Hoppa yfir valmynd
5. október 2000 Matvælaráðuneytið

Helstu niðurstöður skýrslu um Noral-verkefnið -

Október 2000



Helstu niðurstöður skýrslu um áhrif virkjunar og álvers Noral-verkefnisins
á íslenskt efnahagslíf

Skýrsla um áhrif Noral-verkefnisins (Kárahnjúkavirkjunar og álvers í Reyðarfirði) á íslenskt efnahagslíf og samfélagsgerð var unnin af starfshópi sem skipaður var í júní sl. að frumkvæði iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Starfshópnum var ætlað að ljúka verki sínu fyrir fund íslenskra ráðherra og forstjóra Norsk Hydro í október 2000.

Í starfshópnum voru:

Páll Harðarson, Þjóðhagsstofnun, formaður
Magnús Harðarson, Þjóðhagsstofnun
Björn Rúnar Guðmundsson, fjármálaráðuneyti
Björn Gunnar Ólafsson, Seðlabanki Íslands
Sigfús Jónsson, Nýsir hf.

Starfshópurinn segir að Noral-verkefnið sé afar stórt í sniðum þegar litið sé til íslensks efnahagslífs og bendir m.a. í því sambandi á eftirfarandi þætti sem varða þjóðhagsleg áhrif á árunum 2002-2009:

Vinnuaflsþörf vegna framkvæmda við virkjun og álver, sem og við framleiðslu áls í Reyðarfirði, næmi að jafnaði 0,9% fólks á vinnumarkaði hér á landi en mest árið 2005, allt að 1,5% af vinnuafli í landinu, þ.e. um 2.300 störf (ársverk).
Fjárfestingar á byggingartíma yrðu að jafnaði 15-20% meiri en ef ekki kæmi til Noral-verkefnisins og allt að 40% meiri þegar umsvifin yrðu hvað mest í framkvæmdum eystra.

Áætlað er að samanlagðar fjárfestingar Landsvirkjunar og Reyðaráls verði allt að 30 milljarðar króna á ári á tímabilinu 2003-2008 og að um 40% fjárfestinganna verði af innlendum uppruna. Starfshópurinn gerir ráð fyrir að halli á viðskiptum Íslendinga við útlönd aukist og að hætta sé á aukinni verðbólgu til skamms tíma vegna áhrifa framkvæmdanna. Til lengri tíma litið muni útflutningur álversins hins vegar draga úr viðskiptahalla og auka þjóðartekjur.

Árin 2002-2009 myndi þjóðarframleiðsla vera að jafnaði um 2% hærri og landsframleiðsla um 2,5% hærri vegna Noral-verkefnisins en án þess að óbreyttu.
Aukin umsvif í atvinnulífinu gætu stuðlað af því að auka rekstrarafgang ríkissjóðs um sem svarar til allt að hálfu prósenti af landsframleiðslu.
Ø Áætlað er að Noral-verkefnið auki þjóðarframleiðslu varanlega um 0,4-1,3% og landsframleiðslu varanlega um 0,8-1,5%.
Halli á viðskiptum Íslendinga við útlönd gæti aukist á framkvæmdatímanum um 2,5% af landsframleiðslu vegna mikils innflutnings fjárfestingarvara.
Áætlað er að skuldir þjóðarbúsins yrðu 10-12% meiri í lok framkvæmdatímabilsins en ef ekki yrði ráðist í Noral-verkefnið.
Aukin eftirspurn á framkvæmdatíma gæti aukið verðbólgu um 1,5-2 prósentustig. Starfshópurinn telur að beinar mótvægisaðgerðir í ríkisfjármálum komi til álita gegn þensluáhrifum á framkvæmdatímanum.

Starfshópurinn nefnir margvísleg jákvæð áhrif álvers í Reyðarfirði á samfélagið á Mið-Austurlandi þegar til lengri tíma sé litið. Álver styrki landshlutann efnahagslega og auki fjölbreytni í atvinnulífi. Krafist verði fagþekkingar í flest ný störf sem tengist áliðnaðinum, þar af háskólamenntunar í 10-15% starfanna. Íbúum fjölgi á svæðinu, samgöngur batni, opinber stjórnsýsla og þjónusta styrkist og menningarlíf verði enn fjölbreyttara en áður.

Um 1.000 ný störf yrðu til á Mið-Austurlandi í álverinu og í tengslum við starfsemi þess.
Íbúum Mið-Austurlands gæti fjölgað um 2.000-2.500 manns vegna starfsemi álvers í Reyðarfirði. Þannig gætu íbúar þar verið orðnir 9.000-10.000 talsins árið 2010 í stað 7.000-7.500 án álvers eða annarrar uppbyggingar atvinnustarfsemi.
Starfshópurinn telur að mörg og stór verkefni blasi við sveitarstjórnum vegna röskunar sem óhjákvæmilega fylgi framkvæmdum af þessum toga. Aukin samkeppni um vinnuafl komi fyrst og fremst við starfsgreinar þar sem laun séu lág og vinna einhæf eða stopul.

Starfshópurinn fjallar sérstaklega um ýmsar nauðsynlegar ráðstafanir ef ákveðið verði að ráðast í framkvæmdir við virkjun og álver á Austurlandi. Þær varði íslensk stjórnvöld, sveitarstjórnir á Austurlandi og Reyðarál. Þar má nefna eftirfarandi:

Mælt er með því að menntamálaráðuneytið og Reyðarál aðstoði Verkmenntaskólann í Neskaupstað og Menntaskólann á Egilsstöðum við að mæta nýjum kröfum um menntun þar eystra vegna starfa í álverinu og í tengslum við það. Fræðslunet Austurlands er einnig nefnt í þessu sambandi.
Lagt er til að aðstandendur verkefnisins ræði við Heilbrigðisstofnun Austurlands um nauðsynlega heilbrigðis- og neyðarþjónustu sem þarf að vera til staðar þegar/ef framkvæmdir hefjast og álver tekur til starfa eystra.
Bent er á að verkefnið kalli á tilteknar samgöngubætur á Austurlandi. Jarðgöng séu fyrirhuguð á milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar og nauðsynlegt sé líka að lagfæra veginn á milli Stöðvarfjarðar og Breiðdalsvíkur. Þá þurfi að endurbæta veginn á milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar og leggja veg fram hjá þorpinu við Reyðarfjörð til að ekki þurfi að aka þar í gegn.
Nefnt er að þörf sé á að minnsta kosti 500 nýjum íbúðarhúsum á svæðinu á árinum 2003-2010 auk verksmiðjubygginga og tilheyrandi skrifstofuhúsnæðis.
Bent er á að Fjarðabyggð þurfi að undirbúa nýtt skipulag sem taki til álversins og allrar tengdrar starfsemi, sem og nýrrar íbúðarbyggðar og iðnaðarsvæða.
Margt fleira er nefnt, m.a. að sveitarstjórnir búi sig undir að mæta íbúafjölgun með tilheyrandi kröfum um skóla, dagvistir barna, ýmsa félagslega þjónustu og fleira.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta