Samningur milli sjávarútvegsráðuneytisins og Hafrannsóknastofnunarinnar - júní 2000
Samningur milli sjávarútvegsráðuneytisins og Hafrannsóknastofnunarinnar
1. gr.
Tilgangur samnings
Samningurinn breytir í engu ábyrgð ráðherra gagnvart Alþingi á starfsemi stofnunarinnar eða þeim stjórnsýsluskyldum sem ráðherra og stofnun hafa lögum samkvæmt.
2. gr.
Hlutverk Hafrannsóknastofnunarinnar
Hafrannsóknastofnunin er alhliða haf- og fiskirannsóknastofnun til þjónustu fyrir stjórnvöld, sjávarútveg og almenning. Hlutverk Hafrannsóknastofnunarinnar
Hafrannsóknastofnunin er sjálfstæð stofnun, sem heyrir undir sjávarútvegsráðuneytið. Hún starfar eftir lögum nr. 72 frá 30. maí 1984 um breytingar á lögum nr. 64 frá 31. maí 1965 um rannsóknir í þágu atvinnuveganna og lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands nr. 79 frá 26. maí 1997. Samkvæmt lögum um stjórnun fiskveiða (nr. 38/1990) er stofnuninni jafnframt gert að leggja árlega fyrir sjávarútvegsráðherra tillögur um heildarafla af helstu nytjastofnum.
Á grundvelli ofangreindra laga er hlutverk Hafrannsóknastofnunarinnar einkum þrenns konar:
· að afla sem víðtækastrar vitneskju um eðlis-/efnaeiginleika hafsins og sjávarbotnsins við landið og vitneskju um lífríkið í kringum landið,
· að stuðla að hámarksafrakstri Íslandsmiða, leita leiða til að auka fjölbreytni sjávarfangs og meta áhrif umhverfisþátta, veiða og annarra nytja á auðlindirnar,
· að koma niðurstöðum rannsókna og öðrum upplýsingum á framfæri og að veita stjórnvöldum og hagsmunaaðilum ráðleggingar og þjónustu varðandi skynsamlega nýtingu auðlinda sjávar.
Hafrannsóknastofnunin hefur víðtækt samstarf við háskóla, stofnanir og fyrirtæki á öllum starfssviðum sínum.
3. gr.
Markmið og stefnumótandi áherslur
Almenn atriði
Hafrannsóknastofnunin leggur áherslu á að vera áfram leiðandi á sviði haf- og fiskirannsókna og stuðla þannig að uppbyggingu öflugs sjávarútvegs í landinu.
Hafrannsóknastofnunin efli stöðu sína sem miðstöð þekkingar um vistkerfi íslenska hafsvæðisins og sjálfbæra nýtingu auðlinda sjávar. Stofnunin beiti ávallt bestu fáanlegum rannsóknaaðferðum, nýti þekkingu og reynslu í atvinnugreininni og ástundi skilvirkni í vinnubrögðum.
Hafrannsóknastofnunin leggur áherslu á sjálfstæði stofnunarinnar í rannsóknum, mælingum og upplýsingamiðlun.
Hafrannsóknastofnunin taki virkan þátt í miðlun upplýsinga á sviði umhverfis og auðlinda sjávar og tryggi lifandi tengsl við stjórnvöld, hagsmunaaðila og allan almenning.
Markmið rannsókna
Í lögum um Hafrannsóknastofnunina eru eftirfarandi markmið rannsóknanna skilgreind:
1. Að afla alhliða þekkingar um hafið og lífríki þess, einkum til að meta hvernig hagkvæmt og skynsamlegt er að nýta auðlindir þess.
2. Að afla þekkingar um eðlis- og efnafræðilega eiginleika sjávar umhverfis Ísland með tilliti til áhrifa á lífríkið.
3. Að afla þekkingar um lögun, gerð og jarðfræðilega eiginleika landgrunnsins, einkum með tilliti til fiskveiða.
4. Að rannsaka lífsskilyrði og lifnaðarhætti sjávargróðurs, dýrasvifs og botndýra, einkum vistfræðileg tengsl hinna ýmsu samfélaga og samhengi þeirra við nytjastofna.
5. Að treysta undirstöður vísindalegrar ráðgjafar um nýtingu hefðbundinna nytjastofna er stefni að hámarksafrakstri Íslandsmiða.
6. Að gera tilraunir með og þróa veiðarfæri og veiðibúnað í þeim tilgangi að bæta hagkvæmni sóknar og koma í veg fyrir skaðleg áhrif á lífríki sjávar.
7. Að stunda rannsóknir á eldi sjávarlífvera.
8. Að stunda rannsóknir sem miða að aukinni fjölbreytni í öflun sjávarfangs.
9. Að veita stjórnvöldum, sjávarútvegi og öðrum aðilum ráðgjöf og þjónustu varðandi nýtingu á auðlindum Íslandsmiða.
10. Að koma á framfæri upplýsingum til stjórnvalda, hagsmunaaðila í sjávarútvegi og almennings um niðurstöður rannsóknastarfseminnar.
Fjármál og framkvæmd
Lögð verði áhersla á að Hafrannsóknastofnunin búi við traustan fjárhag sem byggist á framlögum ríkissjóðs á fjárlögum og verkefnastyrkjum úr innlendum og erlendum rannsóknasjóðum. Einnig afli stofnunin tekna með sölu á þjónustu og ráðgjöf.
Hafrannsóknastofnunin geri markvissar starfs- og fjárhagsáætlanir til fimm ára í senn og tryggi hagkvæmni í framkvæmd þeirra.
Hafrannsóknastofnunin þrói skipulag og framkvæmd rannsókna á verkefnagrunni og stefni að markvissu árangursmati.
Stjórnun og starfsmenn
Lögð verði áhersla á að Hafrannsóknastofnunin sé eftirsóttur vinnustaður með góða aðstöðu fyrir vel menntað starfsfólk á starfssviðum stofnunarinnar. Huga ber að möguleikum starfsmanna á símenntun sem stuðli að jákvæðri starfsþróun innan stofnunarinnar. Lögð er áhersla á að starfsmenn stofnunarinnar fylgist vel með nýjungum á sínu sérsviði og tengi þær markmiðum starfseminnar.
Leggja ber áherslu á markvissa starfsmannastjórnun sem taki mið af þörfum stofnunarinnar. Stefnt skal að því á hverjum tíma að bjóða starfsfólki samkeppnishæf starfskjör.
Upplýsingar
Lögð verði áhersla á söfnun, vörslu, úrvinnslu og dreifingu á efni og upplýsingum sem snúa að starfsemi stofnunarinnar.
Hafrannsóknastofnunin leggi áherslu á að þróa aðgengilegan gagnabanka þar sem nálgast megi nauðsynlegar upplýsingar í flestu því sem snýr að vistkerfi Íslandsmiða og ábyrgri nýtingu auðlinda sjávar.
4. gr.
Gagnkvæmar skyldur
Hafrannsóknastofnunin geri áætlanir, bæði til lengri og skemmri tíma. Í langtímaáætluninni skal koma fram hvernig stofnunin hyggst haga rekstri sínum til að sinna viðfangsefnum og ná meginmarkmiðum sínum. Þar skal koma fram áætlaður kostnaður við einstök viðfangsefni, áfangamarkmið fyrir næstu ár, forgangsröðun þeirra og mikilvægustu mælikvarðar til að meta árangur. Sjávarútvegsráðuneytið á að staðfesta áætlun Hafrannsóknastofnunarinnar um markmið, forgangsröðun á þeim og mælikvarða. Gagnkvæmar skyldur
Hafrannsóknastofnunin skal gera áætlun um rekstur sinn og viðfangsefni fyrir eitt ár í senn. Þessi áætlun skal taka mið af fimm ára langtímaáætluninni og vera í samræmi við fjárlög og önnur fjárframlög. Einnig skal koma fram við hvaða mælikvarða er miðað við mat á árangri á árinu. Fjármálastjórn Hafrannsóknastofnunarinnar á að vera í samræmi við Verklagsreglur fjármálaráðuneytis um framkvæmd fjárlaga, rekstur og stjórnun ríkisstofnana í A-hluta.
Hafrannsóknastofnunin skal skila ársskýrslu til sjávarútvegsráðuneytisins þar sem greint er frá starfseminni á síðasta ári og hvernig stofnuninni gekk að ná þeim markmiðum sem hún setti sér og ráðuneytið staðfesti. Forstjóri skal skila til ráðuneytisins ársáætlun og ársskýrslu fyrir 15. febrúar ár hvert. Breytist forsendur langtímaáætlunar ber að endurskoða hana og leggja fram á sama tíma og ársskýrslu. Ráðuneytið skal taka afstöðu til árskýrslu og áætlana innan eins mánaðar.
Hafrannsóknastofnunin hefur undanfarið starfað samkvæmt langtímaáætlun sem gerð var fyrir árin 1997-2001. Ný langtímaáætlun fyrir árin 2002-2006 verður lögð fyrir sjávarútvegsráðuneytið í byrjun árs 2002.
5. gr.
Gildistími
Samningur þessi tekur gildi 2. júní 2000 og gildir til ársloka 2005. Hvor aðili um sig getur óskað eftir endurskoðun samningsins innan þess tíma. Vinna við endurnýjun samnings skal hafin a.m.k. þremur mánuðum áður en samningstíma lýkur.Gildistími
Reykjavík, 2. júní 2000
Fyrir hönd sjávarútvegsráðuneytisins Fyrir hönd Hafrannsóknastofnunarinnar
Árni M. Mathiesen Jóhann Sigurjónsson
sjávarútvegsráðherra forstjóri