur sjávarútvegsráðuneytisins og Rf. um árangursstjórnun - janúar 2000

Samningur milli sjávarútvegsráðuneytisins
og Rannsóknarstofununar fiskiðnaðarins

1. gr.
Tilgangur.
Með samningi þessum er kveðið á um gagnkvæmar skyldur sjávarútvegsráðuneytis og Rannsóknarstofununar fiskiðnaðarins (Rf) við útfærslu á lögbundnu hlutverki stofnunarinnar ásamt því að leggja grunn að áætlunagerð og mati á árangri af starfsemi hennar. Með áætlunum, sem samkomulagið kveður á um, er mótuð stefna til næstu ára. Sýna skal fram á árangur af starfseminni í árskýrslu með samanburð við upphafleg markmið.

Samningurinn breytir í engu ábyrgð ráðherra gagnvart Alþingi á starfsemi stofnunarinnar eða þeim stjórnsýsluskyldum sem ráðherra og stofnun hafa lögum samkvæmt.
2. gr.
Hlutverk Rf.
Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins er sjálfstæð stofnun, sem heyrir undir sjávarútvegsráðuneytið. Rf starfar eftir lögum nr. 64 frá 1965. Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins er rannsókna- og þjónustustofnun fyrir sjávarútveginn, annan matvælaiðnað og tengdar greinar.

Hlutverk Rf er að stunda rannsóknir, framkvæma mælingar og prófanir, veita ráðgjöf, miðla upplýsingum og annast fræðslu á þekkingar- og þjónustusviðum sínum. Rf annast miðlun þekkingar með markvissri úrvinnslu og dreifingu upplýsinga sem aflað er með eigin rannsóknum og tengslum við erlenda gagnabanka.

Rf er ráðgefandi hvað varðar möguleika á öflun, nýtingu og úrvinnslu sjávarfangs og annarra hráefna til matvælaframleiðslu. Með starfsemi sinni leitast Rf við að tryggja að ímynd íslenskra afurða sé tengd gæðum, öryggi og heilnæmi lífríkisins, tæknilegri úrvinnslu og góðri nýtingu hráefna.

Rf leggur með starfsemi sinni grunn að auknum útflutningstekjum afurða úr sjávarfangi, betri samkeppnishæfni og arðsemi innlendra sjávarútvegs- og annarra matvælafyrirtækja og stuðlar að sjálfbærri nýtingu auðlinda.

Rf hefur víðtækt samstarf við háskóla, stofnanir og fyrirtæki á öllum starfssviðum sínum.
3. gr.
Markmið og stefnumótandi áherslur
Meginmarkmið Rf er að vera í forystu hvað varðar rannsóknir, mælingar, ráðgjöf og fræðslu á sviði sjávarútvegs og annars matvælaiðnaðar. Rf taki virkan þátt í uppbyggingu þessara sviða í landinu.

Markaðsmál
Rf leggur áherslu á sjálfstæði stofnunarinnar í rannsóknum, mælingum, prófunum og upplýsingamiðlun er tengjast sjávarútvegi, vinnslu sjávarfangs og annarra matvæla.

Rf efli stöðu sína sem öflug miðstöð hagnýtrar þekkingar fyrir sjávarútveg og annan matvælaiðnað og þjóni breiðum hópi viðskiptavina. Tengsl við viðskiptavini stofnunarinnar og aðra hagsmunaaðila í greininni verði efld á markvissan hátt.

Rf leggur áherslu á að vera þekkt sem leiðandi afl á sviði rannsókna í fiskiðnaði hérlendis sem erlendis og á sviði matvælarannsókna innanlands. Rf stuðli þannig að uppbyggingu öflugs sjávarútvegs og annarrar matvælaframleiðslu í landinu.

Rf taki virkan þátt í uppbyggingu fræðslustarfs á alþjóðlegum vettvangi á sviði sjávarútvegs og stuðli þannig að forystu og frumkvæði Íslendinga í því að mæta þörfum iðnaðarins um menntun á sviði umhverfis, veiða, hráefna, vinnslu, rekstrar, gæða og markaðs fyrir fisk og önnur matvæli.

Umhverfis-, gæða- og öryggismál
Rf vill vera leiðandi í umhverfismálum og sýna gott fordæmi með skilvirkri umhverfisstjórnun og rannsóknum á sviði umhverfismála. Rf haldi uppi samhæfðri og markvissri öryggis-, gæða- og umhverfisstjórnun.

Verkkaupum verði ávallt tryggður fullur trúnaður þannig að upplýsingar um niðurstöður og fyrirætlanir verkkaupa berist ekki til óviðkomandi aðila.

Rf leggur áherslu á að tryggja áreiðanleika niðurstaðna og skilvirkni í vinnubrögðum. Rf mun vinna áfram að faggildingu útibúa og fleiri mælinga á þjónustusviði.

Fjármál
Lögð er áhersla á að Rf búi við traustan fjárhag sem byggist á framlögum ríkissjóðs á fjárlögum og verkefnastyrkjum úr rannsóknarsjóðum á Íslandi, Norðurlöndum og ESB. Einnig afli stofnunin tekna með sölu á þjónustumælingum, ráðgjöf, námskeiðum og upplýsingaefni.

Starfssvið, sem að hluta eða öllu leyti eru í samkeppni við rekstur á almennum markaði, skulu fjárhags- og stjórnunarlega aðskilin frá öðrum sviðum.

Rf geri markvissar starfs- og fjárhagsáætlanir til þriggja ára í senn, þar sem arðsemis- og markaðssjónarmið komi sterkt fram.

Stjórnun og starfsmannamál
Lögð er áhersla á að Rf sé eftirsóttur vinnustaður fyrir starfsfólk með fjölbreytta menntun, með góðri vinnuaðstöðu, aðgangi að upplýsingum og möguleikum á símenntun sem stuðlar að jákvæðri starfsþróun innan Rf.

Símenntun starfsmanna tengist starfsþróun, starfsmarkmiðum stofnunarinnar og verkefnaöflun.

Lögð er áhersla á markvissa starfsmannastjórnun sem taki mið af þörfum stofnunarinnar og að Rf geti boðið starfsfólki sínu samkeppnishæf starfskjör.

Framkvæmdamál
Rf leggur metnað sinn í að stöðugt sé unnið að þróun aðferðafræði í verkefnastjórnun, uppsetningu og skipulagi tilrauna og tölfræðilegri úrvinnslu gagna. Haft verði að leiðarljósi hagkvæmni og skilvirkni í öllum framkvæmdum, skipulagi og rekstri stofnunarinnar.

Lögð er áhersla á að sérfræðingar stofnunarinnar fylgist vel með nýjum áherslum á sínum sviðum og tengi þau viðhorfum og þörfum markaðarins.

Upplýsingamál
Komið verði á markvissri söfnun, vörslu, úrvinnslu og dreifingu á efni og upplýsingum sem snúa að starfsemi stofnunarinnar.

Rf leggur áherslu á að hafi yfir að ráða öflugan og viðurkenndan gagnabanka sem viðskiptamenn og fræðimenn geti sótt nauðsynlegar upplýsingar í flestu því sem snýr að sjávarútvegi og matvælavinnslu.

Stofnunin nýti sér nýjustu upplýsingatækni á hverjum tíma.
4. gr.
Gagnkvæmar skyldur
Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins gerir áætlanir , bæði til lengri og skemmri tíma. Rf skal gera áætlun um rekstur sinn og viðfangsefni fyrir eitt ár í senn. Þessi áætlun skal fela í sér útfærslu á langtímaáætlun stofnunarinnar og vera í samræmi við fjárveitingu samkvæmt fjárlögum. Einnig skal koma fram við hvaða mælikvarða er miðað við mat á árangri á árinu. Rf skal einnig gera áætlun árlega fyrir næstu þrjú ár. Í langtímaáætluninni á að koma fram hvernig stofnunin hyggst haga rekstri sínum til að sinna viðfangsefnum og ná meginmarkmiðum sínum. Þar skal koma fram áætlaður kostnaður við einstök viðfangsefni, áfangamarkmið fyrir næstu ár og forgangsröðun þeirra og mikilvægustu mælikvarðar til að meta árangur. Sjávarútvegsráðuneytið á að staðfesta áætlun Rf um markmið, forgangsröðun á þeim og mælikvarða.

Rf skal skila stuttri og einfaldri ársskýrslu til sjávarútvegsráðuneytisins þar sem greint er frá starfseminni á síðasta ári og hvernig stofnuninni gekk að ná þeim markmiðum sem hún setti sér og ráðuneytið staðfesti. Forstjóri skal skila til ráðuneytisins ársáætlun og ársskýrslu fyrir 15. febrúar ár hvert. Langtímaáætlun á að endurskoða árlega og leggja fram á sama tíma ef forsendur hennar hafa breyst. Ráðuneytið stefni að því að taka afstöðu til innlagðra skýrslna innan eins mánaðar. Nýja langtímaáætlun á að leggja fram að þremur árum liðnum, þegar samningurinn verður endurnýjaður.

5. gr.
Gildistími.
Samningurinn tekur gildi 1. janúar 2000 og gildir til ársloka 2003. Hvor aðili um sig getur óskað eftir endurskoðun samningsins innan þess tíma. Vinna við endurnýjun samnings skal hafin a.m.k. þremur mánuðum áður en samningstíma lýkur.


Reykjavík, 5. janúar 2000

F.h. sjávarútvegsráðuneytisins F.h. Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins


        Árni M. Mathiesen Hjörleifur Einarsson
        sjávarútvegsráðherra forstjóri






Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta